7.8.2008 | 17:22
Lundafréttir
Það er mjög undarlegt að lesa stöðugar frásagnir í fjölmiðlunum um mikinn pysjudauða og hrun í lundastofnum, og ég velti því fyrir mér, hvort að hér sé í gangi einhvers konar gúrkutíð, því mikið af þessum fréttum virkar á mig eins og einhverskonar æsifréttamennska.
Ég fór í lunda á þriðjudaginn suður í Kervíkurfjall, veiddi 120 lunda, mest ungfugl, og er það ánægjulegt, því eins og allir vanir veiðimenn vita, þá annaðhvort fjölgar ungfuglinum þegar líður á veiðitímann eða einfaldlega, það veiðist ekki neitt, en stofninn er sterkur fyrir því. Ég sagði frá því fyrir nokkru, að ég hefði rekist á nokkrar dauðar pysjur úti í Miðklett. Sömuleiðis hef ég heyrt fréttir af einhverjum pysjudauða frá sumum veiðifélögunum, en sumar sögurnar eru reyndar þannig að fjöldinn fer eftir því hver talar. Ég er núna búinn að ganga 5 fjöll og er staðan þessi:
Í Miðklettinum fann ég 14 dauðar lundapysjur, en það vakti athygli mína, að flesta voru þær í nágrenni við þar sem 3 máfshreiður eru. Í Heimakletti hef ég ekki ennþá fundið dauða lundapysju. Í Kervíkurfjalli er engin dauð lundapysja, sama gildir um Litlahöfða og eftir að hafa gengið Sæfellið í gær, þá fann ég eina dauða lundapysju, en það vakti athygli mína, að rétt hjá henni rakst ég á fyrstu kanínuna sem ég hef séð þarna í 3 ár og er ljóst að kanínan er ansi seig að bjarga sér, þrátt fyrir að margir hafi verið að eltast við hana þarna síðustu 3 árin.
Ég heyrði sögu í gær um pysjudauðann í Stórhöfða, sem vakti athygli mína. Áhugamaður um lundann fór og skoðaði svæðið þar sem fuglafræðingarnir hafa verið að fylgjast með og rannsaka og fannst nokkuð af dauðum pysjum þar. Það vakti hinsvegar athygli hans, að þegar hann gekk yfir í næstu brekku, þar sem engir fuglafræðingar hafa verið að störfum, þar var engin dauð lundapysja. Ég efast ekki um það, að verði lundinn fyrir mikilli truflun, þá muni hann hugsanlega afrækja pysjuna sína, en vonandi er þetta ekki svo?
Örstutt samantekt að lokum. Samkvæmt þeim sögum sem ég hef heyrt og kannað, þá hafa fundist ca. 150 dauðar lundapysjur í Vestmannaeyjum (það fundust aðeins 4 dauðar í Elliðaey í fyrradag) samtals, en miðað við að varpholunýtingin sé um 70 %, þá eru það aðeins 150 af ca. 800-900 þús lundapysjum. Hver segir svo að hér sé mikill pysjudauði. Vonandi kemst þetta allt saman á legg.
Meira seinna.
7.8.2008 | 17:08
Þjóðhátíðin og Bakkafjara
Þjóðhátíðin var frábær eins og alltaf. Toppurinn að mínu mati var flugeldasýningin á laugardagskvöldið, sem er alltaf að verða flottari og flottari. Brekkusöngurinn var líka góður, sem og brennan. Eini gallinn við brekkusönginn var að mér fannst vanta hjá Árna Johnsen, að hann bæði fólk (eins og hann gerir stundum, en ekki núna) um að fá sér sæti í brekkunni, því að því miður var hreint ótrúlega mikið af fólki á ferðinni allan brekkusönginn og trufluðu þá sem vildu sitja og taka þátt. Dapurlegast var þó aðkoman að hvíta tjaldinu okkar á sunnudeginum, þar sem öðru ljósinu okkar hafði verið stolið og hitt skemmt, en við náðum þó að redda því.
Það hefur vakið mikla athygli og umfjöllun, þessar tuðruferðir inn í Bakkafjöru og þær hremmingar sem sumir lentu í. Það er alveg ljóst, að þegar að og ef þessi Bakkafjöruhöfn verður tilbúin, þá munu margir freistast til að skjótast hérna yfir á tuðrum og illa búnum bátum og er það miður. Þó að þetta virki ekki löng vegalengd, þá getur þetta verið ótrúlega langt þegar eitthvað kemur uppá. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess, að einn ágætur vinur minn, sem ég var að spjalla við í gær, og hefur verið dyggur stuðningsmaður Bakkafjöru frá upphafi sagði við mig:"Þarna á alveg örugglega eftir að verða alvarlegt slys."
Einnig hefur mér verið bent á það, að mikill meirihluti bæjarfulltrúa annaðhvort á, eða hefur aðgang að tuðru eða bát og sumir vilja meina, að þar með sé komin ein af aðal ástæðum þessa fólks fyrir því að vilja fá Bakkafjöru. Ekki vil ég trúa því, en svona til gamans, smá reynslusaga af þessu hafsvæði frá mér:
Haustið 1987 keypti ég mína fyrstu trillu, hún var aðeins eitt og hálft tonn, og þegar ég stóð í bátnum, þá horfði ég yfir stýrihúsið. Í apríl 1988 fór ég mína síðustu sjóferð á þessari trillu. Það var alveg logn þennan dag, spegilsléttur sjór og veðurspáin góð. Ég sigldi inn á Danskahraun, norður úr Elliðaey. Ég hafði nýlega fengið mér eina tölvuvindu, ég setti slóðann út og ýtti á start. Það tók rúlluna ca. 5 sek. að renna niður á botn, um leið og slóðinn var kominn á botn, tók ég eftir því að það voru farnar að koma háar og miklar undiröldur af austan og mér sýndist hann ætla að fara að vinda, svo ég ýtti á upp takkann á tölvurúllunni. Það tók rúlluna 10 sek. að hífa slóðann upp, en áður en slóðinn var kominn upp voru komnir austan 20-25 metrar og snar vitlaust veður. Ég veit ekki hversu langan tíma það tók að berja í land, eða hversvegna báturinn sökk ekki eða vélin stoppaði, því að öldurnar gengu einfaldlega yfir bátinn og á tímabili tók ég eftir því að öldurnar voru farnar að ganga ofan í bátinn og upp úr hinumegin. Allan þennan tíma jós vélin yfir sig sjó, en stoppaði ekki. Ég hef oft lent í sjávarháska og miklum brælum sem eiga það til að skella á hér í eyjum fyrirvaralaust og viðurkenni það fúslega, að mér óar við því að fólk fari að þvælast inn í Bakkafjöru á tuðrum og illa búnum bátum. En mínar skoðanir á Bakkafjöru eru, held ég, öllum ljósar.
2.8.2008 | 14:31
Um viðurnefni, uppnefni og einelti
Eða bara skítkast, eins og ég kalla það oft og tíðum. Þar sem ég hef verið mikið uppi í fjöllum að undanförnu og kannski ekki mikið fylgst með umræðunni hér í bæ, þá hefur það vakið athygli mína hörð gagnrýni á bók Sigurgeirs Jónssonar, sem hann kallar Viðurnefni í Vestmannaeyjum.
Ég verð að viðurkenna alveg eins og er, að ég hef aldrei haft neina ánægju af því að uppnefna eða kalla fólk einhverjum öðrum nöfnum, heldur en það er skýrt. Mér hefur þó fundist ágætt, til að valda ekki misskilningi og rugla saman fólki, að kalla það eftir t.d. fjölskyldum, ættum, við hvað það starfar eða eftir því hvað heimili þeirra heitir. Sjálfur hef ég fengið mörg nöfn á mig um ævina og hef svo sem ekkert velt þessu mjög mikið fyrir mér og ætla alveg örugglega ekki að kaupa eða lesa þessa bók Sigurgeirs (mér skilst reyndar að það sé búið að taka bókina úr sölu), en til mín hringdi manneskja áðan, sem hafði frétt af nokkrum nöfnum í bókinni, m.a. er mér sagt að ég sé nafngreindur í bókinni og það nafni sem að ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt og leyfi mér því að flokka það sem einfaldlega skítkast í minn garð. Sama skilst mér að gildi um nokkra af ættingjum mínum hér í bæ og þykir mér það bara dapurt og fyrst og fremst Sigurgeiri ekki til framdráttar, en tek það fram, að margt af því efni sem hann hefur gefið út og tengist sögu Vestmannaeyja, er mjög vel unnið í alla staði, en þarna held ég að Sigurgeir hafi skotið langt yfir markið. Því skora ég hér með á Sigurgeir að beita sér fyrir því að þessi bók hans verði einfaldlega tekin úr umferð og bara svo ég taki lítið dæmi sem mér var sagt, þá skilst mér að eldri kona á elliheimilinu í eyjum hafi fengið í gegnum þessa bók Sigurgeirs, nafn á látnum eiginmanni sínum, sem henni sárnaði það mikið að hún brotnaði gjörsamlega niður.
Ég er nokkuð sáttur við afsökunarbeiðni Sigurgeirs inni á eyjar.net og þó að þessar nafngiftir í sjálfu sér eigi fyrst og fremst að vera græskulaust gaman, þá er alveg ljóst að fullt af fólki hefur tekið þessu mjög illa og heyrði ég t.d. af manni í gær, sem er alvarlega að hugleiða það að kæra mjög rætnar nafngiftir, sem koma þarna fram um hans fjölskyldu. Í sjálfu sér þá hefði ég haldið það, að ef Sigurgeir hefði haft áhuga á því, að gera þessa bók fyrst og fremst um viðurnefni, þá hefði hann að sjálfsögðu getað rætt við það fólk, sem nefnt er í bókinni og kannað það, hvort og þá hversu mikið særandi sumar nafngiftirnar eru og þannig kannski vinsað úr það allra versta, en það hefði að sjálfsögðu kostað mikla vinnu, en við vitum öll, hversu sterk umræðan í þjóðfélaginu um einelti er og því miður er og verður alltaf til fólk, sem er tilbúið að uppnefna annað fólk. Mikið af því er að sjálfsögðu sagt í góðu, en því miður þá læðist alltaf með skítkast.
29.7.2008 | 23:15
Meiri lundafréttir
Engin veiði var um helgina og greinilegt að lundinn er að fara langan veg eftir einhverju æti, sem honum líkar betur heldur en það sem er hérna heimavið. Dagurinn í gær og í dag byrjuðu alveg eins en enduðu frekar ólíkt. Í gær lét ég skutla mér út í Miðklett, vindur var suðaustan kaldi en bjart yfir. Ég var rétt kominn upp í Miðklett þegar hann fór að bæta all hressilega í vindinn og til að bæta gráu ofan á svart, þá gerði bæði grenjandi rigningu og svarta þoku. Þetta varð til þess að ég ákvað að labba bara yfir klettinn og láta sækja mig út á Eiði, sú ákvörðun var hins vegar til þess, að það fjölgaði í fjölskyldunni, því á leið minni yfir Heimaklett rakst ég á pínulitla lundapysju á göngustígnum, sem greinilega hafði dottið úr holu sinni, en ekki gat ég séð hvaða hola það væri, svo nú er hún komin í kassa og raðar í sig fiski dag og nótt.
Í dag, hinsvegar, lét ég líka skutla mér út í Miðklett í hægum austan vindi og gerði hið besta veður og alveg rosalegt lundaflug og náði ég í 320 lunda í dag. Það dapurlega þó við ferðina, að eins og ég var farinn að búast við eftir langvarandi austan brælu, þá er farið að sjást ein og ein dauð pysja, það kemur mér hins vegar ekki á óvart vegna þess, að eins og mörg undanfarin ár, þá virðist lundinn sækja mjög í að fara eitthvert langt vestur og gefur því auga leið að langvarandi austan rok tefur fyrir því að hann komist til baka og alveg ljóst að eitthvað af pysju hefur ekki lifað það af, en þannig er nú einu sinni náttúran. Framundan eru hins vegar hægir vindar (ef spáin stenst) og því ljóst að útlitið er mun betra núna, enda var frameftir öllum morgni í morgun og í gær, mikið af lunda með síli í nefinu. Meira seinna.
27.7.2008 | 18:31
Fundur með Bjargveiðifélaginu...........
............var haldinn áðan og var þar samþykkt einróma að halda lundaveiðum áfram til 15. ágúst.
Erpur Snær kom á fundinn og hélt smá ræðu um stöðuna á pysjunni og útlitið framundan og var bara nokkuð bjartsýnn á framhaldið. Það sem ég var hinsvegar að bíða eftir, voru útskýringar hans á þeirri fullyrðingu hans um að tveggja og þriggja ára lundi ætti að vera 70% af veiðini, því að eftir því sem ég vissi best, þá væru engar eldri rannsóknir til, en þetta kom Erpur með:
Á tímabilinu 1953-1971 fór einn veiðimaður út í Stórhöfða á hverju ári og veiddi nokkra lunda, eða samt. 920 lunda á 21 ári, sem gerir ca. liðlega 40 lunda á ári. Aldursgreindi þá og eru þær niðurstöður sem Erpur leggur til grundvallar fyrir því, hvernig aldurshlutfall lundans í veiðinni eigi að vera.
Fyrir mitt leyti, þá hefði ég í sporum Erps frekar sleppt því að koma með þetta, því að það segir sig sjálft, að sennilega er í mesta lagi ein veiðiferð á ári á bak við þessa veiði og er því ekki sama, hvort farið er snemma í júlí eða jafnvel ekki fyrr en i ágúst. En nóg um það í bili.
Meira seinna.
25.7.2008 | 23:01
Einn fyrir svefnin
Jónas og frú gátu ekki eignast barn svo þau ákváðu að fá sæðisgjafa til að koma af stað fjölskyldu. Daginn sem "sæðisgjafinn" átti að koma í heimsókn, kyssti Jónas konuna sína bless og sagði "jæja, elskan, ég er þá farinn í vinnuna, maðurinn kemur fljótlega."
Hálftíma síðar, er fyrir tilviljun, barnaljósmyndari, staddur í hverfinu hennar og hringir á bjöllunni í þeirri vona að fá verkefni. Góðan daginn frú, sagði hann, ég er komin til að....... "Ó, þú þarft ekkert að útskýra sagði Jóna feimnislega, ég átti von á þér. Í alvöru, sagði ljósmyndarinn. Nú það er ánægjuleg, vissirðu að börn eru mín sérgrein?? Ja, það er nú akkúrat það sem við hjónin vorum að vonast eftir. Gjörðu svo vel og komdu inn á fáðu þér sæti. Eftir smástund sagði hún, vandræðalega, "hvar byrjum við?" "Láttu mig bara sjá um allt. Ég byrja yfirleitt í baðkarinu, svo á sófanum og loks nokkrar á rúminu. Stundum er meira að segja stofugólfið heppilegast, það er hægt að teygja svo vel úr sér það "
"Baðkarið, stofugólfið, hugsaði Jóna, Engin undra að þetta gekk ekkert hjá okkur hjónum - "Já, frú mín góð, ég get ekki lofað fullkomnum árangri í hvert skipti, en ef við notum mismunandi stellingar og ég skýt frá mismunandi sjónarhornum, þá þori ég að lofa að þú verður ánægð með útkomuna." Vá, það er aldeilis mikið sagði Jóna með andköfum. "Frú mín góð, í mínu starfi verður maður að gefa sér góðan tíma í hlutina. Ég mundi gjarnan vilja skjótast í þetta en ég er viss um að þú yrðir ekki ánægð með útkomuna. "Ætli maður kannist ekki við svoleiðis, tautað Jóna lágt". Ljósmyndarinn dró upp nokkur sýnishorn af barnamyndum og benti Jónu á árangurinn.
"Mér tókst sérstaklega vel til með þessa tvíbura sagði ljósmyndarinn, eins og mamma þeirra var þó erfið". - "Var hún erfið, spurði Jóna ?" "´Ég er nú hræddur um það. Ég varð að fara með hana í lystigarðinn til að ná að ljúka verkinu vel. Fólk safnaðist að og fylgdist með. "Fylgdist með? sagði Jóna og gapti af undrun" - og þetta tók í allt 3 tíma. Móðirin hrópandi og kallandi allan tímann - ég gat varla einbeitt mér, svo þegar það byrjaði að dimma varð ég að gefa í, en það var ekki fyrr en íkornarnir voru farnir að narta í græjurnar þá varð ég að hætta og ganga frá.
Jóna hallaði sér fram og sagði "voru þeir í alvöru farnir að narta í .... græjurnar? Þetta er alveg satt frú mín góð.
"Jæja ef þú ert tilbúin þá ætla ég að gera þrífótinn klárann "ÞRÍFÓTINN???
"Ó já, frú Jóna. ÉG verð að nota þrífót "to put my Canon on, It's much too big to be held in the hand very long."
25.7.2008 | 13:37
Að gefnu tilefni (lundafréttir)
Það er hálf undarlegt að lesa forsíðuna á Fréttum í gær, þar sem segir: Veiðin aðeins brot af því sem eðlilegt er. Þetta hljómar frekar neikvætt, en er ósköp eðlilegt vegna þess, að í staðinn fyrir að veiðar hefðust 1. júli var ákveðið að veiðar hefðust 10. júlí. Síðan kemur: Ungi fuglinn sést varla ennþá. Allir vanir veiðimenn vita það, að yfirleitt kemur ungi lundinn ekki fyrr en seinni partinn í júlí og oft jafnvel ekki fyrr en í ágúst. Þess vegna er ósköp eðlilegt að framan af júlí sé uppistaðan í veiðinni fullorðinn fugl, en það er þó misjafnt eftir árum (sá hinsvegar mjög undarlega forsíðugrein í 24 stundum í fyrradag, þar sem Erpur Snær heldur fram fullyrðingum, sem allir vanir veiðimenn vita að er algjörlega út í hött). En nóg um það, í grein Frétta er rætt við þrjá veiðimenn.
Ívar í Elliðaey segir að það vanti alveg ungfuglinn. Ekki veit ég til þess að Ívar sé mikill lundaveiðimaður, en ég hringdi að gamni mínu í Þórarinn Sigurðsson (Tóta í Geisla) og spurði hann þessarar spurningar:" Er það ekki rétt hjá mér að ungi fuglinn skili sér að öllu jöfnu ekki fyrr enn seinni hlutann veiðitímans inn í veiðina"? og svarið var:" Það er alveg rétt"
Ég hringdi síðan áðan í Halldór Sveinsson í Álsey og var Halldór bara nokkuð bjartur með ástandið, en tók það skýrt fram, að hann hefði aðeins farið í einn dag út í eyju og gæti því kannski ekki alveg metið ástandið, en tók það skýrt fram að miðað við það sem hann hefði séð hingað til, þá væri ekki ástæða til annars en að veiða til 15. ágúst, enda ástandið mun betra en fræðingar hafa haldið fram.
Að lokum hringdi ég í Ómar Stefánsson og var hann þá staddur úti í Bjarnarey. Lítil veiði var í Bjarnarey í morgun, en í gær, hinsvegar, veiddi hann 200 lunda og vakti það athygli hans, að það var nánast eingöngu unglundi (sjálfur veiddi ég 180 lunda í gær, nánast bara ungfugl). Þetta er mjög gott upp á framhaldið og sagði Ómar m.a. frá því, að á ákveðnum stað í Bjarnarey væru lundaholurnar mjög grunnar, hefði hann skoðað í þær margar, væri lundapysja í hverri einustu holu og mikið af síli í holunum.
Varðandi það að stoppa veiðarnar núna um mánaðarmótin, þá sagði Ómar það, að hann sæi enga ástæðu til þess að stoppa veiðarnar, enda lundi út um allan sjó kringum Bjarnarey og greinilega mikið æti og m.a. á meðan ég var að tala við hann sagði hann, að hann sæi fleiri hundruð ritur vera að steypa sér í sjóinn við Bjarnarey og greinilega mikið síli þarna á ferðinni.
Ég hef að undanförnu rætt við veiðimenn úr flestum veiðifélögum og hef í raun ekki ennþá hitt einn einasta veiðimann, sem sér einhverja ástæðu til að stoppa veiðarnar um næstu mánaðarmót og er ég því algjörlega sammála, enda er ástandið á lundastofninum í algjöru samræmi við það sem ég hafði spáð fyrirfram. Lundastofninn í Vestmannaeyjum telur margar milljónir og ég er svo bjartsýnn, að ég hef fulla trú á því, að löngu eftir minn síðasta dag muni lundinn koma til Vestmannaeyja í milljóna tali. Eina sem ég hef áhyggjur af eru þessir svokölluðu sérfræðingar, því eins og dæmin sanna, þá hafa sérfræðingar oft á tíðum valdið mun meiri skaða í lífríkinu með óþarfa inngripum (eins og t,d Hafró ) heldur en menn hefðu trúað fyrirfram.
Meira seinna
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.7.2008 | 22:47
Lundafréttir
Það er búið að vera ágætis veiði síðustu 3 dagana hjá mér, en 3 daga þar á undan var nánast engin veiði. Veðurfar hefur verið mjög óhagstætt og sérstaklega er hægviðri og ríkjandi norðlægar áttir mjög erfiðar, en úr því á nú að rætast eftir helgi.
Ef einhver hefur áhuga á að sjá undirritaðan við veiðar og lundaburð, þá skal bent á myndir inni á www.eyjafrettir.is undir heitinu fjallaferð Óskars.
Í Fréttum á fimmtudaginn er grein eftir Egil Arngrímsson, undir heitinu Sjarminn dofnar. Þarna er Egill að senda bæjarstjórninni tóninn (sýnist mér) fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að banna frjálsar veiðar á heimalandinu og neyða menn til að stofna félag. Ég get tekið undir þessa grein hjá honum að mestu leyti, en langar þó að benda á hluti sem að ég veit ekki hvort að Egill gerir sér grein fyrir, eins og t.d. að varðandi veiðikort, þá eru þetta einfaldlega landslög sem hafa verið í gildi í nokkur ár, en því miður er ljóst að talsverður fjöldi manna hefur ekki sinnt því, og þarf því núna að kaupa sig inn á námskeið til þess að fá þetta leyfi. Þetta er einfaldlega trassaskapur og ég held að menn geti lítið annað en kennt sjálfum sér um.
Einnig gagnrýnir hann stofnun veiðifélags á Heimaey og að til þess að ganga í félagið, þurfi menn að borga eingreiðslu 20 þús. krónur. Það getur vel verið að einhverjum finnist þessu upphæð frekar há, en það skal tekið fram, að ákvörðunin um þessa upphæð var tekin áður en við vissum um hversu hátt gjald Vestmannaeyjabær færi fram á og er mér mikil ánægja af því að upplýsa það, að miðað við þann fjölda sem nú þegar hefur skráð sig, þá eigum við sennilega nú þegar inni á reikningi fyrir greiðslu næsta árs (ef fyrirkomulaginu verður ekki breytt). Mig langar líka að benda honum á, að í mörgum veiðifélögum í eyjum eru jafnvel dæmi um það, að sumir veiðimenn veiði jafnvel nokkur þúsund lunda á hverju sumri, en fái ekki nema rétt jafnvel í soðið út úr því sjálfir, því að félagið á alla veiðina. Þannig verður þetta ekki hjá okkur, en í þessum samanburði finnst mér 20 þús. krónur ekki vera hátt gjald, en ítreka það að enginn af okkur bað um þessar breytingar, en þær voru samþykktar af bæjarstjórninni með öllum greiddum atkvæðum og var engin á móti.
Meira seinna.
15.7.2008 | 12:31
Frekar neikvætt............
............að horfa á fréttirnar að undanförnu, sem ganga að mestu út á ónýta krónu, hækkandi verðbólgu, fjölda uppsagnir og fleiri slíkar hörmungar.
Á sama tíma eru forsvarsmenn Vestmannaeyjabæjar bara nokkuð bjartsýnir á framhaldið og tala jafnvel um mikinn uppgang í eyjum. Þetta er í sjálfu sér bara hið besta mál, en er þetta alveg rétt? Við sjáum það að fyrirtæki sem keypt hefur mikið af fasteignum í eyjum, hefur lítið eða ekkert sést hér að undanförnu og eitthvað virðist vera lítið um framkvæmdir við þessar fasteignir, bæði þær sem átti að gera upp og/eða rífa, einnig hefur sama fyrirtæki sótt um fjöldann allan af lóðum í Vestmannaeyjum, einnig þar er ekkert að gerast. Og til að bæta svörtu ofan á grátt, þá var ég að frétta það, að Vinnslustöðin hefði sagt upp samningi við löndunargengið í eyjum, frá og með næstu áramótum og ætla sér að sjá sjálfir um sínar landanir, sem þýðir að öllum líkindum það, að einhverjir í löndunargenginu muni hugsanlega missa vinnuna.
Ekki er þetta allt samt svona svart, því að á Eiðinu er nú risin glæsileg verksmiðja, þar sem ætlunin er að tappa á vatni til útflutnings og munu nokkur störf skapast þar. Vonandi gengur það allt saman að óskum, ég tók hins vegar eftir því að í nokkrum viðtölum sem hafa verið í útvarpinu undanfarnar vikur við bæjarráðsmenn í hinum og þessum bæjarfélögum, að þó nokkrir hafa nefnt það að það sé verið að kanna með átöppunarverksmiðju fyrir vatn til útflutnings og það rifjaðist upp fyrir mér, hvernig við Íslendingar höfum allt of oft farið af stað af miklum krafti út um allt land til að gera sama hlutinn, sem oft á tíðum hefur þýtt það að dæmið hefur sprungið framan i okkur, nægir þar að nefna sem dæmi loðdýraeldi, laxeldi o.s.frv. En að sjálfsögðu vona ég svo sannarlega, að vatnið okkar verði okkar olíulind.
Meira seinna.
12.7.2008 | 22:34
Frábær árangur hjá ÍBV og mikill lundi í eyjum
Óska ÍBV-strákunum til hamingju með sigurinn gegn Selfossi. Þetta Selfoss-lið olli mér töluverðum vonbrigðum og staða þess í deildinni ekki í nokkru samræmi við þennan leik, en okkar menn voru einfaldlega miklu betri á öllum sviðum og greinilegt, að þeir á Selfossi þurfa aðeins að taka til í vörninni hjá sér.
Í dag eru búnir 3 dagar af lundaveiðitímanum og byrjunin lofar góðu. Það var ekki mikill lundi við á fimmtudaginn, en ég ákvað samt að skreppa upp í Heimaklett, enda var vindáttin hárrétt þar og náði ég þar í 80 lunda. Fór síðan í gær vestur á Dalfjall í norðvestan kalda og hreint ótrúlega miklu lundaflugi, en því miður þá snérist vindáttin yfir í vestan um hádegi, en ég náði samt í 230 lunda. Í morgun fór ég suður í Kervíkurfjall. Lítið var af lunda í byrjun, en vindáttin rétt, hinsvegar hvessti verulega um hádegi og eins og hendi væri veifað flykktist lundinn upp í fjöllin og var áberandi mikið af ung-lunda í dag. Veðrið varð hinsvegar fljótlega allt of hvasst þar sem ég var, en ég náði samt í 230 lunda, og er því samtals búinn að veiða 540 lunda eftir ca. 11-12 klukkutíma í veiðisæti.
Ég hafði svolítið gaman af því að koma í þennan veiðistað í morgun, því að í þessum veiðistað á ég mitt persónulega met, sem sett var 1998, eða 840 lunda á einum degi. Reyndar fór hálfur dagurinn í að bera allan lundann, enda er vegalengdin ca. 1,5 km frá sæti upp í bíl, en þennan sama dag 1998, var einmitt sett Vestmannaeyjamet í lundaveiði í Ystakletti, þar sem einn maður veiddi 1440 lunda, hann þurfti hinsvegar ekki að halda á einum einasta þeirra og munar þar ansi miklu.
Meira seinna.