Það drýpur smjör af hverju strái í Vestmannaeyjum

005

(ég nýkominn úr eggjum með 100 egg)

Í gamla daga var stundum talað um Vestmannaeyjar sem stórt forðabúr, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Í dag er hins vegar nýtingin á þessu aðeins smámunur á við það sem áður var, enda ekki mikill áhugi hjá ungviðinu að fá sér egg þegar pizzur og ýmislegt annað sambærilegt er í boði.

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með umræðunum um auðlindina þar sem útgerðarmenn reyna að telja okkur trú um það, að það sé best fyrir okkur öll að þeir haldi áfram að fara með auðlindina eins og þeim sýnist, og að það muni skaða byggðir landsins ef kerfinu verður breytt. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki alls kostar sammála þessari svokölluðu fyrningarleið, en hvað um allan þann skaða sem núverandi kerfi ber ábyrgð á og hvernig gengur að byggja upp þorskstofninn í núverandi kerfi? Er ekki rétt að skoða aðrar leiðir og sleppa því að kalla úlfur, úlfur?

Meira seinna.


ÍBV og eggjataka

ÍBV 0 - Breiðablik 1

Virkilega slæm úrslit fyrir okkur og ljóst að slagurinn í sumar verður mjög erfiður. Það voru þó ljósir punktar í leik okkar manna og mér líst vel á þessa nýjustu leikmenn okkar og vonandi fara þeir að brjóta ísinn og setja nokkur mörk, ekki veitir af, en mér fannst fyrst og fremst vanta svolítið meiri baráttu í einstaka leikmenn. Áfram ÍBV.

Var að koma úr eggjum áðan. Það var reyndar svo hvasst, að ég átti erfitt með að hemja mig á köflum, en set inn myndir á eftir þessu bloggi.

Meira seinna.


Sjóstöng og Áfram ÍBV

Það var ekki fyrr en á Sunnudaginn sem lokksins lægði og fóru þá 5 bátar með samtals 16 veiðimenn á sjóstöng , tíminn var líka styttur því sumir þurftu að ná Herjólfi Kl 1600 . veiðin var svona lala en samtals tæp 1500 kg . Aðeins veiddust 7 tegundir sem er óvenjulegt en þar af komu stærstu fiskar í 3 tegundum um borð hjá mér . Maturinn um kvöldið á Fjólunni var alveg meiriháttar og get ég mælt með hlaðborðinu þar , en ég þakka fyrir mig og mína .

ÍBV spilaði sinn fyrsta leik í vikunni í úrvalsdeildinni og tapaði fyrir Fram 2-0 . í umfjöllun um leikinn kemur fram að okkar menn hafi verið betri framan af en gefið eftir í restina en þessi úrslit gera leikinn á morgunn gegn Blikum  enn mikilvægari fyrir vikið , það hlýtur að vera takmark okkar að hirða öll stig sem eru í boði  á heimavelli . Áfram ÍBV .

Meira seinna


Sjóstöng og kvótakerfið

Það fór hálf illa, sjóstöngin í dag, enda þó að klukkan sé orðin 17 núna, þá eru ennþá 15 metrar á höfðanum. Búið að fresta þessu þangað til í fyrramálið, en veðurspáin er eitthvað skárri á morgun.

Á textavarpinu er núna frétt sem fjallar um hugmyndir LÍÚ um breytingar á kvótakerfinu vegna nýju ríkisstjórnarinnar. Tillagan gengur út á það að stöðva alla leigu á aflaheimildum, en gegn fyrningarleiðinni. Þessi hugmynd myndi hins vegar að sjálfsögðu gera út af við allar kvótalausar útgerðir á landinu, svo nú verður forvitnilegt að sjá hvort að þessar nýafstöðnu kosningar verði kannski til þess (allavega ef þessar hugmyndir ganga fram) að ég og hundruðir sjómanna og útgerðarmanna í sömu sporum allt í kringum landið, þurfum kannski að flýja land. Ekki er ég viss um að hagsmunir þjóðarinnar liggi þar, en það verður bara að koma í ljós hvaða hugmyndir núverandi ríkisstjórn hefur, en kannski má segja sem svo að þessi hugmynd LÍÚ sé lýsandi dæmi um það, hversu útgerðarmenn eru tilbúnir að ganga langt til að tryggja sig og sína á kostnað heildarinnar.

Meira seinna


100.000 tonn, mútur, Bakkafjara og sjóstöng

Það var svolítið merkilegt að sjá ályktun skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í vikunni inni á Eyjamiðlunum, sem og viðtalið við skipstjórann á Vestmannaey, þar sem í fyrsta skiptið var tekið undir þær skoðanir okkar Frjálslyndra um að óhætt væri að bæta við 100 þús. tonnum af þorski til hagsældar fyrir land og þjóð. Menn hefðu kannski átt að hafa þetta í huga þegar menn gengu til kosninga um daginn, enda sýnist mér enginn annar flokkur vera með slíkar hugmyndir, kannski eðlilega því að Frjálslyndi flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur þó þekkingu og reynslu á sjávarútvegsmálum, enda gríðarlega margir Frjálslyndir sem starfa við fiskveiðar.

En hvaða þýðingu höfðu kosningaúrslitin fyrir þjóðina? Margir hafa sagt við mig að þeir séu mjög óhressir með lélega útkomu okkar Frjálslyndra. Svar mitt við því er einfalt, menn hefðu kannski átt að hugsa út í það fyrir kosningar. Nokkrir hafa sagt við mig að þeir skilji ekkert í því, hvers vegna Framsóknar flokkurinn fær svona fína kosningu. Svar mitt við því er að hluta til kemur það til vegna þess að margir Sjálfstæðismenn, sem ekki treysti sér til að kjósa sinn flokk og tengjast núverandi kvótakerfi að einhverju leiti, hljóti að hafa kosið Framsókn. Þar fyrir utan, þá gerðu Framsóknarmenn það sem þeir gera fyrir hverjar kosningar, mokuðu peningum í auglýsingar t.d. voru þeir með stundum 8-10 síður í Fréttablaðinu, en mér er sagt að ein síða þar kosti hátt í 500 þúsundir og nokkuð augljóst, að litlir og peningalausir flokkar geta aldrei keppt við slíkt, en tek annars undir með þeim, sem sögðu þetta við mig:"Furðulegt að fólk skuli láta blekkjast af Framsóknarflokknum" en að öðru leyti óska ég Eygló Harðar að sjálfsögðu til hamingju með sinn árangur.

Það stefnir allt í að vinstri stjórn verði mynduð núna um helgina og verður spennandi að sjá, hvort að þeir flokkar standi við kosninga loforð sín um breytingar á kvótakerfinu, en eins og ég hef sagt áður, þá hugnast mér ekki þessi svokallaða fyrningarleið. Reyndar er risinn upp mikill grátkór útgerðarmanna, eða eins og einn góður vinur minn orðaði það í dag við mig:" Hvað fyndist þér um það, að þú værir búinn að kaupa þér hús og svo kæmi ríkið og tæki það af þér?" Þetta er að sjálfsögðu ekki sambærilegt, en fyrir mitt leyti þá er alls ekki sama hvernig kerfinu verður breytt og kannski má segja sem svo, að lykil atriðið sé að allir gallarnir verði sniðnir af núverandi kerfi, en ég hef í sjálfu sér ekki mikla trú á því að þessi nýja Ríkisstjórn geri það.

Það vakti athygli mína að við þar síðustu blogg færslu mína kom athugasemd sem sagði að ég hefði sennilega fengið betri kosningu ef ég hefði ekki verið í svona hatrammri baráttu geng Bakkafjöru. Þetta þótti mér nokkuð merkilegt,(hefði reyndar þegið atkvæðin frá öllum þeim sem eru á móti Bakkafjöru, það er verst að þá væri ég sennilega kominn á þing) enda tel ég mig ekki hafa verið í neinni slíkri herferð og vona svo sannarlega að hafnarmannvirkið heppnist og verði sú samgöngubót sem við öll óskum okkur. Hitt er svo annað mál, að ég fjallaði mikið og lengi um Bakkafjöru. Margt af því sem ég skrifaði var haft eftir öðrum, en það breytir samt ekki því að mín persónulega skoðun er sú, að Bakkafjara hafi verið lakasti kosturinn af þeim 3 sem voru í umræðunni, en endurtek bara þetta, vonandi verður þetta bara í lagi.

Á morgun er innanfélagsmót Sjóve í sjóstangveiði. Reyndar er hífandi rok eins og er en á að lægja þegar líður á morgundaginn. Annað kvöld verður síðan boðið í heljar veislu á Fjólunni og í næstu viku byrjar einn af mínum uppáhalds tímum ársins því þá byrjar eggjatakann.

Meira seinna.


Síðasta vika.......

.........var merkileg fyrir margar sakir. Kosningarnar voru náttúrulega okkur Frjálslyndum mikil vonbrigði, en það má kannski segja sem svo að skyldurækni þingmanna okkar við að sinna þingstörfum fram á síðasta dag, hafi m.a. orðið þeim að falli, en við vitum það vel hvaða stóru flokkar bera þar mesta ábyrgð, svo er aftur stór spurning hvort að þetta hafi hreinlega ekki verið úthugsað. Dapurlegast þykir mér þó sá skaði, sem sjávarbyggðirnar í landinu munu að öllum líkindum verða fyrir, enda voru hugmyndir okkar Frjálslyndra einfaldlega, að mínu mati, það lang besta sem var í boði, að maður tali nú ekki um fjárhag þjóðarinnar.

Fór á sjó tvisvar í vikunni, fiskaði ca. 4 tonn, mest þorskur og langa, en maður heyrir margar ljótar sögur þessa dagana um brottkast á þorski, enda er þorskur út um allan sjó. Vonandi er þetta ekki allt rétt, enda er það frekar skrýtin framtíðarsýn að henda hugsanlega því sem okkur svo sárlega vantar.

Við í fjölskyldunni skelltum okkur í Ölfusborgir um helgina, enda alltaf gaman að koma þar. Fórum svo til Keflavíkur í gær á ættarmót í minni fjölskyldu. Það er alltaf jafn ótrúlegt að koma í þessi ættarmót og í raun og veru ekki fyrr en þá sem að maður gerir sér grein fyrir, hversu fáa maður þekkir úr sinni eigin ætt.

Nokkrir hafa komið að máli við mig og óskað eftir því að ég geri upp kosningarnar frá mínu sjónarmiði með tilliti til áhrifa á framtíðina, en ég ætla að sjá til með það seinna, enda kannski ekki tímabært fyrr en liggur fyrir staðfest, hvaða meirihluti verður á þingi.

Meira seinna.


Meira seinna

Kosningaúrslitin í morgun voru okkur Frjálslyndum gríðarleg vonbrigði. Persónulega finnst mér það alveg með ólíkindum að öll þessi sjávarþorp við suðurströndina skuli hafna því að hafa sjómann á þingi. En það er nú svo, við vissum fyrirfram að róðurinn yrði mjög erfiður, enda hefur neikvæð umræða um flokkinn verið nánast vikulega í fjölmiðlum í allan vetur. Það sem eftir stendur samt hjá mér er ánægjan yfir því, að hafa fengið að ferðast um suðurlandið og kynnast öllu því fólki sem ég kynntist í kosningabaráttunni. Mig langar að þakka öllum þeim sem tóku slaginn með okkur, sem og einnig þeim sem komu og heilsuðu upp á okkur. Reyndar voru ansi margir sem sögðu við mig í nótt, að nú ætti ég að segja við fjölmiðla: "Okkar tími mun koma" en ætla að sleppa því og orða þetta með mínum hætti:" Meira seinna."


Kosningakaffi hjá Frjálslyndum

Kosningakaffi hjá Frjálslyndum verður kl. 15 á morgun og er öllum stuðningsmönnum sem og öðrum boðið og er undirbúningur þegar hafinn fyrir heljarinnar veislu.

Mig langar að þakka þann mikla meðbyr sem ég hef fundið fyrir undanfarna daga og endurtek enn einu sinni að það hefur aldrei verið mikilvægara heldur en nú, að tryggja sjómann á þing, sérstaklega þegar flestir flokkar eru farnir að tala um margvíslegar breytingar á kvótakerfinu. Látum ekki lögfræðinga, kennara eða fólk sem hefur enga þekkingu á sjávarútvegi, stjórna okkar sjávarútvegsmálum, heldur setjum x við F.

Undirritaður er í öðru sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.

Georg Eiður Arnarson


XF fyrir lífæð Vestmannaeyja

Nú eru aðeins tveir sólarhringar í að kosningunum verði lokið og þegar maður skoðar stöðuna eins og hún er núna, með tilliti til þess sem ég kalla lífæð Vestmannaeyja, þ.e.a.s. útgerðina, þá er staðan einhvern veginn svona:

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur boða óbreytt kvótakerfi, sem þýðir einfaldlega það að ef útgerðarmanninum dettur í hug að selja kvótann eða veðsetja hann það mikið, að hann fer á hausinn og kvótinn á uppboð, eða einfaldlega að hann leggi bátnum og leigi frá sér allan kvótann án þess að skila nokkru til samfélagsins. Þetta er að sjálfsögðu að mínu mati ekki valkostur, einfaldlega vegna þess að með þessari útfærslu mun fyrr eða síðar gerast það sama og nú þegar hefur gerst í mörgum byggðum allt í kringum landið, að kvótinn einfaldlega leitar þangað sem mestir peningar eru í boði. Þessi stefna er fyrst og fremst stefna útgerðarmannsins og svo ég orði það eins skýrt og greinilega og ég mögulega get, þá er það einföld staðreynd að hver einasti útgerðarmaður sem á einhverjar aflaheimildir ætla sér að selja áður en hann hættir.

Samfylking og Vinstri grænir boða svokallaða fyrningarleið, sem þýðir einfaldlega það að ríkið leysi til sín kvótann smátt og smátt, án þess að nokkuð sé gert til þess að reyna að laga alla þá fáránlegu galla sem eru á núverandi kerfi. Einnig er hætt við því, að margvísleg vandamál komi upp varðandi útdeilingu aflaheimilda aftur, enda nokkuð ljóst að við munum þurfa að nota áfram þann fiskiskipaflota sem við eigum í dag og frekar ótrúlegt að hugsa til þess, hvernig þetta getur farið allt saman ef hugmyndir Samfylkingarinnar um inngöngu í ESB verða að veruleika. Ég heyrði einn Samfylkingarmann í síðustu viku halda því fram, að við hlytum að geta fengið undanþágu með okkar sjávarútveg á svipaðan hátt og t.d. Kýpur. En að gefnu tilefni, á Kýpur eru aðeins veidd 1000 tonn af fiski á hverju ári, en á Íslandi yfir milljón tonna.

Nýju framboðin, Lýðræðishreyfingin og Borgaraflokkurinn, virðast ekki hafa neina sjávarútvegsstefnu, enda kannski vel skiljanlegt þar sem þessir flokkar eru fyrst og fremst mannaðir af íbúum höfuðborgarsvæðisins og skilningur þeirra virðist því vera frekar takmarkaður á mikilvægi sjávarútvegs fyrir land og þjóð.

Við í Frjálslynda flokknum viljum tryggja það, að rétturinn til að veiða fiskinn haldist í byggðunum. Við viljum hins vegar stöðva allt leigubrask, sölu og/eða leigu á aflaheimildum. Einnig viljum við opna fyrir nýliðun í sjávarútveginum með því að gera handfæraveiðar frjálsar yfir sumar mánuðina, að sjálfsögðu með einhverjum takmörkunum. Einnig viljum við auka verulega aflaheimildir á Íslandsmiðum til að mæta kreppunni og í raun og veru má segja sem svo, að annaðhvort veiðum við og nýtum alla okkar möguleika til að afla tekna, eða að öðrum kosti, gætum við hugsanlega þurft að sjá á eftir auðlindum okkar í hendurnar á öðrum löndum, allavega ef tekið er mið af stefnuskrá sumra flokkanna.

Fyrir mig er þetta allt saman frekar einfalt, ég hef fyrst og fremst kynnt málefni okkar Frjálslyndra af heiðarleik og dugnað, ég hef ekki lofað neinu sem ég get ekki staðið við, enda lít ég ekki á sjálfan mig sem einhvern ægilegan pólitíkus og skora því á kjósendur að hafa í huga draum trillukarlsins nk. laugardag sem orðaði það á sínum tíma svona:

Ég vill fá að lifa og starfa í friði þar til yfir lýkur og er tilbúinn að leggja enn harðara að mér ef með þarf, hvort sem er á sjónum eða á Alþingi. Setjum x við F.

Höfundur er í 2. sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Gleðilegt sumar allir

Lundinn settist upp í Heimaklett í kvöld og fyrir mig þýðir það að fyrsti dagur sumars er runninn upp.

Það er svolítið merkilegt að skoða allt sem er búið að gerast síðan fyrir ári síðan, en sennilega að æra óstöðugan að reyna að skrifa það allt niður, en fyrir ári síðan gengu þingmenn Ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um og dásömuðu útrásarvíkingana og hvað við Íslendingar værum öll rosalega klár. Í dag eru báðir þessir flokkar, að þeirra sögn, búnir að biðjast afsökunar og telja sig vera búnir að endurnýja umboð sitt frá þjóðinni með því að fara í prófkjör m.a.

Sjálfstæðismenn, sem vissulega bera mestu ábyrgðina, og eru að mælast yfir 50% í Vestmannaeyjum segja að það hafi verið nóg að segja fyrirgefðu, en gætum við fengið að stjórna aftur? Skipta um nokkur andlit á forsíðunni og lýsa því yfir, að það hafi verið fólkið sem brást en ekki stefnan.

Samfylkingin, sem var í síðustu Ríkisstjórn, segist ekki hafa getað breytt neinu vegna þess að hún starfaði með Sjálfstæðisflokki og reyndar segja Sjálfstæðismenn það sama. Í ljós hefur komið, að báðir þessir flokkar hafa verið að fá stórar og miklar greiðslur frá bönkum og öðrum fyrirtækjum, en séu samt algjörlega hlutlaus þegar kemur að ákvörðunum sem varða hag þessara banka og fyrirtækja. Fleiri hafa nú komið að málum. Framsóknarflokkurinn er enn að mínu mati spilltasti flokkurinn í landinu og það vekur mikla athygli mína, að þrátt fyrir að flokkurinn hafi minnkað mikið síðustu árin, þá virðist hann samt geta keypt upp heilu síðurnar í dagblöðunum og með flennistórar auglýsingar á netinu. Einnig vekur mikla athygli, hversu stórtækir Vinstri grænir eru allt í einu orðnir á auglýsingamarkaðinum og svo ég orði þetta eins og einn viðmælandi minn í dag:" Það er alveg merkilegt, að þessi flokkur, sem virðist hafa það eitt á sinni stefnuskrá að senda okkur öll út á tún að bíta gras, hafi að því er virðist þvílíka fjármuni í auglýsingar, að það mætti halda að þeir hefðu fundið einhverskonar peningavél á einhverju túninu, en vonandi verður það skýrt í framtíðinni hvar og hvernig þessir flokkar fengu peninga í allt þetta auglýsingaflóð." Merkilegt nokkuð, að þeir fimm flokkar sem eiga í dag þingmenn, að fjórir þeirra, sem hafa allir verið í ríkisstjórn á undaförnum árum og bera því allir mesta ábyrgð á kreppunni, virðast vera nokkurn veginn að halda í amk. sitt bakland á meðan minnsti flokkurinn á Alþingi, sem svo sannarlega ber enga ábyrgð á kreppunni, og hefur í raun og veru varað við þessu ástandi sem nú er skollið á síðan löngu fyrir stofnun flokksins, virðist ekki vera að ná mikilli siglingu ef eitthvað er að marka þessar skoðanakannanir og merkilegt nokkuð að flokkarnir sem hafa greinilega hvað mestan aðgang að peningavaldinu, nokkuð sem að stór hluti Íslensku þjóðarinnar bölvar mikið í dag, þeir eru að mælast í góðu fylgi. Hvernig kosningar fara hins vegar á laugardaginn, er eitthvað sem við hljótum öll að þurfa að skoða vel og vandlega með tilliti til framtíðarinnar, svo ég ætla ekki að gefa upp alla von um það að við í Frjálslynda flokknum fáum bara nokkuð góða kosningu á laugardaginn, enda hreinlega trúi ég því að sá flokkur sem ber enga ábyrgð og hefur algjöra sérstöðu í málefnum eins og t.d. varðandi kvótakerfið, fái gott fylgi sem hann svo sannarleg hefur unnið fyrir.

En enda þetta á þessu: Lundinn er kominn og gleðilegt sumar allir.

Höfundur er í 2. sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband