Saga trillukarlsins (fyrsti hluti)

Formáli

Á undanförnum árum hef ég oft heyrt margs konar sögur af mínum ferli sem trillukarl í Vestmannaeyjum, og nánast undantekningalaust rangfærslur og þá sérstaklega hjá pólitískum andstæðingum. 

Einnig pælingar um það, hversu marga báta ég hef átt og hvers vegna. En hvernig var þetta í raun og veru?

Upphafið á þessu var það, að eftir að hafa róið á togurum á tímabilinu 1985-87, var ég fljótur að uppgötva það að það ætti ekki við mig. Síðla sumars 1987 hitti ég svo að máli vin minn Þráinn Sigurðsson heitinn og bauð hann mér að koma nokkra róðra með sér, sem ég og gerði og líkaði vel. 

Ég átti enga peninga, en samt eitthvað smávegis af skyldusparnaði og það var því í nóvember 1987, fyrir nákvæmlega 35 árum síðan, sem ég kaupi fyrsta bátinn. 

Bátur nr. 1, Kópur

Ég frétti af litlum, ódýrum bát vestur á Patreksfirði, gerði mér ferð þangað, en fékk reyndar aðeins að prufa hann á landi, en ákvað að slá til. Keypti bátinn og hann kom með skipi í nóvember 1987.

Strax og ég var búinn að setja hann á flot sá ég það, að þetta var ansi lítill bátur, aðeins 6,05 m á lengd. Stýrið var aftan á stýrishúsinu (báturinn var frambyggður plastbátur) og þegar maður stýrði honum, þá stóð maður og horfði yfir stýrishúsið. Frá rekkverki og niður í sjó voru kannski ekki nema 30-40 cm, en ég fékk mér 2 rúllur á bátinn og byrjaði að róa á handfærum. Fiskaði nokkrum sinnum ágætlega, en svo kom að því að ég lenti í alvöru veðri, en þá hafði ég farið inn undir Ingimundarklakk, sem er norðvestur úr Elliðaey. Ýtti á start á tölvurúllunni, var þá litið til austurs og sé að það er allt orðið hvítflissandi austur við Elliðaey. Ýti á upp á tölvurúllunni, en áður en slóðinn er kominn upp, voru komnir austan 20 metrar og stórsjór. Báturinn var það lítill, að það var hvorki í honum talstöð né gúmmíbátur og enn þann daginn í dag furða ég mig á því, að ég skyldi yfir höfuð hafa það í land, því að stærsta hluta leiðarinnar gekk sjórinn ofaní bátinn og upp úr hinumegin. Vélin jós upp á sig nánast alla leið, en hún stoppaði ekki. Efir að í land kom, velti ég því fyrir mér í nokkra daga hvað ég ætti að gera, ákvað síðan að setja hann á sölu og seldi mjög fljótlega, en leitin að stærri bát var erfið, enda lítið um fjármuni, en að lokum frétti ég af gömlum afturbyggðum svokölluðum Breiðfirskum trébát austur á landi og keypti ég bátinn óséðan. 

Bátur nr. 2, Tinni

Báturinn kom með skipi um sumarið 1988 og byrjaði ég strax á handfærum, en skipti svo yfir á línu um haustið. Byrjunin á þessum bát var svolítið skrautleg, en báturinn kom jú með skipi og ég fékk lánaða kerru sem báturinn var hífður í. Á þessum tíma var brekkan, þar sem bátar voru teknir upp og settir niður þar sem veitingastaðurinn Tanginn er núna. Það var háfjara þegar við komum með bátinn þarna á kerrunni og eigandinn af kerrunni hafði gleymt að segja mér, að til þess að koma í veg fyrir að kerrunni væri ekki stolið, þá tók hann alltaf splittið úr henni, þannig að þegar við erum að slaka kerrunni efst í hallanum, þá skyndilega dettur beislið af og kerran, með bátinn á, rennur á fleygi ferð niður brekkuna og munaði amk 2-3 litlu að hann ylti, en í sjó komst kerran með bátinn. Þar stoppaði kerran í sjónum, en báturinn slitnaði úr og flaut út á miðja höfn. En allt bjargaðist þetta og mér gekk ágætlega að fiska á þennan bát.

Eftir miklar pælingar ákvað ég að skíra hann eftir langafa, Sigga Munda. Á ýmsu gekk á þessum bát, en m.a. upplifði ég á honum litla sögu sem ég hef skrifað nokkrum sinnum og ætla ekki að endurtaka hér, en sagan heitir Draumur trillukarlsins. 

Seint um veturinn 1988 lenti ég í því þegar ég var að draga línu í þungum sjó við Litla boða, suðvestur úr Þrídröngunum, að ég fékk á mig smá hnút og heyrði að það small í einhverju í bátnum og á heimleiðinni tók ég eftir því að það hafði myndast sprunga í eitt borðið, rétt ofan við sjólínu og vætlaði inn um það í hvert skipti sem báturinn valt í þá áttina, en í land komst ég og fékk einhvern skipasmið til að hjálpa mér að gera við. 

Sumarið 89 lendi ég svo í því, að ég hafði ný lokið við að draga línu rétt austan við Suðurey. Bakborðsmegin á bátnum var lítill pallur þar sem ég var með lítið dekk, sem ég notaði sem fríholt. Ég sé um leið og ég kúpla að, að fríholtið hafði dottið út í sjóinn, en ég skelli mér upp á pallinn og ætla að kippa því inn fyrir, en um leið kemur svolítil kvika undir bátinn, þannig að ég lendi útí sjálfur, hangandi á fríholtinu. Fyrst hló ég nú að þessu og ætlaði að vippa mér inn aftur, en báturinn var kominn af stað og sogið því ótrúlega mikið. Önnur tilraunin mistókst líka. Í þriðju tilraun gjóaði ég augunum aðeins í áttina að Suðureynni, enda ekki langt frá, en ég náði að koma annarri löppinni inn í fríholtið og með því að taka á öllu sem ég átti eftir, þá tókst mér að koma mér umborð aftur. 

Síðasti túrinn á þessum bát var 16. desember 1989. Ég hafði þá róið nokkra daga í röð vestur á bræðrabreka og fiskað vel. Þennan daginn var fallegt veður og veðurspáin bara hægviðri, en ég tók eftir því, þegar ég sigldi í gegnum Faxasund, að þar var óvenju mikil og kröpp alda, en spáin var það góð að ég hélt bara áfram og ég er kominn rétt vestur úr smáeyjunum, þegar skyndilega kemur snörp vindhviða og báturinn hálf kastast til og ég sé að það er farið að hvítna á báru inni í Ál. Í fyrstu ætlaði ég ekki að snúa við, en ég sá að hann var að bæta í veðrið, en umborð var ég með nokkur bjóð af glænýrri línu og 2 færarúllur, aðra þerra hafði ég keypt 2 dögum áður nýuppgerða og ætlaði að prófa hana í róðrinum. 

Stærsta vandamálið við þennan bát var, að hann var með svo til engan hvalbak og þegar ég kem að vestan í Faxasund, þá er bara stórsjór fyrir klettinn, en ég legg í hann. Fyrsta aldan kemur og svo önnur, og þá er báturinn orðinn hálffullur af sjó og ég heyri það að vélin fer að hiksta um leið og hún fer að ausa upp á sig. Ég sé næstu öldu koma hvítflissandi og einhverra hluta vegna set ég allt í botn og næ aðeins að lyfta bátnum upp, þannig að næsta alda lendir eiginlega á hliðinni á stefninu og ég rétti bátinn af og kem mér í skjól vestan við Lat, set út ból og drep á vélinni en er svona góðan hálftíma að lensa bátinn. Kem vélinni aftur í gang en hún gengur ekki á öllum. Ég kalla í land og óska eftir nýjustu veðurspá og það er bara sagt hægviðri og logn um kvöldið. 

Fyrsta hugsunin var að reyna kannski að bíða veðrið af sér, en í þessum pælingum sé ég að bátur kemur að vestan. Var þar kominn Rabbi á Þórdísi Guðmundsdóttir, 10 tonna dekkuðum bát. Hann kom til mín og við spjölluðum saman, hann vildi fara að hirða eitthvað úr bátnum eða reyna að draga hann fyrir klettinn, en ég vildi fara eftir veðurspánni og sækja bátinn þegar myndi lægja, setti út fleiri ból og fór með Rabba í land.

Um kvöldið voru yfir 100 hnútar á Stórhöfða og það liðu 3 dagar þangað til loksins var komið veður til að fara og athuga með bátinn og það eina sem við fundum var gúmmíbáturinn, hangandi á skeri. 

Að sjálfsögðu lenti ég svo í sjóprófi út af þessu tjóni, en ég fékk bátinn borgaðan en ekkert af veiðarfærunum og var tjónið því mikið fyrir mig og þessi bátur kemur reyndar við sögu, að hluta til, í bát númer 3.

Bátur nr. 3, Hrappur 1654

Var dekkaður Víking 700. En það var um vorið 1990, sem ég og bróðir minn ákváðum að slá saman og kaupa okkur bát. Við fundum þennan bát í Ólafsvík og eigandinn lánaði okkur töluvert í bátnum gegn skuldabréfi, sem átti nú eftir að draga dilk á eftir sér síðar. 

Við byrjuðum á færum strax um vorið 90, en vorum reyndar ekki komnir út fyrir hafnargarðana þegar gírinn bilaði. Kostaði það bæði viðbótar fé og tafir. Síðla um sumarið komumst við bræðurnir að því, að við áttum ekki skap saman til að róa saman og varð úr að ég tók við bátnum með öllum skuldunum, sem strax varð mjög erfitt, enda ætlaði bróðir minn alltaf að selja bíl og nota þá peninga í startið, sem komu aldrei. 

En það gekk vel að fiska, en eftir því sem leið á fyrsta árið fór ég að lenda í enn frekari bilaríi í vélbúnaði bátsins, sem var, ef ég man rétt, Mitsubishi vél (nokkrum árum síðar hitti ég gamlan trillukarl í Eyjum, sem hafði verið staddur vestur í Ólafsvík árið áður en við bræðurnir keyptum bátinn og séð þennan bát dreginn inn utan af sjó). 

Árið 91 gekk bara ágætlega, þrátt fyrir mikið bilarí, en ég fiskaði ágætlega. Vandamálin hófust ekki fyrir alvöru fyrr en með ákvörðun Ríkisstjórnar Íslands að breyta lögum í lok ársins 91 þannig, að smábátum var frá því ári bannað að róa á tímabilinu 15. nóvember til og með 15. febrúar árið eftir.

Þetta var mikið áfall að missa þennan tíma sem oft skilaði mjög vel ef veður leyfði. Staðan í janúar 92 var því þannig að það var að falla á mig lán upp á um 2 milljónir uppi í banka og ég átti ekkert upp í það, en þá gerðust hlutir sem hvað flestar kjaftasögur um mig hafa fjallað um síðan og allar rangar á allan hátt, en svona gerðist þetta í raun og veru:

Fyrst fæ ég símtal frá framkvæmdastjóra LS, Erni Pálssyni, þar sem hann segir mér það, að útgerðaraðilar norður í landi, sem misst höfðu bát sama árið og ég höfðu farið í mál til þess að fá að nýta sér aflareynsluna á sínum bát og unnið málið. Hann hafði þá leitað að fleiri slíkum málum og fundið mitt og fengið það staðfest, að trébáturinn minn hafði verið í aflamarkskerfinu og ég ætti því rétt á að nýta mér aflaheimildir, sem voru 8 tonn af þorski og 3 tonn af ufsa. Ég var með minn bát í þorskaflamarkskerfinu og gat því ekki nýtt mér þetta og þar sem ég var nú á móti kvótakerfinu frá fyrsta degi til dagsins í dag, þá var ég nú ekkert rosalega spenntur í að fara að selja þetta, en ég var á hausnum og kominn með fjölskyldu, svo ég sendi þetta á nokkra stærstu aðilana hér í Eyjum í þeirri von að geta kannski fengið fyrir láninu sem var að falla á mig upp á tæpar 2 milljónir, en tilboðin sem ég fékk voru ekki nema þetta frá 6 og upp í 700 þúsund, svo ég var eiginlega búinn að láta þetta bara eiga sig, en þá fæ ég aftur símtal frá þekktum útgerðarmanni hér í Eyjum, Óskar nokkur kenndur við Sigurbáru.

Óskar var þá nýkominn með bát til landsins (ekki nýjan), en á Íslandi voru í gildi á þessum árum svokallaðar úreldingarreglur, þannig að ef þú fluttir inn bát sem var kannski 100 rúmmetrar á stærð, þá þurftir þú að úrelda á móti báta, skráða á Íslandi, upp á samtals 200 rúmmetra, en við mælingu á bát Óskars kom í ljós að honum vantaði nokkra rúmmetra uppá. Eftir talsverða leit var honum bent á, að ég ætti rétt á að nýta mér rúmmetrana mína, sem voru á hafsbotninum hérna innan við Eiðið. 

Óskar falaðist eftir þessum rúmmetrum og spurði hvað ég vildi fá fyrir þá og ég sagði bara þannig, að ef hann gæti yfirtekið þetta lán í bankanum sem var að falla á mig, þá væri ég meira en sáttur við það. Þetta gekk eftir, en mánuði síðar hringdi Óskar aftur í mig og þá með þessa spurningu:

Ég er búinn að ganga frá þessu öllu saman og standa við mitt, en hvað viltu gera við kvótann?

Og ég svaraði einfaldlega: Þú mátt bara eiga hann. Svo ég gaf honum kvótann. Hafa verður í huga, að á þessum áratug var ótrúlega mikið um það, og m.a. nokkrir þekktir hér úr Eyjum, keyptu sér báta sem síðar meir voru settir í kvóta og sumir hverjir fengu ansi gott út úr því og þeirri aflareynslu sem aðrir höfðu unnið sér inn á bátana. 

Kvótinn sem ég gaf var ekki metinn á nema 6-700 þúsund á þessum tíma, en í dag eru menn að selja svona kvóta á 40 milljónir. Hversu klikkað er það.

Framhald síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Oddgeirsson

Skemmtileg frásögn.

Sigurður Oddgeirsson, 18.12.2022 kl. 13:34

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þú hefur greinilega lent í ýmsu sem er bara efni í heila bók.

Frábær og skemmtileg lesning.

Sigurður Kristján Hjaltested, 18.12.2022 kl. 21:09

3 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Kærar þakkir. 

Georg Eiður Arnarson, 20.12.2022 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband