Sumarfrí, lundinn og Bakkafjara

Það voru mikil rólegheit í síðustu viku, enda skellti ég mér með fjölskylduna í sumarbústað rétt norðan við Borgarnes. Vorum við þar í eina viku og skoðuðum allt sem hægt var að skoða á svæðinu að mestu leyti og get svo sannarlega mælt með Borgarnesi og nágrenni, enda er þetta mikið ferðamannasvæði að verða. Komum síðan heim á laugardagskvöldið með Herjólfi og var farinn á sjó kl. tvö um nóttina. Réri sunnudag og mánudag og náði í 3 tonn af blönduðum fiski.

Ekki er lundapysjan farin að skila sér, ég hef reyndar ekki farið sjálfur út í fjall í ágúst, en mér er sagt að það sé mjög mikið af dauðum pysjum í lundabyggðunum. Það kemur mér ekki á óvart, enda spáði ég því hér á bloggsíðunni minni seinni partinn í júní í sumar, að þó að útlitið um það leytið væri ágætt, þá er því miður staðan enn sú sama og á síðasta ári þ.e.a.s. fjaran er enn opin fyrir snurvoð og hér er allt vaðandi í makríl sem enginn má veiða. Meðan þetta ástand varir þá mun lundinn ekki koma upp pysju í Vestmannaeyjum í neinu mæli. Hitt er svo annað mál að lundaveiði sem slík hefur ekkert með pysjuna að gera og í sjálfu sér tel ég að óhætt hefði verið að veiða í einhverja daga í viðbót. Vissulega er ljóst að hlutfall fullorðins fugls í veiðinni er að aukast, en þar sem við eyjamenn nýttum ekki hina sterku árganga á árunum 2002-2005, sem við hefðum átt að vera að veiða síðustu 3 árin, þá gefur það augaleið að sennilega er veiðistofn lundans, þ.e.a.s. ungfugl að litlu leyti, geldfugl, sem einhverra hluta vegna gerir sér ekki holu eða verpir, sem og annar graddi sem alltaf hefur verið ákveðið hlutfall af veiðinni eru þar af leiðandi í sögulega hámarki. Varpfuglinn hins vegar, honum hefur greinilega fækkað að einhverju leyti og má leiða líkur að því að pysjudauði ár eftir ár vegna ætisskorts hafi þar töluvert mikið að segja og því miður eru þessir svokölluðu lundarannsóknarmenn ekkert að gera í því og því var hvíslað að mér nýlega, að hugsanlega hefði það eitthvað með einhverskonar pólitík að gera. Ljótt ef satt er. 

Það vakti töluverða athygli í vikubyrjun, ævintýraleg tuðruferð í Bakkafjöru þar sem munaði aðeins hársbreidd á að illa færi. Það er alveg ljóst að þó svo að ég voni svo sannarlega að Bakkafjara verði okkur til góðs, þá er alveg jafn augljóst að menn munu freistast til að fara á tuðrum eða illa útbúnum smábátum þessa leið og velti því upp, hvort það sé ekki rétt að bæjaryfirvöld fari að skoða það í alvöru að grípa þar inn í áður en illa fer. 

Meira seinna.


Þjóðhátíðin, lundinn og smá Icesave

Ég ætla að byrja á að óska ÍBV og Þjóðhátíðarnefnd til hamingju með vel heppnaða Þjóðhátíð. Mér þótti snúningurinn á sviðinu sem og uppsetning sjónvarpskjána einstaklega vel heppnað og ljóst að mikið var lagt í að gera hátíðina og svæðið sem best út garði í ár og ber að þakka það.

Lundaveiðitímabilinu í ár lauk í síðustu viku og er orðið nokkuð ljóst að ekki verður tekið undir óskir mínar og annarra veiðimanna um að lengja tímabilið. Í sjálfu sér fór þetta nákvæmlega eins og ég hafði spáð, þ.e.a.s. að með því að úthluta aðeins 5 veiðidögum og festa þá í almanakinu, þá var aðeins veiði í tvo daga af þessum fimm og hefði þurft, miðað við mína reynslu, amk. 10 daga til að geta hugsanlega veitt í 5.

Ég sagði frá í minni síðustu grein, furðulegum skoðunum sumra og m.a. frá manni, sem sagðist geta séð það með því að horfa yfir brekkurnar, þá sæi hann að þetta væri allt saman gamall lundi og ætti þess vegna ekki að leyfa veiðar. Ég hitti þennan sama mann á föstudagskvöldið og hafði hann á orði við mig, að miðað við það gríðarlega lundaflug sem var þá um kvöldið í dalnum, þá ætti einfaldlega að leyfa mönnum að veiða út tímann, frá og með þeim tíma. Merkilegt hvað sumir eru fljótir að skipta um skoðun. Reyndar var gríðarlegt lundaflug frá seint á miðvikudagskvöldi í síðustu viku, alveg fram á aðfaranótt sunnudags, en þá hvarf lundinn og hefur ekki sést síðan, en ætti að koma upp í kvöld.

Jói Ben á Portlandinu (eina snurvoðabátnum í Eyjum) kom að máli við mig um helgina og var ekkert yfir sig hrifinn af þeirri hugmynd minni að banna snurvoðaveiðar og vildi fá að vita, hvaða sannanir ég hefði fyrir því að snurvoðin væri að drepa sílin. Í sjálfu sér hef ég að sjálfsögðu engar sannanir, enda hefur þetta ekki verið rannsakað, eftir því sem ég veit best. Smábátasjómenn hinsvegar, þekkja það af reynslunni að svæðið þar sem snurvoð hefur verið dregin yfir eru undantekningarlaust algjörlega lífvana í langan tíma á eftir og þar fæst enginn fiskur í jafnvel nokkrar vikur á eftir. Hinsvegar langar mig að benda á það, að fjaran á móti eyjunum var opnuð fyrir snurvoð 2007 vegna þess að útgerðarmenn snurvoðabáta sögðust ekki eiga möguleika á að ná sínum ýsukvótum annar staðar. Núna hinsvegar, liggur fyrir ákvörðun sjávarútvegsráðherra um niðurskurð á ýsukvótum um 40% og finnst mér þá ekki spurning um það að auðvitað á þá um leið að loka þessu svæði sem var opnað 2007, eða amk. svæðinu frá sandagrunni í vestri og amk. að sandahrauni í austri og gefa þannig fuglalífinu hugsanlega meiri séns á að bjarga sér, því að eins og ég hef skrifað áður, mér er sagt að síli hrygni í sandinum og þegar snurvoðin er dregin eftir sandinum, þá losni um hrognin og þau farist. Eigum við ekki að láta fuglalífið í Eyjum að njóta vafans?

Hitt vandamál lundans, að mínu mati, er allur þessi makríll við eyjar og er alveg með ólíkindum að horfa á torfurnar í höfninni og að það sé bannað að veiða makrílinn. Ég er alveg sannfærður um að makríllinn sé mikill skaðvaldur fyrir fuglalífið í Eyjum og var ég m.a. að skoða athyglisverðar myndir og upplýsingar inni á vef www.hbgrandi.is, sem komu fram á Eyjafréttum í síðustu viku, þar sem m.a. eru tekin sýni úr makríl, þar sem m.a. fundust loðna og vottur af bæði síli og síld. Þarna held ég að sé komin sönnunin fyrir því, hver ástæðan er ef pysjan verður lítil eða léleg í ár. Allur þessi makríll er einfaldlega búinn að éta allt ætið frá fuglinum og alveg ljóst, að ef hér væru fuglarannsóknarmenn með eitthvað vit í kollinum, þá myndu þeir að sjálfsögðu koma þessum upplýsingum til sjávarútvegsráðherra og styðja þar með við kröfu Eyjamanna um að fá að veiða makrílinn sem er hér um allan sjó.

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með allri þessari umræðu um Icesave og ESB, en ég get þó orðað það eins og ég hef gert áður að ég er á móti inngöngu í ESB, enda tel ég möguleika okkar á að halda sérstöðu okkar varðandi sjávarútvegs og landbúnaðarmál nánast vonlausa. Varðandi Icesave hinsvegar, þá er ég á móti því að borga skuldir útrásarvíkingana, en ég get þó ekki neitað því, að mér finnst ennþá vanta töluvert upp á af upplýsingum, hversu miklar heildar skuldirnar eru, hversu miklar eignir eru þar á móti og ekki hvað síðast og síst, hverjar afleiðingarnar yrðu ef við neituðum að borga?

Meira seinna.


Frábær þjóðhátíð........

þjóðhátíð 2009 034

......takk fyrir mig!


Allt tilbúið í Möttukoti í dalnum........

þjóðó 009

......og erum við á Týsgötuni og að vanda eru öllum bloggvinum boðið að kíkja við.

 


Mynd dagsins

019

Það held ég að þeir í Greenpeace fái áfall yfir þessari mynd.


Eru náttúruverndarsamtökin Greenpeace með útibú í Vestmannaeyjum?

Það mætti allavega halda það miðað við furðuleg skrif Mara pípara og Óskars í Höfðanum. Það er kannski gott dæmi um furðulegar skoðanir sumra í spjallinu varðandi lundann sem ég hef fengið að undanförnu, hér koma tvö dæmi:

Ég lenti á spjalli við lundaáhugamann sem var algjörlega sammála mér um það að það væri gríðarlega mikið af lunda við eyjar, en tilkynnti mér um leið, að hann hefði séð það að þetta væri allt saman gamall lundi! Ég spurði hvernig hann hefði farið að því að sjá það og svarið var einfaldlega það: "Með því að horfa yfir brekkurnar" svo þetta eru aldeilis fínar fréttir fyrir lundarannsóknarliðið í eyjum, því hér eftir þarf ekki að veiða neinn lunda, taka mynd af neinum lunda til aldursgreiningar, heldur getum við eingöngu með því að ráða þennan einstakling til vinnu aldursgreint allan lundann úr fjarlægð. En vegna þess hversu fáránlega þetta hljómar, þá ætla ég að sleppa því að nafngreina menn sem láta svona frá sér.

Í morgun lenti ég á spjalli við mann, sem sagðist hafa það eftir eldri veiðimönnum, að það væri nánast enginn lundi í eyjum, miðað við hvernig þetta var á árum áður og þetta hefði hann haft eftir manni sem stundaði veiðar á tímabilinu 1940-1950. Þetta er aftur gott dæmi um furðulegar skoðanir sumra, enda veit ég ekki einu sinni hvort að lundaveiðar í háf hafi verið byrjaðar um þetta leiti.

Í gærkvöldi funduðum við í veiðfélagi Heimaeyjar. Á morgun er fyrsti dagur af þessum 5 sem leyft er að veiða í ár, en veðurspáin næstu daga er afar óhagstæð. Ég fyrir mitt leyti mun gera eins og ég er vanur, ef ég sé mikið lundaflug og góða vindátt á góðum veiðistað, þá mun ég fara og veiða en annars ekki.

Það berast fréttir af því víða af norðanverðu landinu af gríðarlegri lundaveiði, sem er ósköp eðlilegt, enda hefur lítið verið veitt síðustu árin. Merkilegt nokkuð, ég veit ekki til þess að nokkur staðar annar staðar þar sem mikið af lunda er veitt, að þar séu starfandi rannsóknarmenn til að aldursgreina og/eða meta stofnstærð, sem og nýliðun. Á sínum tíma var það hópur áhugasamra manna frá eyjum sem beitt sér fyrir því að þetta rannsóknarlið kæmi hér til eyja og eftir að hafa fylgst vel og vandlega með þessu annars ágæta fólki frá upphafi, þá verð ég að segja alveg eins og er, ég held að menn hefðu betur varið þessum fjármunum í eitthvað annað mikilvægara og ítreka enn einu sinni mína skoðun á lundastofninum í eyjum: Lundinn mun koma í milljóna tali til eyja löngu eftir minn dag, eina sem við þurfum að gera er að tryggja nýliðuninni (pysjunni) betri möguleika með því að banna snurvoð í fjörunni og hefja alvöru makrílveiðar við eyjar.

Meira seinna. 


Róðrar og lundinn, hver græðir mest?

Mikið búið að róa í þessari viku og mikið búið að fiska, eða upp undir 10 tonn svo fram undan er að fara aftur niður á fjórar fætur fyrir kvótaeigendum í von um að fá að veiða eitthvað meira.

Mikill lundi hefur verið við eyjar að undanförnu og nokkuð ljóst að veiðistofn lundans er mættur á svæðið. Í fréttum Bylgjunnar í fyrradag var talið að lundastofninn í eyjum hafi einu sinni verið talinn vera 5 milljónir og að ákveðið hefði verið að veiðidagar í ár verði 5 í staðinn fyrir 7 á síðasta ári. Þetta er að sjálfsögðu rangt (sé þetta líka inni á eyjar.net) veiðar voru leyfðar í 30 daga á síðasta ári og lundastofninn í Vestmannaeyjum hefir alltaf verið talinn vera a.m.k. 5-6 milljónir lunda og miðað við magnið sem hefur verið á ferð við eyjar að undanförnu, þá er þar engin breyting þar á, sama hvað fuglafræðingar segja. Þessi ákvörðun um að leyfa veiðar aðeins í 5 daga er afar dapurleg og í raun og veru hreinlega heimskuleg og ekki ósvipað rugl og þetta svokallaða strandveiðikerfi, þar sem fyrirfram er ákveðið hvaða daga má róa og ekkert tillit tekið til veðurfars og á sama hátt er nokkuð ljóst að það verður ekki lundaveiði alla þessa 5 daga og í versta falli jafnvel engan.

Það vakti athygli mína fréttir um það, að allur lundinn væri orpinn og það væri egg í hverri einustu holu. Merkilegt nokkuð, í byrjun júní fór Erpur Snær hamförum í öllum fjölmiðlum landsins og meira að segja erlendis, þar sem hann lýsti því yfir að útlit væri fyrir að lundavarpið hefði misfarist og yrði jafnvel lítið eða ekkert í ár. Núna hins vegar heyrist ekki bofs frá honum um þessar jákvæðu fréttir og mér þótti merkilegt að heyra það í vikunni að sjálfur yfir lundarannsóknarmaðurinn væri stunginn af í sumarfrí á þessum mikilvægasta tíma ársins varðandi lundarannsóknir.

Ég tók eftir því um daginn að andstæðingar lundaveiða tala gjarnan um lundaveiðimenn sem hagsmunaaðila þegar kemur að lundaveiði og er ég gjarnan stimplaður sem slíkur, en merkilegt nokkuð, ef ég skoða síðustu viku út frá mínu sjónarmiði miðað við þann lunda sem var í síðustu viku og vindáttir, þá hefði ég sennilega, miðað við mína þekkingu og reynslu af lundaveiðum) hugsanlega getað náð í 3-400 lunda í vikunni og fengið fyrir það kannski 50 þúsund krónur ca. en á sama tíma er ég búinn að fiska fyrir upp undir milljón, svo ekki held ég að hægt sé að segja að þetta snúist um aurinn að mínu mati, enda hafa lundaveiðar alltaf í mínum huga snúist um forréttindi og frí, hins vegar er mjög athyglisvert og kemur mér ekki á óvart að heyra það að þessir svokölluðu lundarannsóknarmenn séu afar vel borgaðir og það sumir hverjir á launum allan ársins hring við þessa vitleysu. En ég endurtek, það er ekkert ánægjulegra heldur en að geta gengið á fjöll í eyjum og veitt einhverja fugla, svo eðlilega er ég óhress með að það hafi verið slegið af í ár. Í sjálfu sér væri það í lagi ef ástæðurnar væru nægar, en ég tel svo ekki vera, enda er gríðarleg lundaveiði allstaðar annarstaðar á landinu. Ég skora því á bæjarstjórn Vestmannaeyja að leyfa veiðar eftir Þjóðhátíð ef útlitið með pysjuna verður gott um það leytið. Reyndar fer ég sjálfur í frí upp á land eftir Þjóðhátíð, en það er mikill fjöldi manna sem hefur mikla ánægju af þessari þjóðaríþrótt okkar eyjamanna, lundaveiðinni, og miðað við magnið sem sést hefur að undanförnu, þá tel ég að lundinn hafið fengið að njóta vafans.

Meira seinna.


Fór á sjó í fyrradag og tók myndavélina með

ættarmót og goslok ofl 174

ættarmót og goslok ofl 182

Þessar tvær myndir minntu mig svolítið á draum trillukarlsins og eru teknar kl. 4 um nóttina

ættarmót og goslok ofl 179

Mikið af uppsjávarfiski við eyjar, þessi torfa var við Klettsnefið

ættarmót og goslok ofl 184

Það er ekki nema rétt yfir hásumarið sem að maður sér sólina koma upp vestan megin við jökul

ættarmót og goslok ofl 186

var á veiðum undan eyjafjöllum þennan dag

ættarmót og goslok ofl 190

fiskiríið var ágætt, eða tæplega 1,5 tonn

ættarmót og goslok ofl 191

alltaf gott að koma í land aftur úr róðri


Mikið líf í sjónum við eyjar þessa dagana

Fór á sjó í fyrradag og tók myndavélina með og set inn myndir á eftir þessari færslu. Mikið síli er allt í einu komið allt í kringum eyjar og mikið af lunda um leið, sem kemur ekki á óvart, það er hins vegar öllu verra að makríll veiðist núna allt í kringum eyjar og m.a. fengu tvær stelpur makríl í höfninni í Vestmannaeyjum fyrr í vikunni. Ef makríllinn er á eftir sílinu, þá er það ekki gott en í framhaldi af allri þessari sílisgengni við eyjar, þá fékk ég þær fréttir í gær að allur lundinn væri orpinn, svo nú er bara að krossleggja fingur og vona það besta.

Það er mikil umræða í gangi um þessar svokölluðu strandveiðar, nokkrir bátar eru í startholunum hér í eyjum en ég ætla að láta þetta eiga sig í ár. Það er í sjálfu sér eðlilegt að kvótalausir útgerðarmenn sæki í þessar strandveiðar, enda eru afleiðingar þeirrar ákvörðunar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra frá því í haust um að auka geymslurétt milli ári upp í 33% af aflaheimildum núna greinilega komnar í ljós, enda er nánast engar aflaheimildir hægt að fá á leigu nokkurs staðar, svo það má með sanni segja að þáverandi ráðherra, Einar Kristinn, hafi endað sín störf sem sjávarútvegsráðherra á sama hátt og hann byrjaði, eða með því að gera kvótakerfið enn verra. Dapurlegast er þó að horfa á núverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, sem gerir nákvæmlega sömu vitleysuna og fyrirrennarar hans síðustu árin þ.e.a.s. að hengja sig nánast algjörlega á hugmyndir Hafró án þess að taka nokkuð tillit til sjónarmiða og reynslu sjómanna. Ég segi þetta því einu sinni enn, tegundir eins og keila, langa, skötuselur ofl. ættu að sjálfsögðu ekki að vera í kvóta, allavega ekki á smábátum og það væri mikill munur ef núverandi sjávarútvegsráðherra væri þingmaður Frjálslyndra, því þá væri einfaldlega handfæraveiðar frjálsar, en þessar strandveiðar munu að sjálfsögðu verða til þess, að menn hendi verðminni fisk fyrir verðmeiri.

Set svo inn nokkrar myndir úr síðasta róðri á eftir þessari færslu.

 


Frábær helgi og lundinn

Skemmtileg helgi að baki, þar sem á tímabili var fullt út út dyrum á laugardagskvöldið í Blíðukró. Einnig átti ég ánægjulegt ættarmót og í raun og veru eina sem vantaði til að klára helgina með stæl, er að ekki hefði verið dæmd rangstæða þegar ÍBV skoraði sigurmarkið gegn FH, en strákarnir okkar stóðu sig annars eins og hetjur.

Mikið er búið að gerast í lundamálum eyjamanna síðan ég skrifaði um þau síðast og einmitt núna er lundi að flykkjast upp austur í Heimakletti og er staðan því nú þegar orðin svipuð og í fyrra, þ.e.a.s. lundinn kemur á nokkurra daga fresti, sem er vísbending um það að hann þurfi að fara langt eftir æti, en vonandi lagast það þegar líður að næstu mánaðarmótum, annars er hætt við því að illa geti farið fyrir pysjunni eins og í fyrra.

Það er svolítið merkilegt að lesa skrif sumra sem tjáð hafa sig um lundann og þá sérstaklega þessa svokölluðu verndarsinna, sem býsnast einhver ósköp yfir því að hér sé verið að veiða hugsanlega nokkur þúsund lunda, en taka ekki undir orð manna (eins og mín m.a.) sem eru óhressir yfir því að ekkert sé verið að gera til að koma í veg fyrir að hér verði samskonar stórslys og á síðasta ári, þegar a.m.k. 500.000 lundapysjur drepast úr hungri. Ótrúlegt, en satt. En það er þó ánægjulegt að í nýjasta viðtalinu sem ég hef séð við Erp, þá orðar hann þetta loksins þannig að veiðar hafi að sjálfsögðu lítið að segja, en að menn þurfi að leggja meiri tíma og peninga í að rannsaka fæðuvandamál lundans.

Þessi ákvörðun um að leyfa veiðar í 5 daga mun að öllum líkindum, miðað við ástandið eins og það er núna og eða svipað og í fyrra verða til þess, að sennilega verður í mesta lagin hægt að veiða 1-2 daga af þessum 5, nema að sjálfsögðu að einhverjar óvæntar sílistorfur birtist hér við bæjardyrnar, en ég er ekki of vongóður um það og enda þetta því enn og aftur á þessum sömu orðum: Það þarf að reka snurvoðina burtu úr fjörunni.

Meira seinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband