5.2.2010 | 14:49
Þú seldir eitt sinn kvóta
Að undanförnu hef ég æ oftar heyrt hvaða kjaftasögu íhaldsmenn nota oftast um mig. Kjaftasagan gengur út á það, að ég megi ekki hafa skoðun á núverandi kvótakerfi vegna þess að ég hafi einhvern tímann selt kvóta. Einnig var ég var við þetta s.l. vor, þar sem ég var staddur umborð í trillubát í spjalli við tvo trillukarla, þar sem ég m.a. var að safna meðmælum fyrir framboði s.l. vor. Báðir skrifuðu þeir undir, en ég tók eftir því að annar þeirra, sem er gallharður íhaldsmaður, virtist liggja eitthvað mikið niðri fyrir svo ég hinkraði aðeins og þá kom þessi setning:"Þú seldir eitt sinn 3 tonn af þorski." Eftir að ég hafði hlegið að þessu í svona korter þarna umborð, þá svaraði ég þessu, en kunni samt ekki við að segja það sem ég hugsaði, vegna þess að þessi aðili hafði nokkrum árum áður byrjað sinn sjómannsferil umborð hjá föður sínum, sem síðar hafði selt sinn kvóta, nokkur hundruð tonn minnir mig, og þeir feðgar síðan slegið saman í dagabát til að komast inn í kerfið aftur. En hver er sannleikurinn í þessu máli? Hann er svona: Upp úr 2000, ég man ekki nákvæmlega hvenær, tók þáverandi Sjávarútvegsráðherra, Árni Matthiesen, eina af sínum al verstu ákvörðunum á sínum ferli, þ.e.a.s. að kvótasetja smábáta sem starfað höfðu í friði í kvótakerfi sem kallað var þorskaflahámarks kerfi (að mínu mati besta kvótakerfi sem nokkurn tímann hefur verið notað). Þetta gerði hann vegna þess að stór útgerðin var að öfundast út í smábáta útgerðina, vegna þess að í þessu kerfi þurfti maður bara að hafa kvóta fyrir þorskinum, en var frjáls í veiðum í öllum öðrum tegundum. Afleiðingarnar voru alveg skelfilegar, smábátum fækkaði um helming á fyrstu tveimur árunum. Sjálfur þurfti ég að taka ákvörðun á þessum tíma um að annaðhvort að hætta og selja, eða að kaupa mér stærri bát til að halda áfram. Valdi ég síðari kostinn, en það voru svo sannarlega ekki góð kaup, því að sá bátur sem ég keypti reyndist mikið óhappafley og eftir aðeins eitt ár í baráttu við erfitt tíðarfar, mikið bilerí og síðast en ekki síst, Íslensk lán með Íslenskum vöxtum. Þá fór ég á fund hjá báðum bankastofnunum bæjarins til að reyna að fá frekari fyrirgreiðslu í vandræðum mínum, en því var hafnað. Í öðrum bankanum var mér hins vegar sagt:" Af hverju selurðu ekki nokkur tonn?" Ég svaraði því strax að ég væri ekki tilbúinn til þess, enda kvótinn afar lítill og svaraði því þannig, að ef ég ekki fengi fyrirgreiðslu þá myndi ég einfaldlega setja bátinn, kvótann og allt útgerðardótið mitt á sölu og hætta fyrir fullt og allt og varð sú niðurstaðan. Peningaaustur bankanna í allt og alla sem vildu, var ekki byrjað á þessum tíma, sem varð til þess að það liðu 2 mánuðir áður en ég fékk tilboð í útgerðina hjá mér og var tilboðið í raun og veru afar furðulegt og merkilegt fyrir margar sakir, því að hann vildi fyrst og fremst kaupa bátinn, en ekki kvótann nema að litlu leyti. Þetta tilboð var ekki nægilega hátt til að dekka þær skuldir sem voru í vanskilum, en ég náði samt samkomulagi við bankann um að hann fengi hverja einustu krónu sem kæmi út úr þessari sölu, restin af láninu yrði síðan sett á húsið hjá mér, þannig að út úr þessu fór ég með 90% af þeim kvóta sem ég átti á þeim tíma og hef reyndar að stórum hluta til keypt til baka þann kvóta sem fór með bátnum. Um framhaldið vita flestir, besti vinur minn Dolli á Freyjunni fékk mig til að kaupa Freyjuna nokkrum mánuðum seinna og ég sá að í spilunum var veruleg aukning í aflaheimildum á ýsu og þess vegna tækifæri fyrir leiguliða að þrauka nokkur ár í viðbót. Mér finnst svolítið furðulegt að líkja því saman, þegar trillukarl selur nokkur tonn, þá að sjálfsögðu hefur það engin áhrif á byggðina og bæjarfélagið, hins vegar þegar stór útgerðin selur þá sitja að sjálfsögðu öll áhöfnin eftir, í mörgum tilvikum atvinnulaus og með heimili sín og eignir jafnvel verðlaus, eins og nú þegar hefur gerst á mörgum stöðum á landinu. Þessu verðum við að breyta. Þetta er í raun og veru afar einfalt, það getur enginn starfað í núverandi kótakerfi án þess að taka þátt í öllum göllunum og ég set það undir sama hattinn, hvort sem menn kaupa, selja, leigja til sín eða frá sér kvóta, allt er þetta sama ruglið.
Meira seinna.
3.2.2010 | 18:16
Af útgerð
Þvælu áróður stórútgerðarinnar er svo ótrúlegur þessa dagana að maður nennir hreinlega ekki að svara allri þeirri vitlausu.
En ég er hins vegar að lesa bók sem heitir: Kastað í flóanum, upphaf togveiða við Ísland, eftir Ásgeir Jakobsson. Þar koma fram fyrstu viðbrögð Íslenskra stjórnmálamanna þegar togveiðar voru að byrja við landið og til gamans eru hér lög, sem samþykkt voru 1898:
1. gr.
Í landhelgi við Ísland skulu bannaðar vera fiskveiðar með botnvörpu (trawl).
2. gr.
Brot gegn 1. gr varða sektum, 1000-10000 krónum er renna í landssjóð og skulu hin ólöglegu veiðarfæri og hinn ólöglegi afli upptæk og andvirði þeirra renna í landssjóð. Leggja má löghald á skip og afla og selja að undangengnu fjárnámi til ljúkingar sektum og kostnað.
3. gr.
Nú hittist fiskveiðiskip í landhelgi með botnvörpu innanborðs og er þó eigi að veiðum, þá varðar það 200-2000 kr. sekt til landssjóðs nema skipið sé að leita hafnar í neyð, hittist hið sama skip í annað sinn í landhelgi með þessi veiðarfæri innanborðs, varðar það 2. grein.
Það hefur reyndar mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi lög voru samþykkt og reyndar held ég að lítið hafi nú verið farið eftir þessu á sínum tíma, en nokkuð merkilegt þegar horft var til þess, að menn höfðu á þessum tíma áhyggjur af því að trollið kynni að eyðileggja og þurrka upp fiskimiðin, þá er uppistaðan í flota eyjamanna trollskip, en svona var þetta á þeim tíma og áttu eyjamenn m.a. sína fulltrúa á þingi sem áttu þátt í að semja þessi lög.
Ég klikkaði áðan á auglýsingu neðarlega vinstra megin á visir.is þar sem meðal annars, í áróðri kvóta eiganda kemur þetta fram:
Útgerðarfyrirtæki hafa keypt 90% af aflaheimildum sínum.
Fyrning mun valda stórfelldum uppsögnum.
Fræðimenn telja þetta besta kerfið til að verja auðlindina.
Nýliðun í sjávarútvegi er mikil og öllum er opið að fjárfesta og starfa í greininni.
TRÚIR ÞESSU EINHVER?
Meira seinna.
26.1.2010 | 12:19
Trillukarlar
Trillukarlar eru mér eðlilega nokkuð hugleiknir, enda starfað sem slíkur í tæp 24 ár og fyrir ári síðan skrifaði ég tvær greinar um trillukarla sem vöktu talsverða athygli þ.e.a.s. draum trillukarlsins, sem margir hafa þakkað mér fyrir og ekki var minni ánægja með minningargreinina mína um besta vin minn, Dolla á Freyjunni og endaði sú grein m.a. í Sjómannadagsblaði eyjamanna. Ég hitti barnabarn og nafna hans Dolla um daginn á spjalli, sem sagði mér það að þau hefðu tekið eftir því að einhver annar en úr fjölskyldunni virtist fara reglulega og hlú að gröfinni hans Dolla og var ég spurður að því, hvort ég vissi hver það væri, en svo er ekki en ég svaraði því bara til þannig að allir sem kynntust Dolla á sínum tíma þótti vænt um hann, enda ekki hægt annað, en það fylgir mér reyndar hvert sem ég fer, gamli lykillinn af Freyjunni. Skráin var reyndar löngu ónýt, en lykillinn er svona eins og við segjum "upp á gamla mátann". Þegar ég kom með nýjasta bátinn minn til eyja kom Dolli og færði mér í gjöf platta með þessari þekktu bæn og er hún á góðum stað á mínu heimili:
Ef komumst vér í voða
og varnir engar stoða,
þá hugsum upp til hans,
er stormum burtu bægir
og bylgjur hafsins lægir
og bjargar mörgum bát til landa.
Þeir eru margir, trillukarlarnir sem ég hef kynnst í gegnum ævina, sumir farnir og aðrir ekki. Af þeim minnisstæðustu sem eru farnir þá man ég fyrst eftir Gauja Ingibergs (man ekki fullt nafn lengur, né heldur nafnið á trillunni) en ég minnist hans kannski fyrst og fremst fyrir að vera sérstakur áhugamaður um lúðuveiðar og eitt sinn þegar að frekar trekt hafði verið í töluverðan tíma, þá man ég eftir því að frændi hans, Óli á Gæfunni, sem var þá á lúðuveiðum úti í Kanti, gerði sér sérstaka ferð þangað sem hann vissi á Gauji átti lúðulínu í sjó, hífði hana upp og setti á einn krókinn 100 kg lúðu sem þeir höfðu stungið á en ekki blóðgað öðruvísi, en mikil var ánægjan hjá Gauja þegar hann kom með lúðuna í land, en honum þótti svolítið skrítið hvað hún var róleg á meðan hann var að draga hana inn. Dauðdagi Gauja er mér einnig mjög minnisstæður. Ég var staddur norður úr Elliðaey á keyrslu suður eftir þegar ég mætti honum og heilsaði að trillukarla sið. Gauji heilsaði mér á móti, settist síðan þunglega niður, að því er mér virtist, báturinn tók smá hring og virtist stoppa. Ég var að velta því fyrir mér að snúa við til að athuga hvort ekki væri allt í lagi, en sá þá aðra trillu koma siglandi með stefnuna á bátinn hjá honum, en þegar ég kom í land var mér sagt að Gauji hefði verið látinn þegar þeir komu að.
Einhver al mesti jaxlinn sem ég hef kynnst af trillukörlum er sennilega Jón í Sjólyst. Sennilega er einhver frægasta sagan af Jóni af mörgum, þegar að skoðunarmaður kom og spurði Jón hvar ferðaklósettið væri? Brá þá Jón skjótt við, hljóp aftur í og kom til baka með fötu í hendinni og bauð skoðunarmanninum ef hann væri nú alveg í spreng. Eitt sinn á morgni dags kom ég niður á bryggju og sé hvar Jón var að leggja að og þótti það skrítið að sjá hann við bryggju snemma morguns, fór til hans og kastaði á hann kveðju. Jón var hinn sallarólegasti og tókum við spjall í nokkrar mínútur. Spurði ég hann þá hverju það sætti að hann var kominn í land svona snemma morguns? Lyfti hann þá hendinni og sýndi mér og sagði að hann hefði misst sökkuna þegar hann var að láta slóðann fara, einn krókurinn farið á kaf í lófann alveg inn að agnhaldi og þar sem hann náði honum ekki út, hefði hann einfaldlega ýtt honum í gegnum lófann á sér, en því miður ekki haft nógu öfluga töng til að klippa krókinn í sundur. Mér brá töluvert og bauðst til að skutla sér upp á sjúkrahús, en Jón sagði í fyrstu að hann gæti nú alveg rölt þetta og þurfti ég að suða svolítið í honum til að fá að keyra honum.
Já, þeir eru margir jaxlarnir. Sumir farnir og aðrir ekki, Svenni á Svaninum, Siggi í Bæ á Byr, Halli á Skúmnum, Arthúr á Eldingu, Hilmar (nínon) á Sigurbirni, Halli á Veigunni, Jón og Gauji gamli á Gauja gamla, Óli á einfara og fleiri og fleiri. Mig langar að nefna einn sérstaklega í viðbót, Hjalli á Bravó var sennilega einhver al trúaðasti trillukarlinn í Vestmannaeyjum og þó víðar væri farið. Ég varð einu sinni svo frægur að fara með honum að sækja lunda suður í Litlahöfða í hauga austan brælu og roki, en mér þótti mikið til þegar Hjalli stoppaði við Klettsnefið, spennti greypar og fór með sjóferðar bænina, síðan lögðum við í hann og ég fékk það ansi sterkt á tilfinninguna, að við værum í góðum höndum, en Hjalli er að mínu mati einn af þeim fjölmörgu sem fór allt of snemma yfir móðuna miklu.
Reyndar eru nýjustu fréttir þær að það er kominn nýr eigandi af Bravó sem ætlar sér að róa frá eyjum í sumar og þrátt fyrir harða gagnrýni stórútgerðarinnar í eyjum á þetta svokallaði strandveiðikerfi, þá er ljóst að það stefnir í það að í sumar verði sá fjöldi smábáta sem rær frá Vestmannaeyjum á handfærum sennilega fleiri heldur en nokkurn tímann nokkru sinni áður, eða allavega síðan ég byrjaði í útgerð. Reyndar sé ég á eyjamiðlunum enn einn íhaldsmanninn tala um það að stefnu Frjálslynda flokksins hafi verið hafnað í kosningunum í vor, en svarið við því er nokkuð augljóst, bæði Samfylking, Vinstri grænir að ógleymdi Borgarahreyfingin tóku að mörgu leyti upp stefnu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var sá flokkur sem tapað flestum þingmönnum í kosningunum s.l. vor, svo það er spurning hvort að það megi ekki túlka það þá þannig, að Íslenska þjóðin hafi þar með að einhverju leyti hafnað stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.1.2010 | 07:57
Grein eftir Grétar Mar sem Eyjamenn hljóta að hafa áhuga á
Umræða á villigötum
Í umræðunni um fiskveiðistjórnunarkerfið og fyrningu er talað um að ekki megi taka það af útgerðarmönnum sem þeir hafi keypt.
Þetta er rangt, því það eru engar stórútgerðir sem hafa þurft að kaupa allar sínar veiðiheimildir eftir 1991 þegar það myndaðist verð á veiðiheimildum.
Flestar stórútgerðir í landinu eru enn með sömu kennitölu og þær höfðu við upphaf kvótakerfisins og því byggja þau á nýtingarrétti sem þau borguðu ekki neitt fyrir.
Sum breyttu úr hf í ehf og sameinuðust öðrum fyrirtækjum og eru því nú allt upp í níu kennitölur komnar inn í sum fyrirtækin.
Það er því rangt eins og LÍÚ hefur haldið fram að útgerðarfyrirtæki sem starfa í dag hafi keypt aflaheimildir, í 90% tilfella.
Ef farið er hringinn í kringum landið sést að það er enn sömu fyrirtæki og sama fólkið sem er enn í útgerð sem byggir á þeim gjafakvóta sem þau fengu í upphafi.
Hér verða flest þessara fyrirtækja talin upp.
Í Vestmannaeyjum eru það; Vinnslustöðin, Ísfélagið, Glófaxaútgerðin, Bergur-Hugin útgerðin, Dala-Rafns útgerðin, útgerðin á Frá, Bergi, Hugin, Þórunni Sveinsdóttur og Bylgjunni, ásamt fleiri útgerðum í Eyjum.
Á Hornafirði sameinuðust Skinney og Þinganes og tóku yfir Kaupfélags útgerðina.
Það eru nánast engar veiðiheimilir á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Reyðarfirði Það eru sömu aðilar í útgerð á Fáskrúðsfirði og voru og á Eskifirði þar sem Eskja ehf er og er hún rekin af afkomendum Alla ríka.
Það eru sömu eigendur að Síldarvinnslunni á Norðfirði en þar eiga reyndar Samherjar orðið 30-40% hlut.
Á Þórshöfn er Ísfélagið komið inn í útgerðina með heimamönnum og Grandi er komin inn í útgerð með heimamönnum á Vopnafirði.
Á Siglufirði er Þormóður Rammi og hefur hann sameinast útgerð sem var á Ólafsfirði. Samherji og Brim eru á Akureyri.
Á Sauðarkrók eru sami aðili í útgerð og verið hefur og er það Kaupfélagið.
Á Grenivík er Gjögur.
Gunnvör á Ísafirði hefur sameinast nokkrum öðrum útgerðum þar.
Oddi er á Patreksfirði.
Á Snæfellsnesi er og hafa verið meðal annars útgerð Kristjáns Guðmundsonar, Hraðfrystihús Hellisands, Steinunnar útgerðin í Ólafsvík, Rakel Ólsen í Stykkishólmi, Guðmundur Runólfsson í Grundarfirði.
Í Reykjavík eru Grandi og Ögurvík.
Stálfrúin í Hafnarfirði.
Nesfiskur í Garði.
Happasæls, Arnars útgerðin og Saltver í Keflavík.
Þorbjörninn og Vísir í Grindavík.
Í Þorlákshöfn er útgerðir Einars Sigurðssonar og Hannesar Sigurðssonar.
Öll þessi fyrirtæki hafa verið til frá því fyrir daga kvótakerfisins og hafa byggt starfsemi sína upp á gjafakvóta.
13.1.2010 | 22:35
Af Icesave og útgerð
Þó nokkrir hafa spurt mig að undanförnu um hver munurinn sé á þeim Icesave samningi sem við munum sennilega fella, og þeim samningi með fyrirvörum sem Bretar og Hollendingar höfnuðu. Munurinn er að mínu mati aðallega þrjú atriði, í fyrsta lagi áttum við, samkvæmt fyrirvörunum, að hætta að borga eftir 2024, þó að eitthvað stæði út af. Ef hagvöxtur færi niður fyrir 3,5% myndi greiðslan lækka en við samt hætta að borga 2024 og í þriðja lagi, vildu Bretar og Hollendingar ekki hafa ákvæði í samningnum um að hægt væri að vísa málinu fyrir dóm.
Margir hafa komið að máli við mig og velt upp þeirri spurningu, hvers vegna formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Ben virðist ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga í varðandi afstöðu sína til Icesave. Flestir eru á þeirri skoðun að það sé vegna þrýstings frá útgerðarmönnum, sem telja að ef kosið verði um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá verði hugsanlega kosið næst um kvótakerfið?
En af útgerðinni er það að segja, að kvótaleigan slær nýtt hæðarmet vikulega, á meðan fiskverðið stendur í stað og alveg ljóst að ákvörðun fyrirtækja eins og t.d. Vinnslustöðvarinnar, sem hafa verið í forystu þeirra fyrirtækja sem leigt hafa hvað mestar aflaheimildir frá sér undanfarin ár, um að leigja ekki frá sér aflaheimildir að undanförnu og nota það að öllum líkindum til þess að búa til enn meiri þrýsting á núverandi stjórnarflokka um að breyta ekki kvótakerfinu. Reyndar kannast þeir ekki við þetta, en þegar maður les Fréttir í kvöld þar sem kemur fram að LÍÚ klíkan hótar að senda flotann í land ef kvótakerfinu verði breytt, þá efast maður ekki. Einnig heyrði ég í skipstjóra á kvótalausum bát um daginn, sem einmitt orðaði þetta þannig að það hefði verið mikið betra að starfa í þessu kerfi áður en menn fóra að hóta því að breyta því,ótrúleg skammsýni þar .
En um hvað snýst þetta kvótakerfi, hvert var upprunalegt markmið og hver er staðan?
Þegar kerfið var sett á var markmiðið fyrst og fremst tvíþætt, það fyrra að fækka skipum vegna þess að við værum að veiða allt of fáa fiska með allt of mörgum skipum, en þessu atriði lauk eins og frægt er með svokölluðum Valdimars dóm. Hitt atriðið var að með fækkun skipa myndu aflaheimildir aukast hratt og örugglega, en eins og allir vita, þá er þorskkvótinn í sögulegu lágmarki þrátt fyrir að við höfum verið í þessu fáránlega kvótakerfi í tæplega 30 ár. Hitt er svo hins vegar enn alvarlega, að staðan er þannig í dag að vegna frjálsa framsalsins þá eru skuldir sjávarútvegsins taldar vera upp undir 900 milljarðar í dag, á meðan heildar verðmæti allra aflaheimilda á Íslands miðum eru aðeins ca. 500 milljarðar, sem sé hver einasti tittur á Íslands miðum er nú þegar veðsettur amk. tvisvar sinnum og þessu kerfi vilja menn halda áfram, ótrúlegt en satt.
Meira seinna.
1.1.2010 | 13:43
Árið 2009 gert upp og hvernig verður 2010
Árið 2009 var ansi merkilegt ár fyrir margar sakir. Margir vilja meina það að þetta ár hafi verið ár breytinga og uppgjörs, en þegar maður skoðar afleiðingar hrunsins út frá sjónarmiði eyjamanna, þá er nú varla hægt að segja það. Hér eru enn sömu aðilarnir sem ráði einu og öllu í stofnunum og peningamálum eyjamanna og þrátt fyrir að margir viðurkenndir hagfræðingar og prófessorar hafi ítrekað sagt að ein af aðal ástæðum hrunsins hafi verið frjálsa framsalið á aflaheimildum, þá eru menn hér í eyjum á fullu í að verja þetta kerfi. Peningavaldið er afar sterkt. Meira að segja eru virtustu útgerðarmenn í eyjum farnir að tala um að það megi ekki breyta þessu kerfi vegna þess, að 90-95% aflaheimilda hafi skipt um hendur síðan kerfið var sett á, en ég hlýt að spyrja: Hvar var öll þessi stórútgerð hér í eyjum þegar kvótanum var úthlutað í fyrsta skipti? Voru þessi aðilar ekki flestir í útgerð þá? Vissulega hafa hörku duglegir útgerðarmenn í eyjum sýnt mikið áræði við að fjárfesta í aflaheimildum til að bæta stöðu sína, en er kerfið þar með heilagt? Og eru hagsmunir okkar allra fólgnir í því að menn fái að halda áfram að veðsetja kvótann?
En hvernig var árið 2009 hjá mér?
Byrjun ársins var afar góð, því að í janúar og febrúar var einhver besta tíð, sem ég hef upplifað á mínum útgerðarferli og var ég með yfir 20 róðra á þessum tveimur mánuðum í mjög góðu fiskiríi. Sumarið var líka ágætt, en haustið hefur verið svona upp og niður, en samt betra en oft áður. Stærsta breytingin er hins vegar sú, að í öll þessi ár sem ég hef róið hér í eyjum (23 ár) þá hefur vetrar fiskiríið á línu verið á svipuðum slóðum (dýpi) en að undanförnu hins vegar hefur besta fiskiríið verið þar sem hér á árum áður aldrei fékkst bein. Furðuleg þróun og maður er svona pínulítið uggandi yfir því hvar þetta endar.
Pólitíkin spilaði óvenju stórt hlutverk hjá mér í byrjun ársins. Í byrjun febrúar tilkynnti ég félögum mínum í Frjálslynda flokknum, að ég hefði engan sérstakan áhuga eða metnað til þess að vera á lista, en ég gerði mér hins vegar vel grein fyrir því að flokkurinn ætti verulega undir höggi að sækja og ég væri tilbúinn að hjálpa til eftir bestu getu. Málin þróuðust hins vegar töluvert öðruvísi en ég bjóst við og endaði ég með því að vera í öðru sæti flokksins fyrir kosningarnar s.l. vor vegna fjölda áskorana og þá kannski sérstaklega frá vini mínum Grétari Mar sem leiddi framboðið. Setti ég fram nokkur skilyrði um hvernig ætti að vinna í kosningabaráttunni. Ekkert af þeim gekk eftir og má orða þetta sem svo, að við í raun og veru byrjuðum aldrei kosningabaráttuna. Við náðum aldrei að kynna stefnuna af neinum krafti og niðurstaðan var því ekkert sem kom mér á óvart. Lærdómurinn sem ég dreg af þessari kosningabaráttu okkar er kannski fyrst og fremst sú, að ef menn ætla að ná árangri þá verða menn að gjöra svo vel og hafa fyrir því. Ef það er hægt að tala eitthvað gott um úrslitin, þá er það kannski fyrst og fremst það að við getum svo sannarlega gert miklu betur. Úrslitin að öðru leyti komu mér heldur ekki á óvart, vinstri flokkarnir unnu ágætan sigur, en ég held að flestir landsmenn geri sér nú grein fyrir því í dag að sá sigur er ansi dýru verði keyptur fyrir landsmenn. Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð á meðan Framsóknarflokkurinn hlaut ágæta kosningu, það kom mér heldur ekki á óvart, enda var alveg augljóst í kosningabaráttunni að Framsóknarmenn gerðu allt til þess að höfða til þeirra Sjálfstæðismanna sem ekki gátu kosið Sjálfstæðisflokkinn.
Lundavertíðin, ef það er hægt að kalla þetta lundavertíð, er merkilegt nokkuð að þetta þróaðist nákvæmlega á þann hátt sem ég spáði. Lítið varp í byrjun, síðan kom mikið af síli þegar leið á júní, lundinn tók við sér og byrjaði að verpa á fullu, en í fótspor sílisins kom makríllinn og þar með var sílið búið og í framhald af því drapst meiri hlutinn af pysjunni. Erpur og félagar eru enn við sama heygarðhornið og ótrúlegt að hlusta á manninn segja aftur og aftur, veiðar á lunda hafa ekkert með pysjuna að gera, en við mælum samt gegn veiði. Lundastofninn á Íslandi skiptir mörgum tugum milljóna, ég tel hins vegar ekki verjandi að taka aftur upp frjálsar lundaveiðar í Vestmannaeyjum, en tel hins vegar afar mikilvægt að halda í hefðina og leyfa veiðar í amk. 10-15 daga, því lundinn sér um sig og merkilegt hvað lítið hefur verið fjallað um þá staðreynd, að nú þegar hefur töluvert af merktum lunda í Vestmannaeyjum veiðst fyrir norðan land. Einnig er merkilegt að ekkert skuli hafa verið fjallað um þá staðreynd, eftir því sem mér er sagt, þá hafi þó sú pysja sem komst á legg bjargast vegna þess að lundinn var farinn að bera í hana gulldeplu. En varðandi skýrslu Erps fyrir sumarið 2009, þá er ég búinn að lesa hana og er hún sami brandarinn og undanfarin ár.
En hvernig verður 2010?
Kosningar eru í vor til bæjarstjórnar. Í dag er fremur óljóst hvaða flokkar munu bjóða fram, nema að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkurinn. Við í Frjálslynda flokknum höfum einfaldlega lýst því yfir að við stefnum að því að bjóða fram. Til þess að svo megi verða, er alveg ljóst að það verður ekki gert á sömu forsemdum og fyrir 4 árum síðan og í dag get ég ekki sagt annað en það, að við vissulega getum boðið fram, en ég tel persónulega að til þess þurfi að koma til liðs við okkur fleira fólk. Augljóslega er það mjög erfitt, skiljanlega þegar við horfum á þá staðreynd að stóru framboðin tvö hafa hér högl og tögl í öllu og meirihluta flokkurinn aldrei áður sett það fram á skýrari hátt hverju það skilar ef menn styðja þann flokk eins og á síðasta kjörtímabili, samanber ráðningar í störf á vegum bæjarins.
Ég lofaði því í athugasemd á blogginu að setja nokkur orð um hvaða tækifæri ég sæi hugsanlega með Bakkafjöru. Það er enginn vafi á því að ef vel tekst til, þá er að mínu mati stærsta sóknartækifæri eyjamanna tengt Bakkafjöru ferðaþjónustan, en ég held þó að þar sé um töluvert ofmat að ræða, nema ef menn ráðast í einhverskonar fjárfestingu eða gera eitthvað sem skapað getur eyjunum sérstæðu umfram aðra landshluta. Vissulega höfum við eyjarnar, fuglalífið, eldgosið og svo mætti lengi telja, en þetta er hægt að sjá á nánast hverju einasta horni á landinu öllu, en hvernig lýst ykkur á ef við orðum þetta svona: Komdu til Vestmannaeyja, skoðaðu fuglalífið og fjöllin, Pompei norðursins, söfnin, farðu hringferð á bát í kringum eyjarnar, skrepptu í sjóstöng og komdu svo í GULA KAFBÁTINN og skoðaðu þetta neðansjávar. Neðansjávar hellana, allt lífið í kringum eyjarnar, horfðu á hvalina eltast við síldartorfur og súluna stinga sér í veiði neðansjávar. Sérstaða með sérstöðu tel ég að Landeyjarhöfn gæti orðið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Vissulega eru margar hugmyndir í loftinu, en þegar ég fór til Tenerife fyrir tveimur árum síðan, var það fyrsta sem ég ákvað að ég yrði að prófa þegar ég sá hvað var í boði var ferð með kafbát. Þetta var klukkutíma ferð og farið niður á 30 faðma dýpi og fyrir þetta borgaði ég þá 4500 krónur og fannst það ekki mikið. Það er hins vegar nokkuð ljóst að svona dæmi er afar dýrt og mig minnir að þessi 60 manna kafbátur sem við fórum í, hafi átt að kosta á þriðja milljarð. Dýrt dæmi, en afar spennandi og spurning hvort að ekki hefði verið sniðugt að skipa einhverskonar nefnd á vegum bæjarins með hagsmunaaðilum, fjárfestum og aðilum úr bankakerfinu til að skoða svona dæmi.
Annað sem mig langar að nefna, mér þótti mjög áhugavert að sjá núna í haust rannsóknir, þar sem kannaður er möguleikinn á því að framleiða rafmagn þar sem vatn og sjór mætist. Ég er eins og örugglega margur eyjamaðurinn mjög áhugasamur um möguleikann á því að nýta vindinn og straumana við eyjar og í mínum huga ekki spurning að í framtíðinni er hugsanlega eitt stærsta tækifæri okkar fólgið í þróun á þessum möguleikum og svo við setjum þetta upp á svolítið öfgafullan hátt, rosaleg væri nú flott að við gætum framleitt það mikið rafmagn að við gætum t.d. hafið ræktun á okkar eigin ávöxtum og grænmeti í gróðurhúsum suður á eyju, að maður tali nú ekki um þann möguleika að framleiða nægilegt rafmagn fyrir íbúa bæjarins og gera okkur þannig að öllu leyti sjálfbær að þessu leyti, afar spennandi og um leið myndi þá opnast sá möguleiki að hér væri hægt að byggja upp sambærilega stofnun og er í Hveragerði, einhverskonar náttúru og heilsustofnun þar sem hlúð væri að líkamlegri og andlegri heilsu landsmanna, eða eins og síðasta atvinnumálanefnd orðaði það: Heilsutengda heilsugæslu. Spennandi kostur, en eins og allt annað, afar dýrt að starta einhverju svona, en ég ætla að fara inn í nýja árið með þá von í brjósti að eitthvert framboðið í vor komi fram með einhverja hugmynd og þá helst fjármagnaða annar staðar frá, sem skapað geti nokkurn fjölda starfa hér í bæ, sem ekki væru tengd sjávarútvegi.
Gleðilegt nýtt ár allir og takk fyrir það gamla.
Meira seinna .
1.1.2010 | 02:00
Árið
19.12.2009 | 23:34
Framhald af síðustu grein (vegna athugasemda um Bakkafjöru)
Vegna anna á sjónum alla þessa viku hafði ég ekki tíma til að svara athugasemdum við síðustu færslu, sem að beindust fyrst og fremst að Bakkafjöru og ætla ég því að svara því með nýrri grein og taka stöðuna eins og ég sé hana í dag, en ég vil taka það skýrt fram að ég er alls ekki í neinni baráttu gegn Bakkafjöru og vona svo sannarlega að hún verði lyftistöng fyrir Eyjarnar.
Hvort innsiglingin í Bakkafjöru verður eitthvað verri heldur en í Þorlákshöfn er eitthvað sem enginn veit, en við verðum bara að vona það besta. En ef við skoðum stöðuna, þá var lagt upp með það á sínum tíma að Bakkafjara væri númer eitt, styttri sigling sem er vissulega rétt, svo framalega sem það sé fært. Númer tvö, að þessi leið væri hættuminni heldur en hin langa sigling til Þorlákshafnar, sem er vissulega rétt en miðað við að 90 % farþega eru að fara á höfuðborgarsvæðið, þá er Bakkafjara svo sannarlega mun verri kostur og sennilega það mikið verri kostur að það er ekki mælanlegt. Í þriðja lagi var talað um lægri fargjöld, en miðað við stöðuna á ríkiskassanum í dag, þá er nokkuð ljóst að svo verði ekki og nokkuð augljóst, miðað við síðustu bensín og olíuhækkanir að með Bakkafjöru þá muni það kosta okkur eyjamenn að öllum líkindum helmingi meira að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu. Inni í þessum tölum eru að sjálfsögðu ekki öll þau störf sem munu vera lögð niður vegna styttri siglingar, en nú þegar höfum við fengið nasasjónir af því. Eitt enn, við sjáum reglulega myndir af uppgræðslu af svæðinu við Bakkafjöru, en við þurfum ekki nema að horfa til lands þegar hvassar landáttir eru, til þess að sjá það með eigin augum, hversu litlu sú uppgræðsla breytir varðandi sand og moldrok í Bakkafjöru og eitt enn, ég minni á orð Gísla Viggóssonar sem svar við spurningu sem hann fékk í Höllinni á sínum tíma: "Það verður aldrei hægt að nota núverandi Herjólf í Landeyjarhöfn." En nú hefur hins vegar verið ákveðið að nota hann samt.
Varðandi það sjónarmið sem við ítrekað höfum séð koma fram hjá bæjarstjórninni í Vestmannaeyjum, þá er það einfaldlega staðreynd að því oftar sem bæjarstjórinn segir að Bakkafjara verði mikil lyftistöng fyrir Vestmannaeyjar, sem að við að sjálfsögðu vonum öll, þá munu fleiri trúa því. Þetta er ekki ósvipað og með útrásarvíkingana sem sögðu öllum, beint og óbeint, að þeir væru algjörir snillingar það oft að við fórum að trúa því, þó að við vissum betur. Vonandi verður Bakkafjara ekki sambærilegt klúður og þar.
Varðandi undirskriftarsöfnun um Icesave, þá fékk ég sms frá Indefence hópnum, þar sem skorað var á mig að skrifa undir hjá þeim, sem ég hef ekki gert og mun ekki gera, enda staðfestir það það sem ég sagði í grein minni, það eru ákveðnir flokkar sem eru núna í minnihluta að reyna að nota þetta Icesave í einhvers konar pólitískri refskák, en hvernig niðurstaðan og afleiðingarnar af þessum samningum verða, því er einfaldlega hægt að svara með því að segja: Nei, við viljum ekki borga. Núverandi meirihluti hins vegar mun þurfa að svara fyrir sínar ákvarðanir á þessu máli í næstu kosningum.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.12.2009 | 21:42
Af tæknilegum mistökum
Svo langt síðan að ég skrifaði síðast og svo mikið búið að gerast, að ég leyfi mér að kalla þessa grein tæknileg mistök.
Eins og alþjóð veit, þá var það bæði fyrrverandi og núverandi þingmaður úr eyjum sem kom fyrst fram með þennan frasa, tæknileg mistök, en orðatiltækið lét hann hafa eftir sér eftir að hafa verið gripinn við þjófnað frá Íslensku þjóðinni, dæmdur sekur og stungið í steininn og hefur ekki enn séð ástæðu til að biðjast afsökunar á sínum tæknilegu mistökum. Ég hef reyndar s.l. ár tekið sérstaklega eftir því, að ótrúlega margir samflokksmenn hans kalla hann tæknileg mistök, og hefðu jafnvel ekki viljað sjá hann á þingi á meðan margir hinir dyggustu stuðningsmenn kalla hann fyrst og fremst blóraböggul og að margir aðrir, og þá sérstaklega úr öðrum flokkum, væru a.m.k. jafn sekir um sambærileg tæknileg mistök. Það hefur reyndar vakið sérstaka athygli mína þetta síðast liðið ár, þar sem öllum er nú orðið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ber stærstu og mestu ábyrgðina á hruni fjármálakerfi landsins, að enginn þeirra hefur vogað sér að kalla það tæknileg mistök.
Í fréttunum í kvöld voru sýndar ágætar myndir innan úr Bakkafjöru af stórbrimi, ég ætla rétt að vona það, að á næstu árum munum við aldrei heyra þessi orð, tæknileg mistök, hvorki um framkvæmdina, útreikningana, landgræðsluna og svo framvegis. Ég tel þó enn að þó að þessu verði ekki breytt úr þessu, þá væri það svo sannarlega engin tæknileg mistök ef helsta samgönguæð eyjamanna í dag væri þjónustuð með stærra og gangmeira skipi. Merkilegt nokkuð að enn er til fólk hér í eyjum, sem heldur því fram að þó að alt færi á versta veg í Bakkafjöru, þá verði þó alltaf hægt að sigla til Þorlákshafnar. Ótrúlegt, því að ég spái því að það muni ekki líða langur tími frá því að farið verði að nota Bakkafjöru, þar til búið verði að nýta ferjulægi Herjólfs í Þorlákshöfn í annað.
Ég hafði nokkuð gaman af upphrópi Huldu í Vatnsdal, þar sem hún auglýsti eftir V-listanum og ágætu svari þeirra á Fréttum með tveggja síðna viðtali við oddvita V-listans, Páll Scheving þar sem Palli segir m.a. að hann sé kannski ekki nógu blóðþyrstur að mati sumra og að störf hans í bæjarstjórn hafi fyrst og fremst snúist um hagsmuni bæjarbúa allra, frekar en einhverskonar pólitík og á öðrum stað, að hann sé hugsanlega jafn mikill krati og sjálfstæðismaður, þetta hljóta að vera tæknileg mistök hjá Páli vini mínum.
Úr sjávarútveginum er ýmislegt að frétta, en þó ekki. Því miður virðist núverandi sjávarútvegsráðherra vera á sama hraða og öll ríkisstjórnin þ.e.a.s. á hraða snigilsins, á meðan stór hluti þjóðarinnar berst í bökkum, en kannski má segja sem svo að þessi fáránlega umræða um Icesave spili þar stærsta hlutverkið og ég fyrir mitt leyti er að verða nokkuð sammála þeirri skoðun, að Icesave snúist í raun og veru fyrst og fremst um nokkurs konar pólitík, þar sem að stærsti möguleiki minnihlutans á að núverandi meirihluti falli, felist einmitt í því máli, þar held ég að engin tæknileg mistök séu í gangi, heldur fyrst og fremst úthugsuð pólitík og þó svo að ég eins og flest allir, ef ekki allir Íslendingar, séu á þeirri skoðun að Icesave sé eitthvað sem við ættum ekki að borga, þá hef ég velt því töluvert fyrir mér að undanförnu, hvort að það sé þess virði að láta öll mál dragast út af þessu eina, enda eru ansi margir betur menntaðir en ég farnir að tala um það, að þegar upp verði staðið þá munum við sennilega aldrei borga neitt af þessum útrásarskuldum og vegna hvers? Jú, þetta voru allt saman tæknileg mistök.
Meira seinna.
12.11.2009 | 11:00
Það er kannski óhætt að rugga bátnum, en við megum ekki hvolfa honum
Það gengur mikið á í sjávarútveginum þessa dagana, síld farin að berast á land sem er afar ánægjulegt, eins eru sum togskipin farin að beita sér í gullax með ágætum árangri og spara líka bolfiskkvótann, en það heitasta í dag eru sennilega þær breytingar sem núverandi sjávarútvegsráðherra hefur boðað. Þær eru að sjálfsögðu umdeildar og eru núverandi handhafar kvótana sérstaklega óánægðir, skiljanlega, enda hafa þeir undanfarna áratugi verið með sína menn í þessu ráðuneyti (sjálfstæðis og framsóknar) sem hafa í einu og öllu farið eftir þeirra vilja að mestu leyti, en sem hefur því miður, eins og nú er komið í ljós, gert það að verkum að staðan er þannig í dag að hver einasti fisktittur á Íslandsmiðum er núna veðsettur og sumir vilja meina jafnvel tvisvar sinnum. Furðulegt að menn skuli virkilega vilja halda áfram með það kvótakerfi sem hefur skilað þeim árangri, þ.e.a.s. allur fiskurinn veðsettur og allir fiskstofnar í sögulegu lágmarki, og það er alveg stórfurðulegt að þeir flokkar sem bera mesta ábyrgð á hruni bankanna og bera einnig mesta ábyrgð á núvernadi kvótakerfi skuli virkilega vilja halda áfram að berja hausnum við steininn, því að staðan er þannig í dag, að við og börninn okkar munum þurfa að súpa seiðið af gjörðum útrásarvíkinganna og enginn veit hvernig það fer, og á sama hátt er nokkuð ljóst að við óbreytt kvótakerfi, þá munu barnabörnin okkar að öllum líkindum þurfa að súpa seiðið af þeirri skuldsetningu, ekki mjög björt framtíð það og kannski ekki furða, að í skoðanakönnun sem gerð var í háskólanum á Akureyri í sumar, var mikill meirihluti nemanda á því að við myndum lifa á sjávarútvegi í framtíðinni, en það vakti meiri athygli að enginn nemandi sagðist hafa áhuga á að starfa í greininni. Eðlilegt, enda ekkert spennandi að mennta sig til að starfa í kerfi sem er jafn lokað og núverandi kvótakerfi. Við munum kannski hvernig þetta var á árum áður, þegar útgerðarmenn og skipstjórar féllu frá, hættu eða seldu báta sína, þá var það ekki óalgengt að dugandi stýrimenn og áhöfn áttu það til að kaupa jafnvel bátana og hefja sjálfir útgerð, en þetta er ekki hægt í dag, enda verð á aflaheimildum komið langt, langt út fyrir allt sem er eðlilegt og eins og kemur fram fyrr í greinini er skuldsetningin alveg ógurleg. Það breytir hins vegar ekki því, að allar breytingar á kvótakerfinu verða að vera vel úthugsaðar, því að þó að það sé kannski óhætt að rugga bátnum aðeins, þá má alls ekki hvolfa honum.
Mjög merkileg þessi hugmynd um vigtun á gámafiski og skiljanlegt að þeir sem senda allan sinn afla út í gámum séu óhressir. Hitt sjónarmiðið er kannski það, að margir bátar voru að landa í gær hér í eyjum og settu nánast allir allt í gáma, enda mjög gott verð um þessar mundir erlendis. Hin hliðin er sú, að á sama tíma er fiskvinnslufólk látið sitja heima vegna hráefnisskorts. Þarna þarf að sjálfsögðu að finna meðalveginn, bæði að hugsa um hag fiskverkafólks og einnig þeirrar miklu vinnu sem lögð hefur verið í að búa til markað fyrir fisk erlendis, en hvernig þessar nýju hugmyndir munu líta út þegar upp er staðið, á eftir að koma í ljós.
Meira seinna.