29.12.2011 | 20:19
Áramót 2011/12
Mjög óvenjulegt ár er á enda, fyrir margar sakir, margt neikvætt en sem betur fer líka jákvætt. Það neikvæðasta á árinu, að mínu mati, er ákvörðun bæjarstjórnar að banna alfarið lundaveiðar, enda skaðaði sú ákvörðun töluvert orðspor Eyjamanna út á við, og þó svo að það hafi verið auðvelt að verja þá ákvörðun, þá kom lundinn enn einu sinni á óvart með því að mæta í miklu magni og sýndi það þar með og sannaði að ekki er hægt að fylgjast með breytingum í stofninum með því að fara eingöngu í holur. Jákvæðasta við lundann í sumar er, að mér var boðið norður í land og átti þar góða stund með félögum mínum.
Annað neikvætt eru ákvarðanir Ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Ég veit það að margir sem kosið hafa minn flokk s.l. áratug (FF) gerðu sér í alvöru vonir um það að með því að styðja við núverandi Ríkisstjórnarflokka, sem fyrir síðustu kosningar áttu samkv. skoðanakönnunum raunverulegan möguleika á að mynda meirihluta og þar með myndi opnast sá möguleiki á alvöru breytingum á kvótakerfinu, standa nú frammi fyrir miklum vonbrigðum og ekki bara vonbrigðum, heldur sorglega litlum breytingum á núverandi kvótakerfi sem því miður hafa nánast allar fyrst og fremst skaðað þá sem eru að reyna að starfa í núverandi kvótakerfi og án þess að taka raunverulega á nokkrum af hinum gríðarlegum göllum í kerfinu.
Jákvæðasta er kannski fyrst og fremst það að hafa komist nokkuð heill frá árinu og tilbúinn í næsta ár. Náði mér líka í haust í þá skemmtilegu nafnbót "afi" í fyrsta skipti og er bara nokkuð bjartsýnn á næsta ár og hver veit, kannski leggst hann bara í norðanátt eftir áramót og Landeyjahöfn opnast allt árið (smá djók).
Eins og um síðustu áramót, þá er ætlunin að vera með opið hús í Blíðukró eftir kl. 1 á nýársnótt. Boðið verður upp á þægilega stemmningu með kassagítar glamri og víníl þeyting ásamt því að við verðum með opinn mæk fyrir þá sem vilja fá að leggja orð í belg. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir, bara að mæta með góða skapið.
Óska öllum Eyjamönnum sem og öðrum gleðilegs nýs árs og takk fyrir það gamla .
22.12.2011 | 23:29
Guð hjálpi Íslandi
Það var reyndar ætlunin að skrifa litla jólasögu um þetta leitð, en ákvarðanir ríkisrjórnarinnar í sjávarútvegsmálum sem hafa birst okkur í vikunni gera það að verkum að ekkert annað kemst að. þar á meðal á ég við þá fáránlegu ákvörðun um að banna lúðuveiðar með öllu frá og með áramótum, en skylda menn sem veiða lúðu til þess að annað hvort að sleppa henni, eða landa henni sem Hafró afla. Við þetta er tvennt sem þarf að hafa í huga:
Í frysta lagi, þá var mér eitt sinn sagt af einum af sérfræðingum Hafró, að meiri hluti þess fiskjar sem sleppt er í hafið aftur drepist, þó hann líti út fyrir að vera sprækur þegar honum er sleppt. Þetta sást t.d. í tilraun sem gerð var hér í Eyjum fyrir nokkrum árum síðan þ.e.a.s. áframeldi á þorski, en meirihlutinn af því sem veitt var til áframeldis drapst í kvínni í Klettsvíkinni, þrátt fyrir að farið var mjög vel með þann fisk og hann að mestu leyti veiddur á grunnum sjó.
Hitt atriðið er, að augljóslega er engin ástæða fyrir sjómenn að vera að hafa fyrir því að koma með fisk að landi sem þeir fá ekkert fyrir og enn augljósara, að hættan á því að lúðan fari einfaldlega fram hjá vigt muni aukast gríðarlega. Ég veit reyndar, að Hafró hefur verið á þeirri skoðun lengi, að það ætti að stöðva eða minnka lúðuveiðar, en hingað til hef ég alltaf haldið að það væri með veiðarfærum sem væru sérstaklega ætluð til lúðuveiða. Þessi ákvörðun núna er hins vegar, að mínu mati, fáránlega heimskuleg.
Annað sem ég tók eftir í vikunni er að nú er búið að gera breytingu varðandi þennan svokallaða Hafró afla, en reglan hefur verið þannig að útgerðin hefur haft leyfi til þess að setja 5% af öllu því sem veiðist í Hafró pott, og hefur þetta mikið verið nýtt fyrir smáfisk og þega mönnum vantar einstakar tegundir. En til að útskýra þetta fyrir þá sem ekki skilja, þá þýðir þetta einfaldlega það, að bátur sem fiskar 100 tonn á ári hefur því getað sett 5 tonn í Hafró án þess að kvóti þess skerðist. Breytingin er hins vegar sú, að í staðinn fyrir 12 mánuði, þá núllast Hafró heimildin á 3 mánaða fresti sem gerir það eitt að verkum, að möguleiki útgerðarmanna á því að nýta á seinni hluta fiskveiðiársins uppsafnaða Hafró heimild minnkar verulega og líkur á auknu brottkasti og svindli aukast.
Ég hef nú ekki viljað gagnrýna þessa Ríkisstjórn sem nú situr, enda tók hún við mjög erfiðu búi eins og allir vita. Ég verð þó að viðurkenna það, að þessar ákvarðanir m.a. sem ég hér fjalla um, koma eins og þruma úr heiðskýru lofti og kannski það eina jákvæða sem hægt er að lesa út úr þessum ákvörðunum Ríkisstjóranrinnar er, að þarna sjáum við hvernig Evrópu sambandið virkar. Ákvarðanir birtast án nokkurs fyrirvara og án þess að málefni sem varða okkur öll, stór eða smá, séu borin undir okkur og ef þetta er hið nýja Ísland, þá segi ég bara: Guð hjálpi Íslandi.
Fyrir hönd Bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Vestmanneyjum sendi ég öllum jóla- og áramótakveðjur og þakka fyrir árið sem er að líða, sem betur fer styttist í kosningar.
10.11.2011 | 13:29
Nýtt kvótakerfi?
Ég hef oft fjallað um kvótakerfið enda starfað í eigin útgerð í 24 ár og er í dag það sem er oftast kallað leiguliði. Staðan í dag hér í Eyjum er þannig, að í vetur eru aðeins 2 bátar á línu og er ég sá yngri og eingin er að fara að byrja í útgerð, enda er það ekki hægt vegna núverandi kvótakerfis og hins fáránlega háa kvótaverðs, en hvernig er hægt að breyta því?
Þegar ég horfi til baka og rifja upp allt það sem ég hef upplifað, séð og heyrt um, um núverandi kvótakerfi, og þá staðreynd að allir sem eiga einhverjar aflaheimildir í dag miða arðsemis kröfu sína við það, að fá amk. gangverð á kvótaleigu í sinn hlut út úr hverju kílói en leiguverð á ýsu er um 230 kr. kg. og á þorski um 330 kr. kg. í aflamarkskerfi og því augljóst, að ekki er mikill afgangur eftir handa þeim sem veiða fiskinn. Afleiðingarnar eru því augljósar, smár fiskur kemur ekki að landi, ekki nema þá sem Hafró afli. Allskonar sögusagnir eru í gangi um stórfellt brottkast og svindl og brask og því miður, það eina sem hefur komið frá núverandi ríkisstjórn er krafa um að fá sneið af kökunni ásamt því, að stöðva frekari veðsetningu á fiskinum í sjónum, sem er reyndar það eina sem ég er sammála í hugmyndum ríkisstjórnarinnar. En hvernig getum við breytt þessu?
Ég hef nokkrum sinnum viðrað ýmsar hugmyndir til þess að leysa okkur úr þessu fáránlega kvótakerfi, en það sem ég ætla að fjalla um núna heitir SÓKNARMARKS DAGAKERFI. Stærsti gallinn við sóknarmarkskerfið sem var á sínum tíma var að þá kom of mikill afli í land á hávertíðinni, sem varð til þess að meðferðin á fiskinum var oft á tíðum ekki góð, enda erfitt þegar mikið berst að landi á stuttum tíma, en að mínu mati væri hægt að einhverju leiti að leysa það með því að skipta árinu í 4 hluta, 3 mánuði í senn og leyfa veiðar í 30 daga á hverju tímabili sem myndi að sjálfsögðu verða til þess að bátum myndi fjölga, en þá kannski dreifast betur eftir því hvar á landinu menn eru og það hvernig tíðarfarið væri. Með þessu værum við þá laus við þetta fáránlega brask kerfi sem við búum við í dag og sem mótvægisaðgerð til þess að fiskurinn fengi einhverstaðar frið, þá væri t.d. hægt að banna veiðar ca. 3 mílur frá landi allan hringinn og 3 mílur kringum eyjar og sker, nema kannski fyrir minnstu bátana. Að mínu mati ættu handfæraveiðar að vera frjálsar, ef frá er talið svokallað hrygningarstopp sem mætti kannski lengja upp í að vera einn mánuð á ári og að sjálfsögðu yrðu uppsjávarveiðar áfram fyrir utan slíkt kerfi og einnig yrði að útfæra sérstaklega veiðar á tegundum eins og grásleppu, humar, rækju o. fl. Þannig, og aðeins þannig, væri hægt að gera alla jafna, stöðva veðsetningu á fiskinum í sjónum, enda augljóslega ekki hægt að veðsetja það sem menn fá ekki úthlutað. Vissulega væri að einhverju leyti ósanngjarnt að aðilar sem væru búnir að selja sig út úr kerfinu ættu sömu möguleika og þeir sem væru búnir að kaupa sig inn í kerfið, með tilheyrandi skuldsetningu, en því væri þá hægt að mæta með því að leyfa þeim síðarnefndu að fá fleiri veiðidaga. Amk. held ég að það sé ekki góð framtíðarsýn að treysta á það að bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar og önnur sjávarþorp á landinu þurfi að leggja allt sitt traust á erfingja í framtíðinni, enda hafa mörg bæjarfélög nú þegar farið illi út úr því.
Fiskveiðar og útgerð eru lífæð okkar Íslendinga í dag, það þarf að breyta þessu óréttláta fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur svo sannarlega ekki skilað okkur því sem lagt var af stað með í upphafi og því verður að breyta því, en það er ekki sama hvernig.
12.10.2011 | 16:28
Landeyjahöfn - klúður eða tækifæri?
Ég hef ekki skrifað um Landeyjahöfn síðan 25. apríl s.l. enda kannski óþarfi að vera alltaf að japla á sömu hlutunum, en sú grein stendur einfaldlega enn fyrir sínu.
Margt er búið að gerast í sumar sem vakið hefur athygli, en ég ætla fyrst og fremst að fjalla um það sem er að gerast í dag. Nú er ljóst að það er ætlunin að óska eftir því að Baldur verði fenginn aftur til Eyja og að það sé vilji til þess að láta hann sjá um siglingar til Landeyjahafnar í vetur. Að mínu mati er tvennt sem þarf að hafa í huga, í fyrsta lagi að ef þetta er sem viðbót við Herjólf og að Herjólfur sigli áfram til Þorlákshafnar, þá er þetta einfaldlega algjör snilld og í samræmi við mínar skoðanir sem ég hef sett fram áður, þ.e.a.s. að kannski væri rétt að láta einkaaðila um rekstur og siglingar til Landeyjahafnar. Hitt atriðið sem þarf að hafa í huga er það, að ef mönnum dettur til hugar að ætla að skipta út Herjólfi fyrir flóabátinn Baldur, þá er sú hugmynd að mínu mati jafn fáránleg og sú fyrri er snilld. Ég var mjög spenntur fyrir þessu tækifæri sem við Eyjamenn fengum í haust þ.e.a.s. að fá minna og liprara skip til siglinga í Landeyjahöfn og mjög ánægður með það að sjá Baldur sigla í allt að 3,5 m ölduhæð, en það verður að hafa það í huga, að á tímabilinu jan-apríl á þessu ári, í frekar risjóttri tíð en þó engu ofsaveðri, þá var ölduhæðin við Landeyjahöfn í ca. 2 mánuði aldrei undir 4 m og augljóslega vonlaust að reyna að sigla í slíku sjólagi á Baldri til Þorlákshafnar.
Nokkrar hugmyndir hafa verið settar fram um hinar og þessar ferjur, sem gætu hentað betur til siglinga í Landeyjahöfn heldur en þessi tvö skip og er í sjálfu sér allt í lagi að skoða það, en að mínu mati þarf að sér hanna skip fyrir Landeyjahöfn, skip sem getur í neyð siglt til Þorlákshafnar í verstu veðrum, því að eins og komið hefur fram, þá rennur leyfi Herjólfs til farþegaflutninga út í nóv. 2015 eða eftir aðeins 4 ár. Næsti Herjólfur þarf því bæði að vera grunnristari en núverandi skip, en þá væri hugsanlega hægt að hafa öfluga veltiugga og jafnvel veltitanka sem hægt væri að dæli í við verstu aðstæður, einnig þarf að vera til staðar aðstaða fyrir farþega til þess að leggja sig og auk þess, að mínu mati, algjört lykilatriði að nýr Herjólfur geti siglt mun hraðar en núverandi skip.
Eitt af því sem vakti hvað mestu athygli mína af öllu því sem ég hef lesið frá hinum og þessum um Landeyjahöfn í sumar, er grein Sigurðar Áss Grétarssonar hjá Siglingamálastofnun frá því í júní, þar sem Sigurður hafnar algjörlega þeirri hugmynd að austari garðurinn verði lengdur til þess að verja innsiglinguna á þeim forsemdum, að þá myndi einfaldlega sandur hlaðast meir upp vestan megin. Þessari skoðun er ég ósammála enda tel ég þetta vera eitt af lykilatriðum til þess að Landeyjahöfn geti nálgast það að vera heilsárs höfn, en kannski er þetta bara misskilningur hjá mér og Sigurði, enda er ég ekki að tala um að framlengingin á austari garðinum verði frá innsiglings horninu, heldur að tekið yrði framlenging syðst og austast á austari garðinum í hálf boga, frá suð-austri yfir í vestur. Einnig stend ég enn við það að rétt væri að skoða það að koma upp sírennsli út úr höfninni sem hægt væri að slökkva á þegar skipið væri að koma og fara og teldi ég það mun betri kost heldur en að ætla að dæla öllum sandinum í burtu.
Landeyjahöfn er svo sannarlega tækifæri, en tækifæri eru þannig að það er mjög auðvelt að klúðra þeim. Það er enginn vafi á því, að Landeyjahöfn hefur haft mikil og góð áhrif á ferðaþjónustuna, reyndar ekki bara vegna hafnarinnar sjálfrar, heldur hafa ferðaþjónustu aðilar í Vestmannaeyjum lagt í mikinn kostnað við að auglýsa upp bæði höfnina og Vestmannaeyjar og nægir þar að minnast á t.d. Rib safari þar sem mikið var pantað fram á haust, en núna þegar vandræðagangurinn með samgöngumálin hefur byrjað aftur, þá er hjá þeim, eins og öðrum, mikið um afpantanir.
Næstu skref eru því gríðarlega mikilvæg ef ekki á illa að fara. Ég ætla því að enda þetta með því að skora á alla aðila sem eru í þessum svokallaða samráðshóp, sem þingmenn og aðra, að vanda nú til verksins, hlusta á skoðanir allra, hvort sem þær eru túlkaðar jákvæðar eða neikvæðar, þannig og aðeins þannig munum við fá rétta lausn á þeim vandamálum sem tengjast Landeyjahöfn og höfum það í huga, að höfnin á að duga ekki bara næstu árin, heldur áratugina í það minnsta.
Meira seinna.
9.9.2011 | 12:32
Lundasumarið 2011 (seinni hluti)
Ótrúlega margt búið að gerast undanfarnar vikur í lundamálum Eyjamanna, en ég er búinn að bíða með að skrifa þessa seinni grein í von um að hér sæjust einhverjar pysjur, en því miður virðist sú von ætla að bregðast, en er samt í samræmi við spá mína frá því í vor.
Ég ætla að byrja á því að þakka bæjarfulltrúanum Páli Scheving, fyrir frábært frumkvæði sitt en fyrir nokkru síðan var Páll staddur vestur á Dalfjalli í þessu gríðarlega lundaflugi sem var hér allan síðasta mánuð, ákvað hann að fara í veiðistað og háfa nokkra fugla til þess að sjá hvort að það væri ekki rétt að mikið væri af ung lunda og reyndist það vera sjö af hverjum tíu sem hann háfaði, en að sjálfsögðu sleppti Palli öllum lundunum. Þetta frumkvæði Páls var til þess að Erpur og félagar á Náttúrufræðistofu Suðurlands rumskuðu úr Þyrnirósar svefninum, fengu með sér tvo vana veiðimenn suður í Höfða, háfuðu ca. 100 fugla og komust að sömu niðurstöðu, eða að 70% lundans væri ungfugl. Viðbrögð þeirra við þessu voru hins vegar eitthvað það undarlegasta sem ég hef séð frá Erpi síðustu 4 árin, en allan þann tíma hefur Erpur ítrekað sagt að ef bæjarráð Vestmannaeyja leyfði lundaveiðar í háf, þá myndi aðeins veiðast fullorðinn lundi og því væri verið að minnka stofninn með því að leyfa slíkar veiðar (reyndar sagði yfirmaður Erps mér fyrir nokkru síðan að það væri stefna Náttúrufræðistofu Suðurlands að það ætti að banna allar lundaveiðar og ég held að ráðamenn hér ættu að hafa það í huga).
Nú, hins vegar, snýr Erpur algjörlega við blaðinu og segir að það sé ekkert að marka að það veiðist svona mikið af ungfugli, því það sé svo einfalt að ná ungfuglinum með háf. Þetta er að sjálfsögðu al rangt hjá Erpi, því að gegnum það liðlega 30 ár sem ég hef stundað lundaveiðar, þá hafa oft komið ár, þar sem mikið er af ungfugli og uppistaðan í veiðinni því ungfugl, en önnur ár hins vegar ekki og uppistaðan því oft graddi, en hafa verður í huga að lundastofninn í Vestmannaeyjum skipti nokkrum milljónum.
Varðandi ferðaþjónustuna, þá er það nú alþekkt að ferðaþjónustan í hvalaskoðunum hefur barist af mikilli hörku gegn hvalveiðum en þrátt fyrir að hér sé veiddur hvalur, þá er aukning á hverju ári í hvala skoðunum. Það neikvæðasta, hins vegar, sem ég hef séð í sumar úr ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum, er viðtal við Sigmund á PH Víking, þar sem hann benti á það, að Íslenskur ferðamaður sem kom til Eyja hefði furðað sig yfir höfuð að sjá lunda í Vestmannaeyjum. Þarna er að verki hin svo afar neikæða umræða sem Erpur hefur komið að stað í fjölmiðlum um lundann og alveg örugglega ekki í samræmi við þá jákvæðu ímynd, sem við viljum sjá í umfjöllun um Vestmannaeyjar.
En hvers vegna er svona mikið af unglunda núna? Ég hef oft sagt frá því, að samkv. mínum útreikningum, þá var nýliðun í lundastofninum (pysjur) árið 2007 ca. 400 þús. pysjur, sem er ekki mikið miðað við að holufjöldinn í Vestmannaeyjum er talinn vera 1,5 millj. Erpur hefur ítrekað sagt að engar pysjur hafi komist á legg á síðustu árum, en í Fréttum í gær er grein eftir forstöðumann Náttúrufræðistofu Suðurlands, þar sem kemur fram að þeir hafi vitað það að það hefði eitthvað af pysjum komist á legg bæði 2008 og 2009 eða ca. 10% hvort ár, sem ætti það að vera svona ca. miðað við stofnstærðarmælingar Erps 70-150 þús. pysjur hvort ár og því hálf furðulegt, að þessir aðilar skuli ganga jafn langt í baráttu gegn lundaveiðum og þeir hafa gert. Sérstaklega ef tekið er tillit til þess að á síðasta ári ákvað bæjarráð að treysta veiðimönnum til þess að meta ástandið og leyfðu veiðar í 5 daga, en þessa daga sást lítið af fugli og voru því aðeins veiddir 123 lundar og því augljóst að veiðimenn voru ekkert að rembast og því sorglegt að skoðanir veiðimanna skyldu vera hundsaðar í ár.
Að lokum nokkur atriði. Mér hefur verið bent á það að helsta rannsóknarsvæði Erps sé norðan megin í Höfðanum, en við sem lifum og hræfumst í náttúrinni allan ársins hring hér í Eyjum, sjáum mikinn mun á svæðum, eftir því hvort þau snúi í norður eða suður.
Margir hafa spurt mig út í það, hvort ég telji það að Erpur muni svara minni fyrri grein, en ég hef enga trú á því, enda er hann búinn að viðurkenna það að hafa dreift kjaftasögum um Eyjamenn og hefur neitað að biðjast afsökunar.
Tek það líka fram að ég hef rætt þessi mál við fuglafræðinga á Náttúrufræðistofu Íslands, en þar vilja menn sem minnst láta eftir sig hafa en eru mjög óhressir með þessi vinnubrögð Erps.
Að lokum: Hvers vegna svona mikið var af lunda núna í ágúst og töluvert af sílifugli sem bendir til þess að eitthvað af pysju hefur komist á legg þó ekki sjáist það í bænum (mér hefur reyndar verið bent á það, sem ég tel rétt, að eftir að Eiðið fór að byggjast upp jafn mikið og raun ber vitni, þá hafi lundinn hörfað undan). Varðandi lundann núna í ágúst, þá tók ég eftir því núna síðsumar að nánast ekkert sást af snurvoða bátum hér inni í fjöru, enda voru þeir allir búnir með kvóta sína í vor og spurning hvort að það hafi ekki orðið til þess að úr rættist hjá lundanum síð sumars. Reyndar eru þeir algjörlega ósammála mér sem eru á snurvoða veiðum í dag, en aftur á móti, gamlir sjómenn sem eru löngu hættir sjómennsku og hafa verið á snurvoða bátum algjörlega sammála mér, en að sjálfsögðu þarf að rannsaka þetta betur sem og áhrif makrílsins á æti lundans.
Fyrir næsta ár legg ég því til að leyfðar verði veiðar í þessa 5 daga sem leyfðir voru í fyrra og síðan svona ca. ein helgi einhvern tímann í ágúst og þannig tekin sýni af því hvernig lundastofninn er að þróast og það sem þá yrði veitt aldursgreint, en enda þetta að venju með þessum orðum: Lundastofninn í Vestmannaeyjum skiptir milljónum og hann mun gera það löngu eftir minn síðasta dag.
10.8.2011 | 23:12
Lundasumarið 2011 og Erpur Snær Hansen
Sumarið reyndar ekki alveg búið og enn óljóst hvort einhver pysja kemst á legg, en samt einhver merki um það, en hér kemur árviss grein mín um lundasumarið.
Ég hafði eiginlega ákveðið það á síðasta ári að nefna nafn Erps í mínum greinum ekki oftar, en miðað við afrek hans í lyga og kjaftasögum í sumar þá er það einfaldlega ekki hægt, enda afrek Erps óvenju gróf og komu meira að segja mér á óvart.
En fyrst, ákvörðun Umhverfisráðs og Vestmannaeyjabæjar um að banna alfarið lundaveiðar í sumar, var einfaldlega röng og skiptir það þá engu máli, þó að ég sé hættur veiðum hér í Eyjum vegna ástandsins, það hefði átt að leyfa þessa 5 daga en kannski beina því til veiðimanna, að þeir færu kannski ekki nema einu sinni eða mesta lagi tvisvar og nota þau gögn sem hefðu fengist með þeim veiðum, til þess að fylgjast með því hvernig stofninn þróast og þá t.d. hvort einhver ungfugl hefði komist á legg síðustu 3 árin, en m.a. vitum við það að varpið 2007 tókst ágætlega þó að það hefði verið undir meðallagi og ljóst að sá árgangur hefði getað borið uppi ágæta veið í sumar. Dapurlegast af öllu er þó sú staðreynd að ákvörðun Umhverfisráðs er byggð á bulli frá Erpi og þeirri staðreind að innan umhverfisráðs er, eftir því sem mér er sagt, manneskja sem er mjög framarlega í ferðaþjónustunni hér í Eyjum, en það hefur svo sannarlega marg sýnt sig að ferðaþjónustuaðilar eru alfarið á móti öllum veiðum. Einnig þótti mér mjög slæmt að ekkert var rætt við veiðimenn eða bjargveiðifélögin og sjónarmið þeirra í þessari ákvörðun því ekki tekin inn í myndina.
Eins og kemur fram í upphafi greinarinnar, þá er algjörlega vonlaust að fjalla um lundann án þess að minnast á Erp, en ég ætla hér að taka nokkur dæmi úr samtölum sem áttu sér stað í sumar, án þess að nafngreina þá sem eiga í hlut, og ekki verður þetta kannski alveg orðrétt en ég held að þetta skiljist. Ég sagði frá því á síðasta ári að vinum mínum hefði verið boðið í veiði norður í land og stefnan væri á að fara aftur í sumar. Hafði Erpur samband við einn félaga mína til að fá nánari fréttir af þessum ferðum og hafði síðan samband við vin minn norður í landi, sem hafði leyft okkur að koma þar á ónafngreindan stað í veiði og þetta fór þeim á milli:
Erpur: "Þú leyfðir nokkrum strákum úr Eyjum að koma þarna í veiði hjá þér."
Vinur: "Já, það er rétt, þeir komu hingað í fyrra og veiddu nokkur hundruð lunda."
Erpur: "Já, ég heyrði nú aðra sögu sem gengur út á það, að þeir hefðu platað þig og veitt a.m.k. 3000 lunda og logið því að þér, að veiðin væri ekki nema nokkur hundruð lundar."
Vinur: "Það er ekki rétt. Ég hef það að venju að taka á móti veiðimönnum þegar þeir koma úr veiði og ég hjálpaði þeim að bera veiðina upp í bíl og þetta voru bara nokkur hundruð lundar."
Erpur: "Já, þú segir það, en ég heyrði annað."
Félagar mínir hafa nú gengði á Erp og óskað eftir skýringum á þessu bulli hans og hefur hann viðurkennt að hafa látið þessi orð falla, en neitað að draga þau til baka né biðjast afsökunnar. Sannleikurinn er sá, að Erpur og félagar fóru um allt norðurlandið í sumar, en hvað þeir sögðu á hverjum stað veit ég ekki, en það er mjög undarleg staðreynd hins vegar, að ég hef heyrt í fjölmörgum veiðimönnum hér í Eyjum sem höfðu hugsað sér að komast í veiði á norðurlandi, en skyndilega eru Eyjamenn ekki velkomnir nokkur staðar án þess að nokkrar skýringar fáist, en með því að fara krókaleiðir fengið þær skýringar að Eyjamenn séu einfaldlega ekki velkomnir í veiði vegna þess, að þeir séu óheiðarlegir veiðimenn sem hafi rústað lundastofninum í Vestmannaeyjum. Ekki ætla ég að halda því fram að þetta komi allt frá Erpi, en eins og sést á þessu samtali hans við vin minn fyrir norðan, þá hlýt ég að spyrja mig þeirrar spurningar, hvað maður sem er ráðinn til þess að leita orsaka á hruni varps í Vestmanneyjum sé að gera með að fara með svona bull kjaftasögu í fólk á norðurlandi? En sem dæmi um ástandið fyrir norðan þá er mér sagt að í Lundey sem er ca á stærð við Hellisey bara grasi vaxin, þá er búið að veiða þar 15 þúsund lunda í sumar og sér ekki högg á vatni.
Ég hef víða rætt þessi mál nú í sumar og í raun og veru verið í miklum erfiðleikum um að ákveða það, hvernig ég ætti að takast á við þessa lygasögu frá Erpi og hvernig ég ætti að skilgreina ástæðuna fyrir henni, en ætla að reyna það með því að vitna í stutt samtal hjá mér og gömlum kennara mínum, mikils virtum Eyjamanni sem ég hef einhverntímann í gamni kallað fjallageit Vestmannaeyja og kalla hann því í greininni geitina.
Við hittumst niður við bryggju og eftir að ég hafði útskýrt málið, þá sagði geitin þetta:
"Þetta kemur mér ekki á óvart, ég þurfti ekki að tala við Erp nema í 15 mínútur til þess að skilja það, að ef Erpur fær einhverju um það ráðið, þá verða allar lundaveiðar á Íslandi bannaðar."
Ég: "Þannig að það má segja sem svo að Erpur sé einhvers konar öfgafullur umhverfissinni?"
Geitin: "Já, þú getur sagt það."
Mér fannst þetta nokkuð merkilegt spjall.
Að lokum ætla ég að vitna í yfirmann Erps úr samtali okkar, en þar kom m.a. fram að t.d. útskýring Erps og félaga á því að 2005 hafi verið fyrsta árið sem varp misfórst í Eyjum og ég gagnrýnt mjög harðlega, enda höfnin full af pysju það árið og mikil lundaveiði, fyrir utan það að Erpur hóf ekki rannsóknir fyrr en 2007, sé byggð á því að tekin hafi verið mynd af brekku í Elliðaey 2005 þar sem mikið var af dauðri pysju. Frábær sönnunargögn það.
Annað vakti þó mun meiri athygli mína í samtali okkar yfirmann Erps, en þar kom m.a. fram að hluti af herferð þeirra um norðurlandið sé til þess að undirbúa frekari umsóknir um styrk til ríkisins til að stunda þessar svo kölluðu lunda rannsóknir og að ef ekki fengjust frekari styrkir fyrir haustið, þá yrði hann sennilega að segja Erpi upp með haustinu. Ég ætla því að nota þetta tækifæri að skora á alla veiðimenn og þingmenn að standa nú saman um að losa okkur við Erp, en ég ítreka það að ég var algjörlega fylgjandi því að hann yrði fenginn hingað 2007 til þess að rannsaka og reyna að finna út ástæðuna fyrir hruni varpsins, en á 4 árum er árangurinn enginn, engar hugmyndir, engar tillögur, ekkert sem gæti hugsanlega hjálpað lundanum og pysjunni, ekkert nema árásir á lundaveiðimenn og tillögur um að banna allar lundaveiðar. Ég sé reyndar í Mogganum í dag að þar reynir hann að ýja að því að þetta tengist allt saman hlýnun jarðar og á næstu árum sé framundan frekari hlýnun, en í viðtali við hinn virta veðurfræðing, Pál Bergþórsson, frá því í vor þá er árið í ár einmitt fyrsta árið í kuldaskeiði sem einmitt byrjar í ár og mun standa næstu árin og ég held að fáir efist um það hvor hafi rétt fyrir sér sé miðað við kuldann í vor.
Að lokum vil ég endurtaka það enn einu sinni sem ég hef skrifað svo oft áður, ég tel að það þurfi að rannsaka betur áhrif bæði makrílsins og snurvoðarinnar á fæðu pysjunnar, en stærsta vandamál okkar Eyjamanna að mínu mati, er í dag meintur lunda sérfræðingur. Eins og sést hefur í fjöllunum í Eyjum undanfarnar vikur, þá kom lundinn til Eyja í sumar í milljóna tali. Lundastofninn á Íslandi er a.m.k. á annan tug milljóna og lundinn mun koma til Eyja í milljóna tali löngu eftir minn dag.
Greinin er orðin allt of löng og ætla ég að enda núna, en mun bæta við ef þarf.
1.6.2011 | 20:35
Frumvarp ríkisstjórarinnar um breytingar á kvótakerfinu...........
.........hafa valdið mér miklum hausverk og leiðindum síðan ég las það í gær, og er ég í raun enn ekki farinn að skilja það til fulls, enda mikil og erfið lesning.
Umræðan hér í Eyjum hefur snúist fyrst og fremst um það, að það sé verið að taka af stór útgerðini til þess að færa einhverjum trillukörlum. Ekki er ég alveg sammála því og í raun og veru þá er nokkuð ljóst, að í frumvarpinu er m.a. talað um að banna leigu á aflaheimildum frá aflamarks kerfi niður í króka kerfi, sem þýðir að öllum líkindum það að mín útgerð og útgerðarmynstur, ásamt fjöl mörgum línu útgerðum allt í kringum landið, er vægast sagt í miklu uppnámi. Ástæðuna má að vissu leyti rekja til þeirrar fáránlegu ákvarðanar Árna M. Mathiesenar, með stuðningi Framsóknarflokksins, frá árinu 2000 um að slá af svokallað þorskafla hámarks kerfi, setja allar tegundir í kvóta, leyfa síðan stækkun á þessum flota frá því að vera 6 tonna bátar og minni, upp í að vera 15 tonna bátar og minni, án þess að því fylgdu nokkrar aflaheimildir. Þess vegna hafa krókabátar þurft að treysta á það að geta fengið leigðar heimildir úr aflamarks kerfinu og ef við tökum sem dæmi tegundir eins og ýsu, keilu og löngu, þá sýnist mér að um þriðjungur þess sem þessir bátar hafa fiskað undanfarin ár, komi frá aflamarks kerfinu og því augljóst að með því að klippa með einu pennastriki á þennan möguleika, þá er nokkuð augljóst að fjöl margar útgerðir muni fara illa út úr því og augljóslega brottkast og flokkun úti á sjó, sem smábátar hafa að miklu leyti verið lausir við, aukast verulega.
Ég sé reyndar að Jón Bjarnason ætlar að sjá til þess að smábátar í hans kjördæmi geti að einhverju leyti komið með keilu og löngu utan kvóta, enda mikið minna af þeim tegundum fyrir norðan land, heldur en hér fyrir suðurströndinni.
Varðandi strandveiðarnar, þá sé ég að þar er reiknað með að aflaheimildir í þann pott aukist með auknum aflaheimildum, en mér þykir mjög furðulegt að sjá þar inni hugmyndir um að sérstaklega verði hægt að auka aflaheimildir strandveiðibáta sem eru 3 tonn eða minni, og það finnst mér ekki vera skynsöm leið.
Varðandi hugmyndir um að útgerðir sem stunda uppsjávarveiðar frá Vestmannaeyjum þurfi hugsanlega að skila inn aflaheimildum í bolfiski til þess að geta fengið aflahlutdeild sína í uppsjávarkvótum, þá er ég að sjálfsögðu algjörlega á móti slíkum hugmyndum enda ljóst að með því myndu fjöl mörg störf tapast hér í Vestmannaeyjum, en vonandi verður þetta lagað í meðförum Alþingis á frumvarpinu.
Varðandi hugmyndir að banna lúðuveiðar með haukalóð, þá er ég að sjálfsögðu algjörlega á móti því enda hef ég alltaf verið og er á þeirri skoðun að eina leiðin til þess að allir Íslendingar sem starfa í útgerð séu jafnir, sé að taka frekar tegundir úr kvóta, lúðu þarf ekki að setja í kvóta og að mínu mati ætti nú þegar að taka tegundir eins og keilu, löngu, skötusel og jafnvel fleiri tegundir úr kvóta, enda engin fiskifræðileg rök fyrir kvótasetningu á þessum tegundum, og í raun og veru er það eina sem áunnist hefur með því að setja þessar tegundir í kvóta er að nú er búið að veðsetja allan þennan kvóta, ásamt því að kvótaleigan er orðin svo há og enginn kvóti í boði með tilheyrandi brottkasti og tjóni fyrir Íslenska þjóð.
Ég tek það skýrt fram að ég er algjörlega sammála því að það þurfi að taka á frjálsa framsalinu og ég er algjörlega á móti því að menn geti veðsett kvótann.
En hvers vegna þarf að breyta kvótakerfinu? Árið 1991 var frjálsa framsalið sett á. Hugmyndin á bak við það var sú að ná fram hagræðingu í útgerðinni, fækka bátum, menn gætu skipst á tegundum og látið frá sér tegundir, sem menn voru ekki að nýta. Þá þegar var varað við því að veruleg hætta væri á því að menn færu út í stórfellda veðsetningu á kvótanum, sem hefur gengið eftir. Einnig var varað við því að þetta kynni að hafa slæm áhrif á minni byggðir allt í kringum landið, sem einnig hefur gengið eftir og ef við horfum á stöðuna eins og hún er í dag, þá er nóg að ganga niður á bryggju hér í eyjum, þar blasir við okkur skip og bátar sem ekki hafa fiskað bein úr sjó árum saman. Útgerðarmennirnir spila á kerfið með kennitölu flakki og svo kallaðri kínaleigu. Jafnvel eru dæmi um það að hér hafi menn látið smíða ný og glæsileg skip með því að leigja frá sér aflaheimildir í nokkur ár og þetta er ekki það versta, því sumir útgerðarmenn hafa jafnvel marg veðsett sínar aflaheimildir og útgerðir til að geta tekið þátt í margs konar fjármálabraski og jafnvel tapað al eigunni og þar með sett störf sjómanna sinna og tekjur fjölskyldna þeirra í uppnám. Vissulega eru einnig til margir heiðarlegir og duglegir útgerðarmenn hér í eyjum, en eins og útgerðarmaður orðaði það við mig fyrir nokkru síðan, þá þarf að stoppa svörtu sauðina. Það þarf að breyta þessu kvótakerfi, það vita það allir, en það er ekki sama hvernig og því miður sýnist mér nánast allar hugmyndir Ríkisstjórnarinnar vera skot yfir markið og í raun og veru eru sumar hugmyndirnar í frumvarpinu hálf furðulegar að vissu leyti.
Ég er ánægður með að frumvarp um breytingar á kvótakerfinu séu nú loksins komnar fram, en það þarf svo sannarlega að taka til í frumvarpinu og mig langar að benda á bloggfærslu frá mér síðan í febrúar, sem ég kallaði: Kvótakerfið, umræða á villigötum, en þar m.a. kem ég inn á fjöl mörg atriði sem ég tel að mættu betur fara. Þessi umfjöllun mín er ekki endanleg um þetta kvótafrumvarp Ríkisstjórnarinnar, enda allt of langt mál að taka það fyrir í einni grein, en læt þetta duga í bili.
23.5.2011 | 13:43
Opinber afsökunarbeiðni
Sl. miðvikudagskvöld, 18. mai, ákvað ég að mæta á opinn fund með þingmönnum Samfylkingarinnar í Alþýðuhúsinu. Á fundinum voru m.a. 2 þingmenn úr suðurkjördæmi, Róbert Marshall og Oddný Harðardóttir auk einnar þingkonu af höfuðborgarsvæðinu.
Fljótlega eftir að ég mætti tók ég eftir því að einn fundargesta var með framíköll og upphrópanir af ýmsum toga. Þessi fundargestur fór síðan upp í pontu eftir framsögur og sagði þetta svona nokkurn veginn: "Ég heiti Bergur Kristinsson og er formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum." Ég ætla ekki að hafa nánar eftir það sem Bergur sagði um þingmennina, enda ekki við hæfi að hafa slíkt orðbragð eftir, og til að kóróna orðbragð sitt þá var Bergur greinilega undir áhrifum áfengis og í úlpu sem var merkt Íþróttabandalag Vestmannaeyja.
Ég ætla hér með að skora á Berg að biðjast opinberlega afsökunar á sinni hegðun á fundinum, eða ella að hann segi af sér sem formaður Verðanda, því að þó svo að við séum ekki sammála í mörgum atriðum því sem Ríkisstjórnin er að gera, þá spyr maður sig samt þeirrar spurningar: "Hversu mikið mark eiga þingmenn Ríkisstjórnarinnar að taka af athugasemdum okkar Eyjamanna eftir svona framkomu eins og hjá Bergi Kristinssyni."
Fyrir mitt leyti, og að ég tel, fyrir hönd allra Eyjamanna, þá ætla ég að byðja þessa ágætu þingmenn afsökunar, enda svona framkoma algjörlega óásættanleg.
Af fundinum sjálfum var kannski lítið hægt að segja, enda að hluta til búið að eyðileggja fundinn. Útgerðarmenn voru fjöl margir á fundinum og með margar fyrir spurnir um tilvonandi breytingar á kvótakerfinu, en þar sem ég hef ekki lesið frumvarpið þá get ég ekki tjáð mig um það, en mér þótti mjög undarleg hörð gagnrýni útgerðarmanna á svokallaðar strandveiðar, auk þess sem útgerðarmenn voru furðu harðir á því að verja frjálsa framsalið og hvers konar framtíðarsýn er það?
25.4.2011 | 20:26
Útreikningar Siglingamálastofnunar varðandi Landeyjahöfn rangir?
Eins og kemur fram í fyrirsögnini, þá hef ég oft sinnis velt því upp og spurt mig þeirrar spurningar, og svarað, hvort og þá hversvegna útreikningar Siglingamálastofnunnar séu rangir? Fjöl margir Eyjamenn hafa spurt mig að þessu, flestir reyndar tekið undir með mér, en sumir beðið mig um að útskýra mál mitt í grein. Hingað til hef ég nú ekki haft áhuga á að reyna það öðruvísi en að geta sýnt fram á og lagt fram gögn máli mínu til stuðnings, en ætla þó að reyna hér að taka fyrir 3 atriði þar sem ég útskýri sjónarmið þeirra á Siglingastofnun og hvers vegna það er rangt.
Fyrst aðeins af tíðarfarinu núna í apríl. Inni á Eyjafréttum er hægt að lesa svargrein Sigurðar Áss við fyrirspurn, þar sem Sigurður Áss bendir á það að tíðarfarið frá áramótum sé allt öðruvísi heldur en síðustu 7 árin, en ég hef einmitt svarað því þannig að miðað við mína reynslu, sem telur 24 ár, þá sé þetta alls ekki óvenjulegur vetur ef undanskilið er apríl, sem hefur verið óvenju leiðinlegur, en svo er aftur spurning, verðum við ekki að miða við versta mögulega tíðarfar?
Fyrsta atriði: Eitt af því sem ég hef gagnrýnt er sú fullyrðing að hér í Vestmannaeyjum sé ríkjandi vindátt suðvestanátt. Þessu er ég algjörlega ósammála, en hef þó reynt að útskýra þessa niðurstöðu Gísla Viggóssonar með því að sennilega hafi verið tekið inn í dæmið svokallaður sólfarsvindur á sumrin, en eins og allir vita, þá er það þannig að þegar mikið er um hægviðri þá vindar upp úr hádegi, ekki bara hér í Vestmannaeyjum heldur öllu landinu (hef líka séð þetta á Kanarí eyjum) úr sólarátt, sem í flestum tilvikum er þá suð-vestan átt, en í flestum tilvikum er þetta ekki mikill vindur og hefur að sjálfsögðu engin áhrif á Landeyjahöfn.
Ég hitti Gísla á máli og spurði hann út í austanáttina og fékk þetta svar: Það kemur svo sjaldan austanátt í Vestmanneyjum. Ég geri mér vel grein fyrir því að Gísli vissi ekkert við hvern hann var að tala eða hvaða þekkingu af vindáttum ég hef hér í Eyjum, en ef þeir á Siglingamálastofnun hefðu skoðað ríkjandi vindáttir í Eyjum, miðað við t.d. 15 eða 20 metra eða meira, þá hefði austanáttin verið algjörlega ríkjandi vindátt, eins og hún er, t.d. sést það vel á öllum trjágróðri hér í Eyjum sem allur hallar í vestur. Einnig hefði verið nóg fyrir þá að lesa útgerðar og sjóslysasögu Vestmannaeyja, þar sem á fyrri hluta síðustu aldar, allur flotinn lenti í því í Eyjum ítrekað að þurfa að liggja í vari undir Hamri í austanáttum. Einnig eru sennilega milli 80-90% af öllum verstu sjóslysum í Eyjum í austanáttum, en einmitt út frá austanáttini gæti staðsetningin á Landeyjahöfn ekki verið verri. Ef höfnin hefði verið svona ca. 3-4 mílum vestar, hefði þessi vandræðagangur í austanáttinni og sandburðurinn aldrei orðið eins mikill og raun ber vitni.
Annað atrið: Hönnun hafnarinnar og staðsetning og vegna skjóls af Heimaey gerir það að verkum að skjól verði í höfninni í öllum vindáttum. Mér þótti þetta atriði afar furðulegt, en seinna var það útskýrt fyrir mér, að meiningin væri sú að úthafsaldan gengi aldrei inn í höfnina. Þetta þótti mér enn furðulegra og sá ég fyrir mér einhverskonar hafnarmannvirki, sem væri þá sennilega hringur með einhverju furðulegu hliði. Þegar ég hins vegar sá í fyrsta skipti teikningu af höfninni, þá sá ég strax að þetta var í raun og veru hrein vitleysa allt saman og eftir að hafa séð myndir af brotum í innsiglingunni og öldu sem gengur inn alla höfnina, þá verð ég að viðurkenna alveg eins og er, að ég hef ekki hugmynd um það, hvernig þeir hjá Siglingamálastofnun gátu komist að sinni niðurstöðu og meir að segja, hönnunin á mannvirkinu er svo slæm að þegar verst er þá brýtur á milli garða í innsiglingunni. Varðandi það að þarna yrði fært í allt að 3,6m ölduhæð, þá skrifaði ég einhvern tímann grein um það að auðvitað vonum við öll að þarna verði fært í 4-5 m ölduhæð. Staðreyndin er hins vegar sú, að Herjólfur hefur verið að hætta við í 3m ölduhæð og það leysum við ekki með minna skipi.
Þriðja atriði: Sandburðurinn. samkv. útreikningum Siglingamálastofnunnar þá þyrfti að moka úr höfninni til að byrja með, síðan myndi það minnka smátt og smátt og hverfa svo alveg, eins og gerst hafði t.d. í Þorlákshöfn og víðar. Munurinn er hins vegar sá, að bæði í Þorlákshöfn og öðrum stöðum sem nefndir hafa verið til sögunnar, þá er staðreyndin sú að þar er höfnin byggð á landi og hluti hafnarinnar fer út á sand, en í Landeyjahöfn er byggt á sandi og sandur allt í kring. Ég hef nú eins og aðrir Eyjamenn séð þessar töflur þeirra Siglingamálastofnunnar um sandburðinn, sem eru mjög óljósar og erfitt að skilja, en það er til mjög einföld leið til þess að reikna út hvað er að gerast í sandinum og það hvers vegna útreikningar Siglingamálastofnunnar eru alrangir. Árið 1920 strandaði skúta í Landeyjasandi. Enn eru leifar af skútunni inni á sandinum og í vetur gerðu menn sér ferð þangað til þess að mæla vegalengdina niður í fjöru. Reyndist hún vera 430m, sem þýður að á 90 árum færist fjaran fram um ca. 4,5m á ári. Ekki er ég það klár að ég geti reiknað út hvað þarf mikinn sand til að þetta gerist, en augljóslega þarf ekki gos til og enn augljósara að nú, þegar höfn hefur verið byggð á þessum alversta stað, þá verður sandburður alltaf gríðarlegt vandamál á þessu svæð
Lokaorð:
Það fyrsta sem þarf að gera til þess að reyna að gera höfnina betri heldur en hún er, er að þeir hjá Siglingamálastofnun viðurkenni sín mistök, þá fyrst getum við haldið áfram. Annað atriði sem þarf að gera, það þarf að fara í þá þingmenn sem beittu sér fyrir því að þessi leið var farin (m.a. fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján Möller) að alveg sama hvað þetta myndi kosta, þá yrði málið klárað. Það þarf að gera þessum ágætu þingmönnum grein fyrir því að til að byrja með, þá vantar okkur amk. 2-3 milljarða í viðbót til þess að lengja austari garðinn í hálfgerðum boga til þess að verja innsiglinguna fyrir austan og sunnan áttum og sandburði. Síðan, þegar reynsla verður komin á þetta, þá fyrst getum við tekið ákvörðun um hvernig næsta ferja á að vera, en ég tek það fram að ég er enn á þeirri skoðun að hún eigi að vera mun stærri heldur en núverandi ferja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.4.2011 | 20:21
Gleðilegt sumar
Lundinn er að setjast upp í kvöld, sem þýðir að sumardagurinn fyrsti er runninn upp hjá mér. Lundinn settist upp þann 13. í fyrra en 20. í hittifyrra, en sl. 20 ár hefur hann einmitt sest upp á þessu tímabili þ.e.a.s. 13-20 apríl.
Að venju ætla ég að spá fyrir um sumarið. því miður held ég að makríllinn muni koma aftur í sumar og éta þar með ætið frá pysjunni. Eina ráðið sem ég hef séð við því er að auka veiðarnar verulega á makríl, en því miður virðast slíkar hugmyndir ekki eiga upp á pallborðið hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum.
Einnig held ég að fleiri og fleiri hljóti nú að fara að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem opnun fjörunnar fyrir snurvoð hefur, en Landeyjarfjara var opnuð fyrir snurvoð í okt. 2007 og síðan þá hefur nánast engin pysja komist á kreik og að sama skapi, það ár var ýsukvótinn á Íslandi 105 þús. tonn, var kominn niður í 50 þús. tonn á þessu fiskveiðiári og samkv. nýjustu mælingum Hafró verður sú tala lækkuð enn meira í haust að öllum líkindum.
Ég skil vel að útgerðarmenn snurvoðabáta séu alls ekki sammála mér í þessu, en í sjálfu sér ætti ekki að vera svo mikið mál að taka nokkrar prufusköfur inn í fjöru áður enn öllum flotanum er hleypt þarna inn eftir, en m.a. er mér sagt að þeir sem ganga hvað harðast í að kasta alveg uppi í fjöru, séu meira að segja farnir að fá reglulega töluvert af bæði lax og silung í fjörunni og stór spurning hvort að ekki verði að fara að skoða þessi mál í alvöru, en eins og allir vita þá er fjaran uppeldissvæði fyrir bæði síli, smá ýsu og margs konar smáfisk sem m.a. lundinn hefur á árum áður notið góðs af.
Varðandi hugsanlegar lundaveiðar í Vestmannaeyjum í sumar, þá tel ég það í raun og veru ekki vera verjandi en get þó tekið undir þær skoðanir, að það sé kannski skynsamlegt að leyfa veiðar í 5 daga á sumri, eins og síðustu ár, til þess að geta þá tekið sýnishorn úr stofninum. Að sjálfsögðu er það besta leiðin til þess að fylgjast með ástandi stofnsins að veiða nokkur stykki.