19.4.2009 | 22:33
Hversu heiðarlegur ertu?
Þessa spurningu fékk ég í síðustu viku uppi á landi og þótti hún nokkuð merkileg fyrir þær sakir, að ég lenti í því sem ungur maður að spyrja sjálfan mig einmitt þessarar spurningar, svo fyrir þá sem hafa áhuga, þá kemur sagan af því hér.
Öll unglingsárin mín vann ég i Vinnslustöðinni og þá, eins og núna, voru launin lögð inn snemma á fimmtudagsmorgni. Nú við unglingarnir freistuðumst oft til þess að fara í kaffipásunni og ná okkur í aur. Þetta gerðist að sumarlagi fyrir 25 árum síðan, ég hef þá verið 19 ára gamall og hafði farið í bankann til að ná mér í pening og var á leiðinni tilbaka í vinnu. Þar sem tíminn var lítill þurfti maður að vera fljótur í förum og þar sem ég kem gangandi í sundinu við Lifrarsamlagið, rek ég skyndilega augun í 1000 kr. seðil á jörðinni, tek hann upp og hugsaði með mér:" þarna var ég nú heppinn." Ég hafði ekki tekið nema 3 eða 4 skref í viðbót, þegar fyrir fótum mér lá 5000 kr. seðill. Tók ég hann upp og var svolítið eðlilega hissa á þessu, tók þá nokkur skref áfram og sá þá að fyrir fótum mér lá lítill vöndull af peningaseðlum. Ég man ekki lengur hver heildarupphæðin var, en ég man þó eftir því, að þegar ég beygði mig niður til að taka upp seðlabúntið, þá breyttust viðbrögð mín úr ánægju yfir fundinum, yfir í einhverskonar vorkunnsemi og ég hugsaði með mér:" Æ æ, nú hefur einhver verkamaður eða kona, sennilega á svipuðum aldri og ég, flýtt sér of mikið og tapað þarna, að mér sýndist, að minnsta kosti viku kaupi. Ég gekk í hægðum mínum niður í stöð og velti því fyrir mér, hvað ég ætti að gera. Að sjálfsögðu gat ég einfaldlega stungið peningunum á mig og þagað, en eitthvað í mér mótmælti því og þegar ég stóð fyrir utan dyrnar á Vinnslustöðinni, þá kom upp í huga mér þessi spurning:" Hversu heiðarlegur ertu?" Ég hef nú alltaf talið mig vera nokkuð heiðarlegan, svo ég dró djúpt andann, fór upp í sal og inn á verkstjórakompu, þar voru nokkrir menn m.a. man ég eftir því að frændi minn, Ingi Júll verkstjóri, sat þarna við skrifborðið. Ég sagði hvar ég hafði fundið peningana, setti þá á borðið og sagði við Inga:" Ætlarðu að hringja yfir í Ísfélag og kann hvort einhver þar hafi týnt peningum núna í kaffinu." Í fyrstu sagði enginn neitt, en svo sprakk einhver úr hlátri og einhver sagði:" Þú fannst þessa peninga, þú átt þá" og ég man að ég svaraði þessu með því að halla mér yfir verkstjóraborðið, ýta peningunum að frænda mínum og endurtók:" Ætlarðu að hringja fyrir mig yfir í Ísfélagið og athuga hvort einhver þar hafi tínt peningum á meðan ég kanna þetta hér í sal hjá okkur." Með þetta gekk ég út, en leit við í gættinni og sá að frændi minn teygði sig í símann. Þegar ég var að fara í hádegismat þennan dag, mæti ég ungri konu og ég tók eftir því að hún stakk hendinni sífellt ofan í rassvasann á buxunum sínum og ég sá að þar var gat í gegn. Þegar ég kom heim, sagði ég frá því sem hafði gerst. Litli bróðir lýsti því strax yfir að nú væri ég endanlega genginn af göflunum, en móðir mín sagði hins vegar ekki neitt, en eftir á að hyggja þá held ég að stoltið í svip hennar yfir heiðarleik sonarins hafi nú verið mér meira virði heldur en þessir peningar. Nokkru seinna fékk ég langt þakkarbréf frá þessari ungu konu og 500 kr seðil og þótti mér það einnig meiri virði heldur en þessir peningar.
Lengi vel velti ég fyrir mér þessari atburðarrás og líka kannski þeirri vellíðan sem fylgdi því að gera það sem mér fannst rétt. Ég hef stundum skrifað um það, að það sem maður geri vel fyrir aðra, fái maður tilbaka aftur og það átti svo sannarlega við, því ekki lauk þessari sögu þarna. Seinna um haustið þetta sama ár, hafði ég farið upp á verbúðir í Vinnslustöðinni og verið að skemmta mér með vinum og vinnufélögum, en uppgötvaði það þegar ég kom heim, eða réttara morguninn eftir, að ég hafði týnt veskinu mínu. Ekki voru miklir peningar í því, en samt einhver skírteini sem ég sá svolítið eftir, svo ég fór samdægurs niður á verbúðir og leitaði þar út um allt. Enginn kannaðist við að hafa séð veskið mitt, en mér var þó sagt það, að þarna hefði ungur maður verið að leysa af húsvörðinn, hann hefði farið með Herjólfi upp á land þá um morguninn og var ekki væntanlegur fyrr en um miðja viku. Liðu svo nokkrir dagar. Í vikulokinn birtist svo þessi maður upp í vinnslusal þar sem ég var að vinna, réttir mér veskið mitt og sagði við mig:" Ég fann veskið þitt um síðustu helgi, hér hefurðu það aftur og hverja einustu krónu sem var í því þegar ég fann það." Ég þakkaði fyrir og bauðst til að borga honum fundarlaun, en þá sagði hann þetta:" Þú þarft ekki að borga mér neitt, ég heyrði hvað þú gerðir síðastliðið sumar við peningana sem þú fannst, haltu bara svona áfram."
Ég hugsaði lengi um þetta eftir á og verð að viðurkenna alveg eins og er, að þessir peningar sem ég fann þarna um sumarið, eru eftir á að hyggja þvílíkir smámunir miðað við allt það sem ég fékk í staðinn, en enda þetta því með þessari spurningu: Er ekki akkúrat meiri heiðarleiki sem okkur hefur vantað á Alþingi Íslendinga síðustu árin? En svarið fæst um næstu helgi.
Höfundur er í 2. sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi
19.4.2009 | 15:21
Silfur Egils og heilsugæslan í Eyjum
Það var margt forvitnilegt í Silfri Egils í dag og kannski ótrúlegast að heyra enn einu sinni Sverrir Hermannsson gefa lýsingu á öllu því, sem átti sér stað á bak við luktar dyr hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég segi bara enn einu sinni: þetta kemur ekki á óvart. Það sem hins vegar kemur mér verulega á óvart er, að enn virðist fjórðungur þjóðarinnar vera tilbúin að kjósa þennan flokk, þrátt fyrir allt það sem að undanförnu er komið fram, en reyndar hafa nú fleiri flokkar verið nefndir í þessum samanburði. Ég hef reyndar lagt það í vana minn að reyna að setja mig í spor fólks sem er að gera sér vonir um að komast í betur launuð störf, eða eitthvað embætti sem þeir sem ráða ríkjum útdeila. Þannig séð get ég vel skilið málið, ég get hins vegar alls ekki skilið fólk sem kýs svona flokka yfir okkur, að því er virðist, án þess að hafa í raun og veru oft á tíðum hugmynd um hvers vegna.
Ein spurning sem ég fékk uppi á landi í vikunni frá eldri konu, vakti sérstaka athygli mína. Eftir að hún hafði hellt úr skálum reiði sinnar vegna kreppunnar og allra þessara meintu óheiðarlegu þingmanna, þá leit hún á mig og sagði þessa furðulegu setningu: hversu heiðarlegur ertu? Merkilegt nokkuð, þá lenti ég í því fyrir mörgum, mörgum árum síðan að þurfa að svara þessari spurningu, en þarf aðeins að rifja það betur upp, en ætla að svara henni með grein seinna.
Nýlega var ákvörðunin um lokun skurðdeildarinnar í Vestmannaeyjum í sex vikur í sumar, staðfest og það án þess að nokkur þingmaður maldaði í móinn. Fyrir mitt leyti þá tel ég þessa ákvörðun ekki vera verjandi og skiptir það þá í raun og veru engu máli, hvort við erum að tala um sex vikur, sex daga eða sex klukkutíma, en um leið kemur sú spurning, hvar á þá að skera niður í staðinn? Ekki get ég nú sagt að ég sé sérfróður um það hvar annar staðar væri hægt að skera niður í heilsugæslunni, en ætla þó að orða þetta þannig: ég hefði miklu frekar viljað loka öllum okkar sendiráðum erlendis, frekar en skurðdeildinni í Eyjum í sex klukkutíma.
18.4.2009 | 12:56
Frjálslyndir halda sínu fylgi
Ný skoðanakönnun í Norðvesturkjördæmi: F - listi 9,3% - nánar
Ný skoðanakönnun sem gerð var af Gallup fyrir Frjálslynda flokkinn í Norðvesturkjördæmi sýnir að fylgi flokksins hefur ekkert dalað þrátt fyrir tal um annað. Fylgi flokksins mælist um 9,3%. Af því má álykta að fylgi Frjálslynda flokksins verði það í sama kosningunum 25. apríl n.k. og í kosningunum 2003 og 2007. Guðjón Arnar Kristjánsson verður í viðtali á útvarpi Sögu í dag kl. 13:00 þar sem hann mun skýra nánar frá könnunni.
Það hefur aldrei verið mikilvægara en núna að tryggja fulltrúa verkafólks og sjómanna á þing.
17.4.2009 | 16:34
Af kosningaloforðum
Steingrímur J. og Vinstri grænir eru allt í einu farnir að lofa því rétt fyrir kosningar að strandveiðar verði gefnar frjálsar, en þegar kaflinn hérna að neðan er lesinn, kemur í ljós að við eyjamenn og aðrir sunnlendingar fáum ekkert út úr þessu, en bara svo það sé alveg á hreinu, þá hefur hingað til verið tekið ca. 1200 tonn af aflaheimildum frá Eyjamönnum og sett í þennan svokallaða byggðakvóta, fyrst af sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokks og nú af Sjávarútvegsráðherra Vinstri grænna. Hugmyndir okkar Frjálslyndra ganga út á það að allir Íslendingar geti fengið að stunda frjálsar handfæraveiðar, en ekki bara þeir sem fyrst og fremst koma úr kjördæmum þessara núverandi og fyrrum ráðherra.
Skipting landssvæða
i. Landinu verði skipt í svæði. Við skiptingu heildarmagns á landsvæði verði höfð hliðsjón af skiptingu byggðakvótans.
ii. Engöngu verði heimilt að veita báti leyfi til strandveiða á því svæði sem hann á heimahöfn enda skal báturinn skráður innan landsvæðis og gerður þaðan út. Hagsmunir sveitarfélaga innan svæðis verði með þessu tryggðir.
iii. Afla verði landað innan viðkomandi landsvæðis til vinnslu innanlands.
Sérstök frekari skilyrði
i. Hámarksstærð báta verði15 brúttótonn.
ii. Bátur hafi veiðileyfi.
iii. Allur afli verði vigtaður og skráður skv. gildandi reglum.
iv. Meðferð afla skv. gildandi reglum (t.d. slæging/ísing).
Veiðistjórnun
i. Eingöngu verði leyfilegt að nota handfæri.
ii. Fjöldi handfærarúlla í hverjum bát verði takmarkaður.
iii. Veiðitímabil hefjist 1. maí og endi 31. ágúst (frá júní reynsluárið).
iv. Veiðitímabil skiptist í eins mánaðar tímabil til að dreifa veiðiálagi og auðvelda stjórnun veiðanna.
v. Eingöngu verði heimilt að stunda veiðar á virkum dögum.
vi. Hver dagróður verði að hámarki 12 klst.
vii. Ákveðinn verði leyfilegur hámarksafli sem báti er heimilt að veiða á hverjum degi.
viii. Ef á því er talin þörf verður mögulegt að setja hámark á fjölda báta innan svæðis til að tryggja sanngjarna hlutdeild vítt og breytt um landið.
ix. Gert er ráð fyrir hóflegu leyfisgjaldi á reynsluári til að mæta eftirlits- og stjórnunarkostnaði.
Framkvæmd og eftirlit
i. Fiskistofa hafi eftirlit og fari með aðra stjórnsýslulega framkvæmd strandveiðanna.
ii. Brot á reglum/skilyrðum veiðanna varði skilyrðislausri sviptingu réttar til strandveiða.
Það var góður fundur á Selfossi í gær með bændasamtökunum, en það sem vakti mesta athygli mína eru spurningar sem komu um það, hvernig ætti að fara að því að mæta hinu fyrirsjáanlega tapi á ríkissjóði, bæði á þessu og næsta ári. Hjá okkur Frjálslyndum er þetta alveg skýrt, við teljum að það sé óhætt að auka þorskkvótann nú þegar um 100 þúsund tonn. Við teljum einnig að það sé ekki verjandi annað en að skoða þann möguleika að auka aflaheimildir í öðrum tegundum. Einnig að vegna hins gríðarlega slæma atvinnuástands og efnahagshruns, sé ekki annað verjandi en að virkja allt sem hægt er að virkja og nýta allar okkar auðlindir til þess að skapa störf og atvinnu. Merkilegt nokkuð, þá kom engin annar flokkur með neinar lausnir og svo heyrir maður í útvarpinu í dag, að Samfylkingin er að boða, svipað og aðrir flokkar, 6000 ný störf á vegum ríkisins. Ef við skoðum þetta nánar þá hljómar þetta mjög undarlega, því eins og áður hefur komið fram, þá er ríkissjóður tómur, svo hvar á að sækja fjármagn í þessi nýju ríkisstörf? Jú, sennilega með því að lækka laun hjá öðrum ríkisstofnunum og hækka skatta, en því erum við Frjálslyndir alfarið á móti.
Bændur herjuðu mikið á Samfylkinguna vegna afstöðu þeirra til ESB, en eitthvað lítið var um svör, en bara svo það sé alveg á hreinu, að gefnu tilefni, við Frjálslyndir höfnum algjörlega inngöngu inn í ESB.
Höfundur er í 2. sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi
15.4.2009 | 22:29
Er síðasta risaeðlan að falla og tryggjum sjómann á þing
Símablogg úr Hveragerði.
Við Grétar Mar áttum frábæran fund í Sólheimum í dag þar sem málefni fatlaðra voru efst baugi. Fundurinn var alveg frábær og á annað hundrað manns mættir. Grétar Mar var eini þingmaðurinn sem sá sér fært að mæta og fékk hann klapp fyrir það. Það vakti hins vegar gremju meðal íbúa Sólheima að Björgvin hjá Samfylkingunni skyldi ekki koma, vegna þess að fyrir síðustu kosningar lofaði hann að styðja betur við íbúa Sólheima. Fram kom á fundinum að í desember sl. var skorið niður í flest öllum stofnunum, sambærilegu Sólheimum, en mest í Sólheimum. Svo eðlilega vildu íbúarnir fá einhver svör hjá Björgvini, en eins og áður segir, hann sá sér ekki fært að mæta. Einnig vakti mikla athygli að frá þeim framboðum, sem boðið var að koma á þennan fund, mætti enginn frá Sjálfstæðisflokki. Kannski má segja svo að það sé í samræmi við fylgishrun þeirra að undanförnu og þá má kannski segja sem svo, að Sjálfstæðisflokkurinn sé í dag í sporum einnar af síðustu risaeðlunum. Fundurinn var að öðru leiti bráðskemmtilegur, enda fatlaðir þekktir fyrir að vera opinskáir og einlægir. Ég man hreinlega ekki eftir eins mörgum fyrirspurnum á einum fundi og komu fram á þessum fundi. Grétar Mar stóð sig frábærlega að vanda.
Við Frjálslyndir opnuðum kosningaskrifstofu í gær á Selfossi í Sigtúni, húsi fasteignasölunnar Bakka. Kannski má segja sem svo, að fasteignasalan Bakki sé lýsandi dæmi fyrir þá kreppu sem er orðin, því að þegar mest var, þá unnu þar 7 manns við fasteignasölu, en í dag er aðeins einn maður í vinnu þar. Boðið verður upp á kaffi og með því þar alla daga fram að kosningum. Þeir sem hafa áhuga á að hitta frambjóðendur á ferðum okkar á suðurlandi geta hringt í mig í síma: 869-3499.
Ég ætla að reyna að vera heima á laugardaginn þegar við verðum með opið hús á kosningaskrifstofunni þar, en því miður er veðurútlitið þannig á laugardaginn, að sennilega verðum við enn einu sinni að fresta grillveislunni, en ítreka það enn einu sinni að það hefur aldrei verið mikilvægara heldur en í dag, að fiskvinnslufólk, verkafólk og sérstaklega sjómenn haldi sínum fulltrúa á þingi.
Meira seinna.
Höfundur er í 2. sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
10.4.2009 | 21:12
Gengið á Heimaklett
Það voru margir eyjamenn sem gengu á Heimaklett í dag....
....og við gerðum það líka og tókum fána Frjálslynda flokksins með. Sjáið hvað hann nýtur sín vel með Bjarnarey í baksýn.
Bergþóra, Svavar Þór og Sunna Mjöll komu með og var þetta fyrsta ferð hjá stelpunum upp á Heimaklett.
Krakkarnir með bæinn í baksýn og sést langleiðina suður að Súlnaskeri
Fáni okkar Frjálslyndra og Vestmannaeyjar í baksýn. Að mínu mati stendur Frjálslyndi flokkurinn fyrst og fremst fyrir heiðarleik og dugnað og stór spurning, hvort að það sé ekki akkúrat það sem Íslendingum vantar í dag. Svarið fæst 25. apríl.
Helgi Tórs var með þessa á facebook síðunni sinni, sko hvað við tökum okkur vel út við Alþingishúsið
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2009 | 13:34
Peningamál , kvótakerfið og pólitík
Peningamál eru mikið í umræðunni þessa dagana, en ég verð að segja alveg eins og er fyrir mitt leiti, þá koma þessar háu fjárhæðir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að fá undanfarin ár ekki á óvart. Ég skrifaði litla grein um síðustu áramót, þar sem ég lýsti því, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn fylgir okkur eftir með því að birta mynd af okkur við fæðingu í Stofnum og síðan aftur mynd af okkur í Fylki þegar við látumst og á milli þessara tveggja mynda eru allskonar veislur, félagsskapur, ferðir og s.fr. og s.fr. og einhver þarf að sjálfsögðu að borga brúsann. Merkilegt nokk, við erum sennilega öll að borga brúsann. Þrátt fyrir þetta allt, þá ætla ég að halda mig við mína fyrri skoðun um það, að spilltasti flokkurinn á Íslandi sé þrátt fyrir allt Framsóknarflokkurinn, en það er ljóst að hann fær harða samkeppni frá Sjálfstæðisflokknum.
Það vakti athygli margra, ítarleg grein Tobba Villa um kvótakerfið á eyjamiðlunum. Tobbi er eins og allir vita gallharður íhaldsmaður. Eftir að hafa rennt yfir grein hans, sem er mjög löng, þá velti ég því fyrir mér að svara henni, enda rangfærslurnar margar, en þar sem svarið yrði sennilega að verða lengri en greinin hans, þá gaf ég það frá mér, en ætla að orða þetta á sama hátt og einn af þekktustu skipstjórum eyjamanna sagði við mig nýlega: "Það er einfaldlega eðlilegt að menn klappi hendinni sem matar menn og ósköp eðlilegt að menn eigi erfitt með að sleppa spenanum." Ég óska Tobba til hamingju með gott pláss í eyjaflotanum og efast ekki um það, að haldi hann áfram á þessari leið, að hann fái gott starf í landi þegar hann hættir á sjónum.
Í gær byrjuðum við Frjálslyndir að dreifa áskorun á bæjarbúa um stuðning við okkur Frjálslynda um kosningarnar. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé tryggt að sjómenn haldi sínum fulltrúum á Alþingi Íslendinga, sérstaklega núna þegar vinstri flokkarnir eru allt í einu farnir að tala um það, að hægt sé að sækja fjármuni í pyngju undirstöðu atvinnugreinanna og bara svo það sé alveg á hreinu, ég er ekkert hrifinn af þessari svokölluðu fyrningarleið, enda hef ég engan áhuga á að láta úthlutun aflaheimilda í hendurnar á einhverjum vinstri flokkum, þar fyrir utan, þá uppfyllir sú hugmynd ekki álit Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna. Þar fyrir utan ganga hugmyndir okkar Frjálslyndra út á það að tryggja að rétturinn til að veiða fiskinn haldist í byggðunum, og bara svo það sé alveg á hreinu, þegar nýjasta Ríkisstjórnin var myndir fyrir ca. 2 mánuðum síðan, þá var haft samband við okkur Frjálslynda og sú hugmynd viðruð að formaður okkar yrði sjávarútvegsráðherra, með því skilyrði að við styddum við þessa minnihluta stjórn. Hins vegar var okkur líka tilkynnt, að við mættum ekki gera neinar breytingar á kvótakerfinu til lengri eða skemmri tíma. Þetta gátum við ekki samþykkt, en buðum það að, að minnsta kosti, út á stuðning okkar að Íslenska þjóðin fengi aftur að stunda frjálsar handfæraveiðar bara þetta sumarið, en því var algjörlega hafnað.
Að lokum langar mig að benda á nýjar greinar frambjóðanda inni á www.heimaklettur.is.
Meira seinna.
5.4.2009 | 17:04
Fram, fram Frjálslyndir og verðtryggingin
Ég og frúin fórum upp á land á föstudaginn og vorum við opnun kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins í Keflavík. Hittum þar mikið af stuðningsfólki flokksins og áttum þar ánægjulega stund. Notuðum síðan helgina til að heimsækja ættingja í Keflavík, Grindavík og á Selfossi, en þar sem frúin var með mér í þetta skiptið, þá ákváðum við að nota helgina að hluta til fyrir okkur og keyptum okkur gistingu á hinum rómaða gististað Frost og funa í Hveragerði og mælum við sérstaklega með þessum stað. Herbergin eru meiriháttar útsýnið og heitu pottarnir sem og upphituð sundlaug og saunaklefi og til að kóróna þetta, þá er boðið upp á morgunverð sem er innifalinn í verðinu og er uppistaðan brauð sem bakað er úr lífrænt ræktaðu og er alveg meiriháttar.
Á leiðinni í Herjólf í morgun hlustaði ég á umræður á Bylgjunni, þar sem umræðuefnið var bankahrunið og hvernig við eigum að bregðast við því. Sitt sýnist hverjum, en ég er mjög ánægður með það að við í Frjálslynda flokknum höfum tekið þá ákvörðun, eins og alltaf, að vera ekki með einhverskonar kosningaloforð rétt fyrir kosningar um óútfylltar ávísanir eins og t.d. þessa hugmynd um 20% niðurfellingu allra skulda, bæði hjá fjölskyldum og fyrirtækjum, enda er nokkuð ljóst að þegar þessi hugmynd er skoðuð nánar, þá er alveg augljóst að þetta er ekkert sem menn geta staðið við eftir kosningar.
En hvað vilja Frjálslyndir gera? Jú, við viljum fyrst og fremst hjálpa fjölskyldunum í landinu. Það hefur verið á stefnuskrá Frjálslynda flokksins í mörg ár að fella niður verðtrygginguna, svo það sem við viljum gera núna til að byrja með, svo ég taki sem dæmi, íbúðareigandi sem keypti íbúð á síðustu árum fyrir ca. 20 milljónir og tók til þess 80 eða 90% lán. Það sem við gerum er að við lækkum vextina niður í t.d. 5%, setjum aðra vexti í sjóð og frystum þá þar. Þegar síðan kreppunni líkur og ég tek það fram að kreppunni mun ljúka, þá gerum við upp dæmið svona:
Íbúðin sem keypt var á 20 milljónir verður þá hugsanlega aðeins metin á 15, en skuldirnar verða þá komnar í t.d. 25 milljónir, svo íbúðareigandinn tekur við eigninni með skuldum í samræmi við matsverð íbúðarinnar og síðan verður einfaldlega samið um afganginn, í þessu tilviki 10 milljónir, og þá fer það að sjálfsögðu eftir greiðslugetu fólks hvað það tekur mikið af restinni á sig. Með þessari aðgerð viljum við tryggja það að íbúðareigendur haldi íbúðum sínum, enda nokkuð augljóst að hvorki Íbúðalánasjóður né nokkrar aðrar lánastofnanir hafi að sjálfsögðu engan hag í því að reka húseigendur út á götuna og sitja svo uppi með eign upp á 15 milljónir en áhvílandi 25 milljónir. Þetta virkar kannski svolítið einfalt, en um leið einfalt og gott.
En hvað er hægt að gera fyrir fyrirtækin?
Þar er staðan að sjálfsögðu allt önnur, enda nokkuð ljóst að þó að fjölmörg fyrirtæki verði hugsanlega gjaldþrota, þá er það ekkert nýtt á Íslandi að fyrirtæki verði gjaldþrota, en aðalatriðið er að sjálfsögðu að ef svo fer, að þá geti ríkið gripið inn í hugsanlega og komið fyrirtækjunum af stað aftur. Það er eina rétta leiðin og ótrúlegt að sumir flokkar skuli vera tilbúnir að setja á stefnuskrá sína kosningaloforð um niðurfellingu skulda upp á allt að 1.000 milljarðar og velta því að einhverju leiti á fólkið í landinu.
Höfundur:
Georg Eiður Arnarson, er í 2. sæti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
29.3.2009 | 21:40
Opnun kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins.......
..............í Vestmannaeyjum sl. föstudag tókst frábærlega og þökkum við öllum sem komu kærlega fyrir komuna. Einnig var kvöldvakan mjög vel heppnuð og var setið til kl. 1 um nóttina. Ákveðið var strax um hádegið að fresta grillveislunni í bili, enda unnið í öllum frystihúsum og flestir bátar á sjó.
Kommander Ólafur Ragnarsson hefur tekið að sér að sjá um skrifstofuna og verður boðið upp á kaffi og með því alla daga, en ekki á neinum föstum tímum. Síminn á skrifstofunni er 481 2919, síminn hjá Ólafi er 867 4756 og síminn hjá mér er 869 3499. Endilega hafið samband eða kíkið í heimsókn ef þið hafið einhverjar spurningar um stefnu flokksins fyrir komandi kosningar.
Meira seinna.
29.3.2009 | 20:22
Myndir frá síðustu viku
Vorverkin hófust þegar Jónas mætti með klippurnar
En tveimur dögum seinna var staðan svona, ekki mjög vorlegt
Við opnuðum kosningaskrifstofu með pompi og prakt, en frestuðum grillveislunni í bili, enda unnið í öllum frystihúsum alla helgina og allir bátar á sjó
Fengum svo Sigurgeir að taka myndir af okkur, sem erum í efstu sætunum, með miklum tilþrifum.