5.11.2008 | 23:39
Smá hugleiðing
LAG AF RYKI VERNDAR VIÐINN UNDIR ÞVÍ...
HÚSIÐ VERÐUR HEIMILISLEGRA ÞEGAR ÞÚ GETUR SKRIFAÐ " ÉG
ELSKA ÞIG' Í RYKIÐ Á HÚSGÖGNUNUM.
ÉG VAR VÖN AÐ
EYÐA MINNST 8 TÍMUM HVERJA HELGI TIL ÞESS VERA VISS UM
AÐ ALLT VÆRI FULLKOMIÐ "
EF AÐ EINHVER SKYLDI KOMA ÓVÆNT Í HEIMSÓKN'
...
AÐ LOKUM UPPGÖTVAÐI EG AÐ ÞAÐ KOM ENGINN Í HEIMSÓKN ..ÞAÐ
VORU ALLIR ÚTI AÐ SKEMMTA SÉR!!!
JÆJA..,
EN ÞEGAR FÓLK KEMUR Í HEIMSÓKN, ÞÁ
ÞARF ÉG EKKI AÐ ÚTSKÝRA ÁSTANDIÐ Á HEIMILINU ....
ÞEIR HAFA MEIRI ÁHUGA Á AÐ HEYRA UM ÞÁ HLUTI SEM ÉG HEF VERIÐ
AÐ GERA
Á MEÐAN ÉG VAR ÚTI Á LÍFINU OG SKEMMTA MÉR!!
EF ÞÚ HEFUR EKKI UPPGÖTVAÐ ÞETTA ENNÞÁ ,
ÞÁ SKALTU FARA AÐ ÞESSU HEILRÆÐI:
LÍFIÐ ER STUTT. NJÓTTU ÞESS!!!!!
ÞURRKAÐU AF EF ÞÚ VERÐUR...
EN ÞAÐ EKKI MIKILL TÍMI TIL; AÐ FÁ SÉR
BJÓR , SYNDA Í ÁM OG KLÍFA FJÖLL , HLUSTA Á TÓNLIST OG LESA BÆKUR
FAGNA MEÐ VINUM OG LIFA LÍFINU...
ÞURRKAÐU AF EF ÞÚ VERÐUR...
EN VÆRI EKKI BETRA AÐ MÁLA MYND EÐA SKRIFA
BRÉF, BAKA SMÁKÖKUR EÐA KÖKUR OG SLEIKJA SKEIÐINA, EÐA SÁ FRÆI.
HUGLEIDDU MUNINN Á MILLI ÞESS SEM ÞÚ VILT EÐA ÞARFT...
ÞURRKAÐU AF EF ÞÚ VERÐUR,
EN HAFÐU Í HUGA AÐ ELLIN KEMUR MEÐ SÍNU GRÁU
HÁR OG HÚN ER EKKI ALLTAF GÓÐ...
ÞURRKAÐU AF EF ÞÚ VERÐUR ...EN
HEIMURINN BÍÐUR EFTIR ÞÉR ÞARNA ÚTI... MEÐ
SÓLSKINIÐ Í AUGUM ÞÍNUM, VINDINN Í HÁRI ÞÍNU, FLÖGRANDI
SNJÓKORN, FÍNGERÐUR REGNÚÐI...
ÞESSI DAGUR KEMUR EKKI AFTUR...OG ÞEGAR ÞÚ FERÐ
- OG ÞÚ VERÐUR AÐ FARA...ÞÁ MUNT ÞÚ SJÁLF SKAPA MEIRA
RYK!!
DEILDU ÞESSU MEÐ ÖLLUM ÞÍNUM GÓÐU VINUM SEM ERU Í ÞÍNU
LÍFI...
ÉG GERÐI ÞAÐ...
3.11.2008 | 21:05
Einn góður frá litlu systur
þegar þær eru ekki með karlana með sér. Þegar þær voru að labba heim
þurftu þær báðar nauðsynlega að pissa. Þær voru hjá kirkjugarðinum og
ákváðu að pissa bakvið legstein.
Sú sem fyrst pissaði þurrkaði sér á nærbuxunum sínum og henti þeim
eitthvað út í loftið að því loknu. Vinkona hennar var aftur á móti í
rokdýrum nærum sem hún vildi ekki tapa, en var svo heppin að hún gat teygt
sig í borða af kransi á næsta leiði og þurrkað sér á honum. Vinkonurnar
gátu nú haldið ferð sinni áfram og komust heim heilar á húfi.
Daginn eftir hringdi eiginmaður annarrar þeirra í hinn og sagði; "Þessum
kvennakvöldum þarf að fara að ljúka. Konan mín kom nærbuxnalaus heim í
nótt."
"Algjörlega sammála!," sagði hinn, "Mín kom heim með samúðarkort á milli
rasskinnanna og á því stóð, Frá okkur öllum á Slökkvistöðinni, við munum
aldrei gleyma þér."
1.11.2008 | 11:53
Krepputal
Það er orðið langt síðan að maður heyrði einhvern fréttatíma, þar sem ekki var talað um kreppu og sennilega er líka langt þangað til að maður heyrir einhvern fréttatíma, þar sem ekki er minnst á kreppu. það sem hinsvegar hefur vakið athygli mína sérstaklega að undanförnu eru yfirlýsingar íhaldsmanna um að nú sé svo sannarlega ekki rétti tíminn til að fara í Alþingiskosningar. Ég er enn að bíða eftir því, að einhver íhaldsmaður orði þetta bara hreint út sagt:" Það er einfaldlega ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara í kosningar núna, enda bera þeir að mestu leiti ábyrgðina á kreppunni" enda held ég að fáir muni eftir ríkisstjórn, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í aðalhlutverki. En einhvern tímann verður kosið, en þá er spurning, verður fólk búið að gleyma, eða verður nóg að bjóða fólki í t.d. "tuðruferðir."
Af bæjarmálunum okkar, þá hefur Elliði bæjarstjóri farið mikinn á eyjamiðlunum að undanförnu og það nýjasta nýtt eru þessar tölulegu staðreyndir, um hversu há leigan er á skólum og öðrum stofnunum, sem á sínum tíma voru seld Fasteign og ef ég skyldi grein hans rétt, að kosti okkur í dag hátt í 15 milljónir á mánuði í leigu. Við þessu höfum við í Frjálslynda flokknum varað, sem og öðrum málum eins og t.d. sölu hlutabréfanna í Hitaveitu suðurnesja, þó að hluturinn hafi vissulega verið lítill og góður peningur fengist fyrir bréfin, þá hlýtur það að gefa auga leið að það þýðir lítið að barma sér, ef hitaveitan hækkar á svipaðan hátt að það þýðir lítið að barma sér, þegar leigan á skólunum hækkar. Sama gildir að sjálfsögðu með Bakkafjöru. Ef dæmið gengur upp þar og þar rís löndunarhöfn, þá þýðir lítið að segja:" Þetta átti ekki að fara svona." Það er full seint að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í.
Af öðrum málum. Síðast liðna viku hef ég farið 4 sinnum á sjó, fiskiríið verið alveg ljómandi, eða liðlega 8 tonn, mest ýsa. Einnig er farið að sjást töluvert af fallegum þorsk, svo nú hlýtur sjávarútvegsráðherra að fara að rumska úr þyrniróssvefninum. Nú hinsvegar er komin bræla og spáir brælu nánast alla næstu viku. Unnið er á vöktum í síldinni í Ísfélaginu og Vinnslustöðin er búin að senda bát á miðin. Ekki veitir fólkinu af tekjunum í þessu kreppuástandi, en nóg um það.
Ég sagði frá því í minni síðustu grein, að Ystaklettsmenn hefðu verið fyrstir til að starta jólunum í ár, en eitthvað eru menn styggir þar á bæ, en ég sé núna að það er búið að slökkva á ljósunum. Mér þykir það nú bara dapurt og skora á þá að kveikja á ljósunum aftur, því að það er nú bara gaman að þessu, svo má kannski líka nota kofann í Ystakletti til að hefja strangar æfingar í allan vetur fyrir það lið, sem við sendum á næsta ári í næsta útsvars þátt, eftir útreiðina í gær. Ekki veitir af.
Meira seinna.
25.10.2008 | 21:56
24. landsþing smábátasjómanna og vorboðinn ljúfi
Ég var í fyrsta skipti á landsþingi smábátasjómanna núna fyrir helgi. Margvísleg málefni voru tekin fyrir og sum samþykkt en önnur ekki. Sumu var ég sammála en öðru alls ekki. Heitasta málið var, eins og vanalega skilst mér, byggðakvótinn. Þar sem ég kem frá Vestmannaeyjum, þá var ég að sjálfsögðu á móti byggðakvótanum (á síðasta fiskveiðiári voru tekin 440 tonn af þorski, 725 tonn af ýsu, 59 tonn af steinbít og eitthvað af ufsa, eða samt. hátt í 1300 tonn, sem mundu nægja til að halda uppi atvinnu hér í frystihúsi í nokkra mánuði). Það var einnig ljóst, að það voru mjög skipar skoðanir hjá öðrum sjómönnum og m.a. þá var samþykkt í sjávarútvegsnefnd, að byggðakvóti yrði lagður af. Hins vegar, þegar kosið var um endanlega niðurstöðu, þá var samþykkt tillaga (þrátt fyrir hávær mótmæli margra) að skora á þingmenn að standa vörð um byggðakvótann. Sem dæmi um vitleysuna í þessu, þá kom fram á fundinum, að Rif á Snæfellsnesi hefði fengið 40 tonn af byggðakvóta í sinn hlut, en fyrir aðeins 3 vikum síðan, voru leigð 3 tonn af þorski inn á bátinn hjá mér og ég sé að báturinn, sem er skráður fyrir þessum tonnum, er einmitt skráður á Rifi. Þetta finnst mér algjörlega út í hött.
Sjávarútvegsráðherra var með ágæta ræðu á þinginu og svaraði síðan fyrirspurnum. Það sem mér þótti merkilegast var að menn voru almennt sammála um það, að ráðherra hefði gefið það í skin, að aukið yrði í þorskkvótann síðar á fiskveiðiárinu. Það sem hins vegar kom mér mest á óvart í ræðu ráðherra er, að í fyrsta skipti kom fram atriði, þar sem ég er sjávarútvegsráðherra algjörlega sammála og er þar um að ræða sá skaði, sem að mínu mati, sjávarútvegur á Íslandi yrði fyrir ef við gengum í ESB. Fundurinn var haldinn í turninum í Smáranum. Útsýnið þaðan er ægifagurt og ekki var maturinn til að kvarta yfir.
En að öðrum málum. Ég fór á sjó í dag, fiskiríið var svona eins og veðrið, frekar lélegt, eða 100 kg á bjóð. Tvennt var þó nýtt í þessum róðri, frá öðrum róðrum að undanförnu. Ég fékk lítinn kolkrabba í dag og kom honum lifandi á sædýrasafnið. Hitt var að ég hef að undanförnu verið að líta í kringum mig á sjónum, hvort að ég sæi ekki það sem ég kalla þessu undarlega nafni (allavega miðað við hvaða tími er) vorboðinn ljúfi. Málið er það, að í dag sá ég tvær álkur sunnan við eyjar. Þetta er reyndar alþekkt. Svartfuglinn fer í byrjun ágúst og byrjar að koma í lok október, eða svona einn og einn fugl, en vegna alls þessa neikvæða krepputals, þá ætla ég að halda mig við það að kalla þetta vorboðann ljúfa.
Eitt að lokum til gamans. Það hefur verið hálfgerður slagur stundum hjá sumum eyjamönnum um það, hver er fyrstur að setja upp jólaseríurnar. Þetta hefur aldrei truflað mig neitt, en fer alveg ægilega mikið í taugarnar á sumum. Sigurvegarinn í ár er hinsvegar ótvíræður, því að Ystaklettsmenn eru búnir að vera með kofann í Ystakletti skreyttan frá því á lundaballinu, en það í sjálfu sér kemur mér ekkert á óvart, því eins og ég skrifaði hér á blogginu mínu fyrir rúmu ári síðan, þá hef ég jú fyrir nokkru síðan fengið það staðfest, að jú, jólasveinarnir þeir eiga víst heima í Ystakletti.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.10.2008 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.10.2008 | 20:38
Hvað gerir þú við tímann?
Eitt sinn heyrði ég sögu sem fjallaði um fiskmann og ráðgjafa sem mig langar til að deila með ykkur. Eftir á varð ég mjög hugsi og spurði sjálfa mig til hvers er allt þetta kapphlaup og græðgi sem mér finnst stundum einkenna okkur nútímafólkið.
Ráðgjafi nokkur spurði fiskimann á bryggju hvernig lífi hann lifði og hvort hann vildi ekki fá leiðbeiningar um hvernig hann gæti fengið meiri arðsemi út úr vinnu sinni.
Ég lifi góðu lífi, sagði fiskimaðurinn. Ég sef frameftir á morgnana, fiska dálítið, leik mér við börnin mín, tek "siesta" með konunni, rölti niður í þorpið á kvöldin og fæ mér vínglas og leik á gítar með vinum mínum.
Ég get gefið þér góð ráð og þér mun farnast enn betur sagði Reykvíkingurinn. Ég er ráðgjafi með MBA frá virtum Háskóla. Þú átt að veiða meira. Þá færð þú meiri afla og getur keypt þér stærri bát og þá veiðir þú enn meira. Síðan getur þú keypt heilan flota af bátum og þá ertu ekki lengur háður því að selja í gegnum milliliði en getur verslað beint við verksmiðjurnar, sett upp verksmiðjur og jafnvel ráðið markaðnum. Þá þarftu ekki lengur að búa hér heldur getur flutt suður.
Hvað tekur þetta langan tíma? spurði fiskimaðurinn.
Svona 20-25 ár.
En hvað svo? spurði fiskimaðurinn.
Þá kemur stóra stundin, sjáðu til. Þú breytir fyrirtækinu í hlutafélag og ferð á verðbréfamarkað og selur og stendur uppi með marga milljarða.
Já, sagði fiskimaðurinn en hvað svo?
Reykvíkingurinn varð dálítið hugsi en sagði síðan: Þá flytur þú í lítið fiskiþorp, sefur frameftir á morgnana, fiskar dálítið, leikur við börnin, tekur "siesta" með konunni, röltir á kvöldin niður í þorpið og færð þér vínglas og leikur á gítar með vinum þínum.!!!
Já það var nú það........ .........................................................................................
19.10.2008 | 21:35
Brúðkaupsmyndir
Fjölskyldan á leið inn í kirkjuna
Athöfnin var falleg
Að lokinni athöfn, sú stutta á heimilinu á undan, frúin í sínum glæsilega Færeyska búningi. Reyndar var reynt að finna bæði Færeyskan og Íslenskan búning á karlinn, en eigum við ekki að segja bara að ég hafi sloppið vel.
Brúðartertan skorin og smökkuð.
19.10.2008 | 21:18
Stór dagur í gær..............
....................hjá minni fjölskyldu. Byrjaði reyndar eins og vanalega með því að ég fór að beita kl. 7 um morguninn, fór svo í kaffi rétt fyrir 11 og rétt búinn að sleppa orðinu við frúna um það, að ég slepp víst við sjóstöngina núna, þegar síminn hringdi og í ljós kom að einn báturinn hefði bilað og ég var beðinn um að koma strax niður á bryggju og fara út á mínum bát, enda átti að veiða til 15:00. Eftir að hafa borið þetta undir frúna (enda var þetta okkar dagur) þá lét ég til leiðast og var kominn á miðin um 12 leitið. Fiskiríið var frekar lélegt, enda leiðinda veður, en við fengum samt nokkra fallega fiska og mér skilst að 3 bikarar hafi lent á bátnum hjá mér og er bara gaman að því, en heildar fiskiríið á alla bátana var afar lélegt, eða aðeins um 600 kg. á átján stengur. Ég var kominn heim fyrir kl. 16:00, þannig að við vorum vel tímanlega mætt upp í Landakirkju.
Giftingin var kl. 17:00 (set inn myndir í næstu færslu). Við buðum aðeins þeim allra nánustu, en það var samt fullt út úr dyrum, enda vorum við með veisluna heima á Staðarhól.
Við hjónin þökkum öllu vinum, kunningjum og ættingjum fyrir góðar gjafir og kveðjur og séra Kristjáni fyrir hans hlutverk, en þetta var allt saman meiriháttar vel heppnað.
p/s Bara svo það komi skýrt fram, þá var það Eydís Tórshamar sem greip brúðarvöndinn eftir mikinn slag við Stínu mágkonu sína.
17.10.2008 | 15:05
Í vikulokin
Þetta er búin að vera annasöm vika hjá mér, enda róið 3 síðan á laugardagskvöldið og fiskiríið verið mjög gott, eða rúmlega 6 tonn, mest ýsa sem er mjög hagkvæmt vegna kvótaniðurskurðar í þorski. Einnig fékk ég svolítið af skötu í þessum róðrum, sem hefur verið mikil búbót, enda verðið á henni gott og hún er auk þess utan kvóta, allavega ennþá.
Það gengur mikið á í fjármálaheiminum og við í Vestmannaeyjum höfum ekki farið varhluta af því, enda er fall gengisins afar slæmt fyrir sjávarútvegsfyrirtækin, sem skulda nánast undantekningalaust í erlendum gjaldmiðlum og sem dæmi að mínu útgerðarláni, þá er það með gjalddaga 15. hvers mánaðar og er greiðslan síðan fyrir ári síðan og svo greiðslan síðan í þessari viku, hækkunin er nákvæmlega 100%, en eins og ég segi alltaf, meðan ég get róið og fiskað, þá gengur það. Haldi þetta hinsvegar áfram að versna, þá veit maður aldrei, hvernig þetta endar hjá manni.
Það er líka svolítið merkilegt að fylgjast með bæjarstjóranum okkar og öðrum bæjarstjórnarmönnum vera með stöðugar yfirlýsingar um góða stöðu bæjarsjóðs Vestmannaeyja og er það að sjálfsögðu mjög ánægjulegt. Gaman væri hins vegar að vita, hvar hitaveitupeningarnir okkar eru (3,6 milljarðar, ef ég man rétt), hvaða vextir eru á þeim fjármunum og hversu mikið hefur verið tekið af þeim eða vöxtunum og þá í hvað? Gaman væri að frétta af því.
Það er mikið að gerast á mínu heimili á morgun, vonandi slepp ég við að fara í sjóstöngina, en mér finnst nú alltaf erfitt að segja nei, þegar til mín er leitað, en málið er það, að kl. 17 á morgun ætlar fyrirvinnan á heimilinu? (frúin) að draga karlinn upp í Landakirkju og mér hefur verið tilkynnt, að ég eiga að segja tvisvar já og ekkert múður með það. Síðan verður mér ekið niður á Staðarhól, ég settur út í garð með keðjur og stóru akkeri sem hefur verið sett þar og mér bannað að yfirgefa svæðið, eða þannig. Það er verst að það gæti verið sjóveður aðra nótt, svo það gæti orðið einmannalegt hjá frúnni, en það er nú einu sinni svo, að sjórinn er harður húsbóndi. Meira seinna .
13.10.2008 | 19:59
Til að læra af
10.10.2008 | 20:17
Helgarfrí og Lundinn
Ég og mín fjölskylda höfum vanið okkur á það á síðustu árum, að fara a.m.k. einu sinni á hausti upp í Ölfusborgir til að slaka á og var farið um síðustu helgi. Reyndar var meiningin að fara á fimmtudeginum, en þar sem að það var sjóveður þann daginn, þá sendi ég dömurnar á undan og réri sjálfur (2,4 tonn á 12 bala), en fór svo á föstudeginum. Þetta skip St. Ola er ágætis sjóskip, þó að það sé gamalt, en það vakti sérstaka athygli mína, að í umfjöllun minni um Bakkafjöru á síðasta ári, þá hef ég oft nefnt það, að ég hefði viljað fá ca. 100 m skip á þessari siglingaleið, sem gengi a.m.k. 20 mílur, en helsta gagnrýnin sem ég hef fengið við þá hugmynd er að höfnin í Þorlákshöfn sé einfaldlega of lítil fyrir svo stórt skip, enda er Herjólfur aðeins 70 metrar. Hins vegar er St. Oli 86 metra skip og þrátt fyrir að vera með mjög lélegar og litlar hliðarskrúfur, þá gekk nú ágætlega að komast inn og úr höfninni.
Helgin var fyrst og fremst, eins og segir, notuð til slökunar og heimsókna, en ég notaði líka tækifærið og kíkti aðeins á sjávarútvegssýninguna og þótti nokkuð merkilegt að sjá, hversu margar hafnir á landinu voru með bása, á meðan ein öflugasta sjávarútvegshöfnin á landinu, Vestmannaeyjahöfn, sá ekki ástæðu til að vera með.
Meiningin var að fara heim með seinni ferð á mánudeginum, en þá kom heldur betur babb í bátinn, því að vegna slæms veðurs voru báðar ferðirnar felldar niður þann daginn. Ákváðum við því að taka fyrri ferð á þriðjudeginum, en enn var lukkan ekki með okkur, því að vegna vélarbilunnar í skipinu var ákveðið að skipið færi ekki nema eina ferð og það kvöldferðina til eyja. Í milli tíðinni ákváðum við því að skreppa í bæinn. Í bænum fór frúin að finna fyrir einhverjum óþægindum, sem endaði með því að við fórum upp á Landsspítala, sem var gjörsamlega yfirfullur af fólki og voru rúm út um alla ganga, sem gerði það aftur að verkum að við fengum ekki læknir til að kíkja á hana fyrr en rétt fyrir 7. Fengum við þá að fara, fórum við í hendingskasti yfir heiðina og komum niður á bryggju eina mínútu í hálf átta, en því miður var skipið þá farið frá bryggju, svo við urðum að redda okkur gistingu eina nótt í viðbót og fórum svo heim með fyrri ferð daginn eftir. Mér þótti líka dapurlegt að þegar ég hringdi morguninn eftir á Herjólfsafgreiðsluna til að breyta miðunum, þá var mér tilkynnt það, að þar sem ég hefði ekki látið vita deginum áður að ég kæmist ekki, þá hefðu þeir miðar fallið niður og varð ég að gjöra svo vel að kaupa nýja miða. Frekar léleg þjónusta þetta, að mínu mati, en svona eru víst reglurnar. Verst þótti mér þó, að það var rjóma blíða allan miðvikudaginn og missti ég því af frábæru sjóveðri að hluta til, en ég fór á sjó kl. 5 seinnipartinn með aðeins 7 bjóð, enda spáin mjög slæm. Ég náði þó í 1200 kg. sem er mjög gott.
Ég er nú eiginlega hættur að skrifa um lundann í ár, en tvennt hefur þó vakið athygli mína að undanförnu. Í fyrsta lagi, að uppi séu hugmyndir erlendis um að setja lundann hugsanlega á válista yfir fuglastofn, sem gæti verið í einhverri hættu. Þetta þykir mér alveg stór furðulegt, en ég efast ekki um það, að slíkar hugmyndir komi frá fuglafræðingi sem hefur starfað í Vestmannaeyjum að undanförnu. Hitt atriðið sem vakti athygli mína, er að seinni partinn í júli, hafði vinur minn og nágranni Friðrik Ragnarsson samband við mig og bað mig um að redda sér um svona 50 lunda í hamnum, eða svo. Nokkrum dögum seinna var ég í veiði suður í Kervíkurfjalli og veiddi þar 120 lunda og ákvað að binda þá 50 sér og 70 sér til Þess að redda Friðriki. Þetta gekk eftir og kom hann til mín og fékk 50 lunda. Kom svo aftur daginn eftir og borgaði mér lundana og sagði þá við mig, að bara svo að þú vitir af því, þá er ég að biðja um þessa lunda handa Gísla Óskarssyni, kennara og lunda áhugamanni. Sagði ég honum að það skipti mig í sjálfu sér engu máli, hver fengi fuglinn. Á lundaballi okkar í veiðifélagi Heimaey kom m.a. Gísli Óskarsson, og tókum við þar létt spjall um lundann og sagði hann mér m.a. að hann hefði aldursgreint lundann frá mér. Þar sem að ég vissi að það veiðist lítið eða ekkert í Kervíkurfjallinu nema ungfugl, þá spurði ég hann, hvernig þetta hefði komið út og sagði hann mér þá að mest hefði verið af 3 ára fugli, næstmest af 4 ára fugli, en aðeins einn lundi hefði verið 5 ára eða eldri. Þetta kom mér alls ekki á óvart, en ef ég svona til gamans myndi reikna þetta út á svipaðan hátt og Erpur Snær reiknar út hlutfall lundans í veiðinni, þá var veiðin þennan dag hjá mér 95% ungfugl, en aðeins 5% fullorðinn fugl. Mér segir svo hugur að svona tölur og ef þær upplýsingar sem ég hef skrifað um, bæði um hversu lítið var veitt af lunda í sumar, og um fjölda nýliða í pysjunni í ár og síðustu ár, væru send þessari stofnun, sem vill setja lundann á válista, þá dytti engum það í hug að setja lundann á válista, en það er ekki sama hvernig hlutirnir eru orðaðir . Meira seinna .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)