Samgönguráðherra......

...........segir í viðtali að eini óvissuþátturinn með Bakkafjöru, sé smíði ferjunnar. Þó að ég sé hættur að skrifa um Bakkafjöru, þá rak mig í rogastans við að sjá þetta viðtal og smá frá mér til upprifjunar.

Gísli Viggósson frá Siglingamálastofnun, sagði m.a. að ef sjólag og veðurfar yrði hagstætt við byggingu Landeyjarhafnar, þá ætti byggingin að ganga vel, en að sjálfsögðu eru margir óvissuþættir (þetta er að sjálfsögðu ekki haft orðrétt eftir, en samt nokkurn veginn). Landgræðslustjóri bætti um betur og sagði að ef tækist að gera varnargarða meðfram fjörunni og ef tækist að gera varnargarð með ánni, og ef það tækist að ræsa út vatnið sem safnast fyrir ofan fjöruna (mér skilst að eigi að setja brú þar núna) og ef það fáist bara nógu miklir peningar til verksins, þá muni örugglega einhvern tímann takast að græða upp Bakkafjöru svæðið.

Ég velti þessu upp vegna þess að mér finnst að í viðtalinu við Samgönguráðherra, það koma svo skýrt og greinilega fram að hann hafi ekki kynnt sér málið nægilega. En eflaust er til einhver skýring á því.


En vonandi stefnir ekki í nýtt Grímseyjarklúður.


Lundinn

Lundaveiðitíminn hefst á fimmtudaginn og í dag skrifuðum við sem skipum stjórn Lundaveiðifélags Heimaeyjar, undir samning um nytjarétt á öllum fjöllum á Heimaey, nema Sæfelli, Ystakletti og Stórhöfða. Enn er hægt að ganga í félagið og er eina skilyrðið að menn hafi veiðileyfi og greiði í félagið. Þeir sem hafa áhuga er bent á að hafa samband sem fyrst, enda eins og kemur fram, þá er veiðitíminn að hefjast í þessari viku.

Stjórn Veiðifélags Heimaey skipa:

Formaður, Eyþór Harðarson

Varaformaður, Georg Arnarson

Gjaldkeri, Erlingur Einarsson og

Ritari, Hilmar Kristjánsson

Meira seinna.


Ýmislegt

Fór á sjó í gær, en vegna þess hversu mikið er af síli í kringum eyjar, þá fór ég 20 mílur í austur og niður á 70 faðma dýpi og náði í ca. 1700 kg af blönduðum fiski.

Goslokahátíðin var alveg frábær og verður erfitt að toppa hana í framtíðinni, ég og mitt fólk vorum í Blíðukró á laugardagskvöldið og fengum þar góða gesti, Grétar Mar og Guðrún María, og áttum þar ánægjulega stund og svei mér þá, ef það er ekki bara kominn smá hjónasvipur með þeim tveimur. Ef það er eitthvað sem hægt er að setja út á þetta, þá er það kannski helst það, að mér sýnist Skvísusundið vera orðið of lítið fyrir þessa hátíð, enda mannfjöldinn sem mætti gríðarlegur, en stemmningin var góð.

Ég fór á leik ÍBV á laugardag, þar sem við náðum að merja enn einn sigurinn, á fimmtudaginn hinsvegar mætum við liðinu í öðru sæti, Selfossi, og ætla ég að skora á alla eyjamenn að mæta því að þetta verður svo sannarlega einn af úrslitaleikjum sumarsins.


Smá grín

George Bush fékk hjartaáfall og dó.  Hann fór beinustu leið til helvítis, þar sem kölski sjálfur tók á móti honum og sagði: "Ég er í svolitlum vandræðum, þú ert á listanum mínum en mig bráðvantar pláss svo ég er með hugmynd.  Það eru hérna þrjár manneskjur, sem voru ekki alveg jafn vondar og þú, ég sleppi einni af þeim lausri í staðinn fyrir þig og þú færð meira að segja að velja hver það verður".George fannst þetta góð hugmynd og kölski opnaði dyrnar á fyrsta herberginu.  Þar inni var Richard Nixon í stórri laug fullri af vatni sem hann kastaði sér ofan í aftur og aftur en kom alltaf tómhentur upp aftur."Ekki séns!" Gargaði Goggi "Ég er ekki góður sundmaður og ég held ég gæti ekki gert þetta allan daginn".  Kölski leiddi hann þá að næsta herbergi en þar inni var Tony Blair með sleggju í hönd og var að höggva grjót."Nei, ég þjáist af meini í öxl og myndi vera með stöðugar kvalir ef ég ætti að höggva grjót daginn út og inn".Þá opnaði kölski þriðju og síðustu dyrnar.  Þar inni lá Bill Clinton á gólfinu og ofan á honum var Monica Lewinsky að gera það sem hún gerir best.Gerge Bush leit á kölska í forundran og sagði: "Já, ég ætti að ráða við þetta".Kölski brosti og sagði: "Monica, þú mátt fara".

Goslokin eru núna um helgina..............

..............og í tilefni af 35 ára afmæli stendur mikið til í eyjum. Hefst dagskráin strax á fimmtudaginn og stendur fram á sunnudagskvöld.

Á laugardaginn ætla ég og mitt fólk að koma saman í krónni minni (Blíðukró) og eiga þar saman ánægjulega stund, m.a. mun hljómsveitin Afrek spila ásamt fleirum. Einnig mun Grétar Mar Jónsson, þingmaður, mæta og fara með gamanmál. Einnig skilst mér að Guðrún María bloggvinur komi sennilega og jafnvel Eiríkur Stefánsson, sem farið hefur mikinn á Útvarp Sögu síðustu ár. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir og ef einhver eyjamaður hefur áhuga á að koma upp og segja nokkra brandara, þá er það að sjálfsögðu velkomið, enda er meiningin að hafa þetta allt saman á léttu nótunum.

Sjálfur hef ég velt því fyrir mér í dálítinn tíma, hvort ég ætti kannski að flytja eða skrifa um reynslu mína frá gosinu, en hef nú ekki lagt í að skrifa um þetta, enda svolítið langt mál, enda færi sú saga að mestu leyti fram uppi á landi og þá sérstaklega tengt því, að ég var sendur í sveit bæði ´73 og ´74, en til að vekja smá forvitni, þá kemur m.a. fram slæmt slys sem ég lenti í og átti lengi í, súrt slátur, full belja og fyrsti kossinn.

Að gefnu tilefni, Blíðukró er fyrir neðan Eyjabúð og Gúmmíbátaþjónustuna.


Nýr bátur til Vestmannaeyja

002

Þar sem að bæjarstjórn Vestmannaeyja sá ekki tilefni til að flagga eða koma með blóm við komu nýs smábáts til eyja, þá langar mig að óska Hermanni Kristjánssyni og fjölskyldu til hamingju með nýja bátinn.

006

Báturinn er allur hinn glæsilegasti að sjá og búinn öllum nýjustu tækjum og beitningavél m.a.


Bæjarstjórn Vestmannaeyja var að samþykkja þetta:

Reglur um nytjar á lunda í Vestmannaeyjum fyrir veiðitímabilið 2008

1. grein

Lundaveiðar verði heimilaðar á tímabilinu frá 10. júli til og með 31. júlí 2008. Ákvörðun um framhald veiða verður tekin í kjölfarið á fundi Bjargveiðifélags Vestmannaeyja sem haldin verður 27. júlí og í samráði við Náttúrustofu Suðurlands.

2. grein

Öllum veiðimönnum og veiðifélögum er skylt að skila veiðitölum til Náttúrustofu Suðurlands í lok veiðitímabilsins, eigi síðar en 1. september 2008.

3. grein

Allur afli skal vera aðgengilegur vísindamönnum hjá Náttúrustofu Suðurlands til aldursgreininga og rannsókna.

4. grein

Veiði á heimalandinu verður bönnuð með öllu nemi í gegnum veiðivélög sem hafa umsjón og eftirlit með veiðunum og greiði gjald fyrir nytjarétt líkt og önnur úteyjarfélög.

5. grein

Í almenningi, Sæfjalli, geta allir veitt sem hafa veiðikort. Veiðimenn sem veiða í almenningi ber að skila aflatölum til Náttúrustofu Suðurlands í lok veiðitímabilsins. Ekki þarf að vera meðlimur í sérstöku veiðifélagi til að mega stunda veiðar í almenningi.

6. grein

Þau félög sem ekki fylgja þessum reglum missa veiðiréttin og verður sagt upp leigu á nytjarétti á viðkomandi svæði eða eyju.

7. grein

Þeir einstaklingar sem ekki fylgja reglum er varða veiðar í almenningi (sbr. 5. grein) munu ekki fá heimild til að stunda veiðar á ný.

Reglurnar gilda fyrir veiðitímabilið 2008 og verða þær endurskoðaðar fyrir næsta veiðitímabil með hliðsjón af reynslunni í ár.

Í greinagerð með þessu kemur m.a. fram eftirfarandi:

Á opnu málþingi um ástand lunda- og sandsílastofnanna við Vestmannaeyjar sem haldið var á vegum Náttúrustofu Suðurlands þann 20. apríl sl. komu fram miklar áhyggjur af lundastofninum í Vestmannaeyjum. Samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknarstofnunarinnar bendir allt til þess að vöntun á 0 grúpu síli, sem er uppistaðan í fæðu pysjunnar fyrstu vikuna eftir klak, hafi leitt til þess að varpárangur lundastofnsins við Vestmannaeyjar hefur misfarist á undanförnum árum. Veiðistofninn samanstendur af tveggja til fjögra ára gömlum fugli og miðað við varpárangurinn undanfarin ár má ætla að veiðistofninn í ár verði með minnsta móti.

Smávægilegar athugasemdir frá mér:

Ég er nú ekki viss um að allir á heimalandinu verði hrifnir af þessu, en ég get þó bent veiðimönnum á heimalandinu á það, að nú þegar höfum við hafði undirbúning á stofnun veiðifélags á heimalandinu og ætlum að stefna að því að því verði lokið áður en veiðitíminn hefst. Það er ótal margt sem ég get sett út á í þessu málefni, en ætla nú ekki að gera það í bili, en mín skoðun á lundastofninum í eyjum er þó óbreytt, þ.e.a.s. að lundastofninn í eyjum sé sennilega í sögulegu hámarki. Það sem mér þykir hinsvegar undarlegast við greinargerðina er að þar er talað um vöntun á síli sem aðal ástæðu, en á sama tíma er fjöldi togskipa og snurvoðabáta allt í kringum Vestmannaeyjar að skarka á þeim svæðum sem hingað til hafa verið friðar og uppeldissvæði fyrir sílið, án þess að Hafró hafi nokkuð út á það að setja en ég ætla nú að leyfa mér að álykta sem svo, að þar spili pólitík mikið inn í.


Tók nokkrar myndir í kvöld

29062008 013

Það er gaman að sjá unga fólkið æfa sig í sigi í Spröngunni

29062008 014

Margir eyjamenn hafa tekið sín fyrstu skref í fjallaklifri og sigi þarna í Spröngunni

29062008 017

Tók þessa fallegu mynd af Litlahöfða og Stökkunum og ef myndavélin væri betri, þá sæist að sjórinn þarna er þakinn af lunda. Sjáið þið, hverju Litlihöfðinn líkist?

29062008 018

Smellti einni mynd af mínu gamla "heimili", Miðkletti enda lá ég þar oft á sumrin í tjaldi sem unglingur á meðan lundaveiðitíminn var.

29062008 019

Set að lokum inn fallega mynd af Ystakletti fyrir vin minn Hallgrím Þórðarson. Ég frétti að Grímur hefði verið eitthvað slappur í vetur, en vona samt að hann komist í klettinn í sumar til að slá nokkra fugla, en ef allt bregst, þá hringjum við bara í Magga Kristins og fáum þyrluna.


Kínversk speki

Gömul kínversk kona átti tvo leirpotta sem hún  hengdi á sitthvorn endan Á
langri stöng sem hún bar á öxlum sínum. Á  hverjum degi sótti hún vatn
langa leið í uppsprettu fjarri heimilinu.  Annar potturinn var sprunginn
eftir endilöngu og var því aðeins hálffullur  þegar heim kom. Hinn
potturinn var fullkominn og skilaði sér alltaf fullur  af vatni eftir þessa
löngu leið heim að húsinu. Svona gekk þetta í tvo ár,  daglega gekk gamla
konan með pottana að uppsprettunni og daglega kom hún  heim með aðeins einn
og hálfan pott af vatni.
 
Auðvitað var fullkomni potturinn ánægður með  sína frammistöðu en sprungni
potturinn skammaðist sín og leið mjög illa  þar sem frammistaða hans var
aðeins til hálfs við það sem hann var  skapaður til að gera. Eftir tveggja
ára vinnu talaði hann til konunnar við  uppsprettuna. "Ég skammast mín
fyrir frammistöðu mína, vegna sprungunnar á  hlið minni lekur helmingurinn
af vatninu burt á leiðinni heim. Þú ættir að  henda mér og fá þér nýjan
pott.,,
 
Gamla konan brosti, "Hefur þú tekið eftir að  þín hlið við götuna er blómum
skreytt á meðan engin blóm vaxa hinum megin  götunnar?
 
Það er vegna þess að ég hef alltaf vitað af  þessum galla þínum og þess
vegna sáði ég fræum á þinni hlið götunnar og á  hverjum degi þegar við
göngum heim vökvar þú blómin mín. Ég hef um árabil  getað týnt þessi
fallegu blóm og skreytt heimili mitt með þeim. Af því að  þú ert eins og þú
ert þá hef ég fengið að njóta fegurðar  blómanna.
 
Það er eins með okkur manneskjurnar, enginn er  gallalaus. En það eru
gallarnir og sprungurnar sem gera hvern og einn  einstakann. Þess vegna er
svo spennandi að kynnast og eyða ævinni saman.  Við þurfum bara að læra að
taka hverri manneskju eins og hún er og sjá  jákvæðu hliðarnar hjá hvort
öðru.
 

ÍBV, Lundinn o.fl.

Það hefur verið frekar lítill tími til að skrifa að undanförnu, enda telst mér til að ég hafi róið 5 sinnum undanfarna 8 dagana og fiskað ca. 7-8 tonn.

Langar að óska ÍBV strákunum til hamingju með sigurinn á móti Njarðvík, en það verður að viðurkennast eins og er, að það var sanngjarnt þegar þeir jöfnuðu leikinn, en gerði sigurinn þeim meira sætari að gera sigurmark í lok leiksins. Liðið er greinilega mun sterkara en á síðasta ári, en virðist vera að upplifa svolítið erfitt tímabil núna, eins og um sama leitið í fyrra, en sem betur fer erum við með sterkari einstaklinga heldur en þá, sem geta klárað leikinn.

Margir hafa haft áhyggjur af því að undanförnu að lítið hafi sést til lundans, bæði í fjöllunum og á sjónum, en þetta er ósköp eðlilegt ástand og eftir að ég rak augun í það í dag að mikið af fugli var komið á sjóinn við Sæfell, án þess að nokkuð flug var í fjöllunum, þá fór ég sjónauka-rúnt kl. 10 í kvöld og var þá t.d. Miðklettur orðinn þakinn af lunda frá toppi og niður, svo nú kætast lundaveiðimenn, enda aðeins 12 dagar í að veiðar megi hefjast.

Það vakti athygli mína, forsíðugreinin í Fréttum á fimmtudaginn, þar sem íhaldsmenn gráta sáran yfir því að nýja ferjan komi hugsanlega ekki fyrr en síðla árs 2011 og get ég svo sem að vissu leiti tekið undir það, en það merkilega samt að mínu mati, er sú staðreynd að fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar töluðu íhaldsmenn mikið um það, hversu gott það væri fyrir eyjamenn að hafa Sjálfstæðisflokkinn sem ráðandi afl, bæði í ríkisstjórn og bæjarstjórn, vegna þess að það gerði okkur eyjamönnum svo miklu auðveldara að ná okkar málum í gegn. Eins og reynslan hefur nú sýnt okkur, þá er svo alls ekki og vonandi lærir fólk eitthvað af atburðum síðustu mánaða og ára.

Meira seinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband