Bakkafjara kl : 10,00

Ófært =  3,6 metrar, það skal tekið fram að þetta er ölduhæð að jafnaði en stakar öldur eru miklu hærri eins og allir sjómenn þekkja og hæpið að duflið mæli brotsjó.

 En örvæntið ekki þið sem eruð svo hrifin af Bakkafjöru, það verður allavega næg atvinna á Bakkahótelinu við að þjónusta þá sem eru að bíða eftir að það verði fært.


Bakkafjara= 3,6 metrar

En er ófært í Bakkafjöru en Herjólfur er að fara, nú væri nú munur að hafa c,a 100 metra skip sem færi mun betur með farþegana en núverandi Herjólfur en hann mun samt skila okkur alla leið eins og vanalega.

Bakkafjara ófært = 4,2 metrar

Ég var að ná í unglinginn á heimilinu niður í Herjólf. Það var smá seinkun en samt allt í lagi segir daman. Bakkafjara er hinsvegar ófær og spáin ekki góð, kannski maður ætti að reisa hótel á bakka, gæti skilað vel í framtíðinni ef þetta ævintýri verður einhvertímann að veruleika.

Lenti á spjalli við vin minn Einir Ingólfs í Ísjakanum í dag, Einir er á móti Bakkafjöru og telur einfaldlega að við græðum ekkert á henni.

 Flestir sem eru fylgjandi Bakkafjöru tala um að losna við sjóveikina en því miður svo mun ekki verða, kannski mun styttri sjóferð fara betur með fólk en það mun ekki líða á löngu áður en fólk sem er virkilega illa sjóveikt verður farið að bölva Bakkaferjunni. Margir hafa talað um  stækkun á atvinnu svæði eyjamanna, það væri svo sem hægt að taka undur það ef að einhver stóriðja væri á suðurlandi en svo er því miður ekki.

Ég skora á bæjarstjórn eyjamanna að láta kjósa á milli Bakkafjöru eða stærri Herjólfs. Meira seinna.


Bakkafjara ófært = 3,6 metrar

Þeir sem voru svo heppnir að koma með Herjólfi í kvöld komast heim í kvöld. Þeir hinsvegar sem hefðu ætlað að koma með Bakkaferjunni í kvöld er bent á að gera ráð fyrir að þurfa að gista á Bakka.

Bakkafjara

Ég hef verið ásakaður um að tala fyrst og fremst gegn Bakkafjöru. Ekki er ég alveg sammála því, þó vissulega ég hafi margar efasemdir um þessa framkvæmd, þá vona ég svo sannarlega, að hún verði okkur eyjamanna til góðs. Mig langar að nefna nokkur sjónarmið til viðbótar við það sem á undan hefur komið. 

Í gær lenti ég á spjalli við þá mága, Þór Vilhjálmsson og Kidda hans Dolla á Sjónarhól (mér þykir það sérstaklega ánægjulegt á sjá þetta nafn á bát í eyjum, Dolli á Sjónarhól, enda var Dolli einn besti vinur minn, síðustu tuttugu árin sem hann lifði). Bæði Þór og Kiddi eru mjög fylgjandi Bakkafjöru. Aðal rökin sem Þór taldi upp, eru þau t.d. veruleg stækkun á atvinnusvæði Vestamannaeyinga. Ekki er ég mjög trúaður á því, en vonandi verður það rétt. Báðir komu þeir hinsvegar með það, að fjölmargir ættingjar þeirra ofan af landi veigra sér við að koma til eyja, nema með flugi, enda er mikið af þeirra fólki, að þeirra sögn, væru ekki með þeim sjóhraustari. Það er alveg rétt, að mikið af því fólki sem vill ekki siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn, er það vegna sjóveiki, er það vel skiljanlegt. Vonandi, ef af þessu Bakkafjöru ævintýri verður, að fólk losni við sjóveikina, allavega verður sjóferðin styttri, en mín reynsla segir mér það, að hálftíma sigling í slæmu sjóveðri, geti nú líka orðið sjóveiku fólki erfið og ekki gott að eiga kannski eftir að keyra tvo tíma til að komast í bæinn.

Eitt greip ég hjá Þór, og það var þegar ég nefndi við hann, þann möguleika að Bakkaferjan, samkvæmt því sem Gísli Viggósson segir, lendi í því að taka niðri á rifinu og þurfa þá jafnvel hugsanlega að bakka út úr briminu til að rétta skipið af,(Vísa i grein Sveins Rúnars Valgeirssonar fyrr í sumar) Þór er reyndur sjómaður frá fyrri tíð og sá ég á honum, að honum leist nú ekki alveg á þetta, en þetta breytir samt ekki því, að hann og Kiddi eru fylgjandi Bakkafjöru.

Í dag heyrði ég í vini mínum, útgerðarstjóranum í Ísfélaginu, Eyþóri Harðarsyni. Eyþór er, eins og flestir vita, í stjórn Ægisdyra og hefur unnið mikið í gangamálum, en það sem vakti athygli mína er, að Eyþór er algjörlega á móti Bakkafjöru og orðaði hann það þannig, að Bakkafjara væri bæði tímaeyðsla og vitleysa.

Ég ákvað í morgun að hringja upp á Bakkaflugvöll. Ég gleymdi reyndar að spyrja um nafn, en átti annars ágætt samtal við þann sem þar stjórnar. Sjónarmiðið sem ég fékk þar, var að hann hefði verið mjög efins í upphafi, en er samt kominn á þá skoðun í dag, að ef það fáist nógu miklir peningar í þetta, þá verði þetta klárað. Ég spurði hann m.a. út í ágæta mynd, sem bæjarstjórinn okkar er með á blogginu sínu, vegna uppgræðslu á Bakkafjöru og sagði hann mér, að sáð hefði verið síðastliðið vor í c.a. 50 fm. Það væri þegar farið að skila sér og í raun og veru væri hann ekki í nokkrum vafa um það, að það væri hægt að græða upp ströndina, en það muni kosta bæði mikið fé, mikinn tíma og mikla vinnu. Varðandi reynslu hans af fjöruborðinu, sagði hann mér nokkrar sögur af því, hvernig skip, sem lentu í fjörunni jafnvel hurfu eftir stuttan tíma. Hinsvegar nefndi hann líka nokkur dæmi um skip, sem hefðu komið upp í fjöru í stórstraums brælum og borist töluvert upp fyrir fjöruborðið. Þau væri jafnvel sjáanleg mörgum áratugum seinna, t.d. nefndi hann stefni á skútu, sem strandaði í Bakkafjöru 1920, ennþá sæist í stefnið, þrátt fyrir allan þennan tíma. Varðandi áhættumatið var hann mér sammála um það, að vissulega væri Bakkafjöru leiðin mun hættulegri, miðað við að fara á höfuðborgarsvæðið, en hann sagði mér líka þá skoðun sína, að margir settur fyrir sig þennan akstur, en það myndi hverfa með reynslunni. Eitt greip ég þó hjá honum, varðandi frátafir og var hann mér sammála um það, að mun oftar yrði ófært í Bakkafjöru, heldur en í Þorlákshöfn. Nánast lítið hefur verið rætt við hann og aðra bændur varðandi landakaup og vegagerð að fjörunni, en hann sagði það sína skoðun, að það yrði sennilega lítið vandamál. Mikið hefur verið talað um sandfokið í fjörunni. Vildi hann koma því á framfæri, að það sem við eyjamenn köllum sandfok, sé fyrst og fremst fíngert ryk, sem þyrlast upp, því sandurinn sé það þungur að hann fari ekki hátt, og gaf hann lítið fyrir þá skoðun, að í Bakkafjöru yrði boðið upp á frían sandblástur á bílum. Þakkaði ég honum fyrir samtalið og hans sjónarmið. Vonandi einhver hafi ánægju af að lesa þetta. Meira seinna.

Ítreka áskorun á bæjarstjórann að leyfa okkur að kjósa um þetta.


Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum

Hann lifir!!!!!

Ég var farinn að efast, enda lítið lífsmark verið síðustu mánuði (sérstaklega á blogginu). Í bæjarblöðunum okkar er viðtal við bæjarstjórann vegna auglýsingar um forval vegna Bakkafjöruútboðs, þar sem hann segir:"Afar mikilvægt að vilji heimamanna komi skýrt fram." Ég hef að undanförnu verið með skoðanakönnun á blogginu hjá mér (georg.blog.is) þar sem spurt er:"Bakkafjara, já eða nei." Einnig hef ég rætt þessi mál við mikið af fólki hér í Vestmannaeyjum og þrátt fyrir það að ég hafi verið á þeirri skoðun í upphafi, að sennilega væri meirihluti eyjamanna samþykkur þessari Bakkafjöru hugmynd, en nú hinsvegar, eftir að hafa skoðað þetta mál alt síðastliðið ár, hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að bæjarbúar og bæjarstjórn séu ekki samstíga í þessu máli og ítreka þá skoðun mína, að eina leiðin til að fá þetta á hreint er með kosningu.

Ég skora hér með á bæjarstjórann í Vestmannaeyjum að beita sér fyrir því, að eyjamenn allir fái að kjósa um Bakkafjöru eða nýjan Herjólf. Það er það eina rétta.


Mikil Þorskveiði við suðurströndina

Það er svolítið skrítið, að þegar maður hugsar um allan niðurskurðinn í þorskveiðiheimildum á þessu fiskveiðiári, að á sama tíma sé mjög góð þorskveiði hjá trollbátum í Vestmannaeyjum (eftir því sem mér er sagt) og jafnvel betri en mörg síðustu árin.

Á síðasta fiskveiðiári sagði Hafrannsókn að hin mikla þorskveiði á síðustu vertíð hefði komið til vegna þess einfaldlega að þorskurinn væri svo veiðanlegur, vegna þess að það vantaði æti í sjóinn. Á sama tíma var frekar léleg veiði í troll, svo spurningin er því þessi núna: Er svona góð veiði í troll vegna þess, að nú sé alt í einu nóg æti, eða getur verið að það sé einhver skekkja í útreikningum hjá Hafró.

Sjálfur hef ég núna að undanförnu reynt að forðast þorsk eins og ég mögulega get, en freistaðist þó til þess í síðasta róðri, að henda einu bjóði, þar sem að ég vissi að gæti verið þorskur og viti menn, á bjóðið fékk ég rúmlega 100 kg af þorski með öðru, svo eitthvað er nú bogið við þetta, þar sem að ég þarf að leigja mér þorskkvóta allt fiskveiðiárið, þá verð ég að viðurkenna það, að í fyrsta skipti á ævinni, þá kvíði ég rosalega fyrir komandi vertíð.  


Bakkafjara

Í dag fékk ég í hendurnar þessi svokölluðu útboðsgögn vegna forvals vegna ferjusiglinga milli Vestmannaeyjar og Bakkafjöru. Ég er rétt að byrja að lesa þetta yfir, en rek strax augun í nokkur atriði í kaflanum um lýsing á ferju og siglingaleið t.d. Áður en komið er inn í höfn, þarf að fara yfir sandrif, en fyrir framan höfnina er hlið sem er 6-7 metrar dýpi, en annars staðar á rifinu er dýpið nokkuð minna. (Þetta þekkja margir sjómenn í Vestmannaeyjum og hafa margir tekið eftir því, að oft eftir verstu brælur, þá færist hliðið til).

Annað: Ferjan skal vera ekju- og farþegaskip sem getur tekið 250 farþega og 45 bíla að lágmarki. Gert er ráð fyrir að ferjan verði um 60 metra löng og 15 metra breið með 3,3 metra djúpristu, Ganghraði ferju verður um 15 sjómílur og það muni taka um 30-35 mínútur að sigla milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja (ef þetta skip á að ganga til Þorlákshafnar, þegar ófært er í Bakkafjöru, þá er það alveg örugglega ekki hægt á styttri tíma en með núverandi Herjólfi).

Það sem vekur hinsvegar mesta athygli mína er síðasta atriðið í útboðinu, þar sem stendur orðrétt: Afhending - ferjusiglingar hefjast 01.07. 2010 - 01.07.2011. Sem sé, það er búið að fresta þessu að öllum líkindum til sumarsins 2011. Meira seinna.


Róður á Blíðu

Fór á sjó í fyrradag, eftir að hafa beðið allan daginn eftir því, að vindinn lægði og vitandi það að veðurspáin næstu vikuna væri mjög slæm, þá ákvað ég að fara á sjóinn kl. 18 í fyrradag. Veðrið var mjög slæmt, eða c.a. norðan 15 metrar, svo ég fór beint í skjól við Bjarnareyna og lagði þar 8 bjóð. Eftir tveggja tíma legu byrjaði ég að draga og fékk 100 kg. á bjóð, nánast eingöngu ýsu. Eftir að hafa gert að fiskinum og landað honum, fór ég heim, var klukkan þá orðin þrjú um nóttina. Fékk ég mér að borða og fór svo aftur af stað til að ná öðrum róðri, áður en hann brældi aftur. Fór ég með 10 bjóð með mér og var byrjaður að leggja kl. 5, rétt fyrir birtingu, um átta leitið, hafði ég lagt níu bjóð og dregið tvö, en hætti við að leggja síðasta bjóðið, því þá var kominn austan kaldi. Hóf ég þá að draga með enn meiri hraða, því hann spáði suð-austan stormi seinni partinn. Um hádegi átti ég eftir tvö bjóð, sunnan við Bjarnarey og var þá komin austan 14 metrar og talsverður sjór, og það sem verra er, straumurinn var á móti vindinum. Fékk ég tvisvar á mig góða öldu og fylltist dekkið hjá mér við seinni ölduna. Náði þó að klára að draga og reyndist aflinn vera um 1100 kg. á 9 bjóð og var ég kominn heim kl. 15:00.

Það sem vakti mesta athygli mína þennan sólarhringinn, er að þegar ég var að leggja í fyrri róðurinn, þá kom þar að fyrrverandi skipstjórinn á Guðrúnu VE, til að kveðja, enda hefur hann nú selt allar eigur sínar í Vestmannaeyjum og eftir því sem hann sagði, á hann síður von á því að hann leggi fyrir sig sjómennsku í framtíðinni. Þetta þótti mér frekar dapurt, enda Sigmar skipstjóri með einum af okkar reyndustu mönnum í Vestmannaeyjum og mikill missir af honum.

Annað sem vakti líka athygli mína, er að þegar ég var að ljúka við að landa úr seinni róðrinum, þá kom þar að vinur minn Óli Gísli, sem hefur í mörg ár starfað í saltfiski, bæði hjá öðrum og sjálfum sér. Fyrir tæpu ári síðan hóf hann að kaupa og verka þorsk sjálfur í salt, en eftir að niðurskurður í þorski varð að veruleika, hefur þorskurinn hækkað það mikið í verði, að grundvöllurinn fyrir hans vinnu er farinn og ég gat ekki betur heyrt á honum, en að hann væri jafnvel að hugleiða það að fara frá eyjum. Svo spurning mín er þessi, hvað hafa þessir tveir menn út úr þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum (því ekki getum við öll farið að mála).

Það sem mér þykir verst í þessu öllu, eru þessi skilaboð sem við fáum reglulega, bæði frá núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn, um að fiskverkafólki og sjómönnum þurfi að fækka, það eigi að hagræða og við eigum að gjöra svo vel að finna okkur eitthvað annað að gera. Þessu er ég ekki sammála og þessu þurfum við að breyta.

Meira seinna.


Margir bloggarar hafa fjallað um mál Margrétar Sverrisdóttur í morgun

Ég er algjörlega sammála konunum í Frjálslynda flokknum og þeirra ályktun og finnst það frekar skrýtið að sumir bloggarar skuli skrifa um Margréti Sverrisdóttur sem óháða. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra vor, var borinn upp listi frjálslyndra og óháðra í Reykjavík. Var í fyrsta sæti Ólafur F. Magnússon og í öðru sæti Margrét Sverrisdóttir, fyrir hönd Frjálslynda flokksins. Í þriðja Guðrún Ásmundsdóttir fyrir hönd óháðra. Síðastliðinn vetur segir síðan Margrét sig úr Frjálslynda flokknum og stofnar Íslandshreyfinguna. Svo spurningin er þessi: Margrét Sverrisdóttir var kosin í borgarstjórn sem Frjálslynd, ekki sem óháð, er því ekki eðlileg krafa, að næsti maður á lista fyrir hönd Frjálslynda flokksins taki við sæti hennar, á meðan Ólafur er frá, ég bara spyr?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband