Lunda sumarið 2022

Sá engan lunda í dag og pysjunum farið að fækka og styttist óðum í Lundaballið og því rétt að gera sumarið upp.

Ég fór inn í þetta sumar með miklar væntingar um að hin góða nýliðun í lundastofninum héldi áfram, en svo varð ekki, því miður, en hafa verður þó í huga að komnar eru núna eitthvað á þriðja þúsund bæjarpysjur og ekki alveg búið. 

Í lok fyrstu viku ágústmánaðar var mér sagt að í öllum þeim holum sem Erpur og félagar eru að fylgjast með suður í Höfða, væru annaðhvort dauðar eða að lundinn hefði hætt við varp og útlitið því ekki gott. Mikið um pysjudauða framan af í ágúst, en það er því nokkuð ljóst að þessar pysjur sem eru að koma núna í september virðast vera að koma úr einhverskonar seinna varpi og spurning hvort að varp lundans í Vestmannaeyjum sé kannski orðið tvískipt, þ.e.a.s. að eldri fuglinn verpi á sínum vanalega tíma, en yngri fuglinn seinna?

Ástæðan fyrir þessum pysjudauða í sumar er líklegast talin vera sú staðreynd, að fljótlega í byrjun ágúst hófst skyndilega mikil makrílveiði hjá smábátum á Suðurnesjum og líklegast er að stór torfa af makríl hafi farið hér framhjá Eyjum einhverntíma í kring um Þjóðhátíð. 

Veiðar í Eyjum voru mjög litlar, eða nokkur hundruð fuglar. Sjálfur hafði ég ákveðið að þar sem ég komst ekki til Grímseyjar í sumar, þá myndi ég ná mér í soðið hér í Eyjum í fyrsta skiptið í 15 ár. Ástandið var hins vegar þannig, að mér leist ekkert á þetta og var eiginlega hættur við, en svo loksins kom rétt átt úti í Miðkletti og ég labbaði þangað í miklu lundaflugi og háfaði mér nokkra fugla í soðið, en ég var ekki sáttur vegna þess að mér fannst vanta meira af ungfugli í þetta og það hvarflaði að mér á heimleiðinni, hvort að þetta yrði kannski síðasta skiptið sem ég háfa hér í Eyjum? En hafa verður þó í huga að lundastofninn í Eyjum telur nokkrar milljónir.

Klifið

Það hefur vakið sérstaklega athygli að allur lundi virðist vera horfinn úr Klifinu og þeirri kenningu verið velt upp, hvort að þetta tengist hugsanlega einhverju nýu eða nýlegu loftneti sem hugsanlega hafi verið sett þarna upp og gefi þar frá sér það sterka geisla að lundinn hörfi undan. Ég hef rætt þetta viða, en í raun og veru ekki fengið nein alvöru svör, en það er spurning hvort að hægt sé að mæla þetta á einhvern hátt, en ég set þetta með hérna að gefnu tilefni.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja

Margt spennandi hefur komið frá Þekkingarsetrinu á undanförnum árum, en sjálfur var ég mjög hrifinn af þegar þróað var snakk úr keilu og hefði gjarnan viljað sjá setrið halda áfram á þeirri braut, enda fullt af tegundum sem eru vannýttar, mætti þar nefna t.d. tindabikkju, háf, afskurð af grásleppu og skötu sem dæmi, en ég er hins vegar frekar lítið hrifinn af þessu rauðátu verkefni.

Í viðtali við Hörð Baldursson í sumar er rætt við Hörð um þetta verkefni. Þar kemur m.a. fram, að hann hafi tekið eftir því að á ákveðnum tíma sumars væri nefið á lundanum óvenju rautt og tengdi hann það því, að lundinn væri þá að éta og bera í pysjuna rauðátu, sem er þekkt. Verkefnið sem setrið hefur núna fengið styrk í snýst um að þróa lyf við sykursýki ásamt ýmsu öðru, sem er allt svo sem bara ljómandi gott, þannig séð. 

Í viðtalinu við Hörð kemur fram, að setrið hafi fengið leyfi til þess að veiða 1000 tonn á ári næstu 5 árin af rauðátu, en gefur sér það að það skiptir engu máli vegna þess að hér við suðurströndina séu 5 milljónir af rauðátu á hverju ári. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þá tölu, hins vegar er nokkuð augljóst að ef rétt er að stór makríltorfa hafi farið hérna framhjá á versta tíma fyrir lundann og étið upp svo til allt æti sem pysjan þarf sem fyrsta æti og þess vegna drepist í miklu magni, það hlýtur þá að vera augljóst að hér var ekki æti í þúsundum tonna, hvað þá milljónum. Ég hvet því alla aðila sem að þessu verkefni koma að hafa þetta í huga, því að nóg er tekið af æti úr lífríkinu samt.

Mávurinn

Það var mjög sérstakt að fylgjast með fréttum frá höfðaborgarsvæðinu, þar sem mjög skiptar skoðanir voru um það, hvort ráðast ætti í róttækar aðgerðir til þess að fækka mávinum, en ég þekki mávinn nokkuð vel hér í Eyjum, en sl vor hirti ég vel á annað hundrað mávsegg, en fylgdist svo með seinna í sumar hvernig hvert einasta hreiður eða par sem ég rændi skilaði af sér ungum, en mávurinn verpir 3 eggjum og það skiptir engu máli hversu oft hann er rændur, hann verpir alltaf aftur. Þegar ungarnir skríða úr byrjar oftast slagurinn strax. Yfirleitt éta tveir hinir stærri þann minnsta fljótlega og yfirleitt, rétt áður en þeir yfirgefa hreiðrir eru yfirleitt einn eða tveir eftir. 

Einnig er þekkt að karlfuglinn éti stundum ungana, en fjölgun á máv hér í Eyjum er gríðarleg. Reikna má með að mávurinn éti sennilega 90% af öllum æðarkolluungum í Vestmannaeyjum og hann drepur miklu fleiri pysjur á höfninni heldur en olían.

Mávurinn er ótrúlega seigur að bjarga sér um æti, er mikið á ruslahaugum, étur alla smáfugla sem hann nær í og er stundum á túnum að éta ánamaðka þegar ekkert annað býðst og ef virkilega hart er í ári, þá hefur hann verið gripinn við að róta í ruslatunnum. 

Ég er ekki að mæla með því með þessu að menn fari einhverjar róttækar aðgerðir við að fækka honum, en það mætti svo sannarlega fækka honum aðeins.

Lokaorð

Vonandi verða þessi vonbrigði með nýliðun lundans í sumar ekki eitthvað sem mun halda áfram, en þetta er samt 7unda árið í röð sem bæjarpysjan telur þúsundir og vonandi verður það betra á næsta ári.

Óska öllum veiðimönnum góðrar skemmtunar á Lundaballinu (loksins).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband