Þorskur út um allan sjó

Landssamband smábátaeigenda

29. apríl 2008 :

Ónauðsynlegur niðurskurður í þorski – gefa ætti út 200 – 220 þús. tonna jafnstöðuafla

Skipstjórinn á frystitogaranum Þór HF – Þorvaldur Svavarsson er í viðtali í „Úr Verinu“ í Morgunblaðinu í gær 28. apríl. Þar gagnrýnir Þorvaldur veiðiráðgjöf og stjórnunina. Hann segir þorsk á öllum veiðislóðum meira að segja á miklu dýpi þar sem hann eigi ekkert að vera að þvælast.
Í viðtalinu má glöggt lesa að sjónarmið þeirra sem eru á grunnslóðinni fer vel saman við sjónarmið togaraskipstjórans.


Þorvaldur segir að úthlutunin sé svo lítil að ekki sé hægt að veiða á hefðbundnum veiðislóðum þorsks, „hann er bara orðinn meðafli“.


Þorvaldur segir þorskinn vel haldinn, en bætir við. „Engu að síður held ég að það sé staðreynd að við erum að veiða ætíð frá þorskinum. Við erum að taka allt of mikið af loðnu. Þorskurinn verður að fá að éta. Það væri miklu nær að takmarka loðnuveiðarnar verulega og veiða hana aðeins til manneldis og fá þannig mikil verðmæti úr minna magni. Skilja hitt eftir handa þorskinum og búa þannig til enn meiri verðmæti.“


Í lok viðtalsins segir Þorvaldur: „Okkur vantar meiri þorskkvóta og það er full innistæða fyrir aukningu. Þá hefðum við það svakalega fínt. Stjórnvöld ættu að gefa út janfstöðuafla til fimm eða sex ára í senn, 200.000 til 220.000 tonn á ári, og láta okkur svo vera í friði.“

 

 

 


Hann er hálfhvass núna

Smá viðbót í sambandi við upplýsingar um hugsanlega mengun á drykkjarvatni okkar eyjamanna vegna grjótnáms. Mér er sagt að það sé rétt að töluverð fjarlægð sé á milli grjótnámunnar og vatnslindarinnar okkar, en grjótnáman sé hinsvegar töluvert fyrir ofan vatnslindirnar og það þurfi hugsanlega að flytja grjótið framhjá vatnslindunum (sel það ekki dýrara en ég keypti það).

Mér er sagt að það hafi verið ágætis mæting hjá Framsókn í eyjum í gærkvöldi, ég komst reyndar ekki sjálfur (var að vinna) en mér er sagt að nú sé þegar sennilega búið að hafna hugmyndum eyjamanna um Bakkaferju og í raun og veru virðist vera mjög óljóst, hvernig staðan er á þessu máli öllu í dag.

Það er svolítið merkilegt að sjá þetta rok núna, svona lagað þekkjum við vel hérna í eyjum, en í þessari átt er algjörlega sjólaust í Bakkafjöru, ég hef hinsvegar lent í því að vera að draga net þarna, aðeins 10 m. frá fjörunni í svona veðri, en ég sá aldrei fjöruna og eftir að hafa dregið þessar tvær trossur sem ég átti þarna í fjörunni, voru bæði báturinn og netin orðin svört og brún af mold.

Smá viðbót frá fundinum hjá Frjálslyndum s.l. föstudag. Ég hef töluvert gagnrýnt alla þessa svokölluðu sérfræðinga. Ég er t.d. ekki sammála sérfræðingum Hafró um stöðu fiskimiðanna, ég er ekki alveg sammála sérfræðingum Siglingamálastofnunnar varðandi Bakkafjöru, þó ég efist ekki um hæfni þeirra til að gera höfn þarna, og ég er algjörlega ósammála fuglafræðingunum í Setrinu um stöðu lundans í eyjum og kannski má segja sem svo, að formaðurinn hafi komið með ágæta lýsingu á sérfræðingum, því að enginn sérfræðingur í nokkurri peningastofnun eða bankastofnun spáði því s.l. haust að þetta hrun, sem er orðið núna yrði. Kannski ekki sambærilegir sérfræðingar, en sérfræðingar þó og svo ég endi þetta með orðum eins af þeim sem mættu á fundinn, þá orðaði hann það þannig, að ef sérfræðingar hefðu verið fengnir til að hanna hestinn, þá lyti hann sennilega í dag út eins og úlfaldi.

Smá fréttir frá sjónum. Fór á sjó föstudag og laugardag, fiskaði liðlega 3 tonn samtals, mestmegnis bolta þorskur, sem fékkst á færi og merkilegt nokkuð, að þó að hrygningarstoppið sé nýlokið, þá á töluvert af þorskinum ennþá eftir að hrygna. Einnig varð ég var við töluvert æti og fékk t.d. nokkra fiska á föstudeginum inni á Sandagrunni, sem ældu út úr sér mikið af trönusíli og öðrum sílum. Einnig var töluvert af síld í fiskinum, sem er held ég, óvenju snemmt.

Meira seinna.


Fundur hjá Frjálslyndum

Var haldinn föstudaginn 25. apríl 2008 á Café Kró í Vestmannaeyjum. Fundurinn var ekki fjölmennur en góður, en það vakti athygli mína að enginn fréttamaður frá bæjarblöðunum í eyjum sá ástæðu til að mæta (en þáðu þó greiðslu fyrir að auglýsa fundinn), en væla svo reglulega yfir því að þingmennirnir láti aldrei sjá sig í eyjum, en það er nú svo, það er víst ekki sama hvaða flokkur á í hlut.

27. apríl 2008 092

Á fundinn komu, frá vinstri; Guðrún María Óskarsdóttir, nýráðin aðstoðarmaður Grétar Mars, Grétar Mar Jónsson, þingmaður, Hanna Birna Jóhannsdóttir, varaþingmaður og Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður og formaður Frjálslynda flokksins.

Fundurinn var mjög skemmtilegur og athyglisverður og áttu bæði Grétar og Guðjón Arnar mjög athyglisverðar ræður, ég hafði beðið þá um að koma sérstaklega með þeirra sjónarmið varðandi hugsanlega inngöngu í ESB og áhrif þess á Vestmannaeyjar og eftir á að hyggja, held ég að kröftug ræða Guðjóns Arnars hefði jafnvel snúið hinum versta krata frá því að sækja um inngöngu í ESB, en að sjálfsögðu þarf að ræða málið.

Stærsti hluti fundarins fór eins og vanalega í að ræða um Bakkafjöru og kom einn fundarmanna með mjög athyglisverðar upplýsingar, m.a. þær að í nágrenni við þann stað þar sem hugmyndin er að taka grjót í varnargarðana, eru vatnslyndir okkar eyjamanna. Það hlýtur að vekja áhyggjur hjá mönnum vegna hugsanlegrar mengunar, að maður tali nú ekki um þá staðreynd, að í eyjum er að hefjast bygging á verksmiðju, sem ætlar að sérhæfa sig í útflutningi á vatni. Einnig kom fram, að á netinu er hægt að finna nú þegar verðskrá vegna flutninga á vöru til og frá eyjum, og kemur þar greinilega fram, að vöruflutningar til eyja munu hækka all verulega. Svo ekki er það nú gott. Svo er aftur spurning, hvað er gott með þessari Bakkafjöru? Spyr sá sem ekki veit.

Að lokum langar mig að þakka fyrir góðan fund og óska sérstaklega Guðrúnu Maríu til hamingju með nýja starfið, ég hef nú getað lesið skrif hennar allt síðasta árið á blogginu, og alveg ljóst að þar er á ferðinni frábær penni og mikill ánæja  með hennar störf fyrir Frjálslynda flokkinn . Takk fyrir mig .


Bakkafjara

Í janúar s.l. skrifaði ég grein, sem ég kallaði mína lokagrein um Bakkafjöru, sem tókst reyndar ekki alveg og spurning, hvort það þýði nokkuð að reyna aftur, en ég ætla að reyna.

Ég tók eftir því í morgun að flest fiskiskip voru á sjó, Herjólfur fór samkv. áætlun, en á sama tíma eru austan 20 á höfðanum og mikið sand og moldrok inn í Bakkafjöru, svo óljóst er, hvort fært sé þar, en það kemur þá bara í ljós. Þegar maður vegur saman þessar tvær samgöngubætur, nýjan Herjólf í Þorlákshöfn eða Bakkafjöru, þá getur maður vel sett sig í spor þeirra, sem hlynnt eru hvoru tveggja fyrir sig. Það er t.d. vel skiljanlegt að fólk sem er mjög sjóveikt og sjóhrætt, sé hrifið af þessari hugmynd að vera aðeins innan við hálftíma á sjó. þessu fylgir hinsvegar sá galli, að þá þarf að keyra restina af vegalengdinni, miðað við að flestir séu að fara á höfuðborgarsvæðið. Með nýjum Herjólfi á sömu leið, en í gegnum Þorlákshöfn, skipi sem færi þá leið á 11/2 - 2 klukkutímum, er einnig mjög vel skiljanlegt, því þá sleppur fólk við aksturinn, og fyrir þá sem eru ekki sjóveikir er mjög þægilegt að geta fengið sé smá auka kríu á leiðinni. Þegar þessi umræða hófst, var nýr Herjólfur gagnrýndur með því að láta reikna út vafasamt áhættumat fyrir siglingaleiðina, en ég hef tekið eftir því, að eftir að ég fór að tala um áhættumat, þar sem vegirnir væru teknir inn í matið, þá heyrist varla orð um áhættumat. Einnig hef ég tekið eftir því, að fleiri og fleiri eyjamenn gera sér orðið grein fyrir því, að frátafir í Bakkafjöru verða að öllum líkindum töluvert fleiri en í Þorlákshöfn (gott dæmi er sandrokið í austan áttinni þessa dagana). En vonandi tekst Landgræðslustjóra að hefta það eitthvað, en um það eru margir efins.

Nú er orðið ljóst, að aðeins Vestmannaeyjabær hefur áhuga á að taka við rekstri þessa nýja skips og nýju hafnar og í raun og veru finnst mér eiginlega alveg með ólíkindum, hvað bæjarstjórnin okkar er tilbúin að ganga langt, en kannski tengist þetta eitthvað skrifum bæjarstjórans okkar frá því í haust, þar sem hann lýsti því yfir, að hann hefði nú lent í því að vera sjóveikur um borð í Herjólfi með börnin sín sjóveik. Auðvitað er það óskemmtileg reynsla, en ég ætla rétt að vona það, að það sé ekki eina ástæða hans, og í raun og veru efast ég um það, því að mér finnst orðin ansi sterk pólitísk lykt af þessu öllu saman.

Að lokum eitt sjónarmið, sem mér var sagt í morgun. Nokkrir stuðningsmenn Bakkafjöru hafa líkt gagnrýni á Bakkafjöru á við gagnrýnina sem kom fram, þegar gerð Hvalfjarðarganga hófst, en það er svolítið merkilegt, ef við skoðum það aðeins nánar, að í Hvalfirðinum gerðu menn göng til að losna við hættulegan veg, en í Bakkafjöru eru menn að gera höfn, sem lengir verulega akstur eyjamanna á hættulegum vegi.

Ég ætla að reyna að minnka skrif mín um Bakkafjöru, enda tel ég mig ekki vera í einhverri hatrammri baráttu gegn þessu, en mín skoðun er þó óbreytt.


Fundur með Frjálslyndum

Staðurinn og stundin: Café Kró á föstudaginn kl. 20. Á fundinn koma, Grétar Mar Jónsson, þingmaður sunnlendinga, Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður og formaður Frjálslynda flokksins. Fundurinn verður opinn öllum, heitt á könnunni. Við ætlum að ræða m.a. atvinnumál, samgöngumál og hugsanleg áhrif inngöngu í ESB á Vestmannaeyjar.

Nýir félagar eru sérstaklega boðnir velkomnir, því nú er rétta tækifærið til að skrá sig í Frjálslynda flokkinn, eina flokkinn sem vill ræða öll mál og telur Bakkafjöru ekki vera besta kostinn í samgöngumálum eyjamanna.

Meira seinna .


Lundaráðstefnan

Það var fínasta mæting á lundaráðstefnuna í fyrradag og margt mjög merkilegt sem þar kom fram. Til að byrja með langar mig að samgleðjast þeim á setrinu, því að í máli þeirra kom fram að miklir fjármunir hefðu fengist að undanförnu til að stunda m.a. lundarannsóknir og er það að sjálfsögðu ánægjulegt.

Í máli Erps kom fram, að hugmyndir hans um lundaveiðistopp í sumar séu fyrst og fremst tillaga og byggist ekki á því, að lundastofninn sé í einhverri hættu eins og staðan er í dag, heldur fyrst og fremst á því, að menn hafi áhyggjur af því að síðustu 3 árin, séu aðeins fyrstu 3 árin af lélegri nýliðun lundastofnsins og að þess vegna sé rétt að grípa inn í núna. Ég spurðist fyrir um nýliðunina á árinu 2005 (sem að mínu mati var í góðu meðallagi) en að mati Erps, væri nánast engin og rökin hjá honum fyrir því voru þau, að tveggja ára lundinn hefði átt að skila sér sem 28% af veiddum lunda s.l. sumar. Ég spurði hann, hvort það væri ekki möguleiki að sá lundi gæti hugsanlega skilað sér í sumar, enda síðustu 3 ár í alla staði mjög undarleg hjá lundanum í eyjum, en eitthvað fátt var um svör.

Annað atriði sem kom fram í máli Erps er nýliðun á árinu 2007. Útreikningarnir voru einhvernvegin þannig: Áætlaðar lundaholur í Vestmannaeyjum, 1.300 þús. Farið var í 1.300 holur, eða 0,1 % (ég held reyndar að holufjöldinn sé töluvert meiri, en það er að sjálfsögðu erfitt að finna það út). Samkvæmt útreikningum Erps, þá komu pysjur út úr liðlega 16% holanna og fær hann það út, að á síðasta ári hafi 82.000 pysjur komist á legg. Það sem mér þykir undarlegast við þessa tölu er í samræmi við fyrri grein mína um lundann, þ.e.a.s. 2.000 pysjur vigtaðar í Sædýrasafninu. Annað eins, eða um 2.000 pysjur lenda í höfninni eða eru ekki vigtaðar, samt. 4.000 pysjur og eru því samkv. útreikningum Erps 5% af öllum lundapysjum í Vestmannaeyjum, sem lenda í bænum eða höfninni. Þetta tel ég vera alrangt og ætla að halda mig við að bæjarpysjan sé vel innan við 1/2% og nýliðun á síðasta ári samkv. því allavega 300.000 pysjur.

Varðandi veiðina í sumar, þá verður fundur haldinn þegar ástæða verður talin til og lagðar fram tillögur frá veiðimönnum og þótti mér ánægjulegast, að því var lofað að tillit yrði tekið til veiðimanna á heimalandinu.

Það athyglisverðasta sem kom frá Bæjarráðsmönnum, eru hugmyndir um að stofnuð verði veiðifélög um veiðar á Heimaey, og höfum við nokkrir nú þegar rætt þetta, kannski má segja að merkilegast við þetta, sé hugsanlegur viðsnúningur í Bæjarstjórninni, vegna þess, að oft hefur verið sótt um einkaleyfi á hin og þessi fjöll, en því hefur hingað til alltaf verið hafnað.

Það kom greinilega fram í máli rannsóknaraðilanna, að nú eigi að taka til í skráningu lundaveiðigagna og er það bara ágætt, en það kom greinilega fram á fundinum, að í þeim málum er pottur víða brotinn.

Ein spurning kom fram, sem ég svaraði og langar að bæta við svarið, það er ástæðan fyrir hruni lundastofnsins í Færeyjum. Upp úr aldamótunum 1900 komu nokkur kaupskip til Færeyja og báru með sér skæðan rottufaraldur, sem á nokkrum árum eyddi upp nánast öllum lundanum í Færeyjum og á ferð minni í Færeyjum 2006, var mér t.d. sýnd lundabyggð í Suðurey, sem hafði talið 60.000 pör, en þar var ekki einn einasti lundi lengur og engin ummerki lengur um holur. Eftir mikla leit í Suðurey, rakst ég á nokkra lunda sem héldu sig utan í björgum þar sem algjörlega ókleyft var að, sama má segja um aðrar fuglategundir sem við þekkjum, að hér í eyjum halda sig utan í jafnvel minnstu klettum, en reyndar eru veiddar nokkur þúsund lundar í eyjunni Mykinesi við Færeyjar, en hún er það brött og hafnaraðstæða nánast engin, að stór skip komast ekki þar að.

Þó ég sé ekki alfarið sammála Erpi og þeim að öllu leyti, þá er ég mjög ánægður með fundinn og vona það að haft verði fullt samráð við veiðimenn um framhaldið og get alveg tekið undir það, að vissulega á lundinn að njóta vafans, en ég er ennþá á þeirri skoðun að margt bendir til þess, að lundastofninn sé í dag jafnvel í sögulegu hámarki. En nóg um það, takk fyrir mig.


Hann kom og lundaráðstefna á morgun

Þar sem að lundinn er að setjast upp í Heimaklett á þessari stundu, þá langar mig að óska öllum nær og fjær gleðilegs sumars.

Í Fréttum s.l. fimmtudag er viðtal, þar sem fuglafræðingurinn Erpur Snær lýsir því yfir, að hann mæli gegn því að lundi verði veiddur í sumar (þetta verður tekið fyrir á fundi á vegum Náttúrufræðistofnun Suðurlands í eyjum annað kvöld m.a. Ég veit ekki hvort ég nenni hreinlega að mæta, svo hér kemur mín sýn á þetta).

Ég ætla að byrja á árinu 1997 og 1998. Árið 1997 var mjög léleg veiði og mjög lítið um ungfugl, og þeir sem veiddu eitthvað af ráði það sumar, sérstaklega Ystaklettsmenn, létu hafa eftir sér, að þetta væri nú bara bölvaður graddi. Í framhaldi af þessu sumri komu fram nokkrar raddir, eins og vanalega, sem töldu að einhverjum yrði að kenna um. Gekk það svo langt, að um vorið 1998 komu fram bréf frá tveimur veiðifélögum (ég á afrit af þessum bréfum) þar sem því var lýst yfir, að það yrði að stöðva þessa óheiðarlegu veiðimenn, sem m.a. væru við veiðar í Miðkletti. Þáverandi formaður NFS, Ármann Höskuldsson, hlustaði í fyrstu ekkert á þessar raddir, enda ekkert nýtt að rígur sé á milli sumra veiðifélaga og merkilega oft sömu mennirnir sem fara þar fremst í flokki. Þetta hinsvegar breyttist þegar leið betur á vorið og þá sérstaklega eftir að hugmyndir komu upp um að fjölga íbúum Klettsvíkur. Keiko var á leiðinni og ákveðnir aðilar í eyjum ætluðu sér að græða einhvern helling á þessu ævintýri, þess vegna var drifið í því og birt auglýsing í bæjarblöðunum í sömu viku og veiðitíminn hófst og tilkynnt um að hér með væri búið að banna lundaveiðar í Miðkletti og hluta af Heimakletti næstu 5 árin. Við sem höfðum stundað veiðar á þessu svæði rákum í rogastans, því ástæðan sem gefin var upp var sú, að þarna hefðu verið á ferli einhverjir óheiðarlegir veiðimenn. Varðandi lundann, þá skipti þessi lokun í sjálfu sér engu máli, vegna þess að árið 1998 verður alltaf í minningunni eitt besta lundaveiði sumar í sögu eyjanna og m.a. var Vestmannaeyjametið í lundaveiði slegið, þar sem einn lundaveiðimaður í Ystakletti veiddi 1440 lunda á einum degi. Um haustið mættum við, félagarnir úr Miðkletti, á fund með Ármanni Höskuldssyni og kröfðum hann nánari útskýringa á þessu banni. Endaði þetta með því, að hann aflétti þessu banni, en með þeim skilyrðum að við reyndum að vera ekki fyrir og trufla ekki starfsfólkið í kringum Keiko. Ég hinsvegar, mun aldrei gleyma því, hvaða aðilar það voru sem beittu sér fyrir lokun Miðkletts, enda held ég að orð forsetans okkar hafi átt vel við þessa aðila, þar sem hann sagði eitt sinn á þingi:"Þetta eru menn með skítlegt eðli."

Í máli Erps kemur fram, að nýliðun s.l. þrjú árin í lundastofninum sé nánast engin. Ég var að skoða veiðidagbókina mína, og svona voru síðustu þrjú árin. Árið 2005 byrjaði veiðin mjög illa, lítið var af ungfugli og í raun var nánast sáralítil veiði allan veiðitímann. Það var í raun og veru ekki fyrr en um miðjan ágúst, í lok veiðitímans, sem að skyndilega öll fjöll fylltust af lunda og gripu mörg veiðifélög til þess ráðs að veiða út ágúst. Þetta var mjög undarlegt sumar og einnig var mjög sérkennilegt, hvernig pysjan skilaði sér, því að framan af ágúst sást nánast engin lundapysja, en svo skyndilega, vikan í kringum mánaðamótin ágúst-september, þá rigndi niður lundapysju á örfáum dögum og taldi ég t.d. liðlega tvö hundruð pysjur bara í höfninni. Þetta fór svolítið framhjá mörgum, enda skólarnir byrjaðir. Pysjan var það vel haldin, að hún var fljót að koma sér í burtu.

2006 var versta árið í þessari skorpu. Reyndar var veiðin upp og ofan, en að jafnaði frekar léleg, en það sem menn höfðu mestar áhyggjur af var, að þetta árið brást pysjan nánast alveg. Eftir þetta sumar komu enn einu sinni upp raddir um, að nú yrði að grípa inn í, annaðhvort að stöðva veiðar alveg, eða fara eftir hugmyndum frá Erpi Snæ, sem þá var að hefja störf í eyjum 2007, um að veiða fyrst og fremst í soðið.

2007. Ekki voru öll veiðifélögin til í þetta og tóku Ystaklettsmenn af skarið og hófu veiðar strax 1. júlí. Ég hafði fyrirfram ekki tekið neina sérstaka ákvörðun um að veiða s.l. sumar, en að miða við 30 ára veiðireynslu mína, þá sagði ég þetta:"það var mjög léleg veið síðustu tvö árin. Nýliðun var nánast engin 2006 en vegna þess, hversu léleg veiðin hafði verið, þá væru töluverðar líkur á því, að mjög mikið af lunda kæmi, og hefði ég því ákveðið að hefja veiðar þegar og ef ég væri orðinn sannfærður um, að það væri óhætt". Fór ég í mína fyrstu veiðiferð 6. júlí. Varðandi lundann sem kom s.l. sumar, þá langar mig að vitna í orð stórgreifans, Sigurgeirs ljósmyndara úr Álsey, sem sagði þetta."Ég hef aldrei nokkurn tímann séð jafn mikinn lunda í Álsey og í sumar." Margir aðrir sögðu sambærilegt úr hinum og þessum eyjum og hef ég því leyft mér að segja það, að þarna hafi ég haft algjörlega rétt fyrir mér. Þegar líða tók á Ágúst s.l. fóru menn að ókyrrast, því lítið sást af pysju. Ég sagði hinsvegar mönnum að anda rólega, því ég hafði orðið var við töluvert mikið af æti í sjónum í kringum eyjar og mikið af sílisfugl í sumum fjöllunum og spáði ég því, að þar yrði kannski ekki mjög mikið af pysju, en það yrði töluvert en hún yrði seinni en vanalega og jafnvel ekki fyrr en í byrjun september. Þetta gekk eftir og skilst mér að á Sædýrasafninu hafi verið vigtaðar ca. 2000 pysjur og hef ég því leyft mér að reikna það út, að bæjarpysjan sé sennilega innan við 1/2 prósent af öllum pysjum sem komast á legg frá Vestmannaeyjum og nýliðun á árinu 2007 sé því c.a. 300.000 pysjur. Á móti voru aðeins veiddir á milli 30 og 40.000 lundar s.l. sumar, svo það sér það hver heilvita maður að lundastofninn er ekki í hættu, og alt tal um að banna veiðar í sumar, á einhverjum hæpnum forsendum, er ekki mjög trúverðugt.

Fyrir nokkrum árum síðan kom Páll Marvin úr setrinu á máli við mig og bað mig um að hjálpa sér, við að koma af stað verkefni, sem hann kallaði pysjueftirlitið. Meiningin var að telja og vigta lundapysjur og svo framvegis. Sagði ég við Palla:" Mér er alveg sama, þó að þú rannsakir lundapysjurnar, en ég ætla ekki að hjálpa þér við þetta, vegna þess að samkvæmt reynslu minni, þá þýðir þetta fyrst og fremst það, að þið munið reyna að fara að hafa áhrif á veiðarnar og jafnvel stjórna þeim að einhverju leiti, svipað og gert hefur verið með fiskinn í sjónum og ekki ósennilegt að það yrði með einhverjum sambærilegum hörmungum og við höfum séð með þorskinn. Eini munurinn er sá, að við sjáum ekki þorskinn, en við sjáum lundann." Ég heimsótti þá á setrinu í júlí í fyrra og voru þeir þá þegar byrjaðir að tala um að varpið væri algjörlega misheppnað, enginn sílisfugl hefði sést og þegar ég benti þeim á að kíkja út um gluggann á Heimaklett, sem var nánast þakinn af lunda, þá missti einn fuglafræðingurinn út úr sér:"Eru þetta ekki bara einhverjir flækingar frá öðrum löndum?" Ekki mjög trúverðugt.

Ég ætla að enda þetta með þessu: Það hefur stundum verið sagt við mig, að sem veiðimaður, þá sé ég hlutdrægur og vilji bara veiða, alveg sama hvað. Þessu er ég ekki sammála, en bendi á það að varðandi hagsmuni, þá hefur það marg komið fram m.a. á ráðstefnu um lundann s.l. vor, þá viðurkenna sumir fuglafræðingar það, að þegar alt er í lagi, þá fást engir peningar til að rannsaka, en þegar menn mála skrattann á vegginn, þá sé ekkert mál að fá peninga í nánast hvað sem er. Að lokum ætla ég að vitna í orð Ævars Petersens, forstöðumann Náttúrufræðistofnun Íslands, sem sagði þetta á síðasta ári:"Náttúrulegar sveiflur hafa alltaf orðið reglulega í öllum stofnum. Það góða hinsvegar við lundann er það, að stofninn er svo gríðarlega sterkur að hann þolir vel nokkur mögur ár." Ég tek undir þetta, en vill hinsvegar taka það líka fram, að á þessari stundu veit ég ekki, hvernig þetta sumar verður og er algjörlega ósammála hugmyndum frá Erpi Snæ, en tel að miðað við reynslu síðustu þriggja ára, að rétt væri að skoða það að hefja veiðar ekki fyrr en 11. júlí, vegna þess, hversu seint pysjan hefur verið að skila sér síðustu ár. Þetta er rökrétt eins og staðan er í dag. 


Herjólfur

Er að fara í bæinn á eftir en kem aftur í kvöld ef þjóðvegurinn (Herjólfur ) bilar ekki .

UNDIRSKRIFTARSÖFNUN ER FORMLEGA LOKIÐ OG SKRIFUÐU TÆPLEGA 3200 UNDIR ,þetta er ágætis þátttaka en það vakti athygli mína hversu margir vildu ekki skrifa undir vegna jafnvel hina undarlegustu ástæðna . Vilji eyjamanna mun aldrei koma fram nema með nafnlausri kosningu en eins og svo oft hefur komið fram þá hefur bæjarstjórinn ítrekað hafnað kosningu .

Það sem vekur mesta athygli mína við hugmynd eyjamanna um bakkaferju er að skyndilega eru menn hættir að tala um 62 metra skip og farnir að tala um 69 metra skip , ég er að hugsa um að klappa sjálfum mér á bakið fyrir það .

 það er stór dagur í dag þegar tilboð verða opnuð , en frekar dapurt að aðeins tveir aðilar hafa áhuga en það góða er að eyjamenn hafa 50% líkur fyrir því að ráða yfir þessu , ef við fáum þetta þá ætla ég rétt að vona að við séum ekki að skjóta okkur í lappirnar . Meira seinna .


Hann er kominn

Ég fór út að ganga eftir kvöldmat, bæði til andlegrar og líkamlegrar hressingar. Eftir að hafa gengið nokkra stund, hringir gemsinn allt í einu og á skjánum stendur, leynilegt númer. Þegar ég svara, segir örlítið æst rödd:" Hann er kominn" og bætir svo við: "Ég er búinn að sjá 6-8 fljúga upp Kaplagjótuna." og bætir svo við:"Þarna kemur einn feitur og fallegur fljúgandi." Þarna var kominn vinur minn Þórarinn Sigurðsson að segja mér frá því, að lundinn væri kominn til eyja. Ég hef það fyrir vana, að bjóða gleðilegt sumar þegar lundinn kemur, en ekki fyrr en hann sest upp í Heimakletti, en það ætti að gerast í vikunni. Síðustu 25 árin hefur lundinn alltaf sest upp í Heimaklett á tímabilinu 13-17 apríl, ef undanskilið er síðasta ár, þar sem hann kom ekki fyrr en 27. apríl í Heimaklett.

Næsta sunnudag verður haldin ráðstefna, þar sem fjallað verður um lundann og sílið við Vestmannaeyjar. Fundurinn er haldinn af Náttúrufræðistofu Suðurlands og á þar að taka ákvarðanir um hugsanlegar veiðar á lunda í sumar. það mun ekki koma mér á óvart, þó að tillögur rannsóknaraðila fælu í sér að ekki væri óhætt að veiða lunda, þrátt fyrir að jafnvel elstu menn í eyjum hafi aldrei séð jafn mikið af lunda og s.l. sumar. Kannski má setja þetta upp á svipaðan hátt og t.d. fiskifræðin, þar sem sjómenn sjá fullan sjó af fiski út um allt, en fiskifræðingar sjá engan fisk, enda er það staðreynd, kannski því miður, að því dekkra sem útlitið er, því meiri fjármunir fást í rannsóknir, en það kemur allt í ljós.

Það er ekkert nýtt að sérfræðingar finni engan fisk og vilji stjórna veiðum, það er heldur ekkert nýtt að aðilar sem stunda rannsóknir á fuglaveiðum, vilji reyna að hafa áhrif og stjórna veiðunum. Fyrir mitt leiti hljómar þetta svolítið eins og setning, sem ég hef heyrt ansi oft í vetur í umræðunni um Bakkafjöru, þ.e.a.s. "Ég hef ekkert vit á þessu, ég bara treysti sérfræðingunum." Vonandi eru sérfræðingar Siglingamálastofnunnar eitthvað skárri en sérfræðingar Hafró. Meira seinna.


Bakkafjara framh.

Á eyjar.net er viðtal við fjóra þingmenn okkar sunnlendinga, sem mig langar að tjá mig aðeins um. Fyrir það fyrsta er Grétar Mar samkvæmur sjálfum sér og stefnu okkar í FF. Atli Gísla, VG, er búinn að skrifa undir, enda ekki hlynntur Bakkafjöru. Það vakti hinsvegar meiri athygli mína hinir tveir sem rætt var við. Í viðtalinu við Guðna Ágústsson, Framsókn, þá lýsir hann þeirri skoðun sinni, að það gæti hugsanlega skaðað eyjarnar ef við höfnum Bakkafjöru. Það sem mér þótti merkilegt við þetta, er að um helgina átti ég tvisvar spjall við Framsóknarfólk í eyjum, sem sagði nákvæmlega það sama og Guðni, svo það er nokkuð ljóst að þar á bæ er fólk búið að taka þá ákvörðun að fylgja foringjanum í einu og öllu og hafa enga sjálfstæða skoðun. Hinsvegar eftir að hafa lesið allt viðtalið við Guðna, þá fékk ég það helst á tilfinninguna, að Guðni væri enn að rembast við að verða sætasta stelpan á ballinu.

Árni Johnsen segir, að það sé of seint að breyta nokkru. Ég kann ágætlega við Árna, en ég velti því fyrir mér, að þar sem það var Árni sem árið 1999 setti fram hugmyndir um Bakkafjöru, og það var Árni, sem hefur barist hvað harðast síðustu árin fyrir göngum og það var Árni, sem fór í pontu á Alþingi í des. s.l. og sagði:"Eyjamenn þurfa að fá nýjan Herjólf strax." Þá er kannski engin furða, þó að þessi vinnubrögð séu kannski ekki mjög trúverðug.

Hvort sem Bakkafjara verður eða ekki, þá er það mjög ánægjulegt að við fáum að segja okkar skoðun, en ég ítreka það, að ef Bakkafjara verður að veruleika, þá vona ég svo sannarlega að vel takist til, en þetta er samt að mínu mati, lang lakasti kosturinn af þeim þremur sem hér hafa verið í umræðunni. Flestir þeirra sem ég hef rætt við, og eru mjög hrifnir af þessari hugmynd eru það fyrst og fremst vegna sjóveiki. Sjóveikin er mjög erfið, en að mínu mati, er það ekki nægileg ástæða til að taka þessa áhættu. Vonandi finnum við aðrar og betri lausnir í framtíðinni fyrir þá sjóveiku, ef við berum gæfu til að hætta við Bakkafjöru. Meira seinna .


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband