Saga trillukarlsins (þriðji hluti)

Ákvörðun Árna Mathiessen árið ´99 um að afnema þorskaflahámarkskerfið og setja allt í kvóta á smábáta hafði víðtækar og skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Fyrir mig, þá ákvað ég að taka þetta fyrsta ár eftir kvótasetningu og sjá svo til, en strax um haustið sá ég að þetta gengi ekki með svona litlum kvóta, enda hafði ég í raun og veru aðeins kvóta til að róa í 1-2 mánuði og brúaði bilið m.a. fyrsta veturinn að róa með Veiguna í dagakerfi, en það var svo um vorið 2000 sem ég tók þá ákvörðun að ég vildi ekki gefast upp alveg strax, en til þess að geta haldið áfram þá þyrfti ég stærri og öflugri bát. 

Varðandi kvótasetninguna á keilu og löngu, þá skyldi ég ekki fyrr en mörgum árum síðan, hvers vegna ég fékk svona litla úthlutun í þessum tegundum, mig minnir að fyrsta úthlutunin í keilu hafi aðeins verið um 4 tonn, en þar sem ég hafði bara verið á línu á þessum litla bát, þá hafði ég tekið á hverju sumri 20-30 tonn af keilu, en í dag veiðir engin keilu við Eyjar og tegundin er í raun og veru friðuð, sem er svolítið sérstakt þegar haft er í huga að þorskurinn gengur upp í hraunin á vertíðinni, þar sem keilan heldur sig, til hrygningu og hrygnir, og keilan étur einhver ósköp af þorskhrognum og hrygnir svo ekki fyrr en þorskurinn hefur lokið sér af, þannig að það má með sanni segja að við séum búin að friða tíkallinn, en fóðrum hann með milljónköllum.

En já, nokkrum árum síðar sagði skipstjóri, sem starfaði hjá ónafngreindu fyrirtæki, sem á einhvern furðulegan hátt fékk í úthlutun ´99 uþb helminginn af keilu og löngukvótanum, hvernig hann hafði, ásamt áhöfninni sinni, undirbúið landið fyrir þessa kvótasetningu sem þeir fengu vitneskju um í gegn um tengsl sín við Framsóknarflokkinn, en þá einmitt heyrði maður í fyrsta skipti þessa setningu:

Ef þú nærð að stela því, þá áttu það.

Litla afturbyggða bátinn minn seldi ég um sumarið og sá nýlega mynd af honum norður í landi, þar sem búið er að breyta honum í frambyggðan bát, en hugsanlega hefði ég aldrei skipt um bát ef kvótakerfinu hefði ekki verið breytt á þessum tíma. 

Bátur nr. 5, Ragnar

Vorið 2000 fór ég að leita mér að stærri bát, en eins og alltaf með ekkert of mikið fjármagn í höndunum. Ragnar var bátur sem var staddur í Reykjavíkurhöfn, en í eigu feðga frá Sandgerði sem m.a. unnu þar á plöstunarverkstæði og höfðu gert ákveðnar breytingar á bátnum (hækkað dekkið á honum), en þetta var svokallaður sænskur Fisherman Mön ef ég man rétt með Cummings vél. 

Mér leist vel á bátinn við fyrstu prufu, en tók eftir því að það lækkaði aðeins olían á gírnum við prufu. Eftir að við náðum saman um verð ákvað ég því að fara á deginum áður en ég átti að skrifa undir og láta bátinn ganga með aðkúplað í 2 tíma og kom þá í ljós að lækkað hafði um helming á gírnum. Ég fór fram á það við eigendurna að þeir létu skoða þetta og kom þá í ljós að gírinn var ónýtur, en þeir fengu nýjan uppgerðan gír í staðinn, þannig að það má segja að ég hafi sloppið fyrir horn þarna enda kominn með aðeins meiri reynslu. 

Bátinn kom ég með heim um vorið 2000 og að sjálfsögðu fékk hann nafnið Blíða.

Hugmyndin sem ég hafði ákveðið að gefa tækifæri var sú, að fara í að veiða drottningu hafsins, lúðuna. Lúðuveiðarnar um sumarið gegnu í sjálfu sér ágætlega og einnig 2001, en þetta var nú ekki að skilja mikið eftir sig, en svona til gamans, lítil lúðuveiði saga.

Ég hafði lagt lúðulínu bæði við Suðureyna og eins eftir Álseyjarrifinu. Dró fyrst við Suðureyna og fékk einhverjar 3-4 litlar, en eftir að hafa dregið hluta af línunni við Álseyjarrifið þá fann ég að það þyngdist á línunni og upp kom 100 kg lúða. Ég setti strax ífæruna í hana, en þá vandaðist málið, því hæðin frá sjó og upp á rekkverk á þessum bát var vel yfir metir og það var alveg sama hvað ég rembdist, ég náði henni ekki upp, en þar sem það var alveg logn og alveg rennisléttur sjór og ég ætlaði sko alls ekki að missa lúðuna, þá endaði þetta með því að ég kom sjálfum mér upp á rekkverkið, lyfti eins og ég gat og lét mig detta inn í bátinn með lúðuna í fanginu og er enn með lítið ör á handarbakinu eftir átökin, en ég hugsaði svo þegar ég var búinn að þessu að ég hefði nú getað dregið hana aftur með bátnum og komið henni inn þar sem lægra var, og það var eins gott að ég hugsaði fyrir þessu, því að eftir einn auðan krók kom önnur 100 kg lúða. 

Lúðuaflinn eftir þennan dag losaði kannski 350 kg alls og verðin voru ekkert sérstök, þannig að það sat ekkert mikið eftir. (aðeins varðandi þetta lúðuveiðibann sem gilt hefur í nokkur ár. Ég hef ekki ennþá hitt sjómann sem skilur þetta bull).

Vertíðina 2001-2002 fór að koma upp vandamál með þennan bát, en eins og ég sagði í upphafi, þá höfðu fyrrum eigendur hækkað dekkið á bátnum, sem varð til þess að það myndaðist raki undir vélarlúgunni og ég fór að lenda í því á svona 6-8 vikna fresti að þurfa að skipta um bæði startara og altinator.

Ýmislegt var reynt til þess að laga þetta, en í byrjun árs 2002 var mér orðið ljóst að þetta væri ekki að ganga og ég aftur kominn í skuldasöfnun. Tók ég þá ákvörðun að setja bátinn og kvótann á sölu á vertíðinni 2002, en það var mjög lítill áhugi á þessum pakka, enda kvótinn mestmegnis keila og langa ásamt ýsu, en aðeins 3,6 tonn af þorski. 

Það liðu 3 mánuðir þangað til loks aðilar á Snæfellsnesi sýndu þessu áhuga, en þeir vildu kaupa bátinn til þess að nota hann á grásleppuveiðum, en vildu alls ekki stærsta hluta af kvótanum, en þetta endaði með því að þeir fengu bátinn og þorskkvótann á 500 þúsund krónur tonnið. Eitthvað smávegis seldi ég af kvótanum í viðbót, en ca. 3/4 af kvótanum fékk ég Val Andersen á Lunda VE að geyma fyrir mig.

Ekki dugði þetta alveg til að klára skuldirnar, en ég samdi við þáverandi Sparisjóðsstjóra um að færa síðustu milljónina yfir á húsið hjá mér. 

2002 og 2003 réri ég m.a. með Veiguna, sem í lok þess tíma var seld. Fór einhverja túra með Val og fleirum en tók svo netavertíðina 2003 á gamla Brynjólfi og tók m.a. netarallið með þeim um vorið, sem er náttúrulega algjör brandari þegar grannt er skoðað.

Í byrjun árs 2004 var mér boðið að fara með Péturseyna, fyrst á netum en svo á línu. Pétursey var 16 tonna bátur. Fiskaði ég ágætlega á vertíðinni og um sumarið í net, og enn betur á línuna um haustið 2004, en þá m.a. rakst ég á það, að hér væri hægt að veiða töluvert af skötu. En um vorið 2004 fór besti vinur minn, Dolli í Sjónarhól, að suða í mér að kaupa af sér Freyjuna, en hann hafði selt kvótann árið áður og endaði það með því að ég lét undan, þó að ég væri ekki að leita mér að bát.

Bátur nr. 6, Freyja VE

Ekki mátti ég breyta nafninu, svo ég hélt því, en Freyjan gekk ekki nema 5 mílur. Ég keypti samt línuspil á hann og lét útbúa fyrir mig haustið 2004 og skipti yfir á Freyjuna um mánaðarmótin okt/nóv 2004. Nánast hálfur báturinn var stýrishús, en mig minnir að þessir bátar heiti Viksund.

Ég fór strax á línu og með því að leggja í skötu og leigja mér fyrir meðafla, sem var þá hægt orðið að fá, þá gekk svo vel að ég m.a. þarna í nóvember þurfti að tvísækja þrisvar sinnum, en vandamálið við Freyjuna var að þegar maður var kominn með svona 12-1300 kg í bátinn, þá var hann gjörsamlega á rassgatinu, en það var ekkert óskemmtilegt að sjá ánægjusvipinn á Dolla, sem að sjálfsögðu mætti alltaf til að hífa hjá mér, en strax um vorið var ég orðin uppgefinn á því að vera á þessum 5 mílum með þennan litla bát og ákvað ég því að prófa að auglýsa eftir stærri bát og þá einhverjum sem væri þá tilbúin að taka þennan litla bát uppí. 

Bátur nr. 7, Óli Gísla

Óli Gísla var tegund sem smíðuð var á Stokkseyri, minnir mig, með 230 ha Perkins og lengingu frá upprunalegri smíði. Eigandinn hafði fengið sér stærri bát, stórútgerðarmaður úr Sandgerði, en hann var tilbúinn að taka Freyjuna uppí, vegna þess að hann var búinn að selja hana áfram, en setti mér það skilyrði að ég yrði að sigla Freyjunni frá Vestmannaeyjum til Sandgerðis. 

Ég gerði það og þó svo að vegalengdin sé ekkert rosalega mikil, þá var ég samt 18 klukkutíma á Freyjunni þessa leið. Stoppaði aðeins í 2 tíma og sigldi svo tilbaka á Óla Gísla sem varð svo síðar Blíðan mín. 

Mikið þótti mér vænt um það þegar Dolli vinur minn kom umborð í fyrsta skipti, en hann hafði verið ósáttur við það að ég skyldi setja Freyjuna á sölu, en Dolli sagði eftir að hafa skoðað bátinn að ég hafði gert hárrétt með þessu.

Þessi bátur reyndist mér afar vel. Fyrri eigandi hafði sagt mér að vélin væri komin í 11 þúsund tíma, en hún ætti nú samt a.m.k. 2 ár eftir. 

Þetta gerðist vorið 2005 og vélin gerði gott betur en að duga í 2 ár, en hún gafst upp í lok febrúar 2013 og má með sanni segja að þessi ár hafi verið mín bestu ár í þessu og jafnaðaraflinn verið þetta í kring um 250 tonn á ári. Bæði leigukvóti, en um leið var ég líka svo heppinn að það var mikill uppgangur í ýsunni á þessum árum.

Þar kom til það eina sem að ég man eftir að Árni Mathiessen, sjávarútvegsráðherra, hafði gert af viti, en þá tók hann fram fyrir hendurnar á Hafró, minnir mig 2002 eða 03 og jók verulega ýsukvótann og merkilegt nokkuð, Hafró hélt svo áfram að auka alveg til fiskveiðiársins 2007/08 og var úthlutunin fyrir það fiskveiðiár 105 þúsund tonn, en þá kom til nýr sjávarútvegsráðherra að vestan, Einar Guðfinnsson, en snurvoðasjómenn úr Þorlákshöfn og af Suðurnesjunum höfðu kvartað mikið yfir því að komast ekki í fjörurnar innan við Eyjar, en þetta var allt saman opnað í október 2007 og aðeins 4 árum síðar var ýsukvótinn aðeins 36 þúsund tonn.Merkilegt nokkuð þá er fjaran enn opin fyrir snurvoð . 

En eitt að því sem hafði hjálpað mér mikið á þessum uppgangsárum á ýsunni var að góður vinur minn var orðinn útgerðarstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og fékk ég m.a. að veiða ýsu um nokkurra ára skeið fyrir Ísfélagið og þessi góði vinur minn er nú enn að hjálpa mér í dag með leigukvóta, en það er nú önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

 Takk fyrir þessar greinar Georg. Það er áhugavert fyrir fólk eins og okkur sen höfum fylgst með okkar byggðarlagi þrást og breytast í þá átt sem kvótakerfið hefur alið af sér.Sérlega gaman að rýna í átökin við risana við að fá að afla sér lífsviðurværis og fylgjast með því fólki sem hingað kom með í farteskinu pólitísk tengsl og bankaþekkingu hveernig það hefur náð að moka inn á sig og sína fjármunum og hampa sér sem bjargvættum. Þeirra markmið hafa ekki verið að styrkja byggðarlagið,því fer fjarri. Þetta mun aldrei enda vel.

Ragna Birgisdóttir, 1.1.2023 kl. 17:41

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæl Ragna

Já ég deili þessum áhyggjum með þér svo sannarlega og hef miklar áhyggjur af því að fyr eða sýðar fari allur kvótinn frá eyjum , en eins og dæmin sína undanfarin ár þá munu allur fyr eða sýðar selja og hvað verður þá um okkur sem viljum fá að búa hèr  við getum þolað það að einhverjir trillukarlar selji en hvað gerist þegar þeir stóru selja? En takk fyrir að nenna að lesa þetta hjá mér. 

Georg Eiður Arnarson, 1.1.2023 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband