19.12.2022 | 22:47
Saga trillukarlsins (annar hluti)
Það má segja að árið ´92 hafi verið skásta árið það sem af var og mikill léttir að losna við skuldina í bankanum, en ég var ennþá að borga mánaðarlegar greiðslur til aðilans sem seldi mér bátinn.
´93 byrjaði hins vegar á sama hátt og þegar ég byrjaði með þennan bát, sem við bræður höfðum gefið nafnið Siggi Munda, en á vorvertíðinni ´93 fór gírinn í annað skiptið. Eftir að það var komið í lag gekk ágætlega að fiska, en ég var ekki laus við biliríið, því að vélin sprengdi af sér headpakninguna, þannig að þegar smábátastoppið byrjaði aftur 15. nóvember var staðan einfaldlega þannig að bankinn var búinn að stoppa á frekari fyrirgreiðslur, en fyrri eigandi hélt að sjálfsögðu áfram að rukka.
Ég var svo heppinn að það gaus upp síld við Eyjar um haustið og fékk ég vinnu inni í Vinnslustöð, þar sem ég hafði reyndar unnið í mörg ár fram að því, enda alltaf unnið með útgerðinni.
Báturinn var boðinn upp um miðjan desember ´93. Í aðdragandanum fór ég og hitti bankastjórann minn, sem fullvissaði mig um það að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, hann myndi leysa til sín bátinn og við síðan að setjast niður á nýju ári og semja um greiðslur og tókumst við í hendur upp á þetta.
Einnig fór ég og hitti lögfræðing bankans sem vissi þar af leiðandi af þessu samkomulagi, sem og sýslumaðurinn sem átti að bjóða bátinn upp. Ég var í vinnu daginn sem uppboðið fór fram og bað því besta vin minn, Dolla á Freyjunni að mæta og fylgjast með. Nokkru áður en vinnu lauk hjá mér kom Dolli með þær skelfilegu fréttir að uppboðið hafði farið fram, en bankinn hætt við á síðustu stundu á bjóða, enda var bankinn svo sem líka með sjálfskuldarábyrgð á sínu láni, en sá sem seldi mér bátinn tók bátinn á uppboðinu og svolítið sérstakt að meira að segja lögfræðingur bankans bauð í bátinn og sagði mér síðar meir, að hann hefði gert það vegna þess að þetta var skyndiákvörðun bankastjórans að bjóða ekki í, í samræmi við það sem þeir höfðu rætt áður.
Sá sem seldi mér bátinn hafði því ekki bara fengið 2/3 af honum borgaðan, heldur fengið bátinn líka. Það sem skeði síðan í framhaldinu er eitthvað sem maður hefði hreinlega ekki getað skáldað upp.
Snemma í janúar ´94 hafði maður hér í Eyjum samband við mig, sem þekkti til þessa aðila sem átti þá bátinn, og sagði mér að ef að við ætluðum ekkert að reyna að semja um skuldina myndi hann sækja bátinn.
Ég óskaði þá eftir fundi með bankastjóranum, sem ég fékk nokkrum dögum síðar. Þá var bankastjórinn hinn ljúfasti, sagði að þetta hefðu allt saman verið mistök og bað mig að hafa samband við lögfræðing fyrri eiganda og fara í það að ganga frá því að kaupa bátinn aftur.
Með þetta fór ég þá niður á bryggju til að kíkja á bátinn, en þá var hann horfinn. Fyrri eigandi hafði komið deginum áður, siglt bátnum yfir að flutningaskipi þar sem hann var hífður upp og báturinn var kominn í skip á leiðinni vestur.
Ég lét bankastjórann vita að þessu, sem sagði að þetta væri ekkert mál, við látum bara senda hann tilbaka, en þá gripu örlögin inn í, en þannig var á þessum tíma að flutningaskip gengu hálfhring í kring um Ísland. Þetta skip sem fór frá Vestmannaeyjum með bátinn umborð, sem átti að fara með til Ólafsvíkur, sleppti því í fyrri hálfhringnum og hélt áfram norður og austur til Húsavíkur og svo tilbaka og ætlaði þá að skila bátnum af sér í bakaleiðinni, en á leiðinni út af vestfjörðum lenti skipið í ofsaveðri.
Fyrstu fréttir sem ég fékk voru þær að báturinn hafði losnað í skipinu og skemmst eitthvað. Seinna meir var mér sagt að hann hafði einfaldlega mölbrotnað og verið urðaður og til þess að kóróna það, þá hafði þessi aðili sem tók bátinn til sín á uppboðinu gleymt að tryggja hann.
Eftir sat ég því bátslaus með töluverða skuld við bankann og til að kóróna það, þá fengum við bræður á okkur málssókn um vorið frá þessum aðila fyrir vestan, þar sem hann reyndi að fá okkur dæmda til þess að borga honum restina af skuldabréfinu, en við fengum okkur lögfræðing og unnum það mál að sjálfsögðu, en í málsgögnunum kom m.a. fram að hann hefði tekið hina nýuppgerðu vél úr bátnum og selt hana fyrir ágætis pening. Það sem kannski er enn furðulegra, svona eftir á að hyggja, er að þessi aðili virðist hafa verið einfaldlega eins óheiðarlegur og menn mögulega geta verið, því á síðasta ári sendi ágætur vinur minn austur á fjörðum mynd af bátnum, þar sem hann stendur á geymslusvæði á Snæfellsnesi. Varðandi þessa 2 báta sem höfðu fengið nafnið Siggi Munda, þá sagði hún móðir mín mér það nokkru síðar, að hann langafi hefði aldrei verið hrifinn af því að vera kallaður Siggi Munda.
Einhverjum hefði kannski fallist hendur eftir þetta og látið þetta eiga sig, en einu sinni trillukarl, alltaf trillukarl.
Sumarið ´94 hringdi pabbi minn í Keflavík í mig og sagði mér frá litlum, mjög ódýrum bát, ef ég hefði áhuga?
Bátur nr. 4, Kóri
Já, til Keflavíkur fór ég sumarið ´94 og skoðaði bát sem hét Kóri, þetta var afturbyggður plastbátur með tré stýrishúsi og í honum var gömul Lister loftkæld vél. Lítill hvalbakur var á bátnum, en það sem ég sá hvað best við hann var að hann var mjög hár á öldunni. Ekki man ég alveg, hvað ég borgaði fyrir hann, en það var ekki mikið, en þar sem ég átti nú ekki bót fyrir rassgatið á mér, þá fékk ég lánað uppi í frystihúsi fyrir bátnum. Ég setti í kaupsamninginn að seljandi yrði að koma bátnum til Þorlákshafnar, sem og hann gerði.
Ég fékk lánaðan gúmmíbát hér í Eyjum. Það sem var rosalega sérstakt við þennan bát var, að það var ekkert stýri í honum, heldur voru spottar sitthvoru megin sem maður togaði í til þess að stýra. Heimferðin gekk nú ekki alveg eins vel og ég hafði vonað. Þessi bátur hafði bara verið notaður í til þess að fá sér í soðið og aldrei siglt svona langa leið.
Í fyrstu gekk þetta vel, en þegar ég var kominn austur undir Þrídranga, var eins og báturinn færi smátt og smátt að hægja á sér. Ekki fann ég neitt að, nógur vökvi, nóg olía, en gírinn virtist smátt og smátt hætta. Síðasta kaflann til Eyja gekk báturinn svona ca. 1 mílu á klukkustund og mig minnir að allt í allt hafi siglingin þessar 40 mílur tekið einhverja 17-18 klukkutíma.
Það komu menn á móti mér og vildu draga mig síðasta spölinn, en ég vildi klára þetta alla leið og gerði það.
Daginn eftir fékk ég mann til þess að kíkja á gírinn og kom þá í ljós að fyrri eigandi hafði einhvern tímann skipt um borða í gírnum, en lent í vandræðum við að koma öllum gormunum í og vantaði helminginn af þeim í gírinn, en við vorum fljótir að redda því.
Bróðir minn útbjó tréhjól með handfangi framá og græjaði víra í blakkir aftur í stýrið. Einhver staðar fékk ég spildælu með skífu á og mig minnir að Siggi Gúm hafi búið til spil úr þessu öllu með bútum héðan og þaðan.
Ég fór strax á línu í lok sumars og fór aldrei á færi á þessum bát, en það kom sér rosalega vel, því þarna var ennþá í gangi þetta svokallaða þorskaflahámarkskerfi. Besta kerfi sem nokkurn tímann hefur verið á Íslandi. Reyndar var ekki settur kvóti á þorskinn fyrr en árið eftir á þessa báta, en ég var áfram frjáls í öllum öðrum tegundum.
En það var einmitt þarna í lok sumars ´94, þar sem ég er á heimleið úr róðri sunnan við Eyjar og er einmitt að velta fyrir mér þessu nafni sem mér fannst nú ekki fallegt, Kóri, í renniblíðu, sem það kom skyndilega upp hjá mér, Blíða, og síðan þá hafa allir mínir bátar heitið Blíða.
Í stuttu máli má segja að það hafi gengið afar vel á Blíðunni minni og m.a. komst ég upp á lagið við það veturinn eftir, þegar hann lá mikið í suðvestan bræli og allir í landi, að ég réri oft bara út að Urðarvita og lagði frá Urðarvita í norður. Einnig réri ég oft í austanáttum og lagði þá í skjóli við Elliðaey og Bjarnarey, en ég man eftir því að Hermann á Betunni kallaði mig einu sinni veðurskipið.
Þetta var nú ekki nema þriggja tonna bátur, en það gekk bara vel og það vel, mig minnir að það hafi verið ´97, þegar vélin loksins fór að láta illa og stundum stoppaði hún úti á sjó og ég varð að bíða í smá stund með að reyna að starta henni í gang.
Þetta endaði með því að ég tók bátinn upp og fór með hann upp á verkstæði, þar sem ég hafði samið við plastara um að búa til nýtt stýrishús á hann, nýjan og stærri hvalbak. Einnig keypti ég nýuppgerða 36 ha Buch vél með gír og setti í hann. Hélt svo áfram að fiska vel, en það voru klárlega breytingar framundan, en 1998 féll hinn svokallaði Valdimarsdómur og um leið duttu upp fyrir þessar fáránlegu úreldingarreglur, en það sem var öllu verra, þegar 1999 ákvað þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiessen að þorskaflahámarkskerfið yrði tekið af og allt sett í kvóta, með þeim hörmungum sem því fylgdi.
Þann 1. sept ´99 hóf ég því róðra með úthlutun í öllu, en þó ekki. Ég fór á sjó snemma í september, en ég hafði tekið eftir því, að ég hafði ekki fengið úthlutað neinum kvóta í keilu og löngu. Létti mér mikið við það, því ég hélt að þar með væru þessar tegundir utan kvóta.
Kunningi minn á bryggjunni sagði mér að það hefði eitthvað klúðrast þarna og varaði mig við því að leggja í þessar tegundir. Ákvað ég því að leggja línuna alla á ýsuslóð suður með sundum. Áður en ég byrjaði að draga hringdi kunningi minn í mig aftur og sagðist hafa fengið staðfest, að við hefðum átt að fá líka úthlutun í keilu og löngu.
Ákvað ég þá að hringja beint í Fiskistofu. Hitti þar á einhvern ungan mann og útskýrði fyrir honum málið. Þessi aðili svaraði því þannig til að fyrst ég hefði ekki fengið úthlutun, en verið að veiða þessar tegundir árum saman, þá hlytu þær að vera áfram utan kvóta, en sagði svo: Ég ætla að kanna málið og hringi í þig á eftir.
Ég var búinn að draga allt saman þegar hann hringdi aftur og þá með þau skilaboð, að jú, þessar tegundir væru komnar í kvóta hjá mér líka, en að einhverjir sem sáu um að úthluta aflaheimildum í þessum tegundum hefðu hreinlega ekki fattað það, að smábátar væru líka að veiða þessar tegundir. Ég sagði eins og var að ég væri búinn að draga og væri þetta mest ýsa, en ég hefði líka fengir 4 keilur og 2 löngur og hvað á ég að gera þá við þær?
Svarið var á þann hátt að hann yrði að fá að ráðfæra sig við aðra hjá Fiskistofu og myndi hringja í mig aftur. Eftir smá stund hringdi hann aftur og þá með þetta:
Ef þú kemur í land með keilu og löngu sem þú átt ekki kvóta fyrir, þá tökum við af þér veiðileyfið.
Ég reifst og skammaðist í þessum aðila í þó nokkra stund, enda hefur það verið mottóið hjá mér í minni útgerð að henda aldrei fiski. En honum var ekki haggað.
Ég sigldi af stað, var um 1,5 klukkutíma að sigla heim. Á heimleiðinni ákvað ég að hringja í konuna og sagði henni frá þessu, að ég gæti ekki hugsað mér að henda þessum fiskum, en það myndi kosta mér veiðileyfið að koma með þá í land. Frúin var með þetta alveg á hreinu, þú ferð ekki að missa veiðileyfið fyrir eitthvað klúður hjá ráðherra og Fiskistofu.
Ég hugsaði minn gang. Var svo litið á stærri lönguna og sá bregða fyrir andlitinu á sjávarútvegsráðherra og var ótrúlega snöggur að henda henni út í, og hinum svo á eftir.
Þegar ég kom að bryggju, komu 3 starfsmenn fiskistofu á móti mér. Þeir höfðu greinilega flogið skyndilega til Eyja til þess að hirða veiðileyfið af þriggja tonna bát og spurðu mig allir:
Hvar eru keilurnar og löngurnar sem þú ert búinn að veiða?
Ég svaraði: Ég átti víst ekki kvóta fyrir þessu og sagði það við keiluna og lönguna og þær kysstu mig bless um leið og ég sleppti þeim í sjóinn.
2 hinna yngri starfsmenn Fiskistofu fóru strax, en sá elsti stóð þarna og spjallaði við mig í nokkra stund um kvótakerfið og allt þetta rugl sem því fylgir og sagði mér síðan setningu, sem ég hef aldrei síðan getað gleymt:
Veistu það, vinur, að þetta kvótakerfi er eitthvað það skelfilegasta og versta fiskveiðistjórnunarkerfi sem nokkurn tímann hefur verið fundið upp, hvað þá unnið eftir.
Ég man að ég svaraði þessu þannig:
Ja, lengi getur vont versnað.
Framhald síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessar fróðlegu trillukarlasögur. Ég er algjör landkrabbi en hef alltaf verið veikur fyrir trillunum. Trúlega eitthvað úr fyrri lífum! ;-)
Hef stundum velt fyrir mér að gott væri ef einhver þar til hæfur tæki saman trillukarlasögur og setti á bók.
Ég myndi a.m.k. kaupa og lesa!
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 20.12.2022 kl. 19:54
Sæll takk fyrir kærlega, það hafa reindar óvenju margir skorað á mig að undanförnu að setja þetta í bók, en ég geri þetta fyrst og fremst fyrir mig og mitt fólk og er sjálfur sáttur við þetta svona .
Georg Eiður Arnarson, 20.12.2022 kl. 21:41
Hæ, Georg, kærar þakkir fyrir þetta, mjög gaman að lesa.
Hörður Þórðarson, 21.12.2022 kl. 00:01
Takk fyrir trillukarlssöguna þína Georg Eiður, það er ekki sjálfgefið að einhver segi svona frá sínu, en ómetanlegt að einhver hafi kjark til þess að gera það.
Magnús Sigurðsson, 21.12.2022 kl. 19:20
Takk fyrir kærlega, varðandi kjarkinn til þess að fara yfir mín mál þá er það því miður þannig að hluti af ástæðunni fyrir þessum skrifum mínum er til þess að svara lyga bullinu um mig og mína sögu.
Georg Eiður Arnarson, 21.12.2022 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.