Saga trillukarlsins (fjórði hluti)

Til þess að fjármagna kaupin á Óla Gísla, seinna meir Blíða VE 263, en er núna Hjalti einhverstaðar við Skagafjörð, þá fór ég niður í Sparisjóð og ræddi við einn af aðstoðarmönnum bankastjórans þá. Ég hafði brennt mig illilega á þessum íslensku lánum með tilheyrandi vöxtum. Ég hafði þá þegar heyrt um að menn væru að taka erlend lán á mun hagkvæmari vöxtum og ég fékk strax þau svör að ég gæti fengið þannig lán. Ég spurði að sjálfsögðu um, hvaða áhætta fylgdi þannig lánum og fékk þau svör að vextir á slíkum lánum yrðu aldrei hærri heldur en vextir á lánum í íslenskum krónum og ég tók erlent lán til þess að kaupa bátinn vorið 2005 og síðan Blíðukró síðar um haustið.

Það gekk það vel að það var ekkert mál að borga af þessu, en eftir hrunið 2008 þá tók ég þátt í hópmálsókn til þess að fá þessi lán leiðrétt. Málið vannst í Undirrétti en tapaðist í Hæstarétti. Ég neitaði hins vegar að taka þetta á mig og gerði það í raun og veru ekki fyrr en ég fékk uppáskrifað skjal frá aðstoðarbankastjóranum um það, að ef þessi lán yrðu einhvern tímann leiðrétt þá fengi ég það líka. Skjalið á ég enn, en ég er frekar svartsýnn á að bankinn leiðrétti þetta nokkurn tímann, en ég endaði með því að borga þessi tvö lán svona ca. fjórfalt til baka.

En þessi tími, 2005-2013, var mjög góður tími hjá mér. Ég réri aðallega á línu en fór alltaf á færi líka á sumrin og þá sérstaklega austur í kant til að veiða ufsa, en tók samt alltaf línu með mér, enda ufsinn brellinn.

Ég man eftir tveimur róðrum eitt sumarið. Þá átti ég í fyrra skiptið aðeins 4 bjóð beitt. Ég lagði þau meðfram Gjánni og var svo einhverja 6 tíma á færum í algjörum hörmungum með einhver 200 kg eða svo, en á þessa 4 bala fékk ég 3 tonn af löngu og keilu. Hitti nú aldrei aftur svona vel í, en fór nokkru seinna með meira af línu með mun minni afla en fékk þá 2 tonn af ufsa í einu reki.

Stærsta róðurinn á þennan bát minnir mig að ég hafi fengið í febrúar 2011, en þá lagði ég inni í fjöru viku áður en loðnan gekk og fékk 5,3 tonn af stórþorski á 10 bala. 

Vélin stoppaði í síðasta róðri í lok febrúar 2013. Ég stóð hins vegar mjög vel þá, hafði á árunum á undan keypt mér tonn af þorski og tonn af steinbít og a.m.k. tvisvar sinnum nokkur hundruð tonn af keilu og löngu, en já, vélin bræddi úr sér og netabáturinn Glófaxi dró mig inn og dró svo línuna fyrir mig sem ég átti eftir úti í sjó. Ég var alveg slakur yfir þessu áfalli og hringdi ekki fyrr en nokkrum dögum síðan til þess að panta vél í bátinn, en í honum var þá 230ha Perkins, en svarið olli mér miklum vonbrigðum, en mér var sagt að það tæki a.m.k. 6-8 mánuði að fá nýja vél. Ég tók mér nokkra daga til þess að hugsa minn gang og ákvað síðan að prófa að auglýsa vélarvana bátinn upp í stærri og gangmeiri bát. 2 aðilar höfðu strax samband, annar með þennan stóra Sóma í Kópavogi sem var nú ekki alveg það sem ég var að leita að. Hinn var hins vegar yfirbyggður bátur á Siglufirði.

Ég hafði að sjálfsögðu lengi verið með þann draum í maganum að eignast svona yfirbyggðan bát eftir að hafa staðið úti í öllum veðrum öll þessi ár og á myndunum sem fylgdu með þessum bát, þá var hann nánast eins og mubla, svo ég flaug til Akureyrar, tók bílaleigubíl þaðan til Siglufjörð, ég man reynda ekki hvað þessi bátur hét, en þegar ég kem umborð, þá er dekkið allt drulluskítugt og óþrifið og slor um allt, bæði á dekkinu og í lestinni. Inni í stýrishúsi var ástandið svipað og ekki batnaði það þegar ég kom niður í vélarrúm, en þar þurfti ég að vaða glussa upp á ökkla. 

Einhver strákur kom þarna sem sagðist sjá um bátinn og sagði bara að það hefði gleymst að þrífa bátinn eftir haustvertíðina, en hann setti vélina í gang og við keyrðum bátinn bara við bryggju, enda var hvasst á Siglufirði þann dag. Við leyfðum vélinni að hita sig og um leið og hún varð heit slógum við af, en við það féll olíuþrístingurinn niður í núll og með það sama gaf ég þetta upp á bátinn. 

Á leiðinni út á flugvöll hugsaði ég minn gang, en ákvað síðan að hringja í þennan aðila í Kópavogi sem hafði fullyrt að allt væri í toppstandi umborð í bátnum hjá sér og ég bauð honum að ef hann myndi setja bátinn á flot daginn eftir, þá myndi ég prufa hann með honum.

Þetta gekk eftir og ég sá þarna viss tækifæri við það að vera í tveggja véla bát, en hafði líka miklar áhyggjur af þessu, enda oft heyrt það að þetta skapaði að sjálfsögðu tvöfalt vandamál.

Bátur nr 8, Klói

Ég talaði við mjög marga aðila næstu vikuna eða svo og fékk margar sögur af Sigga á Klónni. Fékk m.a. að heyra það að hann hefði róið svo stíft, að þegar eitthvað bilaði í annari hvorri vélinni, þá hefði hann bara hent vélinni í land og sett aðra í staðinn (síðan kom í ljós að þetta var argasta þvæla). Vélarnar voru keyrðar 150 og 200 tíma eftir allsherjar upptekt hjá Vélasölunni og talaði ég m.a. a.m.k. tvisvar sinnum við fráfarandi yfirmann verkstæðisins hjá Vélasölunni, sem fullyrti að þetta væri bara eins og nýjar vélar. En já, ég keypti síðan Klóna, setti vélarvana bátinn minn upp í og borgaði 12 milljónir á milli, en fékk reyndar að hirða úr bátnum mínum það sem ég vildi, línuspil, lagningakall og einhver kör.

Heim kom ég með bátinn um mánaðarmótin mars/apríl 2013. Tók alveg góða 10 daga að gera hann kláran og kynntist þá í fyrsta skipti stjórntækjum sem ég hafði aldrei notað áður þ.e.a.s. stjórntæki tengd í tölvur aftur í vélarrúmi, en þessi stjórntæki áttu eftir að valda mér miklum höfuðverk á árunum á eftir ásamt ýmsu öðru. 

Var reyndar fljótur að ná tökum á bátnum og fiskaði vel, lenti reyndar í því um sumarið að önnur vélin stoppaði úti á sjó. Þegar málið var skoðað í landi kom í ljós að neðri hluti olíuverksins hafði dottið af í heilu lagi. Lenti svo í því að skipta um startara á annarri vélinni um haustið og skildi ekkert í því að það neistaði alltaf á öllum vírum á meðan ég var að tengja hann aftur, þó að ég væri búinn að slá öllu út. Eftir að hafa gengið á fyrri eiganda með þetta, þá viðurkenndi hann það að báturinn hafði verið allur skveraður eftir að hafa tjónast 2009, en rafvirkinn sem átti að klára rafmagnið hefði tekið svo langan tíma í verkið, að hann hefði samið sérstaklega við tryggingarfyrirtækið sitt um að fá ákveðna greiðslu og bara klára rafmagnið sjálfur og m.a. beintengt vélina framhjá töflu niður í geyma, þannig að það var stöðugt rafmagn á vélunum.

En fiskiríið gekk ágætlega, en ýsan var jú hrunin en Hafró hélt áfram að auka löngukvótann, alveg fram á 2014/15 og langt umfram það sem stofninn þoldi sem varð til þess að allir stóru línuveiðararnir af suðurnesjunum fóru að mæta hérna við Eyjar og ég tók eftir því strax haustið 2013, að það var alveg sama hvar ég lagði, alltaf fór einhver stór og lagði yfir farið hjá mér eftir að ég var kominn í land, en í síðasta róðri fyrir jólin 2013 stoppaði bakborðsvélin.

Vélina tókum við upp á milli jóla og nýárs og það vildi svo heppilega til, að þá var staddur hér í Eyjum nýr yfirmaður verkstæðis Vélasölunnar og var því viðstaddur þegar við opnuðum heddið á vélinni og sá þá eins og við, að ventlarnir höfðu verið vitlaust stilltir og það voru komin för í stimplana eftir ventlana og heddið þar með ónýtt. Þessi vélamaður sagði þá strax við mig: Hafðu engar áhyggjur, við tökum þetta á okkur, og lét mig hafa símanúmerið sitt í vinnunni.

Ég hélt áfram að róa í byrjun árs 2014 en þá bara á einni vél, sem var mun erfiðara og fékk einmitt stærsta róðurinn sem ég fékk nokkurn tímann á þennan bát í byrjun febrúar, eða 6 tonn á 14 bala. Ég byrjaði að reyna að hringja í þennan viðgerðarmann fljótlega á nýju ári, en eftir að hafa svarað mér einu sinni þá náði ég ekkert í hann oftar. Gerði mér svo ferð til Reykjavíkur á Vélasöluna í lok janúar og hitti þar á einhvern yfirmann, sem tilkynnti mér að þessar vélar hefðu verið að bila árum saman og þeir hefði reynt að halda þessu gangandi fyrir Sigga á Klónni, en nú væru þeir hættir og ég fengi engar bætur frá þeim. 

Ég fékk mér lögfræðing til að skoða málið. Í ljós kom þá að vélarnar höfðu verið gerðar upp 2010 og 2011 en Vélasalan orðið gjaldþrota 2012 og skipt um kennitölu. Ég reyndi líka að fara í mál við fyrri eiganda, en lögfræðingurinn sem skoðaði hann fyrir mig, sagði að þetta væri aðili sem væri í því að skipta um kennitölur.

Ég var svo heppinn að ég var með vélartryggingu á bátnum, þannig að ég fékk heddið í gegnum tryggingarnar, en samt kostaði þetta mig einhverjar 2 milljónir.

Sumarið 2014 fór svo tengið á annarri vélinni og lenti ég í ægilegu veseni með að koma því öllu í stand aftur, en samtals tók ég bátinn 7 sinnum upp á einum mánuði, tvisvar sinnum var skipt um tengi á milli gírs og vélar og tvisvar sinnum um tengið fyrir aftan gírinn, sem var ofboðslega viðkvæmt að eiga við. Einnig þurfti ég að skipta um vélarpúðana, en öllu þessu kom ég í ágætt stand, hélt áfram að fiska vel 2014/15 en ég hafði alltaf fram að þessu reynt að vera í föstum viðskiptum með allan fisk, þannig að ég vissi hvað ég fengi, en einhverra hluta vegna lokaðist þetta allt saman á þessu ári. Hafði mikið að segja að aðili sem keypt hafði af mér alla löngu varð fyrir því áfalli, eins og margir aðrir minni verkendur, að Vísir í Grindavík hafði lent í einhvers konar fjárhagskröggum í einhverju ævintýri erlendis og setti á einu bretti 2000 tonn af lönguflökum á sölu og til þess að losa þetta strax, þá buðu þeir þennan farm á 25% afslætti. Til að kóróna þetta, þá hafði öll kvótaleiga hækkað og 2015 kemur inn nýr sjávarútvegsráðherra, núverandi formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson. Eitt af hans fyrstu verkum var að færa veiðigjöldin yfir á leiguliðana. Ég spurði hann reyndar að þessu vorið 2016, en í fyrstu kannaðist hann ekki við málið, en svo kom bara: Úps.

Núverandi ráðherra og þeir sem hafa fylgt á eftir Sigurði hafa komið, hafa svo sem ekkert gert til að leiðrétta þetta mál.

En árið 2015 var mjög erfitt og eina svarið sem maður hafði við öllu því sem hafði gengið á var að leggja harðar að sér, en einmitt um vorið 2015 fór ég að finna fyrir verkjum í hægri mjöðminni og varð síðar um vorið settur á biðlista fyrir mjaðmakúluskipti. 2015/16 réri ég áfram af miklum krafti, en kvótaleigan og svo það að þurfa að borga veiðigjöldin líka gerði það einfaldlega að út úr vertíðinni 2016 hafði ég í raun og veru ekki neitt nema það að maður gat borgað af sínum skuldbindingum.

23. maí 2016 fer ég í mjaðmakúluskipti. 4 dögum áður fer ég niður í það sem þá var orðið Landsbanki Íslands hér í Vestmannaeyjum og óskaði eftir frystingu á mínum lánum. Því var algjörlega hafnað og mér tilkynnt að það eina sem ég gæti fengið væri yfirdráttarlán með 12% vöxtum. Ég hafði ekkert annað val á þessum tíma, enda hafði bankinn alltaf passað upp á það að í hvert skipti sem ég tók einhver lán, þá voru þau bæði með veði í útgerðinni og líka með sjálfskuldarábyrgð, svo bankarnir passa upp á sitt. 

Aðgerðin gekk vel og ég prufaði að beita einhver 2 bjóð og fara í róður í lok júlí, en það tók vel í. Í byrjun ágúst 2016 sá ég síðan auglýst eftir hafnarverði hér í Vestmannaeyjum. Ég sótti um og fékk starfið, sem að sjálfsögðu breytti öllu útgerðarferli hjá mér, enda gríðarlega mikið að gera hjá hafnarvörðum á þeim tíma, enda vorum við þá bara 3 hafnarverðir og 1 aukamaður, í dag erum við 5 og með aukamenn líka.

Ég fór einhverja róðra samt þarna um haustið og veiddi hlutdeildina. Það var svo vorið 2017 sem ég ákvað að setja bátinn á sölu, en það er ekki fyrr en vorið 2018 sem allt smellir hjá mér, en þá var bankinn farinn að anda ansi hressilega niður í hálsmálið hjá mér. Ég hafði reynt þá um nokkurra mánaða skeið að selja kvótann, en engin vildi kaupa enda uppistaðan keila, langa og ýsa og það var ekki fyrr ein í þriðju tilraun, í gegnum góða vini, að þeir í Ísfélaginu fengust til þess að kaupa þetta af mér á gangvirði, á 26,5 milljónir. Peningurinn fór að sjálfsögðu beint upp í banka og eftir að bankinn hafði lokið sér af, þá fékk ég 3 milljónir. 

Aðeins örfáum vikum eftir að þetta gerðist, þá keypti ágætur vinur minn úr Hafnarfirði bátinn af mér á 7 milljónir, eða tæplega helminginn af því sem ég hafði borgað fyrir hann á sínum tíma. Um svipað leyti seldi ég króna mína líka, þannig að ég gat hreinsað upp alla skattana á næstu tveimur árum, en það myndaðist að sjálfsögðu hagnaður og frúin þurfti að endurgreiða örorkubæturnar sínar 2 ár aftur í tímann og kláraði hún þá endurgreiðslu núna í desember 22. 

En á ýmsu hefur gengið síðan þá. 

Framhald síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Georg.

Engin lán sem Íslendingar tóku hjá íslenskum hrunbönkum voru erlend. Þau voru annað hvort íslensk lán í erlendum gjaldmiðlum (sem fæstir fengu) eða krónulán með ólöglegri gengistryggingu.

Glæpurinn var tvöfaldur, í fyrsta lagi að veita ólögleg lán og í öðru lagi að bókfæra þau sem "erlendar" eignir sem var stórbrotin fölsun. Enginn hefur axlað ábyrgð á þeim glæpum.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2023 kl. 20:13

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll ekki er ég alveg inni í þessu, en ég fékk lán í jenum og svo undirritað skjal fræ Landsbankanum þess efnis að ef kæmi til leiðréttingar sýðar þá ætti ég rétt á henni, vandamálið var líka það að dómarinn í málinu tók bara tillit til eins atriðis í őllu málinu og ekkert tillit til neins frá okkur sem fórum fram á leiðréttingar og þetta virkaði svolítið eins og uppsett leikrit. 

Georg Eiður Arnarson, 22.1.2023 kl. 21:39

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lán sem Íslendingur tekur hjá íslenskum banka er innlent lán, alveg sama hvaða gjaldmiðill er lánaður. En fékkstu lánið greitt út í jenum? Ef ekki þá var það ólöglega gengistryggt krónulán.

Glæpurinn var svo fullframinn þegar lögmönnum bankanna tókst að blekkja dómara til að trúa því að (sum) þessara lána hefðu verið í erlendum gjaldmiðlum, þó þau hefðu verið greidd út í krónum. Það jafngildir afturvirkri peningaprentun í erlendum gjaldmiðlum sem dómarar hafa enga heimild til og er í raun mjög alvarlegt afbrot gegn réttmætum útgefendum viðkomandi gjaldmiðla.

Ef ég væri íslenskur dómari sem hefði dæmt íslenskt krónulán sem það væri í jenum yrði ég sem peningafalsari að gæta þess að koma framvegis aldrei nærri lögsögu japanskra yfirvalda.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2023 kl. 21:59

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll lánið var í jenum en greitt út í íslenskum peningum, já við fórum í mál minnir mig 13 trillukarlar og landsamband smábáta sjómanna fylgdi málinu eftir og já við unnum í undir rétti en í hæstarétti mætti hópur lögmanna fyrir hönd Landsbankans og dómarinn tók aðeins fyrir 1 atriði og það frá bankanum og bæmdi svo bankanum í vil, ég var ekki á staðnum en þetta virkaði allt mjög skrítið. 

Georg Eiður Arnarson, 22.1.2023 kl. 22:22

5 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Ég fékk undirritað skjal 2015 og hætti þá að berjast gegn bankanum en það sem mér finnst verst er að nokkru eftir það frétti ég af sjávarútvegs fyrirtæki í Bolungarvík sem varð gjaldþrota 2012 í sama banka og ég það fyrirtæki fékk að halda őllum sínum eigum og afskriftir upp á ca 2 miljarða .

Georg Eiður Arnarson, 22.1.2023 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband