2.9.2021 | 10:48
Tvær hliðar á sömu spillingu
30.8.2021 | 20:01
37ára tiraun sem mistókst
5.8.2021 | 22:13
Pólitíkin og Hafró
Arthúr Bogason er með mjög athyglisverða grein um daginn, þar sem hann fjallar um þá staðreynd að tjón þjóðarinnar vegna núverandi kvótakerfis og ráðgjafar Hafró, í þeim efnum, nemur hundruðum milljarða frá því 1984.
En skoðum aðeins vandamálið frá sjónarhorni Hafró, með mínum augum, en svona leit fyrsta úthlutun 1984 út, ég ætla að sleppa magninu en telja bara upp tegundirnar.
1984 er þetta svona:
Þorskur
Ýsa
Ufsi
Karfi
Skarkoli
Grálúða
Steinbítur
En svona lítur þetta út í dag:
Þorskur
Ufsi
Ýsa
Karfi
Djúpkarfi
Grálúða
Gulllax
Steinbítur
Skarkoli
Úthafsrækja
Þorskur-Rússlandi
Langa
Þorskur-Noregi
Keila
Þykkvalúra
Litli karfi
Rækja við Snæfellsnes
Rækja í Djúpi
Skötuselur
Blálanga
Sandkoli
Kolmunni
Arnarfjarðarrækja
Norsk-íslensk síld
Loðna
Humar
Síld
Skrápflúra
Við þetta má síðan bæta makrílnum, augljóslega, sem og sæbjúgum. Enn fremur hefur fráfarandi ríkisstjórn beitt sér fyrir því að koma grásleppunni í kvóta og allt byggir þetta meira og minna, að mestu leyti, á þessu blessaða togararalli, en hvers vegna er þetta svona og hvers vegna er búið að kvótasetja svona margar tegundir og af hverju?
Valdimarsdómurinn
Ef ég man rétt, þá féll Valdimarsdómurinn svokallaði 1998, en með honum var ekki lengur hægt að neita neinum um veiðileyfi, en þáverandi sjávarútvegsráðherra Árni M. Matthiesen sá sér leik á borði og sló af því svokallaða þorskaflamarkskerfi (besta kvótakerfi sem smábátar hafa nokkurn sinni getað róið eftir) og kvótasetti þá um leið ma. tegundir eins og keilu og löngu, sem ma. annars fyrirtæki eins og Vísir í Grindavík hafði ítrekað óskað eftir, enda eiga þeir í dag meira og minna öll löngu og keilu mið á Íslandi, sem reyndar eru nánast algjörlega verðlaus í dag vegna aðferðarfræði Hafró við að reikna út stofnstærð á þessum tegundum, sem þeir sumir amk. gera sjálfir grín að, en um það hef ég fjallað áður.
Síðasta stóra kvótasetning á tegundum átti sér stað, ef ég man rétt, fyrir ca. 7 árum síðan, í forsetatíð Sigmundar Davíðs, þáverandi formann Framsóknarflokksins, núverandi formann Miðflokksins og með núverandi formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga sem sjávarútvegsráðherra, en þá voru settar í kvóta tegundir eins og blálanga, litli karfi, gulllax, hlýri og fleiri, sem allar hafa hrunið við kvótasetningu og eru í dag fyrst og fremst notaðar í tilfærslu og til þess að búa til veð fyrir hagsmunaaðila.
Lokaorð
Þegar maður skoðar þessar kvótasetningar frá 1998, þá er augljóst mál að eitthvað togararall mun aldrei geta reiknað út stofnstærðir á fjölmörgum að þessum tegundum. Hafró hefur því þurft að leita annarra leiða til þess að reikna út stofnstærð á fjölmörgum tegundum, sem lítið og ekkert veiðast í togararallinu. Sumar af þeim aðferðum standast svo sannarlega ekki skoðun og eiginlega alveg með ólíkindum að við séum jafnvel komin niður í það að veiða 10% af því magni af sumum tegundum sem við vorum að veiða fyrir kvótasetningu.
Það er því augljóst mál, að það besta sem við gætum gert, ekki bara fyrir okkur öll sem og lífríkið í hafinu, heldur líka fyrir Hafró, væri að fækka kvótabundnum tegundum.
27.7.2021 | 23:04
Herjólfur 3. vs. Herjólfur 4.
Það er komið meiri en ár síðan ég lofaði því að fjalla aðeins um þessi 2 skip og bera þau síðan saman og þar sem Herjólfur 3. er kominn á sölu er kannski tímabært að gera það núna.
Byrjum á byrjuninni.
Herjólfur 3. er þrítugur núna í sumar og ýmislegt gekk nú á, bæði í aðdragandanum að komu hans og svo í fyrstu prufusiglingum.
Fyrst ber að nefna náttúrulega ákvörðun þáverandi samgönguráðherra um að stytta skipið, sem sumir telja að hafi gert það verra eftir á, og á tímabili var Herjólfur 3. kallaður "Manndrápsfleytan".
Á hringferðinni sem farin var í kring um landið til að kynna skipið kom í ljós, að skipið valt alveg gríðarlega þegar búið var að taka inn veltiuggana. Þetta mál var að hluta til leyst haustið 93 þegar Herjólfur fór til Noregs, þar sem ýmislegt var lagfært og endurbætt og m.a. settir undir hann andveltikilir og segja þeir sem þekkja til, að þetta hafi stórlega bætt sjóhæfni skipsins, en í hringferðinni hinni frægu lenti Herjólfur 3. í svo slæmum sjó utan við Hornafjörð, að allt fór á hvolf í eldhúsinu og m.a. sprakk sultutunna og fleira inni á lager skipsins og á tímabili kom upp leki efst í skipinu og eftir því sem mér er sagt, var þar ökkladjúpt vatn þegar að var komið. Ýmislegt annað hefur að sjálfsögðu komið upp á, en ég læt þetta duga, en Herjólfur 3. hefur reynst okkur vel, þó svo að aldurinn sé svo sannarlega farinn að færast yfir og margir muni sakna skipsins.
Herjólfur 4.
Eins og gengur og gerist með ný skip, þá slapp Herjólfur 4. ekki við byrjunarörðugleika, en á leiðinni til landsins bilaði annar uggi skipsins, þannig að það varð að byrja á því að fara í slipp. Ekki voru tilbúin fríholtin við bryggjurnar og ekki hleðslustöðvarnar þegar hann kom, en þetta er allt saman komið í dag.
Framan af var mikið um að aftur og/eða framlúga ekki opnaðist eða lokaðist, en þetta er sem betur fer líka búið að leysa. Bekkir á sóldekki losnuðu, þá er búið að sjóða fasta. Pilothurð gekk inn, en það er búið að laga hana. Spilbúnaður hefur brotnað, eða réttara, festingar á spilbúnaði. Taka þurfti öll batterí í skipinu í gegn og skipta um skífur í þeim. Aðstaða í eldhúsinu var ekki fullnægjandi, en það er búið að laga, einnig hefur vantað töluvert upp á aðstöðu fyrir áhöfnina, sérstaklega þegar siglt er til Þorlákshafnar og í skveringunni sl. haust var ákveðið að fara yfir annan drifbúnaðinn og eftir að hann hafði verið tekinn í gegn, var ákveðið að taka hinn líka.
Það góða við þetta allt saman er, að þetta eru allt meira og minna allt vandamál sem eru að baki, en það tók töluverðan tíma fyrir áhöfnina að læra á td. öll tölvukerfi skipsins, enda er þetta nútíma skip og með nemum út um allt.
Ýmislegt annað mætti nefna, en ég ætla að láta þetta duga í bili.
Herjólfur 3. vs. Herjólfur 4.
Það er svolítið erfitt að svara því, hvort skipið er betra, þó að flestir myndu nú segja að það væri augljóst þegar borið er saman annarsvegar nýtísku rafmagnsferja og 30 ára gamalt skip, en það eru plúsar og mínusar báðum megin.
Margir höfðu áhyggjur af því, hvernig Herjólfur 4. myndi standa sig í siglingum til Þorlákshafnar, verandi svona grunnrist skip, en þær áhyggjur eru í raun og veru að mestu leyti að baki, enda skipið alveg sérstaklega stöðugt, þó svo að það láti að sjálfsögðu illa í vondum brælum, eins og önnur skip, en aðal ástæðan fyrir því, hversu sá nýi er stöðugur er einmitt miklu stífari stöðugleika reglur þegar hann er smíðaður, heldur en sá gamli.
Sama má segja um bíladekkið, en bíladekkið á þeim nýja er einfaldlega klössum betra heldur en á þeim gamla að öllu leyti.
Stærstu áhyggjur mínar hins vegar voru þær, að svefnrými í þeim nýja væri þá mikið færri heldur en í þeim gamla. Það hefur algjörlega gengið eftir, þó svo að kojum hafi verið bætt við í þeim nýja þá nálgast hann ekki þeim gamla að þessu leyti vegna þess, að það er líka hægt að nota bekkina í þeim gamla til að leggja sig, en ekkert slíkt er í þeim nýja.
Sama gildir um ganghraðann á skipunum, en mér þótti það mjög sérstakt að hér væri verið að smíða nýtísku ferju, að hún gengi aðeins hægar heldur en 30 ára gömul ferja.
Margir hafa kvartað um þrengsli á milli sætisraða í þeim nýja og eins, hversu erfitt sé að komast í kojurnar í skipinu, en þar sem við siglum mun oftar til Landeyjahafnar á þeim nýja, þá má segja að þetta jafni sig út.
Í sjálfu sér er kannski engin ein niðurstaða um hvort skipið sé betri að öllu leyti, en að sjálfsögðu gríðarlega margt í nýju ferjunni sem gerir hana mun betri en þann gamla, eðlilega, en það er þó þetta atriði varðandi klefana og svefnaðstöðuna í þeim gamla, sem gerir hann betri að því leytinu amk.
Fólkið okkar.
Á síðasta ári fór áhöfnin á Herjólfi í stutt verkfall á mjög vondum tíma fyrir okkur öll, en það er nú einu sinni þannig að verkföll hafa alltaf bitnað á þeim sem síst skyldi, en mér fannst sumir hér í bæ ganga ansi langt í gagnrýni sinni á áhöfnina og maður varð eiginlega hálf miður sín að sjá hvernig sumir létu, því að sjálfsögðu á áhöfnin sinn rétt, eins og við öll hin og gleymum því ekki, að þetta er fólkið okkar. Mest megnis fjölskyldufólk sem þarf að standa við sínar skuldbindingar eins og við öll hin, en er um leið líka fólkið sem heldur þessari dýrmætu samgönguleið okkar opinni allt árið, alveg sama hvernig viðrar.
Þakkir.
Við þekkjum nú öll fólkið sem starfað hefur þarna umborð í fjölda mörg ár, en nokkuð hefur verið um það núna, sérstaklega síðustu 2 árin, að fólk hafi hætt bæði vegna aldurs eða til þess að hverfa til annarra starfa og þó svo að ég þekki nú ekki öll nöfnin og biðst nú afsökunar á því, þá langar mig að telja upp nokkur nöfn, vonandi fer ég rétt með?
Ágústa Magnúsdóttir
Ágústa Kjartansdóttir
Kristín Guðjónsdóttir
Einar Jónsson
Gísli Guðnason
Einar Magnússon
Heiðar Páll Halldórsson
Eðvald Sigurðsson
Elliði Aðalsteinsson
og fleiri og fleiri mætti nefna, en mig langar að lokum að nefna vin minn Guðlaug Ólafsson, skipstjóra, en maður saknar þess oft að heyra ekki glaðlegu röddina hans, enda alltaf hress og kátur.
Takk öll fyrir frábært starf í gegnum árin, sum fleiri en önnur og gangi ykkur öllum allt í haginn hvað sem þið takið fyrir stafni.
6.7.2021 | 12:33
Vertíðin 2017
Að undanförnu hafa borist fréttir um það að þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð á aflaheimildum, þá hafi stórútgerðin væntingar um það að þrátt fyrir minni kvóta þá muni þeir jafnvel halda óbreyttum hagnaði og jafnvel bæta í, vegna þess að hin hliðin á minni afla er oft á tíðum hærra afurðarverð.
En um þessa hlið útgerðarinnar fjallaði ég um í grein sem ég skrifaði sumarið 2017 og birti hér aftur í heild sinni.
Reyndar svolítið merkilegt að ég mundi vel eftir þessari grein minni, en fann hana hins vegar ekki inni á blogginu hjá mér, heldur þurfti að fara aðra leið til að grafa hana uppi, en eins og fram kemur í greininni, þá eru hagsmunir stórútgerðarinnar ekkert endilega tengdir auknum aflaheimildum, heldur miklu frekar hærra afurðarverði og að sjálfsögðu mun kvótaleigan fara upp úr öllu valdi við þennan niðurskurð og gera þar með líf leiguliðana enn erfiðara, en að sjálfsögðu muni tekjur sjómanna sem landa á föstum verðum minnka með minni afla og augljóslega líka landverkafólks, en þetta er nú einmitt lykillinn að því og þeirri ástæðu að stórútgerðin vilji engu breyta. Almennt viðurkenna þó allir sem ég hef talað við að undanförnu, að það þurfi að fara rækilega yfir bæði útreikninga og aðferðarfræði Hafró en áhuginn er kannski ekkert svo mikill þegar menn halda sínum hlut, alveg sama hversu mikið er skorið niður.
Vonandi verða alvöru breytingar eftir kosningarnar í haust og ef það er eitthvað sem ég hefði klárlega viljað sjá breytast á næsta kjörtímabili, þá er það það að áður en kjörtímabilinu verður lokið, þá verðum við aftur komin inn í það farsæla kerfi byggðum landsins til góðs að setja á frjálsar handfæraveiðar, enda augljóst að veður og tíðarfar sér alveg um að hamla þeim veiðum og ekki munum við tæma miðin með vistvænum handfærum.
25.6.2021 | 20:38
Skuggahliðar kvótakerfisins
Skuggahliðar kvótakerfisins eru svo ótrúlega margar að í sjálfu sér væri hægt að skrifa langa grein bara um þær, en tökum smá dæmi.
Kínaleigan, sem var þannig í upphafi að útgerðir gátu leigt öðrum aðila bát sinn með öllum aflaheimildum, en sá sem leigði til sín gat þá nýtt aflaheimildirnar á sinn bát innan ársins, en á meðan gat sá sem leigði frá sér ekki notað sinn bát. Þetta kerfi hefur síðan þróast áfram og í dag er þetta þannig að gríðarlegur fjöldi manna, allt í kring um landið, á orðið aflaheimildir á kennitölu og sumir jafnvel, í einhverjum tilvikum, eiga jafnvel ekki bát, en þessir aðilar taka við ávísun í september á hverju ári frá þeim, sem geymir kvótann, en þá á eitthvað lægri leigu.
Forkaupsréttarákvæðið sem sett var á sínum tíma og átti að tryggja það, að ekki væri hægt að selja aflaheimildir úr einu byggðalagi til annars er í dag frekar svona misheppnaður brandari, ef eitthvað er. Það sjáum við best á nýlegri sölu hér í Vestmannaeyjum síðan í haust, þegar Bergur VE er seldur með öllum aflaheimildum til fyrirtækis, sem er skráð í Vestmanneyjum en í eigu fyrirtækis austur á landi, sem aftur er í meirihluta eigu stórfyrirtækis frá Dalvík, og enginn segir neitt.
Sjávarútvegsráðherra gaf það út í dag að hann hefði ákveðið að fara algjörlega að tillögum Hafró. Tillögum sem er eru algjör skellur fyrir núverandi kvótakerfi og sýnir það eiginlega algjörlega, að núverandi kerfi virki ekki.
Það sem vekur falskar vonir í þessum tillögum Hafró er, að framundan séu árgangar í þorski yfir meðallagi frá 2019 og 2020. Veruleikinn er hins vegar sá, að nú bendir margt til þess að mun minna verði af makríl heldur en undanfarin ár og fjöl mörg dæmi eru um það, að þegar stórþorskurinn skortir æti, þá einfaldlega étur hann allan smáþorskinn.
En svona til upprifjunar, hversvegna er staðan svona slæm á þorskinum, ef eitthvað er að marka Hafró?
Í fyrsta lagi, þá er ekkert að marka Hafró. Rannsóknaraðferðir þeirra eru svo gamaldags, að þær hafa aldrei virkað og fjöl mörg dæmi um það í gegnum árin og áratugina um fréttir eins og t.d. ofmat, rangar niðurstöður, vitlaust lesið úr niðurstöðum, týndum árgöngum og finnum ekki árganga.
Í öðru lagi, eins og ég hef oft sagt áður, að friða tegundir eins og keilu eins og búið er að gera í dag. Fisk sem lifir góðu lífi á hrauninu allt í kring um Vestmannaeyjar, étur sig kjaftfullan af þorskhrognum þegar þorskurinn gengur upp í hraunið til að hrygna og þegar þorskurinn hefur allur lokið sinni hrygningu snemma í maí, þá byrjar keilan að hrygna.
Í þriðja lagi, þá fjallaði ég um það þegar ég gerði upp vertíðina að gríðarleg veiði hafði verið hjá handfærabátum í mars, en þeir þurftu að stilla rúllurnar á veiðar rétt undir yfirborðinu, eða á 5 faðma dýpi, en þar hélt þorskurinn sig í loðnutorfum. Á sama tíma er togararallið í gangi hérna við suðurströndina, þar sem trollið er dregið með botninum með frekar lélegum árangri, en ég frétti m.a. af því að lítill snurvoðabátur hefði kastað á torfu um mánaðamótin mars/apríl og fengið 25 tonn af þorski í einu kasti, en þennan sama dag var togari í togararallinu að toga á svipuðum slóðum, en var að fá aðeins 1 tonn á tímann. Þarna er augljóslega eitthvað mikið bogið við þetta.
En hvað á að gera? Klárlega þarf að fá einhverja óháða aðila að til að skoða bæði ferlið í kringum veiðarnar og útreikninganna sem liggja svo að baki niðurstöðunum. Að undanförnu hef ég rætt þetta við nokkra aðila hér í bæ og ég get ekki sagt að það hafi komið mér á óvart, að enginn sem hefur einhverja hagsmuni af stórútgerðinni hefur nokkurn áhuga á að gera nokkrar breytingar, sérstaklega kannski í ár, þar sem nú er kosningaár.
Kosningar. Það er augljóst mál að til þess að ná fram alvöru umræðu og skynsömum breytingum, þá þarf klárlega að skipta um ríkisstjórn.
Sjálfur hef ég fengið tilboð um að taka þátt í framboði með virkilega spennandi stefnu einmitt í sjávarútvegsmálum og nýjungum sem virkilega gætu snúið þessu ógæfusama kerfi til betri vegar. Ég hef hins vegar haft efasemdir um að gefa kost á sjálfum mér í þetta, enda svolítið brenndur af fyrri framboðsmálum, en samt ekki útilokað neitt og ætla að taka ákvörðum um mín mál á allra næstu dögum.
13.6.2021 | 20:52
Trillukarlar og draumur trillukarlsins
Ég var ansi dapur yfir atkvæðagreiðslunni núna fyrir helgi, þar sem lögð var fram tillaga um að tryggja nægar aflaheimildir, eða amk. þessa 48 strandveiðidaga á ári áfram, en þeir sem studdu málið voru þingmenn Pírata, Flokki fólksins og einn þingmaður Vinstri grænna. Aðrir þingmenn úr meirihlutanum greiddu atkvæði gegn málinu og þingmenn úr öðrum flokkum sátu flest allir hjá.
Það góða við þetta er þó það, að þarna eru þá alveg skýrar línur um það, hvaða flokkar standa með trillusjómönnum. Staðan að öðru leiti í dag er ótrúlega slæm. Pottar í línuívilnun er öllum lokið, sem dæmi, en hvers vegna láta þessir flokkar svona?
Ástæðurnar eru örugglega mý margar að mati þingmanna í þessum flokkum, en það hvarflar að mér hvort að það hafi ekki töluvert að segja, amk. hjá meirihlutanum, ályktun SFS frá því í vetur en hún var svo hljóðandi, ef ég man alveg rétt:
SFS leggur til að strandveiðar verði aflagðar og aflaheimildunum "skilað" til þeirra sem þær hafa misst.
Undir þetta skrifuðu allar stórútgerðir á landinu. Ansi dapurlegt, en svona er nú bara veruleikinn, það er eiginlega svona hálf súrrelasiskt að hugsa til þess, að flestar þessar stórútgerðir eru svo að leigja frá sér gríðarlegt magn af aflaheimildum og borga þar af leiðandi af þeim engin veiðigjöld, en borga hins vegar vel og dyggilega til sumra stjórnmálaflokka og merkilegt nokkuð, sérstaklega þeirra flokka sem skipa núverandi ríkisstjórnar meirihluta.
En svona til gamans, hvernig horfði ungur maður á þessa trillumennsku fyrir meira en 30 árum síðan?
Svarið felst í hinni gömlu sögu, Draumur trillukarlsins.
Það var eitt sinn ungur maður í Vestmannaeyjum sem hafði gengið með þann draum í maganum að fara í útgerð, enda höfðu bæði afi hans og langafi verið þekktir útgerðarmenn í Eyjum, svo ungi maðurinn keypti sér trillu og byrjaði að róa. Útgerðin gekk svona upp og niður framanaf, en frá fyrsta degi gekk ágætlega að fiska, en sagan hefst sem sé á fögrum vordegi,
Ungi maðurinn fer niður á bryggju, veðurspáin er góð og útlitið eftir því, svo ungi maðurinn setur í gang og leggur frá bryggju og siglir út höfnina, en þegar út fyrir Klettsnefir er komið bregður unga manninum við, því við honum blasir sjón sem hann hafði aldrei séð áður. Eftir að hafa fengið að kynnast briminu og og ofsanum í veðrinu allan veturinn, blasti við spegil sléttur sjórinn og tilfinningin var svo sterk, að sem snöggvast brá fyrir í huga unga mannsins mynd úr gamalli, góðri bók sem hann las spjaldanna á milli á sínum yngri árum, ar sem m.a. segir frá manni sem eftir því sem sagan segir, gekk á vatni.
Ungi maðurinn hristi þetta af sér og steig út úr stýrishúsinu, kannski til að virða þetta betur fyrir sér, en líka til að hlusta. Ekki heyrðist neitt brimhljóð, en í staðinn fyrir lágvært malið í vélinni kom nánast ærangi gargið í fuglinum.
Ungi maðurinn leit upp eftir Ystakletti, allur fuglinn var sestur upp og allt iðandi af lífi, og fann hvernig þessi sýn snerti hann á sama hátt og eitthvað sem hefur mikil áhrif á okkur. Fór hann síðan aftur inn í stýrishús og lagaði stefnuna, steig síðan út til að virða þetta allt saman betur fyrir sér og var að horfa á eyjarnar í austri, þegar skyndilega fyrsti geisli sólarinnar kom eins og elding austan við jökul. Birtan var svo ofboðsleg að það dugði unga manninum ekki að bera hendinni fyrir og lokaði hann því augunum, en í huga unga mannsins kom algjörlega ósjálfrátt þessi litla ósk einhvern veginn svona:
Bara ef, bara ef ég gæti fengið að lifa og starfa í friði, ég verð aldrei ríkur en hugsanlega, með hörku og dugnaði, get ég séð fyrir mér og mínum.
Ungi maðurinn hristi þetta nú fljótt af sér og hugsaði með sér:
Ætli það verði ekki einhver bankastjórinn, eða þetta nýjasta kvótakerfi, sem gerir út af við einhverja svona draumóra.
Hann lagaði stefnuna á bátnum betur, en var síðan litið til baka á Heimaey sem fjarlægðist óðum, þá kom þessi viðbót:
Og þó, hér á einhverjum fallegasta stað í heiminum, hér gæti ég svo sannarlega hugsað mér að bera beinin.
Aftur hristi ungi maðurinn af sér þessar hugleiðingar af sér og tautaði með sjálfum sér:
Vonandi á ég nokkur góð ár eftir, og hélt sína leið.
Eins og gefur að skilja, þá þekkti ég þennan unga mann mjög vel og þekki hann kannski ennþá betur í dag, en draumur trillukarlsins lifir enn í daga og þegar við horfum á allar þær hörmungar sem dunuð hafa yfir okkur síðust mánuði og sjáum svo sömu stóru flokkana sem bera ábyrgðina á þessum hörmungum óska enn og aftur eftir því að fá nýtt umboð til að stjórna, þá er aldrei eins mikilvægt og nú að við skoðum þann möguleika að gefa nýjum flokkum og nýju fólki tækifæri á að taka við og fyrir mitt leiti, þá mun ég amk. alltaf kjósa flokka sem styðja við smábátaveiðar og gleymum því heldur ekki að núverandi kvótakerfi hefur aldrei skilað því sem það átti að skila, þeas. uppbygging fiskistofnanna en nánast allir fiskistofnar eru að mælast á niðurleið. Það þarf að breyta, en það þarf að gera það af skynsemi.
2.6.2021 | 14:35
Vertíðin 21 og kvótakerfið
Sjómannadagshelgin er framundan og því rett að gera vertíðina upp, en fyrst aðeins um þetta svokallaða global warming.
Ég efast ekki um það að margt af því sem fram kemur varðandi hlýnun jarðar á fullan rétt á sér, en ég hef haldið mig við það undanfarin ár, sem Páll Bergþórsson hefur ítrekað sett fram, um að hlýnunarskeiðinu sé lokið og framundan sé kaldari tíð en í gær sá ég einmitt enn eina bull greinina frá einhverjum fuglafræðingum um að lundastofninn sé að fara illa út úr hlýnun sjávar.
Nýlega sá ég hins vegar nýlegar mælingar á hitastigi sjávar norður á Eyjafirði, þar sem fram kemur að sl 4 ár hafi sjórinn þar kólnað um 2 gráður. Ég skora því á fólk að halda sig innan skynsamlegra marka í umræðunni og ekki láta grípa sig eins og frægt varð fyrir nokkrum vikum síðan, þegar ónafngreindur, vel menntaður maður lét hafa eftir sér í kvöldfréttum rúv, sennilega verður ekkert gos.
Loðnan.
Já loksins fengum við pínu litla loðnuvertíð, þó fyrr hefði verið. Mikilvægið er hins vegar gríðarlegt, bæði upp á að geta nýtt skipin og vinnslurnar, að maður tali nú ekki um tekjurnar sem svo sannarlega skipta máli hér í bæ.
Það vekur hins vegar furðu margra, að norðmenn og grænlendingar fái helminginn af loðnukvótanum okkar og það vegna einhverra samninga um að einhverjar 2 útgerðir megi fara einhverja 2 togaratúra norður í smugu. Ég trúi ekki öðru en að menn fari nú í það að endurskoða þennan samning, enda er klárlega verið að henda krónunni þarna fyrir einhverja aura og það ansi margar krónur.
Almennt eru hins vegar loðnusjómenn og skipstjórar sammálu um það að óhætt hefði verið að leyfa amk 30-40 þúsund tonn til viðbótar og miðað við það sem ég sá, þá er ég sammála því og svo sannarlega hefðum við getað notað það auka fjármagn í stöðunni.
Línu og handfæraveiðar.
Alveg frá því ég man eftir mér hefur það tíðkast að handfærabátar fara og prufa að renna í loðnutorfur í von um að það sé þorskur í þeim. Ekki man ég nokkurn tímann eftir því að þetta hafi skilað nokkrum árangri, fyrr en núna. En nú gerðust þau undur og stórmerki að handfærabátar urðu allstaðar varir við þorsk á grunnslóðum við Eyjar, undir loðnutorfum og í mörgum tilvikum voru menn farnir að stilla rúllurnar á 5 faðma dýpi og nokkur dæmi um það að sumir hefðu náð að fylla tvisvar yfir daginn. Gekk þetta það vel, að þeir fáu smábátar sem enn eiga einhverjar aflaheimildir hér í Eyjum kláruðu allan sinn kvóta í mars.
Strandveiðar hafa hins vegar ekki byrjað vel, enda þorskurinn að mestu leiti farinn af grunninu í byrjun maí.
Nú er kominn mánuður síðan ég seldi minn bát frá Eyjum og þar með er enginn línubátur í Vestmannaeyjum sem rær á ársgrundvelli. Nú þegar er komin staðfesting á því, að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá mér en undanfarna áratugi hef ég veitt mikið af löngu hér við Eyjar, en ég var einmitt mjög ósáttur við þá ákvörðun Hafró sl sumar fyrir það að skerða löngukvótann og það þrátt fyrir að staða veiða á löngunni inni á (200 mílur mbl) stæði í 100% í lok júlí í fyrra, en var komin í 100% veitt þann 20. maí á þessu ári.
Allt í kring um Eyjar eru löngumið, þar er enginn að veiða neitt, enda enginn með kvóta til þess að veiða alla lönguna sem er hérna á svæðinu. Þrátt fyrir þessar staðreyndir, þá kemur fram í nýjustu mælingum Hafró að stofnstærð löngu sé á niðurleið. Lítið um heilbrigða skynsemi þar.
Veruleikafirring.
Alltaf annað slagið les maður greinar eða erindi sem vekja athygli. Eitt slíkt las ég um daginn, sem er erindi eftir Dr. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri.
Sumt er í sjálfu sér ekkert al rangt hjá honum en ma kemur fram að doktornum þyki uppbygging þorskstofnsins hafi gengið vel. Ég verð að viðurkenna alveg eins og er, að ég gapti þegar ég las þetta enda verður að hafa það í huga að þorskstofninn við Ísland í dag er 40 þúsund tonnum minni, heldur en þegar kvótakerfið var sett á 1984.
Á öðrum stað ber hann síðan saman veiðar togskipa frá því árið 1990 og svo aftur til dagsins í dag og tengur þá saman mikla og góða veið hjá skipum í dag, miðað við veiðina í kring um 1990. Fyrir þá sem eru búnir að fara í gegnum og lifað þessa sögu, þá er það amk mjög vafasamt að bera saman veiðar, jafnvel á gömlum trépungum í kringum 1990, miðað við togskip í dag sem hafa svo mikinn togkraft nú orðið, að sum þeirra draga jafn vel 2 troll og það á meir hraða jafnvel en gömlu trépungarnir. Pínulítil veruleika firring í þessu.
Kvótakerfið og Hafró.
Já, samkv nýjustu útreikningum Hafró, þá virðast flest allir stofnar vera á niðurleið, þannig að árangurinn af kerfinu er bara afar dapur, vægast sagt. Stóra spurningin er hvort að þær aðferðir sem notaðar eru í dag séu ekki í raun og veru bara úreldar aðferðir. Hér er verið að nota togararall og togað á sömu slóðum og í upphafi kvótakerfisins.
Ég heyrði í þeim á Brekanum, sem fóru og tóku togararallið í ár, en þar höfðu menn aldrei séð jafn lítil troll. Fiskuðu reyndar vel með því, en það er eitthvað mikið bogið við þetta, en almennt eru sjómenn á því að Hafró sé svona ca þremur árum á eftir með mat á þeim breytingum sem verða á fiskistofnum.
Staðreyndin er hins vegar sú, að kvótakerfið hefur aldrei skilað því sem það átti að skila og annað hvort verða menn þá að fara að breyta því og útfæra það á einhvern annan hátt, nema að sjálfsögðu, ef einhverjir eru t.d. sammála mér og mörgum sjómönnum um það að útreikningar Hafró séu einfaldlega rangir, en þetta er ofboðslega erfitt og þegar maður horfir yfir þetta annars ágæta fólk sem situr á hinu háa Alþingi okkar Íslendinga og maður skynjar jafnvel almennt þekkingarleysi á íslenskum sjávarútvegi, þá er kannski ekki furðulega að menn gefist bara upp.
Vonir og væntingar.
Ég mun gera betur skil síðar á smábátaveiðum og smábátahagsmunum í aðdraganda komandi kosninga, en það er nú þegar ljóst, að öllum líkindum, að sú manneskja sem hvað harðast hefur stutt smábátaveiðar í núverandi meirihluta sé að detta út af þingi í haust, svo menn þurfa virkilega að vanda sig. Vonandi komast flokkar að í haust sem styðja við smábáta, en það er nú þegar nokkuð ljóst hvaða flokkar gera það ekki.
Nýlega sendi smábátasjómaður á suðurnesjunum inn tilboð til ríkisstjórnar. Tilboðið gengur út á það að fá að veiða ákveðið magn af þorski og greiði ríkinu í formi veðiðgjalds 70 kr kg, en veiðigjöldin í dag eru ca. 15 kr kg. Ég á í sjálfu sér ekki von á að hann fái nokkrar undirtektir með þetta, en ég get í sjálfu sér toppað þetta léttilega.
Ég skal finna mér bát og borga til ríkisins 150 kr í veiðigjöld af þorsk og ýsu til ríkisins og fara létt með, en leigan á þorsk og ýsu í dag + núverandi veiðigjöld eru +/- 300 kr kg og fær því leiguliðinn í dag ekkert fyrir að veiða fiskinn.
Vonandi verða einhverjar breytingar eftir kosningarnar í haust, en þá er ég ekki að tala um einhverja öfga vitleysu, heldur breytingar byggðar á heilbrigðri skynsemi með hagsmuna okkar allra í huga.
Óska öllum sjómönnun og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags.
23.5.2021 | 21:14
Af eggjum og öðrum auðlindum
Það má með vissu segja að hér í Eyjum drjúpi smjör af hverju strái. Fjöllin eru full af fuglum og eggjum og sjórinn fullur af fiski (sem reyndar sumir telja að sé orðið einkaeign í dag, en nánar um það síðar).
En í þessari grein ætla ég aðeins að fjalla um eggjatökuna hjá mér í ár ásamt gömlum minningum og svara um leið spurningum sem ég þarf ótrúlega oft að svara.
Fýllinn
Ég hirti mitt fyrsta fýlsegg, minnir mig, 13 ára gamall en ég hafði veri þá í gistingu hjá frænku minni vestur í blokkum í nokkra daga og einn daginn lagði ég leið mína inn í dal og gekk upp með Hánni að vestanverðu og fyrir tilviljun klifraði ég upp á eitt nes sem ég sá þarna og rakst þar á fýl á eggi. Eggið hirti ég og fór með það til frænku minnar sem notaði það til að búa til dýrindis pönnukökur og þar með var ég kominn á bragðið.
Næstu 25 árin á eftir stundaði ég eggjatöku mest megnis í Duftþekju og náði ma. annars stærsta árið að týna yfir 2000 egg. Undanfarin ár hins vegar hef ég farið á önnur fjöll sem ekki eru jafn erfið og t.d. í fyrra safnaði ég ca. 150 eggjum. Í ár hins vegar, kom strákurinn minn með mér í þetta og náðum við að safna liðlega 600 eggjum (á ca. 20 eftir ef einhverjum langar í soðið).
Það er tvennt sem ég er oftast spurður af og svara alltaf á sama hátt. Í fyrra lagi þá hef ég oft verið spurður út í þá skoðun nokkurra fuglafræðinga og náttúrufræðinga um að fýllinn sé farfugl. Þetta er hins vegar al rangt hjá þeim, enda þekkja sjómenn þetta vel, fýllinn hérna á miðunum allt árið. Það eina sem gerist reglulega er að þegar það frystir mjög mikið, þá virðist fýllinn færa sig djúpt suður fyrir Eyjar en kemur svo alltaf aftur um leið og hlýnar.
Hin spurningin er sú: Hversu oft verpir fýllinn?
Nú er það þannig að þar sem menn fara í fýlsegg þar sem hann verpir mjög þétt, þá er ekkert óeðlilegt að menn haldi að hann sé byrjaður að verpa aftur þegar þeir koma í annað eða jafnvel þriðja skiptið, að þá virðist vera annað varp í gangi, en svo er ekki. Ég hef í gegnum árin og áratugina hreinsað það marga staði þar sem fýlnum hefur tekist að fela hreiðrið sitt mjög vel, ég hef aldrei fengið tvisvar egg í sama hreiðrinu, en merkilegt nokkuð voru tvær undantekningar í ár, en ég lenti tvisvar í því, að fá 2 egg í einu í sama hreiðrinu. En svo fattaði ég þetta að fýllinn sem sat á, sat bara á öðru egginu, hitt, sem var í bæði skiptin svolítið minna, var orðið ískalt. Ég ætla mér því að leyfa mér að giska á það, að þarna hafi einhver ungfýll, sem hefur verið kominn alveg í spreng, verpt sínu eggi en verið síðan rekinn í burtu hörðum vængi af eigandanum af hreiðrinu, enda passar fýllinn vel upp á sitt hreiður, en það er greinilegt að fýlnum er að fjölga.
Mávurinn
Ég hef alltaf tekið mávseggin með á þeim svæðum sem ég tíni, en mávurinn byrjar að verpa 10 dögum á undan fýlnum, amk. þeir fyrstu, en ég fór upp í Blátind þann 4. maí, enda er þekkt að mávurinn byrjar að verpa 2. maí. Átti ég von á því að fá 1-2 egg, en fékk 10. Skýringin er að mínu mati gríðarlega gott fæðis framboð við Eyjar, en mávurinn verpir endalaust og það þekki ég nokkuð vel og hann hættir ekki fyrr en hann er kominn með 3 egg í hreiðrið.
Fyrir liðlega 20 árum síðan var ég orðin rosalega leiður á mávapari sem var alltaf með hreiður í klettunum fyrir aftan efsta lundaveiðisætið í Miðkletti og truflaði alveg rosalega lundann og fældi hann í burtu með látum, svo ég ákvað eitt árið að ég skyldi ræna hann bara allt sumarið. Byrjaði strax í maí og svo júní og alveg fram undir 20. júlí, en þá var ég búinn að taka 18 egg frá þessu sama pari. Í byrjun september sá ég svo í sjónaukanum þetta sama par vera að þvælast með 3 unga í klettunum efst í miðkletti.
Að lokum nokkur orð um lundann
Það hefur verið svolítið um það að mönnum finnst lítið sjást af lunda. Það er eðlilegt, hann á að vera í miðju varpi núna, eða allavega byrjaður að verpa og sést því lítið á meðan, helst að sjá hann seint á kvöldin að viðra sig aðeins. Ungfuglinn hins vegar kemur yfirleitt ekki fyrr en svona í fyrsta lagi í byrjun júlí, þegar hann fer að elta sílisfuglinn upp í fjöllin. Vonandi sjáum við mikið af honum í sumar og mikið af pysju í haust.
8.5.2021 | 22:14
Að gefnu tilefni
Á morgun er vika síðan ég sigldi Blíðunni minni til Þorlákshafnar með nýjum eiganda.
Viðbrögð fólks í kring um mig hér í Eyjum eru tilefni þessarar greinar, en ég hef m.a. fengið að heyra: "Hvenær kemur nýji báturinn? Mun nýji báturinn ekki örugglega heita Blíða?" og "Þú ert að ljúga ef þú segist vera hættur."
Að mörgu leiti skiljanleg viðbrögð, enda hef ég starfað sem trillukarl nánast óslitið frá 1987, en það er tvennt sem fólk þarf að hafa í huga þegar kemur að því að fá sér bát til þess að róa og hafa tekjur, en ég hef t.d. aldrei farið á strandveiðar, enda stangast þær á við starf mitt sem hafnarvörður, en ég ætla að fjalla aðeins um þessi 2 atriði.
Kvótakerfið
Það er ekkert grín að vera leiguliði og í raun og veru hefði ég sennilega ekkert róið núna á vertíðinni ef ég hefði ekki eignast góðan vin fyrir ári síðan, fiskverkanda uppi á landi sem hefur borgað mér verð á ársgrundvelli, sem er afar sanngjarnt, en þrátt fyrir það var kvótaleigan virkilega farin að gera þetta erfitt, fyrir utan það að sjórinn á Íslandi er alveg smekk fullur af ýsu og enginn ýsukvóti í boði og þegar maður skoðan nýjustu skýrslu Hafró, þá segjast þeir ekki sjá fyrir sér neina verulega aukningu á ýsu í aflaheimildum, eða a.m.k ekki fyrr en eftir 2023.
Þorskurinn er líka farinn niður sl. 2 árin og virðist ekki vera á uppleið, miðað við útreikningar Hafró, en allt gerir þetta það að verkum að kvótaleigan hækkar og þar sem ég er ekki tilbúinn að fara út á sjó og veiða einhverjar tegundir og jafnvel í versta falli henda öðrum, þá fannst mér betra að staldra við núna.
Hafa verður líka í huga að þegar ég keypti bátinn fyrir liðlega 2 árum síðan, var nýbúið að auka aflaheimildir í ýsu um 40%. Síðan þá hafa aflaheimildir í flest öllum tegundum verið lækkaðar.
En það er önnur ástæða sem kannski hefur enn meira að segja í mínu tilviki.
Bankinn minn.
Alveg frá því að ég byrjaði í útgerð 1987 hef ég þurft að leita að fyrirgreiðslu hjá bönkunum og lent í ýmsum hremmingum á þeim tíma.
Bankinn minn í dag heitir Landsbankinn, en var Sparisjóður Vestmannaeyja og ég ætla að fara yfir það sem er búið að gerast síðan 2005.
2005 fór ég niður í Sparisjóð. Það hafði gengið mjög vel hjá mér og ég hafði hug á því að skipta út þeim litla bát sem ég átti þá fyrir stærri og öflugri.
Hitti ég þar fyrir þjónustufulltrúa og lýsti áhuga mínum á þessu, en um leið áhyggjum yfir því hversu háir vextir væru á Íslenskum lánum, en ég hafði einmitt farið illa út úr slíku láni örfáum árum áður.
Þessi þjónustufulltrúi sagði mér að það væri ekkert mál, hann skyldi redda mér láni í erlendum gjaldmiðli. Ég lýsti áhyggjum mínum yfir því ef verðbólga færi af stað og vextirnir á erlendum lánum gætu rokið upp, en þjónustufulltrúinn fullvissaði mig um það, að það væri alveg sama hvað myndi gerast, vextir á hinu erlenda láni yrðu aldrei hærri en með því að taka íslenskt lán, og þar með beit ég á og kokgleypti.
Vertíðin 2008 var mjög góða hjá mér, en það fóru samt að renna á mig 2 grímur varðandi þetta erlenda lán þegar ég fékk símtal frá þáverandi Sparisjóðsstjóra sem spurði mig að því, hvort ég hefði ekki áhuga á að fara í alvöru útgerð og kaupa mér kvóta og hann skyldi fjármagna kaupin hjá mér. Ég þakkaði fyrir gott boð, en fannst þetta það skrýtið að ég ákvað að láta þetta eiga sig og sem betur fer, því allir vita hvað gerðist haustið 2008 og hagkvæma lánið sem ég tók 2005 endaði ég sennilega með að borga tilbaka amk fjórfalt, ef ekki meira.
Ég tók m.a. þátt í málssókn á vegum LS til þessa að reyna að fá leiðréttingar á þessum lánum og unnum við málið í undirrétti, en töpuðum að sjálfsögðu í hæstarétti.
En þar með var ekki hremmingum mínum gangvart bankakerfinu lokið.
Vertíðin 2016 var ofboðslega erfið. Bæði var erfitt að fá kvóta, verðin lág og á þessum tímapunkti voru veiðigjöldin, sem þá nýlega höfðu verið færð yfir á leiguliða af ríkisstjórn Framsónkar og Sjálfstæðisflokks virkilega farin að bíta í(ég spurði reyndar þáverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurð Inga, út í þetta hér í Eyjum en hann þóttist ekkert kannast við þetta.)
23. maí var mjög sérstakur dagur hjá mér, en ég hafði árið áður verið greindur með það illa farna mjöðm, að ég fór í aðgerð þennan dag, en áður en að því kom, fór ég niður í banka og óskaði eftir annaðhvort frystingu á mínum lánum, eða þá að þau yrðu sett þá allavega á einhverskonar lægri vöxtum á meðan ég var að ná mér, en því var algjörlega hafnað og mér var tilkynnt að það eina sem mér stæðist til boða væri yfirdráttarlán með hægstum vöxtum til að borga af láninu á meðan ég var að ná mér.
Á þessum tímapunkti skuldaði ég liðlega 15 milljónir. Nákvæmlega 2 árum seinna þá tókst loksins, með hjálp góðra manna hér í bæ, að selja þennan litla kvóta sem ég átti. Fyrir hann fékk ég liðlega 26 milljónir, en þegar bankinn var búinn að taka sitt, stóðu eftir 3 milljónir. Svo það má með sanni segja að bankinn minn hafi nú verið duglegur gegnum árin að blóð sjúga mig inn að beini.
Þrátt fyrir þetta allt saman, þá ákvað ég nú í vetur þegar tíminn sem ég hafði gefið mér með þennan bát, 2 ár, var kominn, að ræða við núverandi bankastjóra í spjalli á netinu, að þar sem ég væri nú algjörlega skuldlaus við bankann um það, að ef ég hefði áhuga á að fá mér aðeins stærri bát, hvaða fyrirgreiðslur ég gæti fengið?
Svarið var nokkuð skýrt. Þú getur fengið hámark 35% lán ef mér líst á bókhaldið hjá þér og ef þú þarft meira, þá verður þú að veðsetja húsið þitt líka.
Þannig að þegar þessi tvö atriði eru lögð saman, þá held ég að flestir skilji það nú vel að þetta er nú ekkert eins spennandi og sumir halda.
Vissulega verð ég alltaf trillukarl að einhverju leiti og ef ég ætti nóg af peningum, þá væri meira en líklegt að ég myndi kaupa mér einhvern öflugan bát, en svo er ekki og í sjálfu sér er allt sem mælir gegn því, í mínu tilviki, að fara af stað aftur.
Kvótakerfið, bankinn og ég er að sjálfsögðu í annari vinnu og ekki verður þetta léttara með árunum. Hugurinn er hins vegar til staðar og verður það sjálfsagt alltaf, en í sjálfu sér hef ég lifað lengi vel draum trillukarlsins, en því má heldur ekki gleyma að svo er ég alltaf með uppi í erminni loforð um gott pláss í næsta lífi. Það er vonandi langt í það ennþá.
Þakkir.
Mig langar að þakka tveimur aðilum sérstaklega fyrir alla aðstoðina við minn síðasta bát.
Hallgrímur Rögnvaldsson hjálpaði mér alveg gríðarlega og var ómetanlegur í að standsetja bátinn fyrir mig, enda vandamálin gríðarleg í upphafi.
Sama má segja um Þórarinn Sigurðsson sem bjargaði mér eiginlega alveg gagnvart tækjabúnaðinum umborð. Það er ómetanlegt að eiga svona góða vini að.
Blíðuútgerðinni er þar með lokið, amk í bili.