19.1.2008 | 11:46
Sumar vikur eru merkilegri en aðrar
Í síðustu viku fór ég tvisvar á sjó og fiskaði tæp 4 tonn á 30 bjóð.
Fimmtudagurinn 10. var ansi stór dagur hjá mér. Það byrjaði strax um morguninn með því að ég fékk já við gagntilboði sem ég hafði gert vegna sölu á húsinu okkar, en með þeim skilyrðum að við værum búin að losa húsið fyrir 1. mars. Þremur tímum seinna vorum við búin að skoða 2 hús sem við vorum að spá í, tveimur tímum sinna sat ég á fundi með þingmönnum FF og fulltrúum meirihlutans í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Þar fór Grétar Mar á kostum eins og vanalega og máttu þeir bæjarstjórnar menn sín lítils í rökræðum við hann (aðeins var minnst á Bakkafjöru). Fundurinn var að öðru leiti góður og málefnalegur. Eftir fundinn var boðið í mat með þingmönnum okkar á Fjólunni. Kl. 20 hófst síðan opinn fundur hjá FF, ágætis mæting var, eða ca. 30 manns. Fimm mínútum áður en fundurinn hófst frétti ég það að ég væri orðinn fundarstjóri og þurfti að byrja fundinn með þessari skemmtilegu spurningu:"Hver á annars að tala fyrst?" Þau sem töluðu voru, Grétar Mar, síðan Ásgerður Jóna, Guðjón Arnar og loks Kristinn H. Öll áttu þau frábæra framsögu og er okkur eyjamönnum mikill heiður í því að fá þessa forystusveit FF í heimsókn. Eftir fundinn þurfti ég að rjúka heim, náði að leggja mig í ca. tvo tíma áður en ég fór á sjóinn.
Á sunnudaginn fór ég á fund í Höllinni, þar sem m.a. samgönguráðherra upplýsti okkur um framtíðarstefnu sína í samgöngumálum okkar eyjamanna og hef ég nú þegar skrifað um þann fund hér á bloggsíðunni minni og sent inn eina spurningu til siglingamálastofnunar.
Á laugardeginum fórum við síðan og skoðuðum þau tvö hús sem við vorum mest spennt fyrir, hugsuðum svo málið fram á mánudag og gerðum svo tilboð í annað þeirra og eftir aðeins klukkutíma umhugsunarfrest fengum við já, svo fram undan eru flutningar og mikið að gerast.
Af þeim landsmálum sem vöktu mesta athygli mína það sem af er þessu ári, þá er það t.d. umdeild ákvörðun heilbrigðisráðherra um að fella niður komugjöld fyrir börn á heilsugæslu en hækka verulega gjaldið á aldraða og öryrkja. Auðvitað þiggjum við þetta, við sem erum barnafólk, en mér finnst þetta persónulega rangt, því flest okkar sem eigum börn erum yfirleitt útivinnandi og á besta aldri á meðan öryrkjar og aldraðir eru nánast undantekningalaust á strípuðum bótunum og þurfa oftar að nota þessa þjónustu.
Dómur mannréttindastofnunnar í kvótamálinu vakti líka athygli mína, ég hinsvegar get ekki metið hversu mikil áhrif hann hefur í raun og veru en tel alveg ljóst, að nú sitji hópur lögfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar í að reyna að túlka dóminn sér í hag.
Árni Mathiesen er enn og aftur kominn á milli tannanna á fólki og nú vegna umdeildra ráðninga. Ekki ætla ég að tjá mig um það, ég hef hinsvegar fylgst mjög náið með Árna sl. áratug og hef þess vegna frekar lítið álit á manninum (sérstaklega meðan hann var sjávarútvegsráðherra). Það sem vekur hinsvegar mesta athygli mína, er að Árni Mathiesen er nánast horfinn í skuggann af núverandi sjávarútvegsráðherra Einars Kristins, vegna ótrúlegra heimskulegra vinnubragða hanns síðustu vikur og mánuði.
Meira seinna.
15.1.2008 | 15:38
Fundur með samgönguráðherra
Nokkur atriði sem komu fram á fundinum.
Samgönguráðherra upplýsti okkur um m.a. að samkvæmt áætlun á að setja 110 milljarða í samgöngumál á öllu landinu og þar af er heildarkostnaður áætlaður vegna Bakkafjöru 5,6 milljarðar. Varðandi þetta atriði, þá var það tekið fram af öðrum þingmönnum á fundinum og einnig á fundi sem ég sat með meirihlutanum í bæjarstjórn Vestmannaeyja s.l. fimmtudag, að almennt gerðu menn sér grein fyrir því að að öllum líkindum muni þetta kosta töluvert meira og telja menn sig hafa vilyrði fyrir frekari fjármagni í þetta og að málið verði einfaldlega klárað.
Fleiri atriði komu fram hjá ráðherra. Varðandi göng, þá yrðu þau aldrei ódýrari en 55 milljarðar og gætu kostað allt að 82 milljörðum.
Varðandi Bakkafjöru, þá er stefnt að því að siglingar hefjist sumarið 2010, skipið verði 62 m. langt og 15 m. breitt, búið tveimur vélum og ganghraðinn verði lágmark 15 sjómílur. Ferjan taki 250-300 manns og 50 fólksbíla (gert er ráð fyrir 100 svokölluðum flugvélarsætum). Gert er ráð fyrir 1900 ferðum á ári, eða 5 ferðum á dag að jafnaði, eftir árstíðum.
Verðskrá. Reiknað er með því að það muni kosta 1000 kr. fyrir bíl, 500 kr. fyrir fullorðna og 250 fyrir öryrkja. Ekki kom fram hvað komi til með að kosta með rútu frá Bakka í bæinn, en einungis er gert ráð fyrir 2-3 ferðum á dag.
Útboð vegna smíði á ferjunni fari fram í apríl á þessu ári.
Ágætis umræður áttu sér stað á fundinum eftir að þingmenn höfðu lokið sínum ræðum. Kom þar m.a. fram í svari ráðherra að hann treysti sérfræðingum siglingamálastofnunar og varðandi göng, að best væri að slá þau af í bili til þess að þurfa ekki að bíða lengur með að hefjast handa.
Björgvin G. var minntur á kosningaloforð um að rannsóknir varðandi göng yrðu kláraðar og svaraði hann því til, að þó að þær yrðu ekki kláraðar núna, þá yrðu þær kláraðar seinna.
Einnig var spurt um einhverjar aðgerðir strax og var svarið við því: Ekkert.
Einnig var spurt um skipalyftu og stórskipahöfn, var því svarað til að varðandi Skipalyftuna, þá væri vandamálið (ef ég skildi það rétt) tengt ESB, en að öðru leiti væri það mál í farvegi.
Páll Scheving spurði um frátafir og var með töflu siglingamálastofnunnar fyrir síðasta ár og kom þar fram að á 33 dögum hefðu orðið einhverjar frátafir og þar af 8 heilir dagar, en að sjálfsögðu miðast þetta bara við duflið og inni í þessum tölum er ekki ófærðir vegna venjulegrar brælu og ófærðar. Almennt heyrðist mér menn vera sammála um það sem ég hef lengi haldið fram, að frátafir verði mun fleiri með Bakkafjöru en Herjólfi, en menn gera sér vonir um það að með því að ferðirnar verði þetta margar og siglingaleiðin þetta stutt, þá nái menn að vinna þetta upp með fleiri ferðum. Ég er sammála þessu og vona það svo sannarlega að þetta gangi eftir.
Einnig var spurt um lagfæringar og viðhald á núverandi Herjólfi og var eitthvað lítið um svör við því.
Einnig kom fram að NMT-kerfið yrði lagt niður um næstu áramót, þannig að þá þurfa allir trillu og jeppakarlar að fjárfesta í nýjum símum.
Samgönguráðherra, Kristján Möller kom vel fyrir á fundinum, svaraði þeim fyrirspurnum sem hann fékk og sló um sig með bröndurum þess á milli og þótt að margir væru honum ósammála og ég hafi sjálfur ýmsar efasemdir um þessa Bakkafjöru leið, þá þakka ég fyrir mig.
p/s Ég var skammaður í gær fyrir að bera ekki upp spurningar og þær athugasemdir sem ég hef varðandi þetta Bakkafjöru dæmi við ráðherra. Svar mitt við því er einfalt: Mér finnst einfaldlega bara mjög þægilegt og gott að geta farið yfir málið í ró og næði fyrir framan tölvuna og orðað þar mínar skoðanir og hugsanir, en fyrst og fremst vona ég það, að þeir fjölmörgu sem gera sér vonir um að líf okkar hér í eyjum batni með þessu, verði að veruleika.
Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.1.2008 | 23:21
Bakkafjara, málinu klúðrað áður en framkvæmdir hefjast
9.1.2008 | 15:20
Göng
Á morgun, fimmtudaginn 10. janúar verður haldinn fundur á vegum FF í Café Kró, þar sem þingmenn FF munu tala og svara fyrirspurnum og á sunnudaginn ætlar síðan samgönguráðherra að halda fund í Höllinni, þess vegna finnst mér alveg kjörið að skrifa um eitthvað sem ég hef aldrei skrifað um áður, þ.e.a.s. göng.
Ég held að flest allir eyjamenn séu sammála um það, að auðvitað væru göng besti kosturinn fyrir okkur. Vandamálið er, að göng eru líka dýrasti kosturinn, eða hvað? Ef litið er til lengri tíma, þá er ljóst að hvort sem hér verði Herjólfur áfram eða Bakkaferja, þá þarf reglulega að endurnýja skipið með tilheyrandi kostnaði og halda því við. Ef ég man rétt, þá voru útreikningar Ægisdyra manna þannig, að þeir reiknuðu með að aukning á bílaumferð til og frá eyjum yrði það mikið, að um 200 þús. bílar myndu fara þá leið árlega og með því að rukka gjald í göngin, 2500 kr á bíl, þannig fengist 1 milljarður á hverju ári, fyrir utan það framlag sem við erum að fá á hverju ári frá ríkinu vegna Herjólfs, þannig að miðað við göng, sem myndu kosta 30-40 milljarða þá væri hægt að borga þau upp á 30 árum.
Ég velti því hinsvegar fyrir mér, hvað ég væri tilbúinn að borga fyrir að geta komist milli lands og eyja hvenær sem er sólarhringsins, allan ársins hring og ég verð að viðurkenna alveg eins og er, að ég væri þess vegna tilbúinn að borga 5000 kr. fyrir bílinn, að því gefnu að ekkert þurfi að greiða fyrir farþegana. Miðað við 30-40 milljarða göng, þá er ljóst að með því að borga 5000 kr fyrir bílinn, tæki helmingi styttri tíma að borga göngin.
En er þetta svona einfalt? Ég átti ágætt samtal á síðasta ári við Árna Johnsen, þar sem hann útskýrði sínar hugmyndir um göng, sem ganga fyrst og fremst út á það að gera sambærileg göng og eru víða í Færeyjum, þ.e.a.s. göng sem eru einfaldlega boruð og malbikuð og nánast lítið annað gert. Ég bað nýlega kunningja minn og jarðeðlisfræðing um að útskýra fyrir mér á einfaldan og skýran hátt muninn á jarðlögum í eyjum og Færeyjum. Útskýringarnar voru mjög einfaldar og skýrar. Ef við gefum okkur það, að jarðlögin í Vestmannaeyjum séu ca. nokkur hundruð þúsund ára gömul, þá eru jarðlögin í Færeyjum 50 milljón ára gömul, svo það gefur auga leið, að þarna er talsverður munur, fyrir utan það að sjálfsögðu, að í eyjum búum við, við reglulegar jarðhræringar á meðan slíkt er algjörlega óþekkt í Færeyjum.
Þannig að mín skoðun er sú: Ef einhvern tímann verða gerð göng milli lands og eyja, verða þau sennilega að vera þríbreið, þ.e.a.s. með akrein í sitthvora áttina og einhverskonar neyðarafdrep eða neyðargöng, sem væru sérstaklega styrkt og þannig frágengið að fólk gæti annaðhvort gengið eða ekið út úr göngunum, ef eitthvað kæmi upp á. Þetta þýðir líka, að sennilega þyrfti að steypa göngin langleiðina og jafnvel setja styrkingar á veikustu köflunum. Þetta þýðir að sjálfsögðu, að mjög hæpið hlýtur að teljast að hægt sé að gera slík göng fyrir minna en 50-60 milljarða, en með því að rukka 5000 kr. á bíl þá væri samt hægt að borga göngin upp á ca. 30 árum. Þetta eru kannski ekki mjög nákvæmar útreikningar hjá mér, en þetta er, svona gróft séð, mín skoðun. Meira seinna.
8.1.2008 | 09:00
Binni í gröf
Mig langar að taka undir val þeirra á Fréttum um menn ársins í Vestmannaeyjum. Bjarni Sighvatsson, ásamt fleirum hefur unnið kraftaverk fyrir okkur öll í sambandi við endurnýjun og kaup á nýjum tækjum fyrir Sjúkrahús Vestmannaeyja og ber að þakka það.
Einnig er ég sammála því, að það sé mjög ánægjulegt að sjá alla þessa endurnýjun á fiskiskipaflotanum okkar, því eins og allir vita, þá er útgerðin lífæð okkar Vestmannaeyinga.
Á bloggsíðunni minni, rétt fyrir áramót, þá orðaði ég þessar breytingar á flotanum á annan hátt og langar að endurtaka það: Það er svolítið merkilegt að horfa upp á útgerðarmenn fara frá stórum togurum, sem þurfa að halda sig fyrir utan 12 mílurnar, í styttri togskip sem mega vera að veiðum upp að allt að 3 mílum og hef ég leyft mér að orða það þannig, að þarna séu útgerðarmenn að færa sig til, að hluta til, vegna breyttrar hegðunar fisksins í sjónum. Það undarlega við þetta allt saman, að þrátt fyrir þessar breytingar, þá er Hafró ennþá með sitt togararall, þar sem togað er á sömu stöðum og togað var fyrir 20 árum síðan og leggur þær niðurstöður fram sem grundvallar upplýsingar varðandi úthlutun og niðurskurð í aflaheimildum.
Eitt atriði langar mig líka að nefna, varðandi útgerð í eyjum. Það er alt í lagi að vera bjartsýn og jákvæð og að verðlauna þá sem eru að reyna að halda uppi hverskonar rekstri í eyjum. Það sem hinsvegar vakti athygli mína í haust, er sú annars ágæta nýbreytni (hefur reyndar alltaf tíðkast að einhverju leiti) að mæta bæði með mikið af blómum og prestinn til að fagna komu nýrra skipa til eyja, það sem vekur athygli mína í þessu er, að eins og flestir vita, þá er eitt það þekktasta og frægasta útgerðarnafn tengt eyjum, Binni í Gröf. Binni í Gröf er liðlega 11 tonna plastbátur, sem kom til Vestmannaeyja fyrir liðlega 4 árum síðan. Af honum komu myndir í bæjarblöðunum, á hann er hinsvegar ekki minnst núna, þegar hann í haust sigldi frá Vestmannaeyjum í síðasta skipti og með honum allar aflaheimildir sem á honum eru, án þess að nokkur útgerðarmaður í eyjum hefði áhuga á að kaupa hann, þrátt fyrir mikla viðleitni eigandans.
Ég verð að minnast á undarleg skrif hjá vini mínum Magnúsi Bragasyni inni á eyjar.net. Þar segir Magnús meðal annars: fór upp á klif á gamlársdag í frekar hvössum vindi og sá þá, að vegna nálægðar við eyjar, þá var skjól inni í Landeyjarsandi. Mig langar að óska Magnúsi vini mínum innilega til hamingju með sína sex mílna sjón, en benda honum á að á gamlársdag var um og yfir 5 metra ölduhæð í Bakkafjöru allan daginn, svo vonandi verður Magnús aldrei spurður að því, hvort að fært sé í Bakkafjöru. Meira seinna .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.1.2008 | 23:28
Núverandi og tilvonandi Herjólfur (ef ég fengi að ráða)
Þessi mynd kom fram í áramótaskaupi Tórshamranna (takið eftir, smá nafnabreyting)
En sambærilegan og þennan hefði ég viljað sjá sem næsta Herjólf.
Tekur liðlega 200 bíla
Getur flutt ca. 800-1000 manns.
4.1.2008 | 08:45
Enn eitt rokið
Þetta endar með því að trillukarlar verða að finna sér aðra vinnu. Í Bakkafjöru eru núna 5, 4 metrar og allgjörlega ófært, og ég velti því fyrir mér hvort að í svona erfiðu tíðarfari sé ekki komið það viðmið sem við ættum að nota sem viðmið um hvort Bakkafjara sé raunhæfur kostur eða ekki ?
Að mínu mati þarf Bakka ferjan að vera 70 til 80 metra skip , með 4 stöðugleika ugga sem hægt er að draga inn þegar farið er inn í Bakkahöfn , einnig er spurning hvort að hægt væri að útbúa skipið með fellikjöl og jafnvel auka vél til þess að fá meiri gang ef sigla þarf vegna ótíðar til Þorlákshafnar. Veltitankur þarf líka að vera á skipinu en svo er aftur spurning hvort að þetta sé allt saman ekki of dýrt fyrir þá sem eiga að eiga og reka skipið en það kemur þá bara í ljós.
Mín skoðun er hinsvegar óbreitt, 100 metra Herjólf sem getur gengið yfir 20 mílur. Meira seinna.
1.1.2008 | 16:02
Gleðilegt nýtt ár
Óska öllum ættingjum, vinum og bloggvinum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.
Að vanda fór ég með fjölskylduna í mat hjá mömmu og var troðið í sig þar til klukkan tvö í nótt, þá var farið heim með ungana og farið í áramótapartý hjá Möttu Eiríks, þar sem meðal annars var boðið upp á áramótaskaup Tórshamranna. M.a. kom fram þar ágætis mynd af nýjum Herjólfi og hafði hann fengið hið glæsilega nafn Blíða VE.
Ég var að kíkja á duflið í Bakkafjöru og eru 4,8 metrar þar, eða ófært, þannig að nú er hægt að segja, það var ófært síðustu dagana af gamla árinu, það er enn ófært á nýja árinu og miðað við veðurspá, þá er ekki ósennilegt að ófært verði alla fyrstu vikuna af nýja árinu, að minnsta kosti. Vonandi verður þetta viðmið ekki rétt, þegar á reynir.
Það neikvæðasta frá síðasta ári er að við eyjamenn fengum ekki bættar samgöngur á síðasta ári, fáum þær ekki á þessu ári, ekki frekar en því næsta. Það jákvæðasta sem ég tek frá síðasta ári er að vertíðin var mjög góð s.l. vetur (þess vegna skilur maður ekkert í þessum niðurskurði í þorskkvótum). Sumarið var mjög gott, lundaveiðin var góð, þrátt fyrir mikla svartsýni hjá úteyingum, pysjan skilaði sér ágætlega, þó oft hafi magnið verið meira. Bæði goslokahátíðin og Þjóðhátíðin voru frábærar að vanda. Og þótt að lítið sjáist til sólar í dag, þá sýnist mér að hún sé örlítið hærra á lofti en í síðustu viku.
Meira seinna.
30.12.2007 | 23:44
Bakkafjara og fleira og fleira
Soldið síðan ég skrifaði síðast, svo mig langar að byrja á því að óska öllum gleðilegra hátíða.
Mig langar að byrja á því að þakka Guðmundi Pedersen, rekstarstjóra Eimskips, fyrir skýr og greinargóð svör, varðandi aðfinnslur mínar og annarra eyjamanna um ástandið um borð í Herjólfi og sérstaklega er gott að vita hér með, við hvern maður á að hafa samband ef við eyjamenn höfum eitthvað út á Herjólf að setja.
Tek undir árnaðaróskir til Margrétar Láru og fjölskyldu hennar með hennar árangur og ítreka fyrri skoðun mína á því, að ef við ætlum að eignast fleiri svona glæsilega fulltrúa okkar á íþrótta sviðinu, þá þarf að klára þetta knattspyrnuhús strax.
Fyrir jól kom enn eitt glæsilegt nýtt skip til eyja, Dala Rafn og óska ég eigendum á áhöfn innilega til hamingju með skipið. Eyjamenn hafa verið duglegir á þessu ári að koma með ný skip til eyja. Það eru hinsvegar nokkur atriði, sem vekja athygli mína á þeim breytingum sem orðið hafa á bátaflota síðustu tvö árin og þá sérstaklega þetta atriði, þar sem útgerðarmenn leitast við að skipta út stórum togskipum, sem þurfa að halda sig fyrir utan tólf mílna veiðilögsöguna fyrir mun minni skip, sem geta verið að veiðum upp að allt að þrem mílum frá landi. Það sem mér finnst merkilegast við þetta er, að þarna eru útgerðarmenn að breyta sínum útgerðum í samræmi við breytta gönguleið fisksins, en á sama tíma er í togararalli Hafró, sem lagt er til grundvallar fyrir kvótum á Íslands miðum, togað á sömu stöðum og togað var fyrir 20 árum síðan. Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Mig langar líka að taka undir sjónarmið Bergvins Oddssonar (Bedda á Glófaxa) sem kom fram í ágætu viðtali í Vaktinni (útgefið í eyjum) í síðustu viku, um að síðasta vertíð hafi sennilega verið einhver besta þorskveiðivertíð í Vestmannaeyjum síðustu 10-15 árin. Svo er nema furða, þó manni kvíði töluvert fyrir komandi vertíð, því hvað á maður að gera við allan þorskinn, ef Hafró hefur rangt fyrir sér?
Herjólfur fór ekki í dag og spurning hvort hann fari á morgunn og alveg ljóst að eyjamenn eru að vakna upp við vondan draum um það, hversu mikilvægar daglegar samgöngur eru fyrir okkur og ljóst að ég þarf enn einu sinni að skrifa setningu sem ég hef bæði skrifað og sagt ótal sinnum síðastliðin tvö ár. Við þurfum stærri og hraðskreiðari Herjólf STRAX.
Margir eyjamenn hafa rætt við mig um Bakkafjöru að undanförnu. Þeir sem eru fylgjandi Bakkafjöru eru nánast undantekningalaust annaðhvort mjög sjóveik eða sjóhrædd, svo það má alveg segja þetta þannig, að hræðsluáróður þeirra sem eru fylgjandi Bakkafjöru virki, því hvað er betra til árangurs við að fjölga stuðningsmönnum, en að telja sjóveiku fólki trú um það, að það losni við sjóveikina með Bakkafjöru. Í dag lenti ég á spjalli við fólk, sem þarf vegna vinnu sinnar að fara reglulega til Reykjavíkur, en á ekki bíl. Þetta fólk er á þeirri skoðun, að með Bakkafjöru, þá muni ferðalagið kosta þau mun meira en í dag og að frátafir verði mun fleiri, því eins og vinur minn, Páll Scheving orðaði það í grein fyrir nokkru, þá er það mjög vafasamt að tala um að fært sé, þegar ófært er að morgni og þú átt erindi í bæinn, en þú kemst seinni partinn.
10. janúar nk. verður haldinn opinn fundur í Café Kró (nánari auglýst síðar), þar sem mér skilst, að allir þingmenn FF ætli að mæta og jafnvel líka núverandi formaður kvennahreyfingar FF, Ásgerður Jóna Flosadóttir. Þarna gefst eyjamönnum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri við alþingismenn okkar. Heitt verður á könnunni og vonumst við eftir góðri mætingu. Meira seinna.
21.12.2007 | 09:23
Það er alveg með ólíkindum bullið í þessari stofnun( var aðeins að kíkja í skyrsluna)
| |
![]() | |
![]() | |
19. desember 2007 | 08:12 | |
Brottkastmælingar 2006 - Skýrslan | |
Fiskistofa hefur ásamt Ólafi Karvel Pálssyni fiskifræðingi á Hafrannsóknastofnuninni í sjö ár mælt og tekið saman upplýsingar um stærðardreifingu helstu botnfisktegunda í lönduðum afla og í veiddum afla. Tilgangur mælinganna er að kanna stærðartengt brottkast við veiðar þessarra tegunda. Skýrsla með niðurstöðum brottkastmælinga veiðieftirlitsmanna Fiskistofu á árinu 2006 er hér . Helstu niðurstöður eru að á árinu 2006 jókst brottkast á þorski frá fyrra ári. Sem olli nokkrum vonbrigðum þar sem mælingar áranna 2001 - 2005 sýndu á hverju ári minnkandi brottkast þorsks. Hinsvegar var helmingi minna brottkast ýsu á árinu 2006 en var árið áður. Brottkast annarra tegunda var lítið eða ekki mælanlegt. | |
![]() |