Kvótinn

Landssamband smábátaeigenda

17. september 2007 :

Ískaldur veruleiki

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 14. september.

„Það andar köldu við upphaf nýs fiskveiðiárs. Ákvörðun stjórnvalda um minnka þorskveiðiheimildir um þriðjung, eða 63 þús. tonn, er komin til framkvæmda. Ískaldur veruleikinn blasir við.
Ákvörðunin var afar umdeild og vandfundinn sá aðili í sjávarútveginum sem lét það hvarfla að sér að ekki yrði leyft að veiða meira en 130 þús. tonn. Bjartsýni hefur ríkt hjá sjómönnum um ástand þorskstofnsins og fjölmargir telja að vel hafi tekist til með uppbyggingu hans og því fyrirsjáanlegt að aukið yrði við kvótann. Útgerðarmenn fóru heldur ekki varhluta af skilaboðum frá miðunum. Kostnaður við hvert veitt tonn af þorski í sögulegu lágmarki. Margir þeirra greiddu svimandi upphæðir fyrir varanlegan þorskkvóta á grundvelli þessara vitneskju.

Eins og köld vatnsgusa

Það kom því eins og köld vatnsgusa þegar Hafrannsóknastofnun kynnti niðurstöður um ástand þorskstofnsins. Í riti stofnunarinnar „Ágrip af skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um nytjastofna sjávar 2006/2007 og aflahorfur fiskveiðiárið 2007/2008“ segir eftirfarandi í lok kaflans um þorskinn:
„Stærð veiðistofns er nú metinn nálægt sögulegu lágmarki og stærð hrygningarstofnsins er aðeins um helmingur þess sem talið er að gefi hámarks afrakstur. Nýliðun síðustu sex árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa er í sögulegu lágmarki.“
og í lok málsgreinarinnar segir:
„Hafrannsóknastofnunin leggur því til að afla næsta fiskveiðiárs verði takmarkaður við 130 þús. tonn. Auk þess leggur stofnunin til að núverandi reglur um hámarksmöskvastærð og lokanir á hrygningarslóð verði í gildi enn um sinn.“

 

Í Morgunblaðinu 7. júlí sl. sagði sjávarútvegsráðherra:
„Ákvörðunin hefði verið tekin í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um stöðu þorskstofnsins, stærð viðmiðunarstofnsins og hrygningarstofnsins.“

Bæði forsætis- og utanríkisráðherra lýstu því yfir að ákvörðun sjávarútvegsráðherra nyti stuðnings allrar ríkisstjórnarinnar.

Grafalvarleg staða

Á síðustu vikum hefur hvert sveitarfélagið á fætur öðru lýst yfir áhyggjum af afleiðingum hennar. Tekjur dragast sama, fólk missir atvinnuna, útgerðum fækkar, fyrirsjáanlegir erfiðleikar hjá þjónustufyrirtækjum útgerðarinnar, svo dæmi séu nefnd.

 

Áður hafði komið fram að brúttóaflaverðmæti þorsksins mundi minnka um 15 – 16 milljarða. Þá var ótalið það sem mundi tapast í öðrum tegundum þar sem þorskur er meðafli. Þar mun ýsan vega mest, um 4 milljarðar. Með þessum forsendum og 500 tonna minni steinbítskvóta mun aflaverðmæti smábáta minnka um 4 milljarða eða um rúmar 5 milljónir að meðaltali á bát.

Auk þess sem hér er upptalið lækkar verðgildi varanlegra veiðiheimilda í þorski um 150 milljarða sem á eftir að hafa gríðarleg áhrif.

Af þessari stuttu upptalningu um afleiðingar þorskskerðingarinnar þarf ekki nokkur maður að efast um að staðan er grafalvarleg.

Of sterkt til orða tekið

Hinn 20. júlí sl. ritaði undirritaður hér í Fiskifréttir grein, „Orsök lélegrar nýliðunar er ekki að finna í veiðum umfram ráðgjöf“, þar sem hann gagnrýndi ákvörðunina. Í greininni var framsetning á stærð hrygningarstofns og nýliðunar með öðrum hætti en hjá Hafrannsóknastofnuninni. Vakin var athygli á að hrygningarstofninn hefði verið vaxandi frá 1983, og 2005 hefði hann verið í sögulegu hámarki þessa tímabils, 228 þús. tonn. Þá var einnig birt línurit um nýliðun sem sýndi að það var of sterkt til orða tekið hjá Hafrannsóknastofnuninni að hún hefði verið slök á síðustu sex árum.

 

Við þetta er því að bæta að Hafrannsóknastofnunin segir þriðju ástæðu þess að minnka þurfi þorskkvótann niður í 130 þús. tonn vera að meðalþyngd allra aldurshópa sé í sögulegu lágmarki.
Þegar meðalþyngdartölur í skýrslu stofnunarinnar eru skoðaðar kemur ýmislegt í ljós sem er ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Til dæmis er meðalþyngd 14 ára fisks nú 6,9 kíló en ári áður var jafnaldri hans 15,4 kíló eða 122% þyngri. Þá byggir stofnunin ráðgjöf sína á að munur á meðalþyngd 9 ára fisks og upp í 14 ára fisk sé sáralítill sem er í hrópandi ósamræmi við það sem fiskimenn upplifa á miðunum. Tölur hér að neðan er úr töflu 3.1.2 úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Meðalþyngd 9 ára fisks 6,193 kg
10 ára 5,819 kg
11 ára 6,201 kg
12 ára 6,508 kg
13 ára 6,751 kg
14 ára 6,943 kg

Að lokum er rétt að vekja athygli á að fjöldi skyndilokana vegna smáþorsks í afla hefur slegið öll fyrri met á þessu ári.

 

Vegna þeirrar miklu gagnrýni sem komið hefur fram á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og mikilvægi þess að ákvarðanir séu teknar á grundvelli réttra upplýsinga tel ég að sjávarútvegsráðherra eigi þegar í stað að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að fara yfir skýrslu stofnunarinnar og þau gögn sem eru grundvöllur þess sem þar kemur fram.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband