2.3.2008 | 11:04
Áskorun til bæjarstjórnar Vestmannaeyja
2.3.2008 | 10:56
Nýtt hús
Þar sem á miðnætti 29. febr. skiluðum við endanlega af okkur lyklunum af gamla húsinu og vegna þess, að ég var spurður að því, hvernig mér líkaði nýja húsið, þá nokkrar línur um það.
Fyrir það fyrsta, þá er mikill munur á 120 fm og 210 fm, að auki er nýja húsið klætt að utan og allt nýtekið í gegn að innan, á meðan það gamla var óklætt, stóri munurinn er þar að þegar kalt er í veðri og allir ofnar voru kynntir í botn í gamla húsinu, þá var samt stundum hálf kalt. Í nýja húsinu hinsvegar, virðist vera nóg að kveikt sé á einhverjum einum ofni einhverstaðar í húsinu til þess að það sé bæði hlýtt og notalegt.
Einnig er mikill munur á því að geta haft frúarbílinn inni í bílskúr, hlýjan og notalegan og vera laus við allt skafirí (vinnubíllinn þarf víst áfram að hanga úti).
Það sem við höfðum hinsvegar mestar áhyggjur af eru kisurnar okkar, sem báðar eru svo til fæddar og uppaldar í gamla húsinu. Til að venja þær við, þá fór ég með þær (Tómas, geldur fress 7 ára og Blíða 1 árs læða) tveimur dögum áður en við fluttum sjálf, en hluti af húsgögnunum var kominn á undan, og skildi þær eftir með sand og mat í nokkra klukkutíma. Þetta tókst mjög vel og er kannski besta lýsingin sú, að þegar ég loksins hleypti þeim út, þá fór sá gamli (Tómas) beint út í garð, hnusaði að öllum trjánum í garðinum, merkti svo stærsta tréð vel og vandlega og kom svo strax inn aftur, svo við erum öll alsæl í nýju húsi.
2.3.2008 | 10:23
Vont veður
Ég opnaði útihurðina áðan því hún snýr í vestur , en samt var snjór upp á miðja hurð svo að ég var fljótur að loka aftur, og mér sýnist bíllin vera við það að hverfa í snjóskafl.
Besta veður vetrarins var í gær en sennilega það versta í dag . Það vantar ekki öfganna í veðrinu í eyjum .
Sumir vilja meina að veðrið í vetur sé það versta í manna minnum , en ég sá það í gær í afladagbókinni að í Febrúar fór ég 6 sinnum á sjó , en man eftir því að fyrir ca 16 til 18 árum komst ég aðeins 1 sinni á sjó í Febrúar og á síðasta ári aðeins 3 sinnum í Febrúar . Snjókoman er hinsvegar meiri heldur en ég man eftir.
![]() |
Vont veður í Vestmannaeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.2.2008 | 22:48
Vertíð og fleira
Það er annað hljóð í eyjamönnum í dag heldur en fyrir viku síðan, enda loðnuveiðar komnar af stað og unnið á vöktum í bæði vinnslum og bræðslum og sannkölluð vertíðarstemmning niðri við höfn.
Það sló mig svolítið frétt á eyjamiðlunum, um að hugsanlega væri verið að selja frystitogarann Snorra Sturluson frá Vestmannaeyjum (ég held það séu 25 manns um borð), en kvótinn fer nú ekki með. Ástæðan er sú að í leit minni að húsnæði núna í janúar, skoðaði ég meðal annars hús hjá einum úr áhöfninni á Snorra Sturlu, sagði sá mér að hann væri ánægður þarna um borð og hefði góðar tekjur, en heyrði alveg skilaboðin sem ríkisstjórnin væri sífellt að senda um að það ætti að fækka og hagræða frekar í sjávarútvegi, þess vegna hefði hann hug á að flytja í bæinn til þess að eiga fleiri atvinnumöguleika ef eitthvað skyldi breytast. Ef af þessari sölu verður, þá má kannski segja sem svo að þetta sé gott dæmi um það atvinnuöryggi sem sjómenn búa við í dag.
Öllu betri voru þó fréttirnar af Eyjaberg (Pétursey ehf ) þar ætla menn að reina að halda áfram í bili , en töluverð fækkun verður þó af starfsfólki . Meira seinna .
26.2.2008 | 21:11
Gleðilegt vor
Fór á sjó í morgunn veðrið var frekar dapurt vestan 10 metrar og gekk á með éljum. Fiskirí var svona viðunandi eða liðlega 100 kg á bjóð ( 1300 kg á 12 bala ) ég var að keyra rétt austan við Bjarnarey rétt eftir birtingu í morgun þegar að allt í einu varð alt krökt af Svartfugl og hafði hann greinilega sest upp í Bjarnareynni þá um nóttina , og þar með er vorið komið þó tíðin sé lítið spennandi um þetta leitið.
Svo til ykkar allra, gleðilegt vor.
25.2.2008 | 22:23
Er Hafró trúverðug?
Fyrir mitt leyti, þá langar mig að reyna að svara spurningunni sem ég set sem fyrirsögn hér, enda standa öll spjót á Hafró núna vegna ákvörðunar þeirra um að stoppa loðnuveiðar.
Fyrir nokkrum árum síðan fóru sjómenn að kvarta mikinn yfir mikilli ýsugengd á miðunum. Margir höfðu samband við Hafró, sem sagðist ekki sjá ástæðu til að auka kvótann í þeirri tegund (ef ég man rétt, þá var ýsukvótinn einhverstaðar nálægt 40 þús tonnum, í dag er hann 105 þús. tonn) þetta endaði með því, að þáverandi sjávarútvegsráðherra tók fram fyrir hendurnar á Hafró og bætti við kvótann og viti menn, þá var eins og Hafró rumskaði af værum blundi, og næstu 3-4 ár á eftir juku þeir ýsukvótann á hverju ári.
Og hver man ekki eftir því, þegar Hafró týndi 600 þús. tonnum af þorski? Og hver man ekki eftir því, þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra jók aflaheimildir í þorski um 30 þús. tonn, án þess að Hafró segði nokkuð. Og hvernig var svo með kvótasetningu á keilu og löngu, sem meðal annars gerði það að verkum, að við eyjamenn máttum horfa á eftir mörgum skipum fara héðan og fjölda fólks missa vinnuna. Sjálfur hafði ég samband við Hafró vegna kvótasetningar og svo niðurskurðar ári síðar á keilu, þar sem ég óskaði eftir nánari útskýringum á hvaða rannsóknir lægju til grundvallar niðurskurðar á þeirri tegund. Svarið var alveg skýrt, menn fóru einfaldlega eftir veiðidagbókum hjá stórum línuveiðiskipum, fengu það út að keiluafli á hverja línuveiðieiningu hefði minkað og skáru niður samkvæmt því og ekkert var rannsakað. Svo lifa þessar tegundir, keila og langa, góðu lífi á helstu hrygningarstöðum þorsksins í kringum eyjar og hrygna svo, þegar þær hafa fitað sig vel á hrognum góðfiska.
S.l. vor var sennilega besta þorskveiðiár hjá okkur hér í eyjum í fjölmörg ár og það er engin furða, þó að mönnum hafi blöskrað þessi gríðarlegi niðurskurður í þorskveiði heimildum. Það sem mér þótti hinsvegar merkilegt eru útskýringar Hafró á þessum miklu þorskveiðum s.l. vor, sem gengu fyrst og fremst út á það, að vegna þess, hversu svangur þorskurinn væri, þá væri hann svo veiðanlegur. Ekki skal ég dæma um það, en það hefur hinsvegar vakið mikla athygli mína hversu ákveðnir starfsmenn Hafró eru í að stöðva loðnuveiðar á þessari vertíð, svo maður veltir því fyrir sér, hvort að Hafró sé kannski að vakna upp við þá staðreynd, sem að margir smábátasjómenn hafa bent á mörg undanfarin ár, að menn hafi hingað til verið að taka allt of mikið æti úr sjónum. Verði hinsvegar jafn mikið af þorski í vor eins og s.l. vor, þá er ljóst að enn einu sinni er Hafró að gera mistök.
Varðandi loðnuveiðar núna, þá finnst mér það ekki verjandi að sama dag og loðnuveiðar eru stöðvaðar, þá séu rannsóknarskipin send í helgarfrí. Það er alveg ljóst, bæði hér í eyjum og víða annarsstaðar á landinu, hefur verið fjárfest fyrir marga milljarða í bæði skipum og verksmiðjum, einnig hefur verið lögð mikil vinna í að skapa markaði erlendis fyrir loðnuna og maður talar nú ekki um allt það fjölmarga fólk, sem tekur lungann af sínum árstekjum á loðnuvertíð og ef við tökum mið af síðustu loðnuvertíð, þar sem loðnan var gengin fyrir Reykjanesið um þetta leytið á síðustu vertíð og auk þess fannst ný Vestfjarða ganga 15. mars á síðasta ári, sem varð til að loðnukvótinn var aukinn þá, þrátt fyrir að mörg skip væru þá þegar búin að snúa sér að öðrum veiðum. Sé þetta allt lagt saman, þá sé ég ekki eina einustu ástæðu fyrir Hafró að stöðva loðnuveiðar eins og nú hefur verið gert, en vonandi hefjast veiðar aftur í vikunni.
Ég byrjaði þessi skrif með einni spurningu og svar mitt er:"Nei, þetta eru ekki trúverðug vinnubrögð"
Meira seinna.
25.2.2008 | 21:49
Bakkafjara
Það er svolítið síðan ég skrifaði um Bakkafjöru og samgöngumál okkar , skoðanakönnun sem hefur verið í gangi á Eyjar.net en er nú lokið þykir mér nokkuð merkileg fyrst og fremst fyrir það, að hún sýnir nákvæmlega sömu niðurstöðu og skoðanakönnun sem ég var með s.l. haust, þ.e.a.s. ca. 55 % eyjamanna eru á móti Bakkafjöru, en því miður höfum við víst ekkert um málið að segja.
Ég tók eftir því, í nýlegu viðtali við bæjarstjóra okkar, að hann er hættur að tala um að Bakkafjara verði tilbúin 2009 og farinn að tala um Bakkafjöru 2010, sem, eins og við vitum flest öll, að mun að öllum líkindum heldur ekki standast, allavega ekki hvað varðar að ný ferja verði komin þá.
Eitt enn um samgöngumál okkar vakti athygli mína, það er viðtal við Ívar, skipstjórann á Herjólfi, þar sem hann fullyrðir, að ef Herjólfur væri stærri heldur en hann er í dag, þá hefðu frátafir vegna innsiglingarinnar í Þorlákshöfn sennilega verið fleiri en með núverandi skipi. Mjög undarleg skoðun þarna, finnst mér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2008 | 20:20
Hann lifir
Það er að segja ég , þetta er prufa í nýju húsi ,
og með nýtt lyklaborð . Það er mikið að gerast bæði til sjávar og sveita og mun ég að öllum líkindum skrifa um það seinna . Meira seinna .
15.2.2008 | 07:05
Þorrablót hjá FF í kvöld

11.2.2008 | 21:59