Til hamingju Íslenska þjóð

Ég hef haft töluverðar áhyggjur af því í langan tíma að þessi nýja vinstri stjórn væri ekki alveg að standa sig (og hef þær enn) en þess vegna er það einmitt mikið ánægjuefni að þetta skötusels frumvarp sé loksins komið í gegn og alveg ljóst að eftir að svokölluð skötusels lína var felld út úr frumvarpinu, að Eyjamenn eru í algjörri lykilaðstöðu til að nýta sér þessa breytingu og m.a. veit ég nú þegar um tvo útgerðarmenn í Eyjum, sem eru að byrja að undirbúa veiðar á skötusel. Einnig er þetta mikil breyting fyrir þá sem hafa þurft að treysta á að geta fengið þessa tegund á leigu frá núverandi handhöfum aflaheimildanna. Mér finnst því fyllsta ástæða til þess að óska bæði Íslendingum öllum og ekki síst Eyjamönnum og ríkisstjórninni til hamingju með þetta. Nú þarf bara að fara í samskonar breytingar í öðrum tegundum og að mínu mati mætti t.d. byrja á því að auka við og taka út kvóta keilu og löngu, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir Eyjamenn sem og aðra Íslendinga. Við Eyjamenn munum meðal annars eftir hörmulegar afleiðingar á kvótasetningu á þessum tveimur tegundum, þar sem við m.a. horfðum á skip eins og Byr VE, Sæfaxa VE og Guðna Ólafsson VE sigla í burtu frá Eyjum og með þeim töpuðust gríðarlega mörg störf og atvinna í byggðarlaginu, ég tel persónulega að þessu getum við náð að einhverju leyti til baka.

Varðandi þetta skötusels frumvarp, þá vil ég taka það skýrt fram, að þetta frumvarp skiptir mig persónulega engu máli, en ég tel einfaldlega að þetta skipti gríðarlega miklu máli fyrir þjóðina í dag og ekki hvað síðast og síst fyrir ungt fólk, sem að þarna sér kannski vonarneista á því að það verði hægt að fara í útgerð í framtíðinni.

Mig langar að nota þetta tækifæri í þessari grein til að þakka félögum mínum í FF fyrir óvæntan og gríðarlegan stuðning í ný loknu landsþingi, þar sem ég fékk flest atkvæði til miðstjórnar og um leið óska þeim sem fengu kosningu til hamingju. Ný stjórn hefur óskað eftir því sérstaklega við okkur sem erum í forsvari fyrir bæjarmálafélög í landinu, að við gerum okkar besta til að bjóða fram í vor og mun ég að sjálfsögðu verða við þeirri ósk, enda verið að skoða málin undanfarna mánuði, en ég ítreka þó að þó svo að við Frjálslynd höfum nægan mannskap til að fylla lista og rúmlega það, þá finnst mér samt enn mikilvægara að fá til okkar nýtt fólk. Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er mjög erfitt, enda engir peningar eða störf í boði hjá okkur eins og t.d. hjá Sjálfstæðisflokknum. Framboð á vegum Frjálslynda flokksins snýst fyrst og fremst um heiðarleika, kjark og þor og ég hef þá einföldu skoðun að ef við bjóðum ekki fram, þá verða hér engar breytingar.

Meira seinna.


Frábært landsþing

Úrslit úr kosningum - nánar

 

Landsþingi Frjálslynda flokksins var slitið um kl. 18:30 í dag. Það bar helst til tíðinda að Kolbrún Stefánsdóttir sitjandi varaformaður var felld af Ástu Hafberg.

Úrslit voru þessi:

Formaður: Sigurjón Þórðarson

Varaformaður: Ásta Hafberg

Ritari: Grétar Mar Jónsson

Formaður fjármálaráðs: Guðjón Arnar Kristjánsson

Þeir sem náðu kjöri í miðstjórn eru:

Georg Eiður Arnarson

Valdís Steinarsdóttir

Helga Þórðardóttir

Guðmundur Hagalínson

Ragnheiður Ólafsdóttir

Rannveig Bjarnadóttir

Þorsteinn Bjarnason

Grétar Pétur Geirsson

Jóhanna Ólafsdóttir

Jóhann Berg

Pétur Guðmundsson

Hafsteinn Þór Hafsteinsson


Af fiskveiðum, ungliðahreyfingu og framboðsmálum

Það er eiginlega hálf ótrúlegt að vera sjómaður um þessar mundir. Svæðið við Vestmannaeyjar, alveg frá Kantinum og upp í fjöruborð, er svo sneisafullt af loðnu að annað eins hefur ekki sést í mörg ár, og alveg með ólíkindum að Hafró skyldi ekki leyfa mönnum að nýta meira af þessu. Sömuleiðis heyrir maður fréttir af heilu fjörðunum fyrir vesturlandi, sneisafullum af síld og svo mikið er magnið að heimamenn tala um að það sé nánast hægt að ganga á torfunum.

Sama ástand virðist vera í flest öllum bolfiskstegundum og eru margar minni útgerðir fyrir löngu búnar með sinn kvóta og á sama tíma eru þeir sem eiga mestu kvótana farnir að skipa mönnum að sigla í land og í raun og veru má segja sem svo, að aldrei nokkurn tímann hafi fiskveiðum verið stjórnað jafn mikið og núna af þeim sem stjórna fiskvinnslunum í landi. Þetta er í samræmi við verulega minnkaðar aflaheimildir, en í alla staða í algjöru ósamræmi við ástandið á miðunum, en það er nú einu sinni svo að það var því miður aðeins einn stjórnmálaflokkur sem er með það í stefnuskrá sinni að endurskoða öll vinnubrögð Hafró og aðferðir við mælingar á stofnstærðum og m.a. að fá til þess utan að komandi sérfræðinga sem ekki er hægt að spila á í gegnum einhverskonar pólitík og sérhagsmuni. Vonandi fara núverandi stjórnvöld að sýna smá kjark í þessum málum, því oft hefur verið þörf en nú er nauðsynlegt að fara að bæta við aflaheimildir í flest öllum tegundum. 

Ég fékk mjög sérstaka spurningu um daginn frá ungri konu sem spurði mig tveggja spurninga, í fyrsta lagi: Hversvegna er engin ungliða hreyfing á vegum flokkana hér í Vestmannaeyjum sambærileg og í mótvægi við Eyverja hjá Sjálfstæðismönnum? Og í öðru lagi: Hefðu þið Frjálslyndir einhvern áhuga á að stofna ungliðahreyfingu? 

Ég hef velt þessu fyrir mér í töluverðan tíma og spurði m.a. kunningja minn úr V-listanum þessarar fyrri spurningar og fékk það svar, að þeir hefðu ekki áhuga á þessu, enda væri þetta frekar ógeðfellt allt saman. Ekki fékk ég nánari útskýringu á því, en ég verð þó að viðurkenna það að þegar maður skoðar hvaðan og hverjum þetta unga fólk, sem skipar stjórn Eyverja tengist þá sýnist mér þetta vera að mestu leyti ungt fólk sem að tengist inn í ákveðnar ættir sem oft á tíðum tengjast beint eða óbeint útgerð, eða þá ættum sem oft á tíðum hafa haft ákveðinn forgang í störf bæði á vegum bæjarins og hina ýmsu stofnana. Kannski má segja sem svo, að þegar maður ber saman muninn á Sjáfstæðis og Frálslyndaflokknum, þá er munurinn kannski helst sá að Sjáfstæðisflokkurinn hefur starfað meira og minna alla síðust öld og byggir þar með á gömlum hefðum, sem þó vissulega hafa þurft að víkja að einhverju leyti vegna einkavinavæðingarinnar s.l. tvo áratugi eða svo og kannski má segja sem svo, að þegar maður nær að fylgjast með vinnubrögðum Sjálfstæðismanna á þingi, sem eins og allir vita, fá gríðarlegar fjárhæðir frá sérhagsmunaaðilum í sjávarútvegi, þá er það svo sannarlega satt og rétt að þeir vinna fyrir hverri einustu krónu. Frjálslyndi flokkurinn hins vegar, er aðeins 10 ára gamall og beið afhroð í síðustu kosningum. Munurinn er hins vegar fyrst og fremst sá að við þurfum ekki að verja neina sérhagsmuni eða taka tillit til þess, hverjir standa á bak við flokkinn, enginn borgar okkur fyrir neina sérhagsmuni og við getum því tjáð okkur óhikað og frjálst um öll málefni og sem dæmi úr sjávarútvegsgeiranum, á meðan Sjáfstæðisflokkurinn er að verja fyrst og fremst sérhagsmuni þeirra sem telja sig eiga fiskinn í sjónum, þá teljum við Frjálslynd að þjóðin öll eigi fiskinn og eigi öll að njóta góðs af því. 

Varðandi seinni spurninguna, þá væri nú bara gaman að því að stofna ungliðahreyfingu Frjálslyndra hér í eyjum og gæti ég m.a. útvegað húsnæði fyrir slíka starfsemi, en til þess að svo yrði þá yrði að koma til ákveðinn hópur ungs fólks, sem yrði að vera algjörlega sjálfstæður peningalega en þess má geta að nýlega var endurvakin ungliðahreyfing Frjálslyndaflokksins á landsvísu og á formaður hennar rétt á að sitja í miðstjórn, en fyrir þá sem hafa áhuga á að skrá sig í hana, þá eru nánari upplýsingar um það inni á xf.is.

Að lokum aðeins um framboðsmálin hér í vor. Líkurnar á því að við Frjálslynd bjóðum fram í samstarfi við aðra flokka hafa minnkað verulega að undanförnu og margt bendir því til þess að við bjóðum fram ein og sér, en endanleg ákvörðun um það verður tekin annaðhvort á landsþinginu um næst helgi, eða í síðasta lagi um næstu mánaðarmót.

Meira seinna.


Falleg saga

Lítil hjartnæm saga
Þessi saga gerðist fyrir mörgum árum. Maður nokkur refsaði 3ja ára gamalli dóttur sinni fyrir það að eyða heilli rúllu af gylltum pappír. Ekki var mikið til af peningum og reiddist hann þegar barnið reyndi að skreyta lítið box til að setja undir jólatréð. Engu að síður færði litla stúlkan föður sínum boxið á jóladagsmorgun og sagði: "þetta er handa þér pabbi". Við þetta skammaðist faðir stúlkunnar sín fyrir viðbrögð sín daginn áður. En reiði hans gaus upp aftur þegar hann áttaði sig á því að boxið var tómt. Hann kallaði til dóttur sinnnar, "veistu ekki að þegar þú gefur einhverjum gjöf, þá á eitthvað að vera í henni?" Litla stúlkan leit upp til pabba síns með tárin í augunum og sagði: "Ó pabbi boxið er ekki tómt. Ég blés fullt af kossum í það. Bara fyrir þig pabbi." Faðirinn varð miður sín. Hann tók utan um litlu stúlkuna sína og bað hana að fyrirgefa sér. Það er sagt að mörgum árum seinna, þegar faðir stúlkunnar lést, og hún fór í gegnum eigur hans hafi hún fundið gyllta boxið frá því á jólunum forðum við rúmstokkinn hans, þar hafði hann haft það alla tíð; þegar honum leið ekki vel gat hann tekið upp ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum og sett í boxið. Í vissum skilningi höfum við allar lifandi mannverur tekið á móti gylltum boxum frá börnunum okkar, fjölskyldum og vinum, fullum af skilyrðislausri ást og kossum. Það getur enginn gefið dýrmætari gjöf. Í dag skaltu gefa þér augnablik og njóta stórrar handfylli af minningum. Og mundu að þær verma hjarta þitt og bráðna þar, en ekki í höndum þínum.

Af ófærð og framboðsmálum

Ófærðin í síðustu viku var ótrúlega sambærileg og fyrir tveimur árum síðan, en það sem var kannski dapurlegast við alla þessa ófærð eru viðbrögð bæjarins. Þetta segi ég vegna þess að mér er sagt, að fyrir tveimur árum síðan hafi verið gerð áætlun um það, að sama dag og svona veður skylli á, þá ætti að koma með næstu Herjólfsferð stórt og öflugt snjóruðningstæki, en ekkert gerðist. Gaman væri að vita hvers vegna ekki. Seinni dagurinn var nánast algjör endurtekning á hríðinni sem skall á hér fyrir tveimur árum síðan, þarna voru bílar að keyra börnum í skólana og inn á milli gangandi börn, sem býður upp á mikla slysahættu, enda fastir bílar á öllum götum og eiginlega hálf ótrúlegt að bæjarráð skuli ekki reyna að sýna einhvern lit og grípa þarna inn í. Ég hef reyndar heyrt þau rök oftsinnis, að það sé foreldranna að ákveða hvort að þau sendi börn sín í skólann við þessar aðstæður, en ég held að ráðamenn ættu að hafa það í huga að um þessar mundir er hávertíð í Vestmannaeyjum, vaktir á loðnu og gríðarlegt atvinnuleysi í landinu, svo það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir suma foreldra, sem jafnvel eru ekki sjálf akandi, að sleppa vinnunni við þessar aðstæður, þegar það liggur fyrir að það er skóli.

Annað sem ég tók eftir óveðursdaginn er, að það kom strax tilkynning í fjölmiðlum fyrir kl 8 um að kennsla félli niður í framhaldsskólanum, en ekki í Barnaskólanum fyrr en kl 8, þetta þarf að laga. 

Það er mikið að gerast í framboðsmálum þessa dagana og mikill hugur í okkur Frjálslyndum. Því miður hefur reyndar undirbúningurinn tekið nokkrar U-beygjur að undanförnu, þannig að enn er óljóst, hvort að það verði Frjálslyndir eða Frjálslyndir með einhverjum öðrum og maður fær það svolítið á tilfinninguna, að fólk hafi nú frekar lítið álit á pólitískum flokkum þessa dagana. Að vissu leyti er ég sammála því, en það breytir hins vegar ekki því að ef við viljum breytingar, þá verðum við að bjóða okkur fram.

Meira seinna.


Bakkafjara staðan og dorgarar á koppum

Staðan á Bakkafjöru ævintýrinu er núna þannig að þrátt fyrir yfirlýsingar bæjarstjórnarinnar um að höfnin yrði fyrst og fremst ferjuhöfn , fargjaldið yrði verulega lækkað (500 kr ) og 8 ferðir á dag , þá er staðan svona : Í viðtali við yfirumsjónarmanns hafnargerðarinnar í fréttum nýlega kemur fram að nú þegar er hafin undirbúningur  fyrir smábáta aðstöðu , vegagerðin hefur þegar hafnað tillögu bæjarráðs um fargjald að upphæð 1000 kr og núna er aðeins talað um 4 ferðir á dag . Niðurstaðan er því þessi : Ferðirnar verða vissulega fleiri en það mun að öllum líkindum verða helmingi dýrara að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu  ( þangað sem flestir eru að fara ) og vísir að löndunarhöfn sem mun keppa við Vestmannaeyjahöfn er nú þegar í kortunum.Nýjasta nýtt er svo tilboð bæjarstjórnarinnar um að Vestmannaeyjabær yfirtaki ferju reksturinn , það eru greinlega að koma kosningar.

Vonandi verðu þetta bara í lagi allt saman en að gefnu tilefni smá saga og hugmynd: Fyrir nokkrum dögum síðan kom smábátasjómaður niður á bryggju og sér hvar nokkrir ungir menn eru að gera sig klára fyrir tuðruferð. Sögðust þeir vera að fara að heimsækja vin sinn sem ætlaði að sækja þá niður í Bakkafjöru ,benti trillukarlinn þeim á það að á höfðanum væru suðaustan 15 metrar og 3,7 metrar í Bakkafjöru og fékk þá til að hætta við ferðina.

Mig langar að velta upp þeirri hugmynd hvort að ekki væri sniðugt að setja upp rafmagnskilti niður við höfn sem væri beintengt við veðurstofu Íslands með upplýsingum sem væru uppfærðar á klukkutíma fresti þar sem fram kæmi vindhraði á höfðanum, ölduhæð í Bakkafjöru og við Surtsey og tildæmis væri hægt að hafa svipað og á götuvitum þannig að stafirnir fyrir ölduhæð í Bakkafjöru væru rauðir við ákveðna ölduhæð þannig að smábátar og tuðrueigendur yrðu meira meðvitaðir um það hvort það væri ófært eða ekki.

Margir hafa komið að máli við mig í sambandi við ótrúlega ræðu bæjarstjórans á fundinum í Höllinni fyrir nokkru, þar sem bæjarstjórinn talar niður til smábáta á skammarlegan hátt. Þetta hefur hins vegar verið tekið fyrir hjá Smábátafélaginu með afgreiðslu sem ég er ekki sáttur við. Að mínu mati er bæjarstjórinn ekki bara að tala niður til smábáta útgerðarmanna í dag, heldur líka til þeirra sem gerðu Vestmannaeyjar að því bæjarfélagi sem það er í dag, því að án hörkuduglegra smábátasjómanna, sem fyrir hundrað árum síðan lögðu grunninn að byggðinni hér í eyjum, þá væri hér ekki byggð. 

Meira seinna.


Fleiri trillukarlar

Eins og við var að búast, þá fannst mörgum mörg nöfn vanta í grein mína um trillukarla svo hér koma nokkrir í viðbót:

Má þar m.a. nefna Rabba á Þórdísi Guðmunds, Einsa á Kristínu (Eiður Marínósson), Valur á Evunni, Pétur á Gustinum, Siggi í Bæ, nafni minn Stanley á Krata Pál, Marínó á Normu, Braga og Svabba á Þrasa og Hauki og Gústa á Ugganum, að ógleymdum þeim jöxlum sem enn eru að Óli Már, Kjartan, Fúsi, Siggi Ella, að maður tali nú ekki um jaxlinn sjálfan, Guðfinn á Ingu.

Elsta minningin sem ég man eftir af trillukarli er nokkrum árum áður en ég fór í útgerð og var sú saga svona:

Ég var staddur niðri á Gestgjafa með vinkonu minni, sem sagði mér að kaupa í glas, fara og færa það Ása í Bæ og fá hann til að spá fyrir okkur. Gerði ég það og man alltaf eftir því að m.a. spáði Ási því, eftir að hafa blikkað ljóshærðu ungu stúlkuna sem sat hjá mér, að ég ætti eftir að eignast dökkhærða konu.

Það er stundum sagt meðal trillukarla að það sjáist fljótlega, hvort að menn endist í starfinu eða ekki. Tvær slíkar sögur kann ég. Það var eitt sinn að Stanley og sonur voru á veiðum ásamt fleirum, að við tókum eftir því að þeir hífðu upp færin og tóku stefnuna á fleygi ferð í vestur. Við hinir héldum áfram þessu kroppi sem var á þessu svæði, en svona ca. fjórum tímum seinna kallaði einn af okkur þarna í Stanley til að fá fréttir, var hann þá kominn austur undir opinn foss og sagðist vera búinn að fara yfir allt vestur svæðið, suður fyrir Surt og kominn núna austur í Kant, en sennilega hefði hann tekið þrjá til fjóra klukkutíma að sigla allt þetta svæði, enda sagðist Stanley ekki vera kominn með einn einasta fisk.

Nokkrum árum seinna vorum við nokkrir bátar í ágætis fiskiríi á þessu svæði, þegar einn sem var nýbyrjaður hífir skyndilega upp færin og setur allt á fulla ferð með stefnuna í land. Rabbi á Þórdísi kallar þá í hann og spurði hvort eitthvað væri að, en fékk það svar að þessi trillukarl hefði verið að fá tilkynningu í símanum um að hann ætti sendingu uppi á flugvelli, ferðaklósettið væri komið. Það kom smá þögn í talstöðina, en svo sagði Rabbi:" Ja, ef þú ert alveg í spreng, þá get ég svo sem lánað þér fötuna mína." Ekki man ég svarið, en menn höfðu það á orði í landi að keyra úr fiskiríi til að sækja eitthvað í landi sem ekkert liggur á, þannig menn endast ekki í útgerð og það gekk eftir. 

Af þeim sögum sem mér hafa verið sagðar í gegnum árin, þá hugsa ég að flestar hafi komið frá vini mínum, Begga heitnum á Skuldinni, en flestar voru þær sögur um stórlúðuveiðar, en ég man svo sem ekki eftir neinni sérstakri, en gaman hefði þó verið að eiga þær einhver staðar skráðar.

Eina sögu á ég af Val á Evunni. Valur sagði oft að beitning væri eitthvað það leiðinlegasta sem hann stæði í og Dolli kom stundum til mín yfir sig hneykslaður og sagði að stundum tæki Valur hreinlega flækjurnar, setti beitu á nokkra króka og setti flækjurnar ógreiddar ofan í stampinn, en eitt sinn tók þó Valur sig til í brælutíð, tók nokkur bjóð, greiddi þau, skar burtu alla hnúta og splæsti og gerði fín, fór síðan í næsta róður á eftir með sex bjóð, þar af fjögur sem hann var ný búinn að laga til, en hélt að þar með gæti hann lagt á harðari botn en hann var vanur, en viti menn, hann tapaði þessum fjórum bjóðum og sagði þegar hann kom í land:"Aldrei mun ég nokkurn tímann aftur splæsa línu."

Að lokum ein lítil saga frá sjálfum mér: 

Á löngum ferli sem trillukarl í Vestmannaeyjum lendir maður oft í margs konar hremmingum og hef m.a. misst bát í hafið, en ætla nú ekki að segja þá sögu hér, en þegar maður er nýr og óreyndur í þessu fagi sem öðru, þá þarf ekki mikið til, til þess að mistök geti orðið ansi dýrkeypt. Það var sennilega á öðru ári mínu í útgerð, ég hafði verið á sjó allan daginn og var ný búinn að draga upp síðustu bjóðin sunnan við Suðurey, báturinn var gamall afturbyggður trébátur með palli bakborðs megin við stýrishúsið. Ég kúplaði að og báturinn fór í minnstu ferð, þá tók ég eftir því að fríholtið, dekk sem ég var með fremst á pallinum við hliðina á stýrishúsinu, hafði fallið í sjóinn og dró þar með verulega úr ferð bátsins, svo ég vippa mér upp á pallinn til að kippa dekkið inn fyrir, en þá vildi ekki betur til, en að undiralda kastar bátnum aðeins til hliðar og ég flýg í sjóinn. Náði þó að grípa í fríholtið og reyndi strax að hífa mig upp, en báturinn var á ferð svo átakið var alveg gríðarlegt og sem snöggvast hvarfaði að mér, að ekki væri langt að synda að Suðureynni, en ég var ekki tilbúinn að gefast upp og reyndi aftur að hífa mig upp, en það tókst ekki heldur. Ákvað ég þá að gera loka tilraun, náði góðu taki á lunnunginni og náði síðan að smeygja annarri löppinni upp í dekkið, með því að nota alla lífs og sálar krafta náði ég þannig að hífa mig upp í bátinn, en það tók mig alveg tvo daga að jafna mig eftir þau átök, en ég var reynslunni ríkari.

Það er mikil umræða í þjóðfélaginu þessa dagana um hugmyndir Ríkisstjórnar meirihlutans, sérstaklega um þessa fyrningarleið og sitt sýnist hverjum. Ekki veit ég hvort þessi leið sé sú rétta, en ég verð þó að viðurkenna það, að miðað við allt ruglið sem er í gangi í núverandi kvótakerfi, þá er maður í raun og veru tilbúinn að skoða hvað sem er. Lykil atriðið er þó að þegar verði farið í auka aflaheimildir í flest öllum tegundum, en sem mótvægi við það væri t.d. hægt að loka ákveðnum svæðum, ein og t.d. fjörunni þar sem fiskurinn fengi einfaldlega frið fyrir öllum veiðarfærum, en að lokum þetta fyrir fólk sem ekki skilur umræðuna, þá er mín skoðun á þessu einföld og skýr, hagsmunir byggðanna, sjómanna, fiskverkafólks og fjölskyldna þeirra er ekki best varið með því að búa við kvótakerfi eins og núverandi kerfi, þar sem útgerðarmaðurinn einn ræður því hvort að hann veiðir, leigir, veðsetur eða selur kvótann. Því verðum við að breyta.

Meira seinna.


Þú seldir eitt sinn kvóta

Að undanförnu hef ég æ oftar heyrt hvaða kjaftasögu íhaldsmenn nota oftast um mig. Kjaftasagan gengur út á það, að ég megi ekki hafa skoðun á núverandi kvótakerfi vegna þess að ég hafi einhvern tímann selt kvóta. Einnig var ég var við þetta s.l. vor, þar sem ég var staddur umborð í trillubát í spjalli við tvo trillukarla, þar sem ég m.a. var að safna meðmælum fyrir framboði s.l. vor. Báðir skrifuðu þeir undir, en ég tók eftir því að annar þeirra, sem er gallharður íhaldsmaður, virtist liggja eitthvað mikið niðri fyrir svo ég hinkraði aðeins og þá kom þessi setning:"Þú seldir eitt sinn 3 tonn af þorski." Eftir að ég hafði hlegið að þessu í svona korter þarna umborð, þá svaraði ég þessu, en kunni samt ekki við að segja það sem ég hugsaði, vegna þess að þessi aðili hafði nokkrum árum áður byrjað sinn sjómannsferil umborð hjá föður sínum, sem síðar hafði selt sinn kvóta, nokkur hundruð tonn minnir mig, og þeir feðgar síðan slegið saman í dagabát til að komast inn í kerfið aftur. En hver er sannleikurinn í þessu máli? Hann er svona: Upp úr 2000, ég man ekki nákvæmlega hvenær, tók þáverandi Sjávarútvegsráðherra, Árni Matthiesen, eina af sínum al verstu ákvörðunum á sínum ferli, þ.e.a.s. að kvótasetja smábáta sem starfað höfðu í friði í kvótakerfi sem kallað var þorskaflahámarks kerfi (að mínu mati besta kvótakerfi sem nokkurn tímann hefur verið notað). Þetta gerði hann vegna þess að stór útgerðin var að öfundast út í smábáta útgerðina, vegna þess að í þessu kerfi þurfti maður bara að hafa kvóta fyrir þorskinum, en var frjáls í veiðum í öllum öðrum tegundum. Afleiðingarnar voru alveg skelfilegar, smábátum fækkaði um helming á fyrstu tveimur árunum. Sjálfur þurfti ég að taka ákvörðun á þessum tíma um að annaðhvort að hætta og selja, eða að kaupa mér stærri bát til að halda áfram. Valdi ég síðari kostinn, en það voru svo sannarlega ekki góð kaup, því að sá bátur sem ég keypti reyndist mikið óhappafley og eftir aðeins eitt ár í baráttu við erfitt tíðarfar, mikið bilerí og síðast en ekki síst, Íslensk lán með Íslenskum vöxtum. Þá fór ég á fund hjá báðum bankastofnunum bæjarins til að reyna að fá frekari fyrirgreiðslu í vandræðum mínum, en því var hafnað. Í öðrum bankanum var mér hins vegar sagt:" Af hverju selurðu ekki nokkur tonn?" Ég svaraði því strax að ég væri ekki tilbúinn til þess, enda kvótinn afar lítill og svaraði því þannig, að ef ég ekki fengi fyrirgreiðslu þá myndi ég einfaldlega setja bátinn, kvótann og allt útgerðardótið mitt á sölu og hætta fyrir fullt og allt og varð sú niðurstaðan. Peningaaustur bankanna í allt og alla sem vildu, var ekki byrjað á þessum tíma, sem varð til þess að það liðu 2 mánuðir áður en ég fékk tilboð í útgerðina hjá mér og var tilboðið í raun og veru afar furðulegt og merkilegt fyrir margar sakir, því að hann vildi fyrst og fremst kaupa bátinn, en ekki kvótann nema að litlu leyti. Þetta tilboð var ekki nægilega hátt til að dekka þær skuldir sem voru í vanskilum, en ég náði samt samkomulagi við bankann um að hann fengi hverja einustu krónu sem kæmi út úr þessari sölu, restin af láninu yrði síðan sett á húsið hjá mér, þannig að út úr þessu fór ég með 90% af þeim kvóta sem ég átti á þeim tíma og hef reyndar að stórum hluta til keypt til baka þann kvóta sem fór með bátnum. Um framhaldið vita flestir, besti vinur minn Dolli á Freyjunni fékk mig til að kaupa Freyjuna nokkrum mánuðum seinna og ég sá að í spilunum var veruleg aukning í aflaheimildum á ýsu og þess vegna tækifæri fyrir leiguliða að þrauka nokkur ár í viðbót. Mér finnst svolítið furðulegt að líkja því saman, þegar trillukarl selur nokkur tonn, þá að sjálfsögðu hefur það engin áhrif á byggðina og bæjarfélagið, hins vegar þegar stór útgerðin selur þá sitja að sjálfsögðu öll áhöfnin eftir, í mörgum tilvikum atvinnulaus og með heimili sín og eignir jafnvel verðlaus, eins og nú þegar hefur gerst á mörgum stöðum á landinu. Þessu verðum við að breyta. Þetta er í raun og veru afar einfalt, það getur enginn starfað í núverandi kótakerfi án þess að taka þátt í öllum göllunum og ég set það undir sama hattinn, hvort sem menn kaupa, selja, leigja til sín eða frá sér kvóta, allt er þetta sama ruglið.

Meira seinna.


Af útgerð

Þvælu áróður stórútgerðarinnar er svo ótrúlegur þessa dagana að maður nennir hreinlega ekki að svara allri þeirri vitlausu. 

En ég er hins vegar að lesa bók sem heitir: Kastað í flóanum, upphaf togveiða við Ísland, eftir Ásgeir Jakobsson. Þar koma fram fyrstu viðbrögð Íslenskra stjórnmálamanna þegar togveiðar voru að byrja við landið og til gamans eru hér lög, sem samþykkt voru 1898:

1. gr.

Í landhelgi við Ísland skulu bannaðar vera fiskveiðar með botnvörpu (trawl).

2. gr.

Brot gegn 1. gr varða sektum, 1000-10000 krónum er renna í landssjóð og skulu hin ólöglegu veiðarfæri og hinn ólöglegi afli upptæk og andvirði þeirra renna í landssjóð. Leggja má löghald á skip og afla og selja að undangengnu fjárnámi til ljúkingar sektum og kostnað.

3. gr.

Nú hittist fiskveiðiskip í landhelgi með botnvörpu innanborðs og er þó eigi að veiðum, þá varðar það 200-2000 kr. sekt til landssjóðs nema skipið sé að leita hafnar í neyð, hittist hið sama skip í annað sinn í landhelgi með þessi veiðarfæri innanborðs, varðar það 2. grein.

Það hefur reyndar mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi lög voru samþykkt og reyndar held ég að lítið hafi nú verið farið eftir þessu á sínum tíma, en nokkuð merkilegt þegar horft var til þess, að menn höfðu á þessum tíma áhyggjur af því að trollið kynni að eyðileggja og þurrka upp fiskimiðin, þá er uppistaðan í flota eyjamanna trollskip, en svona var þetta á þeim tíma og áttu eyjamenn m.a. sína fulltrúa á þingi sem áttu þátt í að semja þessi lög.

Ég klikkaði áðan á auglýsingu neðarlega vinstra megin á visir.is þar sem meðal annars, í áróðri kvóta eiganda kemur þetta fram:

Útgerðarfyrirtæki hafa keypt 90% af aflaheimildum sínum.

Fyrning mun valda stórfelldum uppsögnum.

Fræðimenn telja þetta besta kerfið til að verja auðlindina.

Nýliðun í sjávarútvegi er mikil og öllum er opið að fjárfesta og starfa í greininni.

TRÚIR ÞESSU EINHVER?

Meira seinna.


Trillukarlar

Trillukarlar eru mér eðlilega nokkuð hugleiknir, enda starfað sem slíkur í tæp 24 ár og fyrir ári síðan skrifaði ég tvær greinar um trillukarla sem vöktu talsverða athygli þ.e.a.s. draum trillukarlsins, sem margir hafa þakkað mér fyrir og ekki var minni ánægja með minningargreinina mína um besta vin minn, Dolla á Freyjunni og endaði sú grein m.a. í Sjómannadagsblaði eyjamanna. Ég hitti barnabarn og nafna hans Dolla um daginn á spjalli, sem sagði mér það að þau hefðu tekið eftir því að einhver annar en úr fjölskyldunni virtist fara reglulega og hlú að gröfinni hans Dolla og var ég spurður að því, hvort ég vissi hver það væri, en svo er ekki en ég svaraði því bara til þannig að allir sem kynntust Dolla á sínum tíma þótti vænt um hann, enda ekki hægt annað, en það fylgir mér reyndar hvert sem ég fer, gamli lykillinn af Freyjunni. Skráin var reyndar löngu ónýt, en lykillinn er svona eins og við segjum "upp á gamla mátann". Þegar ég kom með nýjasta bátinn minn til eyja kom Dolli og færði mér í gjöf platta með þessari þekktu bæn og er hún á góðum stað á mínu heimili:

Ef komumst vér í voða

og varnir engar stoða, 

þá hugsum upp til hans,

er stormum burtu bægir 

og bylgjur hafsins lægir

og bjargar mörgum bát til landa.

Þeir eru margir, trillukarlarnir sem ég hef kynnst í gegnum ævina, sumir farnir og aðrir ekki. Af þeim minnisstæðustu sem eru farnir þá man ég fyrst eftir Gauja Ingibergs (man ekki fullt nafn lengur, né heldur nafnið á trillunni) en ég minnist hans kannski fyrst og fremst fyrir að vera sérstakur áhugamaður um lúðuveiðar og eitt sinn þegar að frekar trekt hafði verið í töluverðan tíma, þá man ég eftir því að frændi hans, Óli á Gæfunni, sem var þá á lúðuveiðum úti í Kanti, gerði sér sérstaka ferð þangað sem hann vissi á Gauji átti lúðulínu í sjó, hífði hana upp og setti á einn krókinn 100 kg lúðu sem þeir höfðu stungið á en ekki blóðgað öðruvísi, en mikil var ánægjan hjá Gauja þegar hann kom með lúðuna í land, en honum þótti svolítið skrítið hvað hún var róleg á meðan hann var að draga hana inn. Dauðdagi Gauja er mér einnig mjög minnisstæður. Ég var staddur norður úr Elliðaey á keyrslu suður eftir þegar ég mætti honum og heilsaði að trillukarla sið. Gauji heilsaði mér á móti, settist síðan þunglega niður, að því er mér virtist, báturinn tók smá hring og virtist stoppa. Ég var að velta því fyrir mér að snúa við til að athuga hvort ekki væri allt í lagi, en sá þá aðra trillu koma siglandi með stefnuna á bátinn hjá honum, en þegar ég kom í land var mér sagt að Gauji hefði verið látinn þegar þeir komu að.

Einhver al mesti jaxlinn sem ég hef kynnst af trillukörlum er sennilega Jón í Sjólyst. Sennilega er einhver frægasta sagan af Jóni af mörgum, þegar að skoðunarmaður kom og spurði Jón hvar ferðaklósettið væri? Brá þá Jón skjótt við, hljóp aftur í og kom til baka með fötu í hendinni og bauð skoðunarmanninum ef hann væri nú alveg í spreng. Eitt sinn á morgni dags kom ég niður á bryggju og sé hvar Jón var að leggja að og þótti það skrítið að sjá hann við bryggju snemma morguns, fór til hans og kastaði á hann kveðju. Jón var hinn sallarólegasti og tókum við spjall í nokkrar mínútur. Spurði ég hann þá hverju það sætti að hann var kominn í land svona snemma morguns? Lyfti hann þá hendinni og sýndi mér og sagði að hann hefði misst sökkuna þegar hann var að láta slóðann fara, einn krókurinn farið á kaf í lófann alveg inn að agnhaldi og þar sem hann náði honum ekki út, hefði hann einfaldlega ýtt honum í gegnum lófann á sér, en því miður ekki haft nógu öfluga töng til að klippa krókinn í sundur. Mér brá töluvert og bauðst til að skutla sér upp á sjúkrahús, en Jón sagði í fyrstu að hann gæti nú alveg rölt þetta og þurfti ég að suða svolítið í honum til að fá að keyra honum.

Já, þeir eru margir jaxlarnir. Sumir farnir og aðrir ekki, Svenni á Svaninum, Siggi í Bæ á Byr, Halli á Skúmnum, Arthúr á Eldingu, Hilmar (nínon) á Sigurbirni, Halli á Veigunni, Jón og Gauji gamli á Gauja gamla, Óli á einfara og fleiri og fleiri. Mig langar að nefna einn sérstaklega í viðbót, Hjalli á Bravó var sennilega einhver al trúaðasti trillukarlinn í Vestmannaeyjum og þó víðar væri farið. Ég varð einu sinni svo frægur að fara með honum að sækja lunda suður í Litlahöfða í hauga austan brælu og roki, en mér þótti mikið til þegar Hjalli stoppaði við Klettsnefið, spennti greypar og fór með sjóferðar bænina, síðan lögðum við í hann og ég fékk það ansi sterkt á tilfinninguna, að við værum í góðum höndum, en Hjalli er að mínu mati einn af þeim fjölmörgu sem fór allt of snemma yfir móðuna miklu.

Reyndar eru nýjustu fréttir þær að það er kominn nýr eigandi af Bravó sem ætlar sér að róa frá eyjum í sumar og þrátt fyrir harða gagnrýni stórútgerðarinnar í eyjum á þetta svokallaði strandveiðikerfi, þá er ljóst að það stefnir í það að í sumar verði sá fjöldi smábáta sem rær frá Vestmannaeyjum á handfærum sennilega fleiri heldur en nokkurn tímann  nokkru sinni áður, eða allavega síðan ég byrjaði í útgerð. Reyndar sé ég á eyjamiðlunum enn einn íhaldsmanninn tala um það að stefnu Frjálslynda flokksins hafi verið hafnað í kosningunum í vor, en svarið við því er nokkuð augljóst, bæði Samfylking, Vinstri grænir að ógleymdi Borgarahreyfingin tóku að mörgu leyti upp stefnu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var sá flokkur sem tapað flestum þingmönnum í kosningunum s.l. vor, svo það er spurning hvort að það megi ekki túlka það þá þannig, að Íslenska þjóðin hafi þar með að einhverju leyti hafnað stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum.

Meira seinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband