Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

23. júlí 2007 :

Austfirðingar – mikilvægara að vísa stærri skipum utar en skerða kvótann

Stjórn Félags smábátaeigenda á Austurlandi samþykkti á fundi í gær, sunnudaginn 22. júlí, eftirfarandi:

„Stjórn Félags smábátaeigenda á Austurlandi telur engin rök fyrir rúmlega 30% niðurskurði á þorskvóta, sem leiðir óhjákvæmilega til samþjöppunar aflaheimilda með tilheyrandi byggðaröskun.

Vill stjórnin að línuskipum 100 brl og stærri verði bannaðar veiðar innan 6 sml frá landi og skipum sem veiða með togveiðarfærum verði bannaðar veiðar innan 12 sml frá landi.
Teljum við að sú aðgerð að vísa stærri skipum utar sé meiri friðunaraðgerð en niðurskurður aflaheimilda og líklegri til að skila árangri í uppbyggingu þorskstofnsins.

Fyrir hönd stjórnar Félags smábátaeigenda á Austurlandi
Ólafur Hallgrímsson formaður“


Sigurmundur og Unnur hafa unnið mikið og gott starf í ferðaþjónustunni

Ég á nú samt frekar von á því að við þurfum áfram að treysta á fiskinn, og vonandi munum við aldrei sjá íbúa fjölda Heimaeyjar fara niður í 500.

mbl.is Sigurmundur Einarsson og Unnur Ólafsdóttir reka ferðaþjónustuna Viking Tours
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lundi og Þjóðhátíð

Lundaveiði hefur gengið vel í Vestmannaeyjum, þrátt fyrir að þeir rannsóknaraðilar sem eru að kanna hvaða ástæður liggja fyrir misheppnuðu varpi lundans síðastliðin 3 ár (ef það er misheppnað í ár?). Ég var staddur í Miðkletti í gær í góðri lundaveiði. Um miðjan dag, rétt áður en ég hætti, tók ég eftir mjög undarlegu skýi, sem nálgaðist hratt og skyndilega var eins og hellt úr fötu. Grenjandi rigning og þá mundi ég, hvar ég hafði séð þetta ský áður, á síðustu Þjóðhátíð. SVO ÞJÓÐHÁTÍÐARVEÐRIÐ ER BYRJAÐ AÐ LÁTA Á SÉR KRÆLA. Whistling

Samgöngumál Vestmannaeyja

Ég var að tala við vin minn Páll Scheving, sem situr í minnihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja (fyrir V-lista). Samkvæmt öllum heimildum, þá kostar ein ferð með Herjólfi 1.600.000, innifalið í því er allt mannakaup, olía o.s.fr. Þessar upplýsingar voru, eftir því sem mér er sagt, sendar til núverandi samgönguráðherra, sem samþykkti að greiða 30 milljónir fyrir ca. 20 auka ferðir. Síðan var vegagerðinni falið að ganga formlega frá samningum við Eimskip, en þá vandaðist málið, því að Eimskip segist ekki vera tilbúið að fara þessar auka ferðir fyrir minna en 3 milljónir á ferð, svo þar stendur hnífurinn í kúnni, því enginn vill borga meira. En að sjálfsögðu er Eimskip alveg tilbúið að græða aðeins á þessu.

Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

20. júlí 2007 :

Enn eftir að veiða 33 þús. tonn af ýsu

Á yfirstandandi fiskveiðiári er heimilt að veiða um 115 þús. tonn af ýsu. Útgefinn heildarafli fyrir árið er 105 þús. tonn og við hann bættist það sem flutt var milli ára, um 10 þús. tonn.

Nú þegar aðeins er eftir einn og hálfur mánuður af fiskveiðiárinu, er búið að veiða 81.443 tonn. Það er því ljóst að ekki tekst að nýta ýsuna til fulls á þessu ári. Því má gera ráð fyrir að svipað magn verði flutt yfir á nýtt fiskveiðár 2007/2008 og í fyrra.

Þar sem nær ómögulegt er að veiða ýsu öðru vísi en að þorskur veiðist með, má gera ráð fyrir verulegri skerðingu á ýsuafla næsta árs þó veiðiheimildir verði svipaðar og í ár.

Þitt svar. Vinsamlega skrifið undir


Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

18. júlí 2007 :

Fiskistofa gerir athugasemdir við skrif Morgunblaðsins um kvótasvindl

Fiskistofa hefur sent frá sér ítarlegar athugasemdir við grein í Morgunblaðinu um svonefnt kvótasvindl sem birtist þar 4. júlí sl.

Fiskistofa gerir athugasemdir eftirtalda efnisþætti:

„Vatnsaðferðin“

„Algengara meðal kvótalausra“

„Vinnubrögð Fiskistofu ótrúleg“

„Brottkast af ólíkum ástæðum“

„Á að undanskilja smáfiskinn?“

„Forskot frystitogaranna“

„Tegundasvindl í gámum“


Í lok athugasemdanna segir eftirfarandi:

„Fiskistofa vill að lokum árétta að þessum athugasemdum er ætlað að stuðla að því að umræða um fiskveiðistjórnunina byggi á bestu upplýsingum enda verður að ætla að þeir sem þátt taka í þeirri umræðu vilji heldur hafa það sem sannara reynist.“


Sjá athugasemdir Fiskistofu í heild:
http://fiskistofa.is/skjol/frettir/athugasemdir_1307_2007.pdf

 


Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2007

Á morgun eru nákvæmlega 2 vikur í Þjóðhátíðina. Eins og venjulega verðum við með tvöfallt hvítt tjald í dalnum. Þar verður boðið upp á söng og gaman og nóg að borða (er búinn að gera ráðstafanir til að geta boðið upp á reyktan lunda). Að sjálfsögðu eru allir bloggvinir velkomnir í Möttukot. Þegar fyrir liggur, í hvaða götu við verðum, verður það upplýst hér.

p/s

Gítar verður á svæðinu, en alltaf eru fleiri gítarleikarar velkomnir.

Meira seinna.


Lundinn, Hafró, Bakkafjara

Í Fréttum í dag er opnuviðtal við Erp Snæ, sem nýlega var ráðinn til starfa hjá Rannsóknarsetrinu til að rannsaka betur ástæður fyrir misheppnuðu varpi bjargfugla í Vestmannaeyjum.

 Fyrir þremur vikum síðan átti ég ágætis spjall við Erp, þar sem hann sagði mér að samkvæmt sínum athugunum í Ystakletti, þá væri varp lundans c.a. 50%. Í viðtalinu í Fréttum talar hann hinsvegar um að varpið sé einungis c.a. 20%. Þetta finnst mér mjög athyglisverð breyting, því undanfarna daga, hef ég orðið var við mjög mikið af sílisfugl. Í raun og veru hvarflar að manni ýmsar spurningar, t.d. hvort þessi fyrsta tala, sem hann gaf mér upp tengist eitthvað því, að hugsanlega sé auðveldara að fá styrki til frekari rannsókna ef ástandið er þeim mun verra.

Þetta er ekki ósvipað og manni finnst stundum vinnubrögðin hjá Hafró vera, þar sem þeim mun meiri niðurskurður sem lagður er til varðandi aflaheimildir, þeim mun meiri peningar eru lagðir í frekari rannsóknir.

 Þetta minnir mig á annað dæmi. Í vor skilaði Landgræðslustjóri skýrslu um hvort og hvernig ætti að fara að því að græða upp Bakkafjöru (nýlega var byrjað að sá í Bakkafjöru). Á fundinum sagði Landgræðslustjóri eftirfarandi:"Ef við getum byggt nógu öfluga varnargarða til að hindra að sjórinn gangi langt upp á land og ef við getum byggt nógu öfluga varnargarða, bæði vestan og austan megin við Bakkafjöru, og ef við getum útbúið einhverskonar ræsi, til að losna við það vatn, sem safnast saman fyrir ofan Bakkafjöru, þá ættum við að geta ræktað meira og minna alla Bakkafjöruna upp og í raun og veru er þetta ekkert mál, bara ef við fáum nóg af peningum."

Svo spurningin er þessi, snýst þetta kannski allt saman bara um peninga?


Kvótinn ( heimasíða LS)

17. júlí 2007 :

Reykjanes ályktar - stofnstærðarmæling Hafró út úr öllu korti!

„Stjórnarfundur smábátafélagsins Reykjanes haldinn 15. júlí 2007 ályktar eftirfarandi:

 

Þorskstofninn minnkar um 200 þús. tonn á hálfu ári!

Við teljum að stofnstærðarmælingar Hafró séu byggðar á alltof veikum grunni til þess að ákveða heildaraflamark hvers fiskveiðiárs fyrir sig. Togararallið er látið vega 100% í þeirri ákvörðun, en þar kemur fram að áætlað mat þorskstofnsins sé á bilinu 565 - 580 þúsund tonn. Þegar þeir styðjast við togararall og mælingar á fiski þá er stofninn á bilinu 620 – 640 þúsund tonn. Ef stuðst er við mælingar úr haustralli 2006 þá er þorskstofninn áætlaður 810 – 830 þúsund tonn.
Hvað er búið að gerast á þessum fáu mánuðum?

 

 

Meðalþyngdartölur falsaðar

Það skyldi þó aldrei vera að það sé verið að finna verstu útkomuna til að menn hrökkvi nógu mikið við. Áætluð þyngd Hafró á fimm aldursflokkum þorsks 10-14 ára gömlum er út úr öllu korti miðað við meðaltal áranna frá því mælingar hófust. Að halda því fram að þorskur 10 ára með meðalþyngd upp á 8,728 kg vigti 5,819 kg og 14 ára þorskur með meðalþyngd 15,317 kg vigti 6,943 kg í dag er ekkert annað en fölsun á tölum til að ná niður þyngd og stærð þorskstofnsins.

 

Ef eitthvað er til í þessum tölum þá skuldar Hafró okkur og landsmönnum öllum skýringu á því hvað er að gerast í hafinu.

 

Botntroll á ekki að leyfa á hrygningarsvæðum

Mikið er talað um að nýliðun undanfarinna ára sé mjög slæm og eigi eftir að koma illa niður seinna. Smábátafélagið Reykjanes hefur undanfarin ár ályktað um friðun viðkvæmra hrygningarsvæða fyrir botndregnum veiðarfærum því við teljum að skark með botndregnum veiðarfærum skaði skjól og botngróður, sem er mikilvægt fyrir hrogn og viðkvæmt ungviðið. Svæðið hérna við Reykjanes er eina svæðið við landið þar sem togurum, allt að 42 metrar, er hleypt upp á 4 sjómílur frá landi vestur úr Sandgerði, einnig mega þeir toga upp að 3 sjómílum suður úr Grindavík. Þessi svæði eru mjög mikilvæg hrygningarsvæði þorsks, ýsu og síldar, sem er í bullandi hrygningu þarna núna.

 

Smábátafélagið Reykjanes hefur marg ítrekað bent sjávarútvegsráðuneytinu á þessa hluti en þeir hafa alltaf skellt skollaeyrum við því!

 

HHÍ og 12 milljónir tonna

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út þá yfirlýsingu að best væri að hætta að veiða þorsk í 2 – 4 ár og stækka þannig stofninn í um 1200 þúsund tonn!
Það er auðsjáanlegt að hagfræði er ekkert skyld vistfræði. Halda hagfræðingarnir að þorskurinn lifi á sjónum einum saman.
Þorskstofninn þarf á tífaldri þyngd sinni af fæðu að halda á ári og því þarf 600 þúsund tonna stofn á u.þ.b. 6 milljónum tonna af fæðu að halda á ári. Ef stofninn er 1200 þúsund tonn þá þarf um 12 milljónir tonna!

 


Stjórn smábátafélagsins Reykjanes,
Halldór Ármannsson formaður“

 


Æðarkollusteik

Klukkan 8:30 í morgunn lagði ég af stað upp Dalfjallið til að fara í lunda vestur á fjalli. Þegar ég var hálfnaður upp fjallið sé ég bíl koma keyrandi og stoppa við tjörnina. Í ár, eins og undanfarinn ár, hafa æðarkollur tekið upp á því að fara með unga sína á tjörnina inni í dal. Út úr bílnum steig kona, gekk að tjörninni og henti nokkrum brauðsneiðum í tjörnina. Ekki leið á löngu áður enn að á milli 30-40 mávar mættu og hættu ekki fyrr en allt brauðið var búið. Skilaboðin eru því þessi, fyrir hönd æðarkollnanna og unganna, hættið að gefa mávinum brauð, hann gæti litið á brauðið sem forrétt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband