24.3.2009 | 20:16
Kvótakerfið (að gefnu tilefni)
Þó nokkuð er um það, að útgerðarmenn telji að hugmyndir Frjálslyndra um breytt kvótakerfi gangi út á það, að taka af þeim réttinn til að veiða fiskinn, til þess að færa hann einhverjum öðrum. Þetta að sjálfsögðu alrangt og bara dapurlegt þegar útgerðarmenn reyna að troða upp á sína sjómenn einhverjum tilbúnum upplýsingum um það að stuðningur við Frjálslynda muni kosta þá atvinnuna.
En út á hvað ganga hugmyndir Frjálslyndra? Jú, við viljum opna kerfið neðanfrá með því að gefa handfæraveiðar frjálsar. Íslandsmet á handfæraveiðum eru 12.000 tonn, þegar um 2.000 bátar voru á handfærum. Í dag er þetta ekki nema einn fjórði af þessum flota og aflinn eftir því. Þetta væri að sjálfsögðu mjög gott tækifæri fyrir unga menn og gamla að reyna fyrir sér í útgerð og alveg ljóst, að gríðarleg atvinna gæti skapast í kringum þessa hugmynd. Einnig höfum við talað fyrir því að reyna að taka tegundir úr kvóta. Varðandi aðra báta, þá ganga hugmyndir okkar fyrst og fremst út á það að geta komið í veg fyrir, að menn selji, leigi eða braski á einhvern hátt með aflaheimildirnar, enda alveg ljóst að í dag eru allar aflaheimildir í Íslandsmiðum veðsettar og alveg ljóst, að haldi óbreytt kvótakerfi áfram, þá munu menn halda áfram að veðsetja aflaheimildirnar og nokkuð augljóst, að börnin okkar og barnabörnin munu þurfa að takast á við þær skuldir, ef þetta verður ekki stöðvað núna.
En hvernig á að leysa málið? Jú, við stofnum auðlindasjóð, skráum aflaheimildirnar hjá sjóðnum, leigjum mönnum þær aftur gegn hóflegu gjaldi, tökum inn í sjóðinn allar skuldir sem komið hafa til á undaförnum árum vegna kvótakaupa og greiðum þær niður á markaðsverði með gjaldinu. Til þess að tryggja að aflaheimildirnar safnist ekki allar saman á eitt byggðarlag, þá yrðu aflaheimildirnar eins og þær standa í dag bundnar við ákveðin svæði eftir staðsetningu og yrðu þá t.d. Vestmannaeyjar eitt svæði. Það gefur augaleið, að þeir sem eru í útgerð í dag og hafa hugsað sér að halda áfram í útgerð, munu að sjálfsögðu hafa ákveðin forréttindi, enda starfandi í útgerð í dag, en aðrir, sem hafa áhuga á að fara í útgerð, munu þá geta boðið í aflaheimildirnar hjá auðlindasjóðnum og þannig tryggt það, að það verði ekki bara erfingjar í útgerð í framtíðinni.
21.3.2009 | 23:00
Fjölmennur fundur í Grindavík og verðtrygging
Góður fundur í Grindavík í gær og kosningabaráttan þar með hafin. Flestar spurningar voru að sjálfsögðu um kvótakerfið, en mér fannst almennt vera góður hljómur um hugmyndir okkar Frjálslyndra og mæli með því að fólk kíki í heimsókn til Grindavíkur, enda hef ég alltaf átt vissar taugar þangað.
Það er svolítið merkilegt að fylgjast með Steingrími J. hjá Vinstri grænum, lýsa því yfir að hann vilji fella niður verðtrygginguna. Sama dag er viðtal við Bjarna Ben. hjá Sjálfstæðisflokknum, þar sem hann lýsir þessu sama yfir, svo enn einu sinni eru stóru flokkarnir að taka upp málflutning okkar Frjálslyndra, enda höfum við barist fyrir þessu máli í fjölda mörg ár. Nú vantar bara að þessir sömu menn og flokkar fari að taka upp hugmyndir Frjálslyndra varðandi breytingar á kvótakerfinu, en það læðist að manni grunur um að ekki fylgi alveg hugur máli, enda þessir aðilar komnir í bullandi kosningabaráttu, en þó er það ánægjulegt að menn skuli taka upp hugmyndir Frjálslyndra, enda enginn vafi á því, að hugmyndir Frjálslynda flokksins og stefnuskrá eru það lang besta sem er í boði í dag, enda erum við ekki að finna upp einhverja stefnu núna, heldur erum við að vinna eftir sömu stefnuskrá og hefur verið í gildi hjá okkur árum saman.
Meira seinna.
Heimilin,fyrirtækin og skuldirnar
Alveg virðist með endemum hvað þessi 20% skurður á skuldir allra landsmanna ætlar að verða langlífur. Hver mannvitsbrekkan á fætur annari hoppar hæð sína í loft upp af gleði yfir þessari lausn á vandamálunum sem blasa við í þjóðfélaginu. Hvernig getur það verið? Hugsar fólk bara ekkert lengra, eða erum við orðin vön því að láta mata okkur af hverri víðáttuvitleysunni á eftir annari og setjum bara ekki spurningamerki við neitt?
Svona lausn getur bara ekki gengið upp og sýnir mest veruleikafirru þeirra sem setja hana fram. Enn og aftur verður manni ljóst að það virðast vera 2 þjóðfélög í gangi hérna, annað þar sem allt er bara alveg í lagi og hitt þar sem er kreppa sem þarf að vinna á á réttan hátt.
Þess vegna gladdi það mig að sjá Guðjón Arnar í Kastljósi í gær, hugmynd sú er hann setti fram þarna er ein af ástæðunum fyrir því að ég gat gengið í þennan flokk. Það segir sig sjálft að í því ástandi sem nú gegngur yfir þjóðfélagið verðum við að kaupa okkur tíma til að koma raunhæfum lausnum í gang, við gerum það ekki nema frysta vísitöluna á einhverju x stað í einhvern x langan tíma. Þá er hægt að fara að vinna í afnámi verðtryggingar o.s.fr. Við getum ekki bara látið heimilin og fyrirtækin í landinu bíða og bíða á meðan verið er að finna lausnir og vona bara að þau lifi af fjárhagslega.
Annað er líka að þó svo að við færum í einhverjar ESB aðildarviðræður þá er Evru upptaka eitthvað sem mun taka nokkur ár þannig að sú uppbygging sem við förum í næstu árin mun miðast við íslenska krónu. Reyndar sá ég í fréttum í gær að hin virta Frú Merkel kanslari Þýskalands er að leggja til að Króatía fái inngöngu núna og svo verði sett stopp fyrir aðildaviðræður nýrra ríkja. Hvað gerum við þá?
Við erum í þeirri stöðu að við munum þurfa að fara í uppbyggingu hér innanlands með okkar eigin gjaldmiðil á okkar eigin forsendum. Sem þýðir það að við ráðum sjálf og höfum val um það hverskonar þjóðfélag við viljum sjá rísa hér úr rústunum. En upp úr stendur að við verðum að byggja okkur upp á þann hátt við við séum sjálfbær og óháð öðrum. Við þurfum að gera heimilinum í landinu kleift að fara ekki í gjaldþrot nema að litlum hluta. Við þurfum að byggja upp fyrirtæki og atvinnu í sem flestum geirum. Og við verðum að gera okkur grein fyrir að þetta kemur ekki ókeypis, alveg sama hvaða aðgerðir verður farið í núna mun það kosta okkur eitthvað, spurningin er bara hvað erum við tilbúin að borga og hve lengi.
18.3.2009 | 22:00
Síld, loðna, vor og kosningar
Það var svolítið merkilegt að sjá Kap vera við síldveiðar í Vestmannaeyjahöfn í dag, en mér skilst að þetta sé fyrst og fremst til fjáröflunar fyrir ÍBV og er það bara gott ef svo er.
Setti færarúllurnar upp hjá mér í dag og fór út fyrir til að prófa. Ekki var fiskiríið merkilegt enda vaðandi loðna allt í kringum Eyjar og ótrúlegt að Hafró skyldi ekki vera enn við mælingar, en þeir myndu víst ekki finna loðnuna þó hún birtist í baðkarinu hjá þeim. Það hefði ekki verið slæmt fyrir fjárhag Eyjamanna að fá að veiða eins og 50-100 þús. tonn, en þetta er víst búið í ár.
Það er virkilega orðið vorlegt í Eyjum, rigning alla daga og farið að bera á grænum lit á flestum túnum. Eitthvað segir mér þó að páskahretið muni ekki láta standa á sér frekar en undanfarin ár. Tvennt er mest spennandi framundan að mínu mati, það eru aðeins 4 vikur í að lundinn komi og 5 vikur í kosningar. Á föstudag fer ég upp á land og munum við Frjálslyndir nema land í Grindavík með opnum fundi þar um kvöldið, svo nú má segja sem svo að kosningabaráttan sé hafin.
Meira seinna
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2009 | 21:02
Frábært landsþing hjá Frjálslyndum og Fréttir, frjálst og óháð?
Landsþing FF var um helgina og þvílíkur munur frá síðasta þingi, því að samheldnin og ánægjan var nánast með ólíkindum. Samstaðan og styrkurinn sem við sýndum á þessu þingi mun að mínu mati fleyta okkur langt í komandi kosningabaráttu. Mig langar að óska nýrri stjórn til hamingju með sitt kjör, Guðjóni Arnari Kristjánssyni formanni, Ásgerði Jónu Flosadóttir varaformanni, að ógleymdri Eyjakonunni, Hönnu Birnu Jóhannsdóttur ritara. Einnig var mikið um endurnýjun í miðstjórn flokksins og sérstaklega ánægjulegt að meirihlutinn í miðstjórninni eru sýnist mér konur og óska ég þeim til hamingju með það. Einnig kom fram á þessu þingi í fyrsta skipti, nýr þingmaður FF Karl V. Matthíasson, ræddum við nokkrum sinnum saman og er ég mjög ánægður með þessa viðbót við flokkinn og kannski er koma Karls í FF skýrasta dæmið um þá aumlegu stefnu sem hans fyrri flokkur hefur varðandi fiskveiðistjórnunina. Einnig var sérstaklega ánægjulegt að sjá Magnús Þór Hafsteinsson stíga fram og lýsa því yfir, að þrátt fyrir að hann væri ekki í forystuhlutverki í komandi kosningum, þá muni hann að sjálfsögðu halda áfram að berjast af fullum kröftum fyrir FF, enda er stefna flokksins sú eina rétta og ætlaði þakið að rifna af húsinu af fagnaðarlátum við lok ræðu hans.
Stykkishólmur er staður, sem ég mæli með að fólk heimsæki, hótelið þar er alveg meiriháttar flott og þjónustan góð og voru dæmi um það, að sumir hefðu dansað og sungið fram undir morgunn, en ég þakka fyrir mig.
Það er hálf aumlegt að fara inn á síðuna eyjafréttir.is og lesa þar fréttina um kosningu okkar Frjálslyndra, því ekki bara er nýr ritari rang feðruð, heldur er formaðurinn skýrður upp á nýtt, en svona til gamans, þá renndi ég yfir allar greinar og öll nöfn sem tengjast íhaldinu á vefnum, eða öðrum flokkum og viti menn, ekki ein einasta villa í einu einasta nafni og svo segja sumir fréttamenn að þeir séu óhlutdrægir og hlutlausir í allri sinni umfjöllun, því að ef svo er þá eru þetta ansi mikil mistök hjá fréttamanni á þessari síðu og ekki laust við að það læðist að manni að þetta sé gert viljandi, enda held ég að fáir eyjamenn upplifi þennan vef sem einkvað frjálst og óhlutdrægt. En þetta er því miður ekki fyrsta og sennilega ekki síðasta skiptið sem við í FF erum rang feðruð, rangnefnd eða uppnefnd af ritstjórum þessarar síðu.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.3.2009 | 16:02
Dolli og ég
Fékk þessa mynd senda og kannski dæmigerð fyrir okkur félagana, ég að koma úr róðri fyrir nokkrum árum síðan, og Dolli mættur á löndunarkrananum til þess að hífa fyrir mig.
p/s ég á reyndar sjálfur góða mynd af Dolla, en þar sem við erum báðir vel í skál þar, þá ætla ég að halda henni fyrir mig.
8.3.2009 | 22:27
Kominn í framboð og draumur trillukarlsins
Þá er það ljóst að undirritaður er kominn í framboð og var ég staddur úti á sjó í gær, þegar listinn var tilkynntur í útvarpinu, en hann hafði þá verið samþykktur á fundi í bænum. Sá reyndar seinna að reynt hafði verið að hringja í mig. Annars fór ég á sjó bæði í gær og í fyrradag, fiskiríið var mjög gott, ca. 5,5 tonn á 24 bala, mest langa og enn er vaðandi loðna allt í kringum eyjar.
En vegna þess að ég er kominn í framboð og skipa annað sæti Frjálslynda flokksins í suðurkjördæmi, þá langar mig að rifja upp aftur sögu, sem ég sagði í jólasnepli okkar frjálslyndra fyrir síðustu jól og heitir einfaldlega Draumur trillukarlsins.
Það var eitt sinn ungur maður í Vestmannaeyjum sem hafði gengið með þann draum í maganum að fara í útgerð, enda höfðu bæði afi hans og langafi verið þekktir útgerðarmenn í Eyjum, svo ungi maðurinn keypti sér trillu og byrjaði að róa. Útgerðin gekk svona upp og niður framanaf, en frá fyrsta degi gekk ágætlega að fiska, en sagan hefst sem sé á fögrum vordegi. Ungi maðurinn fer niður á bryggju, veðurspáin er góð og útlitið eftir því, svo ungi maðurinn setur í gang og leggur frá bryggju og siglir út höfnina, en þegar út fyrir klettsnefið kemur bregður unga manninum við, því við honum blasir sjón sem hann hafði aldrei séð áður. Eftir að hafa fengið að kynnast briminu og ofsanum í veðrinu allan veturinn, blasti við spegil sléttur sjórinn og tilfinningin var svo sterk, að sem snöggvast brá fyrir í huga unga mannsins mynd úr gamalli, góðri bók sem hann las spjaldanna á milli á sínum yngri árum, þar sem m.a. segir frá manni, sem eftir því sem sagan segir, gekk á vatni. Ungi maðurinn hristi þetta af sér, steig út úr stýrishúsinu, kannski til að virða þetta betur fyrir sér, en líka til að hlusta. Ekki heyrðist neitt brimhljóð, en í staðinn fyrir lágvært malið í vélinni kom nánast ærandi gargið í fuglinum. Ungi maðurinn leit upp eftir Ystakletti, allur fuglinn sestur upp og allt iðandi af lífi, og fann hvernig þessi sýn snerti hann á sama hátt og eitthvað sem hefur mikil áhrif á okkur. Fór hann síðan aftur inn í stýrishús og lagaði stefnuna, steig síðan út til að virða þetta allt saman betur fyrir sér og var að horfa á eyjarnar í austri, þegar skyndilega fyrsti geisli sólarinnar kom eins og elding austan við jökul. Birtan var svo ofboðsleg að það dugði unga manninum ekki að bera hendini fyrir og lokaði hann því augunum, en í huga unga mannsins kom algjörlega ósjálfrátt þessi litla ósk einhvern veginn svona: Bara ef, bara ef ég gæti fengið að lifa og starfa í friði, ég verð aldrei ríkur en hugsanlega, með hörku og dugnaði, get ég sér fyrir mér og mínum. Ungi maðurinn hristi þetta nú fljótt af sér og hugsaði með sér: Ætli það verði ekki einhver bankastjórinn, eða þetta nýjasta kvótakerfi sem gerir út af við einhverja svona draumóra. Hann lagaði stefnuna á bátnum betur, en var síðan litið til baka á Heimaey sem fjarlægðist óðum, þá kom þessi viðbót: Og þó, hér á einhverjum fallegasta stað í heiminum, hér gæti ég svo sannarlega hugsað mér að bera beinin. Aftur hristi ungi maðurinn af sér þessar hugleiðingar og tautaði með sjálfum sér:" Vonandi á ég þó nokkur góð ár eftir" og hélt sína leið.
Eins og gefur að skilja, þá þekkti ég þennan unga mann mjög vel og þekki hann kannski ennþá betur í dag, en draumur trillukarlsins lifir enn í dag og þegar við horfum á allar þær hörmungar sem dunið hafa yfir okkur síðustu mánuði og sjáum svo sömu stóru flokkana sem bera ábyrgðina á þessum hörmungum óska enn og aftur eftir því að fá nýtt umboð til að stjórna, þá er aldrei eins mikilvægt og nú að við skoðum þann möguleika að gefa nýjum flokkum og nýju fólki tækifæri á að taka við og fyrir mitt leyti, þá mun ég berjast fyrir draumi trillukarlsins.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2021 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2009 | 12:32
Minning
Þann 9. febrúar lést blogg vinkona mín, Guðrún Jóna Gunnarsdóttir eftir hetjulega baráttu við krabbamein og votta ég aðstandendum hennar og fjölskyldu samúð mína.
Oft þegar ég heyri af fólki sem hefur látist, koma upp minningar um besta vin minn, sem lést fyrir nokkrum árum síðan. Ég hef lengi velt því fyrir mér að skrifa þessa grein, en hef ákveðið að gera það núna.
Besti vinur minn, síðustu 20 árin sem hann lifði, hét Adolf Magnússon, fæddur 1921 og var liðlega 40 árum eldri en ég. Hann var alltaf kallaður Dolli, eða eins og við trillukarlarnir þekktum hann, Dolli á Freyjunni, eða Dolli á Sjónarhól. Fyrstu kynni okkar Dolla voru þegar ég kom á minni fyrstu trillu 1987 og rakst svolítið harkalega utan í Freyjuna hans, svo úr varð smá skemmd. Dolli hins vegar sagði ekki neitt, heldur lagaði þessa smá skeinu sem kom á bátinn hans, en rukkaði mig aldrei um neitt. Eftir að hafa róið hérna í nokkra mánuði á færum skipti ég yfir á línu og fór þá að beita uppi í kró. Þetta varð til þess að Dolli fór að kíkja í heimsókn og eitt skiptið þegar hann kom þarna, þar sem ég var að vandræðast með að splæsa línu, bauðst hann til að kenna mér að splæsa. Þannig minnist ég Dolla, alltaf tilbúinn að hjálpa og alltaf tilbúinn að veita góð ráð eða aðstoð og ég minnist þess, að eftir að ég flutti niður á Vestmannabraut, þannig að aðeins voru 3 hús á milli okkar, þá kom það ekki ósjaldan fyrir, sérstaklega fyrir jólin, að börnin mín komu inn og sögðu mér frá því, að gamall maður hefði komið og gefið þeim pening. Þannig var Dolli einfaldlega, góðmennskan uppmáluð og kannski lýsandi dæmi um ævi Dolla, að heima hjá sér átti hann myndarlegan verðlaunagrip og skjal frá því þegar hann sem ungur sjómaður kastaði sér í hafið til að bjarga félaga sínum, sem hafði rotast og fallið í sjóinn.
Síðustu árin sem Dolli lifði var hann oft veikur og eftir að hann hafði selt þennan litla kvóta, sem hann átti á Freyjunni, var Freyjunni komið fyrir uppi á landi. Nokkrir höfðu falast eftir því að kaupa hana, en hann sagði að honum væri ekki sama um hver fengi bátinn, enda var líka orðin þörf á því að taka ýmislegt í gegn þarna um borð. Þar sem ég var á milli báta um þetta leytið, þá kom hann til mín og bað mig um að kaupa af sér Freyjuna. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að slá til, borgaði umsamið verð og hófst þegar handa við að gera bátinn tilbúinn fyrir skoðun. Ekki var ég fyrr búinn að skrifa undir kaupin, en Dolli var farinn að draga að mér allt mögulegt, bæði málningu og annað til að skvera bátinn. Báturinn fékk skoðun og keypti ég síðan á hann nýlegt línuspil. Þar sem ég hafði þá tekið að mér að róa með lítinn netabát, þá gat ég ekki byrjað að róa með Freyjuna fyrr en seint um haustið þetta ár. Í stuttu máli sagt, þá gekk allt upp hjá mér á Freyjunni. Mokfiskaði ég svo að ég lenti t.d. í því þrisvar bara þennan vetur að þurfa að fara inn að landa og út aftur til að klára að draga línuna og var stundum á mörkunum, að maður hefði það í land, enda Freyjan ekki gerð fyrir mjög mikinn afla. En heldur betur hýrnaði yfir Dolla yfir þessu fiskiríi. Um vorið hinsvegar, hafði ég tekið ákvörðun um það, að ef ég ætlaði að halda áfram í útgerð, þá yrði ég að fá mér stærri bát og setti því Freyjuna á sölu. Ekki var nú Dolli hrifinn af því, en keypti ég þá um sumarið þann bát sem ég á í dag og gekk Freyjan upp í kaupin og er núna komin vestur á firði, þar sem búið er að lengja hana og ég veit ekki betur en að það fiskist ennþá vel á Freyjuna.
Í fyrstu vildi Dolli ekki koma um borð og skoða nýja bátinn minn, svo ég greip til þess ráðs einn daginn, hringdi í hann og sagði að ég væri í ægilegum vandræðum um borð og bað hann um að hjálpa mér. Kom hann þá að venju og við redduðum þessu smotterí sem var í ólagi og eftir að hafa setið þarna að spjalli í smá stund og hann skoðað bátinn, þá sagði hann þessa setningu:" Goggi minn, þú gerðir alveg rétt í að selja Freyjuna og kaupa þennan bát." Þótti mér afar vænt um að heyra þetta.
Síðasti kafli þessarar sögu er ástæðan fyrir því að ég hef dregið það aftur og aftur að skrifa þessa sögu, en hann er svona: Síðasta árið sem hann Dolli lifði, var hann ekki mikið á ferli, en mig minnir að það hafi verið í september sem ég fór í heimsókn til hans. Að vana fór ég að tala um fiskiríið og hvort hann ætlaði ekki að fara að fá sér bát aftur með vorinu, en þá sagði Dolli og var óvenju ákveðinn:
"Nei, nú er þetta búið hjá mér."
Ég svaraði þessu með: "Hvað meinarðu með búið?" og bætti síðan við: "Ekki ætlarðu að fara að kveðja okkur fyrir fullt og allt?"
Dolli svaraði: "Jú, þetta er mitt síðasta."
Ég reyndi þá að slá á léttari strengi og spurði hann þá: "Og hvenær verður jarðarförin og verður mér boðið?"
Þá kom Dolli mér á óvart með því að svara: "Þú átt ekki að koma í jarðarförina mína."
Brá mér nokkuð við þetta og spurði: "Hva, ekki ætlarðu að banna mér að koma í jarðarförina þína?"
"Jú" svaraði Dolli og sagði síðan: "Ef þú vilt minnast mín daginn sem ég verð jarðaður, þá átt þú að fara út á sjó og fiska eins og þú mögulega getur."
Ég hugsaði mig um í smá stund og sagði svo við Dolla: "Ok, ef ég lofa þessu, þá verður þú að lofa mér öðru í staðinn."
Lifnaði þá heldur betur yfir Dolla og tókumst við í hendur upp á það. Stuttu seinna kvaddi ég og frétti svo nokkrum vikum síðar að Dolli væri kominn á sjúkrahúsið og ætti ekki langt eftir. Þegar ég vaknaði 29. nóvember þarna um haustið, leið mér eitthvað hálf undarlega, en tengdi það fyrst við það að afmælisdagurinn minn er 28., en frétti svo síðar um daginn að Dolli hefði látist um nóttina.
Ég hafði sagt konunni frá þessu samtali okkar Dolla og kveið svolítið fyrir því, hvort að það yrði kannski sjóveður daginn sem að Dolli yrði jarðaður, því ég hafði nánast ákveðið að standa við samninginn. Þess vegna var ég mjög ánægður þegar ég sá að veðurspáin var afar slæm og einnig vitlaust veður daginn fyrir jarðarförina. Hins vegar, þegar ég vaknaði um morguninn daginn sem Dolli var jarðaður, var nánast logn úti. Ég sagði við konuna: "Það hlýtur að vera haugasjór og við förum í kirkjuna." Þegar athöfninni er að ljúka og ég er einmitt að velta fyrir mér þessu loforði mínu við Dolla. Kirkjuklukkan er að hringja út, þá heyrist skyndilega smellur og hljómurinn í kirkjuklukkunni breytist. Allir í kirkjunni heyrðu þetta og dóttursonur Dolla og nafni sagði við mig seinna að þarna hefði Dolli viljað eiga síðasta orðið.
Þegar út úr kirkjunni kom, þá var ég aftur farinn að velta fyrir mér þessum samningi mínum við Dolla og sagði því við konuna: "Við skulum skjótast sem snöggvast austur á hraun aðeins til að, sjá hvort að það sé ekki örugglega haugasjór og koma svo aftur og heilsa upp á fólkið hans Dolla." Þegar við erum komin austur á hraun, þá blasir við nánast spegil sléttur sjór og hægur vindur. Ákvað ég þá að reyna að standa við amk. að hluta til við samninginn okkar Dolla. Rauk heim og skipti um föt og var farinn frá bryggju klukkutíma seinna með 8 bjóð um borð. Lagði bjóðin í tveimur lögnum austur við Elliðaey, enda spáði suðvestan stormi. Lét ég línuna liggja aðeins í hálf tíma og byrjaði þá að draga. Fiskiríið var mjög gott, eða um 200 kg á bjóð. Þegar ég var kominn á síðasta bjóð, rauk upp í ofsa veður, en yfir mig var kominn þá einhver undarlegur friður. Kláraði ég að draga í rólegheitum og keyrði síðan í hægagangi í land. Það hefur stundum verið sagt við mig að ég sé aldrei einn á sjó og hefur mér oft þótt þetta frekar skrítið, en ég verð þó að viðurkenna það, að ég hafði það afar sterkt á tilfinningunni þegar ég var að keyra þarna í land að ég væri ekki einn.
En loka orðin mín í þessu eru til Dolla. Dolli minn, ég þakka fyrir vináttuna og aðstoðina öll þessi ár og mundi það að ég stóð við minn hluta samningsins og muni rukka um þinn, þegar þar að kemur, pláss á nýju Freyjunni þegar minn tími kemur. Að lokum vill ég votta aðstandendum Dolla samúð mína, það gleymdist víst á jarðarfarardaginn, enda var ég upptekinn við að standa við annan samning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.3.2009 | 22:35
Nóg af loðnu, ekkert leikskólapláss og smá pólitík
það var fallegt veðrið í Eyjum um helgina og ekki síðra á sjónum, en ég fór á sjó báða dagana, fiskirí var gott eða 5 tonn á 22 bala, mest langa . Einn línubátur reyndi fyrir sér á hefðbundnum ýsu miðum en fékk aðeins 5 fiska á 5 bjóð enda vaðandi loðna allt í kringum eyjar .
Ég heyrði áðan í skipstjóra á netabát sem er á veiðum djúpt sunnan við eyjar og er allur fiskur fullur af loðnu, einnig eru smá torfur að koma allan daginn og virðist sem að loðnan sé að komu upp úr kantinum. Sjálfur varð ég var við margar litlar torfur af loðnu um helgina, en engar stórar torfur, en miðað við það sem ég hef séð þá ætla ég að halda mig við mina fyrri skoðun á loðnunni " það hefði verið óhætt að veiða 50 000 tonn " að minnsta kosti .
Samkvæmt Eyjamiðlum þá eru 75 börn á biðlista eftir leikskólaplássi, þetta kemur mér ekki á óvart enda eru íhaldsmenn í eyjum fyrir löngu síðan búnir að gefast upp fyrir kvótakerfinu og unnið í samræmi við það, að undirbúa þjónustuna í bænum fyrir frekari fækkun íbúa.
Nú liggur fyrir fyrstu nöfn á lista FF í suðurkjördæmi og verður listinn borinn upp til samþykkis á fundi næsta laugardag og verður þá í framhaldi af því, ef hann fær samþykki, hægt að birta hann en eftir því sem ég veit best, þá eru amk. tveir Eyjamenn á listanum.
Meira seinna.
27.2.2009 | 20:31
Þingmannaflótti
Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson eru búnir að yfirgefa FF og þakka ég þeim fyrir ágæt kynni og samstarf og óska þeim góðs gengis í sínum nýju flokkum. Það er ekki hægt að segja, að það hafi verið lognmolla í kringum veru þeirra í FF og kannski lýsandi fyrir skoðanir þeirra, að þeir eru núna báðir að yfirgefa þann flokk sem hvað harðast berst fyrir breytingum á kvótakerfinu og ganga í sína gömlu flokka, sem bera hvað mesta ábyrgð á núverandi kvótakerfi. En svona er þetta bara, fullt af fólki fer í framboð vegna stuðnings við þau málefni sem þeir standa fyrir, en því miður eru þeir félagar kannski gott dæmi um menn, sem taka sitt eigið sjálf fram yfir málefnin.
Mikið er um að reyndir þingmenn dragi sig i hlé og er það í sjálfu sér bara gott, því að margir af þeim sem hafa dregið sig í hlé að undanförnu bera að sjálfsögðu mikla ábyrgð á þeim hörmungum sem hafa gengið á síðustu mánuði. Úr suðurkjördæmi er helst að nefna minn gamla skólabróðir, Lúðvík Bergvinsson úr Samfylkingunni, en ég skil vel að hann skuli hafa hætt við að bjóða sig fram, enda hef ég að undanförnu heyrt á nokkrum Samfylkingarmönnum, spár um að hann myndi að öllum líkindum ekki ná inn. Sama gildir um Árna M. Mathiessen, mér heyrist flestir íhaldsmenn vera á þeirri skoðun að hans tími sé búinn og persónulega er ég mjög ánægður með þessa niðurstöðu, enda er sá skaði sem Árni Mathiessen ber mesta ábyrgð á í sjávarbyggðum landsins nánast óbætanlegur, að maður tali nú ekki um hlut hans í fjármálakreppunni.
Miklar breytingar hafa einnig orðið hjá Framsóknarmönnum, bæði Guðni Ágústsson og Bjarni Harðar hættir. Farið hefur fé betra. Aðeins varðandi þetta bréf sem Bjarni skrifaði og varð honum að falli: menn sem standa fyrir svona skrifum eiga að mínu mati ekkert erindi á Alþingi.
Á eyjamiðlunum er allt í einu komin grein, þar sem því er spáð að Árni Johnsen eigi nánast beina leið inn á Alþingi aftur eftir brotthvarf nafna síns. Ég hef alltaf kunnað ágætlega við Árna Johnsen, en mér hefur þó fundist að þau (mistök) sem hann gerði á sínum tíma og kallaði sjálfur tæknileg mistök, hafi verið þess valdandi að sjálfur gæti ég aldrei kosið slíkan einstakling á þing og það vakti athygli mína í ferðum mínum upp á land eftir síðustu kosningar, hversu mörgum Íslendingum fannst við Eyjamenn vera svona hálfgerðir bjánar með að kjósa svona mann á þing aftur, en ég svaraði því að sjálfsögðu þannig að sennilega hafði Árni fengið fleiri atkvæði á fastalandinu heldur en hér í Eyjum og þar fyrir utan, þá kann ég ágætlega við Árna, en miðað við sögurnar af því, hvernig samflokksmenn hans koma fram við hann á þingi, þá held ég að Árni hefði getað gert margt annað betra fyrir Eyjarnar heldur en að setjast aftur á Alþingi Íslendinga.
Nokkrir ungir frambjóðendur hafa komið fram í þessum flokkum hér fyrir ofan, en því miður sýnist mér að staðan sé óbreytt með stóru flokkana, það er ennþá sama gamla liðið sem heldur í spottana og passar upp á að þeirra þingmenn geri eins og þeim er sagt og merkilegt nokkuð, þessir sömu gömlu stóru flokkar eru enn að mælast með mikið fylgi í skoðanakönnunum, á meðan minn flokkur FF mælist varla, en ég geri mér nú vonir um það að fólk rumski úr Þyrnirósarsvefninum fyrir kosningar.
Meira seinna.