20.1.2009 | 17:20
Af mótmælum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.1.2009 | 20:44
Fundur Frjálslyndra, Eyjafréttir, heilbrigðisþjónustan, góð bók og róður
Fundur var haldin í fyrrakvöld í Eyjum með Grétari Mar Jónssyni, alþingismanni og Kolbrúnu Stefánsdóttir, ritara Frjálslynda flokksins. Fundurinn var góður en fámennur og því miður virðist fólk hér ennþá vera í sama ástandi og fyrir bankakreppuna, þ.e.a.s. sofandi og áhugalaust um framtíð sína. Fyrr um daginn hinsvegar, fórum ég og Grétar í kaffi á nokkrum stöðum og áttum víða góðar og áhugaverðar umræður um alls konar mál. Á fundinn kom m.a. maður frá Eyjafréttum í Vestmannaeyjum, sem að ég veit ekki til þess að hafi gert eitthvað af því að skrifa fréttir yfirleitt, en hefur hins vegar tekið mikið af myndum í Vestmannaeyjum. Inni á Eyjafréttum er nú komin grein um fundinn eftir þennan "fréttamann" sem að ég er ekki alls kostar sáttur við og tek hér sem dæmi úr fyrirsögn greinarinnar: "Grétar Mar vill ekki að fjárframlög til flokkana frá ríkinu verði skorin niður." Þetta er í sjálfu sér nokkuð augljóst, því að hvernig væri pólitískt umhverfi okkar, ef aðeins þeir sem hefðu peningalega bakhjarla gætu boðið fram. Það vakti hins vegar athygli mína að "fréttamaðurinn" hafðu furðulega mikinn áhuga á þessu máli og var að reyna að tengja saman fjárframlög til flokkana við niðurskurð til heilbrigðisþjónustuna. Þetta þótti mér hálf furðulegt, enda er verið að tala um niðurskurð í heilbrigðisgeiranum upp á nokkra milljarða, á meðan að framlög til flokkana er kannski á annað hundrað milljónir (veit reyndar ekki rétta tölu).
Önnur fyrirsögn fréttamannsins er svona:" Grétar Mar vill banna allan útflutning á fiski í gámum" en svo kemur aftur alveg neðst í greininni:" Grétar viðurkennir reyndar að hann hafi verið hlynntur gámaútflutningi." Staðreyndir er hins vegar þessi: Grétar Mar er að opna á þann möguleika að hugsanlega verði sett lög, sem banna gámaútflutning tímabundið til þess að auka atvinnuna í fiskvinnslum landsins. Annað sem að vakt athygli mína og kom ekki fram í grein fréttamannsins, er að Grétar vill að bæði verði aukið meiri við þorskkvótann heldur en nú hefur verið gert og auk þess að þegar verði aukið við síldarkvótann um ca. 50-100 þús. tonn, síldveiðiflotanum beitt sérstaklega á þau svæði þar sem mest er af sýktri síld og hún veidd til bræðslu. Þetta myndi að sjálfsögðu vera góð búbót fyrir landið okkar, ekki veitir af.
Fundurinn var eins og áður segir mjög góður og Grétar Mar kom mér skemmtilega á óvart í umræðum við eldri borgara um lífeyrissjóðsmál, þar sem hann var greinilega búinn að kafa svo rækilega ofan í þau málefni, að það vakti furðu mína, því ég skildi nú ekki sjálfur helminginn af þessu. Kolbrún Stefánsdóttir stóð sig einnig mjög vel, en mér þótti dapurt að enginn fatlaður skyldi láta sjá sig, því hún er framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, landssamband fatlaðra.
Það mál sem vekur mesta athygli í eyjum þessa dagana er hugsanlegur niðurskurður á heilbrigðisþjónustunni og ég verð að segja alveg eins og er, að það vakti furðu mína yfirlýsingar bæjarstjórans, um að það mætti ekki skera niður þjónustuna, vegna þess að það tæki okkur 4 klukkutíma að komast upp á Selfoss, svo spurningin er þessi:" Þegar og ef þessi Bakkafjara kemst einhvern tímann í gagnið, verða þá ekki rök heilbrigðisráðherra þau, að það taki okkur aðeins 11/2 til 2 tíma að komast upp á Selfoss?" Ótrúlegt hvernig þetta er allt saman að stefna, því miður, nákvæmlega í þá átt sem ég spáði fyrir rúmum tveimur árum síðan.
Mig langar að benda áhugasömum bókaunnendum á bók sem ég er að lesa þessa dagana: Annasamir dagar og ögurstund, endurminningar Stefáns Runólfssonar. Það sem vekur hvað mesta athygli mína við þessa bók er, að Stefán með alla sína áratuga reynslu á fiskvinnslu í Eyjum, sem og margs konar aðkomu að t.d. byggingu Herjólfs á sínum tíma, talar um kvótakerfið sem tóma vitleysu og Bakkafjöru sem tímaeyðslu, því að það eina sem Eyjamenn vanti, er stærri og gangmeiri Herjólfur.
Fór á sjó í gær kl. 10 um morguninn með aðeins 8 bjóð, enda tíðin mjög erfið þessa dagana, fiskiríið var ca. 800 kg., en til að enda þetta á jákvæðum nótum, þá tók ég eftir því að þegar ég var að keyra frá Friðarhöfninni í áttina að smábátahöfninni eftir löndun, að klukkan var orðin 17:30 og það var enn ekki orðið svarta myrkur og brá bláum bjarma yfir eyjuna, þannig að daginn er tekið að lengja, vonandi fer líka bráðum að birta upp í öðrum málum, því eins og stundum er sagt:" Einhvern tímann styttir upp."
Meira seinna.
13.1.2009 | 18:22
Fundur með Frjálslyndum
Frjálslyndir funda í Vestmannaeyjum
Kolbrún Stefánsdóttir ritari Frjálslynda flokksins og Grétar Mar Jónsson alþingismaður Frjálslynda flokksins efna til fundar með Eyjamönnum og konum, n.k. fimmtudag, 15. janúar. Fundurinn verður haldinn á Café Kró, Tangagötu 7 og hefst kl. 20:00. Á dagskrá eru m.a: Samgöngur, fiskveiðistjórnun, hafrannsóknir og velferðarmál.
Fólk er hvatt til að mæta fá sér kaffisopa og heyra hvað Frjálslyndi flokkurinn er að aðhafast.Fjölmiðlar allavega ríkisfjölmiðlar hafa leitt flokkinn algerlega hjá sér.Núna gefst Vestmannaeyingum tækifæri til að spyrja þingmanninn og ritarann um það sem því liggur þyngst á hjarta:Sérstaklega eru öryrkjar og aldraðir og þeir sem minna mega sýn í þjóðfélaginu bent á að koma og hlusta á hvað þau 2 hafa fram að færa
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2009 | 20:34
Þrettándinn, Huginn, Völvan og smá pólitík
Þrettándagleðin var vel heppnuð eins og ætíð og alltaf jafn gaman að þessu, en eitthvað eru nú skiptar skoðanir um það, hversu gott það er að færa gleðina til helgar, en í sjálfu sér finnst mér það í raun og veru ekki skipta miklu máli svo framar sem að allir sem mæta skemmti sér vel.
Það er mikill hugur í Hugins mönnum og mér er sagt að það gangi bara alveg ljómandi veiðarnar á gulldeplu og að þeir eru nú þegar komnir með 300 tonn af þessum fiski. Það er stundum talað um að þessar fáu tegundir sem ennþá eru utan kvóta sem gull sjómanna.
Ég hef ekki róið síðan á mánudag, en það er búið að vera nóg að gera í beitningunni og í sjálfu sér má segja að nýja árið byrji bara á rólegu nótunum. Eitt vakti þó athygli mína í síðustu viku. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að lesa þessar svokölluðu Völvuspár fyrir árið, en þar sem frúin les þetta allt saman, þá lendir maður í því að fylgjast aðeins með, en mér finnst þetta oft óttaleg vitleysa að stórum hluta til, en skoðaði þetta svona aðeins til þess að reyna að sjá, úr hvaða flokki þetta fólk kemur sem skrifar þetta. Í bæjarblöðunum okkar voru t.d. tvær Völvuspár. Í Vaktinni var að mínu mati ekki hægt að lesa hvar höfundur stæði í flokki, það var hins vegar nokkuð greinilegt í Frétta Völvunni, enda íhaldið dásamað í bak og fyrir, á meðan aðrir flokkar voru nánast hafðir að háði og spotti m.a. var þingmaður frjálslyndra í suðurkjördæmi uppnefndur í greininni, sem sýnir kannski hversu merkilegur pappír skrifar þessa vitleysu. Eftir að hafa hins vegar velt þessu fyrir mér í smá stund, þá rifjaðist upp fyrir mér sambærileg Völvuspá í Fréttum í janúar 2002. Bæjarstjórnarkosningar voru þá um vorið og spáði Fréttavölvan því, að ungur og upprennandi íhaldsmaður kæmi fram þá um vorið, tæki baráttusætið (4. sæti) og tryggði íhaldsmönnum glæsilegan sigur. Þetta gekk nú ekki eftir, enda held ég að íhaldsmönnum svíði það ennþá að hafa verið rasskelltir af bakaranum þarna um vorið og sumir vilja reyndar meina að íhaldsmenn séu ennþá að hefna sín fyrir þessar ófarir.Hver veit nema eins fara með þessa völvuspá núna og þá eldri ? Þeir geta þó verið sáttir, því þessi ungi maður er núverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og hafði alveg örugglega bara gott af tapinu 2002. Það má hins vegar alveg segja sem svo að bakarinn hafi nú ekki alveg staðið undir væntingum sinna manna og fengum við frjálslyndir oft að heyra frá stóru flokkunum í bæjarstjórnarkosningunum 2006 þessa setningu: "Ekki annan bakara" og ekki spurning að afrek bakarans sköðuðu framboð okkar verulega. Mér finnst hins vegar umhugsunarvert að bera saman í dag, afrek núverandi meirihluta og þeirra meirihluta sem sátu á síðasta kjörtímabili og t.d. tel ég alveg öruggt að á síðasta kjörtímabili hefðu eyjamenn fengið að kjósa um Bakkafjöru, sem og önnur mál sem skipta okkur máli til lengri tíma en eins kjörtímabils. Núverandi meirihluti hins vegar hundsar allar skoðanakannanir sem og áskoranir í krafti meirihlutans. Við sjáum þetta líka hjá Ríkisstjórninni, sem gerir að því er virðist allt til að halda völdum, meira að segja íhaldsmenn sem hingað til hafa verið eindregið á móti allri umræðu um inngöngu í ESB, eru núna búnir að opna á það mál, en mig langar að lokum að benda á ágæta grein bæjarstjórans okkar, Elliða Vignissonar, inni á eyjamiðlunum, þar sem að hann segir sína skoðun á ESB, það var mikið að við Elliði vorum loksins sammála um eitthvað.
Meira seinna.
7.1.2009 | 20:17
Heilbrigðis-samgöngu-Bakkafjöru-Kvótinn - róður
Það gengur mikið á í heilbrigðisþjónustunni þessa dagana og förum við Eyjamenn ekki varhluta af því. Ýmsar sögusagnir eru á kreiki, en þetta ætti nú að skýrast í þessum mánuði, kannski má segja að ágætur ættingi minn hafi orðað það rétt í gær, þegar hann sagði:"Er ætlunin að við búum hérna áfram, eða hvað?" Ég hins vegar fékk ágæta innsýn inn í þessi mál, sem og önnur í spjalli við starfsmann heilbrigðisþjónustuna í gær. Þar kom ma. fram að á hverju ári koma allskonar tillögur og hugmyndir frá heilbrigðisráðuneytinu um allskonar niðurskurð og hagræðingu, en svo er það bara stjórnenda að reyna að hagræða án þess að skaða stofnunina, ma. eru uppi hugmyndir um að loka skurðstofunni í Vestmannaeyjum um skemmri eða lengri tíma. Það er nokkuð ljóst að slíkt hefði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það sem mér þótti hins vegar merkilegast við þetta samtal við þennan starfsmann, sem bað um að vera nafnlaus, er skoðun viðkomandi á Bakkafjöru, sem er þessi: "Ég bjó um nokkurra ára skeið hérna hinu megin í fjörunni og ég er alveg viss um það, að eftir fyrsta austan rokið sem stendur í kannski einn og hálfan til tvo sólarhringa, þá verður þessi höfn og allt sem henni fylgir, horfið." Einnig sagði viðkomandi mér sína skoðun á því, hvers vegna og hver hefði tekið ákvörðun um að farið yrði í byggingu Landeyjarhafnar og hún var svona: "Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur ekkert með þessa ákvörðun að gera, heldur er hún aðeins að hlýða þeim sem ráða í raun og veru, þ.a.e.s. ríkisstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tók fyrir löngu síðan ákvörðun um að farið yrði í byggingu hafnar í Bakkafjöru, til þess að geta hagrætt í rekstri ríkisins í Vestmannaeyjum, t.d. yrði sjúkrahúsið lagt niður, verulega fækkað á lögreglustöðinni, skattstjórinn fluttur upp á land osfr. osfr." Lítið dæmi tók viðkomandi fram um hagræðingu í heilbrigðisþjónustu norður í landi, samfara bættum samgöngum. "Eftir að verulegar vegabætur höfðu átt sér stað á milli Húsavíkur og Akureyrar, notaði heilbrigðisráðherra tækifærið, lagði af heilbrigðisþjónustu á Húsavík, með þeim rökum að það væri svo auðvelt að komast þarna á milli, svo núna verða Húsvíkingar að sækja nánast alla sína þjónustu til Akureyrar." Þetta þótti mér nokkuð merkilegt og þó að ég vilji nú ekki taka alveg svona djúpt í árinni, þá er ég sjálfur ekki í vafa um það, að ef þessi höfn verður nothæf, þá verður fækkað ríkisstarfsmönnum í Vestmannaeyjum, það er alveg augljóst.
Bara lítið dæmi um afleiðingar af því þegar það tekur dálítinn tíma að komast í heilbrigðisþjónustu eða aðgerð ef út í það er farið. Fyrir um 8 árum síðan lenti mágkona mín í Fuglafirði, Færeyjum, í því að maðurinn hennar fékk blóðtappa. Ekkert sjúkrahús er í Fuglafirði og sjúkrabíllinn tafðist á leiðinni, sem varð til þess að hann lést, en það tók sjúkrabílinn um þrjú korter að keyra frá Þórshöfn til Fuglafjarðar. Það segir sig sjálft að það að búa á eyju úti ballarhafi, gefur augaleið að hér er algjörlega nauðsynlegt að hafa allt við höndina, annað verður hreinlega ekki samþykkt.
Ég sagði frá því einhvern tímann í haust, að sögusagnir væru komnar af stað um það, að nú þegar væri búið að taka ákvörðun um að auka við þorskkvótann. Þess vegna rak mig í roga stans þegar ég heyrði í sjávarútvegsráðherra, þar sem hann neitaði því, að slík ákvörðun hefði verið tekin. Ég ákvað þess vegna að kanna máið lítillega og mér er sagt að staðan sé þessi: Fyrir jól hafði verið tekin sú ákvörðun að auka þorskkvótann, ekki er komin endanleg tala, en talað er um 20-30 þús. tonn. Málið er hins vegar fast í sjávarútvegsnefnd vegna þess, að fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni vill að viðbótin verði tekin út úr núverandi kvótakerfi og boðin upp á opnum markaði, svo það er engin furða þó að margir séu á þeirri skoðun, að núverandi ríkisstjórn sé löngu sprungin, en það verður afar forvitnilegt að sjá hvernig þetta mál endar, enda eiga Eyjamenn töluverðra hagsmuna að gæta þarna.
Fór á sjó í fyrradag með 16 bala, enda veðurspáin mjög góð, enda gerði afar fallegt veður þegar leið á morguninn. Afli var ágætur eða 2,1 tonn, þar af tæp 1600 ýsa, 300 kg þorsk og ljóst að þorskurinn er farinn að skríða. Ég prófaði að rista á eina hrygnuna og fékk þetta fína hrogn í matinn. Fékk líka 3 lúður og einn hafál, stærsta lúðan viktaði 16 kg og seldist á hvorki meira né minna en 1268 kr. kg. á markaðnum. Góð búbót það.
Meira seinna
3.1.2009 | 20:34
Árið gert upp, seinni hluti
Töluverð umfjöllun var á blogginu mínu sl. vor og sumar um lundann og kannski skiljanlega, enda er lundinn gríðarlega mikilvægur fyrir Eyjamenn og allir hafa skoðun á því, hvort eigi að veiða hann eða ekki. Nýliðunin (pysjurnar) olli miklum vonbrigðum, en ef við tölum um að eitthvað hafi verið jákvætt við hana, þá voru veiðarnar í sumar sjálfbærar. Í dag veit enginn hvort lundinn verður veiddur í sumar. Það eina sem er þó vitað er að þessir svokölluðu rannsóknaraðilar munu að öllum líkindum mæla gegn veiði, en það nýjasta sem ég hef heyrt frá veiðimönnum, bæði á heimalandinu og úr eyjunum er, að fleiri eru komnir á þá skoðun að rétt sé að veiða, ef útlitið verður gott í sumar. Þessu er ég sammála, hins vegar ef útlitið verður mjög slæmt þá tel ég ekki verjandi að lundi verði veiddur í sumar, en það kemur allt í ljós þegar vorar.
Íþróttir hafa stundum læðst inn á bloggið hjá mér og ekki laust við það, að það hafi örlað á smá grobbi yfir góðum árangri ÍBV í sumar, bæði það að karlaliðið er komið í úrvalsdeild aftur, annar flokkur ÍBV kvenna Íslandsmeistari og við aftur komnir með 1. deildarlið í kvennaboltanum. Árangurinn í handboltanum hefði hins vegar mátt vera betri, en það er svolítið merkilegt samt að skoða það, að á svipuðum tíma og við vorum að fara niður með fótboltaliðin, þá voru handboltaliðin að toppa, en núna þegar fótboltaliðin eru að toppa, þá er handboltinn í mikilli lægð. Kannski eru þetta fylgifiskar þess að búa í litlu bæjarfélagi. Ég óska knattspyrnudeildinni til hamingju með samþykktina í bæjarstjórn um að hér verði byggt stækkanlegt knattspyrnuhús, en það hvarflar svolítið að mér hvernig þessi meirihluti í bæjarstjórn stóð að því, að bakka út úr öllum loforðum til knattspyrnuhreyfingarinnar fyrir kosningar 2006 í von um að fá atkvæði fólks, sem er á móti byggingu þessa húss, og fengu þau, en hafa síðan algjörlega snúið blaðinu í dag. Þetta heitir víst pólitík.
Sjómennskan og kvóti hefur oft verið nefnt á blogginu hjá mér og um leið sést vel á rekstri trilluútgerðar hvernig veðurfarið var. Fiskveiðiárið 2007/8 hjá mér var mjög erfitt, enda veðrið sl. vetur afar erfitt og sýnist mér að ég hafi svona rétt náð í ca. 100 tonnin á fiskveiðiárinu. Haustið, hins vegar, hefur verið yfir meðallagi og í raun og veru besta haust hjá mér af síðustu þremur og sýnist mér ég vera farinn að nálgast 60 tonn núna um áramótin og sem dæmi um að þótt sjólagið hafi oft verið erfitt, þá réri ég bæði 20 og 21 des. sem og 28, 29 og 30 des. meðal afli í þessum róðrum var um 1200 kg.
Margt jákvætt gerðist sl. ár í sjávarútvegi t.d. er nú hægt að hringja og panta sér fisk heim eftir þörfum, sennilega var sett met í makrílveiðum á síðasta ári. Dapurlegast var sennilega þessi sýking í síldinni, sem við vitum ekki enn hversu slæm áhrif kemur til með að hafa á stofninn til framtíðar. Síðustu helgi lét ég vita af mikilli síld inni í Vestmannaeyjahöfn og get staðfest það, að ég keyrði út úr höfninni í morgun, snéri reyndar við út af veðri, en enn er þessi síld út um alla höfn og virðist ekkert hafa hreyft sig síðan ég sá hana fyrst um síðustu helgi.
Ég óska Vinnslustöðvarmönnum og Magnúsi Ríkharðssyni til hamingju með vel heppnaðar breytingar á skipinu, Drangavík VE. Einnig óska ég Verðanda mönnum til hamingju með 70 ára afmælið og glæsilegt blað sem þeir gáfu út í tilefni af afmælinu (sé m.a. að afi minn, Júlíus Sigurðsson frá Skjaldbreið, var formaður þar um nokkurra ára skeið). Einnig var haldin heljarinnar veisla uppi í Höll, en dapurlegast þótti mér að sjá, að sumar stærstu útgerðarinnar sendu bátana sína á sjó, þannig að ekki gátu allir félagsmenn í Verðanda tekið þátt í gleðinni og kannski má segja sem svo, að þar sannist það sem ég hef stundum sagt, að sjávarútvegur snúist ekki lengur um veiðar á fiski, eða fólkið, eða byggðina, heldur fyrst og fremst um peninga og græðgi. En svona er þetta bara.
Ég hef lítillega fjallað um kvótakerfið, þrátt fyrir að það sé fyrst og fremst minn flokkur, Frjálslyndi flokkurinn, sem sé í dag eini flokkurinn sem vill í raun og veru takast á við þau vandamál, sem eru greinileg í núverandi kvótakerfi og nokkuð ljóst, að ef að mönnum t.d. dettur í hug að ganga í ESB, þá er í mínum huga alveg ljóst, að það gerum við ekki með óbreytt kerfi. Töluverð umræða hefur verið um skuldir sjávarútvegsins eftir hrun bankanna og eftir að gengið féll svona rosalega. Enginn útgerðarmaður virðist hafa áhuga á því í dag, að ræða skuldir sjávarútvegsins og er það í sjálfu sér ósköp eðlilegt, þegar maður skoðar málið ofan í kjölinn, t.d. kemur fram inni á vefsíðu sf.is eða samtök fiskiðnaðarins, að skuldir sjávarútvegsins sl. vor hafi verið um 385 milljarðar. Þessar tölur hljóta að vera réttar og þar sem skuldirnar eru að mestu leiti í erlendum gjaldeyrum og gengið fallið um ca. 150%, þá er staðan ekkert mjög glæsileg og vel skiljanlegt að menn vilja ekki ræða hana. Við getum bara vonað að gengið gangi að einhverju leiti til baka, en kannski má segja sem svo, að skoðanir þeirra sem eru skráðir fyrir aflaheimildunum í dag, komi best fram í orðum trillukarls fyrir nokkru síðan sem orðaði þetta svona við mig:" Eitt af því síðasta sem ég ætla að gera áður en ég hætti í útgerð, er að selja hvert einasta kíló sem ég á og það hæstbjóðanda, hvaðan sem hann kemur." Sem betur fer höfum við Eyjamenn borðið gæfu til að halda að mestu leyti okkar aflaheimildum, en það er nokkuð ljóst að miðað við þær hræringar og breytingar sem fram undan eru, þá er algjörlega nauðsynlegt að menn fari að skoða aðrar leiðir. Bara svo það sé alveg á hreinu, núverandi kvótakerfi var ekki sett á til þess, að það væri hægt að veðsetja það langt umfram verðmæti aflaheimildanna og þetta kerfi var heldur ekki sett á, til þess að tryggja það, að veiðiheimildir í þorski yrðu í sögulegu lágmarki, en nóg um það í bili.
Síðustu mánuði hef ég skrifað lítillega um einelti og er það tilkomið vegna þessarar fáránlegu bókar Sigurgeirs Jónssonar, sem hann kallar Viðurnefni í Vestmannaeyjum, en ég hef kallað Uppnefni í Vestmannaeyjum. Ég ætla ekki að fjalla nánar um þessa bók, en enda umfjöllun mína um hana með orðum höfundar, sem ég sé í annál Frétta í Vestmannaeyjum," bókin er mjög umdeild ".
Að lokum langar mig að þakka öllum þeim fjölmörgu, sem hafa skrifað athugasemdir hjá mér sl. ár og ekki síður þeim fjölmörgu sem hafa komið að máli við mig og hafa því oft haft töluverð áhrif á það, um hvað og hvernig ég hef skrifað, en bara svo að það sé alveg á hreinu, þá enda ég þessa grein eins og svo oft áður með: Meira seinna.
2.1.2009 | 19:05
Árið gert upp, fyrri hluti, samgöngumál
Óska öllum Eyjamönnum sem og landsmönnum gleðilegs nýs árs og farsældar og þökk fyrir það gamla.
Samgöngumálin eru þau mál sem ég hef hvað mest skrifað um á síðasta ári og má því segja að árið hafi endað á sama hátt og það byrjaði; með umræðu um samgöngumál. Ég held að það sé óhætt að segja, að staðan hafi aldrei verið verri heldur en hún er í dag þ.e.a.s. ef við tökum mið frá því, þegar reglulegar ferðir hófust til Þorlákshafnar. Nýjustu hörmungarfregnirnar sem mér hafa verið sagðar er þær, að við komuna til Færeyja í haust hafi "varaskipið" okkar St. Ole, lent í það alvarlegum vélarbilunum að ákveðið hafi verið að úrelda skipið og selja það í brotajárn. Þetta eru að sjálfsögðu afleitar fréttir fyrir okkur og er í raun og veru bara viðbót á hörmungarstöðu okkar í samgöngumálum.
Í nýjasta hefti Siglingastofnunnar, sem mér barst rétt fyrir jól er þessi fyrirsögn: Landeyjahöfn verður til. Þar kemur ma. fram, að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand á Íslandi, þá muni framkvæmdir í Bakkafjöruhöfn halda áfram og þær kláraðar. Hins vegar kemur líka fram, að tveir kostir hafa verið ræddir varðandi ferju að vegna þess að Ríkisstjórn hafi ákveðið að fresta ferjukaupum, þá er staðan þessi:" Annars vegar að nota gamla Herjólf eða hinsvegar að leigja tímabundið ferju sem hentar aðstæðum betur en hann. Til að minnka frátafir verður ferðaáætlun mögulega breytt þannig að skipið sigli um sumartímann í Landeyjahöfn, en að vetrarlagi í Þorlákshöfn þegar tíðafar er rysjóttara." Þetta er í samræmi við óskir bæjarstjórnarinnar um að Bakkafjara hafi forgang og þetta þykir mér alveg furðulegt, því að ég held að flestir geri sér grein fyrir því í dag, að okkur vantar ekki aðra höfn okkur vantar nýja ferju.
Nokkur umfjöllun var á blogginu hjá mér um Bakkafjöru rétt fyrir jól og langar mig að leiðrétta þar eitt atriði. Ég hélt því fram í athugasemd að að jafnaði væri fiskur seldur á mörkuðum uppi á landi á ca. 30% hærra verði heldur en á markaðinum hér í eyjum. Hafði Kári á markaðinum samband við mig og var óhress með þetta og sagði mér að verðmunurinn á þessu ári væri ekki nema 17%, en viðurkenndi um leið í samtali okkar, að bilið hefði minnkað eftir að Herjólfur fór að fara tvær ferðir á dag. Þetta hins vegar gerir það að verkum að það hlýtur að vera nokkuð ljóst, að þó að ferðum kæmi hugsanlega til með að fjölga með Landeyjahöfn, þá mun alltaf að öllum líkindum verða hærra verð uppi á landi og eða eins og ég hef stundum orðað það:" Útgerðarmenn munu landa í Landeyjahöfn, verði boðið upp á það, vegna þess að þá fæst meira fyrir fiskinn.
Ég hafði velt því fyrir mér að taka saman stuttan annál um helstu umræðuefnin á þessari síðu minni sl. ár, en vegna tímaskorts þá ætla ég að kalla þetta fyrri hlutann, enda samgöngumálin okkur mikilvægust. Það sem vakti einn mesta athygli mín á árinu og ég hef ekki skrifað um áður, er furðuleg umræða um Bakkafjöru sem ég varð vitni að á Bæjarstjórnarfundi seinni partinn í juni, þar sem bæjarfulltrúar beggja lista, lýstu yfir áhyggjum að þeim möguleika að það gæti hugsanlega risið löndunarhöfn í Bakka, sem myndi þá keppa við höfnina í Eyjum. Þó nokkrir bæjarfulltrúar úr báðum flokkum tjáðu sig um málið og m.a. var þeirri hugmynd velt upp, að senda spurningarlista á Samgönguráðherra um málið, en fulltrúar beggja flokka lýstu því ítrekað yfir, að slíkt hefði ekkert að segja, því eins og reynslan hefur kennt okkur, þá hafa loforð ráðherra oft ansi lítið að segja þegar uppi er staðið og þegar til lengri tíma er litið. Það furðulegasta samt við þennan fund, er að samt ákvað bæjarstjórnin að senda slíkan lista og var spurningarlistinn og svörin birt í Fréttum í ágúst sl. Þetta hljómar svolítið eins og sýndarmennska af verstu gerð.
Að lokum þetta: Það er svolítið merkilegt að fylgjast með þeim átökum sem eru í sambærilegum málum í Færeyjum. Eins og flestir vita þá gengur Smyril milli Þórshafnar og Suðureyjar, en er með skráða heimahöfn í Suðurey. Fyrir nokkru síðan ákváðu Suðureyingar að neita að borga hafnargjöld skipsins, sem varð til þess að Landsstjórnin hefur ákveðið að setja á dagssektir á hvern bæjarfulltrúa í heimahöfn Smyrils. Maður veltir því upp fyrir sér, hvort ekki sé farinn að vera kominn tími á það að bæjarstjórn Vestmannaeyja fari nú að hysja upp um sig brækurnar og gera eitthvað í samgöngumálum okkar. Ég veit reyndar að íhaldsmenn eiga svolítið erfitt, enda þekktir fyrir að taka engar ákvarðanir aðrar en þær sem búið er að samþykkja af þeim, sem eru hærra settir í flokknum. Dapurlegast er þó að fylgjast með þeim V-listamönnum, sem virðast hafa andast fljótlega eftir síðustu kosningar og kannski gott dæmi um það er, að ég lenti á spjalli við mann í síðustu viku, sem hafði ekki hugmynd um, hverjir sætu í bæjarstjórn fyrir V-listann. En nóg um það.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2008 | 22:58
Í tilefni af áramótunum ætla ég að bjóða upp á gestabloggara
Árið sem nú kveður hefur verið mjög rysjótt þegar á heildina er litið fyrir alla landsmenn. Mörg heimili sjá fram á gjaldþrot, þar sem eignir vinnandi fólks brenna upp í óðaverðbólgu og gjaldmiðils, sem virðist hafa lent í gini ljónsins, sem enga ábyrgð tekur á sínum gjörðum og heldur áfram að éta af beinunum. Árið framundan verður mjög erfitt hjá mjög mörgum, því ekkert var hugað að áætlun B. Aðgerðir stjórnvalda fumkenndar og hálfgerður bútasaumur. Ráðalaus, huglaus skipshöfn hefur aldrei fiskað.
Því miður er nú komið í ljós að áætlun B. er ekki til staðar og ekkert að henni hugað í samgöngumálum okkar eyjabúa. Eyjamenn eru nú uggandi um bættar samgöngur sem mikið hafa verið í umræðunni á sl. ári.
Ég var að lesa hugleiðingu sýslumanns Eyjanna, Karl Gauta og tek undir margt sem þar kemur fram, en mátti ekki sjá þetta fyrir, Karl? Það er ekki framtíðarsýn að öll eggin séu sett í sömu körfu. Þeir sem nú telja samgöngumál Eyjanna komin á byrjunarreit, hefðu átt að taka undir með okkur sem töldum og teljum enn, að áherslan á nýrra og hraðskreiðara skip ætti að skipa fyrsta sætið, hvað svo sem Bakkafjöruævintýrinu líði.. Núverandi og fyrrverandi bæjarstjórn Ve. fá ekki háa einkunn fyrir sauðsgang og andvaraleysi í þessu stóra - hagsmunamáli Eyjanna. Ekkert gengur né rekur í atvinnumálum okkar heldur.
Þessi orð voru viðhöfð:
"Þess vegna var sú ákvörðun tekin af Ríkisstjórninni að tillögu Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, að horfið yrði frá áformum um jarðgöng til Vestmannaeyja. Þess vegna eru frekari rannsóknir á þessu stigi málsins óþarfar og vond meðferð á fjármunum almennings. Það kann vel að ver að ráðist verð í jarðagangagerð til Vestmannaeyja á næstu áratugum. En það er ljóst í dag að slík áform eru ekki inni í langtíma áætlunum Ríkisstjórnar Íslands næstu 12 árin. Þangað til verða Eyjamenn að fá lausn sinna samgöngumála, það þolir enga bið eins og allir vita. Þess vegna er gott að samgönguráðherra náði að höggva á þann hnút, sem komin var á viðræður Vegagerðar og Eimskips varðandi fjölgun ferða næstu 3 árin. Og þess vegna er það lífs nauðsynlegt fyrir Eyjamenn að sameinast um það að fá góða höfn í Bakkafjöru, öflugan og traustan Herjólf sem getur siglt á milli eyja og Bakkafjöru 5-6 sinnum á dag fyrir lægra fargjald en nú er. Þessi stórkostlega samgöngubót getur orðið að veruleika að 3 árum liðnum, en til þess að svo verði, verða Eyjamenn að þekkja sína skjaldarliti og standa sameinaðir um þann kost sem er raunhæfur og til heilla.
Höfn í Bakkafjöru mun hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu í Eyjum og þar með styðja við vöxt ferðaþjónustu í Rangárþingi og nágrenni og uppsveitum Árnessýslu. Nýbreytni í atvinnulífi mun aukast. Fasteignaverð í Eyjum mun hækka, möguleiki brottfluttra Eyjamanna til tvöfalda búsetu stóreykst og líkur eru til þess að mannfjöldaþróun færist nær því sem er á nágrannasvæðum og að hægja muni á margs ára fólksfækkun. Í skýrslu stýrihóps um Bakkafjöru sem byggð er á fjölmörgum rannsóknarskýrslum er megin niðurstaðan sú að gerð ferjuhafnar sé vel möguleg og færð eru fyrir því ítarleg rök."
(Ég hvet því fólk til þess að hlusta ekki á dómsdagsspámenn á borð við Grétar Mar Jónsson, sem segir slíka höfn hættulega en færir engin rök fyrir því önnur en að hann hafi verið á sjó)
Hvað er að frétta frá þeim aðila sem þetta skrifaði? Hann er aðstoðarmaður samgönguráðherra.
Ég óska ykkur öllum festu og bjartsýni, sem árið 2009 býður okkur upp á, ef við svo framarlega komum okkur upp úr gömlum hjólförum. Treystum á okkur sjálf, og verum óhrædd við að hafa skoðanir. Eigið gott ár framundan.
Hanna Birna Jóhannsdóttir
Varaþingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.
22.12.2008 | 20:46
Alþingismaður, Herjólfur, róður, uppnefni og Georg Eiður
Ég ætla að byrja þessa grein á að þakka vini mínum, Grétari Mar Jónssyni alþingismanni, fyrir að taka upp málefni okkar eyjamanna á Alþingi í dag, þar sem hann benti á það alvarlega ástand sem er komið í samgöngumálum okkar eyjamanna m.a. að Bakkaflug hefði verið lagt af í bili og að Herjólfur væri farinn að bila reglulega og orðið nauðsynlegt að fara að athuga með nýtt skip. Á hann þakkir skilið fyrir þetta, en mér þótti dapurlegt að horfa á það, að enginn annar þingmaður, hvorki í suðurkjördæmi né annarstaðar, sá ástæðu til að taka undir þetta með Grétari.
Fór tvisvar á sjó um helgina í afar erfiðu tíðarfari t.d. lenti ég í éli í fyrri róðrinum, sem stóð í 3 1/2 klukkutíma, svo að maður var orðinn ansi blásinn eftir það, en fiskiríið í róðrunum var ágætt, eða ca. 2,4 tonn á 20 bala, mest ýsa.
Ég hef velt því fyrir mér nokkuð lengi að skrifa meira um þessa umdeildu bók Sigurgeirs, sem hann kallar viðurnefni í Vestmannaeyjum, en ég hef kallað uppnefni í Vestmannaeyjum. M.a. hef ég verið að skoða allar þær nafngiftir sem ég hef fengið s.l. 30 ár. Margir hafa rætt við mig um þessa bók og undantekningalaust verið sammála um það, að þessi bók sé hreinn viðbjóður. Einn af viðmælendum mínum sagði við mig m.a. fyrir nokkru síðan, að hann væri ánægður með það, að þessi bók væri fyrst og fremst til sölu hér í eyjum, en ég verð því miður að leiðrétta það, því eftir að hafa kannað málið, þá er þessi umdeilda bók til sölu í öllum helstu bókabúðum um allt land, þannig að allir landsmenn geta sem sé farið í næstu bókabúð og fengið þessa bók þar og lesið um það, hvað eyjamenn leggja á vana sinn að kalla hvorn annan og mér segir svo hugur, að hróður okkar muni ekki aukast við þann lestur.
Ég hef hins vegar ákveðið að skrifa ekki meira um þessa bók né heldur um mín uppnefni. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að í vikunni heyrði ég áhugavert viðtal á Bylgjunni við Valgeir Skagfjörð hjá Regnbogabörnum, þar sem umræðan var einelti. Ég ákvað að hringja í Valgeir og átti við hann áhugavert samtal, þar sem m.a. kom fram, að Sigurgeir hafði sent honum bókina og Valgeir lesið hana. Dómur Valgeirs á bókinni var sá, að eftir svona fyrstu 3-4 blaðsíðurnar þá hefði hann glott út í annað, en eftir að hafa lesið alla bókina, þá sagði hann að hún væri hreinn viðbjóður. Sérstaklega þótti honum slæmt að sjá, hversu mörg uppnefni tengd konum voru klámfengin. Ég sagði Valgeiri frá þeirri hugmynd minni að skrifa um mín uppnefni, bæði til þess að útskýra fyrir mönnum eins og Sigurgeiri, hversu slæmar þessar nafngiftir geta verið og líka til þess, að svara fullt af fólki sem hefur verið að koma til mín síðustu mánuði og segja við mig:" Finnst þér ekki frábært að vera kallaður þetta eða hitt." og verður oft stein hissa þegar ég neita því og ég verð eiginlega að viðurkenna alveg eins og er, að ég held að ég hafi aldrei nokkurn tímann heyrt uppnefni um mig, sem ég er sáttur við, frekar en svo margir aðrir. Valgeir bað mig um að skrifa ekki slíka grein, því í fyrsta lagi þá væri skaðinn skeður, bókin væri komin út og svo hitt, að þó að ég hefði kannski það þykkan skráp að geta fjallað um mín uppnefni opinberlega, þá væri það svo sannarlega ekki með alla, því eins og ég hef sagt áður, aðgát skal höfð í nærveru sálar og slík grein gæti haft slæm áhrif á fólk sem er viðkvæmt fyrir. Svo nóg um það, en þar sem ég hafði nú velt þessu fyrir mér í töluverðan tíma, þá langar mig nú að setja hér í þessi skrif mín endirinn á mínni grein , ef ég hefði skrifað greinina. Mér fannst ég nefnilega ekki getað skrifað um uppnefni öðruvísi en að hafa endirinn þannig, að hvað ef ég hefði eitthvað um það að segja, vildi ég vera kallaður. Þetta var hreint ótrúlega erfitt enda hef ég aldrei velt þessum málum fyrir mér í neinni alvöru fyrr en núna í haust, en svona fyrir ykkur sem takið þessi mál alvarlega, þá var ég á sínum tíma skýrður Georg Eiður. Georg eftir virðulegum eldri manni í Reykjanesbæ, sem ég hef afar mikið álit á og hef bara gaman af, þegar hann kallar mig nafna sinn. Eiður var það nafn sem móðir mín valdi á mig og kemur úr móðurætt hennar og eftir að hafa kannað málið lítillega, þá sýnist mér að á Íslandi sé enginn annar maður sem heitir þessum tveimur nöfnum. En svo það sé alveg á hreinu, mér er nánast alveg sama hver kallar mig hvað, en ef þú vilt að ég komi fram við þig eins og ég vill að þú komir fram við mig, þá heiti ég Georg Eiður og er Arnarson.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.12.2008 | 15:23
Herjólfur, róður, fundur og Eyjabúð
Það er hálf ótrúlegt að horfa upp á allt þetta sem er að gerast með Herjólf. Stöðugt bilar meira og meira um borð og þetta nýjasta, sem skeði á laugardaginn. Ekki bara að það bilaði önnur vélin og það þurfti að fá viðgerðarmenn um borð til að vinna að viðgerðinni á ferð, heldur bilaði líka hin vélin og á tímabili var Herjólfur á reki úti fyrir suðurströnd Íslands, einhverri hættulegustu siglingaleið við Ísland. Þetta er allt saman hálf ótrúlegt og fær merkilega litla umfjöllun í landsblöðunum, fyrir utan það að enn heyrist lítið í þessum svokölluðu þingmönnum eyjamanna. Ég hef hins vegar haft samband við þingmann minn, Grétar Mar Jónsson, sett hann inn í málið og skora á aðra eyjamenn, hvar sem í flokki þeir standa, að ræða við sína þingmenn. Þetta er ekki boðlegt lengur og legg ég því til, að þeir fjármunir sem þegar er búið að setja til hliðar vegna Bakkafjöru, henni verði frestað og smíði á nýju skipi hafin strax. Eða að minnsta kosti leit að betra skipi.
Fór á sjó kl. 16 á laugardaginn, var búinn að landa kl. 2 um nóttina, en fór aftur af stað til að nýta blíðuna kl. 4 um nóttina. Fór því samtals með 22 bjóð, fiskiríið var gott, eða liðlega 3 tonn í heildina, mest ýsa.
Þar síðasta sunnudag mætti ég á ágætan fund, sem Árni Johnsen stóð fyrir. Fundurinn var svo sem ágætur og mæting góð, en aðal umræðuefnið var atvinnumál, staðan og útlitið framundan. Það sem vakti einna mesta athygli hjá mér, var sú að ekki var mikill barlómur í útgerðarmönnum, þrátt fyrir að alveg sé ljóst að gengi krónunnar hafi haft veruleg áhrif á skuldir fyrirtækjanna. Flestir voru þó á jákvæðum nótum, en dapurlegast þótti mér þó að heyra einn útgerðarmanninn lýsa því yfir, að hér væri engin kreppa, þetta væri allt saman bara kjaftæði og það á sama tíma og þúsundir manna eru að missa vinnuna, heimili sín og margir fullorðnir jafnvel ævisparnað sinn. En það er nú svo. Elliði bæjarstjóri var eins og vanalega á því að hér væri bara gull og grænir skógar og í fyrsta skipti í mörg ár væri fjölgun í Vestmannaeyjum. Ég er aljgörlega sammála því, en vandinn er hins vegar sá, að vandamálið er það (eins og Elliði hefur sjálfur minnst á einhverntímann) að hér vantar fyrst og fremst fleiri störf. Því miður er hér enga atvinnu að hafa. Annað sem Elliði minntist á og ég hef kallað eftir hér á blogginu, en ekki fengið svar áður, er hvernig staðan er á hitaveitupeningum okkar 3,6 milljörðum. Ekki fékkst reyndar upp, hvernig staðan væri í dag, en Elliði upplýsti þó það, að aðeins hefði verið tekið af þeim fjármunum til að greiða niður skuldir bæjarfélagsins. Það er hins vegar nokkuð ljóst, að staðan í fjármálum bæjarins væri að sjálfsögðu afar erfið, eftir langvarandi eyðslu fyllerí íhaldsmanna síðustu áratugi, ef ekki hefði komið til sala á þessum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja. Gallinn er hins vegar sá, að hér eftir höfum við ekkert um það að segja, þegar gjaldskráin hækkar hjá Hitaveitu Suðurnesja.
Eyjabúð lokaði á föstudaginn eftir að hafa starfað í 55 ár. Mér þótti það mjög dapurt, enda verslað þarna frá því áður en ég byrjaði í útgerð. Mig langar að þakka Friðfinni og fjölskyldu hans fyrir lipurðina og spjallið síðustu áratugi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að margir eigi eftir að sakna þessarar verslunnar, en kannski má líka taka undir með orðum eigandans, um að verslunin hafi verið orðin svolítið gamaldags, en mér fannst Eyjabúð altaf vera gömul en góð og kem til með að sakna hennar mikið. En kannski er þetta hluti af hagræðingunni, þar sem persónuleg þjónusta víkur fyrir einhvers konar vél- eða rafvæðingu.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2008 kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)