26.6.2008 | 11:30
kvótinn
Verða það 130 eða 220 þúsund tonn?
Samhliða frétt um veiðiráðgjöf Hafró var sendur tölvupóstur til fjölmargra smábátaeigenda. Þar voru þeir beðnir um að tjá væntingar sínar til væntanlegra veiðiheimilda í þorski.
Viðbrögð voru mjög góð og spanna nánast alla flóruna frá 130 þús. tonnum upp í 220 þús. tonn. Dæmi:
Þeir mæla áfram með 130 þús. tonnum .
160 þús. tonn, fara varlega í að auka magnið, en ef þorskgengd heldur áfram að aukast á næsta ári er hægt að bæta í.
220 þús. tonn í 3 ár. Hafró hefur fundið og týnt fleiri tugum þúsunda tonna, ER EKKI kominn tími til að fara eftir fiskifræðingunum sem vinna á miðunum 365 daga ársins kannski bara í tvö ár.
Í dag verður það ljóst hver ráðgjöfin verður.
23.6.2008 | 11:27
Smá speki frá múttu
17.6.2008 | 22:18
Nokkrar myndir
Þessi fallega kona hélt að hún ætti aldrei eftir að komast upp á Heimaklett, en eftir að ég hafði lagt mikið undir í veðmáli (leyndó) þá er hér sönnunin.
.........og hér líka, búin að skrifa í gestabókina.
Það var smá stress á köflum.
Um helgina fórum við svo í gönguferð út í Litlahöfða, þar sem við rákumst á þennan tjaldursunga, og voru foreldrar hans ekki hrifnir af okkur.
Það eru skemmtilegir skútar í höfðanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.6.2008 | 20:12
Áfram ÍBV og fleira
Það er gaman að fylgjast með ÍBV þessa dagana og greinilegt að liðið er á bullandi siglingu, en mig langar aðeins að minnast á bikarleikinn um daginn, sem við unnum 3-2 eftir framlengingu. Það vakti athygli mína að í viðtölum fyrir leikinn sagði Heimir þjálfari, að hann byggist við mjög erfiðum leik og var ég honum sammála þar, enda eru allir bikarleikir erfiðir, en þrátt fyrir það þá stillti hann ekki upp okkar sterkasta liði og í raun og veru vorum við aðeins 7 mín. frá því að detta út úr bikarkeppninni. Það er í sjálfu sér allt í lagi að aðrir leikmenn fái líka tækifæri, en í þessum leik voru það greinilega mistök, sem menn læra vonandi af.
Meira um boltann. Ég var staddur í Reykjanesbæ á sunnudaginn og horfði á Keflavík vinna KR nokkuð örugglega 4-2, þar sem fyrrum leikmaður okkar, Atli Jóhannsson fékk loksins tækifæri (en bara allt of seint), en mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt og ánægjulegt að horfa á KR tapa og það verður enn skemmtilegra að sjá þá tapa á Hásteinsvelli á næsta ári (nema ef þeir falla), (vonandi fæ ég ekki skammir frá búkollu, bloggvinkonu). Áfram ÍBV.
Ég fékk DV með póstinum í dag og er þar lítil grein um Landeyjahöfn, en í sjálfu sér ekkert nýtt og þar fyrir utan, þá nenni ég ekki að skrifa um þetta meir, enda er málið alfarið úr okkar höndum. Ég kom hinsvegar með Herjólfi á sunnudagskvöldið og þótt að það væri hægur vindur og ekkert svo mikill sjór, þá lét skipið furðu illa og ljóst að það er löngu kominn tími á að endurnýja það, en því miður hefur bæjarstjórnin okkar ekki áhuga á því, svo enn verðum við að bíða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.6.2008 | 19:56
Fundur hjá FF
Mér var boðið á Landsráðsþing Frjálslynda flokksins um helgina og átti þar mjóg fróðlegan og ánægjulegan dag, þar sem farið var vítt og breitt yfir málefnin og mun sú vinna halda áfram. Margt mjög athyglisvert kom þarna fram og var þar athyglisverðast tillaga frá formanninum um að úthluta 220 þús. tonnum í þorski næstu 3 árin, en stöðva á sama tíma loðnuveiðar, ef ekki mældust meira en 800 þús. tonn. Þetta er í sjálfu sér ágætis hugmynd, en ég er ekki viss um að eyjamenn væru mjög hrifnir af þessari hugmynd varðandi loðnuna.
Annað sem mér þótti athyglisvert var tafla um veiðiráðgjöf og veiðar á þorski í Barentshafi frá árinu 2000 (töfluna er hægt að sjá í heild sinni inni á xf.is), en þar kemur m.a. fram, að t.d. árið 2000 lögðu fiskifræðingar fram tillögur um að aðeins yrðu veidd 110 þús. tonn af þorski, en þessu höfnuðu Rússar alfarið og var þess í stað ákveðið að veiða 400 þús. tonn árið 2000. Það merkilega við þetta er, að á hverju ári síðan þá hefur altaf verið veitt meira en fiskifræðingar hafa lagt til, en samt hafa fiskifræðingar lagt til aukna veiði á hverju ári og er t.d. kvótinn í ár 400 þús. tonn af þorski. Þetta er útskýrt með þeim hætti, að í Barentshafi sé engin loðna veidd.
Þegar fundi lauk, var haldin stórveisla og eftir matinn var mikið um brandara og fjöldasöng og meira að segja tók formaðurinn að sér að syngja Færeyskt lag við góðar undirtektir. Ég þakka fyrir mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2008 | 20:09
Kvótinn
Það er frekar hart í ári hjá leiguliðum þessa dagana og ég var að fá þær fréttir af suðurnesjunum, að þar stefni í fjölda gjaldþrot margra minni útgerðarmanna og m.a. hringdi í mig maður í dag, sem hefur verið að beita á suðurnesjunum, til að reyna að selja mér nokkur línubjóð, sem var það eina sem hann gat fengið upp í það sem hann átti inni hjá útgerðinni, því útgerðin var farin á hausinn og sagði mér m.a. dæmi um útgerðarmann, sem fór á sjó fyrir nokkru síðan, fiskaði 4,5 tonn, mest þorsk, en þegar útgerðarmaðurinn hafði borgað leiguna, beitninguna, beituna og olíuna, þá stóðu eftir aðeins innan við 100 þús. krónur fyrir gjöldum og leigu á húsnæði og var þetta samt einn af betri róðrum hjá þessum manni.
Ekki þáði ég nú línuna, enda hart í ári hjá mér, eins og öðrum leiguliðum, og þar á ofan bætist við austan bræla hér dag eftir dag og spáir einmitt austan átt fram i næstu viku.
Leiga á þorskkvóta í dag (ef hann fæst), er um 240-250 kr. kg. og fyrir fisk sem er að seljast á mörkuðunum frá 200 til liðlega 300 krónur, þá getur verið erfitt að skauta á þessari örmjóu línu. Sem betur fer, er ég þó með flestar þær tegundir sem ég veiði í föstum viðskiptum, en það dugar ekki endalaust, enda hefur olían hækkað, beitan hækkað, leigan hækkað og í flestum tegundum, verðið lækkað. Svo það væri nú mikill munur ef að hægt væri að snúa aftur með smábátana í það kerfi sem við vorum í fyrir nokkrum árum síðan, þ.e.a.s. þorskaflahámarks kerfið, þar sem Þorskurinn var í kvóta en allar aðrar tegundir voru utan kvóta. Fyrir því ætlum við í FF að berjast.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.6.2008 | 19:51
Lundinn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2008 | 11:24
Sjómenn til hamingju með daginn
Mjög skrítin upplifun mín á jarðskjálftanum, því ég fann vel fyrir honum þó að ég væri staddur um borð í bátnum mínum sunnan við Þrídranga, á keyrslu og sló ég snarlega af, því það var eins og ég hefði fengið í skrúfuna. Þetta sýnir okkur glöggt, hversu lítils megnug við erum í samanburði við náttúruöflin.
En ég réri þrisvar í síðusut viku og fiskaði ca. 4 1/2 tonn af blönduðum fiski.
Varðandi niðurstöðu Ríkisstjórnarinnar um Landeyjarhöfn, þá kemur hún ekki á óvart, en vonandi verður þetta bara í lagi og tilbúið 2010, en um það efast ég og þar sem ríkið ætlar sér að eiga þetta og reka, þá tel ég mjög líklegt að það verði dýrara fyrir okkur bæði að fara milli lands og eyja og að flutningar á vörum muni hækka, því að ríkið tekur alltaf sitt.
Enn einn sigurinn hjá ÍBV og enn einu sinni 2-0 og það á útivelli, til hamingju strákar.
Það er komin sól og blíða í eyjum núna, en svona aðeins vestan golukaldi. Ég ætla mér að taka frí um helgina og óska öllum sjómönnum til hamingju með daginn.
28.5.2008 | 18:52
nokkrar myndir
Með 60 egg í fötunni og 20 í pokapeysunni, sem er orðin 25 ára gömul og dugar enn.
p/s er þetta ekki svipað og að vera eins og ófrísk kerling? Eini munurinn er að úr þessu koma aldrei ungar.
Sú stutta fékk að koma með í einni eggjaferðinni undir ströngu eftirliti mömmu.
og nær hér fyrsta egginu sínu, eftir að pabbi hafði rekið mömmuna í burtu.
Sú er grobbin.
Setti með eina mynd af garðinum, þar er allt að lifna við.
25.5.2008 | 20:47
Er ennþá í vandræðum með tölvuna..
.. enn ætla að sjá hvort að þetta komist inn.
Smá framhald í sambandi við eggjatímann. Í gær komust þeir eggjatökumenn í skerin sunnan við eyjar og voru öll skerin hreinsuð svo að eitthvað ætti að fást af svartfuglseggjum í vikunni.
ÍBV vann sinn þriðja leik, og enn og aftur 2-0. Innilega til hamingju strákar.
Það gengur mikið á í samgöngumálum okkar eyjamanna þessa dagana, en mér sýnist að staðan sé þannig núna að í raun og veru vitum við ekkert um það hvort af þessari landeyjarhöfn verður eða ekki, en vonandi skýrist það í vikunni. Það merkilegasta þó eru þessar tölur sem menn eru farnir að tala um í dag, þ.e.a.s 14 og hálfan milljarð fyrir reksturinn í 10 ár og ef við uppreiknum þetta til næstu 30 ára og bætum síðan við kostnaði við að gera höfnina og byggja skipið, þá er ég nú farinn að hallast að því að þeir gangasinnar sem telja að þessi upphæð samtals geri meira en dugar fyrir göngum milli lands og Eyja hafi talsvert til síns máls. En sumar vilja meina að um það hafi eyjamenn ekkert að segja lengur.
Veðrið í Eyjum er búið að vera alveg frábært þessa helgi og frúin komin á kaf í garðinn, enda eru næg verkefnin þar. Ég er með nokkrar myndir úr garðinum og úr eggjaferð, en vegna tölvuvandræða næ ég þeim ekki inn. Meira seinna.