Áramót 2022/23

Ansi viðburðarríkt ár að baki hjá mér og margir stórir atburðir, en um mánaðamótin mars/apríl tók ég sæti á Alþingi íslendinga í fyrsta skipti og leysti þar af í viku fyrir Flokk fólksins. Sat 4 virka þingdaga og hélt 7 ræður á þeim tíma. Ekki ætla ég að leggja dóm á það sjálfur hvernig mér tókst til, en mér heyrist flest allir aðrir vera sáttir við mína innkomu þarna, en tímann notaði ég fyrst og fremst til að læra hvernig allt gengur fyrir sig, sem vonandi mun nýtast mér síðar.

Í sömu viku og ég sat á Alþingi rann út fresturinn til að senda inn gögn til framboðs til bæjarstjórnar. Ekki tókst þetta alveg hjá okkur í Flokki fólksins, en ótrúlega margir höfðu samband við mig eftir að ég kom heim af þinginu og voru ósáttir við það að ég skyldi ekki kýla á þetta, en fólk verður þá að gefa kost á sér, en við vorum ótrúlega nálægt þessu og mig langar að ítreka enn og aftur þakkir til þeirra sem tóku þátt í þessu og um leið til allra þeirra sem við ræddum við. 

Í upphafi árs var ég beðin um að hjálpa til við að koma á legg félagi dýravina í Vestmannaeyjum. Lagði ég til að stofnað yrði félag og skipuð stjórn sem og gert var og tók ég m.a. sæti í stjórninni til að byrja með. Margt hefur áunnist á árinu, en ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun stjórnar Herjólfs ohf um að bjóða aðeins upp á geymslu í búri eða bílum, eða að fólk húki úti á dekki með dýrin í öllum veðrum. Ég dró mig út úr stjórn dýravinafélagsins út af ýmsum ástæðum, en styð félagið samt áfram af heilum hug.

Lunda og eggja sumarið hófst með miklum látum hjá mér í maí, en samtals týndi ég um 1000 egg, hafði hins vegar ákveðið fyrirfram að sleppa því að fara 8. árið í röð til Grímseyjar og láta reyna á þetta hér í Eyjum. Ég náði mér í soðið, en varð fyrir töluverðum vonbrigðum með stöðu lundastofnsins og aldursdreifinguna í veiðinni. Framhaldið er að mínu mati í algjörri óvissu.

Útgerðin

Eftir miklar pælingar síðast liðinn vetur og fram á vor, þá ákvað ég að skoða að finna mér bát sem væri af réttri stærð. Leitin hófst strax í lok maí og endaði ég sennilega með því að keyra rúmlega hringinn til þess að finna rétta bátinn á rétta verðinu, fann ég ekki fyrr en í september og þegar þetta er skrifað, þá hef ég tekið 13 róðra í haust og fiskað einhver 26 tonn og gengið bara framar vonum að mestu leyti. 

Desember hefur verið óvenju erfiður hér í Eyjum, ekki bara veðurfarið, heldur hefur ótrúlega mikið af fólki sem ég tengist á einn eða annan hátt horfið af sjónarsviðinu og jafnvel fólk á besta aldri og langar mig að nota tækifærið að votta öllum sem misst hafa ástvini á árinu innilega samúð mína. Vonandi verður nýja árið betra heldur en það síðasta að öllu leyti, bæði til lands og sjávar. 

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband