
1.7.2009 | 23:48
Goskokahátíðin er um helgina, en svona lítur þetta út í huga mér
Það er 22. janúar 1973 og ég man eftir því að ég fór frekar seint að sofa og að það var svona smá hrollur í mér, enda átti ég að mæta í leikfimi kl. 8 um morguninn og það var alltaf frekar kalt í gamla leikfimisalnum svona snemma morguns um hávetur.
Ekki man ég hvað klukkan var þegar ég rumskaði um nóttina við það að barið var að dyrum, en ég heyrði að mamma fór til dyra. Þar var komin einhver útlendingur sem var mikið niðri fyrir, en hún skyldi ekki hvað hann var að segja, en hann benti stöðugt austur á eyju, svo mamma leit út um gluggann og tautaði svo með sjálfri sér:"Það virðist vera kviknað í austur í Kirkjubæ."
Hálftíma seinna kom afi, Júlíus Sigurðsson, og skipaði móður minni að klæða okkur systkinin og fara með okkur niður á bryggju, það væri hafið eldgos í Heimaey. Ég man eftir því að þó ég væri ekki nema liðlega 8 ára gamall, þá var eitthvað í rödd móður minnar, sem varð til þess að við systkinin mölduðum ekki í móinn þegar hún sagði okkur að klæða okkur til að fara niður á bryggju. Ég man einnig eftir göngunni niður á bryggju, mamma með okkur systkinin 3, ég 8 ára, Inga Rósa 6 ára og Júlíus á 4. ári. Himininn var eldrauður og í fjarska heyrðist einhver undarlegur niður sem ég hafði aldrei heyrt áður. Ég man einnig eftir því hvað fullorðan fólkið var ótrúlega ákveðið án þess þó að sýna nokkur ótta eða hræðslumerki.
Við lentum umborð í Danska Pétri, okkur systkinunum var troðið undir borð niðri í káetu og í raun og veru var troðið í bátinn eins og mögulegt var. Siglingin til Þorlákshafnar var frekar erfið, enda mikil sjóveiki og var ælt í öll þau ílát sem í boði voru. Við fórum með rútu í bæinn. Restina af þessum vetri og veturinn á eftir vorum við í Kópavogi og var ég sendur í sveit bæði sumarið ´73 og ´74 og hafði bara gott af. Margt gerðist í sveitinni, en því verða kannski gerð betri skil seinna.
Ég man ennþá eftir ágústmánuði ´74 þegar móðir mín stillti okkur systkinunum upp til að tilkynna okkur það, að nú færum við heim, þannig að í sjálfu sér má segja sem svo að goslokin hjá mér hafi ekki verið fyrr en í ágúst ´74, svo í ár eru 35 ár síðan.
Þegar ég lít tilbaka á það sem maður skilur miklu betur í dag heldur en þá, þá er það helst þakklæti fyrir það hugrekki og kjark sem að foreldrar okkar sem vorum börn á þessum tíma sýndu og ekki síst sá hópur manna, sem háði baráttuna við náttúruöflin til að halda lífæð okkar eyjamanna opinni, höfninni, fyrir það fáum við sem lifum hér í dag seint eða aldrei þakkað nægilega.
Að vana verður opið í Blíðukró á laugardagskvöldið þar sem öllum bloggvinum og öðrum verður boðið að kíkja við. Kommander Helgi Tórs ætlar að stjórna veislunni, en framan af kvöldi verð ég í ættarmóti, en mun koma seinna.
21.6.2009 | 11:58
Meira um lundann (að gefnu tilefni)
Var að horfa upp í Heimaklett núna áðan með sjónaukanum, mikið lundaflug austast í klettinum og fyrir ofan efri göngustíg, en lítið á Kleifunum. Kannski gott dæmi um þær breytingar sem orðið hafa síðustu ár, því að eftir að Eiðis svæðið fór að byggjast upp og umferðin þar að aukast með tilheyrandi hávaða og látum, þá hefur lundinn greinilega hopað undan ofar og austar í klettinum, en eins og nýlegar myndir hér á bloggsíðunni hjá mér úr suðurfjöllunum sýna, þá er engin breyting þar.
Mér finnst svolítið furðulegt að horfa á þessi vinnubrögð náttúrufræðistofu suðurlands í þessum svokölluðu lunda rannsóknum. Það er verið að vakta örfáar holur til að fylgjast með því hvort að lundinn verpi og sjá síðan hvernig pysjunni reiðir af, sem er í sjálfu sér ágætt, en fyrir mig er vandamálið alveg augljóst. Fæðuskortur er stærsta vandamál fuglastofnana hér í eyjum, en því miður virðast þessir fuglafræðingar hvorki hafa tíma né áhuga á að beina rannsóknum sínum í þá áttina, en svona til upprifjunar, þá er staðan svona að mínu mati: Sílið hrygnir á tímabilinu nóv-jan, grefur hrognin og sig sjálft ofaní sandinn og þar þurfa hrognin að liggja í friði í 4 mánuði. Vandamálið undanfarin 3 sumur er að mínu mati það, að makríllinn sem núna flæðir eftir suðurlandi, sem og síldin að einhverju leiti, éta þessi hrogn og smáseiðin að einhverju leiti, en stærsta vandamálið er að mínu mati opnun fjörunnar fyrir snurvoð. Snurvoðin er dregin eftir sandinum og rótar honum upp, losar þar með um hrognin, sem þar með farast. Ef við setjum þetta í samhengi við síðustu 3 ár, þá sjáum við það að 2006 er fyrsta árið þar sem verulega bar á pysjudauða og að lundinn og pysjan átti erfitt uppdráttar. 2007 hinsvegar virtist ástandið vera mun skárra, en mér sýnist að afleiðingarnar af 2006 hafi orðið til þess að mikið af lundanum ákvað að verpa ekki 2007, en það litla sem að þó var komst ágætlega á legg og var pysjan mjög vel gerð 2007. Í okt. 2007 ákveður þáverandi sjávarútvegsráðherra að opna alla fjöruna norður úr eyjum fyrir snurvoð með þeim afleiðingum, að sumarið 2008 þegar upp undir 70 % af lundanum verpir og pysjan skríður úr eggi í júlí og lundinn fer að reyna að ná í svokallað 0 síli, þá er það einfaldlega ekki til staðar enda búið að drepa það með snurvoð. Þetta verður að sjálfsögðu til þess, að meirihlutinn af pysjunni sl. sumar drepst úr hungri. Tek það fram að þetta eru að sjálfsögðu mínar skoðanir á þessu máli. Framhaldið er óskrifað blað, en það er ljóst að enn er fjaran opin fyrir snurvoð og ætti því útlitið í samræmi við það ekki að vera gott, en að sjálfsögðu hefur nýliðun í lundastofninum og pysjan ekkert með lundaveiðar að gera.
Aðeins meira um snurvoðina. Eins og kemur fram hér áður, þá opnaði þáverandi sjávarútvegsráðherra fyrir snurvoðaveiðar í fjörunni í okt. 2007 vegna þess, að útgerðarmenn þessara báta sögðust ekki geta náð sínum ýsukvótum öðruvísi en að þetta svæði yrði opnað og að þarna fengist eingöngu ýsa. Allir sjómenn vita að sjálfsögðu að þetta er rangt, enda þrífast margs konar fisktegundir á þessu svæði. Merkilegt nokkuð, við í smábátafélaginu Farsæll í Vestmannaeyjum mótmæltum þessari opnun harðlega og var mjög ánægjulegt að sjá bæjarstjórn Vestmannaeyja taka undir þessi mótmæli okkar, en ég held reyndar að bæjarstjórnin gæti gert meira ef hún vildi, en mér þótti þær fréttir nokkuð merkilegar að mér skilst að nokkrir útgerðarmenn snurvoðabáta frá öðrum sjávarþorpum hafi haft samband við fulltrúa bæjarstjórnarinnar, með hótunum um að hætta öllum viðskiptum hér í eyjum, en vonandi er það ekki rétt að bæjarfulltrúar láti kúga sig á þann hátt.
Nokkrir hafa komið að máli við mig og spurt mig að því, hvernig ég fæ það út að pysjufjöldinn, eða nýliðunin í lundastofninum á síðasta ári hafi verið yfir 100 þús. pysjur, en svona lítur dæmið út hjá mér: Við eyjamenn höfum alltaf verið með mælikvarðann á nýliðun lundastofnsins á því hversu margar pysjur finnast hér í bæ og hversu mikið af pysju sést í höfninni, og eftir að hafa rætt þetta við marga eldri og reyndari menn heldur en ég, þá hef ég miðað þá útreikningar við að bæjarpysjan sé 1/2 % í nýliðuninni, en flestir hafa viljað hafa þá tölu lægri, en svona lítur þá dæmið út: Bæjarpysjan 2008 var aðeins ca. 600 pysjur, 1% er þá 1200, 10% 12000 og 100% 120000 pysjur. Þetta er sem sé áætlaður fjöldi lundapysja frá öllum eyjum í Vestmannaeyjaklasanum sl. sumar, en miðað við að holufjöldinn sé í kringum 1300 þús, þá er þetta aðeins um 10% sem er að sjálfsögðu afar lélegt, miðað við eðlilegt árferði, en samt ágætt miðað við að aðeins voru veiddir 15000 lundar. Ef við skoðum líka 2007, þá var pysjufjöldinn ca. 2000 pysjur, sem gerir þá miðað við 1/2% regluna 400 þús. pysjur, sem að hljómar í sjálfu sér ágætlega en er samt ekki nema um 30% miðað við eðlilegt ár. Lokaorð mín eru því þessi: Lundinn er ekki að verða útdauður, nýliðunin er ekki góð, en ég skora á alla þá sem í aðstöðu eru til að beita sér í því eina sem vantar til að pysjunni fjölgi að mínu mati, loka fjörunni fyrir snurvoð.
Meira seinna.
16.6.2009 | 12:15
Þeir á Náttúrufræðistofu Suðurlanda halda því fram að lundastofninn í Eyjum sé hruninn, ég er þessu ekki sammála og set inn nokkrar myndir máli mínu til stuðnings
Þegar maður horfir á þetta svona virðist ekki vera mikið að sjá
En með myndavélalinsunni lítur þetta út svona og er öll Stakkabótin gjörsamlega þakin af lunda og stór spurning, hvort að Erpur og félagar ættu ekki að fara og fá sér linsur
Þessi mynd er kannski ekki góð, en svona litu allar brekkur út allt frá Lambaskorum að Litlahöfða
Svona leit þetta út á klettabrúnunum
Þessi var líka skemmtileg
Þessi kvaddi með orðunum:"Save the puffins" en svo heyrðist mér hann segja: "Strákar, er einhver matur eftir"?
Meira seinna
12.6.2009 | 22:15
Róðrar og lundinn
Ég réri þrisvar í vikunni, fiskiríið var ágætt eða liðlega 6 tonn. Tíðin hefur verið með eindæmum góð að undanförnu, en framundan eru austlægar áttir sem eru mjög óhentugar hér í Eyjum, en henta mér ágætlega, enda á ég ekki krók beittan í frystiklefanum og þarf að fara að skvera bátinn, enda komin tími á skoðun.
Mikil umræða um lundann í eyjum þessa dagana og margir veiðimenn óhressir með tillögu náttúrufræðistofu suðurlands um bann við lundaveiðum. Þessar tillögur hins vegar koma mér ekkert á óvart, enda er þetta í samræmi við það fyrsta sem ég heyrði frá Erpi Snæ, áður en hann byrjaði að rannsaka ástand lundastofnsins í eyjum, þ.e.a.s. að lang best væri að stoppa allar veiðar. Margt er hægt að segja um þetta, en ég ætla að rifja upp orð Kristjáns Lillendal, fuglafræðings, frá því um vorið 2007 þar sem hann orðaði þetta svona: "Það er því miður staðreynd að eftir því sem útlitið er dekkra, þeim mun einfaldara er fyrir fuglafræðinga að fá fjármuni til að rannsaka, en ef útlitið er hins vegar þannig að ástandið sé í jafnvægi, þá er oft nánast vonlaust að fá fjármagn til rannsókna." Svo mörg voru þau orð. Erpur hefur hins vegar marg oft látið hafa eftir sér, að lundaveiðar í sjálfu sér hafi lítil eða engin áhrif á stofninn, en stundum finnst mér spurningin vera fyrst og fremst sú, hvor er í viðtali, Dr. Jekyll eða Mr. Hyde?
Lundaveiðar eru mikil forréttindi og ég vona svo sannarlega að bæjarstjórn Vestmannaeyja láti ekki blekkjast, enda mjög auðvelt að bera saman upplýsingar frá Erpi annars vegar frá því fyrir tveimur árum síðan, þar sem hann upplýsti að lundaholu fjöldinn í Vestmannaeyjum væri í kringum 1300 þúsund og hins vegar í dag, þar sem hann segir að fjöldi varpfugla séu 704 þúsund pör. Merkilegt þessi skyndilega fækkun á fullorðnum fugli og það á sama tíma og nánast ekkert hefur verið veitt. Eitt atriði langar mig að nefna að lokum. Í tilkynningu náttúrufræðistofu suðurlands kemur fram að lundaveiðar í Eyjum séu ekki lengur sjálfbærar. samkv. mínum útreikningum miðað við pysjufjöldann í höfninni og í Vestmannaeyjum s.l. haust, þá var nýliðun í stofninum ca. 100 þúsund pysjur, en veiðin aðeins um 16 þúsund lundar. Ef þetta eru ekki sjálfbærar veiðar, þá veit ég ekki hvað.
Meira seinna.
7.6.2009 | 23:23
Annasamir dagar og lundinn er ljúfastur fugla
Það hefur verið frekar lítill tími til að blogga að undanförnu, en margt er búið að gerast. Er búinn að róa 4 sinnum og fiskað liðlega 10 tonn. Var í sjóstönginni um síðustu helgi í sennilega eitthvað besta veðri í sjóstöng í mörg ár, enda var fiskiríið ágætt. Sjómannadagshelgin hins vegar fór í beitningu hjá mér, enda þurfa leiguliðar að vinna helst alla daga til þess að dæmið gangi upp. Framboð á kvóta hefur einnig minkað mikið að undanförnu og um leið leigan hækkað verulega, sem gerir þetta enn erfiðara og maður svona veltir því fyrir sér í allri þessari umræðu um þessa svo kölluðu fyrningarleið, hvort menn ættu ekki að fara í það í alvöru að reyna að leysa úr öllum þeim fáránlegu göllum sem eru á núverandi kvótakerfi.
Ég hef ekki séð mikið af lunda að undanförnu, en þó hefur komið einn og einn dagur þar sem mikið er af lunda, þetta er í sjálfu sér eðlilegt enda varpið í fullum gangi. Reyndar bárust mér fréttir í vikunni af því, að lítið væri komið af eggjum í þær holur sem skoðað hefði verið í, og einnig leist mér frekar illa á þær fréttir sem lágu fyrir um síðustu mánaðarmót, að varp svartfuglsins hefði misfarist. Heyrði hins vegar í dag af þeim Súlnaskers mönnum, sem voru að koma úr sinni síðustu eggjaferð í skerið, að þeir væru þá búnir að hirða þá samtals 2500 egg, sem er í samræmi við væntingar, en merkilegt nokkuð, 10 dögum seinna en vanalega. Einnig tóku þeir eftir því að mikið líf væri að færast í lundabyggðina í skerinu. Nú þegar liggur frammi tillaga frá bjargveiðifélagi Vestmannaeyja um að ekki verði farið í lundaveiði fyrr en í fyrsta lagi frá og með 10 júlí, en það er svo bæjarstjórnarinnar að taka ákvörðun um það.
Fyrir mitt leyti lítur dæmið þannig út: Við munum ekki vita fyrr en um næstu mánaðarmót hvort að varpið tókst og hversu mikið það er. Í sjálfu sér mun heldur ekki koma í ljós fyrr en í seinnipartinn í ágúst, hvað mikið kemst á legg. Ég er algjörlega sammála því að ekki verði byrjað að veiða fyrr en í fyrsta lagi eftir 10. júlí og að málið verði endurskoðaða 25. júlí. Ég tel hins vegar að ákvörðun um slíkt eigi að taka hér í Eyjum, en nokkur atriði tel ég að séu mjög mikilvæg í umræðunni, lundastofninn á Íslandi telur nokkra tugi milljóna. Eitthvað af merktum lunda frá Vestmannaeyjum hefur nú þegar veiðst víða um land, sem bendir til þess að ungfuglinn sé farinn að sækja þangað sem meira æti er í boði. Þetta getur hins vegar breyst, en til þess að svo verði, þá er ég á þeirri skoðun að við þurfum að herða enn meira veiðarnar á makrílnum sem þegar er farinn að veiðast víða með suðurströndinni og síðast en ekki síst, þ.e.a.s. ef menn ætla sér að veiða lunda í Vestmannaeyjum í framtíðinni þá verðum við að losna við snurvoðina af uppeldissvæði sílisins og bendi á ágæta grein, sem ég birti hér á blogginu mínu um daginn og birtist á vef eyjafrétta í síðustu viku.
Meira seinna.
5.6.2009 | 21:53
Fór á sjó vestur fyrir Surtsey í fyrrinótt og tók myndavélina með
Það var ekki amalegt málverkið sem blasti við þegar ég kom út úr höfninni kl. 4 um nóttina
Þarna er hún, aðeins einu ári eldri en ég, Surtsey
Það gekk mikið á á sjónum og eftir að hafa dregið síðustu lögnina, þá var fiskur um allt dekk, en samtals fékk ég 3 tonn í þessum róðri
Fór nær Surtseynni á bakaleiðinni og er aðeins farið að votta fyrir fuglalífi, en samt minna heldur en maður hefði haldið
Hérna sést vel ber kletturinn
Og hér síðasta myndin, með Surtsey fyrir aftan bátinn á heimleið.
30.5.2009 | 23:02
Sandsíli
Sandsílabanar

29.5.2009 | 22:14
Þetta er nú meiri vitleysan
Auk þeirra aflaheimilda sem úthlutað er á fiskveiðiárinu 2008/2009 á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er í júní, júlí og ágúst 2009 heimilt að veiða á handfæri allt að 3.955 lestir samtals af óslægðum þorski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt þessu ákvæði.
Landinu verði skipt í eftirfarandi fjögur landsvæði: A. Eyja- og MiklaholtshreppurSkagabyggð, B. Sveitarfélagið SkagafjörðurGrýtubakkahreppur, C. ÞingeyjarsveitDjúpavogshreppur, D. Sveitarfélagið HornafjörðurBorgarbyggð. Í hlut landsvæðis A komi alls 1.316 tonn, í hlut landsvæðis B komi alls 936 tonn, í hlut landsvæðis C komi alls 1.013 tonn og í hlut landsvæðis D komi alls 690 tonn. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um hvernig aflaheimildir skiptast á einstaka mánuði og skal ráðherra með reglugerð stöðva veiðar á hverju svæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.
Veiðar samkvæmt þessu ákvæði eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Aðeins er heimilt að veita fiskiskipi leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Við útgáfu Fiskistofu á leyfi til fiskiskips samkvæmt þessu ákvæði falla úr gildi önnur leyfi þess til að stunda veiðar á fiskveiðiárinu 2008/2009 sem gefin eru út með stoð í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og er þeim fiskiskipum sem leyfi fá til handfæraveiða samkvæmt þessu ákvæði óheimilt að stunda aðrar veiðar en handfæraveiðar til loka fiskveiðiársins 2008/2009. Leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði eru bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. þessa ákvæðis. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð og skal öllum afla veiðiskips landað innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á veiðitímabilinu.
Leyfi til handfæraveiða samkvæmt þessu ákvæði eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
1. Óheimilt er að stunda veiðar laugardaga og sunnudaga.
2. Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 12 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
3. Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur þar um.
4. Sé einn maður í áhöfn er óheimilt að hafa um borð í veiðiskipi fleiri en tvær handfærarúllur. Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
5. Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 800 kg af þorski í hverri veiðiferð, miðað við óslægðan fisk. Ufsaafli skal aldrei vera meiri en 15% af þorskafla hverrar veiðiferðar og ýsuafli ekki meiri en 3%.
6. Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.
Fyrir veitingu leyfis samkvæmt ákvæði þessu skal umsækjandi greiða gjald samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald. Fiskistofa skal innheimta veiðigjald samkvæmt þessu ákvæði vegna landaðs afla, annars en þorsks, og skal gjalddagi vera 1. október 2009 en eindagi 15 dögum síðar. Um innheimtu þessa gjalds gildir að öðru leyti 23. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eftir því sem við getur átt.
Um viðurlög vegna brota á lögum þessum, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa fer skv. VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
28.5.2009 | 21:59
Fjölnir 1 ÍBV 3
Til hamingju með glæsilegan sigur og svo er bara að taka Grindvíkingana á mánudaginn á Hásteinsvelli.
Áfram ÍBV
23.5.2009 | 22:16
ÍBV, spilling? og níu erfiðir dagar
Óska ÍBV strákunum til hamingju með góðan leik í dag þó að úrslitin hafi svo sannarlega verið gríðarleg vonbrigði. Betra liðið vinnur ekki alltaf, en fyrir mitt leiti fannst mér það vera viss sigur að geta sagt eftir leikinn, að við vorum svo sannarlega betri aðilinn í leiknum.
Það vakti athygli mína grein í Fréttum sem bæjarstjórinn okkar skrifar og kallar: Dylgjur álitsgjafa.
Töluverð umræða hefur verið í bænum um mannaráðningar meirihlutans og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt í framhaldi af þeim málum, sem komu upp og tengdust Sjálfstæðis flokknum fyrir kosningarnar í síðasta mánuði, að fólki detti fyrst í hug orð eins og spilling, en í sjálfu sér finnst mér ekkert óeðlilegt í raun og veru við það að fólk sem skipi meirihluta ráði til starfa á vegum bæjarins, fólk sem það þekkir og treystir best. Hins vegar er alltaf spurning, þegar tengslin eru jafn náin og koma fram í grein bæjarstjórans. Hins vegar held ég að það myndi nú í raun og veru engu máli skipta, hvaða meirihluti ætti í hlut, að sjálfsögðu smitast það aðeins inn í mannaráðningar. Dapurlegast er þó, ef satt er, að bæjarfulltrúar í meirihlutanum hafi ekki séð ástæðu til að víkja til hliðar á meðan ákvarðanir um hvern ætti að ráða til starfsins voru teknar. Vonandi er þetta ekki rétt, en maður neitar því ekki að orðið spilling kemur upp í hugann. Og merkilegt nokkuð, hversu mörg mál tengd þessum ákveðna stjórnmálaflokki hafa komið upp síðustu mánuði.
Síðustu 9 dagar hafa verið gríðarlega annasamir hjá mér og skiptast þeir í 5 daga í eggjum og 4 dagar á sjó. Fiskiríið var með ágætum, eða tæp 8 tonn. Eggjatakan er svona meira áhugamál, en reyndar tíndi ég óvenju lítið í ár eða aðeins um 300 egg og hef oft tekið meira. Man sérstaklega eftir einu ári fyrir mörgum árum síðan þegar ég stundaði eggjatöku grimmt í Heimakletti og þá sérstaklega Dufþekju og náði ég einu sinni að fara yfir 2000 egg yfir eggjatímann. Alltaf sér maður eitthvað nýtt á hverju ári sem vekur athygli mans, t.d. var ég að klifra suður í Litla-höfða um daginn og er að koma að hreiðri þar sem sitja tveir fýlar. Í fyrstu hélt ég að þar væri ekkert egg, enda er það oft þannig að kvenfuglinn rekur karlfuglinn í burtu eftir að eggið er komið í hreiðrið, en eftir því sem ég nálgaðist þetta hreiður betur, þá sé ég að fuglinn sem situr í hreiðrinu verður svolítið órólegur, sem endar með því að hann fer úr hreiðrinu og flýgur burt, en hinn fuglinn sest í hreiðrið. Efir að hafa fengið tvær góðar spýjur frá fuglinum, þá flýgur hann líka burt og fékk ég þar eitt egg. Þegar ég fór að hugsa um þetta eftir á, þá þykir mér nokkuð augljóst að þarna hafði kvenfuglinn leyft karlfuglinum að liggja aðeins á, en tekið síðan við þegar hætta steðjaði að, enda karlinn flúinn. Þetta minnti mig á spurningu sem ég fékk í kosningabaráttunni í síðasta mánuði, þar sem ég var spurður um skoðanir Frjálslynda flokksins á málefnum feðra án forræðis og ég velti því fyrir mér, hvort við ættum ekki einmitt að taka dýrin okkur stundum til fyrirmyndar og leyfa körlunum stundum að liggja á?
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)