Bakkafjara 5,3 metrar = ófært

Það er búið að vera ófært í Bakkafjöru síðan seinnipartinn í gær og veðurspáin fyrir vikuna er ekki góð, einnig var ófært Fimmtudag, Föstudag og laugardag nánast allan tíman. Eftir reynsluna af viðbrögðum eyjamanna við að missa Herjólf í 3 daga, þá segir mér svo hugur að einhver væri farinn að syngja eftir svona margar frátafir.

Helstu athugasemdir sem ég hef fengið að undanförnu við mín skrif um Bakkafjöru,er sú skoðun mín að með því að taka vegina inn í áhættumatið þá sé Bakkafjöruleiðin mun hættulegri leið miðað við að flest erum við á leið á höfuðborgarsvæðið. Svar mitt við þessu er einfalt, mun einhver fara upp á Bakka til að stoppa þar?

Það er endalaust hægt að rífast um þetta en staðreyndirnar eru þessar, meirihluti eyjamanna er á móti Bakkafjöru og telur þetta ævintýri ekki besta kostinn á samgöngumálum okkar.

 Það hefur margt og mikið nýtt komið fram í bæði skrifum hjá öðrum eyjamönnum og einnig hef ég fengið nokkur ný sjónarmið hjá fólki, en þeim verður betur gerð skil seinna.


Jólahlaðborð

Glæsilegt jólahlaðborð Frjálslyndra var haldið 30. nóv. s.l. á Hótel Hafnarfjörður. Hér koma nokkrar myndir.

Jólahlaðborð o.a 009

Sunnlendingar með þingmanni sínum mættu að sjálfsögðu.

Jólahlaðborð o.a 010

 

 

Jólahlaðborð o.a 012

Formaðurinn, Guðjón Arnar og framkvæmdastjórinn, Magnús Reynir á nikkunni.

Jólahlaðborð o.a 018

Hanna Birna flutti minni karla af miklum skörungsskap og Grétar Mar flutti minni kvenna, en því miður mistókst myndin af Grétari.

Jólahlaðborð o.a 020

Mikið var sungið eftir matinn og var Arnþrúður Karlsdóttir fremst í flokki.

Jólahlaðborð o.a 025

Upphófst svo mikill fjöldasöngur eftir glæsilegan mat og var sungið fram á nótt.

 Við mættum þarna nokkur frá eyjum og þökkum kærlega fyrir okkur


Einn frá litlu systir

Kæri lesandi.
Ég er viðkvæmur, sköllóttur maður með staurfót.
Ég fékk boð fyrir nokkrum vikum um að mæta í grímu-partý hjá vinafólki mínu
Mér datt hreinlega enginn grímubúningur í hug, svo ég ákvað að skrifa bréf
til búningaleigu einnar og fá hjá þeim tillögur að búningi sem gæti falið á mér skallann og staurfótinn.

Nokkrum dögum seinna fékk ég tölvupóst:

Kæri herra,

Við leggjum til að þú farir sem sjóræningi.
Sjóræningjahatturinn kemur til með að fela á þér skallann
og með staurfótinn lítur þú alveg út eins og sjóræningi.
Virðingafyllst,
Jón Jónsson
JJ- Búningaleiga

Mér fannst þetta satt að segja hræðileg móðgun !!!
Þeir voguðu sér að stinga upp á að ég myndi bara nýta fötlun mína í búninginn!!!
Ég settist því niður við tölvuna og skrifaði frekar harðort kvörtunarbréf til búningaleigunnar.
Viku síðar fékk ég loks svarpóstinn frá þeim:

Kæri herra,

Afsakaðu þetta með staurfótinn.
Ef við hefðum vitað að þetta væri svona viðkvæmt mál fyrir þig
þá hefðum við aldrei stungið upp á þessu með sjóræningjabúninginn.
Við leggjum til að þú farir sem munkur.
Munka-kufl er svo síður að hann felur staurfótinn
og með náttúrulegan skalla  lítur þú út nákvæmlega eins og alvöru munkur.
Virðingafyllst,
Jón Jónsson
JJ- Búningaleiga

Núna varð ég alveg brjálaður!!!!
Skítt með staurfótinn, en að ætlast til að ég myndi nota skallann á mér
sem hluta af búningi tók alveg steininn úr!!!!
Ég settist því enn og aftur við tölvuna og skrifaði
virkilega harðort kvörtunarbréf til bölvaðrar búningaleigunnar.

Þegar ég vaknaði daginn eftir beið mín svarbréfið frá þeim í tölvunni:

Heyrðu góði,

Finndu stóra fötu af mjúkri karamellu.
Helltu karamellunni yfir sköllóttan hausinn á þér,
stingdu staurfótnum upp í rassgatið á þér
og farðu sem sleikipinni!
Jón Jónsson
JJ- Búningaleiga


Kvótinn

14. desember 2007 | 09:12
Verðþróun aflamarks/krókaaflamarks í þorski 1. júní 2001 - 11. desember 2007
Meðfylgjandi mynd sýnir verðþróun aflamarks og krókaaflamarks í þorski á tímabilinu 1. júní 2001 - 11. desember 2007. Miðað er við hæstu verð hvern dag í viðskiptum með aflamark/krókaaflamark sem flutt er milli óskyldra aðila. Reynslan kennir að hæstu dagverðin lýsa verðþróuninni best.

Í megindráttum sveiflaðist verð aflamarks framan af í takt við gengi krónunnar með nokkurri tímatöf. Þannig var verð aflamarks í hámarki í kringum 180 kr/kg á tímabilinu mars - maí 2002, en gengi krónunnar var hæst í janúar 2002 (raungengið lægst). Með lækkandi gengi krónu lækkaði verð aflamarks og var komið í 120 - 130 kr/kg í júní 2003. Síðan var verðið stöðugt, u.þ.b. 120 kr/kg, þar til verðið fór síðan hækkandi frá seinni hluta febrúar á síðasta ári (2006, en þá hækkaði gengisvísitalan verulega) og hefur hækkunin haldið jafnt og þétt áfram. Hækkandi verð á þorskaflamarki síðustu misseri má vafalítið fremur rekja til hækkandi verðs þorskafla og -afurða og minna framboð aflamarks en til gengisbreytinga. Undanfarnar vikur hefur verðið verið í sögulegu hámarki og sveiflast í kringum 235-245 kr/kg.

Verð krókaaflamarks í þorski hefur breyst með svipuðum hætti og verð þorskaflamarksins. Verð krókaaflamarks hefur þó verið nokkru lægra en verð aflamarks.

Herjólfur , Bakkafjara.

Herjólfur fór ekki í gær , en er á áætlun núna, hinsvegar hefur verið ófært í Bakkafjöru nánast alveg síðan í fyrradag ( 4,2 metrar núna ) og miðað við veðurspána þá verður ófært í Bakkafjöru alla næstu vikuna.

Ég er á þeirri skoðun að ef við hefðum sambærilegt skip og Smyril þá væru frátafir úr sögunni( mín skoðun) Meira seinna. 

 


Bakkafjara 6,2 metrar = ófært

Þarna fer engin maður núna og sennilega ekki í allan dag, og ekki er spáin spennandi fyrir næstu daga.

Ég spáði því fyrir nokkru síðan að frátafir í Bakkafjöru á þessu ári gætu orðið 60, en það var ekki rétt hjá mér því sennilega erum við að tala um allavega 70 til 80 frátafir. Meira seinna.


Bakkafjara 3,7 metrar = ófært

Herjólfi seinkaði í gærkveldi en það sem vekur hvað mesta athygli mína er að duflið í Bakkafjöru sýndi aðeins 2 metra á sama tíma. Þetta er mjög undarlegt, því að í svona ofsaveðri eins og var í gærkvöld segir það sig sjálft að auðvitað er ófært í Bakkafjöru, en ég velti því fyrir mér, hvort duflið sé nokkuð marktækt þegar vindurinn er orðinn svona hvass, en þetta verður bara alt að koma í ljós. Vind hefur nú lægt og voru aðeins 6 metrar á Stórhöfða áðan, en um leið nær brimið sér upp og nú er orðið ófært í Bakkafjöru samkvæmt dufli, en Herjólfur fer og kemst þetta þótt stundum taki þetta lengri tíma heldur en lagt er upp með . Það væri nú munur ef við hefðum verið kominn með nýtt 100 metra skip núna, en greinilega er ekki áhugi fyrir því hjá Bæjarstjórninni okkar . Meira seinna. 

Mikið að gerast í eyjum þessa dagana

Fór á sjó á fimmtudagskvöldið með 16 bjóð, veðrið var alveg frábært, hæg norðlæg átt og fiskirí eftir því, eða 2,6 tonn á 16 bala. Fór svo aftur á sjó í nótt með 13 bjóð í leiðinda austan kalda og kviku en náði samt að klára róðurinn og afli var 2 tonn, mest ýsa. Í fyrri róðrinum lagði ég línu á það sem ég kalla skötubleyðuna mína, fékk liðlega 400 kíló af skötu sem verður selt á fiskmarkaði Vestmannaeyja á morgun.

 Margt hefur verið að gerast síðustu dagana í eyjum. Fyrir það fyrsta fór Herjólfur í viðgerð vegna leka með skrúu en er sem betur fer kominn aftur. Það var eins og eyjamenn vöknuðu upp við vondan draum við það að missa Herjólf og sýnir okkur hversu mikilvægur hann er fyrir okkur og það að samgöngur okkar séu stöðugar og öruggar. Þess vegna ítreka ég skoðun mína á því að við þurfum að fá stærri og hraðskreiðari Herjólf strax, hvort sem þessi bakkafjara gengur eða ekki.

Margt annað hefur verið í umræðunni í eyjum undanfarna daga, töluvert hefur verið rætt um möguleikann á því að hugsanlega verði byggingu knattspyrnuhúss frestað um eitt ár vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu íþróttahreyfingarinnar. Mér þykir þetta frekar dapurt ef að þessari frestun verður enda ljóst að okkur liggur á að fá þetta hús (þó það verði bara hálft). Það jákvæða í boltanum að mínu mati er nýtt kvennalið ÍBV í fótbolta sem byggt er fyrst og fremst á eyjastúlkum og verður gaman að fylgjast með þeim næsta sumar.

Miklar framkvæmdir eru núna í gangi á vegum Vinnslustöðvarinnar og ber þá hæðst bygging stórrar frystigeymslu við Höfnina. Þessi framkvæmd er töluvert umdeild en að mínu mati er þetta mikilvægt skref í þá átt að stækka það frystipláss sem við höfum hér í eyjum. Einnig sá ég að þeir Vinnslustöðvar menn huga á miklar framkvæmdir á fyrirtækinu. Það á að rífa norðurhúsið á Vinnslustöðinni og byggja það alveg upp á nýtt. Eina áhyggjuefnið í þessu sambandi er að það verði svo vél og tölvuvætt að þetta geti þýtt hugsanlega fækkun starfa hjá fyrirtækinu en ég vona það að þar sem eign fyrirtækisins er í miklum meirihluta í höndum eyjamanna að menn hugsi þá fyrir fólkinu líka.

Fleiri fréttir vöktu athygli mína síðustu viku. Nokkrir aðilar eru að fara af stað með hugmyndir um að flytja út vatn í neytendaumbúðum og gætu hugsanlega skapast nokkur störf í kringum það. Einnig er búið að skrifa undir samninga um að hefja bruggun á bjór í Vestmannaeyjum. Óska ég þessum aðilum öllum góðs gengis,enda veitir ekki af að fara að finna upp einhver störf í Vestmannaeyjum sem ekki tengjast fiskveiðum og vinnslu. Og mætti ég síðan biðja um einn Einsa-kalda fyrir mig. Og fyrir dömurnar sting ég uppá nafninu sem tengist mér örlítið, eða eina kippu af Blíðu, yrði örugglega vinsæll bjór. Meira seinna.


Samgöngumál

Það er margt og mikið að gerast í samgöngumálum okkar eyjamanna þessa dagana. Fyrir það fyrsta, þá las ég í Fréttum (útgefið í Vestmannaeyjum) í síðustu viku grein, þar sem ritstjórinn Ómar Garðarsson kvartar sáran yfir Herjólfi, vegna þess að þar vanti bæði útvarp og tölvutengingar sem lofað hafði verið af núverandi rekstraraðilum. Sjálfur fór ég með skipinu á fimmtudaginn upp á land í fínasta veðri, en þar sem spáin var slæm seinnipartinn var hætt við seinni ferðina og til að kóróna það þá var hliðarskrúfan biluð morguninn eftir, þannig að skipið komst ekki af stað fyrr en upp úr kl. 10 . Veðrið var þá mjög slæmt og brimið það mikið í Þorlákshöfn, að gripið var til þess ráðs að fá lóðsinn þar til að hjálpa Herjólfi inn í höfnina. Ég fór aftur til eyja með fyrri ferð á sunnudag og þá hafði ástandið enn versnað, vídeótækin í skipinu voru biluð og einhver vandamál í sambandi við sjónvörpin í sjónvarpssal líka, og ein þernan sagði við mig, að það væri í raun og veru alt í drasli þarna umborð. Til að kóróna þetta, þá þarf skipið að fara núna í slipp, í vonandi ekki meira en tvo daga og á meðan verðum við að treysta á flug.

Ég frétti af því í gær, að fjöldi fólks hafði mætt í gær til að reyna að koma bifreiðum sínum til eyja, en því miður komust ekki allir með og þurfa sennilega að bíða, jafnvel alla vikuna eftir fari, en vonandi verður þetta bara tveir dagar.

Það er mjög merkilegt að lesa nýjasta bloggið hjá (vini) mínum, Sigursveini Þórðarsyni, sem nú alt í einu er farinn að heimta nýjan Herjólf (reyndar segir hann líka að Bakkafjara sé framtíðin) en merkilegt nokk, þá hefur Sigursveinn ítrekað haldið því fram, að kosið hafið verið um framtíðarsamgöngur okkar í bæjarstjórnarkosningunum 2006 og þar hafi nýjum Herjólfi verið hafnað og næsta skerf sé Bakkafjara. Vonandi hef ég þetta rétt eftir honum, en fyrir mér hljómar þetta svolítið vitlaust. Til að kóróna þetta, þá heyrði ég á Bylgjunni í gær, viðtal við bæjarstjórann okkar þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum vegna ástandsins á Herjólfi og segir meðal annars: "Við höfum vitað það í næstum fimm ár, að tími sé kominn á að skipta út Herjólfi fyrir nýtt skip." Þetta þykir mér mjög merkilegt, komandi frá bæjarstjóranum, því að ég veit ekki betur en að nú séu í gangi hugmyndir um að nota núverandi Herjólf í Bakkafjöru, eða þangað til Bakkafjöruferjan verður tilbúin, þetta hljómar altsaman frekar undarlega, en það kemur alt í ljós.

Á eyjar.net var nýlega viðtal við fjármálaráðherra, Árna Matt, þar sem hann var spurður að því, ef ég man rétt, sérstaklega hvaða samgöngubætur við gætum vænst á næsta ári og ég man ekki betur en hann hafi talað um að það eina sem hann sæi að við gætum fengið fram að Bakkafjöruferju, væri ein flugferð á dag, aukalega yfir sumarmánuðina, svo ekki er nú útlitið bjart. Meira seinna.


Sjávarútvegur

Það er margt og mikið að gerast í sjávarútvegsmálum þessa dagana. Síldin mokveiðist í Grundarfirði og er aðeins í þessum eina firði, búið að taka nú þegar 60 þús. tonn, og enginn veit, hvers vegna síldin er bara þarna.

Kvótaleigan og kvótaverð á þorski rýkur upp og er eftir nýjustu upplýsingum, leigan á einu þorsk-kílói komin yfir 220 kr. kg. en verð á varanlegum þorskkvóta komið í 4000 kr. kg. Blandaður þorskur er að seljast á Fiskmarkaði Vestmannaeyja í dag frá 260-300 kr. kg.

Nýjasta útspil sjávarútvegsráðherra í þessu kvótakerfi er að nú á að skikka líka þá sem veiða með veiðistöng til að leigja sér kvóta og er hætt við því, að þetta komi illa við t.d. þá ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á sjóstöng. Ég verð að viðurkenna það, að mér þótti Árni Matthiesen sem sjávarútvegsráðherra, vera einhver sá versti sjávarútvegsráðherra, sem nokkurn tímann hefur starfað í því embætti, en mér sýnist Einar Kristinn langt vera kominn með það að slá honum við í hörmungar ákvörðunum. Nýlega lenti ég á spjalli við mann úr innsta hring sjálfstæðisflokksins og spurði ég hann þá út í kvótakerfið. Svarið var eftirfarandi: Við sjálfstæðismenn erum búnir að gefast upp fyrir þessu kerfi, við hefðum aldrei trúað því, að þetta gæti farið í þá vitleysu, sem þetta er komið í í dag og við erum í raun og veru algjörlega ráðalausir í þessu kvótakerfi. Er nema furða þó að venjulegt fólk skilji hvorki upp eða niður í þessu. En að gefnu tilefni, tilhvers að breyta þegar menn fá alltaf atkvæðin?

Meira seinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband