Saga trillukarlsins (fjórði hluti)

Til þess að fjármagna kaupin á Óla Gísla, seinna meir Blíða VE 263, en er núna Hjalti einhverstaðar við Skagafjörð, þá fór ég niður í Sparisjóð og ræddi við einn af aðstoðarmönnum bankastjórans þá. Ég hafði brennt mig illilega á þessum íslensku lánum með tilheyrandi vöxtum. Ég hafði þá þegar heyrt um að menn væru að taka erlend lán á mun hagkvæmari vöxtum og ég fékk strax þau svör að ég gæti fengið þannig lán. Ég spurði að sjálfsögðu um, hvaða áhætta fylgdi þannig lánum og fékk þau svör að vextir á slíkum lánum yrðu aldrei hærri heldur en vextir á lánum í íslenskum krónum og ég tók erlent lán til þess að kaupa bátinn vorið 2005 og síðan Blíðukró síðar um haustið.

Það gekk það vel að það var ekkert mál að borga af þessu, en eftir hrunið 2008 þá tók ég þátt í hópmálsókn til þess að fá þessi lán leiðrétt. Málið vannst í Undirrétti en tapaðist í Hæstarétti. Ég neitaði hins vegar að taka þetta á mig og gerði það í raun og veru ekki fyrr en ég fékk uppáskrifað skjal frá aðstoðarbankastjóranum um það, að ef þessi lán yrðu einhvern tímann leiðrétt þá fengi ég það líka. Skjalið á ég enn, en ég er frekar svartsýnn á að bankinn leiðrétti þetta nokkurn tímann, en ég endaði með því að borga þessi tvö lán svona ca. fjórfalt til baka.

En þessi tími, 2005-2013, var mjög góður tími hjá mér. Ég réri aðallega á línu en fór alltaf á færi líka á sumrin og þá sérstaklega austur í kant til að veiða ufsa, en tók samt alltaf línu með mér, enda ufsinn brellinn.

Ég man eftir tveimur róðrum eitt sumarið. Þá átti ég í fyrra skiptið aðeins 4 bjóð beitt. Ég lagði þau meðfram Gjánni og var svo einhverja 6 tíma á færum í algjörum hörmungum með einhver 200 kg eða svo, en á þessa 4 bala fékk ég 3 tonn af löngu og keilu. Hitti nú aldrei aftur svona vel í, en fór nokkru seinna með meira af línu með mun minni afla en fékk þá 2 tonn af ufsa í einu reki.

Stærsta róðurinn á þennan bát minnir mig að ég hafi fengið í febrúar 2011, en þá lagði ég inni í fjöru viku áður en loðnan gekk og fékk 5,3 tonn af stórþorski á 10 bala. 

Vélin stoppaði í síðasta róðri í lok febrúar 2013. Ég stóð hins vegar mjög vel þá, hafði á árunum á undan keypt mér tonn af þorski og tonn af steinbít og a.m.k. tvisvar sinnum nokkur hundruð tonn af keilu og löngu, en já, vélin bræddi úr sér og netabáturinn Glófaxi dró mig inn og dró svo línuna fyrir mig sem ég átti eftir úti í sjó. Ég var alveg slakur yfir þessu áfalli og hringdi ekki fyrr en nokkrum dögum síðan til þess að panta vél í bátinn, en í honum var þá 230ha Perkins, en svarið olli mér miklum vonbrigðum, en mér var sagt að það tæki a.m.k. 6-8 mánuði að fá nýja vél. Ég tók mér nokkra daga til þess að hugsa minn gang og ákvað síðan að prófa að auglýsa vélarvana bátinn upp í stærri og gangmeiri bát. 2 aðilar höfðu strax samband, annar með þennan stóra Sóma í Kópavogi sem var nú ekki alveg það sem ég var að leita að. Hinn var hins vegar yfirbyggður bátur á Siglufirði.

Ég hafði að sjálfsögðu lengi verið með þann draum í maganum að eignast svona yfirbyggðan bát eftir að hafa staðið úti í öllum veðrum öll þessi ár og á myndunum sem fylgdu með þessum bát, þá var hann nánast eins og mubla, svo ég flaug til Akureyrar, tók bílaleigubíl þaðan til Siglufjörð, ég man reynda ekki hvað þessi bátur hét, en þegar ég kem umborð, þá er dekkið allt drulluskítugt og óþrifið og slor um allt, bæði á dekkinu og í lestinni. Inni í stýrishúsi var ástandið svipað og ekki batnaði það þegar ég kom niður í vélarrúm, en þar þurfti ég að vaða glussa upp á ökkla. 

Einhver strákur kom þarna sem sagðist sjá um bátinn og sagði bara að það hefði gleymst að þrífa bátinn eftir haustvertíðina, en hann setti vélina í gang og við keyrðum bátinn bara við bryggju, enda var hvasst á Siglufirði þann dag. Við leyfðum vélinni að hita sig og um leið og hún varð heit slógum við af, en við það féll olíuþrístingurinn niður í núll og með það sama gaf ég þetta upp á bátinn. 

Á leiðinni út á flugvöll hugsaði ég minn gang, en ákvað síðan að hringja í þennan aðila í Kópavogi sem hafði fullyrt að allt væri í toppstandi umborð í bátnum hjá sér og ég bauð honum að ef hann myndi setja bátinn á flot daginn eftir, þá myndi ég prufa hann með honum.

Þetta gekk eftir og ég sá þarna viss tækifæri við það að vera í tveggja véla bát, en hafði líka miklar áhyggjur af þessu, enda oft heyrt það að þetta skapaði að sjálfsögðu tvöfalt vandamál.

Bátur nr 8, Klói

Ég talaði við mjög marga aðila næstu vikuna eða svo og fékk margar sögur af Sigga á Klónni. Fékk m.a. að heyra það að hann hefði róið svo stíft, að þegar eitthvað bilaði í annari hvorri vélinni, þá hefði hann bara hent vélinni í land og sett aðra í staðinn (síðan kom í ljós að þetta var argasta þvæla). Vélarnar voru keyrðar 150 og 200 tíma eftir allsherjar upptekt hjá Vélasölunni og talaði ég m.a. a.m.k. tvisvar sinnum við fráfarandi yfirmann verkstæðisins hjá Vélasölunni, sem fullyrti að þetta væri bara eins og nýjar vélar. En já, ég keypti síðan Klóna, setti vélarvana bátinn minn upp í og borgaði 12 milljónir á milli, en fékk reyndar að hirða úr bátnum mínum það sem ég vildi, línuspil, lagningakall og einhver kör.

Heim kom ég með bátinn um mánaðarmótin mars/apríl 2013. Tók alveg góða 10 daga að gera hann kláran og kynntist þá í fyrsta skipti stjórntækjum sem ég hafði aldrei notað áður þ.e.a.s. stjórntæki tengd í tölvur aftur í vélarrúmi, en þessi stjórntæki áttu eftir að valda mér miklum höfuðverk á árunum á eftir ásamt ýmsu öðru. 

Var reyndar fljótur að ná tökum á bátnum og fiskaði vel, lenti reyndar í því um sumarið að önnur vélin stoppaði úti á sjó. Þegar málið var skoðað í landi kom í ljós að neðri hluti olíuverksins hafði dottið af í heilu lagi. Lenti svo í því að skipta um startara á annarri vélinni um haustið og skildi ekkert í því að það neistaði alltaf á öllum vírum á meðan ég var að tengja hann aftur, þó að ég væri búinn að slá öllu út. Eftir að hafa gengið á fyrri eiganda með þetta, þá viðurkenndi hann það að báturinn hafði verið allur skveraður eftir að hafa tjónast 2009, en rafvirkinn sem átti að klára rafmagnið hefði tekið svo langan tíma í verkið, að hann hefði samið sérstaklega við tryggingarfyrirtækið sitt um að fá ákveðna greiðslu og bara klára rafmagnið sjálfur og m.a. beintengt vélina framhjá töflu niður í geyma, þannig að það var stöðugt rafmagn á vélunum.

En fiskiríið gekk ágætlega, en ýsan var jú hrunin en Hafró hélt áfram að auka löngukvótann, alveg fram á 2014/15 og langt umfram það sem stofninn þoldi sem varð til þess að allir stóru línuveiðararnir af suðurnesjunum fóru að mæta hérna við Eyjar og ég tók eftir því strax haustið 2013, að það var alveg sama hvar ég lagði, alltaf fór einhver stór og lagði yfir farið hjá mér eftir að ég var kominn í land, en í síðasta róðri fyrir jólin 2013 stoppaði bakborðsvélin.

Vélina tókum við upp á milli jóla og nýárs og það vildi svo heppilega til, að þá var staddur hér í Eyjum nýr yfirmaður verkstæðis Vélasölunnar og var því viðstaddur þegar við opnuðum heddið á vélinni og sá þá eins og við, að ventlarnir höfðu verið vitlaust stilltir og það voru komin för í stimplana eftir ventlana og heddið þar með ónýtt. Þessi vélamaður sagði þá strax við mig: Hafðu engar áhyggjur, við tökum þetta á okkur, og lét mig hafa símanúmerið sitt í vinnunni.

Ég hélt áfram að róa í byrjun árs 2014 en þá bara á einni vél, sem var mun erfiðara og fékk einmitt stærsta róðurinn sem ég fékk nokkurn tímann á þennan bát í byrjun febrúar, eða 6 tonn á 14 bala. Ég byrjaði að reyna að hringja í þennan viðgerðarmann fljótlega á nýju ári, en eftir að hafa svarað mér einu sinni þá náði ég ekkert í hann oftar. Gerði mér svo ferð til Reykjavíkur á Vélasöluna í lok janúar og hitti þar á einhvern yfirmann, sem tilkynnti mér að þessar vélar hefðu verið að bila árum saman og þeir hefði reynt að halda þessu gangandi fyrir Sigga á Klónni, en nú væru þeir hættir og ég fengi engar bætur frá þeim. 

Ég fékk mér lögfræðing til að skoða málið. Í ljós kom þá að vélarnar höfðu verið gerðar upp 2010 og 2011 en Vélasalan orðið gjaldþrota 2012 og skipt um kennitölu. Ég reyndi líka að fara í mál við fyrri eiganda, en lögfræðingurinn sem skoðaði hann fyrir mig, sagði að þetta væri aðili sem væri í því að skipta um kennitölur.

Ég var svo heppinn að ég var með vélartryggingu á bátnum, þannig að ég fékk heddið í gegnum tryggingarnar, en samt kostaði þetta mig einhverjar 2 milljónir.

Sumarið 2014 fór svo tengið á annarri vélinni og lenti ég í ægilegu veseni með að koma því öllu í stand aftur, en samtals tók ég bátinn 7 sinnum upp á einum mánuði, tvisvar sinnum var skipt um tengi á milli gírs og vélar og tvisvar sinnum um tengið fyrir aftan gírinn, sem var ofboðslega viðkvæmt að eiga við. Einnig þurfti ég að skipta um vélarpúðana, en öllu þessu kom ég í ágætt stand, hélt áfram að fiska vel 2014/15 en ég hafði alltaf fram að þessu reynt að vera í föstum viðskiptum með allan fisk, þannig að ég vissi hvað ég fengi, en einhverra hluta vegna lokaðist þetta allt saman á þessu ári. Hafði mikið að segja að aðili sem keypt hafði af mér alla löngu varð fyrir því áfalli, eins og margir aðrir minni verkendur, að Vísir í Grindavík hafði lent í einhvers konar fjárhagskröggum í einhverju ævintýri erlendis og setti á einu bretti 2000 tonn af lönguflökum á sölu og til þess að losa þetta strax, þá buðu þeir þennan farm á 25% afslætti. Til að kóróna þetta, þá hafði öll kvótaleiga hækkað og 2015 kemur inn nýr sjávarútvegsráðherra, núverandi formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson. Eitt af hans fyrstu verkum var að færa veiðigjöldin yfir á leiguliðana. Ég spurði hann reyndar að þessu vorið 2016, en í fyrstu kannaðist hann ekki við málið, en svo kom bara: Úps.

Núverandi ráðherra og þeir sem hafa fylgt á eftir Sigurði hafa komið, hafa svo sem ekkert gert til að leiðrétta þetta mál.

En árið 2015 var mjög erfitt og eina svarið sem maður hafði við öllu því sem hafði gengið á var að leggja harðar að sér, en einmitt um vorið 2015 fór ég að finna fyrir verkjum í hægri mjöðminni og varð síðar um vorið settur á biðlista fyrir mjaðmakúluskipti. 2015/16 réri ég áfram af miklum krafti, en kvótaleigan og svo það að þurfa að borga veiðigjöldin líka gerði það einfaldlega að út úr vertíðinni 2016 hafði ég í raun og veru ekki neitt nema það að maður gat borgað af sínum skuldbindingum.

23. maí 2016 fer ég í mjaðmakúluskipti. 4 dögum áður fer ég niður í það sem þá var orðið Landsbanki Íslands hér í Vestmannaeyjum og óskaði eftir frystingu á mínum lánum. Því var algjörlega hafnað og mér tilkynnt að það eina sem ég gæti fengið væri yfirdráttarlán með 12% vöxtum. Ég hafði ekkert annað val á þessum tíma, enda hafði bankinn alltaf passað upp á það að í hvert skipti sem ég tók einhver lán, þá voru þau bæði með veði í útgerðinni og líka með sjálfskuldarábyrgð, svo bankarnir passa upp á sitt. 

Aðgerðin gekk vel og ég prufaði að beita einhver 2 bjóð og fara í róður í lok júlí, en það tók vel í. Í byrjun ágúst 2016 sá ég síðan auglýst eftir hafnarverði hér í Vestmannaeyjum. Ég sótti um og fékk starfið, sem að sjálfsögðu breytti öllu útgerðarferli hjá mér, enda gríðarlega mikið að gera hjá hafnarvörðum á þeim tíma, enda vorum við þá bara 3 hafnarverðir og 1 aukamaður, í dag erum við 5 og með aukamenn líka.

Ég fór einhverja róðra samt þarna um haustið og veiddi hlutdeildina. Það var svo vorið 2017 sem ég ákvað að setja bátinn á sölu, en það er ekki fyrr en vorið 2018 sem allt smellir hjá mér, en þá var bankinn farinn að anda ansi hressilega niður í hálsmálið hjá mér. Ég hafði reynt þá um nokkurra mánaða skeið að selja kvótann, en engin vildi kaupa enda uppistaðan keila, langa og ýsa og það var ekki fyrr ein í þriðju tilraun, í gegnum góða vini, að þeir í Ísfélaginu fengust til þess að kaupa þetta af mér á gangvirði, á 26,5 milljónir. Peningurinn fór að sjálfsögðu beint upp í banka og eftir að bankinn hafði lokið sér af, þá fékk ég 3 milljónir. 

Aðeins örfáum vikum eftir að þetta gerðist, þá keypti ágætur vinur minn úr Hafnarfirði bátinn af mér á 7 milljónir, eða tæplega helminginn af því sem ég hafði borgað fyrir hann á sínum tíma. Um svipað leyti seldi ég króna mína líka, þannig að ég gat hreinsað upp alla skattana á næstu tveimur árum, en það myndaðist að sjálfsögðu hagnaður og frúin þurfti að endurgreiða örorkubæturnar sínar 2 ár aftur í tímann og kláraði hún þá endurgreiðslu núna í desember 22. 

En á ýmsu hefur gengið síðan þá. 

Framhald síðar.


Áramót 2022/23

Ansi viðburðarríkt ár að baki hjá mér og margir stórir atburðir, en um mánaðamótin mars/apríl tók ég sæti á Alþingi íslendinga í fyrsta skipti og leysti þar af í viku fyrir Flokk fólksins. Sat 4 virka þingdaga og hélt 7 ræður á þeim tíma. Ekki ætla ég að leggja dóm á það sjálfur hvernig mér tókst til, en mér heyrist flest allir aðrir vera sáttir við mína innkomu þarna, en tímann notaði ég fyrst og fremst til að læra hvernig allt gengur fyrir sig, sem vonandi mun nýtast mér síðar.

Í sömu viku og ég sat á Alþingi rann út fresturinn til að senda inn gögn til framboðs til bæjarstjórnar. Ekki tókst þetta alveg hjá okkur í Flokki fólksins, en ótrúlega margir höfðu samband við mig eftir að ég kom heim af þinginu og voru ósáttir við það að ég skyldi ekki kýla á þetta, en fólk verður þá að gefa kost á sér, en við vorum ótrúlega nálægt þessu og mig langar að ítreka enn og aftur þakkir til þeirra sem tóku þátt í þessu og um leið til allra þeirra sem við ræddum við. 

Í upphafi árs var ég beðin um að hjálpa til við að koma á legg félagi dýravina í Vestmannaeyjum. Lagði ég til að stofnað yrði félag og skipuð stjórn sem og gert var og tók ég m.a. sæti í stjórninni til að byrja með. Margt hefur áunnist á árinu, en ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun stjórnar Herjólfs ohf um að bjóða aðeins upp á geymslu í búri eða bílum, eða að fólk húki úti á dekki með dýrin í öllum veðrum. Ég dró mig út úr stjórn dýravinafélagsins út af ýmsum ástæðum, en styð félagið samt áfram af heilum hug.

Lunda og eggja sumarið hófst með miklum látum hjá mér í maí, en samtals týndi ég um 1000 egg, hafði hins vegar ákveðið fyrirfram að sleppa því að fara 8. árið í röð til Grímseyjar og láta reyna á þetta hér í Eyjum. Ég náði mér í soðið, en varð fyrir töluverðum vonbrigðum með stöðu lundastofnsins og aldursdreifinguna í veiðinni. Framhaldið er að mínu mati í algjörri óvissu.

Útgerðin

Eftir miklar pælingar síðast liðinn vetur og fram á vor, þá ákvað ég að skoða að finna mér bát sem væri af réttri stærð. Leitin hófst strax í lok maí og endaði ég sennilega með því að keyra rúmlega hringinn til þess að finna rétta bátinn á rétta verðinu, fann ég ekki fyrr en í september og þegar þetta er skrifað, þá hef ég tekið 13 róðra í haust og fiskað einhver 26 tonn og gengið bara framar vonum að mestu leyti. 

Desember hefur verið óvenju erfiður hér í Eyjum, ekki bara veðurfarið, heldur hefur ótrúlega mikið af fólki sem ég tengist á einn eða annan hátt horfið af sjónarsviðinu og jafnvel fólk á besta aldri og langar mig að nota tækifærið að votta öllum sem misst hafa ástvini á árinu innilega samúð mína. Vonandi verður nýja árið betra heldur en það síðasta að öllu leyti, bæði til lands og sjávar. 

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.


Saga trillukarlsins (þriðji hluti)

Ákvörðun Árna Mathiessen árið ´99 um að afnema þorskaflahámarkskerfið og setja allt í kvóta á smábáta hafði víðtækar og skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Fyrir mig, þá ákvað ég að taka þetta fyrsta ár eftir kvótasetningu og sjá svo til, en strax um haustið sá ég að þetta gengi ekki með svona litlum kvóta, enda hafði ég í raun og veru aðeins kvóta til að róa í 1-2 mánuði og brúaði bilið m.a. fyrsta veturinn að róa með Veiguna í dagakerfi, en það var svo um vorið 2000 sem ég tók þá ákvörðun að ég vildi ekki gefast upp alveg strax, en til þess að geta haldið áfram þá þyrfti ég stærri og öflugri bát. 

Varðandi kvótasetninguna á keilu og löngu, þá skyldi ég ekki fyrr en mörgum árum síðan, hvers vegna ég fékk svona litla úthlutun í þessum tegundum, mig minnir að fyrsta úthlutunin í keilu hafi aðeins verið um 4 tonn, en þar sem ég hafði bara verið á línu á þessum litla bát, þá hafði ég tekið á hverju sumri 20-30 tonn af keilu, en í dag veiðir engin keilu við Eyjar og tegundin er í raun og veru friðuð, sem er svolítið sérstakt þegar haft er í huga að þorskurinn gengur upp í hraunin á vertíðinni, þar sem keilan heldur sig, til hrygningu og hrygnir, og keilan étur einhver ósköp af þorskhrognum og hrygnir svo ekki fyrr en þorskurinn hefur lokið sér af, þannig að það má með sanni segja að við séum búin að friða tíkallinn, en fóðrum hann með milljónköllum.

En já, nokkrum árum síðar sagði skipstjóri, sem starfaði hjá ónafngreindu fyrirtæki, sem á einhvern furðulegan hátt fékk í úthlutun ´99 uþb helminginn af keilu og löngukvótanum, hvernig hann hafði, ásamt áhöfninni sinni, undirbúið landið fyrir þessa kvótasetningu sem þeir fengu vitneskju um í gegn um tengsl sín við Framsóknarflokkinn, en þá einmitt heyrði maður í fyrsta skipti þessa setningu:

Ef þú nærð að stela því, þá áttu það.

Litla afturbyggða bátinn minn seldi ég um sumarið og sá nýlega mynd af honum norður í landi, þar sem búið er að breyta honum í frambyggðan bát, en hugsanlega hefði ég aldrei skipt um bát ef kvótakerfinu hefði ekki verið breytt á þessum tíma. 

Bátur nr. 5, Ragnar

Vorið 2000 fór ég að leita mér að stærri bát, en eins og alltaf með ekkert of mikið fjármagn í höndunum. Ragnar var bátur sem var staddur í Reykjavíkurhöfn, en í eigu feðga frá Sandgerði sem m.a. unnu þar á plöstunarverkstæði og höfðu gert ákveðnar breytingar á bátnum (hækkað dekkið á honum), en þetta var svokallaður sænskur Fisherman Mön ef ég man rétt með Cummings vél. 

Mér leist vel á bátinn við fyrstu prufu, en tók eftir því að það lækkaði aðeins olían á gírnum við prufu. Eftir að við náðum saman um verð ákvað ég því að fara á deginum áður en ég átti að skrifa undir og láta bátinn ganga með aðkúplað í 2 tíma og kom þá í ljós að lækkað hafði um helming á gírnum. Ég fór fram á það við eigendurna að þeir létu skoða þetta og kom þá í ljós að gírinn var ónýtur, en þeir fengu nýjan uppgerðan gír í staðinn, þannig að það má segja að ég hafi sloppið fyrir horn þarna enda kominn með aðeins meiri reynslu. 

Bátinn kom ég með heim um vorið 2000 og að sjálfsögðu fékk hann nafnið Blíða.

Hugmyndin sem ég hafði ákveðið að gefa tækifæri var sú, að fara í að veiða drottningu hafsins, lúðuna. Lúðuveiðarnar um sumarið gegnu í sjálfu sér ágætlega og einnig 2001, en þetta var nú ekki að skilja mikið eftir sig, en svona til gamans, lítil lúðuveiði saga.

Ég hafði lagt lúðulínu bæði við Suðureyna og eins eftir Álseyjarrifinu. Dró fyrst við Suðureyna og fékk einhverjar 3-4 litlar, en eftir að hafa dregið hluta af línunni við Álseyjarrifið þá fann ég að það þyngdist á línunni og upp kom 100 kg lúða. Ég setti strax ífæruna í hana, en þá vandaðist málið, því hæðin frá sjó og upp á rekkverk á þessum bát var vel yfir metir og það var alveg sama hvað ég rembdist, ég náði henni ekki upp, en þar sem það var alveg logn og alveg rennisléttur sjór og ég ætlaði sko alls ekki að missa lúðuna, þá endaði þetta með því að ég kom sjálfum mér upp á rekkverkið, lyfti eins og ég gat og lét mig detta inn í bátinn með lúðuna í fanginu og er enn með lítið ör á handarbakinu eftir átökin, en ég hugsaði svo þegar ég var búinn að þessu að ég hefði nú getað dregið hana aftur með bátnum og komið henni inn þar sem lægra var, og það var eins gott að ég hugsaði fyrir þessu, því að eftir einn auðan krók kom önnur 100 kg lúða. 

Lúðuaflinn eftir þennan dag losaði kannski 350 kg alls og verðin voru ekkert sérstök, þannig að það sat ekkert mikið eftir. (aðeins varðandi þetta lúðuveiðibann sem gilt hefur í nokkur ár. Ég hef ekki ennþá hitt sjómann sem skilur þetta bull).

Vertíðina 2001-2002 fór að koma upp vandamál með þennan bát, en eins og ég sagði í upphafi, þá höfðu fyrrum eigendur hækkað dekkið á bátnum, sem varð til þess að það myndaðist raki undir vélarlúgunni og ég fór að lenda í því á svona 6-8 vikna fresti að þurfa að skipta um bæði startara og altinator.

Ýmislegt var reynt til þess að laga þetta, en í byrjun árs 2002 var mér orðið ljóst að þetta væri ekki að ganga og ég aftur kominn í skuldasöfnun. Tók ég þá ákvörðun að setja bátinn og kvótann á sölu á vertíðinni 2002, en það var mjög lítill áhugi á þessum pakka, enda kvótinn mestmegnis keila og langa ásamt ýsu, en aðeins 3,6 tonn af þorski. 

Það liðu 3 mánuðir þangað til loks aðilar á Snæfellsnesi sýndu þessu áhuga, en þeir vildu kaupa bátinn til þess að nota hann á grásleppuveiðum, en vildu alls ekki stærsta hluta af kvótanum, en þetta endaði með því að þeir fengu bátinn og þorskkvótann á 500 þúsund krónur tonnið. Eitthvað smávegis seldi ég af kvótanum í viðbót, en ca. 3/4 af kvótanum fékk ég Val Andersen á Lunda VE að geyma fyrir mig.

Ekki dugði þetta alveg til að klára skuldirnar, en ég samdi við þáverandi Sparisjóðsstjóra um að færa síðustu milljónina yfir á húsið hjá mér. 

2002 og 2003 réri ég m.a. með Veiguna, sem í lok þess tíma var seld. Fór einhverja túra með Val og fleirum en tók svo netavertíðina 2003 á gamla Brynjólfi og tók m.a. netarallið með þeim um vorið, sem er náttúrulega algjör brandari þegar grannt er skoðað.

Í byrjun árs 2004 var mér boðið að fara með Péturseyna, fyrst á netum en svo á línu. Pétursey var 16 tonna bátur. Fiskaði ég ágætlega á vertíðinni og um sumarið í net, og enn betur á línuna um haustið 2004, en þá m.a. rakst ég á það, að hér væri hægt að veiða töluvert af skötu. En um vorið 2004 fór besti vinur minn, Dolli í Sjónarhól, að suða í mér að kaupa af sér Freyjuna, en hann hafði selt kvótann árið áður og endaði það með því að ég lét undan, þó að ég væri ekki að leita mér að bát.

Bátur nr. 6, Freyja VE

Ekki mátti ég breyta nafninu, svo ég hélt því, en Freyjan gekk ekki nema 5 mílur. Ég keypti samt línuspil á hann og lét útbúa fyrir mig haustið 2004 og skipti yfir á Freyjuna um mánaðarmótin okt/nóv 2004. Nánast hálfur báturinn var stýrishús, en mig minnir að þessir bátar heiti Viksund.

Ég fór strax á línu og með því að leggja í skötu og leigja mér fyrir meðafla, sem var þá hægt orðið að fá, þá gekk svo vel að ég m.a. þarna í nóvember þurfti að tvísækja þrisvar sinnum, en vandamálið við Freyjuna var að þegar maður var kominn með svona 12-1300 kg í bátinn, þá var hann gjörsamlega á rassgatinu, en það var ekkert óskemmtilegt að sjá ánægjusvipinn á Dolla, sem að sjálfsögðu mætti alltaf til að hífa hjá mér, en strax um vorið var ég orðin uppgefinn á því að vera á þessum 5 mílum með þennan litla bát og ákvað ég því að prófa að auglýsa eftir stærri bát og þá einhverjum sem væri þá tilbúin að taka þennan litla bát uppí. 

Bátur nr. 7, Óli Gísla

Óli Gísla var tegund sem smíðuð var á Stokkseyri, minnir mig, með 230 ha Perkins og lengingu frá upprunalegri smíði. Eigandinn hafði fengið sér stærri bát, stórútgerðarmaður úr Sandgerði, en hann var tilbúinn að taka Freyjuna uppí, vegna þess að hann var búinn að selja hana áfram, en setti mér það skilyrði að ég yrði að sigla Freyjunni frá Vestmannaeyjum til Sandgerðis. 

Ég gerði það og þó svo að vegalengdin sé ekkert rosalega mikil, þá var ég samt 18 klukkutíma á Freyjunni þessa leið. Stoppaði aðeins í 2 tíma og sigldi svo tilbaka á Óla Gísla sem varð svo síðar Blíðan mín. 

Mikið þótti mér vænt um það þegar Dolli vinur minn kom umborð í fyrsta skipti, en hann hafði verið ósáttur við það að ég skyldi setja Freyjuna á sölu, en Dolli sagði eftir að hafa skoðað bátinn að ég hafði gert hárrétt með þessu.

Þessi bátur reyndist mér afar vel. Fyrri eigandi hafði sagt mér að vélin væri komin í 11 þúsund tíma, en hún ætti nú samt a.m.k. 2 ár eftir. 

Þetta gerðist vorið 2005 og vélin gerði gott betur en að duga í 2 ár, en hún gafst upp í lok febrúar 2013 og má með sanni segja að þessi ár hafi verið mín bestu ár í þessu og jafnaðaraflinn verið þetta í kring um 250 tonn á ári. Bæði leigukvóti, en um leið var ég líka svo heppinn að það var mikill uppgangur í ýsunni á þessum árum.

Þar kom til það eina sem að ég man eftir að Árni Mathiessen, sjávarútvegsráðherra, hafði gert af viti, en þá tók hann fram fyrir hendurnar á Hafró, minnir mig 2002 eða 03 og jók verulega ýsukvótann og merkilegt nokkuð, Hafró hélt svo áfram að auka alveg til fiskveiðiársins 2007/08 og var úthlutunin fyrir það fiskveiðiár 105 þúsund tonn, en þá kom til nýr sjávarútvegsráðherra að vestan, Einar Guðfinnsson, en snurvoðasjómenn úr Þorlákshöfn og af Suðurnesjunum höfðu kvartað mikið yfir því að komast ekki í fjörurnar innan við Eyjar, en þetta var allt saman opnað í október 2007 og aðeins 4 árum síðar var ýsukvótinn aðeins 36 þúsund tonn.Merkilegt nokkuð þá er fjaran enn opin fyrir snurvoð . 

En eitt að því sem hafði hjálpað mér mikið á þessum uppgangsárum á ýsunni var að góður vinur minn var orðinn útgerðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og fékk ég m.a. að veiða ýsu um nokkurra ára skeið fyrir Ísfélagið og þessi góði vinur minn er nú enn að hjálpa mér í dag með leigukvóta, en það er nú önnur saga.


Saga trillukarlsins (annar hluti)

Það má segja að árið ´92 hafi verið skásta árið það sem af var og mikill léttir að losna við skuldina í bankanum, en ég var ennþá að borga mánaðarlegar greiðslur til aðilans sem seldi mér bátinn. 

´93 byrjaði hins vegar á sama hátt og þegar ég byrjaði með þennan bát, sem við bræður höfðum gefið nafnið Siggi Munda, en á vorvertíðinni ´93 fór gírinn í annað skiptið. Eftir að það var komið í lag gekk ágætlega að fiska, en ég var ekki laus við biliríið, því að vélin sprengdi af sér headpakninguna, þannig að þegar smábátastoppið byrjaði aftur 15. nóvember var staðan einfaldlega þannig að bankinn var búinn að stoppa á frekari fyrirgreiðslur, en fyrri eigandi hélt að sjálfsögðu áfram að rukka. 

Ég var svo heppinn að það gaus upp síld við Eyjar um haustið og fékk ég vinnu inni í Vinnslustöð, þar sem ég hafði reyndar unnið í mörg ár fram að því, enda alltaf unnið með útgerðinni.

Báturinn var boðinn upp um miðjan desember ´93. Í aðdragandanum fór ég og hitti bankastjórann minn, sem fullvissaði mig um það að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, hann myndi leysa til sín bátinn og við síðan að setjast niður á nýju ári og semja um greiðslur og tókumst við í hendur upp á þetta. 

Einnig fór ég og hitti lögfræðing bankans sem vissi þar af leiðandi af þessu samkomulagi, sem og sýslumaðurinn sem átti að bjóða bátinn upp. Ég var í vinnu daginn sem uppboðið fór fram og bað því besta vin minn, Dolla á Freyjunni að mæta og fylgjast með. Nokkru áður en vinnu lauk hjá mér kom Dolli með þær skelfilegu fréttir að uppboðið hafði farið fram, en bankinn hætt við á síðustu stundu á bjóða, enda var bankinn svo sem líka með sjálfskuldarábyrgð á sínu láni, en sá sem seldi mér bátinn tók bátinn á uppboðinu og svolítið sérstakt að meira að segja lögfræðingur bankans bauð í bátinn og sagði mér síðar meir, að hann hefði gert það vegna þess að þetta var skyndiákvörðun bankastjórans að bjóða ekki í, í samræmi við það sem þeir höfðu rætt áður.

Sá sem seldi mér bátinn hafði því ekki bara fengið 2/3 af honum borgaðan, heldur fengið bátinn líka. Það sem skeði síðan í framhaldinu er eitthvað sem maður hefði hreinlega ekki getað skáldað upp.

Snemma í janúar ´94 hafði maður hér í Eyjum samband við mig, sem þekkti til þessa aðila sem átti þá bátinn, og sagði mér að ef að við ætluðum ekkert að reyna að semja um skuldina myndi hann sækja bátinn.

Ég óskaði þá eftir fundi með bankastjóranum, sem ég fékk nokkrum dögum síðar. Þá var bankastjórinn hinn ljúfasti, sagði að þetta hefðu allt saman verið mistök og bað mig að hafa samband við lögfræðing fyrri eiganda og fara í það að ganga frá því að kaupa bátinn aftur.

Með þetta fór ég þá niður á bryggju til að kíkja á bátinn, en þá var hann horfinn. Fyrri eigandi hafði komið deginum áður, siglt bátnum yfir að flutningaskipi þar sem hann var hífður upp og báturinn var kominn í skip á leiðinni vestur. 

Ég lét bankastjórann vita að þessu, sem sagði að þetta væri ekkert mál, við látum bara senda hann tilbaka, en þá gripu örlögin inn í, en þannig var á þessum tíma að flutningaskip gengu hálfhring í kring um Ísland. Þetta skip sem fór frá Vestmannaeyjum með bátinn umborð, sem átti að fara með til Ólafsvíkur, sleppti því í fyrri hálfhringnum og hélt áfram norður og austur til Húsavíkur og svo tilbaka og ætlaði þá að skila bátnum af sér í bakaleiðinni, en á leiðinni út af vestfjörðum lenti skipið í ofsaveðri.

Fyrstu fréttir sem ég fékk voru þær að báturinn hafði losnað í skipinu og skemmst eitthvað. Seinna meir var mér sagt að hann hafði einfaldlega mölbrotnað og verið urðaður og til þess að kóróna það, þá hafði þessi aðili sem tók bátinn til sín á uppboðinu gleymt að tryggja hann.

Eftir sat ég því bátslaus með töluverða skuld við bankann og til að kóróna það, þá fengum við bræður á okkur málssókn um vorið frá þessum aðila fyrir vestan, þar sem hann reyndi að fá okkur dæmda til þess að borga honum restina af skuldabréfinu, en við fengum okkur lögfræðing og unnum það mál að sjálfsögðu, en í málsgögnunum kom m.a. fram að hann hefði tekið hina nýuppgerðu vél úr bátnum og selt hana fyrir ágætis pening. Það sem kannski er enn furðulegra, svona eftir á að hyggja, er að þessi aðili virðist hafa verið einfaldlega eins óheiðarlegur og menn mögulega geta verið, því á síðasta ári sendi ágætur vinur minn austur á fjörðum mynd af bátnum, þar sem hann stendur á geymslusvæði á Snæfellsnesi. Varðandi þessa 2 báta sem höfðu fengið nafnið Siggi Munda, þá sagði hún móðir mín mér það nokkru síðar, að hann langafi hefði aldrei verið hrifinn af því að vera kallaður Siggi Munda.

Einhverjum hefði kannski fallist hendur eftir þetta og látið þetta eiga sig, en einu sinni trillukarl, alltaf trillukarl. 

Sumarið ´94 hringdi pabbi minn í Keflavík í mig og sagði mér frá litlum, mjög ódýrum bát, ef ég hefði áhuga?

Bátur nr. 4, Kóri

Já, til Keflavíkur fór ég sumarið ´94 og skoðaði bát sem hét Kóri, þetta var afturbyggður plastbátur með tré stýrishúsi og í honum var gömul Lister loftkæld vél. Lítill hvalbakur var á bátnum, en það sem ég sá hvað best við hann var að hann var mjög hár á öldunni. Ekki man ég alveg, hvað ég borgaði fyrir hann, en það var ekki mikið, en þar sem ég átti nú ekki bót fyrir rassgatið á mér, þá fékk ég lánað uppi í frystihúsi fyrir bátnum. Ég setti í kaupsamninginn að seljandi yrði að koma bátnum til Þorlákshafnar, sem og hann gerði.

Ég fékk lánaðan gúmmíbát hér í Eyjum. Það sem var rosalega sérstakt við þennan bát var, að það var ekkert stýri í honum, heldur voru spottar sitthvoru megin sem maður togaði í til þess að stýra. Heimferðin gekk nú ekki alveg eins vel og ég hafði vonað. Þessi bátur hafði bara verið notaður í til þess að fá sér í soðið og aldrei siglt svona langa leið. 

Í fyrstu gekk þetta vel, en þegar ég var kominn austur undir Þrídranga, var eins og báturinn færi smátt og smátt að hægja á sér. Ekki fann ég neitt að, nógur vökvi, nóg olía, en gírinn virtist smátt og smátt hætta. Síðasta kaflann til Eyja gekk báturinn svona ca. 1 mílu á klukkustund og mig minnir að allt í allt hafi siglingin þessar 40 mílur tekið einhverja 17-18 klukkutíma.

Það komu menn á móti mér og vildu draga mig síðasta spölinn, en ég vildi klára þetta alla leið og gerði það.

Daginn eftir fékk ég mann til þess að kíkja á gírinn og kom þá í ljós að fyrri eigandi hafði einhvern tímann skipt um borða í gírnum, en lent í vandræðum við að koma öllum gormunum í og vantaði helminginn af þeim í gírinn, en við vorum fljótir að redda því. 

Bróðir minn útbjó tréhjól með handfangi framá og græjaði víra í blakkir aftur í stýrið. Einhver staðar fékk ég spildælu með skífu á og mig minnir að Siggi Gúm hafi búið til spil úr þessu öllu með bútum héðan og þaðan.

Ég fór strax á línu í lok sumars og fór aldrei á færi á þessum bát, en það kom sér rosalega vel, því þarna var ennþá í gangi þetta svokallaða þorskaflahámarkskerfi. Besta kerfi sem nokkurn tímann hefur verið á Íslandi. Reyndar var ekki settur kvóti á þorskinn fyrr en árið eftir á þessa báta, en ég var áfram frjáls í öllum öðrum tegundum. 

En það var einmitt þarna í lok sumars ´94, þar sem ég er á heimleið úr róðri sunnan við Eyjar og er einmitt að velta fyrir mér þessu nafni sem mér fannst nú ekki fallegt, Kóri, í renniblíðu, sem það kom skyndilega upp hjá mér, Blíða, og síðan þá hafa allir mínir bátar heitið Blíða.

Í stuttu máli má segja að það hafi gengið afar vel á Blíðunni minni og m.a. komst ég upp á lagið við það veturinn eftir, þegar hann lá mikið í suðvestan bræli og allir í landi, að ég réri oft bara út að Urðarvita og lagði frá Urðarvita í norður. Einnig réri ég oft í austanáttum og lagði þá í skjóli við Elliðaey og Bjarnarey, en ég man eftir því að Hermann á Betunni kallaði mig einu sinni veðurskipið.

Þetta var nú ekki nema þriggja tonna bátur, en það gekk bara vel og það vel, mig minnir að það hafi verið ´97, þegar vélin loksins fór að láta illa og stundum stoppaði hún úti á sjó og ég varð að bíða í smá stund með að reyna að starta henni í gang. 

Þetta endaði með því að ég tók bátinn upp og fór með hann upp á verkstæði, þar sem ég hafði samið við plastara um að búa til nýtt stýrishús á hann, nýjan og stærri hvalbak. Einnig keypti ég nýuppgerða 36 ha Buch vél með gír og setti í hann. Hélt svo áfram að fiska vel, en það voru klárlega breytingar framundan, en 1998 féll hinn svokallaði Valdimarsdómur og um leið duttu upp fyrir þessar fáránlegu úreldingarreglur, en það sem var öllu verra, þegar 1999 ákvað þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiessen að þorskaflahámarkskerfið yrði tekið af og allt sett í kvóta, með þeim hörmungum sem því fylgdi. 

Þann 1. sept ´99 hóf ég því róðra með úthlutun í öllu, en þó ekki. Ég fór á sjó snemma í september, en ég hafði tekið eftir því, að ég hafði ekki fengið úthlutað neinum kvóta í keilu og löngu. Létti mér mikið við það, því ég hélt að þar með væru þessar tegundir utan kvóta.

Kunningi minn á bryggjunni sagði mér að það hefði eitthvað klúðrast þarna og varaði mig við því að leggja í þessar tegundir. Ákvað ég því að leggja línuna alla á ýsuslóð suður með sundum. Áður en ég byrjaði að draga hringdi kunningi minn í mig aftur og sagðist hafa fengið staðfest, að við hefðum átt að fá líka úthlutun í keilu og löngu.

Ákvað ég þá að hringja beint í Fiskistofu. Hitti þar á einhvern ungan mann og útskýrði fyrir honum málið. Þessi aðili svaraði því þannig til að fyrst ég hefði ekki fengið úthlutun, en verið að veiða þessar tegundir árum saman, þá hlytu þær að vera áfram utan kvóta, en sagði svo: Ég ætla að kanna málið og hringi í þig á eftir.

Ég var búinn að draga allt saman þegar hann hringdi aftur og þá með þau skilaboð, að jú, þessar tegundir væru komnar í kvóta hjá mér líka, en að einhverjir sem sáu um að úthluta aflaheimildum í þessum tegundum hefðu hreinlega ekki fattað það, að smábátar væru líka að veiða þessar tegundir. Ég sagði eins og var að ég væri búinn að draga og væri þetta mest ýsa, en ég hefði líka fengir 4 keilur og 2 löngur og hvað á ég að gera þá við þær?

Svarið var á þann hátt að hann yrði að fá að ráðfæra sig við aðra hjá Fiskistofu og myndi hringja í mig aftur. Eftir smá stund hringdi hann aftur og þá með þetta:

Ef þú kemur í land með keilu og löngu sem þú átt ekki kvóta fyrir, þá tökum við af þér veiðileyfið.

Ég reifst og skammaðist í þessum aðila í þó nokkra stund, enda hefur það verið mottóið hjá mér í minni útgerð að henda aldrei fiski. En honum var ekki haggað. 

Ég sigldi af stað, var um 1,5 klukkutíma að sigla heim. Á heimleiðinni ákvað ég að hringja í konuna og sagði henni frá þessu, að ég gæti ekki hugsað mér að henda þessum fiskum, en það myndi kosta mér veiðileyfið að koma með þá í land. Frúin var með þetta alveg á hreinu, þú ferð ekki að missa veiðileyfið fyrir eitthvað klúður hjá ráðherra og Fiskistofu. 

Ég hugsaði minn gang. Var svo litið á stærri lönguna og sá bregða fyrir andlitinu á sjávarútvegsráðherra og var ótrúlega snöggur að henda henni út í, og hinum svo á eftir. 

Þegar ég kom að bryggju, komu 3 starfsmenn fiskistofu á móti mér. Þeir höfðu greinilega flogið skyndilega til Eyja til þess að hirða veiðileyfið af þriggja tonna bát og spurðu mig allir: 

Hvar eru keilurnar og löngurnar sem þú ert búinn að veiða?

Ég svaraði: Ég átti víst ekki kvóta fyrir þessu og sagði það við keiluna og lönguna og þær kysstu mig bless um leið og ég sleppti þeim í sjóinn.

2 hinna yngri starfsmenn Fiskistofu fóru strax, en sá elsti stóð þarna og spjallaði við mig í nokkra stund um kvótakerfið og allt þetta rugl sem því fylgir og sagði mér síðan setningu, sem ég hef aldrei síðan getað gleymt:

Veistu það, vinur, að þetta kvótakerfi er eitthvað það skelfilegasta og versta fiskveiðistjórnunarkerfi sem nokkurn tímann hefur verið fundið upp, hvað þá unnið eftir. 

Ég man að ég svaraði þessu þannig:

Ja, lengi getur vont versnað.

 

Framhald síðar.


Saga trillukarlsins (fyrsti hluti)

Formáli

Á undanförnum árum hef ég oft heyrt margs konar sögur af mínum ferli sem trillukarl í Vestmannaeyjum, og nánast undantekningalaust rangfærslur og þá sérstaklega hjá pólitískum andstæðingum. 

Einnig pælingar um það, hversu marga báta ég hef átt og hvers vegna. En hvernig var þetta í raun og veru?

Upphafið á þessu var það, að eftir að hafa róið á togurum á tímabilinu 1985-87, var ég fljótur að uppgötva það að það ætti ekki við mig. Síðla sumars 1987 hitti ég svo að máli vin minn Þráinn Sigurðsson heitinn og bauð hann mér að koma nokkra róðra með sér, sem ég og gerði og líkaði vel. 

Ég átti enga peninga, en samt eitthvað smávegis af skyldusparnaði og það var því í nóvember 1987, fyrir nákvæmlega 35 árum síðan, sem ég kaupi fyrsta bátinn. 

Bátur nr. 1, Kópur

Ég frétti af litlum, ódýrum bát vestur á Patreksfirði, gerði mér ferð þangað, en fékk reyndar aðeins að prufa hann á landi, en ákvað að slá til. Keypti bátinn og hann kom með skipi í nóvember 1987.

Strax og ég var búinn að setja hann á flot sá ég það, að þetta var ansi lítill bátur, aðeins 6,05 m á lengd. Stýrið var aftan á stýrishúsinu (báturinn var frambyggður plastbátur) og þegar maður stýrði honum, þá stóð maður og horfði yfir stýrishúsið. Frá rekkverki og niður í sjó voru kannski ekki nema 30-40 cm, en ég fékk mér 2 rúllur á bátinn og byrjaði að róa á handfærum. Fiskaði nokkrum sinnum ágætlega, en svo kom að því að ég lenti í alvöru veðri, en þá hafði ég farið inn undir Ingimundarklakk, sem er norðvestur úr Elliðaey. Ýtti á start á tölvurúllunni, var þá litið til austurs og sé að það er allt orðið hvítflissandi austur við Elliðaey. Ýti á upp á tölvurúllunni, en áður en slóðinn er kominn upp, voru komnir austan 20 metrar og stórsjór. Báturinn var það lítill, að það var hvorki í honum talstöð né gúmmíbátur og enn þann daginn í dag furða ég mig á því, að ég skyldi yfir höfuð hafa það í land, því að stærsta hluta leiðarinnar gekk sjórinn ofaní bátinn og upp úr hinumegin. Vélin jós upp á sig nánast alla leið, en hún stoppaði ekki. Efir að í land kom, velti ég því fyrir mér í nokkra daga hvað ég ætti að gera, ákvað síðan að setja hann á sölu og seldi mjög fljótlega, en leitin að stærri bát var erfið, enda lítið um fjármuni, en að lokum frétti ég af gömlum afturbyggðum svokölluðum Breiðfirskum trébát austur á landi og keypti ég bátinn óséðan. 

Bátur nr. 2, Tinni

Báturinn kom með skipi um sumarið 1988 og byrjaði ég strax á handfærum, en skipti svo yfir á línu um haustið. Byrjunin á þessum bát var svolítið skrautleg, en báturinn kom jú með skipi og ég fékk lánaða kerru sem báturinn var hífður í. Á þessum tíma var brekkan, þar sem bátar voru teknir upp og settir niður þar sem veitingastaðurinn Tanginn er núna. Það var háfjara þegar við komum með bátinn þarna á kerrunni og eigandinn af kerrunni hafði gleymt að segja mér, að til þess að koma í veg fyrir að kerrunni væri ekki stolið, þá tók hann alltaf splittið úr henni, þannig að þegar við erum að slaka kerrunni efst í hallanum, þá skyndilega dettur beislið af og kerran, með bátinn á, rennur á fleygi ferð niður brekkuna og munaði amk 2-3 litlu að hann ylti, en í sjó komst kerran með bátinn. Þar stoppaði kerran í sjónum, en báturinn slitnaði úr og flaut út á miðja höfn. En allt bjargaðist þetta og mér gekk ágætlega að fiska á þennan bát.

Eftir miklar pælingar ákvað ég að skíra hann eftir langafa, Sigga Munda. Á ýmsu gekk á þessum bát, en m.a. upplifði ég á honum litla sögu sem ég hef skrifað nokkrum sinnum og ætla ekki að endurtaka hér, en sagan heitir Draumur trillukarlsins. 

Seint um veturinn 1988 lenti ég í því þegar ég var að draga línu í þungum sjó við Litla boða, suðvestur úr Þrídröngunum, að ég fékk á mig smá hnút og heyrði að það small í einhverju í bátnum og á heimleiðinni tók ég eftir því að það hafði myndast sprunga í eitt borðið, rétt ofan við sjólínu og vætlaði inn um það í hvert skipti sem báturinn valt í þá áttina, en í land komst ég og fékk einhvern skipasmið til að hjálpa mér að gera við. 

Sumarið 89 lendi ég svo í því, að ég hafði ný lokið við að draga línu rétt austan við Suðurey. Bakborðsmegin á bátnum var lítill pallur þar sem ég var með lítið dekk, sem ég notaði sem fríholt. Ég sé um leið og ég kúpla að, að fríholtið hafði dottið út í sjóinn, en ég skelli mér upp á pallinn og ætla að kippa því inn fyrir, en um leið kemur svolítil kvika undir bátinn, þannig að ég lendi útí sjálfur, hangandi á fríholtinu. Fyrst hló ég nú að þessu og ætlaði að vippa mér inn aftur, en báturinn var kominn af stað og sogið því ótrúlega mikið. Önnur tilraunin mistókst líka. Í þriðju tilraun gjóaði ég augunum aðeins í áttina að Suðureynni, enda ekki langt frá, en ég náði að koma annarri löppinni inn í fríholtið og með því að taka á öllu sem ég átti eftir, þá tókst mér að koma mér umborð aftur. 

Síðasti túrinn á þessum bát var 16. desember 1989. Ég hafði þá róið nokkra daga í röð vestur á bræðrabreka og fiskað vel. Þennan daginn var fallegt veður og veðurspáin bara hægviðri, en ég tók eftir því, þegar ég sigldi í gegnum Faxasund, að þar var óvenju mikil og kröpp alda, en spáin var það góð að ég hélt bara áfram og ég er kominn rétt vestur úr smáeyjunum, þegar skyndilega kemur snörp vindhviða og báturinn hálf kastast til og ég sé að það er farið að hvítna á báru inni í Ál. Í fyrstu ætlaði ég ekki að snúa við, en ég sá að hann var að bæta í veðrið, en umborð var ég með nokkur bjóð af glænýrri línu og 2 færarúllur, aðra þerra hafði ég keypt 2 dögum áður nýuppgerða og ætlaði að prófa hana í róðrinum. 

Stærsta vandamálið við þennan bát var, að hann var með svo til engan hvalbak og þegar ég kem að vestan í Faxasund, þá er bara stórsjór fyrir klettinn, en ég legg í hann. Fyrsta aldan kemur og svo önnur, og þá er báturinn orðinn hálffullur af sjó og ég heyri það að vélin fer að hiksta um leið og hún fer að ausa upp á sig. Ég sé næstu öldu koma hvítflissandi og einhverra hluta vegna set ég allt í botn og næ aðeins að lyfta bátnum upp, þannig að næsta alda lendir eiginlega á hliðinni á stefninu og ég rétti bátinn af og kem mér í skjól vestan við Lat, set út ból og drep á vélinni en er svona góðan hálftíma að lensa bátinn. Kem vélinni aftur í gang en hún gengur ekki á öllum. Ég kalla í land og óska eftir nýjustu veðurspá og það er bara sagt hægviðri og logn um kvöldið. 

Fyrsta hugsunin var að reyna kannski að bíða veðrið af sér, en í þessum pælingum sé ég að bátur kemur að vestan. Var þar kominn Rabbi á Þórdísi Guðmundsdóttir, 10 tonna dekkuðum bát. Hann kom til mín og við spjölluðum saman, hann vildi fara að hirða eitthvað úr bátnum eða reyna að draga hann fyrir klettinn, en ég vildi fara eftir veðurspánni og sækja bátinn þegar myndi lægja, setti út fleiri ból og fór með Rabba í land.

Um kvöldið voru yfir 100 hnútar á Stórhöfða og það liðu 3 dagar þangað til loksins var komið veður til að fara og athuga með bátinn og það eina sem við fundum var gúmmíbáturinn, hangandi á skeri. 

Að sjálfsögðu lenti ég svo í sjóprófi út af þessu tjóni, en ég fékk bátinn borgaðan en ekkert af veiðarfærunum og var tjónið því mikið fyrir mig og þessi bátur kemur reyndar við sögu, að hluta til, í bát númer 3.

Bátur nr. 3, Hrappur 1654

Var dekkaður Víking 700. En það var um vorið 1990, sem ég og bróðir minn ákváðum að slá saman og kaupa okkur bát. Við fundum þennan bát í Ólafsvík og eigandinn lánaði okkur töluvert í bátnum gegn skuldabréfi, sem átti nú eftir að draga dilk á eftir sér síðar. 

Við byrjuðum á færum strax um vorið 90, en vorum reyndar ekki komnir út fyrir hafnargarðana þegar gírinn bilaði. Kostaði það bæði viðbótar fé og tafir. Síðla um sumarið komumst við bræðurnir að því, að við áttum ekki skap saman til að róa saman og varð úr að ég tók við bátnum með öllum skuldunum, sem strax varð mjög erfitt, enda ætlaði bróðir minn alltaf að selja bíl og nota þá peninga í startið, sem komu aldrei. 

En það gekk vel að fiska, en eftir því sem leið á fyrsta árið fór ég að lenda í enn frekari bilaríi í vélbúnaði bátsins, sem var, ef ég man rétt, Mitsubishi vél (nokkrum árum síðar hitti ég gamlan trillukarl í Eyjum, sem hafði verið staddur vestur í Ólafsvík árið áður en við bræðurnir keyptum bátinn og séð þennan bát dreginn inn utan af sjó). 

Árið 91 gekk bara ágætlega, þrátt fyrir mikið bilarí, en ég fiskaði ágætlega. Vandamálin hófust ekki fyrir alvöru fyrr en með ákvörðun Ríkisstjórnar Íslands að breyta lögum í lok ársins 91 þannig, að smábátum var frá því ári bannað að róa á tímabilinu 15. nóvember til og með 15. febrúar árið eftir.

Þetta var mikið áfall að missa þennan tíma sem oft skilaði mjög vel ef veður leyfði. Staðan í janúar 92 var því þannig að það var að falla á mig lán upp á um 2 milljónir uppi í banka og ég átti ekkert upp í það, en þá gerðust hlutir sem hvað flestar kjaftasögur um mig hafa fjallað um síðan og allar rangar á allan hátt, en svona gerðist þetta í raun og veru:

Fyrst fæ ég símtal frá framkvæmdastjóra LS, Erni Pálssyni, þar sem hann segir mér það, að útgerðaraðilar norður í landi, sem misst höfðu bát sama árið og ég höfðu farið í mál til þess að fá að nýta sér aflareynsluna á sínum bát og unnið málið. Hann hafði þá leitað að fleiri slíkum málum og fundið mitt og fengið það staðfest, að trébáturinn minn hafði verið í aflamarkskerfinu og ég ætti því rétt á að nýta mér aflaheimildir, sem voru 8 tonn af þorski og 3 tonn af ufsa. Ég var með minn bát í þorskaflamarkskerfinu og gat því ekki nýtt mér þetta og þar sem ég var nú á móti kvótakerfinu frá fyrsta degi til dagsins í dag, þá var ég nú ekkert rosalega spenntur í að fara að selja þetta, en ég var á hausnum og kominn með fjölskyldu, svo ég sendi þetta á nokkra stærstu aðilana hér í Eyjum í þeirri von að geta kannski fengið fyrir láninu sem var að falla á mig upp á tæpar 2 milljónir, en tilboðin sem ég fékk voru ekki nema þetta frá 6 og upp í 700 þúsund, svo ég var eiginlega búinn að láta þetta bara eiga sig, en þá fæ ég aftur símtal frá þekktum útgerðarmanni hér í Eyjum, Óskar nokkur kenndur við Sigurbáru.

Óskar var þá nýkominn með bát til landsins (ekki nýjan), en á Íslandi voru í gildi á þessum árum svokallaðar úreldingarreglur, þannig að ef þú fluttir inn bát sem var kannski 100 rúmmetrar á stærð, þá þurftir þú að úrelda á móti báta, skráða á Íslandi, upp á samtals 200 rúmmetra, en við mælingu á bát Óskars kom í ljós að honum vantaði nokkra rúmmetra uppá. Eftir talsverða leit var honum bent á, að ég ætti rétt á að nýta mér rúmmetrana mína, sem voru á hafsbotninum hérna innan við Eiðið. 

Óskar falaðist eftir þessum rúmmetrum og spurði hvað ég vildi fá fyrir þá og ég sagði bara þannig, að ef hann gæti yfirtekið þetta lán í bankanum sem var að falla á mig, þá væri ég meira en sáttur við það. Þetta gekk eftir, en mánuði síðar hringdi Óskar aftur í mig og þá með þessa spurningu:

Ég er búinn að ganga frá þessu öllu saman og standa við mitt, en hvað viltu gera við kvótann?

Og ég svaraði einfaldlega: Þú mátt bara eiga hann. Svo ég gaf honum kvótann. Hafa verður í huga, að á þessum áratug var ótrúlega mikið um það, og m.a. nokkrir þekktir hér úr Eyjum, keyptu sér báta sem síðar meir voru settir í kvóta og sumir hverjir fengu ansi gott út úr því og þeirri aflareynslu sem aðrir höfðu unnið sér inn á bátana. 

Kvótinn sem ég gaf var ekki metinn á nema 6-700 þúsund á þessum tíma, en í dag eru menn að selja svona kvóta á 40 milljónir. Hversu klikkað er það.

Framhald síðar.

 


Lunda sumarið 2022

Sá engan lunda í dag og pysjunum farið að fækka og styttist óðum í Lundaballið og því rétt að gera sumarið upp.

Ég fór inn í þetta sumar með miklar væntingar um að hin góða nýliðun í lundastofninum héldi áfram, en svo varð ekki, því miður, en hafa verður þó í huga að komnar eru núna eitthvað á þriðja þúsund bæjarpysjur og ekki alveg búið. 

Í lok fyrstu viku ágústmánaðar var mér sagt að í öllum þeim holum sem Erpur og félagar eru að fylgjast með suður í Höfða, væru annaðhvort dauðar eða að lundinn hefði hætt við varp og útlitið því ekki gott. Mikið um pysjudauða framan af í ágúst, en það er því nokkuð ljóst að þessar pysjur sem eru að koma núna í september virðast vera að koma úr einhverskonar seinna varpi og spurning hvort að varp lundans í Vestmannaeyjum sé kannski orðið tvískipt, þ.e.a.s. að eldri fuglinn verpi á sínum vanalega tíma, en yngri fuglinn seinna?

Ástæðan fyrir þessum pysjudauða í sumar er líklegast talin vera sú staðreynd, að fljótlega í byrjun ágúst hófst skyndilega mikil makrílveiði hjá smábátum á Suðurnesjum og líklegast er að stór torfa af makríl hafi farið hér framhjá Eyjum einhverntíma í kring um Þjóðhátíð. 

Veiðar í Eyjum voru mjög litlar, eða nokkur hundruð fuglar. Sjálfur hafði ég ákveðið að þar sem ég komst ekki til Grímseyjar í sumar, þá myndi ég ná mér í soðið hér í Eyjum í fyrsta skiptið í 15 ár. Ástandið var hins vegar þannig, að mér leist ekkert á þetta og var eiginlega hættur við, en svo loksins kom rétt átt úti í Miðkletti og ég labbaði þangað í miklu lundaflugi og háfaði mér nokkra fugla í soðið, en ég var ekki sáttur vegna þess að mér fannst vanta meira af ungfugli í þetta og það hvarflaði að mér á heimleiðinni, hvort að þetta yrði kannski síðasta skiptið sem ég háfa hér í Eyjum? En hafa verður þó í huga að lundastofninn í Eyjum telur nokkrar milljónir.

Klifið

Það hefur vakið sérstaklega athygli að allur lundi virðist vera horfinn úr Klifinu og þeirri kenningu verið velt upp, hvort að þetta tengist hugsanlega einhverju nýu eða nýlegu loftneti sem hugsanlega hafi verið sett þarna upp og gefi þar frá sér það sterka geisla að lundinn hörfi undan. Ég hef rætt þetta viða, en í raun og veru ekki fengið nein alvöru svör, en það er spurning hvort að hægt sé að mæla þetta á einhvern hátt, en ég set þetta með hérna að gefnu tilefni.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja

Margt spennandi hefur komið frá Þekkingarsetrinu á undanförnum árum, en sjálfur var ég mjög hrifinn af þegar þróað var snakk úr keilu og hefði gjarnan viljað sjá setrið halda áfram á þeirri braut, enda fullt af tegundum sem eru vannýttar, mætti þar nefna t.d. tindabikkju, háf, afskurð af grásleppu og skötu sem dæmi, en ég er hins vegar frekar lítið hrifinn af þessu rauðátu verkefni.

Í viðtali við Hörð Baldursson í sumar er rætt við Hörð um þetta verkefni. Þar kemur m.a. fram, að hann hafi tekið eftir því að á ákveðnum tíma sumars væri nefið á lundanum óvenju rautt og tengdi hann það því, að lundinn væri þá að éta og bera í pysjuna rauðátu, sem er þekkt. Verkefnið sem setrið hefur núna fengið styrk í snýst um að þróa lyf við sykursýki ásamt ýmsu öðru, sem er allt svo sem bara ljómandi gott, þannig séð. 

Í viðtalinu við Hörð kemur fram, að setrið hafi fengið leyfi til þess að veiða 1000 tonn á ári næstu 5 árin af rauðátu, en gefur sér það að það skiptir engu máli vegna þess að hér við suðurströndina séu 5 milljónir af rauðátu á hverju ári. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þá tölu, hins vegar er nokkuð augljóst að ef rétt er að stór makríltorfa hafi farið hérna framhjá á versta tíma fyrir lundann og étið upp svo til allt æti sem pysjan þarf sem fyrsta æti og þess vegna drepist í miklu magni, það hlýtur þá að vera augljóst að hér var ekki æti í þúsundum tonna, hvað þá milljónum. Ég hvet því alla aðila sem að þessu verkefni koma að hafa þetta í huga, því að nóg er tekið af æti úr lífríkinu samt.

Mávurinn

Það var mjög sérstakt að fylgjast með fréttum frá höfðaborgarsvæðinu, þar sem mjög skiptar skoðanir voru um það, hvort ráðast ætti í róttækar aðgerðir til þess að fækka mávinum, en ég þekki mávinn nokkuð vel hér í Eyjum, en sl vor hirti ég vel á annað hundrað mávsegg, en fylgdist svo með seinna í sumar hvernig hvert einasta hreiður eða par sem ég rændi skilaði af sér ungum, en mávurinn verpir 3 eggjum og það skiptir engu máli hversu oft hann er rændur, hann verpir alltaf aftur. Þegar ungarnir skríða úr byrjar oftast slagurinn strax. Yfirleitt éta tveir hinir stærri þann minnsta fljótlega og yfirleitt, rétt áður en þeir yfirgefa hreiðrir eru yfirleitt einn eða tveir eftir. 

Einnig er þekkt að karlfuglinn éti stundum ungana, en fjölgun á máv hér í Eyjum er gríðarleg. Reikna má með að mávurinn éti sennilega 90% af öllum æðarkolluungum í Vestmannaeyjum og hann drepur miklu fleiri pysjur á höfninni heldur en olían.

Mávurinn er ótrúlega seigur að bjarga sér um æti, er mikið á ruslahaugum, étur alla smáfugla sem hann nær í og er stundum á túnum að éta ánamaðka þegar ekkert annað býðst og ef virkilega hart er í ári, þá hefur hann verið gripinn við að róta í ruslatunnum. 

Ég er ekki að mæla með því með þessu að menn fari einhverjar róttækar aðgerðir við að fækka honum, en það mætti svo sannarlega fækka honum aðeins.

Lokaorð

Vonandi verða þessi vonbrigði með nýliðun lundans í sumar ekki eitthvað sem mun halda áfram, en þetta er samt 7unda árið í röð sem bæjarpysjan telur þúsundir og vonandi verður það betra á næsta ári.

Óska öllum veiðimönnum góðrar skemmtunar á Lundaballinu (loksins).


I am the eggman

kemur fram í texta Bítlanna við lagið I Am The Valrus en konan mín kallar mig þetta stundum í maí mánuði enda mikið tínt af eggjum.

Það mun hafa verið hjá mér á þrettánda ári sem ég tíndi mitt fyrsta egg og var ég þá í pössun hjá frænku minni sem notaði eggið til þess að baka úr því dýrindis pönnukökur og þar með var ég fallinn, þannig að það eru 45 ár í ár síðan ég byrjaði á þessu eggjabrölti

Næstu 24 árin eftir fyrsta eggið stundaði ég eggjatöku í Duftþekjunni af miklu kappi.

Eftir það fór ég að hægja á mér, en hef alltaf verið að taka í kring um 200 egg á ári, en á síðasta ári kom strákurinn minn, Svavar Þór, með mér í þetta og tíndum við þá ca. 600 egg. Í ár var það slegið hressilega og fórum við vel yfir 800 egg, en mig langar að þakka, að gefnu tilefni, öllum þeim sem komið hafa og keypt af okkur egg, en þau eru núna einfaldlega uppseld, enda tek ég alltaf ákveðin svæði til þess að tryggja að eggin mín séu 99% örugg og reyni eins og ég mögulega get að taka ekki stropuð egg. 

Kærar þakkir allir og vonandi verður heilsan þannig að maður getur farið í egg á næsta ári.


Gleðilegt sumar

Lundinn settist upp í gær og þar með er komið sumar hjá mér. 

Ég hafði reyndar séð nokkra fljúga með hamrinum tveimur dögum áður, en mér finnst skemmtilegast að miða við þegar maður sér hann setjast upp og já, þetta er alltaf jafn skemmtilegt.

Helstu væntingar fyrir þetta sumar eru að mörgu leiti svipaðar og síðustu ár þ.e.a.s. að stofninn haldi áfram að vaxa með sama krafti og síðustu árin og vonandi förum við að sjá meira til lundans í júní mánuði.

Veiðarnar. Á síðasta ári voru leyfðar veiðar í 10 daga hér í Vestmannaeyjum, en um leið var þetta síðasta ár 13. árið í röð sem ég veiði ekki lunda í Vestmannaeyjum og svo verður bara að koma í ljós hvernig það verður í ár, en þó nokkrir veiðimenn eru farnir að tala fyrir því að nú megi fara að fjölga veiðidögunum. 

Ég hef í sjálfu sér enga sérstaka skoðun á því en finnst bara frábært að fá að upplifa þennan mikla uppgang í lundastofninum og það ekki bara hér í Eyjum heldur á öllu landinu.

Hættumerkin. Mikið hefur verið fjallað um fugladauða vegna fuglaflensu, sem betur fer hefur ekkert heyrst um slíkt hjá svartfugla stofninum.

Hitt er hins vegar öllu alvarglegra, að nýlega bárust fréttir af því að hafnar væru tilraunir með að veiða og vinna úr rauðátu sem er að sjálfsögðu stór hluti af ætinu í sjónum í kring um landið, það ásamt þeirri staðreynd að ef rétt er hjá fjölmörgum skipstjórum úr loðnuflotanum, um að Hafró hafi stórlega ofmetið stærð loðnustofnsins, sem aftur myndi þá þýða það að búið væri að veiða loðnustofninn niður, er eitthvað sem að klárlega þarf að fylgjast betur með, enda vel þekkt að ef ætisskortur verður í hafinu, eins og við þekkjum svo vel þegar makríllinn gekk inn í lögsöguna okkar, þá bitnar það fyrst og fremst á fuglastofninum og ekki hvað síst lundanum. 

Varðandi stöðuna í hafinu að öðru leyti, þá er þetta eiginlega ótrúlega snúið og svo ég orði þetta með orðum nokkurra skipstjóra sem ég hef rætt við undanfarnar vikur, þá er staðan einfaldlega þessi: 

HAFRÓ VEIT EKKERT UM STÖÐU FISKISTOFNA Á ÍSLANDS MIÐUM.

Sem er náttúrulega grafalvarlegt, en meira um það síðar.

Gleðilegt sumar allir.


Framboð eða ekki framboð?

Í framhaldi af grein minni fyrir viku síðan, þar sem ég fjallaði um vinnu okkar í Eyjum sem erum í Flokki fólksins og möguleika okkar á að bjóða fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar hér í Eyjum, þá má segja að staðan sé eiginlega mjög lík því sem hún var fyrir viku síðan, þ.e.a.s. að við séum svona eiginlega hársbreidd frá því að geta boðið fram, en eftir samtal við fólkið sem hefur unnið að þessu með mér undanfarnar vikur og mánuði, þá er niðurstaðan sú að láta þetta eiga sig núna, þannig að Flokkur fólksins mun ekki bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum hér í Eyjum í vor. 

Mig langar því að nota þetta tækifæri og þakka öllum fyrir sem komu að málinu, sem og viðbrögð þeirra sem við töluðum við eða höfðum samband við, sem að mestu leiti voru frekar jákvæð, en það þarf aðeins meira heldur en það til þess að gefa kost á sér í þetta og alveg greinilegt að sú neikvæða umræða sem hefur verið hérna að undanförnu,hefur því miður haft þau áhrif að fæla fólk frekar frá því að taka þátt í svona starfi og að því leitinu kannski svolítið dapurlegt, en við vorum m.a. byrjuð að vinna stefnuna þar sem við m.a. vorum langt komin með að útfæra leið til þess að leysa þessi leiðinda mál sem fylgja leiðindum í kring um nefndarstörf þegar ágreiningur er uppi um hin ýmsu mál.

Fyrir hönd okkar í Flokki fólksins, kærar þakkir allir, bæði fyrir stuðninginn og fyrir þá sem voru búnir að skrifa undir sem meðmælendur fyrir framboðinu og sérstakar þakkir til þeirra sem komu að þessu á fyrstu stigum og voru með af heilum hug allan tímann. 


Flokkur fólksins í Vestmannaeyjum

Að gefnu tilefni og til þess að svara nokkrum spurningum.

Já, við í Flokki fólksins í Vestmannaeyjum höfum verið og erum að vinna í því að koma saman framboði hér í Eyjum fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Hvort þetta tekst hjá okkur get ég ekki svarað alveg á þessari stundu, en við erum ekkert langt frá því.

Við vildum ekki auglýsa eftir fólki heldur frekar hafa samband við fólk, sem við teljum að sé frambærilegt og geti unnið eyjunum mikið gagn í hinum ýmsu málaflokkum. 

Ástæðan fyrir því að við erum að skoða möguleikann á framboði eru einfaldlega áskoranir frá eyjamönnum sjálfum, eða a.m.k. nægilega mörgum þeirra sem vilja sjá stefnumál Flokks fólksins í bæjarstjórn Vestmannaeyja. 

Við ætlum að gefa okkur svona ca. viku í viðbót í þetta og taka þá ákvörðun um það hvort við tökum slaginn eða ekki, en það er ákveðin ástæða fyrir því að ég þarf að klára þetta helst í síðasta lagi eftir viku.

Ástæðan fyrir því að tíminn er orðinn svolítið naumur er einfaldlega sú, að fimmtudaginn 31. mars mun ég taka sæti á Alþingi íslendinga. Verð reyndar í Eyjum næstu helgi en mun svo vera á þingi fyrir Flokk fólksins vikuna 4.-9. apríl. Þetta er að sjálfsögðu spennandi og verður gaman að komast á þann vinnustað þar sem allar stærstu ákvarðanir á Íslandi eru teknar.

Að sjálfsögðu mun ég horfa til þess sem betur mætti fara hér í Eyjum, en einnig nokkuð augljóst að ég muni að öllum líkindum ræða kvótamálin, en það á þá bara eftir að koma í ljós en það er klárlega margt sem mætti betur fara og þó svo að við í Flokki fólksins séum í minnihluta þá tölum við skýrt um okkar málefni og um það efast enginn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband