27.2.2022 | 21:22
Verbúðin
Þættirnir Verbúðin vöktu mikla athygli í vetur, ekki hvað síst hjá okkur sem vorum ung á þeim tíma og upplifðum stemninguna.
Sjálfur byrjaði ég einmitt á sjó á togara 1985/86 og upplifði ýmislegt þar, sem hagsmunaaðilar í sjávarútveginum í dag vilja sem minnst tala um og upplifði ég þar á meðal gríðarlegt brottkast, eitthvað sem gerði það að verkum að ég hef verið á móti kvótakerfinu frá þeim tíma.
Ekki batnaði það þegar maður var farinn að vinna í frystihúsi. Man m.a. eftir því á meðan einhver netaútgerð var af einhverju viti hér í Eyjum ennþá, þá var stundum raðað þorski í eitt hornið í kælinum og ufsa í næsta horn en í miðjuna var settur ufsinn af bátunum sem voru búnir með þorskkvótann.
Einnig var ég vitni af því, þegar þekktur togaraskipstjóri hér í bæ var "látinn fara" þegar hann kom með allt of smáan fisk í land.
En margt hefur nú breyst frá þessum tíma, sumt til betri vegar en allt of margt, eins og t.d. kvótakerfið sjálft, til mun verri vegar, en nóg um það.
En já, verbúðartíminn. Þarna kynntist maður mörgum skemmtilegum karakterum og já, það var oft mikið fjör á verbúðunum og oft miklu skemmtilegra heldur en að fara á skemmtistað.
Frank og Hafsteinn
Við vorum að vinna saman í flatningu m.a. í móttökunni ég og skólabróðir minn, Hlynur Stefáns, þetta hefur verið 80/81 og lentum við þar m.a. í því að vinna með mjög sérstökum karakterum, Frank og Hafsteini. Frank var svona 2 metrar á hæð og með alveg ægilegar skögultennur, beint upp í loftið sem gerði það að verkum að menn voru fljótir að byrja að kalla hann Frankenstein, en Frank þoldi ekki nafnið og var duglegur at taka í lurginn á okkur strákunum þegar við kölluðum hann þetta, en Hlynur hafði voðalega gaman af því að stríða honum og eitt skiptið elti Frank Hlyn alveg inn á innsta salerni við kaffistofuna hjá okkur.
Hlynur fór inn og læsti að sér, en Frank, sem var nú alveg ákveðin í því að nú yrði tekið í strákinn, náði sér í stól og sat við dyrnar. Það sem hann sá hins vegar ekki, er að það var loftop á milli salernanna, þannig að Hlynur fór bara upp á og skreið yfir eftir loftopinu og niður hinum megin, kom svo fram í sal og við héldum áfram að vinna. Eftir nokkra stund kom verkstjórinn og spurði hvar Frank væri? Við vísuðum honum að sjálfsögðu inn á klósett og fórum á eftir honum og þar sat Frank ennþá og bankaði létt á dyrnar, og síðasta setning sem við heyrðum var "Farðu nú að koma fram, Hlynur minn, ég ætla bara að rassskella þig smá" Varð hann ansi skömmustulegur þegar hann sá að Hlynur hafði leikið á hann.
En ef Frank var svolítið sérstakur, þá var Hafsteinn eiginlega hálfgerður furðufugl. Eftir að hann fékk útborgað í fyrsta skipti fór hann og keypti sér forláta Polaroid myndavél og fór að mynda í gríð og erg út um allt og var oft að sýna okkur myndir sem voru eiginlega af engu, en einn daginn kom hann rosalega laumulegur til okkar og sagði "Nú er ég sko með flottar myndir til að sýna ykkur" en það tók okkur smá stund að fatta það, að allar myndirnar voru af jafnaldranum.
Þegar leið á vertíðina, þá vildi enginn vera með þeim félögum í herbergi á verbúðunum, þannig að þeir enduðu saman í herbergi og í vertíðarlok fóru þeir saman frá Eyjum.
En já, sögurnar af verbúðunum voru oft margar ansi skrautlegar og margar hreinlega ekki birtingarhæfar.
Ein vakti þó mikla athygli, en þannig var það eina vertíðina að ein áhöfn af netabát var saman í herbergi. Nokkru eftir að vertíðin byrjaði eignaðist einn í herberginu kærustu, sem mig minnir að hafi verið dönsk, en einn daginn þá fór báturinn ekki á sjó og skýringin var gefin sú, að það hefði komið upp lekandi í herberginu og ekki bara hjá kærastanum, heldur hjá öllum í áhöfninni, svo eitthvað hefur gengið á í herberginu.
En já, maður átti sjálfur margar skemmtilega helgina á verbúðunum og kom þó nokkrum sinnum fyrir að maður gisti, þó svo að maður ætti heima hér i bæ.
Að lokum þetta, vonandi kemur framhald af þessum Verbúðar þáttum, þó svo að nokkuð sé orðið síðan að verbúðum, hér a.m.k. var lokað, þá er ansi mikið eftir í sögunni varðandi kvótakerfið og alla spillinguna sem fylgir því og mun fylgja því áfram á meðan það lifir.
Góðu fréttirnar eru þó þær að kvótakerfið verður ekki eilíft og enginn vafi í mínum huga um það að því verði breytt fyrr eða síðar.
8.1.2022 | 21:15
2021 gert upp
Það er svolítið erfitt að vera bjartsýnn um þetta leytið, þegar allt er á kafi í Covid og hver stormurinn á fætur öðrum gengur yfir landið, en fyrir mér er þetta svolítið einfalt. Ég hef oft verið spurður að því í gegnum árin, hvort ég sé ekki svekktur þegar ég kem í land úr lélegum róðri, en ég hef alltaf svarað því þannig að svo sé ekki vegna þess að það gerir stóru róðrana og þegar betur gengur bara svo miklu skemmtilegra. Klárlega munum við sjá betri tíð með hækkandi sól og einhvern tímann hljótum við að losna við þetta Covid.
Pólitíkin
Já, ég fór í framboð fyrir Flokk fólksins og var í raun og veru alls ekki langt frá því að vera kominn á nýjan vinnustað á hinu háa Alþingi íslendinga og það hefði jú bara verið gaman, en að öðru leyti fóru kosningarnar að mestu leyti eins og ég bjóst við gagnvart mér og mínum flokki, en ég neyta því ekki að það voru töluverð vonbrigði að meirihlutinn skyldi lifa áfram.
Lundinn
Enn eitt árið fengum við mikið af bæjarpysju og útlitið framundan því ótrúlega gott. Ég fór ásamt nokkrum félögum mínum til Grímseyjar 7unda árið í röð og áttum þar virkilega skemmtilega helgi og vonandi kemst maður þangað aftur síðar.
Útgerðin
Já, ég seldi trilluna mína í vor undum manni úr Þorlákshöfn, sem reyndar kom aftur hingað í haust, en ég hafði lofað honum að kenna honum á línuveiðar og fórum við nokkrar ferðir, en núna bíður hann bara eftir veðri til að komast með bátinn aftur heim til sín og er ég því enn og aftur hættur í útgerð, en trillukarl verð ég samt alltaf, hvort sem ég á bát eða ekki.
Kvótinn
Fyrir tæpu ári síðan og svo aftur þegar ég seldi bátinn í vor, fjallaði ég í nokkrum greinum um kvótakerfið og þá sérstaklega hversu skelfilega illa hafði tekist til, sem átti að vera lykilatriðið með þetta kvótakerfi þ.e.a.s. að byggja upp fiskistofnana og einnig, hvernig margar aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum og áratugum hafa gert útgerð sífellt erfiðari og erfiðari fyrir einstaklinga og minni útgerðir. Það er ljóst að kvótakerfi, sem gengur út á það að aflaheimildum sé úthlutað í kílóum og tonnum hefur einfaldlega það margar brotalamir að kvótakerfið mun augljóslega aldrei skila okkur þeirri aukningu sem lofað var.
Einnig hefur komið í ljós að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við land tækifæranna leyfði fyrir nokkrum árum síðan stækkun smábáta upp að 15 metrum, með þeim afleiðingum að flestar stærri útgerðir á landinu hafa nú fjárfest í slíkum bátum og hafi síðan um leið hafið stórfelld uppkaup á aflaheimildum smábáta með þeim afleiðingum að smábátum sem róa á ársgrundvelli fækkar stöðugt, en í dag eru þessir nýju smábátar oftast kallaðir þrælakisturnar enda er þeim róið í sumum tilvikum jafnvel stífar en stærstu togurum.
Hrunið
Að undanförnu hef ég lesið töluvert af greinum eftir hina ýmsu verkaliðaleiðtoga, sem og eftir þingmann okkar í Flokki fólksins í suðurkjördæmi, þar sem varað er við því að hér séu að myndast aðstæður og voru rétt fyrir hrun 2008 þ.e.a.s. hlutabréf seljast eins og heitar lummur á sífellt hækkandi verðum. Bankarnir eru smekk fullir af peningum, sem reyndar okkur almenningi stendur ekki til boða nema á einhverjum okur vöxtum, en mig langar aðeins að bæta við þetta.
Í aðdragandanum að hruninu 2008 seldust aflaheimildir á verðum sem menn höfðu aldrei séð áður og voru t.d. 2 síðustu sölurnar rétt fyrir hrun á tæpar 4 milljónir tonnið. Í vor var krókaþorskur seldur á 2,2 milljónir tonnið og eftir niðurskurð á aflaheimildum í þorski, þá hefði maður nú haldið að verðið myndi nú lækka líka, en svo er nú aldeilis ekki. Efir að ljóst varð að hér yrði óbreytt ríkisstjórn hafa aflaheimildir rokið upp í verðum og miðað við nýjustu fréttir, þá er varanlegur þorskkvóti í dag kominn vel á fjórðu milljón og auk þess, þá hafa uppkaupin hjá þeim stóru á krókaaflaheimildum gert það að verkum að kvótaleiga á bæði þorski og ýsu í dag er 330 kr kg og enn er þetta þannig, að þeir sem leigja frá sér borga engin leigugjöld.
Árið hjá mér var annars bara ágætt, komst m.a. loksins vestur á firði og náði að keyra djúpið og alla þá vegi sem þar er hægt að fara og það er nú þannig að á landinu okkar að það er endalaust hægt að finna eitthvað fallegt til að skoða.
Framhaldið
Eins og ég kem inn á í upphafi greinarinnar, þá er ég þokkalega bjartsýnn á árið, þó svo að sannarlega séu blikur á lofti. Það verður ofboðslega spennandi að sjá öll úrvalsdeildarlið ÍBV í efstu deild í sumar (vonandi hætta menn þessu bulli um að setja gervigras á Hásteinsvöll) og ef heilsan leyfir ætla ég svo sannarlega að kíkja í egg í vor og vonandi aðeins í lunda seinna í sumar, tel mjög líklegt líka að ég eigi amk eftir að fara með stöngina út á sjó, en framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, vonandi verður árið betra og skemmtilegra heldur en þessi síðustu 2 ár.
Óska öllum gleðilegs árs.
31.12.2021 | 15:26
Gæludýraeigandinn ég
.....er eins og undanfarin ár svolítið uggandi yfir látunum í flugeldunum kringum áramótin, en í sjálfu sér væri þetta ekkert mál ef þetta væri bara þessi hvellur á áramótunum og svo rest á þrettándanum, en því miður þá virðist þetta standa alveg upp undir mánuð frá því að sala á flugeldum hefst strax eftir jól sem er öllu verra fyrir okkur sem erum gæludýraeigendur og t.d. geltir hundurinn minn í hvert skipti sem hann heyrir í sprengju, sem getur verið ansi leiðinlegt til lengdar þegar þetta er jafnvel á hverri einustu nóttu lungann úr janúar og svo sannarlega vildi ég óska þess að þetta væri ekki svona, en að sjálfsögðu er ég búinn að kaupa hjá björgunarfélaginu okkar og ætla að sprengja á miðnætti í kvöld, en það sem við gerum stundum strax eftir skaupið er að fara með gæludýrin okkar niður í herbergi niðri í kjallaranum og spila þar róandi tónlist á góðum styrk og eitthvert okkar situr hjá þeim, en það dugar ekki alltaf til og eftir því sem gæludýraeigendum hér í Eyjum fjölgar, og þeim hefur fjölgað mikið, þá heyrir maður þetta víða og set þessa grein fram ekki sem gagnrýni, heldur fyrst og fremst sem skoðun um það, hvernig ég hefði viljað hafa þetta ef það væri hægt þ.e.a.s. að sprengja villt og galið um áramótin og á þrettándanum og gefa okkur gæludýraeigendum frið þess á milli.
Annað sem mig langar að koma á framfæri varðandi gæludýrin okkar er þetta algjöra aðstöðuleysi í Herjólfi. Sem dæmi um það, þá lést lítil kisa í bíl í Herjólfi núna í desember, en eigandanum hafði verið meinað um að fá að sitja hjá kisunni og maður spyr sig hvort ekki væri möguleiki á því að gera aðstöðu um borð fyrir gæludýraeigendur, en þar er engin aðstaða eins og er, hvorki fyrir gæludýrin né eigendur þeirra og ég beini þessari fyrirspurn til þeirra sem sitja í stjórn Herjólfs ohf sem og framkvæmdastjóra með von um skjót viðbrögð.
Óska öllum gæludýraeigendum og öllum öðrum árs og friðar.
21.12.2021 | 21:38
Fátæktarskömmin
3.10.2021 | 21:42
Lundasumarið 2021
Ekkert lundaball í ár frekar en á síðasta ári og kosningarnar að baki og því rétt að gera sumarið upp eins og venjulega.
Fyrst langar mig að hrósa öllum þeim fjölmörgu aðilum, sem hafa verið að mynda í fjöllunum bæði lunda sem og landslagsmyndir og má þar m.a. nefna Stebba í Gerði, Adda í London, Jóa Myndó, Helga Tórs, Tóa, Halldór Halldórs og fleiri og fleiri. Kærar þakkir allir fyrir frábærar myndir og ég hvet ykkur eindregið, sem og alla aðra, til þess að halda þessu áfram, enda algjör forréttindi að búa á svona fallegum stað og hér í Eyjum þar sem myndefnið er endalaust.
Það eru einmitt þessi forréttindi sem að mínu mati gera það að verkum að margir lundaveiðimenn, eins og ég, hafa látið lundaveiðar í Eyjum alveg eiga sig, eins og í mínu tilviki síðustu 13 árin og þar með látið lundann njóta vafans og svo sannarlega erum við að uppskera og alveg ótrúlega skemmtilegt að fá fréttir af fyrstu pysju í Vestmannaeyjum fyrir Þjóðhátíð. Eitthvað sem ég man ekki hversu langt er síðan gerðist.
Í pysjueftirlitinu voru aðeins skráðar tæplega 5000 pysjur, en ég held að það sé enn minna að marka þessar tölur í ár heldur en undanfarin ár, einfaldlega vegna þess að pysjan var svo ofboðslega vel gerð í ár, sem dæmi þá töldum við einn daginn 120 pysjur í höfninni. Allan daginn voru þær að fljúga fram og aftur og æfa sig og daginn eftir var meirihlutinn horfinn og eina skýringin er sú, að þær einfaldlega flugu í burtu.
Enn eitt árið fór ég ásamt vinum mínum norður til Grímseyjar, þar sem við veiddum vel í soðið og ég held að við munum seint geta full þakkað vinum okkar í Grímsey fyrir, en þetta var 7unda árið í röð sem ég fer til Grímseyjar, sem svo sannarlega er perla norðursins og ég mæli eindregið með því fyrir fólk sem hefur áhuga á að sjá þessa fuglaparadís, sem Grímsey er, að kíkja þangað.
Varðandi framhaldið, þá er ljóst að nú eru komin 6 ár síðan þessi frábæri uppgangur hjá lundanum hófst, sem þýðir að á þessu ári og því næsta munu fyrstu árgangarnir fara að koma inn sem fullþroska lundar, gera sér holu og hefja varp. Útlitið er því ótrúlega gott.
Varðandi veiðarnar í sumar, þá skilst mér að ekki hafi verið mikið veitt hér á heimalandinu, en eitthvað meira í sumum úteyjum, en góðu fréttirnar eru þær að þetta er allt sjálfbært og miðað við magnið sem var hérna í eyjunum og fjöllunum í sumar, þá er nokkuð ljóst að veiðistofn lundans er alveg við það að vera í hámarki og ég myndi telja, að við þyrftum ekki nema kannski ca. 2 ári í viðbót til þess að sjá lundastofninn í Eyjum í svipaðri stöðu eins og þegar hann var mestur. Áhyggjuefnið er hins vegar það, að mjög lítið sést af lunda í júní, sem og í byrjun júlí. Hins vegar var gríðarlegt æti við Eyjar í allt sumar og ef mið er tekið af því, að við séum að fá inn gríðarlega sterkan, vonandi, loðnustofn, þá er útlitið ótrúlega bjart.
Ég er ótrúlega stoltur af því hvernig flest allir veiðimenn hafa staðið sig í því að láta lundann njóta vafans og frábært að fá að upplifa það, að við séum að uppskera loksins.
Til hamingju allir með frábæran árangur við að byggja upp lundastofninn okkar.
27.9.2021 | 12:24
Þakkir og kosningar 2021
Það fyrsta sem kemur í hugann eftir kosningaúrslitin um helgina, er fyrst og fremst þakklæti og auðmýkt vegna alls frábæra stuðnings sem við hjá Flokki fólksins fundum fyrir í kosningabaráttunni út um allt land.
Fyrir mig persónulega, þá fannst mér ótrúlega frábært að sjá stóran hóp af ættingjum mínum í Reykjanesbæ mæta á fund hjá okkur þar og lýsa yfir fullum stuðningi við mig. Hér í Eyjum fékk ég endalaus skilaboð um stuðning og kveðjum, sem yljuðu svo sannarlega.
Við í Flokki fólksins erum svo sannarlega sigurvegarar kosninganna, það að fara úr 2 þingmönnum í 6 er einfaldlega frábært. Svolítið skrýtið reyndar að horfa á það, að í suðurkjördæmi fá Sjálfstæðis og Framsóknarmenn sitthvora 3 þingmenn út á 7000 atkvæði hvor, en við aðeins 1 fyrir tæp 4000 atkvæði, en ekki ætla ég að reyna að útskýra þetta kosningakerfi. En annars frábært að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sé 3. þingmaður suðurkjördæmis.
Varðandi sjálfan mig, þá skil ég vel að margir séu svekktir á því að ég hafi ekki náð inn, enda munaði ekki miklu, en ég bjóst sjálfur aldrei við því,án þess að fara nánar út í það.
Varðandi framhaldið, þá að sjálfsögðu hélt meirihlutinn velli og að sjálfsögðu óska ég þeim til hamingju með það. Ég vildi að sjálfsögðu sjá breytingar, en það verður forvitnilegt að sjá hvort fráfarandi meirihluti lifir áfram, enda augljóst, ef við horfum bara á muninn á þessum flokkum út frá hálendisþjóðgarði, þá er augljóst að það ber mikið á milli, en einhvernvegin virðast hlutirnir samt stundum fara þannig að stefnan lendi stundum milli skips og bryggju þegar stólar eru í boði.
Varðandi hagsmuni smábátasjómanna, þá hef ég verulegar áhyggjur af því, hvað þessi niðurstaða þýði fyrir þá. Einnig er augljóst að með þessari niðurstöðu, þá lýkur draumi trillukarlsins þó svo að trillukarlar eigi nú stuðning í öllum flokkum.
Góðu fréttirnar eru þær að öryrkjar, aldraðir og fátækt fólk á Íslandi stendur mun betur að velli með fjölgun þingmanna Flokks fólksins og það er bara frábært. Baráttan er hins vegar rétt að byrja, en það er klárlega ljós í myrkrinu.
Kærar þakkir allir fyrir þennan frábæra stuðning, þar til næst.
Virðingarfyllst
Georg Eiður Arnarson, varaþingmaður
20.9.2021 | 21:54
Kvótann heim
19.9.2021 | 10:46
virðing
14.9.2021 | 10:31
Hvernig getum við bætt Íslenskan sjávarútveg
11.9.2021 | 20:46