Verbúðin

Þættirnir Verbúðin vöktu mikla athygli í vetur, ekki hvað síst hjá okkur sem vorum ung á þeim tíma og upplifðum stemninguna. 

Sjálfur byrjaði ég einmitt á sjó á togara 1985/86 og upplifði ýmislegt þar, sem hagsmunaaðilar í sjávarútveginum í dag vilja sem minnst tala um og upplifði ég þar á meðal gríðarlegt brottkast, eitthvað sem gerði það að verkum að ég hef verið á móti kvótakerfinu frá þeim tíma. 

Ekki batnaði það þegar maður var farinn að vinna í frystihúsi. Man m.a. eftir því á meðan einhver netaútgerð var af einhverju viti hér í Eyjum ennþá, þá var stundum raðað þorski í eitt hornið í kælinum og ufsa í næsta horn en í miðjuna var settur ufsinn af bátunum sem voru búnir með þorskkvótann.

Einnig var ég vitni af því, þegar þekktur togaraskipstjóri hér í bæ var "látinn fara" þegar hann kom með allt of smáan fisk í land. 

En margt hefur nú breyst frá þessum tíma, sumt til betri vegar en allt of margt, eins og t.d. kvótakerfið sjálft, til mun verri vegar, en nóg um það.

En já, verbúðartíminn. Þarna kynntist maður mörgum skemmtilegum karakterum og já, það var oft mikið fjör á verbúðunum og oft miklu skemmtilegra heldur en að fara á skemmtistað. 

 

Frank og Hafsteinn

Við vorum að vinna saman í flatningu m.a. í móttökunni ég og skólabróðir minn, Hlynur Stefáns, þetta hefur verið 80/81 og lentum við þar m.a. í því að vinna með mjög sérstökum karakterum, Frank og Hafsteini. Frank var svona 2 metrar á hæð og með alveg ægilegar skögultennur, beint upp í loftið sem gerði það að verkum að menn voru fljótir að byrja að kalla hann Frankenstein, en Frank þoldi ekki nafnið og var duglegur at taka í lurginn á okkur strákunum þegar við kölluðum hann þetta, en Hlynur hafði voðalega gaman af því að stríða honum og eitt skiptið elti Frank Hlyn alveg inn á innsta salerni við kaffistofuna hjá okkur.

Hlynur fór inn og læsti að sér, en Frank, sem var nú alveg ákveðin í því að nú yrði tekið í strákinn, náði sér í stól og sat við dyrnar. Það sem hann sá hins vegar ekki, er að það var loftop á milli salernanna, þannig að Hlynur fór bara upp á og skreið yfir eftir loftopinu og niður hinum megin, kom svo fram í sal og við héldum áfram að vinna. Eftir nokkra stund kom verkstjórinn og spurði hvar Frank væri? Við vísuðum honum að sjálfsögðu inn á klósett og fórum á eftir honum og þar sat Frank ennþá og bankaði létt á dyrnar, og síðasta setning sem við heyrðum var "Farðu nú að koma fram, Hlynur minn, ég ætla bara að rassskella þig smá" Varð hann ansi skömmustulegur þegar hann sá að Hlynur hafði leikið á hann. 

En ef Frank var svolítið sérstakur, þá var Hafsteinn eiginlega hálfgerður furðufugl. Eftir að hann fékk útborgað í fyrsta skipti fór hann og keypti sér forláta Polaroid myndavél og fór að mynda í gríð og erg út um allt og var oft að sýna okkur myndir sem voru eiginlega af engu, en einn daginn kom hann rosalega laumulegur til okkar og sagði "Nú er ég sko með flottar myndir til að sýna ykkur" en það tók okkur smá stund að fatta það, að allar myndirnar voru af jafnaldranum.

Þegar leið á vertíðina, þá vildi enginn vera með þeim félögum í herbergi á verbúðunum, þannig að þeir enduðu saman í herbergi og í vertíðarlok fóru þeir saman frá Eyjum. 

En já, sögurnar af verbúðunum voru oft margar ansi skrautlegar og margar hreinlega ekki birtingarhæfar. 

Ein vakti þó mikla athygli, en þannig var það eina vertíðina að ein áhöfn af netabát var saman í herbergi. Nokkru eftir að vertíðin byrjaði eignaðist einn í herberginu kærustu, sem mig minnir að hafi verið dönsk, en einn daginn þá fór báturinn ekki á sjó og skýringin var gefin sú, að það hefði komið upp lekandi í herberginu og ekki bara hjá kærastanum, heldur hjá öllum í áhöfninni, svo eitthvað hefur gengið á í herberginu. 

En já, maður átti sjálfur margar skemmtilega helgina á verbúðunum og kom þó nokkrum sinnum fyrir að maður gisti, þó svo að maður ætti heima hér i bæ.

Að lokum þetta, vonandi kemur framhald af þessum Verbúðar þáttum, þó svo að nokkuð sé orðið síðan að verbúðum, hér a.m.k. var lokað, þá er ansi mikið eftir í sögunni varðandi kvótakerfið og alla spillinguna sem fylgir því og mun fylgja því áfram á meðan það lifir. 

Góðu fréttirnar eru þó þær að kvótakerfið verður ekki eilíft og enginn vafi í mínum huga um það að því verði breytt fyrr eða síðar.

 


2021 gert upp

Það er svolítið erfitt að vera bjartsýnn um þetta leytið, þegar allt er á kafi í Covid og hver stormurinn á fætur öðrum gengur yfir landið, en fyrir mér er þetta svolítið einfalt. Ég hef oft verið spurður að því í gegnum árin, hvort ég sé ekki svekktur þegar ég kem í land úr lélegum róðri, en ég hef alltaf svarað því þannig að svo sé ekki vegna þess að það gerir stóru róðrana og þegar betur gengur bara svo miklu skemmtilegra. Klárlega munum við sjá betri tíð með hækkandi sól og einhvern tímann hljótum við að losna við þetta Covid.

Pólitíkin

Já, ég fór í framboð fyrir Flokk fólksins og var í raun og veru alls ekki langt frá því að vera kominn á nýjan vinnustað á hinu háa Alþingi íslendinga og það hefði jú bara verið gaman, en að öðru leyti fóru kosningarnar að mestu leyti eins og ég bjóst við gagnvart mér og mínum flokki, en ég neyta því ekki að það voru töluverð vonbrigði að meirihlutinn skyldi lifa áfram. 

Lundinn

Enn eitt árið fengum við mikið af bæjarpysju og útlitið framundan því ótrúlega gott. Ég fór ásamt nokkrum félögum mínum til Grímseyjar 7unda árið í röð og áttum þar virkilega skemmtilega helgi og vonandi kemst maður þangað aftur síðar.

Útgerðin

Já, ég seldi trilluna mína í vor undum manni úr Þorlákshöfn, sem reyndar kom aftur hingað í haust, en ég hafði lofað honum að kenna honum á línuveiðar og fórum við nokkrar ferðir, en núna bíður hann bara eftir veðri til að komast með bátinn aftur heim til sín og er ég því enn og aftur hættur í útgerð, en trillukarl verð ég samt alltaf, hvort sem ég á bát eða ekki.

Kvótinn

Fyrir tæpu ári síðan og svo aftur þegar ég seldi bátinn í vor, fjallaði ég í nokkrum greinum um kvótakerfið og þá sérstaklega hversu skelfilega illa hafði tekist til, sem átti að vera lykilatriðið með þetta kvótakerfi þ.e.a.s. að byggja upp fiskistofnana og einnig, hvernig margar aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum og áratugum hafa gert útgerð sífellt erfiðari og erfiðari fyrir einstaklinga og minni útgerðir. Það er ljóst að kvótakerfi, sem gengur út á það að aflaheimildum sé úthlutað í kílóum og tonnum hefur einfaldlega það margar brotalamir að kvótakerfið mun augljóslega aldrei skila okkur þeirri aukningu sem lofað var. 

Einnig hefur komið í ljós að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við land tækifæranna leyfði fyrir nokkrum árum síðan stækkun smábáta upp að 15 metrum, með þeim afleiðingum að flestar stærri útgerðir á landinu hafa nú fjárfest í slíkum bátum og hafi síðan um leið hafið stórfelld uppkaup á aflaheimildum smábáta með þeim afleiðingum að smábátum sem róa á ársgrundvelli fækkar stöðugt, en í dag eru þessir nýju smábátar oftast kallaðir þrælakisturnar enda er þeim róið í sumum tilvikum jafnvel stífar en stærstu togurum.

Hrunið

Að undanförnu hef ég lesið töluvert af greinum eftir hina ýmsu verkaliðaleiðtoga, sem og eftir þingmann okkar í Flokki fólksins í suðurkjördæmi, þar sem varað er við því að hér séu að myndast aðstæður og voru rétt fyrir hrun 2008 þ.e.a.s. hlutabréf seljast eins og heitar lummur á sífellt hækkandi verðum. Bankarnir eru smekk fullir af peningum, sem reyndar okkur almenningi stendur ekki til boða nema á einhverjum okur vöxtum, en mig langar aðeins að bæta við þetta. 

Í aðdragandanum að hruninu 2008 seldust aflaheimildir á verðum sem menn höfðu aldrei séð áður og voru t.d. 2 síðustu sölurnar rétt fyrir hrun á tæpar 4 milljónir tonnið. Í vor var krókaþorskur seldur á 2,2 milljónir tonnið og eftir niðurskurð á aflaheimildum í þorski, þá hefði maður nú haldið að verðið myndi nú lækka líka, en svo er nú aldeilis ekki. Efir að ljóst varð að hér yrði óbreytt ríkisstjórn hafa aflaheimildir rokið upp í verðum og miðað við nýjustu fréttir, þá er varanlegur þorskkvóti í dag kominn vel á fjórðu milljón og auk þess, þá hafa uppkaupin hjá þeim stóru á krókaaflaheimildum gert það að verkum að kvótaleiga á bæði þorski og ýsu í dag er 330 kr kg og enn er þetta þannig, að þeir sem leigja frá sér borga engin leigugjöld.

Árið hjá mér var annars bara ágætt, komst m.a. loksins vestur á firði og náði að keyra djúpið og alla þá vegi sem þar er hægt að fara og það er nú þannig að á landinu okkar að það er endalaust hægt að finna eitthvað fallegt til að skoða.

Framhaldið

Eins og ég kem inn á í upphafi greinarinnar, þá er ég þokkalega bjartsýnn á árið, þó svo að sannarlega séu blikur á lofti. Það verður ofboðslega spennandi að sjá öll úrvalsdeildarlið ÍBV í efstu deild í sumar (vonandi hætta menn þessu bulli um að setja gervigras á Hásteinsvöll) og ef heilsan leyfir ætla ég svo sannarlega að kíkja í egg í vor og vonandi aðeins í lunda seinna í sumar, tel mjög líklegt líka að ég eigi amk eftir að fara með stöngina út á sjó, en framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, vonandi verður árið betra og skemmtilegra heldur en þessi síðustu 2 ár. 

Óska öllum gleðilegs árs.


Gæludýraeigandinn ég

.....er eins og undanfarin ár svolítið uggandi yfir látunum í flugeldunum kringum áramótin, en í sjálfu sér væri þetta ekkert mál ef þetta væri bara þessi hvellur á áramótunum og svo rest á þrettándanum, en því miður þá virðist þetta standa alveg upp undir mánuð frá því að sala á flugeldum hefst strax eftir jól sem er öllu verra fyrir okkur sem erum gæludýraeigendur og t.d. geltir hundurinn minn í hvert skipti sem hann heyrir í sprengju, sem getur verið ansi leiðinlegt til lengdar þegar þetta er jafnvel á hverri einustu nóttu lungann úr janúar og svo sannarlega vildi ég óska þess að þetta væri ekki svona, en að sjálfsögðu er ég búinn að kaupa hjá björgunarfélaginu okkar og ætla að sprengja á miðnætti í kvöld, en það sem við gerum stundum strax eftir skaupið er að fara með gæludýrin okkar niður í herbergi niðri í kjallaranum og spila þar róandi tónlist á góðum styrk og eitthvert okkar situr hjá þeim, en það dugar ekki alltaf til og eftir því sem gæludýraeigendum hér í Eyjum fjölgar, og þeim hefur fjölgað mikið, þá heyrir maður þetta víða og set þessa grein fram ekki sem gagnrýni, heldur fyrst og fremst sem skoðun um það, hvernig ég hefði viljað hafa þetta ef það væri hægt þ.e.a.s. að sprengja villt og galið um áramótin og á þrettándanum og gefa okkur gæludýraeigendum frið þess á milli. 

Annað sem mig langar að koma á framfæri varðandi gæludýrin okkar er þetta algjöra aðstöðuleysi í Herjólfi. Sem dæmi um það, þá lést lítil kisa í bíl í Herjólfi núna í desember, en eigandanum hafði verið meinað um að fá að sitja hjá kisunni og maður spyr sig hvort ekki væri möguleiki á því að gera aðstöðu um borð fyrir gæludýraeigendur, en þar er engin aðstaða eins og er, hvorki fyrir gæludýrin né eigendur þeirra og ég beini þessari fyrirspurn til þeirra sem sitja í stjórn Herjólfs ohf sem og framkvæmdastjóra með von um skjót viðbrögð. 

Óska öllum gæludýraeigendum og öllum öðrum árs og friðar.


Fátæktarskömmin

 Það er því miður staðreynd að þrátt fyrir að við Íslendingar teljumst með ríkari þjóðum heims, er hér gríðarleg fátækt og þá sérstaklega hjá eldra fólki, öryrkjum og ekki hvað síst einstæðingum og einstæðum foreldrum. Þetta þekki ég að hluta til af eigin reynslu. Þegar ég var ungur drengur hér í Eyjum vorum við þrjú systkinin heima hjá mömmu sem var einstæð móðir. Þá gerist það að nokkrum dögum fyrir jól að bankað var að dyrum. Mamma fór til dyra og ég heyrði að það voru einhverjar konur þarna. Stuttu síðar kom ég inn í eldhús þar sem mamma sat á stól og grét hljóðlega. Þegar ég spurði hverju sætti, kom í ljós að félag hér í bæ hefði verið að færa henni peningaupphæð til þess að létta undir hjá henni sem einstæðri móður rétt fyrir jólin. Þó að peningarnir kæmu sér klárlega vel, þá skynjaði ég afskaplega mikla sorg í rödd móður minnar. Það er nefnilega ekki auðvelt hlutskipti að vera fátækur og eiginlega enn verra að aðrir skuli taka eftir því, þó að fátækt sé að sjálfsögðu ekkert til að skammast sín fyrir. Svona er nú ástandið hjá fjölmörgum einstæðum foreldrum. Aldrei man ég eftir því að okkur systkinin hafi skort nokkuð en sjálfsagt ýtti þetta undir það hjá mér að finna snemma leiðir til þess að vinna mér inn pening. Víst er þó að seint muni komast með tærnar þar sem móðir mín hafði hælana hvað varðar dugnað og útsjónarsemi. Fyrir um 30 árum, þegar ég og mín kona vorum nýbyrjuð að búa og elsta dóttir okkar var þá á öðru ári, ákváðum við að konan yrði heima vegna þess hversu dýrt það var að hafa börnin okkar tvö hjá dagmömmu og á leikskóla. Tíðin þá um haustið var ofboðslega erfið og ef ég man rétt, þá held ég að ekki hafi gefið á sjó einn einasta dag í desember. Sem betur fer hafði mér tekist að komast í smá vinnu í frystihúsi, en þá einmitt var bankað uppá hjá okkur. Þá hafði verið bent á okkur hjá verkaliðsfélaginu og var þar mættur fulltrúi félagsins með peningastyrk. Styrkurinn kom sér vel fyrir okkur en ég neita því ekki að þetta var ákveðið áfall. Engu að síður vorum við að sjálfsögðu afskaplega þakklát fyrir stuðninginn. Fyrir um áratug fréttum við af því, að ein besta vinkona okkar hjónanna, einstæð móðir, ætti mjög erfitt fyrir jólin. Við tókum því þá ákvörðun, þegar við vorum að versla inn fyrir jólin, að fylla poka af margskonar matvælum og færa henni. Að sjálfsögðu varð hún afskaplega þakklát fyrir, en maður skynjaði líka þessa tilfinningu að svona átti þetta náttúrulega aldrei að vera. Já, það er gríðarleg fátækt á Íslandi og því miður svo, að sumt fólk skammast sín svo mikið að það neitar sér um það að leita aðstoðar, sleppir í staðinn að leita lækna í veikindum að ekki sé minnst á afþreyingu. Erfiðast er þetta að sjálfsögðu hjá fjölskyldufólki og flestir reyna allt sem mögulegt er til þess að láta börnin ekki líða skort, en þetta er ótrúlegt í svona ríku landi og maður spyr sig, hvar eru þingmennirnir sem öllu lofa fyrir kosningar en segja svo, þegar þeir eru búnir að mynda meirihluta að þetta sé bara allt of dýrt. Flokkur fólksins lofaði strax í upphafi að hjálpa þeim sem minna mega sín. Ég er stoltur að því að hafa tekið þátt í kosningabaráttunni með fólki sem stendur við það sem það lofar og frábært að fátækt fólk eigi loksins alvöru þingmenn til að berjast fyrir sínum málstað. Ég er í undirbúningsstjórn fyrir stofnun kjördæmaráðs Flokks fólksins í Suðurkjördæmi og við ætlum að sjálfsögðu að láta til okkar taka á nýju ári. Ég óska öllum gleðilegra jóla


Lundasumarið 2021

Ekkert lundaball í ár frekar en á síðasta ári og kosningarnar að baki og því rétt að gera sumarið upp eins og venjulega.

Fyrst langar mig að hrósa öllum þeim fjölmörgu aðilum, sem hafa verið að mynda í fjöllunum bæði lunda sem og landslagsmyndir og má þar m.a. nefna Stebba í Gerði, Adda í London, Jóa Myndó, Helga Tórs, Tóa, Halldór Halldórs og fleiri og fleiri. Kærar þakkir allir fyrir frábærar myndir og ég hvet ykkur eindregið, sem og alla aðra, til þess að halda þessu áfram, enda algjör forréttindi að búa á svona fallegum stað og hér í Eyjum þar sem myndefnið er endalaust.

Það eru einmitt þessi forréttindi sem að mínu mati gera það að verkum að margir lundaveiðimenn, eins og ég, hafa látið lundaveiðar í Eyjum alveg eiga sig, eins og í mínu tilviki síðustu 13 árin og þar með látið lundann njóta vafans og svo sannarlega erum við að uppskera og alveg ótrúlega skemmtilegt að fá fréttir af fyrstu pysju í Vestmannaeyjum fyrir Þjóðhátíð. Eitthvað sem ég man ekki hversu langt er síðan gerðist.

Í pysjueftirlitinu voru aðeins skráðar tæplega 5000 pysjur, en ég held að það sé enn minna að marka þessar tölur í ár heldur en undanfarin ár, einfaldlega vegna þess að pysjan var svo ofboðslega vel gerð í ár, sem dæmi þá töldum við einn daginn 120 pysjur í höfninni. Allan daginn voru þær að fljúga fram og aftur og æfa sig og daginn eftir var meirihlutinn horfinn og eina skýringin er sú, að þær einfaldlega flugu í burtu. 

Enn eitt árið fór ég ásamt vinum mínum norður til Grímseyjar, þar sem við veiddum vel í soðið og ég held að við munum seint geta full þakkað vinum okkar í Grímsey fyrir, en þetta var 7unda árið í röð sem ég fer til Grímseyjar, sem svo sannarlega er perla norðursins og ég mæli eindregið með því fyrir fólk sem hefur áhuga á að sjá þessa fuglaparadís, sem Grímsey er, að kíkja þangað. 

Varðandi framhaldið, þá er ljóst að nú eru komin 6 ár síðan þessi frábæri uppgangur hjá lundanum hófst, sem þýðir að á þessu ári og því næsta munu fyrstu árgangarnir fara að koma inn sem fullþroska lundar, gera sér holu og hefja varp. Útlitið er því ótrúlega gott.

Varðandi veiðarnar í sumar, þá skilst mér að ekki hafi verið mikið veitt hér á heimalandinu, en eitthvað meira í sumum úteyjum, en góðu fréttirnar eru þær að þetta er allt sjálfbært og miðað við magnið sem var hérna í eyjunum og fjöllunum í sumar, þá er nokkuð ljóst að veiðistofn lundans er alveg við það að vera í hámarki og ég myndi telja, að við þyrftum ekki nema kannski ca. 2 ári í viðbót til þess að sjá lundastofninn í Eyjum í svipaðri stöðu eins og þegar hann var mestur. Áhyggjuefnið er hins vegar það, að mjög lítið sést af lunda í júní, sem og í byrjun júlí. Hins vegar var gríðarlegt æti við Eyjar í allt sumar og ef mið er tekið af því, að við séum að fá inn gríðarlega sterkan, vonandi, loðnustofn, þá er útlitið ótrúlega bjart. 

Ég er ótrúlega stoltur af því hvernig flest allir veiðimenn hafa staðið sig í því að láta lundann njóta vafans og frábært að fá að upplifa það, að við séum að uppskera loksins.

Til hamingju allir með frábæran árangur við að byggja upp lundastofninn okkar.


Þakkir og kosningar 2021

Það fyrsta sem kemur í hugann eftir kosningaúrslitin um helgina, er fyrst og fremst þakklæti og auðmýkt vegna alls frábæra stuðnings sem við hjá Flokki fólksins fundum fyrir í kosningabaráttunni út um allt land.

Fyrir mig persónulega, þá fannst mér ótrúlega frábært að sjá stóran hóp af ættingjum mínum í Reykjanesbæ mæta á fund hjá okkur þar og lýsa yfir fullum stuðningi við mig. Hér í Eyjum fékk ég endalaus skilaboð um stuðning og kveðjum, sem yljuðu svo sannarlega.

Við í Flokki fólksins erum svo sannarlega sigurvegarar kosninganna, það að fara úr 2 þingmönnum í 6 er einfaldlega frábært. Svolítið skrýtið reyndar að horfa á það, að í suðurkjördæmi fá Sjálfstæðis og Framsóknarmenn sitthvora 3 þingmenn út á 7000 atkvæði hvor, en við aðeins 1 fyrir tæp 4000 atkvæði, en ekki ætla ég að reyna að útskýra þetta kosningakerfi. En annars frábært að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sé 3. þingmaður suðurkjördæmis.

Varðandi sjálfan mig, þá skil ég vel að margir séu svekktir á því að ég hafi ekki náð inn, enda munaði ekki miklu, en ég bjóst sjálfur aldrei við því,án þess að fara nánar út í það.

Varðandi framhaldið, þá að sjálfsögðu hélt meirihlutinn velli og að sjálfsögðu óska ég þeim til hamingju með það. Ég vildi að sjálfsögðu sjá breytingar, en það verður forvitnilegt að sjá hvort fráfarandi meirihluti lifir áfram, enda augljóst, ef við horfum bara á muninn á þessum flokkum út frá hálendisþjóðgarði, þá er augljóst að það ber mikið á milli, en einhvernvegin virðast hlutirnir samt stundum fara þannig að stefnan lendi stundum milli skips og bryggju þegar stólar eru í boði.

Varðandi hagsmuni smábátasjómanna, þá hef ég verulegar áhyggjur af því, hvað þessi niðurstaða þýði fyrir þá. Einnig er augljóst að með þessari niðurstöðu, þá lýkur draumi trillukarlsins þó svo að trillukarlar eigi nú stuðning í öllum flokkum.

Góðu fréttirnar eru þær að öryrkjar, aldraðir og fátækt fólk á Íslandi stendur mun betur að velli með fjölgun þingmanna Flokks fólksins og það er bara frábært. Baráttan er hins vegar rétt að byrja, en það er klárlega ljós í myrkrinu.

Kærar þakkir allir fyrir þennan frábæra stuðning, þar til næst.

Virðingarfyllst 

Georg Eiður Arnarson, varaþingmaður


Kvótann heim

 Ég hef aðeins að undanförnu verið spurður að því hvað þetta þýði í stefnu Flokks fólksins, kvótann heim? Svarið er nokkuð margþætt, en sem dæmi: Að sjálfsögðu viljum við að þeir sem lögðu grunninn að sjávarbyggðum og uppbyggingu landsins á sínum tíma þ.e.a.s. trilluútgerðir á landsvísu geti haldið áfram að lifa og dafna á landsbyggðinni, en séu ekki bara keyptar upp af stórútgerðinni sem hefur aðgang að bönkunum. Liður í því er m.a. að koma á frjálsum handfæraveiðum, en ég er ekki talsmaður einhverra öfga og hef því talað fyrir því að byrja á því að lengja núverandi strandveiðikerfi með því að bæta við hinum mjög svo umdeilda byggðakvóta og tryggja þannig strax 6 mánuði í vor, apríl til og með september. Hins vegar er það eitt af forgangsmálum Flokks fólksins að gefa handfæraveiðar alfarið frjálsar. Kvótann heim þýðir líka, að þjóðin fái sanngjarnann arð af auðlindinni, tökum dæmi: Í dag eru veiðigjöldin á þorski liðlega 16 krónur á kílóið. Flest stærstu útgerðarfyrirtækin leigja frá sér aflaheimildir og þar hefur leigan verið upp undir 300 kr. á kílóið, stóran hluta á síðasta fiskveiðiári og mun klárlega hækka á því næsta sökum niðurskurðar Hafró. En hvað á þá veiðigjaldið að vera? Klárlega ættu þeir sem stunda það að leigja frá sér aflaheimildir að greiða veiðigjöld fyrir aðganginn að sjávarauðlindinni en hvert það veiðigjald ætti að vera liggur ekki ljóst fyrir, en ég tel þó að það væri best að hafa það sem fasta prósentu en krónutölu. Lykilatriðið er þó fyrst og fremst að losna við þetta andskotans kvótaleigubrask. En kvótann heim þýðir líka að í bæjarfélagi eins og mínu sem er Vestmannaeyjabær, hafa frá hruni, eftir því sem ég best veit, verið seld í burtu úr byggðalaginu, á annan tug þúsunda aflaheimilda. Sumir af þessum bátum landa vissulega hér hluta af árinu, en eignarhaldið á kvótanum er farið. Við viljum fá það aftur heim. En hvar liggja hagsmunir sjómanna þegar kemur að stefnu Flokks fólksins? Það er mjög auðvelt að svara því. Við viljum skilja á milli veiða og vinnslu og verð á afla á að miðast við markaðsverð á hverjum tíma sem klárlega myndi hækka tekjur sjómanna verulega. Með því losna sjómenn við að ísa yfir fisk sem settur er í gáma og seldur úr landi af fyrirtækjunum, en sjómennirnir fá aðeins verðlagsstofuverðið. En hvernig kemur þá stefna Flokks fólksins í sjávarútvegsmálum út fyrir starfsfólk frystihúsanna? Lykilatriðið í þessu er að við komumst að því hvað er raunverulega mikið af fiski í hafinu í kringum Ísland. Um leið með því að fækka kvótabundnum tegundum, verður framboðið um miklu meira en það er í dag og um leið eru mun meiri möguleikar á sérhæfingu í vinnslu á tegundum sem nú eru vannýttar (sjá grein mína: Hvernig getum við bætt Íslenskan sjávarútveg). Sama má segja um skoðun mína varðandi uppsjávarveiðar þar sem ég set fram þá hugmynd að settur verði á lágmarkskvóti í loðnuveiðum til þriggja ára, sem myndi um leið tryggja bæði útgerð og vinnslu ákveðinn og mun meiri stöðugleika en í dag. Ég var spurður að því um daginn, hvers vegna að setja á lágmarksloðnukvóta til þriggja ára í ljósi þess, að hér erum við eiginlega bara með tæplega hálfa loðnuvertíð síðustu þrjú árin. Mig langar til að svara því sérstaklega. Tökum síðustu 2 árin. Árið 2020 er engin loðna veidd. Hafró fann ekki nægilegt magn til þess að hægt væri að leyfa veiðar og lauk rannsóknum sínum eftir því sem ég veit best um miðjan mars 2020. En merkilegt nokk, um miðjan apríl sama ár fyllast allir firðir af loðnu fyrir norðan land og ekki bara það, heldur rak töluvert af loðnu á land í Færeyjum. Varðandi þessa loðnu fyrir norðan, þá man ég ekki betur en að fiskifræðingar hafi einhvern tímann látið hafa eftir sér að ef hlýnunin héldi áfram, þá gæti hugsanlega komið sá tími að loðnan gengi ekki sinn vanalega hring. Loðnuvertíðin 2021. Um mánaðarmótin jan/febr. gáfu fiskifræðingar það út, að ekki hefði mælst nægilega mikið af loðnu til þess að leyfa veiðar og útlitið væri ekki gott vegna þess að eina óvissan væri hvað mikið væri af loðnu undir ísröndinni fyrir norðan land. 6 dögum síðar finnst stór loðnutorfa fyrir austan land og skyndilega eru leyfðar veiðar, reyndar mjög litlar, en nokkrir skipstjórar hér í Eyjum orðuðu það við mig í mars mánuði að það væri ekki eins og loðnan gengi bara með landinu, heldur virtist hún á köflum koma upp úr köntunum. Veruleikinn er sá, að þó svo að ég hafi verið sjómaður hér í Vestmannaeyjum liðlega 35 ár, þá er ég enn að læra og ég er nú farinn að hallast að því að fiskurinn fari ekki eftir einhverri reglustiku, ekki frekar en sjórinn og þess vegna m.a. hef ég kallað eftir því að sjónarmið sjómannsins fái rödd á Alþingi íslendinga. Það er ekki síst vegna þessa sem ég er í framboði nú. Georg Eiður Arnarson, skipar 2. sæti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.


virðing

Virðing er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar við tölum um fólkið okkar sem í dag er orðið fullorðið og lagði grunninn að því samfélagi sem við búum við í dag. Alveg frá því að ég steig mín fyrstu skerf sem trillusjómaður og horfði á og lærði, hvernig þeir eldri báru sig að og lærði bæði meðferð veiðarfæra og eins á miðin í kring um Vestmanneyjar, þá hef ég alltaf litið upp til manna sem kunnu þetta eins og lófan á sér. Margir eru farnir en lifa þó í minningunni. Oft verður mér hugsað til besta vinar míns, en sú saga er reyndar ekki alveg búin. En það er eitt að horfa af virðingu og aðdáun á þá sem á undan hafa gengið, hin hliðin er sú, sem því miður blasir við okkur í Íslensku samfélagi í dag og er ein af mörgum ástæðum fyrir því að ég ákvað að taka þátt í framboði með Flokki fólksins. Að undanförnu hef ég bæði heyrt og lesið af frásögnum hjá eldri borgurum sem lifa nánast á hungurmörkunum og þegar maður horfir á þessar hörmungar bætur, sem allt of margir þurfa að lifa á í dag, þá einfaldlega stendur mér ekki á sama. Fólk sem þarf að lifa kannski eitt á kannski rétt liðlega 200 þúsund krónum í landi þar sem þeir hæst launuðu greiða sér tugi milljóna í mánaðarlaun og maður eiginlega skilur ekki hvernig stendur á þessu. Að undanförnu hef ég líka heyrt í fólki, sem er við það að detta út af vinnumarkaði og kvíðir fyrir því að þurfa á lifa á strípuðum bótum og svo eru það aftur þeir, sem hafa kannski lungan af ævinni lifað sem öryrkjar og eiga kannski engin eða lítil lífeyrisréttindi. Einnig fólk sem kannski var út af t.d. uppeldi barna heimavinnandi, meðan fyrirvinnan var kannski úti á sjó og svo skyndilega fellur fyrirvinnan kannski frá og eftir situr húsmóðirin með aðeins rétt á 80% af lífeyrissjóðsgreiðslum fyrirvinnunnar og aðeins í 1,5 ár. Og hvað svo? Dæmt til sárrar fátæktar. En þessu ætlum við í Flokki fólksins að breyta þannig að makinn erfi full lífeyrisréttindi þess sem fellur frá. En svo er aftur öll þessi elli- og hjúkrunarheimili þar sem, í sumum tilvikum, launin eru svo lág að aðeins fæst erlent vinnuafl sem jafnvel, í sumum tilvikum, skilur ekki orð í íslensku og íbúarnir eiga því mjög erfitt stundum að tala við, eða gera sig skiljanlega um hvað ami að. Að maður tali nú ekki um þetta svokallaða dagpeninga fyrirkomulag, sem er fyrir mér alveg óskiljanlegt. Nú á ég aðeins liðlega 3 ár í sextugt og ég neita því ekki að ég er aðeins farinn að kvíða því að verða fullorðinn. En þannig á það ekki að vera. Það er ekkert svo slæmt að ekki sé hægt að bæta það. Höfum það öll í huga, að sem betur fer verðum við flest öll einhvern tímann fullorðin og það eina, sem við þurfum að gera til þess að tryggja afkomu okkar á fullorðinsárum er að setja x við F. Georg Eiður Arnarson, situr í 2. sæti Flokks fólksins í suðurkjördæmi.


Hvernig getum við bætt Íslenskan sjávarútveg

 Ég hef sótt sjóinn frá unga aldri og hef sterkar skoðanir á því sem betur má fara í íslenskum sjávarútvegi. Hér fara á eftir nokkur atriði sem mér eru hugleikin: Gefum handfæraveiðar frjálsar Handfæraveiðar verði gefnar frjálsar með þeim takmörkunum sem eru í svokölluðu strandveiðikerfi í dag. Þó með þeirri viðbót að stefnt sé á að hægt verði að stunda handfæraveiðar allt árið. Til þess að tryggja að hægt verði að lengja kerfið strax næsta vor, verði hinum mjög svo umdeilda byggðakvóta bætt inn í handfærakerfið með það að markmiði að lengja kerfið strax upp í 6 mánuði, frá apríl til og með september. Frjálsar handfæraveiðar eru besta aðferðin til þess að hjálpa hinum dreifðu byggðum. Hins vegar hefur stór hluti af þessum mjög svo umdeilda byggðakvóta verið notaður af sumum byggðalögum sem fengið hafa byggðakvóta til þess að leigja frá sér. Sumir spyrja sig hvort ekki sé miklu eðlilegra að senda þeim byggðum sem standa hvað verst einfaldlega ávísun í pósti. Köllum til óháða sérfræðinga Fengnir verði (erlendir eða innlendir) óháðir aðilar til að taka út aðferðarfræði og útreikninga Hafró við að reikna út stofnstærð fiskistofnana, enda er ekkert samræmi á milli loforða fiskifræðinga um aukinn fiskafla ef farið verði eftir þeirra tillögum og raunveruleikans. Samhliða því verði álaginu á Hafró létt með því að taka þær tegundir, sem komnar eru niður fyrir 20% í úthlutuðum aflaheimildum úr kvóta. Þá er miðað við hvað við vorum að veiða mikið magn af þessum tegundum fyrir kvótasetningu. Þar má nefna sem dæmi keilu, löngu, blálöngu, litla karfa, gulllax, hlýra, skötusel og lúðu. Einnig mætti skoða að leyfa frjálsar veiðar á ufsa, enda stór hluti ufsakvótans í dag notaður fyrst og fremst í tilfærslur. Gerum okkur ljóst að með þessu móti stuðlum við einnig að því að öll verðmæti úr sameiginlegri sjávarauðlind okkar komi að landi en glatist ekki. Fjárhagslegur aðskilnaður Komið verði á fjárhagslegum aðskilnaði milli rekstrar útgerðar og fiskvinnslu í landi. Sköpuð verði skilyrði til eðlilegrar verðmyndunnar á öllum óunnum fiski á markaði. Viðskiptahættir með fisk verði sem heilbrigðastir þar sem gegnsæi verði haft að leiðarljósi. Uppsjávarveiðar Einnig þarf að fara yfir samninga okkar við Norðmenn um loðnuveiðar. Spurning hvort ekki sé orðið tímabært, vegna óvissu um þessar veiðar ár eftir ár, að setja á t.d. lágmarksúthlutun til þriggja ára og tryggja þar með útgerðinni, vinnslunni og kaupendum ákveðið öryggi. Einnig er spurning vegna mikils meðafla í formi síldar í makrílveiðunum, hvort ekki sé rétt að síldin, sem er afar léleg, teljist aðeins til hálfs í kvóta? Lykilatriði er þó að þær veiðar, sem og aðrar, séu með verðmyndun sem er í samræmi við markaðsverð. Höfundur er hafnarvörður og trillukarl sem situr í 2. sæti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi


Vestmannaeyjabær

Vestmannaeyjabær Fyrir mig hafa það verið algjör forréttindi að fá að búa á stað eins og hér á Heimaey. Ég hef fengið að upplifa nálægðina við náttúruna, bæði í eggjatöku og lundaveiði og svo á sjónum enda verið trillukarl í næstum 34 ár. Heimaey er svolítið dæmigerður staður á landsbyggðinni þar sem nándin er mikil og þar sem allir þekkja alla og samstaðan oft gríðarleg þegar á reynir. Þegar kemur hins vegar að hagsmunum okkar varðandi hvað eigi að vera í forgangi hjá Alþingismönnum okkar, þá greinir okkur töluvert á. Ég þekki t.d. hér í bæ ótrúlega margt mjög fátækt fólk, sérstaklega fólk sem er orðið fullorðið og er í sumum tilvikum búið að missa makann. Einnig er mikið af öryrkjum sem virkilega þurfa að hafa fyrir hlutunum, en sem betur fer ætlum við í Flokki fólksins að bæta verulega kjör þessara hópa. Brjótum múra – bætum þjónustu! En það er margt annað sem brennur á Eyjamönnum eins og t.d. samgöngumálin. Mörgum finnst súrt að þurfa að standa í biðröðum og borga síðan miklu hærri upphæð en aðrir Íslendingar fyrir að fara þessa vegalengd á milli lands og Eyja. Og svo er aftur hin hliðin. Af hverju erum við ennþá að borga hundruð milljóna fyrir að moka sandi úr Landeyjahöfn á hverju ári í stað þess að leysa vandamálið varanlega með göngum? Og hvers eiga þeir að gjalda, bæði einstaklingar og fjölskyldur, sem lagt hafa allt sitt undir við að skapa sér atvinnu hér í Eyjum? Hér á ég bæði við veitingarekstur og aðra afþreyingu fyrir ferðamenn sem þarf sumpart að loka nú þegar haustar þrátt fyrir að landið sé fullt af ferðamönnum? Og hvers vegna er ekki löngu búið að fjármagna þetta litla sem upp á vantar til þess að fá úr því skorið hvort göng séu raunhæfur kostur eða ekki? Eitt að því sem ég hef mikinn áhuga á er að skurðstofa sjúkrahússins okkar verði fullmönnuð. Þá þyrfti unga fólkið okkar ekki að flytjast í bæinn til þess að eignast börnin sín. Að sama skapi væru hér allar forsendur fyrir minni háttar aðgerðum og þannig mætti létta á allt of löngum biðlistum. Einnig vekur það furðu að bæjarfélög þurfi að standa í stappi við ríkið til þess að geta fengið það fjármagn sem þarf að fylgja rekstri á elliheimilum, ekki bara hér í Eyjum heldur víða annars staðar. Hvar hafa þeir verið, þessir þingmenn sem mæta núna rétt fyrir kosningar og lofa öllu fögru? Sjálfur hef ég verið mikill áhugamaður í fjölda ára um uppbyggingu á stórskipaviðlegukanti fyrir Eiðinu, verkefni sem ríkið verður klárlega að koma að og nokkuð sem ég mun klárlega fylgja eftir af krafti, fái ég tækifæri til þess. Settu X við F – fyrir þína framtíð! Georg Eiður Arnarson, hafnarvörður og trillukarl, situr í 2. sæti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband