Áhættumat og að gefnu tilefni

Áhættumat er kannski það orð sem heyrist oftast þessa dagana, bæði varðandi Landeyjahöfn og Icesave.

Það er svolítið furðulegt að hugsa til þess að á sínum tíma voru lagðir talsverðir peningar í það að fá hingað erlent áhættumats fyrirtæki, til þess að meta muninn á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn, Vestmannaeyjar - Landeyjahöfn út frá áhættu sjónarmiði. Niðurstaðan var, að Þorlákshafnar leiðin væri 6 sinnum hættulegri heldur en leiðin til og frá Landeyjahöfn. Nú ryðst bæjarstjórinn fram á völlinn og vill að Landeyjahöfn verði opnuð minni bátum. Ég skil þetta sjónarmið hans vel, enda alveg augljóst að þessu var lofað af m.a. bæjarstjóranum okkar á sínum tíma, en hafa verður í huga, eins og ég hef orðað áður í grein frá mér, að Elliði er illa haldinn af því sem ég kalla Keikó syndrome.

Það furðulegasta við þetta mál allt saman er, að þó að PH Viking sé bannað að sigla til Landeyjahafnar, þá veit ég ekki betur en að hann geti siglt til Þorlákshafnar, svo maður spyr sig óneitanlega, hversu mikils virði var þetta svokallaða áhættumat á sínum tíma? 

Varðandi Icesave, þá heyrði ég þau rök í vikunni frá svokölluðu Já-fólki, að aðilar í fjármálageiranum sem væru að áhættumeta þjóðir, t.d. varðandi lánstrausts osfrv. að þeir aðilar væru eindregið á því að við ættum að segja já. Á það var hins vegar bent að þessir sömu aðilar og fyrirtæki höfðu einmitt dásamað í bak og fyrir hina svokölluðu útrás okkar Íslendinga á erlendum fjármálamörkuðum, svo hversu mikils virði er svona áhættumat?

Að gefnu tilefni, smá viðbót við lokagrein mína um Landeyjahöfn. Ég heyrði leiðinlegar fréttir af því frá síðustu helgi, að ansi fámennt hefði verið í sumum fermingar veislunum og jafnvel allt að 50 manns hefðu ekki mætt vegna þess að Landeyjahöfn var lokuð. Sjálfur er ég að ferma um næstu helgi og hafa nokkrir þeir sem ætluðu að koma ofan af landi afboðað vegna þess að Landeyjahöfn er lokuð, þrátt fyrir það að ég hafi varað við þessari stöðu með margra vikna og mánaða fyrirvara, þá er þetta fyrst og fremst dapurleg staðreynd og einnig ljóst að tjón okkar Eyjamanna varðandi Landeyjahöfn, sérstaklega ef horft er til ferðaþjónustunnar, skiptir nú þegar tugum milljóna, svo ég ætla að reyna að orðan þetta núna skýrt og greinilega í eitt skipti fyrir öll, það sem hafa þarf í huga er þetta: Útreikningar Siglingamálastofnunar varðandi sandburð, ríkjandi vindáttir, öldugang, hönnun hafnarinnar ásamt yfirlýsingum um skjól vegna nálægðar við Heimaey, snilldar hönnunar hafnarinnar þannig að inn í höfnina gengju aldrei neinar öldur, frátafir osfrv. osfrv., allt reyndist þetta rangt, hver ein og einasta niðurstaða og sem dæmi þá er samkv. útreikningi þeirra gert ráð fyrir um 3% frátöfum yfir vetrarmánuðina en frá því að höfnin var opnuð, þá eru frátafir farnar að nálgast 70%, en samt halda þeir því fram, að samkv. útreikningi þeirra verði engar frátafir yfir sumarmánuðina. 

Sl. mánuð hefur verið mikið um suðlægar áttir hér í Eyjum, en ég fyrir mitt leyti hef oft sinnis farið í gegnum heilt sumar með svona tíðarfari, ef undanskilin eru síðustu 4-5 árin og að gefnu tilefni, fyrir þá sem ætla að ferðast til Eyja í sumar, þá er alveg sjálfsagt að panta með skipinu frá Landeyjahöfn, en ég myndi hafa varann á mér og panta líka í gegnum Þorlákshöfn, og í raun og veru er kannski miklu öruggara að panta í gegnum Þorlákshöfn, því ef fært er í Landeyjahöfn, þá eru að sjálfsögðu fleiri ferðir í boði þá leiðina. Einnig vil ég benda á það, að ef við tökum sem dæmi af síðustu 10 Þjóðhátíðum, þá höfum við tvisvar á þeim tíma fengið austan 40 metra, og því nauðsynlegt fyrir alla aðila að standa klárir, því veðrið er ekki eitthvað sem við getum reiknað með að verði eins og við viljum. Það erum við sem þurfum að aðlaga okkur að náttúrunni en ekki öfugt.


Af Icesave

9. apríl n.k. kjósum við Íslendingar um það sem kallað hefur verið Icesave 3 og sýnist sitt hverjum, og þegar maður horfir á umræðurnar í fjölmiðlum að undanförnu, þá er í raun og veru vonlaust að komast að einhverri niðurstöðu um hvað sé rétt eða hvað sé rangt. Sjálfur hafði ég svona hálft í hvoru vonað að ríkisstjórn og forseti kláruðu málið einfaldlega vegna þess, að ég tel mig vera allt of hlutdrægan eins og svo marga Íslendinga, því ég hef að sjálfsögðu engann áhuga á að borga skuldir óreiðumanna og braskara.

Það er svolítið merkilegt, að þegar maður horfir til baka á Icesave 2 sem að sögn ríkisstjórnarinnar var á þeim tíma það besta sem við gætum fengið, en þýddi með vöxtum skuldsetningu á þjóðina upp á 4-500 milljarða og svo í dag, nánast sömu rök en sennilega með lægri upphæð og þau rök, að ef við samþykkjum ekki núna þá gætum við fengið á okkur reikning upp á 4-500 milljarða í versta lagi. Mér finnst þetta ekki mjög trúverðugt og þegar við horfumst í augu við þann veruleika, að nú þegar erum við byrjuð að borga reikninginn fyrir útrásina með hækkandi sköttum og niðurskurði í allri þjónustu sem ríkið greiðir og þá staðreynd, að núverandi ríkisstjórn er með það í stefnuskrá sinni að ganga í ESB, þá er nokkuð ljóst að slíkt spilar augljóslega inn í skoðanir ríkisstjórnarinnar, að maður tali nú ekki um þá staðreynd að, eins og allir vita, þá voru það bæði þingmenn, ráðherrar og ríkisstjórnir síðustu ára sem komu okkur í þessa klípu. Þegar á allt er litið, þá held ég að það sé alveg augljóst að við verðum öll að taka okkar eigin ákvarðanir eftir okkar bestu getu og sannfæringu.

Að mínu mati, þá tel ég lang skynsamlegast að fá úr því skorið fyrir hæstarétti, hvort að við Íslendingar eigum yfirleitt að borga svona skuldir, því að ef við segjum já núna og tökum tillit til þess sem við sjáum allt í kringum okkur, ofurlaun bankastjóra, hækkandi laun hjá yfirmönnum í hinum og þessum fyrirtækjum, brask með hlutabréf sem nú þegar er byrjað aftur, að maður tali nú ekki um þá staðreynd að enginn af útrásarvíkingunum hefur enn verið látinn greiða neitt til baka af ráði, þá finnst mér málið snúast meira um fordæmi, því að augljóslega, þá þýðir það það ef við segjum já að þá erum við að mínu mati að segja já við því, líka í framtíðinni, ef sambærileg mál koma upp. Þess vegna er ég á þeirri skoðun í dag að réttast sé að segja nei í kosningunum 9. apríl.


Veður, sjólag og samgöngur.

Er það sem hvað helst er rætt í Eyjum í vetur og svo sem eðlilegt, enda skipta þessi 3 orð okkur gríðarlega miklu máli.

Að undanförnu hafa fjölmargir sagt við mig að þessi vetur sé að verða óvenju harður, þetta er alrangt og svona til að upplýsa fólk þá er þetta þannig, að eftir 24 ár í útgerð  þá get ég sagt það til dæmis að veturinn fram að áramótum er með þeim betri sem ég hef upplifað á þessum 24 árum og þar af Nóvember sá næst besti sem ég hef fengið öll þessi ár. Janúar var svona í þokkalegu meðallagi, en Febrúar frekar erfiður en kemst samt ekki í hóp fimm verstu sem að ég hef upplifað, Mars stefnir hins vegar í að vera með þeim verstu, en þessir fyrstu 3 mánuðir ársins eru yfirleitt erfiðir, en í heildina stefnir veturinn í að vera nokkuð örugglega í hópi þeirra 10 bestu þessi 24 ár.

Margir hafa nefnt það að sjólagið í Landeyjahöfn sé búið að vera óvenju slæmt, en svo er alls ekki enda ölduhæðin varla farið upp fyrir 5 metrana í allan vetur (fór hins vegar einu sinni í 8,8 metra í hitt í fyrra vetur).

Niðurstaða mín eftir reynslu vetrarins og öll þessi ár sem sjómaður hérna við eyjar er því nokkurn veginn eins og ég bjóst við, þ.e.a.s. það er amk. 90% líkur á því að Landeyjarhöfn verði aldrei heils árs höfn. En hvað skal gera? Ástæðan fyrir því að ég byrjaði aftur í haust að skrifa um Landeyjarhöfn er fyrst og fremst það, að að mér var laumað þessi hugmynd að bjóða höfnina út og smíða síðan alvöru skip til siglinga milli Þorlákshöfn og Eyja. Þessi hugmynd stendur í sjálfu sér alveg fyrir sér, en eftir að hafa rætt málið við fjölda fólks út  um allan bæ, þá langar mig að koma með betri hugmynd. 

Eins og allir vita, þá er kominn tími á ferjuna og nú þegar liggja fyrir hugmyndir á borði Siglingamálastofnunar um nýja ferju sem ég hef algjörlega hafnað, enda ganga þær út á bæði minni og gangminni ferju. Ég legg hins vegar til að þegar ferjan verði smíðuð, þá verði hún kannski aðeins mjórri og með töluvert minni yfirbyggingu heldur en núverandi ferja, en verði hins vegar mun lengri eða amk. 80-90 m. og geti þannig hugsanlega orðið tveggja öldu skip sem núverandi ferja er ekki. Til þess að mæta slíkri ferju, þá yrði að stækka snúningshringinn inni í Landeyjahöfn, en það ætti ekki að vera svo mikið mál. Hugsanlegt væri líka að hafa auka vél til að bæta við þegar sigla þyrfti til Þorlákshafnar. Einnig held ég að sniðugt væri að hafa á nokkrum stöðum í ferjunni kojur sem væru þá felldar inn í veggina, en hægt að taka niður eftir þörfum. Sömuleiðis mætti setja tvöfalda veltiugga á ferjuna og þar á meðal t.d. veltiugga sem gengju hugsanlega niður úr ferjunni og væru einungis notaðir þegar siglt væri til Þorlákshafnar og þannig hjálpa til við að gera ferðina sem þægilegasta fyrir okkur Eyjamenn.

Lokaorð:

Með þessari grein ætla ég enn einu sinni að reyna að hætta þessum skrifum um Landeyjarhöfn, enda ég eins og sennilega flestir Eyjamenn löngu orðinn hund leiður á þessari umræðu. Ég hef ítrekað verið ásakaður um það að vera bara fyrst og fremst neikvæður og vera með einhverjar úrtölur í garð Landeyjarhafnar og m.a.s. hef ég fengið að heyra það, að ég sé bara yfirhöfuð á móti höfninni. Þetta er að sjálfsögðu al rangt, því ég tel mig svo sannarlega vera í þeim hópi Eyjamanna sem óskar sér bættra samgangna þó þessi leið væri svo sannarlega að mínu mati ekki besti valkosturinn, þá vona á svo sannarlega að þetta muni lagast. Framtíðin er óráðin, möguleikarnir eru fyrir hendi, Landeyjarhöfn er fyrst og fremst tækifæri til þess að bæta samgöngur okkar en við verðum að horfa á þetta tækifæri raunhæfum augum og ekki láta óraunhæfar væntingar ráða gjörðum okkar.

 


Kvótakerfið.........umræða á villigötum

Formáli:

Umræðan um kvótakerfið er enn einu sinni komin á yfirborðið og eins og svo oft áður, því miður, þá orða menn hlutina í samræmi við sína hagsmuni, en hvers vegna var þetta kvótakerfi sett á? Hvert var takmarkið? Hvernig hefur til tekist? Og hvernig er staðan í dag?

Árið 1984 var núverandi kvótakerfi sett á, veiðar höfðu gengið illa síðustu árin þar á undan og þáverandi forstöðumaður hafrannsókna taldi mönnum trú um það, að ef þeir settu þetta kvótakerfi á þá yrðum við eftir 3 ár farin að veiða 4-500 þús. tonn af þorski, í staðin fyrir 350 þús. tonn eins og þá. Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð, því að núna 27 árum seinna er þorskkvótinn 160 þús. tonn. Lagt var upp með 3 atriði til þess að ná þessu takmarki.

Í fyrsta lagi var sett á svokallað úreldingarákvæði, þar sem þeir sem vildu koma með ný skip til landsins, urðu að úrelda þrisvar sinnum, í tonnum talið, stærri skip. Eða svo að ég útskýri þetta á einfaldan hátt: ef þú lést smíða fyrir þig nýtt 100 tonna skip, þá þyrftirðu að kaupa og úrelda samtals skip upp á 300 þús. tonn. Þetta ákvæði var fellt út úr núverandi kvótakerfi með svokölluðum Valdimars dómi sem féll 1998, reyndar var nú margt annað í þeim dómi, en þáverandi ríkisstjórn ákvað að túlka dóminn þannig að með honum væri ekki hægt lengur að neita nýjum eða gömlum skipum um veiðileyfi. 

Annað atriði sem lagt var upp með í núverandi kvótakerfi, var að það myndi efla byggðir landsins, en sannleikurinn er sá að eftir að frjálsa framsalið var samþykkt, þá hafa fjöldi byggðalaga allt í kringum landið nánast lagst í eyði vegna þessa kvótakerfis.

Þriðja atriðið og það lykil atriðið, var að þetta væri eina leiðin til þess að byggja upp þorskstofninn. Eins og kemur fram áður í greininni, þá hefur það algjörlega mistekist. 

Frjálsa framsalið:

Árið 1991 voru samþykkt lög á Alþingi Íslendinga um frjálsa framsalið sem átti að stuðla að hagræðingu og betri nýtingu á fiskistofnunum. Fjölmargir aðilar bentu þá þegar á það að ákveðin hætta væri á því, að þetta gæti leitt til gríðarlegrar skuldsetningar á sjávarútveginn og hefur það gengið eftir. Á fyrstu árum frjálsa framsalsins ákváðu margir af þeim sem höfðu fengið mest úthlutað af kvóta í sinn hlut, m.a. hér í Vestmannaeyjum, að nýta sér aðstöðu sína og kaupa upp þá sem voru bæði minni og/eða stóðu ekki eins vel fjárhagslega og keyptu upp mikið af aflaheimildum. Verðið þá á þorsk kg. á fyrstu árum kerfisins var oft 20-30 kr. kg. Í dag hins vegar eru menn að tala um á þriðja þús. kr. kg. og fór þegar hæst var í fjögur þús. kr. kg. með tilheyrandi veðsetningu, en í dag er hver einasti fisktittur á Íslandsmiðum veðsettur og að sumra mati jafnvel marg sinnis. Að mínu mati er frjálsa framsalið einhver stærstu mistök í Íslenskum sjávarútvegi fyrr og síðar og að mínu mati, þá er í raun og veru nóg að horfa á leiguverð á aflaheimildum í dag og bera það saman við söluverð á fiskmörkuðum. Þegar það er gert, þá finnst mér nokkuð augljóst hvers vegna þorskstofninn hefur ekki náð að braggast og þegar horft er á nýjustu útreikningar Hafró, þar sem nú þegar er búið að setja inn lið sem heitir einfaldlega Áætlað brottkast á fiski, þá er þetta í mínum huga engin spurning. Frjálsa framsalinu fylgir einfaldlega gríðarlegur hvati til þess að henda verðminna fiski, ásamt alls konar svindli og svínaríi og meira að segja sú ágæta hugmynd á sínum tíma, að setja á svokallaðan Hafró fisk, sem þýddi það að menn gátu komið með í land 5 % úr hverjum róðri án þess að hann drægist frá þeirra eigin kvótum, það ákvæði er í dag einnig misnotað, því Hafró fiskurinn er seldur á fiskmörkuðum, útgerðarmennirnir fá 20% af söluandvirðinu og því einfalt að reikna það út að munurinn á því að setja smáan eða stóran fisk í Hafró getur skilið á milli þess, hvort menn fái 40 kr. í sinn hlut eða jafnvel 100 kr. og stór spurning hvort ekki hefði verið nær að hafa Hafró hlut útgerðarinnar sem fasta upphæð pr. kg. 

Í gegnum árin hef ég einnig heyrt margar ljótar sögur af útgerðarmönnum sem dæmi eru um að hafi sent skip sín á veiðar og jafnvel látið þá henda öllum fiski í þeim tegundum sem ekki er verið að veiða. Sem betur fer heyrir þetta þó til undantekninga, enda mikill meirihluti útgerðarmanna í dag heiðarlegir útgerðarmenn, en þetta frjálsa framsal er einfaldlega svo fáránleg hugmynd að svartir sauðir munu alltaf vera til á meðan þetta kerfi er við lýði og að mínu mati engin spurning, að þennan hluta kvótakerfisins ætti nú þegar að leggja niður. Stærsta vandamálið hins vegar við það, er að kerfið hefur verið það lengi við lýði að allt í kringum landið hafa byggst upp útgerðir sem treysta á og gera út á leigukvótann. Ég er samt á þeirri skoðun að leggja eigi frjálsa framsalið niður, en til þess að það gangi upp, þá þarf að koma til auknar aflaheimildir frá ríkinu á sanngjörnu leiguverði. Að mínu mati er það einfaldlega eina leiðin til að stöðva allt það rugl sem er í núverandi kerfi. Margir hagfræðingar benda líka á það, að frjálsa framsalið hafi verið upphafið að bankahruninu. Að vissu leyti er það rétt, enda sjáum við fjölmörg dæmi um það að útgerðarmenn, sem hafa tekið lán út á aflaheimildir sínar og farið hamförum í braski með verðbréf og annað slíkt og hafa tapað nánast öllu sínu og sett þar með í uppnám störf sjómanna sinna og tekjur fjölskyldna þeirra. Þetta geta menn ennþá gert í óbreyttu kvótakerfi og þetta verður að stöðva.

Annað sem ég tel að þurfi að breyta er þessi svokallaði geymsluréttur á kvótum á milli fiskveiðiára. Ég man eftir því þegar geymslurétturinn var aukinn úr 20% í  33% að kröfu útgerðarmanna. Daginn eftir að þetta var gert hækkaði leiga á flestum tegundum um 13%. Í dag hefur þessu verið snúið til baka að hluta til, en ég tel að í staðinn fyrir geymslurétt væri nær að taka upp t.d. það sem ég hef kallað mínus rétt, sem er þá þannig að útgerðarmönnum væri leyft að fara 10-15% yfir í alfaheimildum, en væru um leið skyldaðir til þess að veiða allar sínar aflaheimildir og að sá kvóti sem brynni inni (skiptir þúsundum tonna á hverju ári síðustu ár) yrði þá leigður leiguliðum frá ríkinu á nýju fiskveiðiári, en að menn haldi hlutdeildinni eitthvað áfram, en þessi geymsluréttur er einmitt eitt af því sem hefur hækkað leiguverð það mikið að flest allir leiguliðar í dag lifa við hungurmörk.

Keila, langa og skötuselur:

Að mínu mati ætti nú þegar að taka þessar tegundir úr kvóta strax. Rökin fyrir kvótasetningu á þessum tegundum voru í raun og veru engin. Vissulega yrði ekki hægt að leyfa algjörlega frjálsar netaveiðar á skötusel, en það væri t.d. hægt að úthluta ákveðnum fjölda báta í einu. Sama gildir um netaveiðar á löngu, að mínu mati væri óhætt að leyfa þær frjálst frá áramótum og út júní, en eftir það væru þær alveg frjálsar á króka. Ég sé í nýjasta hefti Fiskifrétta viðtal við nýjasta sérfræðing Hafró um keilu og löngu, þar sem kemur fram að veiðar á þessum tegundum hafi farið allt að 75% fram úr ráðlagðri hámarksveiði Hafró og samt er samkv. rannsóknum Hafró stofnstærðirnar í þessum tegundum að stækka á hverju ári, þrátt fyrir þá staðreynd, þá lýsir starfsmaður Hafró því yfir í lok greinarinnar, að það þurfi að fara að stöðva þessa umfram veiði í þessum tegundum til þess að byggja þær upp. Mjög furðulegt allt saman, en að mínu mati er orðið gríðarlega mikilvægt að fara að fá óháða aðila til þess að endurskoða öll reiknilíkön og vinnubrögð Hafró, enda þekkt fjölmörg dæmi um misræmi í þeirra gögnum og útreikningar sem marg oft hefur sýnt sig að séu rangir ein og í þessu tilviki með keiluna og lönguna. Ég tel einnig að það mætti hugsanlega skoða það að taka fleiri tegundir úr kvóta, eins og t.d. ufsa, en þá yrði að sjálfsögðu að koma til annars konar stýring, en a.m.k. tel ég óhætt að taka keilu, löngu og skötusel úr kvóta. Ég tek það einnig fram, að ég hef nú þegar heyrt margar ljótar sögur af því hvernig ákveðin fyrirtæki undirbjuggu sig varðandi kvótasetningu á keilu og löngu á óheiðarlegan hátt. Sumt af því hef ég fengið staðfest, en einmitt þær staðreyndir styrkja mig í þeirri trú að þær tegundir ættu ekki að vera í kvóta yfir höfuð.

Uppsjávarveiðar:

Að mínu mati þá hefur tekist ágætlega að stjórna uppsjávarveiðum og ef tekið er mið af allri þeirri óvissu sem fylgir úthlutun á bæði loðnu, síld og fleiri tegundum og þeim kostnaði sem fylgir því, að byggja bæði skip til þessarar veiða, vinnslustöðvar og bræðslur, þá tel ég að í bili a.m.k. sé ekki verjandi að gera neinar verulegar breytingar á þessum hluta fiskveiða á Íslandsmiðum.

Smábátar:

Fram að 2001 voru smábátaveiðum fyrst og fremst stjórnað með svokölluðu þorskaflahámarkskerfi, þar sem útgerðarmenn þurftu að hafa kvóta fyrir þorski en var frjálst að veiða í öllum öðrum tegundum. Þetta kerfi var eingöngu fyrir báta undir 6 tonnum. Árið 2001 var ákveðið að setja allar tegundir í kvóta og leyfa stækkun upp í allt að 15 tonna bátum, með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Þá þegar varaði ég við þessari hugmynd, enda nokkuð augljóst að fjöldi 15 tonna báta þyrfti að sjálfsögðu mun meiri aflaheimildir heldur en fyrir fundust í kerfi smábátasjómanna, enda staðreynd í dag að meirihluta þeirra aflaheimilda sem stórútgerðin leigir frá sér, er leigð smábátum, en um leið er slagurinn um kvótann orðinn enn meiri og núna þegar aflaheimildir í ýsu hafa verið skornar niður um liðlega helming á 3 árum, er alveg ljóst að hvatinn til þess að flokka og henda smærri ýsu gríðarlegur, nú þegar hef ég heyrt ljótar sögur af slíku. Þorskaflahámarkskerfið er að mínu mati eitthvert besta kvótakerfi sem ég hef starfað í og ég vildi svo sannarlega óska þess að það kerfi yrði einhvern tímann tekið upp aftur, t.d. hafa norðmenn notað slíkt kerfi í fjölda mörg ár við mikla ánægju útgerðarmanna og eru þar með lausir við þennan endalausa slag um kvótann og brottkastið framtíðinni til heilla.

Að lokum þetta:

Ég tel það alveg augljóst að Íslenska þjóðin mun aldrei samþykkja það að auðlindin sé í eigu einhverra örfárra og augljóst að þessu kerfi verður breytt, spurningin er bara hvenær og svo fyrst og fremst hvernig?

Að mínu mati mun núverandi kvótakerfi aldrei byggja upp neina fiskstofna. Ástæðan er frjálsa framsalið og allt það sem því fylgir og mér þykir dapurlegt að heyra það, að það eina sem maður fréttir af núverandi hugmyndum ríkisstjórnarinnar gangi fyrst og fremst út á það, að taka aflaheimildir frá núverandi handhöfum til þess að færa þær einhverjum öðrum. Slíku er ég algjörlega mótfallinn, enda hef ég marg oft sagt það og skrifað, að útgerðin er lífæð okkar Eyjamanna og algjörlega óverjandi að taka aflaheimildir af mönnum sem hugsanlega hafa keypt þær án þess að með þeim fylgja einhverjar skuldir sem til hafa komið vegna kaupa á aflaheimildum a.m.k. á síðustu árum á þeim fáránlegu verðum sem þá voru í gangi. Hitt er svo annað mál, það er nauðsynlegt að breyta þessu kerfi og það væri óskandi að útgerðarmenn væru tilbúnir að koma að þeirri vinnu, því sannleikurinn er sá, að við sem störfum í útgerð í dag eigum að sjálfsögðu að hafa það í huga að við erum fyrst og fremst tímabundið, með nýtingarréttinn á auðlindinni og markmið okkar á fyrst og fremst að vera það, að skila fiskistofnunum í betra ástandi til framtíðarinnar, heldur en þegar við tókum við þeim, en það erum við svo sannarlega ekki að gera í dag.

Meira seinna.


Að gefnu tilefni

Bloggfríi lokið og þó fyrr hefði verið.

Um síðustu helgi þurfti ég að fara til Reykjavíkur og þar sem að frúin ákvað að koma með, þá ákváðum við að gera svolítið vel við okkur og taka tilboði um gistingu sem birst hefur reglulega í Fréttum, bæjarblaði Vestmannaeyja, frá Hótel Arnarhvoll Center hótel, Ingólfsstræti 1, Reykjavík. Ætlunin var að fara á laugardagsmorgun með Herjólfi og gista eina nótt á þessu hóteli, allt innifalið. Á laugardagsmorgun hinsvegar, vöknuðum við bæði með flensuvott og ákváðum því að sleppa ferðinni, bakfærðum miðana í Herjólf og hringdum síðan í hótelið þar sem okkur var tilkynnt, að það væri ekki hægt að afpanta og þó svo að það hafði hvergi verið tekið fram í auglýsingunni (eða ég hef allavega ekki séð það), þá er þetta hótel með þá reglu í gildi að ef fólk afpantar ekki með tveggja sólarhringa fyrirvara, þá verður það að borga hótelið að fullu. Mér þótti þetta mjög ósanngjarnt, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hótelið auglýsir sérstaklega gistingu fyrir eyjamenn og ef tekið er mið af því, hversu óöruggar samgöngur okkar eru þessa dagana, þá get ég ekki mælt með þessu hóteli og mun aldrei panta þar gistingu aftur.

 

Af öðrum málum, þá er ég núna að vinna grein um sjávarútvegsmálin, sem nú allt í einu eru komin aftur upp á yfirborðið, en því miður, eins og svo oft áður, er umræðan hér í eyjum afar furðuleg, vægast sagt, og einhliða.

Varðandi Landeyjarhöfn, þá hef ég nú sagt í raun og veru allt sem hægt er að segja um þessa framkvæmd, bæði löngu áður en verkið hófst og eftir að verkinu lauk, þ.e.a.s. ef því er lokið? En mér þykir það afar sorglegt að nánast hver einasta athugasemd sem ég setti við þessa framkvæmd á undirbúningstímabilinu, hefur gengið eftir og kannski fyrst og fremst dapurlegt að lesa umfjöllun í Fréttum, Vestmannaeyja, núna fyrir helgi þar sem greinilega kemur fram þrýstingur yfirmanna Siglingamálastofnunar og bæjarstjórans í Vestmannaeyjum á skipstjórana á Herjólfi, þeim fyrrnefndu til skammar.

Meira seinna.


Gleðileg jól, allir

Í tilefni jóla óska ég öllum blogg og fés vinum mínum innilegra gleðilegra jóla og vona að við öll fáum að eiga gleði, friðar og ánægju jól með fjölskyldum okkar.

Af Titanic Eyjamanna.

Nokkuð síðan ég skrifaði síðast, og nenni varla að skrifa meira um Landeyjahöfn en þar sem ég hef fengið nokkrar spurningar varðandi síðustu skrif, þá ætla ég að svara þeim núna og taka stöðuna eins og hún er í dag. Varðandi nýjustu hugmyndir Siglingarstofnunar um að leysa vandamál hafnarinnar að einhverju leiti með því að færa Markarfljót, þá hef ég borið þetta undir töluverðan fjölda fólks og eru allir einróma sammála um það, að þetta muni engu breyta. Þessar nýjustu hugmyndir ollu mér einnig miklu vonbrigðum vegna þess, að fyrir nokkru síðan heyrði ég af því að hjá Siglingamálastofnun væru uppi hugmyndir um að lengja austari garðinn, sem að ég tel að sé virkilega spennandi lausn varðandi austanáttina og sandburðinn, en hvers vegna sú hugmynd er síðan ekki borinn upp verð ég að leyfa mér að giska á að sé vegna kostnaðar, en menn hafa nefnt við mig að kostnaður við að lengja austari garðana um eitt til tvö hundruð metra gæti farið í allt að tvo milljarða og ljóst að þar með væri höfnin færi langt fram úr kostanaðar áætlum, en að mínu mati væri þetta virkilega spennandi lausn uppá austanáttina og sandburðinn.

Það ömurlegasta sem ég hef heyrt að undanförnu, er afar mikil gagnrýni á skipstjóra Herjólfs og meira að segja landkrabbar sem aldrei hafa migið í saltan sjó farnir að tala um vanhæfa skipstjóra og að þeir séu hræddir við Landeyjahöfn. Ótrúlegt að heyra þetta, en eins og allir vita þá er það skipstjórinn á skipinu sem ekki bara ræður, heldur ber alla ábyrgð á því ef eitthvað fer úrskeiðis og sem ágætt dæmi um slæm áhrif á því þegar landkrabbar grípa inní störf skipstjóra, þá minni ég á söguna um Titanic þar sem eigandinn á skipinu heimtar meiri ferð til að reyna að setja met með þeim hörmulegu afleiðingum sem þar urðu.

Margir hafa komið að máli við mig vegna síðustu greinar, þar sem ég skora á þá fimm sem að mínu mati bera mesta ábyrgð á því að farið var í þessa framkvæmd. Gagnrýnin hefur fyrst og fremst falist í því að fólk vilji bæta við aðilum sem eigi að segja af sér og til dæmis eru nefndir þingmennirnir Björgvin G. og Unnur Brá. Einnig hefur verið nefnt við mig Gísli Viggósson hjá Siglingastofnun, en ég hef svarað þessu þannig, að Gísli er vissulega að hluta til arkitektinn af höfninni, en hann er hinsvegar ekki yfirmaður sem stjórnar verkinu og hann hefur ítrekað gefið upp þá skoðun sína, að ekki yrði hægt að nota núverandi Herjólf í Landeyjahöfn yfir vetrarmánuðina. Varðandi þingmennina, þá nefni ég aðeins þessa þrjá sem ég nefndi vegna þess, að þeir höfðu mest um það að segja að þessi leið var farin. Varðandi bæjarstjórann, þá er að mínu mati nægilegt að benda á hálfhlægileg skrif hans í fréttum í lok ágúst, þar sem að hann þakkar sér og bæjarstjórninni fyrir að hafa staðið af sér undirskriftarsafnanir, eins og til dæmis undir nafninu "ströndum ekki" og það aðeins þremur dögum áður en skipið tók niðri í fyrsta skiptið í haust. En svo er það kannski aftur spurning hvort að fleiri í bæjarstjórninni ættu ekki líka að segja af sér?

Margir hafa spurt mig um kostnaði hjá mér í haust, eða rétt er að segja tap, og hvernig ég reikna þetta út. Því er auðsvara. Meðal róður hjá mér er ca tvö hundruð þúsundir og er ég búin að missa af tveimur róðrum í haust og samtals fimm vinnudaga, þar af var frúin með mér í byrjun september þegar við vorum föst í þrjá daga upp á landi og missti þar af leiðandi launin þá daga, en við vorum á ódýru gistiheimili í bænum  sem kostaði tíu þúsund krónur með morgunnmat, en samtals er tjón mitt í haust vegna Landeyjahafnar komið í ca sex hundruð þúsund og því að mínu mati eðlilegt að ég hafi verið orðinn pínulítið pirraður á þessu ástandi þegar ég skrifaði síðustu grein, en ég stend að sjálfsögðu við greinina þó að ég voni að sjálfsögðu, eins og allir Eyjamenn, að hægt verði að laga Landeyjarhöfn, en til þess að svo verði, þá verða starfsmenn Siglingamálastofnunar og ráðamenn að fara að hlusta á Eyjamenn og ekki bara landkrabbana. 

Meira seinna.


Enn einu sinni fastur uppi á landi...........

.........og þetta er í 3 skiptið á 2 mánuðum sem ég þarf að kaupa mér gistingu og missa af vinnu ásamt öðrum óþægindum, og er tjón mitt orðið um 500 þús. krónur á þessu Landeyjaklúðri, og mér er sagt að ferð Herjólfs til Landeyjarhafnar í hádeginu í dag hafi verið aflýst vegna þess, að skipið hafi verið við það að taka niðri á flóðinu í morgun í Landeyjahöfn. Einnig er mér sagt að uppi séu hugmyndir um að loka Landeyjahöfn hugsanlega restina af vetrinum. Hef ég því ákveðið að skora á eftirtalda aðila að axla sína ábyrgð og segja af sér: Sigurður Áss Grétarsson, Siglingamálastofnun, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Kristján Möller, alþingismann og fyrrverandi samgönguráðherra, Róbert Marshall, alþingismann og Árna Johnsen, alþingismann.

 

Kv. Georg E. Arnarson


Af bankahruni og Landeyjahöfn

Mjög merkilegt að sjá í fréttunum í kvöld hversu slæmt ástandið er í Írlandi, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að aðstæður eru ekki ósvipaðar og hér á landi. Írar virðast þó vera með það á hreinu að það sé ekki bara stjórnmálamönnum og eftirlitskerfum um að kenna, heldur einnig bönkunum sjálfum og  þegar maður hugsar til baka um hvernig bankarnir á Íslandi höguðu sér síðustu árin, lánandi oft á tíðum pólitískum samherjum sínum og ættingjum stórar upphæðir með einungis veði í sjálfum sér, þá er í sjálfu sér engin furða þó að staðan sé jafn slæm og hún er.

Margir fagna nýútkomnum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um það hvernig hægt sé að koma til móts við yfirskuldsett heimili og hvernig ætlunin er, ef frumvarpið fer í gegn, að fyrna skuldir sem fólk getur ekki borgað á tveimur árum. Þetta er allt saman gott og blessað, en ég set þó stóran var nagla við það að það eigi að vera bönkunum í sjálfvald sett að taka ákvörðun um það, að þegar fólk sem misst hefur allt sitt og hefur ekkert getað eignast í tvö ár, að þá geti bankarnir, ef þeim sýnist, viðhaldið og endurnýjað aðfarar beiðnina og það jafnvel hugsanlega aftur og aftur? Ég hefði talið að mun skynsamlegra að eftir tvö ár, þá væri málinu einfaldlega lokið, enda að mínu mati kannski ekki það skynsamlegasta að fela bankastofnunum, sem svo sannarlega hafa farið illa að ráði sínu undanfarin ár, að taka ákvörðun um það hvort að skuldir upp á milljarða séu afskrifaðar eða ekki?

Lítið að gerast í Landeyjahöfn og kannski eins gott, það spáir stormi á morgun. Það sem ég hef velt mest fyrir mér að undanförnu, eins og fleiri Eyjamenn, er hvernig í ósköpunum starfsmenn Siglingamálastofnunar fengu það út, að ríkjandi vindátt í Eyjum væri suðvestan átt? Þetta eru afar furðuleg vinnubrögð, þessi niðurstaða, því að það þarf ekki annað en að lesa útgerðarsögu Vestmannaeyja sem og aðrar sögur tengdar Eyjum og slysum við Eyjar. Í 90% tilvika gerast flestar slysasögur á sjó við Eyjar í austanáttum. Eina sem að mér dettur í hug, sem skýrir þessa niðurstöðu þeirra hjá Siglingamálastofnun er, að þeir hafi aðeins fylgst með vindafari við Eyjar á sumrin, því á sumrin, þegar mikið er um hægviðri eins og síðust ár, þá er það alþekkt að hér geri sólfarsvind sem lýsir sér oft með suðvestan átt upp úr hádegi, en það hafa lundaveiðimenn í Eyjum löngum nýtt sér.

Þegar ég les yfir allar þær athugasemdir sem ég skrifaði á sínum tíma, þá rek ég augun í það að marg oft nefndi ég austanáttina, sem eitthvað sem menn ættu að hafa í huga við val á staðsetningu hafnarinnar, enda er ég á þeirri skoðun, að ef höfnin hefði verði svona ca. 6 mílum vestar, þá hefðum við verið alveg laus við þessi vandamál í austanáttinni. Annað sem mig langar að nefna líka úr eldri umfjöllun er niðurskurður á heilsugæslunni. Þetta nefndi ég oft og eins fleira, því oft sinnis taldi ég upp að tenging við byggðirnar á suðurlandi, sem svo sannarlega er jákvætt, hefðu augljóslega þann galla að ríkið myndi að sjálfsögðu horfa til þess og skera niður þjónustu á vegum ríkisins, eins og nú þegar liggur fyrir, fækkun starfa á Herjólfi, hugmyndir um niðurskurð hjá löggæslunni, skattstofan hugsanlega færð í burtu og svo það nýjasta, niðurskurður á heilsugæslunni. Allt tengist þetta því að að sjálfsögðu fáum við Eyjamenn ekki allt fyrir ekki neitt. Reyndar eru ótrúlega margir Eyjamenn á þeirri skoðun sem að kom fram í máli forstjóra Siglingamálastofnunar í ágætu Kastljós viðtali í síðustu viku, þ.e.a.s. að málinu verði reddað. Vonandi gengur það eftir.

Meira seinna.


Bankahrun = heilaþvottur

það er mikið skrifað og skrafað um bankahrunið og viðbrögð ríkisstjórnarinnar til hjálpar ofurskuldsettum landsmönnum og tillögum Ríkisstjórnarinnar um niðurskurð og hækkandi skatta og í framhaldi af því, hávær mótmæli um allt land, sérstaklega vegna niðurskurðar hjá heilsugæslunni, en bara svo að mín skoðun á því sé alveg á tæru, þá er það þannig að á sama hátt og útgerðin er lífæð okkar Eyjamanna, þá er öflug heilsugæsla algjört lykilatriði í því að halda Eyjunni okkar í byggð.

Margt hefur vakið athygli mína að undanförnu hjá hinum og þessum aðilum í umfjöllum um ástæðum bankahrunsins, en þó sérstaklega umfjöllun á RÚV síðustu vikur, þar sem samasem merki er sett á milli hruns Íslenska bankakerfisins og hruns Enron, stærsta banka Bandaríkjanna og m.a. ástæðan fyrir því hvernig fór útskýrð með tveimur tilraunum, sem vöktu athygli mína. 

Í fyrsta lagi, þá var maður ráðinn í vinnu til að taka þátt í spurningarkeppni. Honum var afhentur hnappur til að ýta á, og sagt að það væri til þess að ef maðurinn, sem væri staddur í næsta herbergi, svaraði spurningum vitlaust, þá ætti hann að ýta á hnappinn og þá fengi sá hinn sami raflost. Honum var jafnframt tilkynnt að maðurinn í næsta herbergi væri hjartveikur, en að hann bæri enga ábyrgð á því. Hófst síðan leikurinn og í hvert skipti sem rangt svar kom, heyrðist öskur úr næsta herbergi. Þegar leið á, þá fór mælir að sýna ansi háan styrk á raflostinu og fór maðurinn þá að hafa áhyggjur, en var alltaf fullvissaður um það að þetta væri í lagi og hann bæri enga ábyrgð. Þegar leiknum lauk, var maðurinn farinn að senda rafstraum sem er tvisvar sinnum hærri en það sem venjulegt fólk þolir, en samt hélt hann áfram, en það skal tekið fram að að sjálfsögðu var enginn straumur sendur, heldur var sá sem öskraði aðeins að leika. 

Annað svipað atriði var þannig, að 22 læknanemar fengu þau skilaboð frá yfirkennara sínum, að þeir ættu að fara og sækja ákveðið lyf og gefa ákveðnum sjúklingi ákveðið magn af lyfinu. Þetta var þannig útbúið að lyfið var eitthvað sem þeir þekktu ekki, en á pakkningunni utan um lyfið var tekið skýrt fram hver hámarks skammturinn væri, en í fyrirmælunum var þeim sagt að gefa tvöfaldan þann skammt og af 22 læknanemum, var 21 gripinn á leiðinni með lyfið til að gefa sjúklingnum.

Í sjálfu sér má segja sem svo, að þetta séu ágætis dæmi um það sem var að gerast í bönkunum. Þeir sem réðu ferðinni var einfaldlega trúað í einu og öllu og nánast alveg sama, hver átti í hlut, öllum efasemdarröddum var einfaldlega eytt með orðum eins og: En þú berð ekki ábyrgðina.

En hvað er hægt að gera fyrir skuldsett heimili, í mörgum tilvikum yfirveðsett vegna gengishrunsins? Mín skoðun á því er þannig, að í lögum er þetta þannig að ef þú kaupir eign með veði í eigninni, borgar inn á, en getur síðan ekki borgað meir. Eignin fer á uppboð, þá er í mörgum tilvikum fólk einfaldlega vegna skuldbindingar ef eignin er meira virði heldur en áhvílandi skuldir. Um þetta hafa margir dómar fallið. Vandamálið er hins vegar það, að nú eru eignirnar yfirveðsettar. Bankarnir sem í mörgum tilvikum lánuðu og ráðlögðu fólki oft að taka lán í erlendum gjaldmiðlum m.a. segjast ekkert geta gert, en ég velti því upp að ef við snúum dæminu þannig og gerum rétt fólksins hærri heldur en bankanna á svipaðan hátt og lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttir, eða þannig að lög séu sett sem segja það, að ef fólk getur ekki lengur ráðið við greiðslur af sinni eign og bankarnir neita að lækka skuldirnar, þá geti það skilað inn lyklunum og sé jafnvel laust allra mála? Þannig held ég að auðveldara verði að fá bankana til þess að semja við fólk og miða þá greiðslubyrði frekar við verðmæti eignanna og greiðslugetu fólksins. Vissulega hefði þetta slæm áhrif á fjármagnseigendur, bankana, lífeyrissjóðina og ríkið, en hvort er meira virði, þessar stofnanir eða það að halda fólkinu í landinu?

Meira seinna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband