14.4.2008 | 22:00
Bakkafjara
Það má kannski segja sem svo, að loksins séu eyjamenn farnir að ræða samgöngumál sín í alvöru, og þó fyrr hefði verið. Undirskriftarsöfnunin gengur vel, og er ég búinn að skrifa mig og mína fjölskyldu. Að undanförnu hef ég rætt þessa undirskriftarsöfnun við nokkra eyjamenn. Sumir sem hlynntir eru Bakkafjöru hafa gagnrýnt þessa undirskrifarasöfnun fyrst og fremst fyrir það, hvað hún kemur seint fram og aðrir sem jafnvel eru á móti Bakkafjöru hafa jafnvel ekki tekið þátt, vegna þess hvernig hún er sett upp og vegna einhverskonar hræðslu við það, að ef við höfnum Bakkafjöru, þá fáum við ekki neitt. Ég hinsvegar fagna þessari undirskriftarsöfnun, vegna þess að þetta er eini möguleiki okkar til að láta skoðun okkar í ljós og skora ég á eyjamenn að taka þátt, því undirskriftarsöfnunin lýkur á miðvikudaginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2008 | 17:43
Bakkafjara
Margir eyjamenn hafa tjáð sig um Bakkafjöru að undanförnu og er það mjög ánægjulegt. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir, en ég tel enn að meirihluti eyjamanna sé gegn Bakkafjöru, enda kannski eðlilegt, þetta er eitthvað sem við þekkjum ekki.
Mér var svolítið hugsað til Bakkafjöru þegar ég keyrði austur á hraun í gær í ca. 16-18 metrum og sá, hvernig sjórinn hefur brotið niður hraunið á mörgum stöðum í vetur og kastað grjóti lengst upp á land, vonandi verður þetta ekki svona í Bakkafjöru, en það kemur alt í ljós. Mín afstaða er óbreytt, stærri, gangmeiri Herjólf. Það er það sem við þekkjum og höfum getað treyst á, því eins og við vitum öll, þá er þetta ævintýri (mín skoðun), vissulega mikil freisting fyrir þá sem eru sjóveikir, en því miður enda ekki öll ævintýri vel. Meira seinna.
9.4.2008 | 17:24
ESB og íhaldið í eyjum
Fyrir nokkru síðan höfðu Framsóknarmenn í eyjum samband við mig og spurðu, hvort FF hefðu áhuga á að taka þátt í málþingi um kosti og galla inngöngu í ESB út frá hagsmunum eyjamanna. Sagði ég svo vera og sama gerðu Samfylkingarfólk og Vinstri grænir í Vestmannaeyjum, en mér til mikillar furðu komu stutt skilaboð frá íhaldsmönnum í eyjum um það, að þar sem innganga í ESB væri ekki á dagskrá, þá þyrfti ekki að ræða málið. Þetta þótti mér mjög undarleg skilaboð, því að þó að ég sé sammála íhaldsmönnum um að vilja ekki ganga í ESB, þá finnst mér algjörlega nauðsýnlegt að ræða að minnsta kosti málið. Hér með skora ég á íhaldsmenn í eyjum að endurskoða sitt svar. Það er alveg ljóst, að mjög margir ef ekki flestir, gera sér enga grein fyrir, hvort sem er kostum eða göllum við það að ganga í ESB.
Kannski má segja sem svo, að mín afstaða til ESB hafi komið hvað skýrast fram í tveimur viðtölum í fréttum RÚV í síðustu viku, þar sem tekin voru viðtöl við Breska sjómenn í sjávarþorpum, sem voru við það að leggjast í eiði, vegna ákvarðanna um litla kvóta og án þess að eiga nokkra möguleika á að leita réttar síns.
Reyndar sagði fyrrverandi trillusjómaður við mig fyrir nokkru síðan:"Breytir það nokkru, hvort við göngum í ESB, við ráðum hvort sem er ekkert yfir aflaheimildunum." Mitt svar var sára einfalt:"Ég vill miklu frekar reyna að sækja leiðréttingar á kvótakerfinu á heimaslóðum, og tel það mun heilladrjúgra heldur en að þurfa að sækja það til Brussel."
9.4.2008 | 17:09
Mikið að gerast síðustu 10 dagana
30.3.2008 | 18:33
Í sól og sumar(yl)
Það var sumarblíða í eyjum í dag, sem hefði þýtt, ef alt væri eðlilegt, að ég væri úti á sjó, en vegna óhapps í fyrra bloggi, þá ákvað ég að heimsækja í dag einn af mínum uppáhaldsstöðum, HEIMAKLETTUR. Tók nokkrar myndir.
Brandur og Álsey baðaðar í sólinni, á milli þeirra grillir í Geirfuglaskerið og í fjarska sést Surtsey.
Horft yfir bæinn og eins og sést, þá erum við ekki alveg laus við snjóinn úr hvellinum mikla.
Með gestabókinni uppi á topp, er þessi skemmtilegi listi.
Seinni hluti listans.
Að sjálfsögðu tók ég mynd af Bakkafjöru, og vakti það athygli mína, að þó að það væri hæg norðaustan átt og renniblíða, þá brimaði samt í Bakkafjöru (enda þarf nú ekki mikið til að hreyfa sjó þar).
Útsýnið úr því sem ég kalla Þuríðarhellir er ansi flott.
Opið til að komast inn í hellirinn (skútann) er ansi þröngt, en ég tók eftir því að í örnefnum í Heimakletti er ekki minnst á þennan hellir, en ég rakst á hann þegar ég var að klifra þarna sem unglingur, og hef hirt allt að 10 egg í skútanum.
Klettsvíkin er alltaf falleg, en það skemmir töluvert þessir bútar af Keiko-kvínni og alt þetta drasl, sem liggur þarna í fjörunni, vonandi verður þetta hreinsað í vor.
Elliðaey skartaði sínu fegursta eins og allar eyjarnar í kringum Heimaey og á miðri mynd sést í varðskipið vakta bannsvæðið í eyjum fyrir óheiðarlegum trillukörlum. (maður hefði nú haldið að verkefnin á Íslandsmiðum væru næg).
Á leiðinni niður smellti ég þessari mynd af Glófaxa að koma úr róðri. Fiskirí við eyjar hefur verið mjög gott að undanförnu og við bryggju liggur (sennilega) norskt kolmunna veiðiskip, og er það mjög ánægjulegt, hversu vel hefur gengið hjá þeim í FES að undanförnu.
Á leið minni um Heimaklett minni rakst ég á þetta ástfangna par. Ekki voru þau beint hrifin af að sjá mig, og svei mér þá, ef ekki var kallað á eftir mér:"Eggjaþjófur" (maður verður bara svangur).
29.3.2008 | 21:57
Óheppni og formanna brandarinn
Það var fallegt veður í eyjum í dag, hægur vindur og sólskin og sjóinn hafði lægt töluvert um hádegi, svo ég fór niður í skúr að taka bjóðin til að fara á sjóinn, en var svo óheppinn að reka höndina svo hressilega í, að það rifnaði inn í kjöt á vísifingri vinstri handar og þurfti að sauma þrjú spor upp á spítala. Auk þess sagði læknirinn mér að slagæðin í puttanum hefði skaddast og bannaði mér að fara á sjó í einhverja daga.
Til að hressa mig við, var mér hugsað til þorrablótsins hjá okkur í FF sem haldið var fyrir nokkru síðan, þar sem fjöldi fólks fór á kostum og held ég að ég geti fullyrt það, að aldrei hef ég heyrt jafn marga brandara og skemmtisögur á einu kvöldi. Ekki man ég eftir mörgu, en það rifjaðist upp fyrir mér að formaðurinn sagði nokkur orð, en sagðist bara kunna einn brandara sem hann hefði nýlega heyrt, og var hann einhverveginn svona:
Fyrir nokkru síðan ákvað Iðntæknistofnun að láta yfirfara og breyta öllum netföngum hjá starfsmönnunum og var það gert þannig, að hver starfsmaður fékk netfang, sem var fyrstu þrír stafir í fornafni, fyrstu þrír stafir í eftirnafni og fyrstu þrír stafir í starfsheiti. Einn starfsmaðurinn mótmælti þessu harðlega, en á það var ekki hlustað og endaði það með því að starfsmaðurinn hætti hjá stofnuninni. Ástæðuna sjáum við í nafni mannsins, en hann hét Rúnar Karlsson, sérfræðingur.
Góða helgi öll.
Mig langar að byrja þennan kafla á því að taka undir orð Magnúsar Kristinssonar í Fréttum, útgefið í Vestmannaeyjum, í dag og í raun og veru var eins og ég hefði skrifað þetta sjálfur. Þessi skoðun Magnúsar kemur mér reyndar ekki á óvart, vegna þess að ég tel að mikill meirihluti Vestmannaeyinga séu á þessari skoðun, eða eins og ég hef svo oft orðað það: Stærri, gangmeiri Herjólf strax.
Það hefur vakið athygli margra, hversu hart sjálfstæðismenn sækja það að fá þessa Bakkafjöru og á köflum hafa væntingar sumra þeirra minnt mig á annað mál, sem tengdist eyjum fyrir nokkrum árum síðan, eða þegar Keiko kom til eyja og hitti ég m.a. einn þáverandi bæjarstjórnarmann, sem lýsti því yfir að nú yrðum við öll rík. Eitthvað varð nú lítið um ríkidæmið vegna Keikos, en í minningunni má þó segja það, að nokkrir eyjamenn fengu þó vinnu við þetta, hingað kom töluvert af erlendu fólki sem vann við þetta og ég kynntist lítillega og kunni ágætlega við, en fyrst og fremst, þá minnist ég Keiko, fyrst og fremst fyrir nokkrar ánægjulegar stundir fyrir framan sjónvarpið, horfandi á Spaugstofumenn sem fengu mikið efni út úr Keiko. Kannski er þetta ekki alveg sambærilegt og Bakkafjara, en mér finnst eins og væntingar sumra séu á þann veginn, að með Bakkafjöru verðum við öll rík.
Í fyrradag lenti ég á spjalli við eldri mann hér í bæ, sem ég er búinn að þekkja meirihlutann af minni ævi og hef mikið álit á og m.a. rætt nokkrum sinnum við um Bakkafjöru, sá hafði þetta að segja núna:" Af hverju viltu hætta við Bakkafjöru?" og ég svaraði:"Ég hef aldrei verið, eins og þú veist, sérstaklega hlynntur Bakkafjöru, en ég tel að þar sem líkurnar á því, að ef þetta gangi upp, þá muni rísa höfn sem hugsanlega keppir við höfnina hér í eyjum og tel ég að þar með sé endanlega, að mínu mati, staðfest að þetta sé lang versti kosturinn fyrir okkur eyjamenn í samgöngumálum okkar." Spurði ég hann, hversvegna hann væri að skamma mig fyrir að vilja hætta við Bakkafjöru og fékk það svar, að ég ætti að vita það, eins og hann, að íhaldsmenn hefðu ákveðið þetta fyrir mörgum árum síðan. Ég sagði honum það, að vissulega hefði ég heyrt þessa kjaftasögu oft og mörgum sinnum, en ég hefði ákveðið að leyfa mér það, að efast um að hún væri sönn, vegna þess einfaldlega að ég trúi því ekki, að menn séu svo vitlausir að ákveða svona mikilvæga hluti löngu áður en rannsóknum var lokið.
Tvö atriði tengd Bakkafjöru vöktu athygli mína s.l. hálfan mánuð, í fyrsta lagi, gríðarlegt landbrot vegna sjógangs í Vík í Mýrdal, þar sem, eftir því sem heimamenn segja, sjórinn hefur brotið sér um 350 m í áttina að þorpinu á aðeins liðlega 30 árum. Einnig vakti athygli mína ferð manna á mótorhjólum í fjörunni hér á móti, þar sem einn þeirra varð fyrir því að hjólið drap á sér í fjöruborðinu og neyddist maðurinn til að sleppa hjólinu til að bjarga sjálfum sér úr briminu, en brimið var svo mikið að mótorhjólið tók út, og sést að öllum líkindum aldrei meir. Það er ekkert nýtt, að fólk sem er ekki vant því að eiga við náttúruöflin, vanmeti náttúruna. Þetta hljómar svolítið eins og:" Eigum við að skreppa upp í Vík í Mýrdal og fá okkur ís." Meira seinna .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.3.2008 | 19:22
Lenti eitt sinn í þessu
Aðgát skal höfð
Mörgum trillukarlinum hefur orðið tíðrætt um meðhöndlun og afgreiðslu Landhelgisgæslunnar og ákæruvaldsins varðandi atvik eins og ef haffæriskírteini er útrunnið eða ekki um borð.
Gefin er út ákæra, laganna verðir birtast og afhenda fyrirkall til sýslumanns. Málinu lokið með greiðslu sektar sem nemur tugum þúsunda.
Nýlegt dæmi þar sem bátur var í róðri. Landhelgisgæslan kallaði í hann og tilkynnti skipstjóranum að haffæriskírteinið hefði runnið út á miðnætti. Viðkomandi, sem jafnframt var eigandi bátsins, þakkaði fyrir að minna sig á og pantaði skoðun strax næsta dag. Hún rann í gegn athugasemdalaust og róðrum var framhaldið. Allt klappað og klárt, en því var nú aldeilis ekki að heilsa.
Þrem mánuðum síðar var barið að dyrum hjá þessum heiðursmanni. 12 ára sonurinn fór til dyra, kom aftur að vörmu spori, náfölur og stundi upp: Pabbi! lögreglan er að spyrja eftir þér.
Hér er of langt gengið. Yfirvaldinu ber að gæta hófs og meta eðli brota. Nútímaþjóðfélag gerir þær kröfur að komið sé fram við þegnana að varfærni, en ekki á sama hátt og um síbrotamenn sé að ræða.
Hafi slík framkoma sem hér er lýst lagastoð ber Alþingi að ganga í málið og breyta þeim ólögum sem hún er byggð á.
24.3.2008 | 18:34
Er þjónusta við bílalausa Herjólfsfarþega að versna?
Dóttirin var að hringja í mig og sagði farir sínar ekki sléttar. Hún ætlaði að koma með fyrri ferð Herjólfs í dag, fékk far niður á BSÍ, sat svo inni og var að borða áður en hún færi í rútuna, en tók svo eftir því, að Herjólfsrútan keyrði skyndilega í burtu, án þess að það væri kallað upp í hátalarakerfinu og missti þar með af skipinu. Til þess að vera alveg örugg á að missa ekki af seinni ferðinni, þá kom hún sér upp að Rauðavatni, stóð við vegkantinn og veifaði Herjólfsrútunni þegar hún kom, en viti menn, rútan stoppaði ekki, svo hún situr föst í bænum og þarf að reyna aftur á morgun. Frúin var að hringja á Þingvallaleið og fékk þau svör að því miður hefðu þau ekki símanúmerið í rútunni .
Varðandi spurninguna í fyrirsögninni, já, þetta getur nú varla talist boðleg þjónusta.
Það var bara eins gott, að þetta var ekki síðasta ferð frá Bakka í bæinn. Kannski maður verði að útbúa krakkana með tjald þegar og ef Bakkafjara verður einhvern tímann tilbúin?
23.3.2008 | 17:44
Rólegheit um páskana
Það er rólegheit á Staðarhóli þessa dagana og veðrið alveg frábært, logn og blíða og eiginlega synd að vera ekki á sjó í þessu, en einhvertímann verður maður víst að fá að blása.
Strompurinn fór af húsinu í síðustu viku, búið að loka því og náði ég rétt að mála áður en stillansinn var tekinn. Einnig er verið að dytta að ýmsu smálegu á heimilinu, bæði inni og úti, en ætla mér að reyna að róa í nótt, því veðurspáin eftir morgundaginn er ekki góð. Nær allur flotinn er í landi, en tók þó eftir því, að uppsjávar veiðiskipið Guðmundur fór á sjó fyrir helgi.
Á þessum árstíma gríp ég sjálfan mig oftar og oftar í því að beina sjónum mínum upp til fjalla, enda aðeins 3 vikur í að lundinn komi og kominn smá fjalla hugur í kallinn. Hitti m.a. fjallageitina Már kennara úti á Eiði í dag, og sagðist hann hafa verið frekar latur, það sem af er þessu ári, eða aðeins farið ca. 30 sinnum upp á Heimaklett á þessu ári. Það væri nú munur ef maður væri svona duglegur sjálfur.
Megið þið öll eiga gleði og ánægju stundir um Páskana .