6.9.2008 | 20:27
Annasamir dagar og lundinn
Þó aðeins séu búnir 6 dagar af nýja fiskveiðiárinu, þá er ég samt búinn að róa 4 sinnum og fiska ca. 9 tonn, sem er mjög gott en þýðir um leið því miður það, að ég er að verða búinn með kvótann í 3 fisktegundum, þótt aðeins sé búin fyrsta vikan á nýja fiskveiðiárinu. Það nýjasta nýtt hjá kvótalausum sjómönnum er að nú eru menn hættir að leigja sér þorsk til að nýta þegar menn eru að beita sér í aðrar tegundir og setja hann frekar allan í Hafró, því að vegna þess hversu leigan er há, þá borgar sig oft frekar að selja þorskinn sem Hafró fisk og fá þannig 20% af söluandvirðinu, sem oft er að skila meiru í aðra hönd, heldur en með því að leigja og selja sjálfir (leiga á þorskkvóta í dag er 245 kr. kg). Það hefur verið mikið af undarlegum fiskum við eyjar í sumar og í síðustu viku fékk ég enn einn fiskinn, sem ég hafði reyndar einu sinni veitt áður, sá heitir Urrari. Ég kom honum lifandi í land og er hann núna á Sædýrasafninu og hvort sem hann er lifandi eða ekki, þá veit ég að þeir eiga 2 eða 3 á lífi, sem þeir fengu nýlega af Gæfunni. Fallegur fiskur, en mjög sérkennilegur. Mér er sagt að nafnið sé komið til vegna þess, að þegar haldið er á fiskinum og hlustað, þá heyrist eins og lítið urrr frá honum.
Ég fór á sjó í nótt austur fyrir eyjar og tók eftir því, að töluvert virtist vera af lunda á sjónum og m.a. stór hópur austur á Sandahrauni, en þegar birti sá ég að þarna var aragrúi af lundapysju á ferðinni. Mjög ánægjulegt og ekki minnkaði ánægjan, þegar ég kom í land og taldi einhverjar 14-15 lundapysjur í höfninni, sem að mínu mati þýðir að nú þegar hafa a.m.k. á annað þúsund lundapysjur komist á legg frá Vestmannaeyjum, vonandi er þetta bara byrjunin og mig langar að benda fólki á, sem er á pysjuveiðum að veðurspáin næstu 4 dagana er þessleg að mikið gæti orðið af pysju í bænum, en það kemur þá í ljós. Ég tek það hinsvegar fram, að þetta magn er hinsvegar ekki nándar nægilega mikið til þess að réttlæta veiðar á næsta ári, til þess þurfa a.m.k. að koma 1-2000 pysjur sem bæjarpysjur. Einn vinur minn og félagi í veiðifélaginu Heimaey átti í vikunni undarlegt samtal við Erp, þar sem Erpur sagði m.a. að lundaveiðin í sumar hefði í raun og veru engin áhrif á lundastofninn og þá sérstaklega vegna þess, að vegna hruns í lundastofninum 4 ári í röð, þá yrði ekki veiddur lundi í eyjum næstu árin jafnvel. Mér þótti þetta mjög furðulegt hjá Erpi, en samt í algjöru samræmi við það hvernig hann hefur látið síðan hann hóf lundarannsóknir í eyjum í fyrra sumar, með þeim undarlegu orðum áður en hann hóf rannsóknir, að best væri ef menn væru ekki að veiða lundann. Ég vill taka það skýrt fram, að ég hef alltaf haft mikið álit á Erpi Snæ vegna rannsókna hans á lundanum, en vinnubrögð hans, hinsvegar, sl. ár hafa að mínu mati verið vægast sagt undarleg. Aftan á Fréttum er lítil grein, þar sem að enn einu sinni kemur fram hjá Erpi að engin nýliðun hafi verið núna 4 ár í röð, þrátt fyrir það, að hann hafi sagt það í skýrslu sinni í vor að nýliðun í lundastofninum 2007 hafi verið 82 þús. pysjur. Ég hef nú leyft mér að efast um að þessi tala sé rétt, enda er hún fundin út með því að skoða í 0,1 % af lundaholum í Vestmannaeyjum. Að mínu mati hlýtur það að benda til þess, að það séu bara 0,1 % lýkur á að þessi tala sé rétt. Ég held því hinsvegar fram, að miðað við mína útreikninga, þá séu 50% lýkur á því að nýliðun á síðasta ári hafi verið 200 þús. pysjur og 50% lýkur að hún hafi verið 300 þús.
Það hefur verið mikil umræða á vefsíðu ÍBV um kröfu KSÍ um stúku við Hásteinsvöll. Þar sem að nú er það komið á hreint, að sætin norðan við völlinn séu 535, þá held ég að það hljóti nú að vera nóg að byggja yfir stúkuna og líst mjög vel á þá teikningu, sem Stefán Þór Steindórsson er með á blogg síðu sinni og er sýnd inni á eyjar.net. Meira seinna.
30.8.2008 | 22:14
Gleðilegt nýtt ár allir
Reyndar byrjar nýja fiskveiðiárið ekki fyrr en á miðnætti annað kvöld, en þar sem það er greinilega bræla á morgun hjá mér, þá skrifa ég þetta svona núna. Margir kvíða fyrir nýja fiskveiðiárinu, enda úthlutun veiðiheimilda í þorski í sögulegu lágmarki og ekki í nokkru samræmi við ástandið á miðunum.
Sigur ÍBV á Haukunum 5-1 var glæsilegur og ekki slæmt að vera komin 3-0 yfir eftir aðeins 13 mínútur. Haukarnir voru að sjálfsögðu svolítið slegnir út af laginu eftir þessa frábæru byrjun hjá ÍBV, en áttu ágætis leik eftir þessa byrjun, en við vorum einfaldlega bara miklu betri. Þar sem Selfoss tapaði í gær þá er ljóst að okkur nægir einn sigur úr síðustu 3 leikjunum, svo nú ætla ég bara að sýna smá græðgi og heimta dolluna heim.
Fyrstu pysjurnar komu í vikunni og er það á svipuðum tíma og í fyrra. Stærsti dagur í vigtun á Sædýrasafninu í fyrra var 10. sept. svo vonandi fer þetta að bresta á, en mér finnst óvenju lítið hafa verið af lunda í klettinum að undanförnu, en vona að sjálfsögðu það besta. Núna liggja fyrir ca. veiðitölur hjá veiðifélagi Heimaeyjar. Í félaginu eru 13 veiðimenn og sýnist mér að veiðin hafi verið um 8000 lundar. Þess má geta að ég veit til þess, að 2 veiðimenn í félaginu voru með um 8000 lunda s.l. sumar, en skýringin er einföld, það var allt vaðandi í æti í kringum eyjar í fyrrasumar, en ástandið er mun verra núna. Ég tók eftir því að í fyrradag lágu 4 aðkomu snurvoðabátar við bryggju í eyjum og eru greinilega í startinu með að hreinsa upp fjöruna. Elliði bæjarstjóri hafði samband við mig og lofaði mér því, að beita sér fyrir því að lundinn fengi að njóta vafans með ætið í fjörunni, en við sjáum nú til hvort að eitthvað verði úr því, því miður er ég ekki mjög trúaður á því. Meira seinna.
29.8.2008 | 07:12
Bakkafjara , ófært = 4,4 metrar
Kemur ekki á óvart enda hífandi rok í eyjum , en hver veit kannski hvessir aldrei eftir 2010 eða 11 eða 12 eða þegar þetta verður tilbúið , en það er nú svo kannski fleiri ferðir geti bætt þetta upp , spáin er hinsvegar ekki góð fyrir næstu daga .
Í skýrslu Gísla Viggóssonar er ekki gert ráð fyrir því að það verði ófært í Ágúst , en stundum hvessir líka á sumrin. Meira seinna .
26.8.2008 | 17:19
Nóg af Þorski nema hjá hafró
Allt loðið af þorski frá Fonti og suður að Gerpi
Aldrei hefur verið jafn erfitt og nú að forðast þorskinn segir Ólafur Hallgrímsson á Borgarfirði. Hér eru dæmi um að veiðst hafi á handfæri 1,8 tonn á 6 klst. Allt boltaþorskur 5 6 kg meðalþyngd.
Þorskurinn er vel á sig kominn fullur af síld og makríl. En það virðist ekki duga honum því hann veiðist einnig vel á línuna. Þar eru dæmi um að menn séu að fá 400 kg á bjóð. Því miður eru ekki margir hér sem geta leyft sér þann munað.
Flestir eru að reyna að forðast þorskinn og eina skjólið er uppi í fjöru, en þar er hann einnig að finna en þá oftast sem drasl með ýsunni eins og Ólafur komst að orði.
26.8.2008 | 10:14
Stóri Bramafiskurinn
Vegna spurninga um stóra bramafiskinn í fyrri færslu, ákvað ég að skrifa þessa færslu. Ég hef veitt svona fisk bæði djúpt austan og vestan við eyjar, en ekki á grynnri sjó en 60 faðma dýpi. Kunningi minn á trillu fór s.l. miðvikudag djúpt suður fyrir eyjar, eða niður á 80 faðma dýpi og fékk ca. 70-80 kg af þessum fiski, en hver fiskur er 1-2 kg. Besta lýsingin á þessum fiski er sennilega sú, að hann sé mitt á milli karfa og makríls. Hann er aðeins stærri en karfinn, en töluvert mjórri. Hann er sléttur eins og makríllinn og með alveg eins sporð. Hann er hinsvegar greinilega ránfiskur, því hann er með tvöfalda röð af tönnum uppi í sér og hef ég fengið hann bæði á handfæri sem ég er að slaka niður og á línu, sem liggur á botninum. Þess má geta að ég heyrði í skipstjóra á stóru línuveiðiskipi frá Grindavík, sem var sunnan við eyjar í síðustu viku og var hann kominn með rúmlega hálft kar af þessum fiski, eða ca. 250-300 kg. Fiskurinn er ægifagur þegar hann kemur upp úr sjónum, eða nánast fjólublár og eru litirnir í uggunum sérlega fallegir og nánast eins og regnbogi, því þeir skipta litum, eftir því hvernig sólin fellur á þá. Þegar hann hinsvegar drepst, þá breytist liturinn og hann verður nánast grásilfraður.
Meira seinna.
24.8.2008 | 20:11
Nokkrar myndir
Fyrsta sem ég sá þegar ég kíkti niður í Kervíkurfjallið í gærkvöldi voru nokkrir lundar.
Og þegar ég gekk aðeins lengra blasti við töluvert mikið af lunda í byggðinni
Svavar Þór og Sunna Mjöll komu með í ferðina
Útsýnið var fagurt og ef myndavélin væri betri, þá sæist töluvert að súlu vera að stinga sér á víkinni, svo eitthvað af æti er þarna greinilega.
Við komum svo við á berjamó eyjamanna vestur á hrauni, þar er yfirleitt nóg af krækiberjum.
Fyrir mánuði síðan rakst ég á þessa lundapysju uppi á Heimakletti og stóð hún þá varla úr hnefa. Þar sem hún var tekin inn á heimilið, þá þurfti hún að sjálfsögðu að fá nafn, valið stóð á milli Elli bæjarstjóri eða Gulli forseti, en þar sem ég tók fljótlega eftir því, að pysjan var oft að taka allt of mikið upp í sig þá varð nafnið Elli bæjarstjóri ofaná. Pysjan er núna komin niður í Blíðukró, enda hélt ég á tímabili að hún væri hreinlega að drepast. Ég hafði hinsvegar verið varaður við því, að þegar hún tæki vængina þá gengi mikið á og í vikunni sem vængirnir gengu út át hún nánast ekki neitt, en er nú aðeins að hressast, sérstaklega eftir að ég kom í hana bæði lýsi og vítamíni. En miðað við stöðuna á pysjunni, þá eru ennþá 2-3 vikur að minnsta kosti, í það að það verði hægt að sleppa henni.
Sjáið gleypiganginn
Ég hef fengið nokkra svona fiska að undanförnu (stóri bramafiskur). Þetta er greinilega ránfiskur sem ættaður er úr Kyrrahafinu og sýnir best hversu gríðarlegar breytingar eru að verða í hafinu.
24.8.2008 | 16:13
Ætla eyjamenn að horfa upp á síðustu lundapysjurnar í ár..........
........sveltar til dauða núna í sept.? Ástæðan fyrir þessari fyrirsögn er þessi: Ég fór á sjó þrisvar í síðustu viku (fiskaði liðlega 5 tonn). Síðasti róðurinn var á fimmtudaginn og réri ég þá austur á Rófu, sem er neðansjávar fjalllendi í ca. 20 mín. keyrslu á trillu austan við Elliðaey. Þar tók ég eftir því að mikið var af lunda á sjónum og mjög mikið af lunda á ferðalagi til og frá fjörunni í Landeyjarsandi. Þetta kemur ekki á óvart, vegna þess, að það er alþekkt að þegar æti bregst í kringum eyjarnar þá sækir lundinn inn í fjöru. Auk þess var ég að lesa viðtal við Val Bogason inni á eyjafréttum um sílarannsóknir sumarsins, þar sem hann segir m.a. "Eitthvað var af síli inni í Bakkafjöru." Mér var bent á það í dag, að frá og með 1. sept. opnast fjaran fyrir snurvoðabátum og er þeim þá leyfilegt að fiska í fjörunni alla leið frá Þorlákshöfn að Dyrhólaey. Þetta er að sjálfsögðu hörmulegar fréttir fyrir lundann og ég trúi ekki öðru en að allir þeir fjölmörgu eyjamenn, sem vilja að lundinn njóti vafans láti nú í sér heyra.
Það hefur mikið gengið á að undanförnu, en til þess að kanna ástandið á lundanum, þá skrapp ég eftir kvöldmat í gærkvöldi með tveimur af börnunum mínum og gengum við allt Kervíkurfjallið og hluta af Sæfellinu. Mikið var af lunda í Kervíkurfjallinu, en lítið í Sæfelli, en þrátt fyrir ýtarlega leit fundum við enga dauða lundapysju, en ég ætla að setja inn annað blogg á eftir eða í kvöld, þar sem í eru nokkrar myndir úr ferðinni. Einnig ætla ég að kynna til sögunnar Ella bæjarstjóra.
18.8.2008 | 11:02
Er búið að jarðsyngja síðasta lundann í Vestmannaeyjum?
En það mætti halda það, miðað við umfjöllunina um lundann á eyjamiðlunum. Ég er nú búinn að þræða fjöllin hérna á Heimaey síðustu 30 árin og verð að segja alveg eins og er, að þó að ég vissulega hafi áhyggjur af því að nýliðun á lunda geti brugðist í haust, þá ætla ég ekki að gefa mér það fyrirfram, enda er ég orðinn alltof reyndur lundakarl og hef það mikið álit á þeim svart/hvíta og ef við tökum t.d. mið af því, hvernig sumir (Bjarnareyingar) töluðu og létu eftir veiðisumarið ´97 og urðu síðan að éta það allt ofan í sig sumarið ´98, þá finnst mér hæpið að taka mark á því, hvernig sumir láta. En þetta skýrist í næsta mánuði.
Varðandi ákvörðun bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna um að stytta seinni hluta lundaveiðitímans, þá í raun og veru skiptir sú ákvörðun engu máli í sjálfu sér, alls ekki fyrir lundann og litlu fyrir veiðimenn, en þessi ákvörðun kom mér hins vegar ekki á óvart að því leytinu til, að það er ekkert nýtt að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að sýna hverjir hafi valdið.
Það furðulegasta samt er (hingað til) þessi grein í Fréttum: Flestir gerðu ekki meir en að ná í soðið. Ég tek það fram að ég hef nú ekki rætt við marga úr eyjunum, en ég lenti þó á spjalli við einn úr Brandinum fyrir stuttu síðan, sem sagði mér það, að aðeins væru komnar tæpar 11 kippur í Brandinum í sumar, sem að væri þó eðlilegt, vegna þess að Brandurinn er mjög lítil eyja og þar er t.d. enginn veiðistaður í austanátt og það er búið að vera ríkjandi austanátt lungann af veiðitímanum. Það sem er hinsvegar furðulegast er, að í greininni í Fréttum stendur að aðeins voru veiddar ein til tvær kippur í Brandinum í sumar. Ég ætla nú að leyfa mér að halda því fram, að þetta sé að öllum líkindum ekki eina tölulega vitleysan í greininni. Hver hins vegar ber ábyrgðina veit ég ekki. Einnig þykir mér furðulegt að ekki skuli vera rætt við veiðimenn á stærstu eyjunni, þ.e.a.s. Heimaey. En svona til upplýsinga, þá er það vissulega rétt að veiðistofn lundans var ekki mikið við í fjöllunum í sumar, en þannig hefur það oft verið áður, en tengist einfaldlega því, hversu langt er í ætið.
Það hefur vakið athygli mína, furðuleg og neikvæð vinnubrögð þeirra á Fréttum varðandi lundann í sumar og kom ágætt dæmi um þessi vinnubrögð frá vini mínum nýlega, því að eins og við höfum séð, þá er iðulega haft samband við veiðimenn úr hinum og þessum úteyjum, sem eru kannski að skreppa einn dag eða eina helgi í veiði og þær upplýsingar notaðar sem viðmið um ástand lundastofnsins, í staðinn fyrir að hafa einfaldlega samband við veiðimenn sem eru að stunda alvöru veiðar. Þetta hljómar svona sviðað og ef hringt væri umborð hjá mér til að fá fréttir af loðnuveiðum á loðnuvertíð og viti menn, þá er að sjálfsögðu hringt í loðnuskipstjórana.
Að lokum þetta: Mér finnst alltaf jafn furðulegt, þegar menn halda því fram að veiðimaður sem gengur upp á fjall með lundaveiðiháf í hendi geti skaðað lundastofninn og þetta hljómar svipað og þeir sem halda því fram að maður sem fer út á sjó með veiðistöng geti klárað fiskinn í sjónum, en bara svo það sé alveg á hreinu: Lundaveiðistofninn var í sögulegu hámarki í fyrra sumar. Það breytti samt ekki þeirri afstöðu minni, að ef engin nýliðun hefði orðið í stofninum á síðasta ári, þá hefði ég ekki mæli með því að veitt yrði í ár og það sama gildir í ár, að ef engin pysja verður, þá tel ég ekki verjandi að lundinn verði veiddur á næsta ári, því að að sjálfsögðu eiga veiðarnar að vera sjálfbærar og að sjálfsögðu á lundinn að njóta vafans. Varðandi hins vegar pysjutímann, þá langar mig að leggja það til, að menn fylgist vel með og velti því upp, að ef 1000 pysjur skili sér sem bæjarpysja þá erum við að sjálfsögðu að tala um nýliðun lunda í Vestmannaeyjum um ca. 1-200 þúsund pysjur, annað er bara þvæla. Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.8.2008 | 23:00
Stöndum saman
Hjálp bloggvinir / Ert þú til í að birta þetta á þinni síðu?
Elísabet Sigmarsdóttir er fædd með sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast Encephalocele. Hún er sú eina á landinu sem hefur lifað hann af hingað til. Afleiðingar hans eru ýmsar. Henni fer stöðugt aftur og er í dag í hjólastól. Elísabet er búin að fara í u.þ.b. 60 aðgerðir. Oft var henni ekki hugað líf en er í dag lífsglöð og bjartsýn ung kona þrátt fyrir alla þá þröskulda sem lífið hefur sett henni.Elísabet leitar nú eftir stuðningsmanneskju eða liðsveislu, eins og það er kallað. Liðsmaður er hugsaður sem félagslegur stuðningur og er um 16 tíma á mánuði að ræða. Er það samkomulagsatriði á milli Elísabetar og þess sem stuðninginn veitir hvernig þessum tíma er varðveitt og hvenær.
Það er í raun Reykjavíkurborg sem á að útvega stuðningsmanneskju en þeim hefur ekki tekist það og hefur Elísabet verið án þessarar þjónustu í 7 mánuði. Engin vilji er þar á bæ til að ganga lengra til að bjarga málunum. Þetta fellur ekki undir forgangsröð borgaryfirvalda. Það vitum við öll. Þetta skiptir hinsvegar öllu máli fyrir tilveru Elísabetar Sigmarsdóttur.
Viðkomandi hlýtur laun fyrir en samt óskum við eftir manneskju sem hefur áhuga á því að láta gott af sér leiða og gefa nærveru sína og félagsskap til þessarar fallegur og hugrökku vinkonu minnar.
Ef þú hefur tök á því og tíma, gerðu þá góðverk. Ef þú hefur verið að hugsa í mörg ár að þú ættir kannski að gefa eitthvað til baka þá er núna tækifærið.
Síminn hjá Elísabetu er: 587 - 6278 og netfangið: liso@internet.is eða þú getur sent mér (Halla Rut) E-mail: halla@kjosehf.is ef þú vilt frekari upplýsingar.
Ég hér bið ykkur öll um að birta þetta á ykkar síðu sem færslu ef þið sjáið ykkur það fært.
Og svo er bara líka "nice" að senda henni kveðju: Elísabet
9.8.2008 | 15:41
Makríll
Ég vill byrja á að taka það fram, að lundagreinin sem ég skrifaði í fyrradag var skrifuð áður en ég frétti af ákvörðun bæjarstjórnarinnar, en ég mun fjalla um þá ákvörðun síðar.
Nýjasta gullæðið í Íslenskum sjávarútvegi er makríllinn og er mjög ánægjulegt að sjá hve vel gengur. Þingmenn FF í suðurkjördæmi hafa verið duglegir síðustu árin að benda á það, að makríllinn sé sóknartækifæri okkar og mér er sagt að hásetahluturinn á Huginn í síðasta mánuði hefur losað liðlega 4 milljónir (sel það ekki dýrara en ég keypti það) og er það mjög ánægjulegt, ekki bara fyrir áhöfnina, heldur líka fyrir bæjarfélagið í heild, því að eins og ég hef áður skrifað, þá er útgerðin lífæð Vestmannaeyja og að sjálfsögðu eigum við eyjamenn að vera í forystuhlutverki varðandi nýtingu makrílsins.
Nýlega var nefndur við mig sá möguleiki að fara á minni bátum, eins og gert er í Noregi, og veiða með krókum makríl til manneldis og hef ég mikinn áhuga á því, en vandamálið er að sjálfsögðu að það er dýrt að starta svoleiðis, en sem betur fer eru það stórar og sterkar útgerðir í eyjum, að þær munu ráða vel við það. Við höfum hér allt sem til þarf, bæði reynda sjómenn, nóg af skipum og niðursuðuverksmiðju, ef út í það er farið, en lykilatriðið er að sjálfsögðu það að standa rétt að málinu í upphafi, þ.e.a.s. kynna sér betur veiðarfærin og aðferðirnar, vinnsluna og markaðinn. Þarna held ég að við eigum virkilega sóknartækifæri.
Hermann Kristjánsson á Sjöfninni gerð tilraunir fyrir 2-3 árum til að veiða makríl með krókum, en undirbúningur var kannski ekki alveg réttur, enda sagði hann það, að loksins þegar hann hitti í torfu og byrjaði að fiska, þá fór allt í flækju og er gott dæmi um það, að menn þurfa að kynna sér málið betur áður en af stað er farið.
En öllu góðu fylgja einhverjir gallar. Eitt af því sem að fylgt hefur þessum makríl sem flætt hefur Íslandsmið (bara núna í sumar er ég búinn að verða var við makríl á færi austur af Portlandi og vestur fyrir Surt og nýlega veiddist makríll á sjóstöng úti fyrir vestfjörðum) er að ég hef haft áhyggjur að því, ásamt fleirum, að hugsanlega sé þessi makríll að koma hingað til að lifa á síli. Ef það er rétt, þá er þar kominn ansi harður keppinautur um sílið og skýrir þar af leiðandi, t.d. hversvegna lundinn hefur þurft að fara langt eftir æti síðustu árin. Ef þetta er rétt, þá er það enn mikilvægara fyrir okkur að hefja sem fyrst veiðar á makríl á heimamiðum og langar að benda á, að ég sá t.d. í Fréttablaðinu núna í vikunni viðtal við kokk sem lýsti því yfir, hversu góður makríllinn væri á grillið.
Meira seinna.