28.11.2007 | 18:36
43 ára í dag
Hér er hann ca. 8 mánaða gamall.
Líklega 4 ára.
Í góðum gír á Þjóðhátíð.
Lundaveiðimaðurinn.
Fyrsta trillan og síðasta sígarettan. (eða þannig)
Með konunni úti á Tenerife.
28.11.2007 | 11:12
Bakkafjara, nýjustu fréttir.
Að undanförnu hef ég heyrt í mörgum eyjamönnum og sýnist mér að mikill meirihluti eyjamanna sé á móti bakkafjöru. Nokkrar ástæður hafa verið nefndar en flestar hef ég nefnt áður. Nýjasta nýtt er í sambandi við útboðið þar sem nú er ljóst að vestmannaeyjabær mun verða í loka útboði og er það von okkar allra held ég að við fáum að reka þetta eftir eigin höfði. Sumir hafa reyndar bennt á að þá gæti þetta orðið þungur fjárhagslegur baggi á okkur en það kemur allt í ljós. Að gefnu tilefni þá hef ég tekið þá ákvörðun að hætta að vitna í fólk nema ef það biður um það sérstaklega. fyrir því eru margar ástæður en kannski fyrst og fremst að ég hef orðið var við það að fólk er svolítið hikandi við að segja sýna skoðun. Nýjustu upplýsingar um væntanlega ferju er eftir því sem mér er sagt að í dag sé upp undir 4 ára bið eftir vélum í þessa stærð af skipum og samkvæmt því þar sem hvorki er búið að hanna né byggja bakkaferjuna þá eru allavega 4-5 ár að lámarki í þá ferju. Nú er komin upp sú staða að menn eru að ræða þann möguleika að nota núverandi Herjólf í bakkaferjuhöfn sem þýðir að þá verður að dýpka hana mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi enda sagði Gísli Viggósson þegar spurt var að í fundinum í febrúar síðastlinum að sennilega kæmist núverandi Herjólfur ekki inní bakkafjöruhöfn vegna þess að hann risti of djúpt en hvernig þetta verður verður líka að koma í ljós.
Eitt af því sem hefur vakið mesta athygli mína á spjalli við fólk að undanförnu er hversu margir eyjamenn eru á þeirri skoðun sem að við á F lista vorum í kosningunum vorið 2006, að best hefði verið að fara strax í að fá nýjan og hraðskreiðari Herjólf á meðan að vinna á öðrum valkostum væri í gangi (göng eða bakkafjara). Þetta kemur mér ekki á óvart því þetta var nákvæmlega það sem ég hafði hugsað mér fyrir einu og hálfu ári síðan, enda var hvorki búið að klára rannsóknir þá frekar en núna varðandi göng eða bakkafjöru. Svo það má kannski segja sem svo að fólk er lengi að taka við sér svo ég tali nú ekki um bæjarstjórnar meirihluta sjálfsstæðisflokksins en það er nú bara svo, sumir þurfa alltaf fyrst að reka sig á, en vonandi verður þessi bakkafjara bara í lagi.
25.11.2007 | 23:18
Herjólfur og Bakkafjara
Ég var að frétta af Herjólfi, hann er nú á leiðinni til eyja í suðaustan 30, og verður sennilega ekki í höfn fyrr en milli eitt og tvö í nótt. Á Stórhöfða eru núna austan 30 metrar, en það sem vekur mesta athygli er, að í Bakkafjöru eru aðeins 2,8 metrar, sem hefði að öllu jöfnuðu þýtt að þar væri fært, en spurningin er þessi: Trúir því einhver að fært sé í Bakkafjöru í austan 30 metrum eða meira? Ég bar þessa spurningu undir Jón Bernódusson fyrir nokkru og þar sem hann er gamall eyjamaður, þá var svar hans eftirfarandi: Að sjálfsögðu er ófært í Bakkafjöru í 30 metrum, þótt duflið sýni það ekki. Ég ítreka því skoðun Jóns og tek undir, að aðalatriðið er þetta. Verði farið í þetta Bakkafjöru ævintýri, þá er algjört lykilatriði, að ferjan verði ekki styttri en 67 metrar. Ég get tekið undir þetta hjá Jóni, vegna þess að sjálfur er ég að sjálfsögðu á einnar öldu skipi, sem þýðir að ég þarf að fara upp og niður ölduna sem þýðir, að þegar maður lendir á vondu lensi sem er eitthvað það hættulegasta sem skip lenda í, þá er það ekkert grín að fá stórar öldur aftan á skipið og þurfa að taka á öllu sínu, til að missa ekki stjórn á skipinu. Það sem er að nú verandi Herjólfi er, að hann er líka einnar öldu skip. Á siglingarleiðinni Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn er lengra á milli aldanna þannig að til þess að skip á þeirri siglingaleið fari ekki að höggva, eins og Herjólfur er að gera á þessari stundu og gengur hægt, þá þarf skip á þeirri siglingaleið að vera helst ekki styttra en 100 metrar þó vissulega sé alltaf erfitt að keyra á móti roki, þá myndi þannig skip fara mun betur með farþegana.
(Vinir mínir) Sigursveinn og Kjartan eru frekar óhressir með mín skrif og þá sérstaklega þegar ég segi frá samtali mínu við Kjartan. Ég vil að sjálfsögðu taka það fram, að það að birta á bloggsíðu minni samtal okkar Kjartans er alls ekki gert til þess að skaða hann á einn eða neinn hátt. Sigursveinn hinsvegar ítrekar á sinni bloggsíðu að kosið hafi verið um Bakkafjöru 2006 og að það séu fleiri en hann á þeirri skoðun. Ég hef hinsvegar hvergi séð þá skoðun hjá öðrum, nema sem komment við skrif hjá honum, svo ég ítreka mína skoðun á þessu, eftir samtöl við fulltrúa D og V lista, þetta er ótrúlega vitlaust.
p/s Svenni minn, við vitum nú hvor er grófari í boltanum og ætli ég verði ekki að mæta með legghlífar og hjálm á næstu æfingu.
24.11.2007 | 21:09
Ekki veit ég hvernig þetta endar
En vonandi eru það góðar fréttir ef tekst að halda kvótanum hér. Það er hinsvegar stór spurning hversu lengi menn ætla að berjast fyrir óbreyttu kvótakerfi, því ekki er það að skila okkur árangri við að byggja upp Þorsk stofninn og margt sem bentir til þess að þetta geti bara versnað.
PS, til hamingju ÍBV strákar með sigurinn, sá fyrsti og örugglega ekki sá síðasti. Áfram ÍBV.
![]() |
Ákvörðun um hlutahafafund tekin í næstu viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 22:54
BB eða Blíða og Bakkafjara
Fór á sjó klukkan eitt síðastliðna nótt með 16 bjóð. Veðrið var ca. norðan 10 metrar og skítakuldi, en lægði sem betur fer þegar leið á morguninn. Aflinn var um tvö tonn, mest ýsa og var ég búinn að ljúka löndun og kominn inn í höfn kl. 15:30 og blasti þá við mikið bál í Kaffi Kró, en nú er sem betur fer búið að slökkva eldinn og ætla ég að vona það að þetta hafi engin áhrif á reksturinn þar.
Margt og mikið hefur skeð tengt Bakkafjöru síðan ég skrifaði síðast um þessi mál. Meðal annars fór hópur eyjamanna af stað með undirskriftarsöfnun, með áskorun um að leyfa okkur að kjósa um framtíðarsamgöngur okkar. Ekki fannst mér koma neitt rosalega margar undirskriftir út úr þessu, en taka verður tillit til þess, að þetta var lítið auglýst og stóð í mjög stuttan tíma. Miðað við reynslu mín af minni skoðanakönnun, þá þarf svona undirskriftasöfnun að standa í allavega mánuð og vera vel og rækilega auglýst og er ég þá ekki í nokkrum vafa um það, að hefði þannig verið staðið að málum, hefðu komið allavega 2000 undirskriftir. Ég hafði sjálfur velt því fyrir mér að fara sjálfur af stað með svona undirskriftarsöfnun og ýmislegt annað, sem hægt er að gera, en hafði hafnað því, einfaldlega vegna þess, að mér finnst ég alveg hafa gert nóg, enda tel ég mig ekki vera neinn sérstakan hatursmann gegn Bakkafjöru.
Mig langar að þakka vini mínum, Páli Scheving, fyrir hans grein um Bakkafjöru. Ég er honum sammála í flest öllum atriðum. Vissulega er margt, sem bendir til þess að Bakkafjara gæti orðið gott tækifæri fyrir ferðaþjónustuna yfir sumarmánuðina, og tek undir þá skoðun hans að aðal áhyggjuefnið varðandi Bakkafjöru, eru frátafir yfir vetrarmánuðina og hvaða áhrif þær hefðu á flutninga á t.d. bæði vörum og fiski og vaknar þá sú spurning, hver ber ábyrgðina t.d. ef ég sel fisk á fiskmarkaði Vestmannaeyja á ákveðnu verði, fiskurinn kemst ekki til kaupandans á tilsettum tíma og kaupandinn neitar að borga uppsett verð, vegna seinkunnar á afhendingu. Hver ber þá tjónið?
Mig langar aðeins að segja nokkur orð, um þá (vini mína) Sigursvein Þórðarson og Kjartan Vídó. Sigursveinn hefur skrifað reglulega um Bakkafjöru og er, eins og allir sjá, mjög svo fylgjandi Bakkafjöru. Kjartan Vídó er ritstjóri á eyjar.net og hefur samviskusamlega birt flest alt í umræðunni um Bakkafjöru, en stundum hefur mér fundist hann vera kannski einum og hliðhollur, en hann á að sjálfsögðu rétt á að hafa sína skoðun á málinu. Fyrir nokkru síðan hringdi ég í Kjartan, bæði til að forvitnast um hans skoðanir og annað. Það sem vakti mesta athygli mína, er að Kjartan sagði mér,að hans skoðun á málinu snérist fyrst og fremst um það, hvar hann stæði í pólitík og ég hlyti að vita, hvar hann stæði í pólitík. Ég sagðist nú alveg gera mér grein fyrir því, að hann væri íhaldsmaður, en benti honum á það að það væru foreldrar hans líka, en þau væru samt bæði á móti Bakkafjöru, svo ekki snýst þetta um pólitík.
Sigursveinn Þórðarson hefur ítrekað lýst því yfir á bloggi sínu, að kosið hafi verið um Bakkafjöru í Bæjarstjórnarkosningunum árið 2006. Mér þykir þessi skoðun hreint ótrúlega vitlaus, en svona til gamans, þá er ég núna búinn að tala við bæði fulltrúa D-lista í bæjarstjórn og V-lista, og þar sem ég var sjálfur í framboði F-listans, þá er það hér með staðfest að enginn af þessum aðilum taldi sig vera að kjósa um Bakkafjöru í kosningunum 2006, enda voru öll framboðin með göng sem fyrsta valkost, og ég bendi á það, að það var ekki fyrr en sumarið 2007, sem göng voru endanlega slegin af, af núverandi samgönguráðherra og ekki bara það, heldu hvernig á að hafa verið hægt að kjósa um Bakkafjöru 2006, þegar skýrsla Gísla Viggóssonar, um hvort hægt sé að gera höfn þarna er ekki skilað til okkar fyrr en febrúar 2007, svo það liggur í augum uppi, að þessi rök Sigursveins eru ótrúlega vitlaus, ég tala nú ekki um, þegar tillit er tekið til þess, að hann hefur margra ára reynslu sem fréttamaður á Fréttum í eyjum og maður hefði haldið, að hann myndi nú fylgjast aðeins betur með. En það er nú svo, þegar menn skortir rök, þá er kannski einfaldast að búa sér til rök.
Svona til gamans og upprifjunar, hver voru helstu baráttumálin fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2006? Fyrir mér voru það fyrst og fremst tvö atriði. Það fyrsta: atvinnumál, þar sem við á F-listanum komum fram með stórar og miklar hugmyndir um uppbyggingu á stórskipahöfn fyrir Eiðinu, með möguleikum á þurrkví og legu fyrir stærstu farþegaskip, mér þótti það fyrst og fremst ánægjulegt að bæði hin framboðin tóku þessa hugmynd okkar á lofti og settu hana inn í sína stefnuskrár og mér skilst að það sé búið að álykta um þetta í bæjarstjórn, en mér segir svo hugur, að fyrst F-listinn er ekki til að fylgja málinu eftir, þá verður þetta lítið annað en ályktun. Hitt atriðið, sem varð í raun og veru eitt heitasta málið fyrir kosningarnar, var bygging knattspyrnuhús í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórnar meirihluti D og V lista vorið 2006, hafði þá um veturinn samþykkt að byggja hálft knattspyrnuhús, en þegar leið að kosningum, þá tók ég eftir því í ferðum mínum um fyrirtækin í bænum, að eyjabúar virtust almennt vera á móti þessu, svo það kom mér ekki á óvart, þegar íhaldsmenn gáfu það út, rétt fyrir kosningar, að þeir ætluðu sér ekki að standa við samþykkt fyrri meirihluta, en lofuðu jafnframt á fundi með íþróttahreyfingunni að bæta vetraraðstöðu fyrir knattspyrnuna. Að mínu mati er ekki nokkur vafi á því, að þetta tryggði íhaldsmönnum glæsilegan sigur í kosningunum. Mín skoðun á knattspyrnuhúsi er í raun og veru einföld. Það er marg sannað, að íþróttir er eitt það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar, bæði til að þroska þau og þjálfa, kenna þeim aga og til að halda þeim frá allskonar óreglu, því nægar eru freistingarnar í dag. Varðandi útkomu okkar á F-listanum úr þessum kosningum, þá kom það mér ekki á óvart, enda hafði ég spáð þessari útkomu, nánast upp á atkvæði, en aðal málið er þetta: Frjálslyndir eru búnir að stimpla sig inn í Vestmannaeyjum og eru komnir til að vera. Bæði D og V-listi beittu sér sérstaklega gegn okkur og meira að segja heyrði ég haft eftir sumum frambjóðendum þar, að þeir mæltu frekar með því við fólk að það kysi frekar hinn stóra flokkinn, frekar heldur en að fá annan bakara.
Að lokum, aðeins um Bakkafjöru. Ég vona það svo sannarlega, að mín skrif og annarra verði fyrst og fremst til þess, að enn betur verði vandað til verksins, en ég verð að segja það, að þó að við Elliði bæjarstjóri séum ekki sammála að öllu leyti, þá er ég mjög óhress með það, ef rétt er, að honum hafi verið vikið úr stýrihópnum um Bakkafjöru, vegna þess að bærinn ætli sér að bjóða í þetta verkefni og tek líka undir áhyggjur bæjarstjórnarmanna um hversu lítinn áhuga samgönguráðherra sýnir í því, að koma og ræða við okkur og auglýsi því hér með eftir samgönguráðherra. Haldi hann áfram að forðast okkur, þá kæmi það mér ekki á óvart, þótt atkvæði samfylkingarmanna í Vestmannaeyjum, kæmi til með að fækka enn meira í næstu Alþingiskosningum. Meira seinna.
17.11.2007 | 21:01
Þangað fer ég aldrei aftur
Á hverjum degi sjáum við í dagblöðunum mikið af bílaauglýsingum. Brimborg er eitt af þeim fyrirtækjum sem auglýsir grimmt nýja og notaða bíla, og tökum notaða bíla uppí. Fyrir rúmum mánuði síðan hringdi ég í Brimborg og talaði við sölumann notaðra bíla og bað hann um að gefa mér upp verðhugmynd á jeppann á heimilinu. Hugmyndin hjá mér var sú að losa mig við bensíndrekann fyrir betri fólksbíl. Viðbrögðin hjá sölumanninum voru góð og sagði hann mér að koma með bílinn, því að þeir yrðu að sjálfsögðu að láta yfirfara bílinn á verkstæðinu hjá sér. Mætti ég þegar um var samið og hóf að leita mér að bíl. Þá fyrst sagði sölumaðurinn mér, að þessi tegund, Cherokee sport, væri erfið tegund í endursölu og gætu þeir því ekki tekið hann upp í annan notaðan, nema þá með því að lækka hann fyrst úr 900 þúsundum í 700 þúsund, fyrir skoðun. Eftir skoðun komu fram athugasemdir eins og t.d. að ég átti eftir að fara með bílinn í skoðun og það væri rispa á öðru framdekkinu m.a. og lækkuðu þar með bílinn minn aftur og nú niður í 580 þúsund og tilkynntu mér um leið, að ekki væri hægt að lækka frekar þá bíla, sem ég hafði skoðað hjá þeim. Þótti mér þetta frekar léleg kaup og kvaddi með það sama. Í síðustu viku, eða rúmum mánuði eftir þessa ferð, þá ákvað ég, eftir að hafa rætt nokkrum sinnum við einn sölumanninn og farið með minn bíl í bæði í skoðun og allsherjar yfirhalningu, án þess að fram kæmi nokkur athugasemd, að reyna aftur og hafði ég þá merkt við nokkra bíla hjá Brimborg sem ég hugðist skoða og sölumaðurinn lofað mér, að gera mér betra tilboð. Mætti ég með minn bíl í skoðun aftur og eftir töluverða leit, valdi ég mér bíl, sem mér leist svona þokkalega á. Eftir nokkurra klukkutíma bið kom loksins sölumaðurinn með algjörlega nýja niðurstöðu úr skoðun frá verkstæði Brimborgar, þar sem tvær athugasemdir voru gerðar við minn bíl, sem höfðu ekki komið fram áður. Fyrri athugasemdin var: gat á mottu bílstjóra megin og hin athugasemdin var að við prufu, kviknaði gult aðvörunarljós í mælaborði. Ég spurði sölumanninn, hvernig þeir höfðu farið að því að kveikja aðvörunarljós í mælaborði og sagði hann mér, að í prufu hefði vélin verið sett í botn og þá kviknaði aðvörun og þess vegna gætu þeir ekki tekið bílinn upp í annan. Ég spurði hann afhverju þeir reyndu ekki að finna bilunina og laga hana, en var mér sagt að það væri ekki í þeirra verkahring. Ítrekaði líka sölumaðurinn við mig, að þetta væri líka tegund, sem þeir væru ekki hrifnir að taka uppí. Kvaddi ég hann með því að segja, að í þessa bílasölu kæmi ég aldrei aftur og lofaði honum um leið, að ég skyldi skrifa þessa sögu á bloggið hjá mér. Nú er ég kominn heim og kannski runninn mesta reiðin yfir þessum vinnubrögðum, aðvörunarljósið í mælaborðinu er horfið og var ég í raun og veru hættur við að skrifa þessa sögu, en þá var mér sögð önnur saga af eyjamanni, sem átti viðskipti við þetta sama fyrirtæki fyrir rúmu ári síðan. Hafði sá keypt nýjan bíl hjá Brimborg á raðgreiðslum, en orðið fyrir því að látast um veturinn. Reyndu þá ættingjarnir að skila bílnum, en var því hafnað og þeim tilkynnt, að eina leiðin til að losna við þennan bíl væri að láta hann upp í dýrari bíl. Ekki veit ég, hvort aðrar bílasölur séu betri eða verri, en ég mun alveg örugglega ekki fara aftur í Brimborg.
12.11.2007 | 22:48
Bakkafjara
9.11.2007 | 21:32
Helgin
9.11.2007 | 20:58
Samgöngumál og róður á Blíðu
Var að koma í land áðan, eftir að hafa verið á sjó í 18 tíma. Afli var ágætur, rúm tvö tonn á 14 bala. Veðrið í nótt var mjög erfitt, mikill sjór og gekk á með éljum, en sem betur fer lægði þegar leið á morguninn.
Í gær átti ég ágætt samtal við Jón Bernódusson og lagði fyrir hann nokkrar spurningar. Fyrsta spurningin var í sambandi við grein hans í bæjarblöðunum, þar sem segir: Aðeins hefði orðið fjórir dagar ófærir, það sem af er þessu ári. Fórum við aðeins yfir tölurnar sem birtast í grein hans og þar á meðal þar sem stendur, samtals komnar 44 frátafir á árinu. Var hann sammála mér um það að, að sjálfsögðu væru 44 frátafir samtals 11 heilir dagar. Hann sagði mér hinsvegar, að í raun og veru væri nánast hægt að birta hvaða tölu sem er í dag, það er aðeins reynslan, sem getur sýnt okkur, hvernig þetta verður. Vildi hann reyndar meina, að viðmiðið væri of lágt og vonandi er það rétt hjá honum.
Nokkur atriði í spjalli okkar vöktu sérstaklega athygli mína, og þá sérstaklega hugmyndir hans um stærð Bakkafjöru ferjunnar. Hann hefur miklar áhyggjur af því, að útboð, þar sem sá sem býður á að eiga og reka ferjuna, því sannleikurinn er sá, sagði hann, að miðað við þær rannsóknir sem við höfum unnið hjá Siglingamálastofnun, þá er alveg ljóst að ef mönnum dettur til hugar að koma með styttra skip en 67 metra, þá væri mun betri kostur fyrir eyjamenn að láta þetta eiga sig. Marg endurtók hann þetta atriði í spjalli okkar.
Einnig lýsti hann yfir áhyggjum sínum varðandi uppgræðsluna á Bakkafjöru og hafði greinilega áhyggjur af því, að það yrði kannski of erfitt að græða upp, enda alinn upp við að horfa á rokið þarna frá eyjum séð og lýsti hann þeirri skoðun sinni, að ef ekki tækist að hefta verulega sandfokið þarna, þá væru miklar líkur til þess, að þetta verkefni yrði misheppnað.
Næst spurði ég hann út í áhættumatið og þá hvernig það liti út, ef mið væri tekið af því hvert við erum flest að fara og vegirnir teknir inn í matið. Kom hann mér enn á óvart með því að segja, að ef vegirnir eru inni í áhættumatinu, miðað við að fara á höfuðborgarsvæðið, þá er það sennilega 100 - 200 sinnum hættulegra, heldur en að fara með Herjólfi.
Eitt atriði í viðbót spurði ég hann sérstaklega. Fyrir viku síðan voru austan 35 metrar á Stórhöfða, en Bakkafjöru duflið sýndi fært. Sagði hann það rétt að hann þekkti nú til þess að það hvesti stundum í eyjum og var hann sammála mér í því, að þó að duflið sýni fært, þá eru fjölmargar ástæður sem geta orðið til þess, að það verði ófært og ítrekaði hann enn og aftur, að ef skipið verður styttra en 67 metrar, þá er þetta klúður.
Tvö atriði var ég ekki sammála honum um og ég spurði hann út í setninguna í lokaskýrslu Gísla Viggóssonar, þar sem segir, það er ríkjandi skjól við Bakkafjöru í öllum vindáttum vegna nálægðar við Vestmannaeyjar. Skýrði hann þetta atriði þannig, við ætlum að reyna að hanna og byggja höfnina þannig að það verði skjól í Bakkafjöruhöfn í öllum vindáttum. Ég ætla nú að leyfa mér að efast um að það takist.
Hitt atriðið var í sambandi við sandburð inn höfnina. Sagði hann það atriði líka muna leysast að miklu leyti vegna hönnunar og byggingar á höfninni, og lýsti hann þeirri skoðun sinni, að sandburðurinn væri fyrst og fremst vegna strauma. Ekki er ég sammála þessu, enda höfum við eyjamenn horft upp á meira að segja grjóthnullunga og jafnvel fisk kastast upp á eyðið, þegar mesta brimið er.
Eitt atriði enn spurði ég hann að, að lokum og það er hversvegna þessi grein hans hefði lent í báðum bæjarblöðunum í Vestmannaeyjum. Sagði hann mér það að bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefði fengið þessar töflur frá sér og svo sem ekkert óeðlilegt við það.
Báðir vorum við nokkuð ánægðir með spjallið, vonandi verður þetta til að útskýra málið betur fyrir fólki og það sem ég tek helst út úr þessu samtali, eru fyrst og fremst áhyggjur þeirra sem standa á bak við rannsóknir og hönnun á höfninni, að jafnvel nú þegar sé búið að klúðra þessu máli, með því að gera ráð fyrir of litlu skipi og hitt svo að þó að duflið sýni, þegar ófært er inn Bakkafjöruhöfnina, að þá er líka jafn ófært þegar veður eru vond og ófært er í aðrar hafnir, þó duflið segi annað. Meira seinna.
8.11.2007 | 21:52
Bakkafjara
