Kosningarúrslitin síðustu helgi, kvótakerfið og lundinn

Kosningarnar hér í Eyjum síðustu helgi fóru nákvæmlega eins og ég spáði fyrir um, og það nánast upp á atkvæði og í sjálfu sér er lítið um þau að segja. Á landsvísu eignuðumst við Frjálslynd tvo bæjarfulltrúa, en áttum engan fyrir og erum því nokkuð sátt. Varðandi þá hugmynd okkar að skila auðu eða hundsa þessar kosningar, þá er ég kannski fyrst og fremst ánægður með það, hversu margir höfðu samband við mig og lýstu yfir stuðningi við okkur Frjálslynd, en sjálfur mætti ég ekki á kjörstað. Að sjálfsögðu óska ég kjörnum bæjarfulltrúum til hamingju með sitt, en þar sem engar breytingar urðu, þá er nokkuð ljóst að eina aðhaldið sem þessi nýi og gamli meirihluti fær næstu 4 árin, verður á svipuðum nótum og síðustu 4 árin, þ.e.a.s. frá undirrituðum og öðrum bæjarbúum.

Eitt vakti þó sérstaka athygli mína í málflutningi meirihlutans, það var þetta stöðuga umfjöllun á þeim nótum að hagsmunir allra Eyjamanna fælist í því að verja óbreytt kvótakerfi. Í sjálfu sér er ég að hluta til sammála því að þessi svokallaða fyrningarleið hljómar ekki mjög vel, en að mínu mati vantar fyrst og fremst upp á að nánari útskýringar liggi fyrir og þá t.d. hvað yrði um þann kvóta sem yrði fyrndur og þá hvaða möguleika við Eyjamenn ættum á að ná honum til okkar, en eftir öll þessi ár sem þetta kvótakerfi hefur mallað, þá finnst mér alltaf jafn undarlegt að heyra fólk verja þetta kerfi, en það er nú svo, hræðsluáróðurinn virkar og það kannski ekki síðast og síst í því mikla atvinnuleysi sem nú er á landinu. 

Ég þekki afar vel allt það rugl sem tíðkast hefur í þessu kvótakerfi, sumt hef ég fjallað um, annað ekki. Í dag, hins vegar, fékk ég spurningu sem kom mér á óvart og varð til þess að ég þurfti að velta þessu öllu upp enn og aftur, þegar dóttir mín, 7 ára, spurði mig þessarar spurningar:

Hversvegna færð þú þér ekki svona stóran bát með mörgum mönnum?

Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir 7 ára þetta fáránlega kvótakerfi, en ég reyndi þó og sagði:

Fyrir mörgum árum síðan, þá fengu þessir menn sem eiga þessi stóru skip úthlutað til sín hlutdeild í fiskinum í sjónum, tóku síðan lán út á fiskinn sem þeir áttu og keyptu þá sem voru minni og áttu enga peninga og minna af fiski og eiga í dag allan fiskinn í sjónum. 

Dóttir mín horfði á mig stórum augum og sagði svo:

Á einhver fiskinn í sjónum?

Og ég svaraði: 

Já, en þú lærir þetta betur þegar þú verður eldri.

Auðvitað hljómar þetta furðulega í huga þeirra yngstu, að einhver geti átt fiskinn sem syndir í sjónum. Ég held hins vegar, að í framtíðinni muni börnin okkar og barnabörnin ekki spyrja hvers vegna einhver hefði eignast fiskinn, heldur hvers vegna í ósköpunum hefði okkur dottið í hug að leyfa mönnum að veðsetja allan fiskinn í sjónum margfalt. Sem betur fer þarf ég ekki að svara fyrir það, þó svo að vissulega ég hafi neyðst til að taka þátt í þessu fáránlega kvótakerfi. Dapurlegast af öllu er þó sú staðreynd, að ef ekki verða gerðar breytingar á þessu kerfi þá mun það einmitt verða framtíðin, sem mun þurfa að takast á við þær skuldir, ekki ósvipað og við með Icesave og útrásarskuldirnar. 

Ég heyrði reyndar viðtal í vikunni við erlendan hagfræðing, að því er ég held, sem var að vara okkur Íslendinga við því að taka frekari erlend lán, því að það gæti hugsanlega bitnað á auðlindum okkar?

Það vakti athygli mína, eins og tvö síðastliðin ár, að enn og aftur er Erpur Snær kominn fram með sínar dómsdagsspár um lundastofninn í Eyjum. Merkilegt nokkuð, þá var það einmitt félagi í Veiðifélaginu á Heimaey, sem gerð sér ferð vestur á Hamar til að skoða í lundaholur sem eru mjög grunnar. Sá hann þar egg í hverri einustu holu, fór og sagði Erpi fréttirnar sem kom alveg af fjöllum, enda ekkert að fylgjast með því, en Erpur segir síðan í viðtali að hann leggist gegn veiðum eins og vanalega, þó svo að varpið fari betur af stað heldur en tvö síðustu árin.

Eitt vakti sérstaka athygli mína í þessu stutta viðtali við Erp, þar sem hann segir: 

Nú vantar ungfuglinn þar sem varp hefur misfarist undanfarin ár, er aðeins 10% af því sem eðlilegt getur talist. Stofninn er að minnka og veiðin verður varpfugl.

Alveg stórfurðulegt og í raun lætur Erpur í það skína á öðrum stað, að hann sé búinn að reikna út náttúrulegar breytingar á stofnstærð lundastofnsins í Vestmannaeyjum og gleymir þar algjörlega fjölmörgum staðreyndum, eins og t.d. töluvert af merktum ungfugl í Vestmannaeyjum hefur verið að veiðast fyrir norðan land. Lundastofninn í Vestmannaeyjum skiptir mörgum milljónum. Lundastofninn á Íslandi skiptir mörgum tugum milljóna. Megin hluti þeirra pysja sem komst á legg s.l. haust gerði það vegna þess, að lundinn var farinn að bera gulldeplu í pysjuna og fleira mætti telja til. Mín tillaga er því þessi: Veiðar verði leyfðar síðustu 10 dagana í júlí, hvort sem einhver veiði verður eða ekki, en skorað verði á veiðimenn að fara ekki oftar en 4-5 sinnum, í mesta lagi, í veiði og framhaldið skoðað eftir því, hvernig málin þróast.

Meira seinna.


Ómetanleg aðstoð

Ég vil hér með þakka öllum þeim sem stóðu við bakið á mér í mínum erfiðleikum. Sérstaklega vil ég þakka Georg Eið Arnarsyni, fjölskyldu minni og einnig þeim sem hafa stutt mig fjárhagslega.

Þetta er ómetanleg aðstoð, bæði fjárhagslega en ekki síst andlega og mun þeg nota þetta t´kifæri til að koma undir mig fótunum á ný. 

Innilegar þakkir, allir sem að málinu komu og Guð veri með ykkur.

Guðný Anna Tórshamar


Takk fyrir stuðninginn

Fyrir rúmum mánuði síðan settum við, aðstandendur Guðnýjar Önnu Tórshamar, af stað söfnun henni til handa vegna fráfalls Jóhannesar Esra Ingólfssonar og erfiðleikum sem á eftir fylgdu, þar með talið fjárhagslegum.

Formlega er nú söfnuninni lokið, þó svo að reikningsnúmerið verði opið eitthvað áfram. Reikningsnúmerið er: 1167-05-600 og kennitalan 180153-3819.

Viðbrögð hafa verið framar vonum okkar og kunnum við öllum innilegar þakkir. Það er afar ánægjulegt að sjá að Eyjamenn eru tilbúnir að standa saman þegar á reynir.

Fyrir hönd aðstandenda

Georg Eiður Arnarson


Gleðilega eurovision helgi allir

Vegna anna að undanförnu, hef ég hreinlega ekki mátt vera að því að skrifa, en nú skal bætt úr. Ég hef reynt að lesa flest af því sem flokkarnir sem bjóða fram næstu helgi hafa látið frá sér, en í raun og veru hefði verið nóg að lesa frá einum flokki, vegna þess að ekkert af þessum framboðum sker sig úr í stefnumálum. 2006 hins vegar þótti mér spennandi kostur að bjóða fram með það málefni á oddinum, að koma af stað uppbyggingu á Eiðinu fyrir stórskipahöfn, ferjuaðstöðu og hugsanlega þurrkví. Gömlu flokkarnir tóku þetta málefni líka upp á sína arma á þeim tíma, en eitthvað hefur lítið verið um efndir á þessu kjörtímabili. Einnig hef ég hvergi séð minnst á þetta mál í stefnuskrám flokkanna.

Af kosningaloforðum flokkanna 2006, þá er kannski minnisstæðast sú ákvörðun Sjálfstæðismanna að höfða til þeirra sem voru á móti frekari uppbyggingu á íþróttamannvirkjum, með því að lofa því að ekki yrði farið í það að byggja knattspyrnuhús, svo nú er spurning hvort að þeir kjósendur sem keyptu þetta loforð borgi til baka? 

V-listinn gerða þá, eins og núna, að lofa litlu eða engu, enda einfaldast að standa við það sem ekki er gefið. Reyndar sagði mér eldri V-lista maður sem ekki er í framboði núna, frá því fyrir nokkru síðan, að aðal málið hjá V-listanum hefði alltaf verið: "Að berja á helvítis íhaldinu" og spurning hvort að það sé ekki svo ennþá í dag? 

Í síðustu grein minni sendi ég áskorun á frambjóðendur D og V-lista, henni hefur að sjálfsögðu ekki verið svarað og er ég í sjálfu sér sáttur við það, enda engan sérstakan áhuga að rifja upp vinnubrögð þessara flokka. 

Eitt atriði stendur sérstaklega upp úr á þessu kjörtímabili, atriði sem að mínu mati skilur algjörlega á milli kjósenda og núverandi bæjarstjórnar. Tæplega helmingur Eyjamanna skrifaði undir í undirskriftarsöfnun, þar sem óskað var eftir því að við fengum að kjósa um okkar framtíðar samgöngumál. Þessu hundsaði bæjarstjórnin algjörlega og maður spyr sig: Hvar var lýðræðið þá? Því að samgöngumál er að sjálfsögðu ekki mál sem við kjósum um til fjögurra ára í senn. Öll framboðin keppast við að dásama Landeyjarhöfn og allt sem henni tengist og þau tækifæri sem hugsanlega geta skapast þar og í vikunni gekk núverandi bæjarstjórn svo langt, að leggja til fjármuni frá bænum í samráði við Eimskip, í tilraun til þess að tryggja að farið verði 4 ferðir á dag.  (Hver sagði aftur 7-8 ferðir á dag?) Hvernig Landeyjarhöfn eigi eftir að reynast veit enginn, en staðan er hins vegar mikið áhyggjuefni, t.d. hef ég heimildir fyrir því, að þó svo að ferðir með skipinu verði hugsanlega 4 ferðir á dag, þá er ekki búið að tryggja nema 2 ferðir með rútu á dag, kvölds og morgna, en þessu á þó að vera hægt að kippa í liðinn. Öllu verra er að frá og með 1. sept. erum við búin að missa varahöfnina, Þorlákshöfn, og ljóst að mikið mun mæða á áhöfn Herjólfs næsta vetur. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið mér hvað mest á óvart í þessari kosningabaráttu með því að fara að tengja saman annars vegar sveitarstjórnarkosningar og hins vegar núverandi kvótakerfi. Afar furðulegt, en einnig lúmskt þ.e.a.s. gagnvart fólki sem ekki skilur hversu fáránlegt núverandi kvótakerfi er. Elliði bæjarstjóri þakkar í síðustu viku einnig Sjálfstæðisflokknum fyrir það, að í fyrsta skipti í mörg ár hafi Eyjamönnum fjölgað. Þetta er vissulega rétt, en svo er aftur stór spurning hvort að þetta sé ekki frekar Sjálfstæðismönnum að kenna, því þeir bera mesta ábyrgð á hruninu. Afleiðingarnar eru mestar á höfuðborgar svæðinu og fólk leitar því eðlilega út á landsbyggðina, þar sem atvinnuástandið er betra m.a. hér í Vestmannaeyjum.

