Myndir af lundaballi

Lundaslútt 005

Það var ekki margmenni en góðmennt

Lundaslútt 006

Kommander Árni töfraði fram dýrindis rétti, m.a. í forrétt, lundalifur, gæsakæfu, hval í sinnepssósu, reyktan svartfugl og ýmislegt fleira. Í aðalrétt grilluðum við okkur rauðsvínlegin læri og með þessu og á eftir var dreypt á margvíslegum mjöðum, svo hraustlega að sumir urðu að fá fylgd heim.

Lundaslútt 014

Á tímabili fylltist allt af fjölmiðlafólki og voru sumir gripnir við að laumast í hlaðborðið, en það breytti ekki því að það var allt étið upp til agna.

Lundaslútt 020

Eyþór Harðar fór hamförum á trommusettinu, en enginn þekkti lagið.

Lundaslútt 024

Leynigesturinn (Róbert) fór mikinn í skemmtiatriðunum, sagði m.a. sögur af kvennafari hjá sjálfum sér og tók svo lagið við mikil fagnaðarlæti, en hefur ekki fundist síðan á skemmtuninni.

Afmæli 002

Þessi var tekin í róðri nýlega hjá mér og sýnir græðgina í löngunni vel, þar sem afkvæmið stendur út úr henni.

Afmæli 007

Hún getur verið mjög stór langan, eins og t.d. þessi og sú stutta á heimilinu til samanburðar.


Bland í poka

Fór á sjó í gær kannski fyrst og fremst til að hressa mig við eftir þetta hrikalega lundaball í Blíðukró (set inn myndir í næsta bloggi).

Fékk heldur betur að finna fyrir Kára á sjónum í gær, var m.a. með eitt tengsli suður á Nýja hrauni og var versta veðrið sennilega á meðan ég var þar, 16-18 metrar eða svo, en það lægði þegar leið á daginn, sem betur fer. Aflinn var 1200 kg á 10 bjóð, en það merkilega var að á eitt bjóðið sem ég lagði hérna rétt utan við Urðarvita, fékk ég eitt stykki stóra brama á aðeins 20 faðma dýpi, svo það er greinilegt að þessi fiskur er búinn að vaða hér yfir allt. Þessi hinsvegar, verður étinn á mínu heimili á morgunn.

Ég sá engan lunda á sjónum í gær, svo hann er loksins farinn, enda hef ég enga pysju séð í nokkra daga, en það vakti athygli mína að s.l. föstudagskvöld var, eftir því sem mér er sagt, kynning niðri í Miðstöð á nýrri bók um lundann. Því miður komst ég ekki á þessa kynningu, en þar kom m.a. fram, að höfundur telur stærsta vandamál lundans í dag vera fyrst og fremst ofveiði á loðnu. Að ofveiðin leiði sem sé af sér að fiskurinn í sjónum fái ekki nóg af loðnu og snúi sér þar af leiðandi að sílinu. En þetta þarf að sjálfsögðu að rannsaka betur. Hitt atriðið sem vakti sérstaka athygli mína er að höfundurinn (man ekki nafnið á honum), sagði að lundastofninn hefði verið í sögulegu hámarki síðustu árin, sem er merkilegt nokkuð algjörlega í samræmi við það sem ég hef verið að segja. Það breytir hins vegar ekki því, að ef nýliðun fari að bregðast ár eftir ár, þá gefi það að sjálfsögðu auga leið að stofninn minnkar.

Það gengur mikið á í fjármálaheiminum þessa dagana og maður heyrir af gríðarlegu tapi af hlutabréfum, ég ætla rétt að vona það, að hitaveitupeningarnir okkar séu á góðum stað.

Er búinn að setja nokkrar góðar greinar inn á www.heimaklettur.isundanfarið, m.a. eftir Kristinn H. Gunnarsson, Alþingismann, Grétar Mar Jónsson, Alþingismann, Guðrúnu Maríu, aðstoðarkonu Grétars og Ólaf Ragnarsson, eðal bloggara.

Meira seinna.

 


Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

27. september 2008 :

Krókur og Farsæll vilja að kvótalausir fái geymslurétt


Á aðalfundum Króks og Farsæls sem haldnir voru í þessari viku var mikið rætt um 20% geymslurétt milli ára.


Í lögum um stjórn fiskveiða er geymsluréttur bundinn við aflamark sem úthlutað er á grundvelli aflahlutdeildar. Kvótalausir hafa því engan rétt á að geyma veiðiheimildir milli ára. Gildir þar einu hvort menn hafi leigt hundruðir tonna til sín.


Á fundunum tveim töldu menn þetta ósanngjarnt og leggja til að kvótalausir fái rétt til að geyma milli ára.


Auk núgildandi ákvæðis verði geymsluréttur miðaður við það sem veitt er.

 


Rok, ak, bak, lund, ball.

Það hefur varla slegið niður fyrir 30 metrana s.l. sólarhring og alveg merkilegt að sjá Herjólf á áætlun. Hann er seigur sá gamli. 

Nokkur umræða hefur verið meðal bæjarbúa varðandi þessar þrengingar á Skólaveginum. Ég tók fyrst eftir þessu þegar byrjað var á framkvæmdum á mótum Skólavegs og Faxastígs og fannst þetta full mikil þrenging, en síðan var það útskýrt fyrir mér, að þetta ætti líka að virka sem hraðahindrun og er það í sjálfu sér í lagi. Nú sé ég hinsvegar að það er verið að setja þessar þrengingar á öll gatnamót við Skólaveg og lenti ég í því í dag, á mínum stirða og gamla pick-up, að rétt ná beygjunni á horninu við Lífeyrissjóðin. Nú er ég enginn sérfræðingur í vegagerð, eða þrengingum, en þetta skipulag við Skólaveginn virkar hálf furðulega á mig og stór spurning hvort að bæjarfélagið hafi ekki nóg annað við peningana að gera, en að setja í þessa vitleysu, en þannig var þetta orðað við mig í dag.

Í Vaktinni er Elliði bæjarstjóri enn einu sinni með hástemmdar yfirlýsingar um Bakkafjöru, en í raun og veru finnst mér það ekki skipta nokkru máli lengur, því að allar hugsanlegar mælingar um það hvort fært sé eða ófært í Bakkafjöru, munu að sjálfsögðu mega sín lítils á móti því sem reynslan kemur til með að kenna okkur. En svona til gamans, mitt sjónarmið. Það eru tvær aðal ástæður fyrir því, að ég vill ekki Bakkafjöru. Í fyrra lagi sá möguleiki að samgöngur okkar versni verulega, t.d. ef ófært yrði í þriggja eða fjögurra metra ölduhæð, sem er að jafnaði 3-4 mánuði  á ári. Hitt atriðið er að ef fært verður þarna í jafnvel 5 metra ölduhæð eða meira, þá er alveg ljóst að fyrr eða síðar verður farið að bjóða upp á löndunar þjónustu þarna, með hörmulegum afleiðingum fyrir bæði fiskvinnslufólk í eyjum og höfnina, sem og bæjarfélagið.

Á morgun er lundaball Helliseyinga í Höllinni, en við sem erum í veiðifélaginu Heimaey, ætlum að koma saman annað kvöld í Blíðu kró. Búið er að stilla upp grillunum, kaupa steikurnar og mjöðinn, einnig er allt tilbúið til tónlistar flutnings, sem og margs konar skemmtiefni sem unnið hefur verið að s.l. sólarhring.

Meira seinna


Lundasumarið 2008

Þrátt fyrir að ég hafi bæði séð lundapysju í höfninni í morgun og lunda á sjónum í gær, þá ætla ég að skrifa mína lokagrein um lundasumarið núna.

Bæjarpysjan í Vestmannaeyjum sýnist mér að verði ca. 600 og er það í sjálfu sér gríðarleg vonbrigði. Ef ég hinsvegar reyni að horfa á það jákvæða og reikna fjöldann í Vestmannaeyjum á svipaðan hátt og ég hef gert hingaðtil, þá lítur þetta út svona:

Ég hef oft borið það undir mér eldri og reyndari menn, hvort að ekki væri nægilegt að tala um bæjarpysjuna sem 1/2% af þeim fjölda pysja, sem komast á legg í Vestmannaeyjum og eru flestir sammála mér í því, en margir vilja hafa töluna enn lægri. Þetta þýðir sem sé, að ein bæjarpysja þýðir ca. 200 pysjur frá Vestmannaeyjum. Þannig að 600 pysjur gera því 120 þús. pysjur. Þessi fjöldi er að mínu mati ekki nægilegur til þess að hefja veiðar af fullum krafti næsta sumar, en ef það er eitthvað sem er jákvætt við þennan fjölda, þá er þetta þó ca. 5 sinnum meira magn heldur en veitt var í sumar, en mér sýnist heildar lundaveiðin í Vestmannaeyjum hafa verið 17-18 þús. lunda. Einnig er jákvætt að þetta þýðir, að lundaveiðin í sumar var sjálfbær. Magnið er hins vegar allt of lítið til að fara í alvöru veiðar og ljóst að þær breytingar sem eru að verða í náttúrunni geta hugsanlega orðið til þess á næstu árum, að lundaveiðar leggist alveg af. Ég tek það hins vegar fram, að lundastofninn er gríðarlega sterkur. Ég hins vegar met ástandið þannig að ekki sé rétt að ákveða með veiði á næsta ári, fyrr en við sjáum um mánaðamótin júni/júli næsta sumar hvernig útlitið er og verði útlitið verra en núna í sumar, þá tel ég ekki verjandi að lundi verði veiddur, en verði útlitið svipað eða betra, þá væri ég til í skoða þann möguleika að veiðar yrðu leyfðar í ca. 10-15 daga fyrir Þjóðhátíð næsta sumar.

Töluverð umræða hefur verið um svo kallaðar atvinnuveiðar og/eða að menn veiði sér í soðið. Ég er á þeirri skoðun, að allir eyjamenn eigi rétt á að fá lunda í soðið fyrir Þjóðhátíð, ef yfirhöfuð á að veiða lunda. Ég hef hins vegar rekið mig á það, að í sumum veiðifélögunum þar sem út á við er talað um að menn veiði aðeins í soðið, þá er það nú ekki alltaf svo og þekki ég dæmi um það að menn hafi veitt það mikið magn að það dugi þeim í soðið næstu árin, en nóg um það.

Lundaballið er um næstu helgi og ætla ég ekki að mæta á það, frekar en vanalega og ég held að vinur minn Páll Scheving hafi kannski orðað það best, þegar hann sagði:"Er þetta lundaball ekki bara fyrir fólk sem étur mikinn lunda?" Ekki veit ég, hvort að það er rétt, en við tókum hins vegar eftir því, að í auglýsingu fyrir ballið eru talinn upp öll veiðifélögin, nema veiðifélagið Heimaey. Upp er komin sú hugmynd, að halda lokahóf lundaveiðifélagsins Heimaey næstkomandi laugardag og er nú þegar skemmtinefnd byrjuð að starfa og eftir að hafa hlerað hana lítillega í dag, þá skilst mér að meðal skemmtiatriða verði hugsanlega formaður Bjargveiðifélags Vestmannaeyja í ár með sýnikennslu í hvernig eigi að stelast í veiði hjá öðrum veiðifélögum og að hugsanlega muni Erpur Snær mæta í búningi fuglahræðu og taka fugladansinn við undirleik. Veislan verði í Blíðukró á laugardagskvöldið, eitthvað er lítið um miða á skemmtunina, en það er talað um að enginn komist inn, nema að hann hafi að minnsta kosti veitt meiri en 200 lunda í sumar.


Fékk þennan frá litlu systur

Konur yfir fertugt
Eftir Andy Rooney í 60 mínútum
 Þetta er bara tær snilld...


 Eftir því sem ég eldist, met ég mest konur yfir fertugt og hér eru
 nokkrar ástæður fyrir því:

 Kona yfir fertugt mun ekki vekja þig um miðja nótt og spyrja þig
 "hvað ertu  að hugsa?"
 Henni gæti ekki verið meira sama.

 Ef kona yfir fertugt vill ekki horfa á leikinn með þér vælir hún
 ekki yfir því.
 Hún gerir eitthvað sem hana langar til og yfirleitt er það
 áhugaverðara en leikurinn.

 Konur yfir 40 eru virðulegar í framkomu. Þær fara sjaldan í
 öskurkeppni við þig í óperunni eða á fínum veitingastað.
 Nema þú eigir það skilið, þá hika þær ekki við að skjóta þig ef þær
 halda að þær komist upp með það.

 Eldri konur eru örlátar á hrós, oft óverðskuldað. Þær vita hvað það
 er að vera ekki metin að verðleikum.

 Konur verða skyggnar með aldrinum. Þar af leiðandi þarftu aldrei að viðurkenna
 misbresti þína fyrir þeim.

Ef þú getur litið framhjá einni eða tveimur hrukkum verður þér ljóst að kona yfir
fertugt er langtum kynþokkafyllri en yngri kynsystur hennar.

 Eldri konur eru hreinar og beinar. Þær segja þér eins og skot að þú
 sért asni ef þú hagar þér sem slíkur.
 Þú þarft aldrei að fara í grafgötur með hvar þú hefur þær.

 Já, við dásömum konur yfir fertugt af mörgum ástæðum.

 Því miður er það ekki gagnkvæmt. Því fyrir hverja glæsilega, smarta
 og vel greidda konu yfir fertugt, er sköllóttur,
 vambmikill forngripur í gulum buxum gerandi sig að fífli fyrir 22.ára
 gengilbeinu.
Konur, ég biðst afsökunar.

 Til allra þeirra karla sem segja; "Afhverju að kaupa kúna þegar þú
 getur fengið mjólkina frítt?" þá eru hér nýjar upplýsingar:

 Nú á tímum eru 80% kvenna á móti giftingum.

 Hvers vegna? *

 Vegna þess að konur gera sér grein fyrir að það borgar sig ekki að
 kaupa* *  heilt svín þótt þær langi í smá pylsu!*

Herjólfur, lundinn og maður sem kann ekki að skammast sín

Það er skítaveður í eyjum þessa dagana og spáin slæm og mér þykir það alveg merkilegt að Herjólfur skuli fara 2 ferðir í dag, en hann er seigur sá gamli, en það væri nú munur ef við hefðum stærra skip, sem gæti farið þetta á innan við 2 tímum, en að sjálfsögðu er ófært í Bakkafjöru þessa dagana.

Ég fór upp á land á mánudaginn með Herjólfi og tilbaka um kvöldið. Tvennt vakti sérstaka athygli mína í ferðinni, fyrst um morguninn þegar Herjólfur var að fara fyrir klettinn, þá var hreint ótrúlega mikið lundaflug í Ystakletti og það 15 sept. sem segir okkur það, að það má reikna með lundapysjum fram í október. Hitt atriðið var, að þar sem ég hafði lokið erindum mínum í bænum óvenju snemma, ákvað ég samt að keyra til Þorlákshafnar og var kominn þangað kl. 17,00, en Herjólfur fer ekki fyrr en 19:30. Ég ákvað þetta vegna þess, að ég hafði heyrt margt gott um nýja sundhöll þeirra Þorlákshafnarbúa og ákvað að skella mér og prófa staðinn. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, enda öll aðstaða þarna til fyrirmyndar og mæli eindregið með að sérstaklega barnafólk kíki þarna við, því að t.d. er inni sundlaug með kastala og rennibraut og einnig útisundlaug með stærri rennibrautum fyrir eldri krakkana. Það var heldur ekkert slæmt að koma umborð í Herjólf eftir að hafa slakað á í klukkutíma í heita pottinum, tandur hreinn og fínn. Útisvæðið er skemmtilegt hjá þeim og það væri nú óskandi, að menn fari nú að byrja á útisvæðinu við sundlaug Vestmannaeyja og mér þótti það frekar dapurt að heyra það á bæjarstjórnarfundi í sumar, að það væri búið að ákveða að taka þriðjung af þeim peningum sem áttu að fara í útisvæðið í annað, en vonandi verður það bætt upp.

Smá leiðrétting frá eldri færslu. Ég sagði frá því fyrir nokkru síðan að mér hefði verið sagt, að í Brandinum hefðu verið veiddar 11 kippur í sumar. Þetta reyndist vera misskilningur og er það hér með leiðrétt. Mér þótti það hins vegar mjög undarlegt, að aðeins hafi verið veiddir liðlega 100 lundar í Brandinum í sumar og að sögn veiðimanns úr Brandinum, ekki bara vegna slæmra átta, heldur einnig vegna lunda leysis. Þetta minnti mig svolítið á tvær lýsingar frá tveimur lundaveiðimönnum úr Álsey. Sá fyrri sagði að það hefði hreinlega enginn lundi verið í Álsey, en bætti því síðan við, að hann hefði aðeins farið þangað í einn dag. Annar sagði hins vegar, að nóg hefði verið af lunda í sumar, en þeir hefðu hins vegar ákveðið að veiða ekki nema í soðið. Þess skal getið, að stærsti veiðidagurinn á heimalandinu var á þriðjudeginum fyrir Þjóðhátíð. Þann dag veiddu 4 veiðimenn í Miðkletti 1200 lunda, enda nægur lundi þann daginn.

Mig langar að þakka þeim fjölmörgu, sem hafa tekið undir með mér í grein minni um eineltið, en að gefnu tilefni þá er það alveg ljóst, að eineltið þrífst ennþá í skólunum, kannski ekki alveg eins augljóst og á árum áður, en því miður er ég hræddur um að það muni aldrei breytast. Ég kannaði aðeins eftir ábendingu, hvort einhverstaðar væri hægt að fá þessa umtöluðu bók Sigurgeirs og þótti mér miður að heyra það, að hún er víða bæði til sölu og mjög eftirsótt á bókasafninu. Svo ekki hefur Sigurgeir séð ástæðu til þess að taka hana úr umferð. Þetta þótti mér dapurt að frétta, en það er nú einu sinni svo, að sumir hreinlega kunna ekki að skamma sín, fyrir utan það að mér var nú bent á það að hann skáki nú í skjóli frekar stórs stjórnmálaflokks hér í eyjum. Meira seinna .

p/s

Langar líka að benda á það, að ég er byrjaður að setja greinar inn á heimaklett.is og mun sjálfur skrifa þar eitthvað seinna.


Lundinn og eineltið

Eru þau málefni sem helst ber á góma í Vestmannaeyjum þessa dagana.

Ég sá á RÚV áðan, þar sem Erpur Snær var enn einu sinni að lýsa því yfir að engin pysja hefði verið í Vestmannaeyjum 4 ár í röð. Ég velti því fyrir mér, hvað fær manninn til að ljúga svona í fjölmiðla og þá sérstaklega varðandi 2005, þar sem engar rannsóknir voru í gangi það ár og ekki hvað síst þegar tekið er tillit til þess, að þó ekki hafi verið mikið af lundapysju í fyrrahaust, þá held ég að það detti engum öðrum en Erpi það í hug að halda því fram að það hafi engin pysja verið. Svo það er orðin stór spurning, hvort að ekki þurfi að kaupa fleiri rannsóknarmenn til Vestmannaeyja til að kanna hvað er að gerast þarna hjá þeim á setrinu.

Mikil umræða hefur verið í Vestmannaeyjum um bók Sigurgeirs, sem hann nefnir Viðurnefni í Vestmannaeyjum. Margir hafa gagnrýnt þessa bók og er ég því sammála, en mig langar að taka lítið dæmi um, hvernig uppnefni eða viðurnefni breytast oft fljótt í einelti.

Í vikunni bárust mér þær hörmungar fréttir að ágætur vinur minn og skólabróðir hefði fundist látinn. Af tillitssemi við móður hann ætla ég ekki að nafngreina hann. Ég man eftir honum úr skóla, þegar hann var að fá sín uppnefni og ég man vel eftir því, að hann var ekkert hrifinn af þeim nöfnum. Hann var sjálfur lítið fyrir að uppnefna fólk og gerði aldrei flugu mein. Það eru nokkrir mánuðir síðan ég talaði við hann síðast, en vegna umræðunnar þá rifjaðist upp fyrir mér samtal sem við áttum fyrir ca. 10 árum síðan. Eftir að hafa fengið nokkur ár í friði fyrir sínum uppnefnum, þá tóku börnin í nágrenninu upp á því að uppnefna hann með gömlu nöfnunum sem hann þoldi aldrei og sagði hann mér, að það væri alveg ljóst að þetta hefðu þau eftir foreldrum sínum. Sjálfur lenti ég í þessu á svipuðum tíma, þegar elsta dóttir mín, sem hefur verið þá 6-7 ára gömul, fór að spyrja mig út í nafngiftir um mig, sem börnin í nágrenninu höfðu eftir sínum foreldrum. Þetta er afar dapurt og alveg ljóst að ekki þola allir slík uppnefni og ég veit það, að vinur minn átti mjög erfitt síðustu árin, að hluta til vegna eineltis.

Ég ætla að enda þessa grein með orðum annars vinar míns, sem sagði við mig í vikunni þessa þekktu setningu:"Aðgát skal höfð í nærveru sálar." Ég held að við ættum öll að hafa þetta í huga í framtíðinni, því engin er saklaus, hvorki ég né aðrir, góðar stundir.


KS/Leiftur 0, ÍBV 1

Óska ÍBV strákunum innilega til hamingju með sigurinn í 1. deildinni og úrvalsdeildarsætið. þetta er búið að vera frábært sumar hjá liðinu og Heimi þjálfara og þið áttuð þetta svo sannarlega skilið. Óska einnig stelpunum í 2. flokki ÍBV til hamingju með Íslandameistaratitilinn, frábær árangur og greinilegt að framtíðin er björt þarna.

Fór á sjó í nótt í frekar leiðinlegu veðri, en þar sem það spáir brælu alla næstu vikuna, þá lætur maður sig stundum hafa það. Aflinn var ágætur eða ca. 2,2 tonn.

Ég tók eftir því þegar ég var að keyra inn Klettsvíkina, að enn er lundi að fljúga upp í fjöllin, svo enn er veik von um að úr rætist, en greinilegt er að ástandið hjá pysjunni er verra en á síðasta ári. En ég mun skrifa mína lokagrein um lundann á þessu ári seinna.


Klukk

Þar sem bæði búkolla og Helgi Þór eru búin að klukka mig, kemur þetta.

 

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.

Fiskvinnslustörf hef ég unnið margvísleg.

Í sveitinni í gamla daga var mér bæði kennt að taka upp kartöflur, heyja og moka flórinn undan beljunum.

Unnið við smíðavinnu

en lengst af sem sjómaður.






Fjórar bíómyndir sem ég held upp á.

Back to the future.

Held mikið upp á Clint Eastwood

Allskonar neðansjávar myndir, t.d. the Abyss

en uppáhaldið er Vesalingarnir með Anthony Perkins


Fjórir staðir sem ég hef búið á. 

Keflavík.

Vestmannaeyjar.

og í Kópavogi í gosinu.



Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Litla Bretland

Prison break

Stund sannleikans

Boston legal


Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum;

Spánn.

Kanarí

Færeyjar

hin norðurlöndin



Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg;

Eyjar.net.

Eyjafréttir.

Leit.is

MBL.is.



Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Glæný línuýsa

Skata

Grillað lamb

Þorramatur, ekki súr



Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

Allar bækur eftir Enid Blyton.

Allar bækur eftir Alastair Mc Lean

Þrautgóðir á raunastund

Útgerðarsaga Vestmannaeyja




Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka

Guðrún María

Kolla Stefáns

Hanna Birna

Maggi Braga





Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna

Það væri ágætt að vera á Tenerife í 25 stiga hita með bjór í hendi

Það væri líka gaman að vera í einhverju öðru sólarlandi

Hefði alveg verið til í að vera á leiknum Ísland-Skotland í kvöld

En skemmtilegast hefði mér þótt að vera í rjómablíðu úti á sjó að rót fiska


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband