24.2.2009 | 11:53
Núverandi kvótakerfi og hugmyndir FF (mín skoðun)
Stuðningsaðilar núverandi kvótakerfis eru að rumska til lífsins í aðdraganda kosninga, en hver er munurinn á núverandi kerfi og hugmyndum FF að mínu mati? Núverandi kerfi byggir á því, að útgerðarmennirnir eigi aflaheimildirnar og fari með þær eins og þeim sýnist. Afleiðingarnar höfum við séð út um allt land. Eitt af nýjustu dæmunum eru afleiðingar þess, að útgerðarmaður í Grímsey ákvað að selja sínar aflaheimildir hæstbjóðanda, sem varð til þess að fyrir 2 árum fóru 40% af aflaheimildum í Grímsey frá eyjunni, sem aftur gerði það að verkum að í dag hafa um 40% íbúanna flutt á brott. Stuðningsmenn núverandi kerfis hér í Vestmannaeyjum, tala oft um það að Eyjamenn hafi nokkurn veginn haldið sínum hlut í aflaheimildunum. Þetta er að vissu leiti rétt, en þó koma upp í hugann nokkrar sölur, m.a. fyrir rúmu ári síðan var hið fræga nafn, Binni í Gröf selt upp á land með öllum aflaheimildum og mér er sagt að það hafi verið lögfræðingur sem keypti skipið með aflaheimildum, með það að markmiði að gera út á leigumarkaðinn. Í sjálfu sér má segja það, að á sínum tíma, þegar lagt var af stað með núverandi kvótakerfi, þá hafi það verið fyrst og fremst ágætis hugmynd, en þeirri hugmynd lauk í raun og veru fyrir mörgum árum síðan og við tók þetta brask kerfi sem við þekkjum í dag.
En út á hvað ganga hugmyndir FF að mínu mati? Jú, þær ganga út á það, að tryggja það að aflaheimildirnar haldist í byggðunum fyrst og fremst og að það sé ekki útgerðarmanna að selja eða veðsetja aflaheimildir mörg ár fram í tímann. Menn haldi sínum aflaheimildum til þess að nýta þær og einfaldlega skili þeim inn þegar þeir hætta, þannig að allir aðrir eigi möguleika á að taka við. Að sjálfsögðu þarf að útfæra slíkar hugmyndir nánar, t.d. þarf að taka tillit til þeirra, sem hafa verið að fjárfesta síðustu árin í aflaheimildum, en ég held að það sé nokkuð ljóst að miðað við skuldastöðu útgerðarinnar í dag, þá sé þetta einmitt rétti tíminn til að hefja vinnuna við að breyta núverandi kerfi, t.d. tel ég ekki nokkra spurningu um það að það eigi að gera handfæraveiðar frjálsar. Ég tel líka að það sé hægt að auka aflaheimildir í dag og opna þannig fyrir nýliðun í útgerð, en einnig að það verði þá að loka stærri svæðum til þess að fiskurinn fái frið, en allt saman þarf þetta að útfærast betur. En lokasetningin er sem sé þessi spurning:" Hvort er betra, að útgerðarmaðurinn eigi aflaheimildirnar og fari með þær eins og honum sýnist, eða að aflaheimildunum sé úthlutað eitt ár í einu til byggðanna og aðrir útgerðaraðilar í sömu byggð njóti forgangs á því ef einhver í þeirri byggð hættir?
Meira seinna.
23.2.2009 | 19:58
Róður, framboðsmál, skoðanakannanir og málefnahandbókin
Það hefur heldur betur versnað tíðarfarið að undanförnu, nánast grenjandi rok upp á hvern einasta dag og tíðarfarið farið að líkjast ansi mikið síðasta vetri, en í gær komst ég á sjó í fyrsta skipti í 9 daga, komst meira að segja djúpt suður fyrir Eyjar, enda frétti ég af öðrum línusjómanni sem hafði farið fyrr um morguninn hérna heima við og var ekki að fiska. Fiskiríið var hins vegar mjög gott hjá mér, eða 2 tonn á 9 bala, mest langa enda loðna nýbúin að fara yfir heimamiðin. Eitt vakti athygli mína á sjónum í gær, eins og vanalega þá kom allur svartfuglinn og settist upp á sama tíma og loðnan gekk fram hjá Eyjum, en í gær tók ég hins vegar eftir því að stórir hópar af svartfugli tóku stefnuna suður í haf, svo eitthvað virðist ætið vera lítið hérna heima við.
Af framboðsmálum er það að segja, að það er orðið opinbert að Grétar Mar Jónsson muni leiða lista FF í suðurkjördæmi, í önnur sæti verður raðað í í vikunni, en vegna fjölda áskoranna hef ég boðist til að taka annað sætið.
Nokkrir Eyjamenn hafa tjáð sig á blogginu um fylgi flokkanna og er ítrekað bent á, hvað lítið FF er að skora í skoðanakönnunum, en til að svara því, þá skal bent á að ef skoðanakannanir væru marktækar um fylgi flokksins, þá hefðum við aldrei náð inn manni, en höfum hins vegar átt menn á Alþingi frá því að flokkurinn var stofnaður og ég spái því, að þeim muni fjölga í vor.
Svona til gamans, þá var ég að blaða í málefnahandbók FF sem gefin var út fyrir síðustu kosningar og þetta vakti athygli mína:"Frjálslyndi flokkurinn lýsir yfir miklum áhyggjum af skuldastöðu þjóðarbúsins og skuldsetningu heimilanna. Einnig er varað við gegndarlausri skuldsetningu sjávarútvegsins, sem að megin hluta til byggir á veðsetningu á óveiddum fiskinum í sjónum." Fólk hefði kannski betur hlustað á Frjálslynda síðustu árin, því að eins og fjölmargir prófessorar og hagfræðingar hafa sagt, þá var frjálst framsal af aflaheimildum byrjunin á hruni Íslenska fjármálakerfisins. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fá þessa bók, þá á ég nokkur eintök og áhugasamir geta nálgast hana hjá mér.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2009 | 22:26
Loðna, síld og samgöngupólitík
Lífið í Eyjum þessa dagana snýst um loðnuna, enda fara nú í hönd dýrmætustu dagar ársins í loðnunni, enda fer hrognatakan að byrja og mjög ánægjulegt að sjá Grétar Mar Jónsson, þingmann Frjálslynda flokksins, reyna að kreista eitthvað svar út úr núverandi sjávarútvegsráðherra varðandi framhald á veiðunum. Ég tek líka eftir því að blogg vinur minn, Helgi Þór Gunnarsson er að skrifa gegn loðnuveiðum og færir fyrir því ágætis rök í sjálfu sér. Mín skoðun er hins vegar sú, að eins og við vitum eftir ára og átatuga reynslu þá hefur t.d. alltaf komið ný ganga að vestan og mig minnir meira að segja, að bæði í fyrra og þar áður hafi það gerst og loðnu kvótinn verið aukinn um miðjan mars, sem er í sjálfu sér allt of seint og tel ég að nær væri að gefa sér það, að það komi ganga að vestan og veiða á meðan verðmætið er mest. Ég fór á sjó í fyrradag og ætlaði djúpt suður fyrir eyjar, vegna þess að loðnan var komin norðan við Eyjar, en vegna veðurs varð ég að snúa við og ákvað að taka sénsinn og leggja norðan við eyjar. Fiskiríið var ágætt og kom mér verulega á óvart, eða c.a. 1300 kg á 10 bjóð, sem er kannski sterkasta vísbendingin um að ekki sé mikil loðna á ferðinni þarna í fyrstu gusunni. Daginn eftir hitt ég hins vegar menn sem fóru á skytterí suður fyrir eyjar og mældu að sögn einnar mílu loðnu torfu suður í sundum. Ég held að stærsta vandamálið með loðnuna sé fyrst og fremst það, að of margir eru að sækjast eftir henni og nokkuð augljóst, að mínu mati, að ef við ætlum að veiða loðnu í einhverjum mæli á næstu árum, þá þarf nú þegar að hefja stórfelldar hvalveiðar og auka verulega aflaheimildir í þorski. Að öðrum kosti er nokkuð augljóst, að loðnuveiðar munu að öllum líkindum leggjast af um styttri eða lengri tíma.
Síldin í höfninni er byrjuð að hverfa og má sjá dauða síld á hafsbotninum á há fjöru út um alla höfn. Sjálfur fór ég með síldarnet út að Klettsvík í síðustu viku, dró það daglega, en veiðin var frekar léleg. Byrjaði í ca. hálfri körfu og í dag þegar ég tók upp netið í síðasta skipti voru aðeins 11 síldar í netinu. Það er mikið líf í höfninni þegar Herjólfur er að leggja að bryggju og alveg greinilegt að hann rótar mikið upp dauðri síld af hafsbotninum, sem aftur býður upp á mikla veislu fyrir fuglinn. Súlan er hins vegar horfin, enda tekur hún fyrst og fremst lifandi æti.
Pólitíkin er komin á fleyi ferð og ég á von á því að listi FF muni liggja fyrir í vikunni. Það vakti athygli mína, skrif Gríms Gíslasonar, sem enn einu sinni er að gera sér vonir um stuðning innan Sjálfstæðis flokksins og er að verða svona einhvers konar eilífðar kandídat hjá íhaldinu. Grímur fjallar um Herjólf og Bakkafjöru í vikunni, og er greinilega að reyna að fá eyjamenn til að trúa því, að hægt verði að nota núverandi Herjólf í Bakkafjöru, sem sýnir glöggt hversu ótrúlega tilveru firrtir íhaldsmenn í eyjum eru í dag og langar mig að svara þessu með orðum Gísla Viggóssonar:" Það verður ekki hægt að nota núverandi Herjólf í Bakkafjöru." Samgönguráðherra lét líka sjá sig í Eyjum og lofaði því, að ferðum með Herjólfi yrði ekki fækkað. Þetta minnir mig svolítið á fyrrverandi Samgönguráðherra, Sturlu Böðvarsson, sem samþykkti kröfu Eyjamanna um tvær ferðir á dag, en hækkaði um leið gjaldið með skipinu töluvert. Núverandi samgönguráðherra toppar það þó með því að boða ekki niðurskurð í ferðum, en hækkar líka gjaldið. Reyndar skilst mér að þeir Eimskipsmenn vilji nú helst losna við þetta bákn, enda að sögn mikið tap á rekstrinum. Mín skoðun er hins vegar óbreytt, en svona til gamans velti ég því upp enn einu sinni. Að öllum líkindum hefðum við þurft aðeins einn fimmta af því fjármagni, sem mun fara í þessa Bakkafjöru, til þess að fá stærri og gangmeiri Herjólf á siglingarleiðinni Vestmannaeyjar/Þorlákshöfn. Fyrir utan það, að margt bendir til þess að endanlegur kostnaður við Bakkafjöru og ferju muni að öllum líkindum verða, eftir því sem mér er sagt, eftir nokkur ár kominn upp í sambærilega upphæð og það myndi kosta að gera göng á milli lands og Eyja.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.2.2009 | 17:02
Þessi er góður
Nonni litli var aðeins farinn að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og einn daginn fór hann til pabba síns og spurði hann: "Hvað eru stjórnmál?" |
12.2.2009 | 21:28
Smá pólitík, loðna, gæludýrafóður, lifur, Godthaab og róður
Enn er ekki komið á hreint, hverjir leiða lista Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi, en ég á þó von á því að það fari að skýrast.
Það vakti athygli vinar míns hér í Eyjum, spjall tveggja manna sem spáðu því, að Sjálfstæðs flokkurinn ynni stór sigur í kosningunum í vor. Þetta þótti okkur mjög undarleg spá, því eins og allir landsmenn vita, þá er það Sjálfstæðis flokkurinn sem ber einn mesta ábyrgð á hruni bankanna og því að Íslenska þjóðin sé á barmi gjaldþrots. Annað sem vakti athygli mína úr pólitíkinni í vikunni var grein í Fréttum eftir Samfylkingarmanninn og fyrrum nágranna minn, Róbert Marshall, þar sem Róbert talar um að nú verði að fara að breyta kvótakerfinu, mjög merkilegt, enda Samfylkingin búin að vera í Ríkisstjórn í 2 ár og hvorki heyrst hósti né stuna um kvótakerfið allan þann tíma og greinilegt að sumir eru komnir í bullandi kosningabaráttu.
Það er mikill hugur í Eyjamönnum vegna komandi loðnuvertíðar og vonandi fer að finnast eitthvað meira af loðnu, núna eru hins vegar 30 metrar á Höfðanum og hauga bræla og ekki ólíklegt að loðnan verði komin að minnsta kosti að Eyjum þegar hann lægir, en það á að lægja seinni partinn á morgun. Gulldeplu veiðarnar hafa einnig gengið mjög vel og fékk ég smá sýnishorn í dag og reyndi að nota það til beitu, en þetta er því miður allt of smátt og fíngert, svo sú tilraun gekk ekki.
Það jákvæðasta sem ég sá í vikunni og vakti hvað mesta athygli mína, tengist áhuga mínum á frekari atvinnusköpun. Fyrir það fyrsta, þá hef ég einhvern tímann talað um, að við Íslendingar ættum að hefja framleiðslu á gæludýra fóðri úr afskurði af fiski og kjöti og var því mjög ánægjulegt að rekast á Íslenskt þurrfóður í Hveragerði síðustu helgi og eru kettirnir á heimilinu yfir sig ánægðir og kannski merkilegast, að þetta fóður er þrisvar sinnum ódýrara heldur en þetta innflutta. Afar jákvætt. Einnig vakti athygli mína, frétt af fyrirtæki í Grindavík, sem byrjaði fyrir tveimur árum með þremur starfsmönnum, en núna starfa þar 20 manns. Merkilegt nokkuð við að sjóða niður lifur, svo maður spyr sig, hvað er að gerast með Lifrarsamlag Vestmannaeyja? Enda kom fram í fréttinni, að þetta fyrirtæki hefði ekki undan öllum pöntununum. Ég veit reyndar að stærsta vandamálið hjá Lifró í Eyjum, hefur verið hráefnisskortur vegna þess að útgerðarmenn í Eyjum fást ekki til að hirða lifrina og er það miður.
Mig langar sérstaklega að hrósa þeim í Godthaab fyrir það, að vera sífellt að fjölga þeim afurðum sem þeir selja, ekki veitir af að reyna að selja meira af full unninni vöru, þegar að allar frystigeymslur eru að fyllast af frosnu hálfunnu hráefni og mættu önnur stærri fyrirtæki taka sér þá til fyrirmyndar.
Fór á sjó á þriðjudaginn með 15 bala. Fiskiríið var ágætt eða liðlega 2,5 tonn, en það sem vakti mesta athygli í róðrinum var að meirihlutinn var þorskur, sem er kannski besta vísbendingin um það, að loðnan er á leiðinni.
Meira seinna
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2009 | 16:26
Kjördæmisþing, kosningar, róðrar, síld, kvótaverð og landsþing
Það var góður fundur uppi í Sægreifanum s.l. föstudag, þar sem við í Frjálslynda flokknum í suðurkjördæmi vorum með kjördæmisþing. Mætingin var framar vonum og sérstaklega var ánægjulegt að sjá mörg ný andlit og mjög ánægjulegt að sjá töluvert af ungu fólki að mæta af báðum kynjum. Nýtt kjördæmisráð var kosið og urðu ekki miklar breytingar, en mjög gott að sjá ungar konur koma þar í kjördæmisráð. Við Eyjamenn vorum þó nokkrir á fundinum en buðum okkur ekki fram. Framundan er mikil vinna hjá kjördæmisráði að ákveða, hvort að stillt verði upp á lista eða kosið, nú þegar eru nokkrir búnir að gefa sig fram til að vera í forystusveit flokksins í kjördæminu um kosningarnar í vor, en þetta skýrist vonandi um næstu mánaðamót.
Ótrúlega margir hafa haft samband við mig og skorað á mig að bjóða mig fram á listann, en ég hef ekki tekið neina ákvörðun ennþá, enda annir það miklar þessa dagana að maður sér nú varla fram úr þeim átökum.
S.l. hálfan mánuð er ég búinn að róa eina 10 róðra og fiskað að jafnaði 2 tonn í róðri (var með 2,9 tonn á fimmtudaginn á 13 bala) eða samt. góð 20 tonn, sem að telst nú alveg þokkalegt hér í Eyjum. Ágætur vinur minn sem hefur verið sjómaður í rúm 30 ár, sagðist ekki muna annað eins tíðarfar í janúar síðan 1977. Eina sem ég hef áhyggjur af núna er að sumarið 2005-06 og 07 voru afar hagstæð með miklu hægviðri og hitum, en á móti voru veturnir afar harðir með miklu hvassviðri og stormum, svo nú er spurningin sú, hvort að þetta sé kannski að breytast, en það kemur þá bara í ljós í sumar.
Það hefur verið mikið fjallað um síldina í höfninni hér í Eyjum og eru síðustu fréttir þær, að sést hafi stórhveli inni í Friðarhöfn. Ég get hins vegar staðfest það, að þetta er ekkert að minnka. Það eru komnar 6 vikur síðan að síldin fór að vaða hér inn í höfnina og þegar ég var að landa núna fyrir helgi, kom til mín Magnús Ríkharðsson, skipstjóri á Drangavík, og sagði mér það, að hann hefði ný gengið hringinn inni í Friðarhöfn og tekið eftir því, að það er farið að bregða fyrir ýsu og öðrum góð fiski inni í Friðarhöfn, svo það kemur ekki á óvart þó að hvalurinn láti líka sjá sig, enda mikil veisla í höfninni í Eyjum í dag.
Stærstu áhyggjur útgerðarmanna í dag, eru lækkandi afurðarverð og því miður er nú komið á daginn að varnarorð þingmanna okkar FF um þá ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, að hækka geymslu prósentuna af aflaheimildum milli fiskveiðiára úr 20% í 33% komin fram, því að vegna þessa mikla geymsluréttar þá virðist engu máli skipta, hversu mikið fiskverðið á mörkuðunum lækkar, leigan lækkar ekki í samræmi, og er þessi ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra enn eitt dæmið um það, hvernig sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins síðustu ára láta hagsmuna aðila draga sig á asnaeyrunum og skaða atvinnugreinina, bæði innanlands og erlendis, enda hafa nú þegar fjölmargir leiguliðar lagt bátum sínum og skráð sig atvinnulausa og ég held, að það sé nokkuð augljóst mál að fleiri atvinnulausa er ekki það sem okkur vantar, en svo er aftur stór spurning, hvað núverandi stjórnvöld gera, en það kemur þá bara í ljós.
Nú hefur verið tekin ákvörðun um að landsþing Frjálslynda flokksins verði á Stykkishólmi dagana 13-15 mars. Í sjálfu sér er ekkert við því að gera, en ég hefði nú kannski frekar viljað sjá þetta landsþing á höfuðborgarsvæðinu, en ég tók eftir því á bloggsíðum sumra Frjálslyndra á höfuðborgarsvæðinu að þar er töluverður grátur yfir þeim kostnaði, sem fylgir því fyrir höfuðborgarbúa að fara til Stykkishólms og gista hugsanlega og nokkuð greinilegt að þar er á ferð fólk, sem að virðist ekki alveg skilja það að það kostar jafn mikið að fara frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar og gista þar, að maður tali nú ekki um kostnað okkar eyjamanna við að sækja þessar ráðstefnur, en ég held að fólk á höfuðborgarsvæðinu mætti kannski stundum taka svolítið tillit til okkar á landsbyggðinni.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.2.2009 | 15:34
Af framboðum til Alþingis
Ný ríkisstjórn er að fæðast í dag og óska ég henni alls góðs, þó svo að ég hafi nú ekki mikla trú á neinum stór afrekum á þessum stutta tíma fram að kosningum.
Framsóknarmenn fara mikinn þessa dagana og vilja meina það að það hafi orðið stórkostleg endurnýjun í forystu flokksins, en mér er hins vegar sagt að á bak við nýja formann flokksins, standi enginn annar en Finnur Ingólfsson, sem lengi hefur verið ráðandi afl innan flokksins, svo ekki er ég mjög bjartsýnn á að þarna verði einhverjar raunverulegar breytingar, t.d. hefur flokkurinn ekki ennþá minnst á kvótakerfið og er þar með að gera nákvæmlega það sama og hann hefur alltaf gert þ.e.a.s. haga seglum eftir vindi.
Sjálfstæðisflokkurinn er að detta úr ríkisstjórn í fyrsta skiptið í 18 ár og ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það var orðið löngu tímabært, vandamálið er kannski það, að ekki lýst mér nú alveg á þá sem taka við, en það kemur þá bara í ljós. Hér í Vestmannaeyjum eru íhaldsmenn komnir á fleygi ferð við að skora á hvern annan í framboð og t.d. er bæjarstjórinn okkar að skoða sinn gang. Það kemur mér hins vegar ekkert á óvart, því að ég spáði því fyrir tveimur árum síðan, einnig hefur þingmannsdraumurinn, að mínu mati, háð honum illilega í starfi fyrir Vestamanneyinga, enda hefur hann verið helsti stuðningsmaður þeirrar samgönguáætlunar sem að hentar ríkisstjórninni. Það er svolítið merkilegt að horfa líka á það gríðar mikla starf sem íhaldsmenn vinna allan ársins hring hér í Eyjum, t.d. eru um jól og áramót gefin út tvö blöð. Stofnar, þar sem í eru myndir af þeim börnum sem fæðast á árinu og Fylkir, þar sem í eru myndir af þeim Eyjamönnum sem látist hafa á árinu. Á milli þessara tveggja blaða er hægt að telja upp ýmislegt t.d. grímuböll, grillveislur, allskonar félagsskapur, úteyjaferðir, tuðruferðir og sfr. og sfr. og endar svo þetta með því að öllum á elliheimilinu er boðið í kaffi og með því, svo það má svo sannarlega segja það að íhaldsmenn hugsi um fólkið, það væri óskandi að þeir gerðu jafn vel í því að hugsa um byggðirnar, auðlindirnar sem og framtíðina, því að allt þetta starf er að sjálfsögðu unnið fyrir flokkinn.
Samfylking og Vinstri grænir eru komnir í ríkisstjórn og fer nú léttur hrollur um margan íhaldsmanninn. Að mínu mati er nánast enginn munur á Samfylkingu og Framsóknarflokki. Báðir þessir flokkar hafa fyrst og fremst hagað seglum eftir vindi, nema í einu undantekningatilliti, þ.e.a.s. þessi furðulegi áhugi Samfylkingarmanna á inngöngu i ESB og nokkuð ljóst, í mínum huga alla vega, að Samfylkingin er tilbúin að fara þar inn þó að það kosti okkur einhverjar hlutdeildir í auðlindum okkar. Merkilegast er þó að sjá Vinstri græna beygja sig í þessa átt, reyndar hefur mér alltaf fundist Vinstri grænir vera svo mikill öfgaflokkur og stundum velt því fyrir mér, hvort að draumur Vinstri grænna sé sá að allir Íslendingar sameinist um að fara út á tún og bíta gras, því að þannig erum við að sjálfsögðu öll jöfn, en mér segir svo hugur að Vinstri grænir muni ekki stoppa lengi í ríkisstjórn, enda ekki vanir að vinna í meirihluta.
Af mínum flokki, Frjálslynda flokknum, er það að segja að ekki erum við nú að skora hátt í skoðanakönnunum, en það höfum við reyndar aldrei gert. Framundan eru kjördæmisþing og svo landsþing og alveg ljóst, að innan flokksins eru háværar raddir sem vilja breytingar í forystu flokksins. Ég hef fyrir mitt leyti sagt það, að ef fólk er óánægt og vill breytingar, þá á það einfaldlega að bjóða sig fram og því fleiri því betra, en hvort að einhverjar breytingar verði og/eða hvort að þær verði til góðs fyrir flokkinn get ég ekki metið, en það kemur þá bara í ljós. Frjálslyndi flokkurinn er enn sem komið, kannski því miður, eini flokkurinn sem vill takast á við núverandi kvótakerfi og ég held að fólk ætti að gera sér grein fyrir því, svo ég vitni nú í ekki ómerkari mann en prófessor Þorvald Gylfason, að kvótakerfið var byrjunin á hruni fjármálageirans og enginn flokkur annar en Frjálslyndi flokkurinn boðar, enn sem komið er, neinar breytingar á kvótakerfinu.
Meira seinna.
29.1.2009 | 21:58
Fór á sjó í morgun og ÍBV
Fór á sjó í morgun, í fjórða skiptið í þessari viku, enn er höfnin full af síld og mikil veisla í gangi hjá fuglinum. Í gær sá ég m.a. sel í höfninni, veðrið í dag var afar fallegt og það lang besta í langan tíma. Aflinn var góður 2,2 tonn á 12 bala. Þorskurinn er farinn að aukast í aflanum, en hlutfallið sleppur ennþá, fékk m.a. tvo hafála í dag og eina 30 kg lúðu, sem ég rétt náði að kraka í áður en hún losnaði af króknum. Það er kannski lýsandi fyrir tíðarfarið í vetur, að miðað við veðurspána þá verður sennilega veður á morgun og er þetta þá sennilega fyrsta heila vikan í janúar, sem ég get róið í mörg ár. Reyndar var veðrið ekkert spennandi hvorki í gær eða fyrradag, en maður lét sig hafa það. Ég er farinn að fylgjast svolítið mikið með belging.is, enda veðurspáin þar yfirleitt mjög nákvæm, eini gallinn er þó sá, þessi síða ræður ekki við austanáttir, spáði t.d. lægjandi ítrekað í gærdag en aldrei lægði. Vonandi verður þetta gott á morgun en hann á að hvessa seinni partinn.
Ég mætti á fund uppi í Týsheimili s.l. laugardag. Þar var komið mikið fjölmenni, enda mikil íþróttahefð í eyjum. Það er alveg ljóst að íþróttahreyfingin er þegar farin að finna fyrir kreppunni, enda nokkrir sterkir styrktaraðilar í gegnum árin búnir að tilkynna, að það komi ekki styrkur í ár. Margt annað hefði verið hægt að segja um þennan fund, en mig langar þó að nefna eitt atriði sérstaklega og það er hugmyndir sumra sem eru og tengja sig fyrst og fremst við fótboltann, um að leggja hugsanlega niður aðrar deildir innan ÍBV til þess að fá meiri fjármuni í fótboltann. Þó að ég sé nú mikill stuðningsmaður fótboltans í eyjum, þá er ég þessu algjörlega ósammála, enda þurfum við á fjölbreytninni að halda. Íþróttastarfið á að snúast um börnin okkar fyrst og fremst, þó ég neyti því ekki að það er alltaf ánægjulegt þegar okkar efstu flokkar ná árangri, en aðal atriðið er þetta, eins og ég hef sagt áður: Íþróttir eru það besta fyrir börnin okkar til að kenna þeim að takast á við framtíðina, bæði líkamlega og andlega. Ekki veitir af eins og staðan er í dag.
Meira seinna.
26.1.2009 | 22:09
Kosningar, róður, síld og hrafninn flýgur
Ég er ánægður með það að það verður kosið í vor, vonandi verður næsta ríkisstjórn betri heldur en sú, sem er farin frá og ekki væri verra að sjá helstu stefnumál Frjálslynda flokksins ná fram í næstu ríkisstjórn. Framundan er stutt og snörp kosningabarátta, þar sem við i FF vonumst eftir dyggum stuðningi, enda vita það allir að flokkurinn ber enga ábyrgð á fjármálakreppunni og hefur ítrekað bent á margvíslegar leiðir til þess að auka tekjur þjóðarinnar, t.d. með breytingum á kvótakerfinu. Framundan er uppstilling á listum, en mig langar að benda fólki, sem hefur áhuga á að vera með, að enn er möguleiki á því.
Ég er búinn að róa þrisvar s.l. viku, með samt. 40 bjóð, aflabrögð hafa verið ágæt, eða samt. 6 tonn í þremur róðrum, mest ýsa. Einnig er farið að bera töluvert á þorski í aflanum og eru komin þessi fínu hrogn í allan þorsk.
Það hefur vakið töluverða athygli síldin í höfninni og þegar ég var að fara á sjó í gær, þá sá ég að það hefur ekkert minnkað og eru stórar torfur allt í kring um eyjarnar. Ég viðraði þá hugmynd fyrir nokkru síðan við yfirmenn FES, hvort að ekki væri möguleiki hreinlega að dæla síldinni bara upp úr höfninni, bræða hana og gera þannig pening úr þessu, en það er víst ekki hægt, vegna þessa fáránlega kvótakerfis, því að þó að þessi síld sé öll að dauða komin í höfninni, þá þarf samt kvóta fyrir henni.
Eitt af því sem hefur vakið athygli náttúru unnenda mest að undanförnu í eyjum, er gríðarleg fjölgun hrafna og náði einn maður að telja yfir 40 hrafna í eyjum fyrir stuttu síðan. Sjálfur taldi ég 35 stykki fyrir nokkru síðan, margir hafa áhyggjur af því hvaða áhrif fjölgun hrafnsins komi til með að hafa í sumar á svartfuglastofnana t.d er alþekkt að lundinn forðar sér langt út á haf þegar að krumminn lætur sjá sig og stór spurning, hvort að ekki þurfi að fara að grisja þennan stofn, en mér skilst reyndar að hrafninn sé friðaður.
Meira seinna.
24.1.2009 | 21:25
Frjálslyndir hafna inngöngu í ESB og boða til miðstjórnarfundar
Miðstjórnarfundur Frjálslynda flokksins samþykkti nú fyrir stundu að landsþing flokksins verði haldið dagana 13. 14. og 15. mars. Miðstjórn hafði áður falið framkvæmdastjórn flokksins að ákveða fundarstað.
Nú stendur yfir miðstjórnarfundur Frjálslynda flokksins. Á fundinum var kynnt niðurstaða úr skoðanakönnun sem gerð var meðal flokksmanna. Niðurstöður eru þær að við spurningunni hvort Ísland ætti að leita eftir aðild að ESB:
Já, svöruðu 34,8%
Nei, svöruðu 51,6%
Óákveðnir eru 9,5%
Einn seðill var ógildur eða 0,5%