Varðandi kosningaúrslitin um næstu helgi, þá finnst mér frekar ótrúlegt að hér verði einhverjar verulegar breytingar. Ekki hugnast mér Framsóknarmenn, enda höfum við Eyjamenn slæma reynslu af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að passa svolítið sín vinnubrögð á þessu kjörtímabili, en um leið mokað dyggilega undir sig og sína og keypt sér þannig frekara fylgi. V-listinn hins vegar, hefur ekki verið sýnilegur á kjörtímabilinu og í raun og veru held ég að fáir Eyjamenn geri sér grein fyrir því, út á hvað þetta framboð gengur, annað en sem mótvægi við íhaldið. Hitt er þó nokkuð augljóst, að öll þessi framboð eru með sama markmiðið, fyrst og fremst að ná völdum hér í bæ, hvað sem það kostar. Þess vegna ítreka ég enn og aftur ákvörðun og áskorun bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins, við ætlum að sitja hjá og/eða skila auðu.

Gleðilega eurovision helgi allir.

 


Sveitarstjórnarkosningar 2010

Eyverjar með Margréti Rós í fararbroddi, senda okkur Frjálslyndum tóninn í síðustu viku og telja að við höfum með ályktun okkar hvatt almenning til að hundsa sinn lýðræðislega rétt til þess að hafa áhrif á samfélagið. Fyrir það fyrsta, þá er ég mjög ánægður að sjá það að hún og aðrir Eyverjar hafi kynnt sér vel ályktanir Frjálslynda flokksins (hægt að nálgast á www.xf.is) hins vegar, þá skautar Margrét algjörlega framhjá ástæðunni sem gefin er upp í ályktun okkar, en til upprifjunar fyrir hana og aðra, þá er þetta svona:

Árið 2006 bauð Frjálslyndi flokkurinn fram lista og urðum við vitni að vafasömum vinnubrögðum gömlu fjórflokkanna, sem við vorum ekki og erum ekki sátt við. Þess vegna hvetjum við okkar fólk í Eyjum og aðra sem styðja stefnu Frjálslynda flokksins að hundsa þessar kosningar með því að sitja heima eða skila auðu. 

Við sem stóðum að þessu framboði 2006 vorum flest okkar ný og óreynd á hinu pólitíska sviði, sjálfur hafði ég aldrei komið nálægt neinum kosningum áður enda engar sérstakan áhuga á pólitík. Ég hafði hins vegar oft heyrt ljótar sögur af vinnubrögðum flokka, sem telja að pólitísk völd skipti meira máli heldur en heiðarleg og manneskjuleg samskipti fólks. Þess vegna ákvað ég að fylgjast sérstaklega með vinnubrögðum gömlu flokkanna. Vonbrigði mín við því sem ég varð vitni að voru gríðarleg og kannski má segja sem svo, að aldrei hefði ég trúað því að fólk gæti lagst svona lágt í að reyna að fá fólk, sem í mörgum tilvikum á kannski erfitt með að svara fyrir sig eða þolir illa margs konar áreitni, til þess að kjósa sig. Þar sem ég hef líka heyrt í V-lista mönnum, þá ætla ég hér með að gera þessum stóru framboðum sameiginlegt tilboð: 

Hafið þið samband við mig? og ég mun kanna hjá fólki sem að við Frjálslynd vorum vitni að, að voru tekin í gegn fyrir kosningarnar 2006, og birta sögur þeirra hér á blogg síðu minni ef þau vilja ?

Varðandi lýðræðislegan rétt fólksins til að hafa áhrif á samfélagið, þá er áskorun okkar Frjálslyndra engin krafa, heldur fyrst og fremst tilmæli og þá sérstaklega ef tekið er tillit til þess að einu flokkarnir sem eru í framboði hér í Eyjum, eru nákvæmlega sömu flokkar og bera mesta pólitíska ábyrgð á hruni Íslenska fjármálakerfisins, og svo að ég nefni eitt enn, þá var gefið fordæmi fyrir þessum tilmælum okkar Frjálslyndra 2006 þar sem Framsóknarmenn sendu frá sér fréttatilkynningu aðeins örfáum dögum fyrir þær kosningar, þar sem þeir skoruðu á sitt fólk að skila auðu eða sitja heima. Ég hef reyndar oft sagt það að Framsóknarflokkurinn er, að mínu mati, spilltasti flokkurinn á Íslandi en um það eru að sjálfsögðu deildar meiningar. Við Frjálslynd hins vegar, ákváðum að senda frá okkur okkar tilmæli mánuði fyrir kosningar til þess einmitt að geta fengið andsvör og svarað þeim, svo ég þakka Margréti fyrir hennar grein og mun að sjálfsögðu svara eins og vanalega öllum athugasemdum.

Meira seinna.


Tilkynning vegna sveitarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum 2010

Fréttatilkynning frá bæjarmálafélagi  Frjálslynda fl. í Vestmannaeyjum.

 

Eins og fram hefur komið hafa Frjálslyndir skoðað möguleika á framboði  til bæjastjórnarkosninga í Ve. 29.mai nk.

Það kom  strax fram hjá okkar fólki að æskilegast væri að Frjálslyndir byðu fram sér , við höfum átt í viðræðum við fólk og flokka og skoðað þá ýmsu möguleika sem upp hafa komið.

En það er mat okkar að þær þreyfingar hafi ekki skilað því sem við Frjálslynd getum sætt okkur við. Því hefur stjórn bæjarmálafélasins tekið þá áhvörðun að bjóða ekki fram nú.

Við þökkum okkar fólki sem komið hefur að þeirri vinnu  undanfarið.

Pólíktíkin hefur ekki verið hátt skrifuð því miður, og ekki hefur umræðan frá hruni gert hana trúverðuga, en Frjálslyndi fl. einn flokka þarf ekki að hræðast nýútkomna skýrsli rannsóknarnefndar Alþingis.

Árið 2006 bauð Frjálslyndi flokkurinn fram lista með óháðum hér í Eyjum  en náðum ekki inn manni, þá  urðum við vitni að vafasömum vinnubrögðum gömlu fjórflokkanna, sem við vorum ekki og erum ekki sátt við,  því hvetjum við okkar fólk og aðra sem styðja stefnu Frjálslynda fl. að  hunsa  þessar kosningar  með því að sitja heima eða skila auðu.

F.H. bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins í Vestmannaeyjum.

Georg E Arnarson. Form.


Minning, Vörður og söfnun

Vinur minn og mágur Jóhannes Esra Ingólfsson lést í júlí á síðasta ári langt um aldur fram. Lát hans var okkur öllum, ættingjum og vinum, mikið áfall enda Esra, eins og við kölluðum hann, á besta aldri. Tengsl okkar Esra voru í gegnum þær systur, Matthildi kona mín og konuna hans Guðný Önnu Tórshamar, en þau giftu sig í maí 2007. Kynni okkar Esra hófust fyrir ca. 20 árum síðan og hefur Esra oft reynst mér og mínum vel, enda duglegur maður að maður tali nú ekki um, eðal kokkur, en ég var m.a. svo heppinn að róa með honum eina netavertíð á netabát frá Eyjum.

Esra þótti mjög vænt um fjölskyldu sína, en hafði undir það síðasta töluverðar áhyggjur af því að ef eitthvað kæmi fyrir sig, þá gæti Guðný lent í töluverðum fjárhagserfiðleikum, enda hafa þau síðustu árin verið að gera upp húseignina að Vestmannabraut 57 og eignin því töluvert skuldsett.

Um áramótin 2007-08 opnaði fyrrum þingmaður Sjálfstæðismanna, Guðjón Hjörleifsson útibú fyrir Vörð í Vestmannaeyjum og hóf að bjóða ódýrar tryggingar, en Guðjón er mjög vinsæll og þekktur í Eyjum, bæði sem fyrrum þingmaður og fyrrum bæjarstjóri. Guðjón og Esra höfðu verið vinir í fjölmörg ár, enda Elliðaeyingar. Á árinu 2008 ákvað því Esra að færa sínar tryggingar úr Vís til Varðar hjá Guðjóni vini sínum. Reyndar í fyrstu ekki allar, því að hann var á báðum áttum með það, hvort að hann ætti að segja upp sterkri líftryggingu hjá Vís gegn veikari tryggingu hjá Verði, eða svokallaðri tryggingu vegna frítíma slys, en eftir að hafa rætt þessi mál við Guðjón færði hann þá tryggingu líka yfir til Varðar. Esra var mjög opinskár maður og sagði okkur öllum, vinum og ættingjum frá þessari ákvörðun sinni, ég ætla að leyfa mér að orða þetta með orðum Esra:

"Ég er mjög ánægður með það að vera kominn með allar mínar tryggingar til Gauja. Hann mun sjá til þess að ef eitthvað kemur fyrir mig að hún Dinna mín fái sitt." 

Frá því í haust höfum við nokkrir vinir og ættingjar, með aðstoð góðs lögfræðings, ítrekað óskað eftir því að þessi trygging verði gerð upp við ekkjuna, en alltaf fengið loðin svör um að þessum tiltekna dauðdagi hefði Esra ekki verið tryggður.  Sjálfur hef ég ítrekað skorað á Guðjón að beita sér í málinu og hefur Guðjón lofað því, en þegar á reynir virðist eitthvað lítið vera um efndir. Fyrir nokkru síðan sendi síðan lögfræðingur okkar skriflegt erindi til Varðar tryggingarfélags og óskaði eftir skýrum svörum og fengum við svar í síðustu viku, þar sem ítrekað er bent á það, að Esra hafi ekki verið líftryggður og í bréfinu er greinilega ýjað að því að nafn hans verði dregið niður í svaðið ef við förum í mál.

Mat lögfræðings okkar er á þann veg, að þetta mál geti tekið mörg ár og frekar ólíklegt að það skilaði því sem hann Esra hélt að hann væri að skrifa upp á, á sínum tíma. 

Þegar maður skoðar þetta mál frá ýmsum sjónarmiðum, þá er nokkuð ljóst að Vörður tryggingarfélag hefur eins og mörg önnur sambærileg félög og fyrirtæki tapað gríðarlegum fjárhæðum í hruni bankanna og nokkuð ljóst að afar erfitt er að sækja mál á fyrirtækið þegar um töluverðar upphæðir er að ræða. Varðandi hlut Guðjóns í þessu máli, þá erum við ættingjar og vinir Esra ekki í nokkrum vafa um það, að Guðjón hafi farið offari í þessu máli í loforðum, loforð sem að hann bæði vill ekki og/eða getur ekki staðið við.

Ég er nú sjálfur með mínar tryggingar hjá Verði og hef þegar tilkynnt Guðjóni að ég muni flytja mínar tryggingar frá þessu tryggingarfyrirtæki við fyrsta tækifæri. 

Staða ekkjunnar í dag er þannig, að dánarbúið hefur verið gert gjaldþrota, húsið, bíllinn, allar þeirra eigur teknar upp í gjaldþrotið og eftir situr hún, öryrki, búin að missa manninn sinn og allar þeirra eigur, sem sé á götunni. Við aðstandendur Guðnýjar Önnu Tórshamar höfum því opnað reikning í Sparisjóð Vestmannaeyja til að reyna að létta undir með henni í hennar erfiðleikum og skorum því á alla Eyjamenn og aðra sem þekktu Esra og þekkja Dinnu, að leggja sitt af mörkum, en reikningsnúmerið er: 1167-05-600.

Með fyrirfram þökk, ættingjar og aðstandendur Guðnýjar Önnu Tórshamar.


Gleðilegt sumar allir

Þar sem lundinn settist upp í gærkvöldi, þá er það eins og vanalega hjá mér merki um að sumarið sé komið. Í öll þessi ár sem ég hef fylgst með komu lundans til eyja, þá sýnist mér að þetta sé í aðeins annað skiptið, síðustu 20-30 árin sem lundinn kemur svona snemma, en t.d. í fyrra var hann viku seinna. Ástæðan er í mínum huga nokkuð augljós, ástandið í sjónum er þannig að ég hef ekki í sennilega jafn mörg ár og frá því að lundinn kom svona snemma síðast, séð jafn mikið líf í sjónum og virðist sjórinn hreinlega vera sneisafullur af öllum tegundum af fiski, bæði uppsjávar og botnfiski (eiginlega alveg ótrúlegt að lesa síðan allt bullið sem kemur frá Hafró).

Þessi góða byrjun er því miður hins vegar, engin ávísun á góða nýliðun síðla sumars, því margt á eftir að gerast áður en við förum að sjá bæjarpysjuna mæta í bæinn. Hins vegar er nokkuð ljóst, að þessi góða byrjun á lunda sumrinu 2010 muni að öllum líkindum gefa af sér ágætt varp, en þar sem að fjaran er ennþá opin fyrir snurvoð og engir af þessum svokölluðu lundarannsóknar aðilum virðast hafa nokkurn áhuga á að gera eitthvað raunverulegt til að bæta úr fæðuskorti pysjunnar síðla sumars, þá er því miður engin merki um það að stofninn fari upp á við í sumar, á það skal þó bent að lundastofninn á Íslandi skiptir mörgum tugum milljóna.

Varðandi hugsanlega lundaveiði í sumar, þá bind ég mestar vonir við það að þetta verði á svipuðum nótum og í fyrra, en frjálsar veiðar í einhverjar 4-6 vikur tel ég að sé alls ekki raunhæft, en ætla þó að enda þetta á sama hátt og svo oft áður og þegar ég fjalla um lundann: Ég hef tröllatrú á þeim svarthvíta og trúi því að löngu eftir minn dag, muni lundinn koma til Vestmannaeyja í milljóna tali eins og nú.

Að gefnu tilefni, vegna framboðs Frjálslyndra hér í Eyjum í næsta mánuði, enn er pláss fyrir heiðarlegt fólk á listanum okkar sem hefur kjark og hugrekki til að takast á við spillingarliðið.

Meira seinna.

 


Bæjarstjórnarkosningar 2010

Stórt skref tekið í dag varðandi möguleika okkar Frjálslyndra á að bjóða fram í vor, en frá og með deginum í dag að telja, höfum við útilokað möguleikann á framboði með öðrum flokkum. Ýmsar þreifingar hafa átt sér stað síðustu vikur, en því miður virðast gömlu fjórflokkarnir eiga afar erfitt með að starfa með okkur Frjálslyndum og hleypa þar með mögulega nýju afli og nýjum flokk að stjórnartaumunum í nefndir og ráð bæjarins og maður fær það svolítið á tilfinninguna að því miður allt of margir flokkar séu fyrst og fremst að verja einhverjar sér hagsmuni og völd.

Ég er í sjálfu sér afar ánægður með þessa niðurstöðu, enda er ég í Frjálslynda flokknum en ekki öðrum vegna stefnu Frjálslynda flokksins, en tel mig þó alveg hafa verið í stakk búinn til þess að starfa með öðrum, en til þess að það sé hægt þá verða allir aðilar að geta sæst á sömu niðurstöðu.

Staðan er því þannig að við Frjálslynd munum gefa okkur a.m.k. eina viku til að taka ákvörðum um það hvort við bjóðum fram sem Frjálslynd eða Frjálslynd og óháð, en það er mín skoðun og ósk að þessi mál verði kláruð sem fyrst. 

Meira seinna.


Saga Dufþaks

Saga Dufþaks kemur fram í sögunni um landnám Vestmannaeyja, þar sem segir frá því að Ingólfur Arnarson hafi elt hann ásamt fleiri Írskum þrælum til Eyja árið 920, vegna þess að þeir höfðu drepið fóstbróður hans. Þessi saga hefur oft verið í huga mér, vegna þess að sennilega eru fáir núlifandi Eyjamenn sem hafa farið jafn oft og ég í Dufþekju til eggjatöku, en mér telst til að ferðirnar hafi orðið á þriðja hundrað. Í sögunni um landnám eyjanna er talið að Dufþekja hafi verið skýrð í höfuðið á Dufþaki vegna þess, að hann hafi kastað sér þar fram af til þess að sleppa við sverð Ingólfs. En er þetta svona?

Fyrir mörgum árum, þegar ég stundaði eggjatöku í Dufþekju sem mest, þá kom til mín eldri maður og sagði mér frá því að afi sinn hefði sagt sér frá því að þessi saga væri ekki sönn og að Dufþekja héti í rauninni Duftþekja og Duftþekja væri í raun og veru halli í berginu sem væri þakinn dufti eða mold. Ekki var ég nú alveg í fyrstu að kaupa þetta, en þá benti hann mér á það að þar sem ég hef nú farið víða í Heimakletti, ef ég færi af augum beinustu og auðveldustu leiðina, hvar mundi ég enda? Ég gat staðfest það, að með því að fara beina leið og hlaupa eftir því sem við köllum í dag neðri göngustíg í Heimakletti, alveg austur í klett og undir þar sem kallað er Þuríðarnef, þá endar þar göngustígurinn skyndilega á þverhnípi. Merkilegt, ekki veit ég hvað er satt og rétt í þessu, en velti þessu upp svona til gamans en sennilega munum við aldrei vita allan sannleikan.

Meira seinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband