Þjóðhátíðarlok

Búinn að koma öllu draslinu heim, veðrið er enn frábært, hægur vindur og heilsan bara þokkaleg. Búinn að taka fram sjónaukann, mikið hringt og beðið um lunda, enda ekkert til. Á þessari stundu er gríðarmikið flug í flestum fjöllum, en vantar vindinn. Á hinsvegar að vinda á morgun með rigningu.

 Í minningunni verður þessi Þjóðhátíð með þeim bestu veðurfarslega séð, og ef eitthvað var, þá fannst mér kannski aðeins vanta smá rigningu annað slagið.

En semsé, lundinn búinn, harðfiskurinn búinn, vodkinn búinn og kellingin lúin.


Bakkafjara fært ? = 2,6 metrar

En allgerlega ófært í fjörunni vegna sandfoks og stór spurning hvort það sé ekki bara stórhættulegt  að vera þarna niður í fjöru. Nýlega var farið að sá í fjöruna en það kæmi mér ekki á óvart þótt sú vinna  væri þegar fokinn vestur fyrir Reykjanes?

Búinn að tjalda

Erum við norður endann á Týsgötunni ( Möttukot). Lundinn er tilbúinn,búinn að smakka vökvann og harðfiskinn Tounge skildumæting hjá öllum bloggurumKissing, veðrið er frábært en það spáir vind og regni á morgunn. Enginn er verri þó hann vökni, bara vökva betur að innan Halo

Samgöngumál (hversvegna vill ég frekar nýtt, gangmeira skip, frekar en Bakkafjöru?)

Þegar umræðan um Bakkafjöru hófst, þá var ég sem sjómaður mjög efins um möguleikana á að gera þarna höfn. Ég hef nú stundað sjóinn við Vestmannaeyjar í 20 ár og oftsinnis verið á veiðum inni í Bakkafjöru, bæði fyrir utan og innan rif. Fyrsta tilfinning mín var sú, að þessi hugmynd væri nánast fáranleg, en ákvað samt að mæta á fundinn, þar sem rannsóknaraðilar skiluðu af sér lokaskýrslu um möguleikann á hafnargerð þarna. Á fundinn mætti ég algjörlega með opnum huga og ákveðinn í að láta sérfræðingana sannfæra mig um að þetta væri hægt, en þvert á móti þá sannfærðu mig þessir sérfræðingar um að þetta væri varla mögulegt (þó vissulega allt sé hægt, ef í það eru lagðir nógu miklir peningar).

Hér koma nokkur dæmi:

 Landgræðslustjóri sagði meðal annars: "Ef við getum byggt nógu öfluga varnargarða til að fyrirbyggja að sjórinn gangi jafn langt upp á land og hann gerir núna, og ef við getum gert varnargarða bæði vestan og austan við Bakkafjöru, til að minnka sandfok og ef við getum gert einhverskonar ræsi, til að losa okkur við allt það vatn sem safnast fyrir ofan fjöruna, þá ætti þetta að vera hægt að græða upp Bakkafjöru:" og svo bætti hann við:" Og að sjálfsögðu er allt hægt, bara ef við fáum nógu mikið af peningum í þetta."

Í lokaskýrslu fulltrúa Siglingamálastofnunar kemur fram, að gert sé ráð fyrir því, að í verstu veðrum, sé hugsanlegt að skipið geti tekið niður á rifinu fyrir utan Bakkafjöru. Einnig er gert ráð fyrir því, að við innsiglinguna sé einhverskonar hlífðarstoðir, sem skipið á að geta farið utaní í slæmum veðrum, til að komast inn í höfnina. Ég spurði sjálfur Gísla Viggósson, hvort GPS mælingar hefðu verið gerðar á sandinum. Hann kvað svo ekki vera. Ég spurði hann líka, hvort straummælingar hefðu verið gerðar fyrir utan fjöruna, fékk nei við því líka. Að lokum spurði ég hann, hvernig væri með siglingaleiðina þarna í austlægum áttum (ástæðan fyrir þessari spurningu er báturinn Sjöstjarnan VE, sem fórst þarna í austanbrælu og einn maður með). Svarið var einhvernveginn þannig, að það væri skipstjóranns að meta, hvort fært væri og þeim kæmi það ekki við.

Eitt atriði enn langar mig að nefna. Það er þessi vegur frá Bakkafjöru. Ég hef stundum þurft að fara þarna og tekið þá Bakkaflug og bílaleigubíl. Vegurinn er mjög mjór og hættulegur og yfir vetrarmánuðina er hálkan ótrúlega lúmsk (bara síðastliðið ár, hafa tveir Vestmannaeyingar látist á suðurlandsvegi). Bara þetta atriði er að mínu mati nóg til að staldra við.

Á síðasta ári, átti ég þess kost að fara til Færeyjar og sigla með Smyrli, sem siglir milli Þórshafnar og Suðureyjar, tæpar 40 mílur, svipað og milli Vestmannaeyjar og þorlákshafnar. Mér hafði verið sagt að þetta skip væri hreint ótrúlega stöðugt, en ákvað að kanna málið sjálfur (milli 60-70 myndir eru inni á Heimaklettur.is). Fyrri ferðin tók eina klukkustund og 45 mínútur og var ganghraði liðlega 21 míla. Í seinni feðinni lentum við í austan brælu, en fórum samt á sama tíma. Ég verð að viðurkenna það að mér brá töluvert við að sjá, að ekki var gert ráð fyrir neinum festingum á bílum og að engir farþegar virtust hafa áhuga á að fá sér koju. Mín reynsla er sú, að skipið hreyfðist ekki, þó að stíf austanátt væri á hlið og enginn vafi á því hjá mér, að þetta er nákvæmlega það sem okkur vantar.

Meira seinna.

p/s Vinkona mín Dollý (Sólveig Adólfsdóttir) var að skamma mig fyrir að halda því fram, að þeir einu hefðu áhuga á Bakkafjöruhöfn sem ættu sumarbústaði á suðurlandi. Ekki er ég alveg tilbúinn að samþykkja það, en mér hefur hinsvegar oft verið bent á, að margir hörðustu stuðningsmenn Bakkafjöruhafnar innan Íhaldsmanna í eyjum, eigi einmitt bústaði hér á suðurlandi, þó ekki ætli ég þeim að hafa það sem einhverja aðalástæðu.


Nú er aðeins vika í Þjóðhátíð

Að sjálsögðu eru allir bloggarar velkomnir í tjaldið (Möttukot), en við erum með tvöfalt tjald.

Veðrið að undanförnu hefur verið alveg frábært, hægur vindur, kannski fullhægur fyrir lundakarlinn, en frábært fyrir trillukarlinn. Ég lagði lúðulínu í gær, dró í dag. Afli var um 500 kg af blönduðum fiski, þar af 17 skötur og 3 fallegar lúður, restin var mest langa.

 Heyrði í vini mínum áðan, sem var í lunda í dag. það vindaði aðeins um hádegi og þar sem mikill lundi var í fjöllunum í dag, náði hann að veiða liðlega 300 lunda á stuttum tíma. Ekki hefur verið mikið af sílifugli að undanförnu, en þó verður vart við hann á öllum veiðistöðum.

Úti sést hvergi ský á lofti og ekki bærist hár á höfði. Sjórinn er spegilssléttur og fyrir fólk sem ekki þekkir til sjómennsku, þá mætti nánast halda að lítið mál væri að taka land í Bakkafjöru, en svo merkilega vill til að stundum hvessir í Vestmannaeyjum. Stundum brýtur í Bakkafjöru og oft, sérstaklega yfir hörðustu vetrarmánuðina, þegar samgöngurnar eru okkur sem mikilvægastar, þá er algjörlega ófært í Bakkafjöru.

Við þurfum stærra og gangmeira skip strax.


Eru stærstu samgöngumistök í sögu Vestmannaeyja í uppsiglingu?

Ég tel svo vera.

Vissulega er það nokkuð áfall að göng skulu hafa verið slegin af, en við gátum þó kannski sagt okkur þetta sjálf.

Varðandi það sem bæjarstjórinn kallaði kost númer 2, Bakkafjöru, þá tel ég þá hugmynd vera ávísun á (eins og ég hef svo oft skrifað) að færa samgöngur okkar hugsanlega aftur um 50 ár.

Herjólfur hefur þjónað okkur vel og dyggilega undanfarna áratugi, við þekkjum hann og treystum og höfum sem betur fer haft vit á því hingað til að stækka skipið í hvert skipti, sem það er endurnýjað. Þessi svokallaða Bakkaferja á að taka aðeins 250 farþega (núverandi tekur 520). Einnig á hún að taka um 50 bifreiðar, en núverandi tekur á milli 60-70. Þær teikningar sem ég sá í lokaskýrslu Siglingamálastofnunnar, sýndu útreikninga, þar sem miðað var við skip, sem gengur mun hægar en núverandi Herjólfur. Samt á það skip að ganga til Þorlákshafnar, þegar ófært er í Bakkafjöru. Síðastliðinn vetur hef ég reynt að fylgjast með ölduduflinu við Bakkafjöru og miðað við 3,7 metra í ölduhæð, sem siglingamálastofnun notar til viðmiðunar um hvort sé fært eða ófært í Bakkafjöru, og telst mér til að í vetur hafi verið ófært í ca. 2 mánuði á tímabilinu sept.-apríl. Inni í þessum tölum eru ekki öll þau skipti, sem ófært er vegna sandfoks eða vegna annarar ófærðar.

Það sem við þurfum að fá er skip, sem er stærra en núvernadi Herjólfur (tekur sem sé fleiri farþega og ökutæki) og getur farið siglingaleiðina Vestmannaeyjar-Þorlákshöfn á innan við tveimur tímum. Slík skip eru til í dag og eftir því sem mér er sagt, jafnvel möguleiki á að fá slíkt skip afhent aðeins ári eftir að það er pantað.

Ég skora á eyjamenn að standa saman og hafna Bakkafjöru, ekki láta sumarbústaða eigendur á suðurlandi ráða því, hvernig framtíðar samgöngur okkar verða. Bakkafjöruhöfn er ekki framför, heldur afturför.

Nýtt gangmeira skip, strax.  


Skál fyrir því

Einn eyjaöllara takk .Sideways

mbl.is Rís bjórverksmiðja í Vestmannaeyjum í vor?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smábáta sjómenn þekkja vel hættuna af allskonar rekavið og hlutum

sem þeir sigla stundum á á siglingu. Á þessari stundu er Binni í Gröf Ve að draga Norðurljós VE í land eftir að Norðurljós VE keyrði á reka vestan við eyjar , að sögn kom mikið högg á bátinn og fór strax að leka með öxlinum. Björgunar báturinn Þór fylgir þeim eftir til öryggis. Mér er sagt að eingin slys hafi orðið um borð. Meira seinna.

Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

25. júlí 2007 :

Fiskistofustjóri óhress með leiðara Morgunblaðsins

Í Morgunblaðinu í gær var leiðari undir fyrirsögninni „Hvers vegna?“. Fiskistofustjóri er ekki par hrifinn af skrifum blaðsins og hefur af því tilefni sent ritstjóra Morgunblaðsins bréf.

Í bréfinu telur Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri ritstjórn Mbl. ekki hafa áhuga á því sem jákvætt er í starfi Fiskistofu, þess í stað er reynt að sverta stofnunina og draga úr trausti Fiskistofu.

Þá telur fiskistofustjóri grundvallarmun vera á þeim sem hringja í Fiskistofu og til Morgunblaðsins. „Ég held að þeir sem hringja í Fiskistofu geri það í þeim tilgangi að styðja við og styrkja eftirlitið. Þeir fari langflestir eftir leikreglunum og vilja að aðrir komist ekki upp með annað og því hringja þeir í Fiskistofu, sem þeir vita að reynir að upplýsa þau mál sem grunur þeirra beinist að.
Mig grunar aftur á móti að þeir sem hringja í Mbl. séu menn sem eru einhverra hluta vegna argir út í fiskveiðistjórnunarkerfið og vilja koma höggi á það.“

 

Sjá bréfið í heild:


http://fiskistofa.is/skjol/frettir/Morgunbladid_2407_2007.pdf

 


Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

24. júlí 2007 :

Heimilt verður að færa eftirstöðvar byggðakvóta milli ára

Senn líður að því að byggðakvóta þessa fiskveiðiárs verði úthlutað. Langt og strangt kæru- og athugasemdaferli sem Alþingi samþykkti í vor er nú brátt lokið og því ekkert til fyrirstöðu að kvótanum verði úthlutað.

Þegar ljóst varð hversu ferlið sem lögin sögðu til um var langt fór LS fram á að hægt yrði að færa óveiddann byggðakvóta milli ára. Fullur skilningur var á beiðni LS og greinilegt að ráðuneytið mundi leita leiða til að verða við óskinni.

Í Blaðinu á morgun er þetta staðfest. Þar greinir sjávarútvegsráðherra frá því að „óveiddur byggðakvóti þessa fiskveiðiárs muni ekki brenna inni heldur koma til viðbótar byggðakvóta næsta árs.“
„„Vð gerum okkur grein fyrir þeim vanda sem getur komið upp í einstökum tilvikum og við munum bregðast við því þannig að byggðakvóti þeirra sem ekki ná að veiða hann mun ekki falla niður heldur gefst mönnum færi á því að geyma byggðakvótann fram yfir næstu kvótaáramót alveg eins og menn hafa möguleika varðandi annan kvóta“ segir Einar Kristinn“ í viðtali við Blaðið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband