7.11.2007 | 22:24
Samgöngumál
Það er mjög undarlegt að skoða grein, sem er inni á eyjar.net núna, þar sem fyrirsögnin er þessi: Ófært hefði verið í fjóra daga það sem af er ári. Frátafir við Bakkafjöru 1. jan 2007 - 31. okt. 2007.
Þar sem ég hef skrifað nú þegar 40 sinnum ófært á þessu sama tímabili (að sjálfsögðu ekki alt heilir dagar), langar mig að koma á framfæri nokkrar athugasemdir við þessa grein. Í þessari grein eru hvergi taldar upp frátafir, hvorki í janúar síðastliðinn né núna í október og þykir mér það vægast sagt mjög undarlegt mál, því ég veit ekki betur en að ég hafi talið ca. tíu daga ófæra í okt. Ekki man ég hversu margir dagar voru ófærir í jan. en hann var allavega mjög erfiður fyrir sjómenn. Einnig þykir mér mjög skrítið að segja að 4 heilir dagar hafi verið ófærir á árinu, stilla síðan deginum upp í 4 frátafa tímabil, fá síðan samtals út 44 frátafir og reikna það síðan út sem fjóra heila daga í frátöfum. Ég hefði haldið að þetta væru 11 heilir dagar samtals í frátöfum.
Til að útskýra fyrir fólki, hvernig stendur á því, að stundum eru tvö og jafnvel þrjú tímabil ófær á sama degi, en eitt til tvö fær, þá er eins og flest allir vita, fallaskipti á sex tíma fresti. Þegar fallaskiptin eru, er það alþekkt að oft lægir sjóinn á meðan, og meira að segja vind stundum. Stundum bara í nokkrar mínútur, en þetta getur staðið jafnvel í klukkustund. Þetta getur skýrt að mínu mati, hversvegna stundum er fært, samkv. dufli og stundum ekki. Margir sjómenn hafa haldið því fram að duflið sé ekki á réttum stað til að mæla hina raunverulega öldu í Bakkafjöru, ég hef hinsvegar ekki skoðað það sjálfur og ætla því ekki að meta það, en hefði talið það mun betri kost, til að fá betri upplýsingar, að hafa allavega 3 eða 4 dufl á svæðinu.
Eitt atriði í viðbót úr þessari grein. Í endanum á henni segir að frátafir á siglingaleið Herjólfs milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, séu á milli 5-7 dagar á ári, sem falla niður í heild sinni og því séu um sambærilegar tölur að ræða milli þessara tveggja siglingaleiða. Þessu er ég ekki sammála, því ef ég man rétt og tek þá tíu ár aftur i tímann, þá er allavega helmingurinn af þeim árum, þar sem engin ferð fellur niður og í raun og veru bara eitt ár, þar sem hægt er að tala um sjö daga en þar af hluta til bara önnur ferð felld niður. En að sjálfsögðu, með stærri og hraðskreiðari Herjólfi, yrðu frátafir nánast úr sögunni, og það er það sem okkur vantar.
Ekki veit ég, hver ber ábyrgð á þessari grein, en skora á hann að birta líka tölur fyrir janúar og október og það sem af er nóvember, þá kæmi það mér ekki á óvart, þótt frátafir væru nú þegar orðnar, eins og ég held fram, milli 40 og 50 dagar, en ekki allan daginn. Ég er ekki viss um að það verði okkur til hagsbóta að vera að eltast við það allan veturinn, hvort fært sé eða ófært í Bakkafjöru í hvert skipti sem vindar eitthvað, en ítreka ósk mína, að vonandi verður þetta bara í lagi. Meira seinna.
6.11.2007 | 11:40
Bakkafjara, 4,2 metrar = ófært
Enn einu sinni er orðið ófært í Bakkafjöru og stefnir þetta í að verða allavega tveir mánuðir ófærir á þessu ári (það er ekki boðlegt í samgöngumálum okkar eyjamanna).
Vissulega er það ánægjulegt, að eyjamenn ætli sér að bjóða í rekstur Bakkaferju, en ég hefði nú frekar kosið að við værum að bjóða í rekstur á nýjum Herjólfi.
Bæjarstjórinn okkar segir, að með bakkafjöru muni opnast fjölmargir möguleikar og ný atvinnutækifæri. Ekki veit ég hvort það sé rétt, en kannski maður geti fengið vinnu einhverstaðar á suðurlandi við að heyja (það var nú alltaf gaman í sveitinni í gamla daga). Það sem bæjarstjórinn nefnir hinsvegar ekki, er það að miklar líkur eru á því, að fjölmörg störf í Vestmannaeyjum tapist með Bakkafjöru. Margir hafa nefnt við mig þann möguleika að með Bakkafjöruhöfn, þá myndi ríkið nota tækifærið og skerða heilbrigðisþjónustu okkar, vegna þess að það sé styttri tími að komast í heilbrigðisþjónustu annars staðar á suðurlandi (þessu megum við ekki við, enda er hálfsmánaðar bið eftir tíma hjá lækni í eyjum). Einnig gæti verið skerðing hjá lögreglunni og ýmsum störfum á vegum ríkisins í Vestmannaeyjum, annaðhvort lögð niður eða sameinuð sambærilegum störfum í öðrum bæjarfélögum á suðurlandi. Meira seinna.
4.11.2007 | 11:31
Bakkafjara, viðbót og fleira
Ég var að tala við vin minn og þingmann okkar, Grétar Mar Jónsson. Sagði hann mér meðal annars frá ferð sinni og annarra þingmanna suðurkjördæmis í kjördæmaviku. Komu þeir meðal annars til eyja í síðustu viku, en stoppuðu stutt. Áttu þeir fund með bæjarstjórn Vestmannaeyja, þar sem einungis var talað um kröfu útgerðarmanna í eyjum um að fella niður veiðigjöld. Lítillega var minnst á Bakkafjöru og var greinilegt að bæjarstjórnin í eyjum hafði ekki áhuga á að ræða um Bakkafjöru.
Var síðan haldið upp á Hvolsvöll, þar sem Grétar Mar beindi þeirri spurningu sérstaklega að sveitarstjóranum, Unni Brá, hvað henni fyndist um Bakkafjöru, og fékk þau svör, að hún vildi ekki ræða Bakkafjöru, enda væri búið að ákveða þetta.
Næst var haldið upp í Þykkvabæ og ræddi Grétar þar sérstaklega við oddvitann í Þykkvabæ um Bakkafjöru. Svörin sem hann fékk þar voru á þann veginn, að oddvitinn hefði oft séð þvílíkar breytingar á söndunum eftir brælur, að hann hefði ekki nokkra trú á því, að þetta gæti gengið.
Ýmis önnur mál ræddum við Grétar Mar, m.a. mjög undarlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra að opna fyrir snurvoða veiði í fjörunni frá Þorlákshöfn að Bakka. Var sú ástæða gefin upp, að á þessu svæði fengist eingöngu ýsa. Eins og flestir sjómenn, sem róið hafa við suðurströndina, þá þekkjum við það að vissulega er það rétt að mikið er af ýsu í fjörunni, en oft mjög smá og ræfilsleg, enda er hún þarna í æti ( Nýlega var lokað fyrir trollveiðar þarna vegna of mikils undirmáls ýsu í aflanum). Einnig er mjög mikið af kola þarna, en það sem gerir þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra hvað undarlegasta, er sú staðreynd að einmitt þarna í fjörunni gengur og hrygnir stærsti og verðmætasti þorskurinn og hrygnir m.a. mikið í kringum Sandagrunn. Einnig er ljóst að mikið af svartfugli við eyjar sækir þarna inn eftir í æti, m.a. sandsíli og er alveg ljóst, að þessar veiðar munu skaða það mikið. Ekki mátti nú svartfuglinn í eyjum við því. Það virðist vera þannig, að ef hagsmunaaðilar suða nógu lengi í sjávarútvegsráðherra, virðist vera hægt að ná jafnvel svona heimskulegri opnun í gegn, sem mun fyrst og fremst skaða lífríkið til lengri tíma litið. Meira seinna.
2.11.2007 | 15:32
Bakkafjara 3,5 metrar
Enn er ófært í Bakkafjöru og alla líkur á því að svo verði í allan dag, enda er að bæta í vind þessa stundina.
Að gefnu tilefni langar mig að benda á viðtal í Vaktinni í dag við, Pál Magnús Guðjónsson, það er gaman að sjá svona ungan og efnilegan mann sem ekki hefur látið blekkjast af málflutninga þeirra sem vilja Bakkafjöru. Sumir fylgismenn Bakkafjöru hafa haldið því fram að það sé fyrst og fremst unga fólkið sem vill Bakkafjöru, ég er ekki svo viss um það en þessu er aðeins hægt að svara með kosningu. Meira seinna.
2.11.2007 | 11:00
Bakkafjara = ófært , 4,3 metrar
Herjólfur er farin og þótt hann verði kannski lengi á leiðinni þá fer hann yfirleitt og því getum treyst.
1.11.2007 | 23:27
Niðurstaða skoðanakönnunar um Bakkafjöru, já eða nei og fleira
Eftir að hafa staðið í rúman einn mánuð, þá er niðurstaða könnunar minnar þessi: 496 tölvur hafa kosið (miðað við að enginn hafi svindlað). 58,1% segja nei við Bakkafjöru, en 41,9% já. Áður enn þessi skoðanakönnun hófst hjá mér, var ég ekki viss um hvernig hún færi, en eftir að hafa auglýst hana ýtarlega og komið að máli við fjölmarga aðila, sem ég hef vitnað í, bæði þá sem eru á móti og með. Einnig eftir að hafa séð þær kannanir sem Hanna Birna (milli 70-80% nei við Bakkafjöru) og Grétar Ómars (70% já við Bakkafjöru) þá er mín niðurstaða sú, að bæjarstjórn Vestmannaeyja stendur ein og án stuðnings eyjamanna í þessu máli. Nokkrir hafa reynt að eyðileggja þessa skoðanakönnun með neikvæðni og að hún sé ekki marktæk. Sjálfur hef ég rætt við tölvugúrú, um þann möguleika hvort hægt sé að svindla á henni (ekki kann ég það sjálfur) vissulega er það hægt, en ég trúi því ekki, að nokkrum manni detti í það í hug, enda græðir enginn neitt á því. Hinsvegar er hægt að segja, að hin raunverulega afstaða eyjamanna fáist aldrei nema með kosningu, en ég skil hinsvegar, að bæjarstjórnin leggi ekki í kosningu vegna þess, einfaldlega, að mín tilfinning er sú, að henni myndi bæjarstjórnin tapa.
Mig langar að þakka öllum þeim sem tóku þátt í umræðunni, kosningunni og bryggjuspjallinu og að sjálfsögðu eru allir velkomnir að kíkja til mín í Blíðukró til að ræða hvort sem er Bakkafjöru eða önnur mál.
Á eyjar.net í dag er Jarl Sigurgeirsson með grein, þar sem hann gangrýnir skrif Guðmundar organista. Að sjálfsögðu er lítið mál að finna ýmislegt sem hægt er að setja út á skrifin hjá Jarli, sérstaklega þar sem hann er enn einu sinni að reyna að metast um tímamismuninn á því, hvað það tekur langan tíma að komast á höfuðborgarsvæðið með Bakkafjöru leiðinni eða Herjólfi. Það sem mér finnst um þetta er í raun og veru einfalt: með nýju, hraðgengu skipi ertu tvo og hálfan til þrjá tíma að komast á höfuðborgarsvæðið, en með Bakkafjöruferjunni og bílferð ertu við bestu aðstæður tvo tíma að komast, en þrjá tíma við verstu aðstæður. Þarna er ekki mikill munur, en að mínu mati, er aðal munurinn sá, að ef vegirnir hefðu verið teknir inn í áhættumatið, væri að sjálfsögðu Bakkafjöru leiðin margfalt hættulegri, eins og slysatíðnin á þjóðvegi 1 sýnir. Ekki nenni ég að tjá mig meira um skrifin hjá Jarli, en nægir að benda á orð eins og rógburð og hræðsluáróður, sem gerir að mínu mati hann of hlutdrægan til að vera marktækan.
Ég vona það svo sannarlega, að alt gangi upp í þessu Bakkafjöru ævintýri og að það verði okkur til framdráttar, en ítreka enn einu sinni, að áður en ég fór á fund upp í höll, þar sem Gísli Viggósson útskýrði sína lokaskýrslu um Bakkafjöru, var ég á báðum áttum, en kannski því miður, þá tókst honum að sannfæri mig um, að þetta væri ekki besti kosturinn í samgöngumálum okkar eyjamanna.
Ég sé á netinu, að Herjólfur ákvað að fara ekki afstað á réttum tíma vegna óveðurs, en það sem vekur mesta athygli mína, er að enn einu sinni er Bakkafjöruduflið dottið út, svo mig langar að nefna atriði, sem ég hef ekki nefnt áður, í sambandi við duflið. Á tímabilinu janúar til og með mars 2007, voru 30 dagar ófærir í Bakkafjöru. Í apríl síðastliðnum tók ég eftir því að í 10 daga sýndi duflið ekkert. Ákvað ég þá að hringja í Siglingamálastofnun og var gefið samband við stjórnstöðina, sem fylgist með ölduduflunum. Ég spurði hversvegna duflið í Bakkafjöru sýndi ekki neitt, og var mér þá sagt, að það hefði komið skipun ofanfrá, að skipta ætti um duflið. Var það og gert síðastliðið vor. Síðan þá hefur þetta dufl, sem margir reyndir sjómenn segja sé á röngum stað til að mæla hina raunverulega öldu, oft á tíðum, þegar það er búið að ná sér upp í þá ölduhæð að það er orðið ófært, verið alveg ótrúlega fljótt að detta niður. Miðað við mína reynslu á sjó við eyjar, þá tekur það yfirleitt lágmark um sólarhring fyrir ölduna að lægja eftir mikla brælu. Ekki ætla ég að halda því fram, að þarna sé eitthvað óeðlilegt í gangi, en það vakti athygli mína, að enginn vildi kannast við að hafa tekið ákvörðun um að skipta um duflið, eða hversvegna.
Meira seinna.
1.11.2007 | 22:51
Róður á Blíðu
Fór á sjóinn í gærkvöldi kl. 20 til þess að ná róðri áður en aftur kæmi austan bræla (núna eru austan 35). Veður var frekar leiðinlegt, norðan stinningskaldi, en sjólítið. Ég var með 10 bjóð og lagði eins og fallið gaf til, í vestur og norðvestur á aðfalli, en norðanáttin var það sterk, að á fyrsta tengli fékk ég hálft bjóð í haug á færinu og var ég í raun heppinn að fá ekki línuna í skrúfuna. Afli reyndist vera liðlega 1100 kg og var ég kominn heim hálf níu í morgun.
Það sem vakti mesta athygli mín í róðrinum, er að þrátt fyrir að það sé alþekkt að í myrkrinu veiðist fyrst og fremst ýsa, þá fékk ég rúmlega 100 kg af boltaþorski, þrátt fyrir að hafa ekki verið á þorskslóð. Eitthvað segir mér, að vertíðin verði okkur, þessum kvótalausu, erfið.
31.10.2007 | 06:57
Bakkafjara = 3,8 ófært

30.10.2007 | 20:14
Róður á Blíðu og fleira
Mig langar að byrja á því að þakka öllum sem hafa skrifað á síðuna hjá mér síðastliðna tvo sólarhringa og þá sérstaklega vini mínum Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Fór á sjó í fyrradag með 14 bala. Þetta var fyrsti róður hjá mér í 11 daga. Veðrið var frekar dapurt og mikill sjór. Kannski er besta lýsingin sú, að um morguninn var suðaustan átt með éljum, en upp úr hádegi var komin hvöss norðanátt. Afli var ágætur, eða um tvö tonn. Í gær fór ég svo með 11 bala og var veður þá mun betra, eða hægur vindur og sjólítið. Afli þá var tæp 1800 kg, mest ýsa.
Meðan ég var að landa úr fyrri róðrinum, komu ótrúlega margir í spjall og var umræðuefnið undantekningalaust Bakkafjara. Langar mig að nefna nokkra: Beggi í Skuldinni, Hallgrímur Rögnvaldsson, Haukur á Reykjum, Þór Engla, Jóhannes Esra og fleiri. Allir þessir menn eru á móti Bakkafjöru og varð Þóri Engla á orði að við ættum hreinlega að krefjast þess að fá að kjósa um þetta.
Einn af þeim sem komu á spjall við mig situr núna í bæjarstjórninni sem fulltrúi V-listans. Kom hann með kenningu, sem ég hef nokkrum sinnum heyrt áður en ekki viljað skrifa um. Kenningin er sú, að fyrir tveimur árum síðan hafi fyrrverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, samið um það við íhaldsmenn í innsta kopp í Vestmannaeyjum, að farið yrði í Bakkafjöruna. Ég hef ekki viljað setja þetta fram, vegna þess einfaldlega að ég trúi því ekki að menn hafi samið um þetta, svona löngu áður en skýrsla Gísla Viggóssonar lá fyrir og ætla bara rétt að vona að þetta sé bara kjaftasaga. Í bili ætla ég ekki að nafngreina þennan mann sem sagði mér þetta, en við vitum öll, að það koma bara þrír til greina. Þennan sama aðila spurði ég líka út í, af hverju þeir hefðu ekki krafist þess, að kosið yrði um málið hjá bæjarbúum. Sagði hann mér, að þeir V-lista menn hefðu lagt fram tillögu um kosningu síðastliðið vor, en meirihlutinn hafnað henni.
Aðeins í sambandi við góð skrif hjá Magnúsi Þór, Jarli og Hjölla hér á undan. Jarl nefndi nokkrum sinnum að Bakkafjara yrði mikið lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna. Ég hef átt ýtarlegt samtal við tvo ferðaþjónustumenn hér í eyjum, sem eru mjög framarlega í flokki, en báðir tóku það fram, að þeir vildu ekki láta nafngreina sig. Annar þeirra sagði mér, að hann ætlaði fyrst og fremst að vinna með þeim sem hér ráða, en hann hefði ekki nokkra trú á Bakkafjöru og væri á þeirri skoðun, að þegar menn væru búnir að átta sig á þessu klúðri, þá yrði farið á fullt að finna nýjan Herjólf.
Hinn orðaði þetta þannig, að hann hefði ekki nokkra trú á því, að ferðamenn sem væru komnir til Reykjavíkur færu að gera sér rútuferð austur á Bakka til að fara síðan í skip sem kannski færi og kannski ekki.
Ég er sjálfur á þeirri skoðun, að þó að það sé mikil freisting að orða hlutina þannig að með Bakkafjöruferjunni sé hægt að fara þegar manni hentar, þá er alveg ljóst, að yfir háannatímann, þegar jafnvel 2-300 bifreiðar og tjaldvagnar vilja koma hingað á sama deginum, þá er alveg ljóst að ekki komast allir með og ekki ólíklegt að þeir sem þurfa að bíða lengst, verði búnir að gefast upp og fara eitthvað annað. Ef við erum að tala um 45 bíla skip, og inni í þeirri tölu sé líka pláss fyrir gáma, þá má reikna með að skipið flytji ekki nema hámark 30-40 bíla í ferð. Það þýðir að með 6 ferðum næði í mesta lagi einhverstaðar í kringum 200 bílum, en með Smyrli hinsvegar sem tekur 200 bifreiðar í ferð, þá er ljóst að með 3 ferðum, væri hægt að flytja liðlega 500 bíla yfir daginn. Hugnast mér sú lausn mikið betur til að rífa upp ferðaþjónustuna, en um þetta eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir.
Að lokum þetta; það er einn sólarhringur eftir í skoðanakönnuninni hjá mér Bakkafjara já eða nei. Er ég núna farinn að skilja betur hversvegna bæjarstjórnin þorir ekki kosningu, því að bæði bendir skoðanakönnunin og allur sá fjöldi fólks sem hefur komið að máli við mig undanfarnar vikur til þess að bæjarstjórnin myndi tapa þeirri kosningu.
Meira seinna.
27.10.2007 | 18:24
Ef Bakkafjöruhöfnin verður að veruleika
Þá þurfa eyjamenn allir að fara þarna um ef þeir eru á leiðinni í bæinn. Ansi hætt við því að áhættumatið breytist aðeins við það. Einnig er ljóst að yfir vetrar mánuðina mun það taka mun lengri tíma að komast þetta heldur en sumir gera sér vonir um.
![]() |
Bílvelta á Hellisheiði, varað við mikilli hálku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |