10.2.2008 | 21:23
Við ætlum að vera áfram í eyjum
Seldum þetta hús, Vestmannabraut 62 (Skaftafell, 120 fm) á fimmtudaginn.
Keyptum þetta, Kirkjuveg 57 (Staðarhóll, 210 fm, þar af 45 fm bílskúr) á föstudag, svo framundan eru flutningar, þrátt fyrir að við höfum fært okkur aðeins innan við kílómeter.
6.2.2008 | 12:23
Gleðilegt vor...........eða þannig
Það er kannski ekki mjög vorlegt úti þessa dagana, en mér finnst alltaf vorið byrja í febrúar, þegar svartfuglinn kemur á sjóinn við eyjar, og á mánudaginn s.l. var hópur af svartfugli sunnan við Bjarnareyna.
Síðastliðin vika er sennilega stærsta vika hjá mér á sjónum í allan vetur, enda róið 4 sinnum frá s.l. miðvikudag. Samtals með 47 bjóð og fiskaði liðlega 8 tonn, mest ýsu. Nú er hinsvegar spáin framundan mjög slæm, en það er í sjálfu sér ágætt, því nóg er að gera niðri í beituskúr.
Rétt í þessu var sólin að gægjast upp, en fyrir þá sem langar að sjá skemmtilega og litríka mynd af sólsetrinu, bendi ég á bloggsíðuna www.tildators.blog.is.
Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli mína á sjónum síðustu daga var, hversu illa haldinn allur fugl virðist vera, t.d. varð ég var við það að bæði svartfugl og æðarkollur voru að kafa undir bátinn til þess að ná sér í afbeitu. Og til að kóróna það, kom hópur af súlu að bátnum hjá mér s.l. mánudag þar sem ég var að draga línuna og byrjaði að steypa sér í sjóinn til að reyna að stela fiski af línunni og meira að segja, var súlan farin að stinga sér eftir afbeitu líka, svo eitthvað vantar nú af fæðu í sjóinn, og kannski er samræmi þarna við það, að enn hefur engin loðna fundist. Meira seinna.
5.2.2008 | 18:17
Dapurlegar fréttir
Krókaaflamarksbátum fækkar um fimmtung
Fyrir nokkru var greint frá því hér á heimasíðunni að þorskafli krókaflamarksbáta hefði dregist saman um þriðjung á fyrsta þriðjungi fiskveiðiársins miðað við sama tíma í fyrra.
Nú liggja fyrir tölur um fjölda krókaaflamarksbáta sem lönduðu afla á þessum sömu tímabilum. Greinilegt er að þorskskerðingin bítur fast í útgerðir fjölda báta því aðeins 330 bátar stunduðu veiðar á mánuðunum september til og með desember 2007 en voru 410 á sama tíma 2006.
Unnið upp úr upplýsingum frá Fiskistofu
2.2.2008 | 17:15
Traustar og öruggar samgöngur
Brjálað veður hefur verið í Færeyjum að undanförnu, þetta þekkjum við eyjamenn vel enda margt sambærilegt með Vestmannaeyjum og Færeyjum.
Meðal annars sukku eða skemmdust ca. 15 smábátar.
Sjáum möstrin á bátunum standa uppúr
og bátar sem hreinlega fuku, m.a. leituðu vars í Færeyjum nokkur uppsjávarskip frá Íslandi, en gátu ekki landað vegna veðurofsans.
Það sem hinsvegar vekur mesta athygli mína er, að þrátt fyrir að sumar landfestingar á Smyrli hafi slitnað, þá fór hann samt samkv. áætlun. Það væri nú munur, ef við eyjamenn hefðum svona traustar og öruggar samgöngur. Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2008 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.1.2008 | 20:20
Vikulok í eyjum
Fór á sjó síðastliðna nótt upp úr kl. 1 eftir miðnætti. Vindur var hægur, en snjókoman það þétt, að ég varð að treysta algjörlega á plotterinn. Frekar leiðinlegt var í sjóinn, en þegar tíðin er búin að vera svona erfið verður maður að nota öll tækifæri. Ég var með 14 bala og lagði þá alla við Bjarnareinna. Fiskiríið var ágætt, eða 2,4 tonn og var ég kominn heim um hálf fjögur eftir hádegi.
Það er mjög ánægjulegt að sjá að eyjamenn séu aftur að taka við sjúkrafluginu fyrir eyjamenn og vonandi batnar þjónustan við það.
Ég sé að það er verið að kvarta yfir því á eyjavefjunum, að það taki viku að fá tíma hjá lækni hér á sjúkrahúsinu (ég hef reyndar lent í því að bíða í tvær vikur), svo vonandi verður sú staðreynd þegar þar að kemur, að það taki aðeins ca. 1-1 1/2 klukkutíma að komast á annað sjúkrahús, þegar Bakkaferjan verði komin í gagnið, ekki til þess að þjónusta heilsugæslunnar verði skert hér í eyjum.
Smá kvörtun frá mér. Ég fór með vinnubílinn í skoðun um mánaðamótin nóv./des. á síðasta ári, fékk þar athugasemd sem ég var búinn að kippa í liðinn þremur dögum seinna, hringdi svo strax í Frumherja til að panta tíma í endurskoðun, en var þá sagt að ekki yrði skoðað frekar í des. og það var ekki fyrr en um miðjan jan. á þessu ári, sem ég fékk að vita að næsta bifreiðaskoðun, yrði í eyjum á tímabilinu 18.-25. feb. Frekar léleg þjónusta og mikill munur frá því sem áður var.
Ég hitti í vikunni tilvonandi (hugsanlega) nýjustu leikmenn ÍBV í fótbolta, sem komnir eru alla leið frá Brasilíu, mér leist ágætlega á strákana, en veit lítið um knattspyrnu getuna hjá þeim. Ég lenti hinsvegar á spjalli við mann, sem á strák sem er að ganga á þessu ári upp úr öðrum flokki í meistara flokk og var sá ekki mjög hrifinn af þessum nýju leikmönnum okkar. Ég get að vissu leiti tekið undir þetta hjá honum og ég velti því fyrir mér, hvort það geti virkilega verið að í ÍBV verði í sumar jafnvel 7-8 erlendir leikmenn. Ef svo fer, þá lýst mér frekar illa á það, enda ekki góð skilaboð sem við erum að senda strákunum okkar héðan úr eyjum og svo spyr ég, hvernig verður þetta þá ef liðið okkar kemst upp í úrvalsdeild í haust? Verða þá keyptir enn fleiri leikmenn fyrir þar næsta leikár? Ég veit að þetta er mjög umdeilt hér í eyjum og geri mér vel grein fyrir því, að það geti verið erfitt að fá fólk til að vinna í sjálfboða vinnu fyrir flokka sem eru kannski ekki nógu sterkir til þess að vera að berjast um titla, en þannig hefði ég samt viljað hafa þetta, til þess að geta gefið krökkunum okkar fleiri tækifæri til að blómstra. Og þar að auki, er það ekki rétt að skuldir ÍBV hafi sjaldan eða aldrei verið meiri? Meira seinna.
29.1.2008 | 16:58
Eyjamönnum fjölgar á Alþingi
Mig langar að óska vinkonu minni, Hönnu Birnu Jóhannsdóttir innilega til hamingju með að vera komin á þing í fjarveru þingmanns okkar í FF, Grétars Mars Jónssonar.
Hanna mín, innilega til hamingju, ég veit þú verður okkur öllum til sóma.
29.1.2008 | 15:11
Bakkafjara. Ég sendi inn eina spurningu (árið gert upp)
Að gefnu tilefni ein spurning frá mér: Er það ekki rétt skilið hjá mér að samkv. mælingum ykkar í Bakkafjöru, verði skipið að vera lágmark 67 m. að lengd, en samkv. bæklingi sem samgönguráðherra dreifði hér í eyjum um síðustu helgi er gert ráð fyrir því að skipið verði aðeins 62 m. ?
Gaman væri að fá svar við þessu.
Takk fyrir fyrirspurnina.
Við könnumst ekki við að öldumælingar í Bakkafjöru gefi upp að lámarks lengd skips eigi að vera 67 metrar. Lengd skips, sem líklega gefur minnstu hreyfingu miðað við algengustu öldu á rifinu, er talin vera 50-60 m eða þá tvöfalt lengra skip þ.e. 120 metrar og lengra. Hreyfing skips er hins vegar háð mörgum þáttum, eins og til dæmis lögun skipsins, kenniöldu, öldulengd, siglingahraða o.s.frv. Gert er ráð fyrir að ferjan verði milli 60 til 70 metrar að lengd og að skipið verði prófað í líkanstöð en þar verða mismunandi öldur keyrðar og hreyfingar skipsins mældar. Það getur verið að slíkar mælingar muni hafa áhrif á ákvörðun um lengd skips.
Til viðbótar við þetta, hefur mér verið sagt að landeyjarhöfn eigi að vera það lítil og þröng, að þar geti í mesta lagi 70 m skip snúið.
Í tilefni af því að það er ár síðan ég byrjaði að blogga og fylgjast sérstaklega með Bakkafjöru-duflinu, þá er mín niðurstaða þessi:
Þegar veðurfar er svona erfitt eins og síðastliðið ár hefur sýnt okkur, þá er nokkuð ljóst að frátafir geta orðið allt að tveir mánuðir á ári, en sem betur fer, marga dagana aðeins hluta úr degi. Ég er mjög ánægður með það, að mér sýnist að flestir eyjamenn séu farnir að gera sér grein fyrir því, að þó að styttri sigling sé mjög freistandi, þá sé það alveg ljóst að frátafir verði mun fleiri heldur en með núverandi Herjólfi, en vonandi munu fleiri ferðir gera það að verkum að áhrifin verði ekki eins slæm og sumir halda.
Ég hef verið spurður að því að undanförnu, hvers vegna ég sé hættur að skrifa: Bakkafjara, ófært, þegar það er ófært samkv. dufli. Mér finnst bara eitt ár í umfjöllun um þetta atriði, þó mikilvægt sé, orðið nóg frá minni hendi, enda er ég (þrátt fyrir að sumir haldi það) enginn sérstakur andstæðingur Bakkafjöru, en ég ítreka þó mína skoðun á því, að ef ég hefði haft eitthvað um málið að segja, þá hefði ég orðað það eins og ég hef svo oft gert áður, ég hefði viljað fara af stað strax vorið 2006 að finna stærra og gangmeiri Herjólf á núverandi siglingaleið, gefa þannig þeim sem hafa verið að rannsaka Bakkafjöru lengri tíma og einnig nota tímann til að klára rannsóknir varðandi göng.
Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem skrifað hafa athugasemdir við umfjöllun mína um Bakkafjöru síðastliðið ár, ég tel mig hafa reynt að gera mitt besta til að svara öllum eftir bestu getu, en ítreka þá ósk mína að vonandi verði skrif mín fyrst og fremst til þess að skapa raunsæa og opna umræðu um samgöngumál okkar, og að betur verði vandað til verksins.
Takk fyrir mig.
27.1.2008 | 12:23
Bakkafjara og samgöngur eyjamanna
Það er 5,9 m. ölduhæð í Bakkafjöru núna, það er búið að aflýsa báðum ferðum Herjólfs í dag og það er ekkert flug í dag, svo enn á ný eru eyjamenn einangraðir á eyju úti í ballarhafi. Þetta er nákvæmlega það, sem ég er að tala um þegar ég segi:"Við þurfum stærri og gangmeiri Herjólf" (sambærilegan og Smyril, en hann er 115 m. og gengur 21 mílu þegar best er) þannig og aðeins þannig tel ég að hægt sé að tryggja öruggar og traustar samgöngur alla daga ársins.
Ég sendi um daginn eina spurningu varðandi Bakkafjöru Herjólf til Siglingamálastofnunnar og er svar komið. Svarið er hinsvegar svo skrýtið að ég þarf að hringja í næstu viku og fá nánari útskýringar á hvað þetta svar þýðir. En ef eitthvað er hægt að lesa út úr þessu, að í raun og veru liggi engar mælingar fyrir um, hvaða stærð á skipi henti best á þessari siglingaleið og í þessa höfn. En ég mun birta hér á blogginu mínu þau svör sem ég fæ, sem og spurninguna sem ég sendi inn og svarið við henni.
Meira seinna.
27.1.2008 | 12:13
Frjálslyndi flokkurinn og Margrét Sverrisdóttir
Um þessa helgi er liðið ár frá síðasta landsfundi FF, sem var um leið fyrsti landsfundurinn sem ég mæti á. Fundurinn var merkilegur fyrir fyrst og fremst þau miklu átök sem urðu varðandi kosningu á varaformanni flokksins og afleiðingum af þeirri kosningu. Í framboði voru Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson. Svona til gamans, mitt sjónarmið og atkvæði.
Fyrirfram leist mér ágætlega á þau bæði, en þekkti þau kannski ekki nógu vel til þess að geta metið hvort þeirra væri hæfari í starfið. Magnús Þór var þó þingmaður okkar sunnlendinga á þeim tíma og var mikil ánægja með störf hans í okkar kjördæmi. Margrét hinsvegar, hafði verið allt í öllu í flokknum og einnig átt sterka innkomu í borgarstjórnarkosningunum 2006, svo fyrirfram hafði ég ákveðið að gefa þeim báðum jafnt tækifæri á að sannfæra mig um, hvort þeirra væri hæfari sem næsti varaformaður FF. Bæði voru þau með hálfgerða framboðsræðu á fundinum, áður enn kosið var.
Magnús Þór fór fyrstur upp og talaði um sín störf fyrir flokkinn og hvernig hann hugðist starfa áfram, fengi hann kosningu og hvernig hann sæi fyrir sér framtíð flokksins í Íslenskum stjórnmálum og fékk mikið lof fyrir.
Margrét Sverrisdóttir hinsvegar, réðst með miklu offorsi á suma félaga okkar í FF og lét í það skína, að fengi hún kosningu þá yrði það sennilega eitt af hennar fyrstu verkum að hreinlega beita sér til þess að nýir félagar okkar úr Nýju afli, sem höfðu gengið í FF yrðu hreinlega reknir úr flokknum eða að minnsta kosti gerðir áhrifalausir. Ekki fékk málflutningur hennar góðar undirtektir og ég heyrði á fólki í kringum mig, sem hafði eins og ég verið í pínulitlum vafa, með hvort þeirra þau ættu að kjósa að svona manneskju með svona málflutning gæti það hreinlega ekki kosið. Þessu var ég sammála og kaus því Magnús Þór.
Í mánuðum fyrir þennan landsfund, hafði það að sjálfsögðu kvisast út að Margrét hefði hug á því að fara í kosningaslag við Magnús Þór og þótti mörgum það slæmt, svona rétt fyrir kosningar og reyndu margir, m.a. ég að telja henni hughvarf vegna þess. Það var hinsvegar strax ljóst að málefnin, flokkurinn og allt fólkið í flokknum voru orðin aukaatriði hjá Margréti og ljóst að hún hefði aðeins áhuga á einu, og er kannski einfaldast að orða það þannig í einni setningu:"Ég, um mig, frá mér, til mín." Hún hafði einnig lofað fullt af fólki í FF að hún myndi ekki hlaupast undan merkjum og svíkja flokkinn, en við vitum öll hvernig það fór.
Það má segja sem svo að svipað sé nú að gerast í Borgarstjórnarmálunum, þar sem mér sýnist Ólafur vilja gera allt til að ná málefnunum í gegn, á meðan Margrét horfi fyrst og fremst á sína eigin pólitísku hagsmuni.
Meira seinna .
23.1.2008 | 11:44
Eyjar eftir gos
Í dag eru 35 ár frá því að eldgosið í Heimaey byrjaði. Ég man vel eftir þessari nóttu. Ég var átta ára (á níunda ári) og í minningunni sé ég fyrir mér eldrauðan himininn yfir eyjunni og mikinn hávaða. Ég man eftir því þegar móðir mín, Margrét Júlíusdóttir, dró mig og tvö yngri systkini mín niður að bryggju til að fara í fiskibáti til Þorlákshafnar. Mikill fjöldi var við höfnina, en í minningunni voru flest allir eyjamenn rólegir og yfirvegaðir, þrátt fyrir að menn höfðu áhyggjur af því að höfnin kynni að lokast, áður en flotinn kæmist úr höfn (segi kannski meira frá þessu seinna).
Ég var að hlusta á Bylgjuna í morgun og var þar fjallað lítillega um eldgosið og sagt frá því að eyjamenn hefðu verið liðlega 5000 um gos, en aldrei náð þeirri tölu aftur. Þetta er að vissu leyti rétt, en í mínum huga ekki, því að á árunum 1980 og fram yfir 1990 var skráður íbúafjöldi hér frá tæplega 4700 og upp í 4923 þegar mest var, en á þessum árum var líka það sem áður var kallað vertíð í eyjum og ekki ólíklegt að miðað við allan þann fjölda aðkomufólks sem komu hingað á vertíð á árum áður, hafi slagað í að vera nær 6000 heldur en 5000. Þetta hefur hins vegar breyst mjög mikið, vegna kvótakerfisins og þá sérstaklega eftir að framsalið hófst. Í dag búa í Vestmannaeyjum liðlega 4050 manns, en stóri munurinn er sá, að nú kemur enginn á vertíð í eyjum.
Ég sá í viðtali við bæjarstjóra okkar, að hann lýsti yfir ánægju sinni yfir því að aðeins hafi fækkað um 36 skráða í eyjum á síðasta ári. Við sem störfum hinsvegar í sjávarútvegi hér í eyjum, vitum það hins vegar, að nú þegar hafa margar fiskvinnslur gripið til þess ráðs að flytja inn erlent vinnuafl til þess að reyna að fylla upp í þau störf í sjávarútvegi, sem heimamenn fást ekki lengur í. Ástæðan fyrir því er í raun og veru augljós; skilaboðin frá ríkisstjórninni eru alveg skýr, það mun fækka störfum í sjávarútvegi og það á að fækka störfum í sjávarútvegi. Ég hins vegar tek það fram að ég tek að sjálfsögðu hinum nýju eyjamönnum fagnandi.
Ég var að lesa í síðustu viku viðtal við Kristinn H. Gunnarsson, þingmann FF, þar sem hann lýsti breytingunum sem urðu í Bolungarvík með núverandi kvótakerfi. Lýsingin var einhvern veginn þannig, að áður en núverandi kvótakerfi byrjaði, bjuggu um 1300 manns í Bolungarvík. Á síðasta ári bjuggu þar (eftir því sem segir í viðtalinu) ca. 800 manns og þar af ca. 300 manns sem eru af erlendum uppruna og starfa fyrst og fremst í sjávarútvegi. Vonandi hafði ég þetta alveg rétt eftir.
Á fundi sem ég sat með fulltrúum meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja, kom fram m.a. að meirihlutinn hefði tekið þá ákvörðun að reyna að rífa bæjarfélagið upp með því að horfa fyrst og fremst jákvæðum augum og með bjartsýni á framtíð eyjanna út á við. Þetta er svo sem ágætis mál og í raun og veru má segja sem svo að margt jákvætt er í ákveðnum farvegi til að fjölga atvinnu tækifærum í eyjum, t.d. er ennþá verið að skoða möguleika á stórskipahöfn, endurnýjun uppitöku tækja Skipalyftunnar (sko xF virkar) og ýmislegt fleira.
En það er líka til önnur framtíð hér og kannski ekki alveg eins jákvæð og björt. T.d. kom til mín maður í gær og sagði mér frá því að samkvæmt hans heimildum, væri fjöldi eyjamanna alvarlega að hugsa um að flytja héðan, einnig fékk ég þær fréttir að einn af fáum eyja bloggvinum mínum hefði nýlega misst vinnuna og hefur tekið þá ákvörðun að flytja í bæinn með sig og sína fjölskyldu, einnig lenti ég á spjalli við sjómann hér nýlega sem var að reyna að selja mér húsið sitt til þess að flytja upp á land, þrátt fyrir að hann væri í mjög góðu plássi og með ágætis tekjur hér í eyjum, og gaf hann mér þá ástæðu að hann, eins og svo margir sjómenn, hefði alveg skilið skilaboðin frá ríkisstjórninni og vildi tryggja sig og sína fjölskyldu með því að flytja upp á land, þar sem fleiri atvinnu tæki eru, ef þetta skyldi versna hér. Og til að kóróna þetta, þá frétti ég af því í síðustu viku, að Guðjón Rögnvaldsson, sem lagði bát sínum, Guðrúnu VE, í haust (þar misstu 14 vinnuna) hefur tekið þá ákvörðun að hætta vinnslu sínni í Eyjaberg og hefur nú þegar sagt upp öllum starfsmönnum sínum þar (á síðustu vertíð unnu þar 30 manns), svo ekki er nú alveg bjart yfir því. Það sem er kannski furðulegast við þetta allt saman, er sú ákvörðun hjá mér og minni fjölskyldu að þegar við loksins losnuðum við gamla, þreytta húsið okkar, þá tókum við þá ákvörðun að kaupa bæði helmingi stærra hús og liðlega helmingi dýrara, en það er nú svo, hér viljum við lifa og starfa áfram, en spurningin er sú hvort ekki væri bara betra fyrir okkur öll, ef bæjarstjórnin okkar færi að horfa svolítið raunsætt á það sem er að gerast í kringum okkur, í staðin fyrir að virðast lifa í einhvers konar draumaheimi.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)