19.6.2020 | 21:16
Sjómannadagurinn 2020, seinni hluti
Það fór nú eins og ég spáði varðandi ráðgjöf Hafró að ýsan var aukin, en að mínu mati hefði mátt auka hana aðeins meira. Þegar maður hins vegar horfir á ráðgjöf Hafró s.l. áratug varðandi ýsuna, mætti halda að þetta væri ákveðið með einhvers konar jójói og happ og glapp hvar það stoppar.
Ýsan var hins vegar það eina jákvæða við ráðgjör Hafró í ár að mínu mati. Mjög sérstakt að horfa upp á ráðgjöf upp á liðlega 250 þúsund tonn í þorski og það 36 árum eftir að lagt var af stað með núverandi kvótakerfi sem tilraun sem átti að standa í 3 ár og átti upphaflega að skila jafnaðar afla upp á 500 þúsund tonn af þorski á hverju ári, að þeim tíma liðnum.
Varðandi tillögurnar um lönguna, þá er hún algjörlega óskiljanleg þegar horft er til þess, að nú þegar er búið að veiða 95% af kvótanum og enginn stór línuveiðari lagt á allar löngubleiðurnar suður af Vestmannaeyjum í sumar og í raun og veru hafa verið auglýsingar hjá kvótamiðlurum alveg frá því um áramót eftir löngukvóta og greinilegt að langan er á mikilli uppleið, en bara ekki hjá Hafró.
Varðandi keiluna, þá langar mig að rifja upp umfjöllun mína frá því fyrir nokkuð löngu síðan, en fyrir áratug fannst mér sveiflurnar á keilunni mjög skringilegar og eftir ábendingu, þar sem mér var bent á, að keilan væri ein af þeim tegundum sem ekki voru reiknaðar út miðað við veiðar í svokölluðu togararalli, þá hafði ég samband við Hafró og óskaði eftir að fá að tala við þeirra helsta sérfræðing um keiluna og fékk ég það, en þar fékk ég staðfest að þetta væri rétt, keilan væri ekki miðuð við togararallið, heldur væri fylgst með meðaltal keilu á línulengd hjá Vísis bátunum (en eins og flestir vita, þá fékk Vísir á sínum tíma úthlutað helminginn af löngu og keilu kvótanum á einhvern ótrúlegan hátt).
En spurningin sem mig langaði að leggja fyrir þennan sérfræðing Hafró var þessi:
Ef afurðarverð á keilu er jafn lélegt (eins og í ár) og útgerðin beitir bátunum ekki í keilu, heldur notar keilukvótann til þess að brenna upp í aðrar tegundir, hvernig túlkið þið það?
Og svarið:
Það er einfalt, þá er stofninn einfaldlega hruninn.
Það er svolítið merkilegt að fylgjast með því hvernig þær tegundir sem kvótasettir hafa verið eftir 2000 hafi nánast allar hrunið með kvótasetningu. Á sínum tíma veiddum við yfir 10000 tonn af keilu, nú er verið að tala um kvóta upp á liðlega 2000 tonn. Á sínum tíma veiddum við um 14000 tonn af löngu á hverju ári, nú erum við að tala um kannski 5000 tonn og ef við horfum á kvótasetningar síðustu 5 árin, þ.e.a.s. blálöngu, gulllax, litla karfa og hlýra. Allir hafa þessir stofnar hrunið um leið og búið var að kvótasetja þá, kannski bara eðlilega því til hvers að vera að eltast við tegundir sem eru kannski erfitt að sækja, eða jafnvel hálf verðlausar og því miklu betri að nota aflaheimildirnar í kvóta tilfærslur.
Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með nokkrum ungum mönnum hér í Eyjum sem fengið hafa sér bát frá því í vor og farið af stað í strandveiðarnar, en í Eyjum var met slegið í vor þegar 20 bátar voru skráðir á strandveiðar. Tíðin hefur hins vegar ekki verið neitt sérstök, en sumir þessara ungu manna hafa nú komið og rætt við mig og verið að velta því fyrir sér að fara kannski á línu næsta vetur. Í sjálfu sér væri bara gaman að því, en ég hef einnig bent mönnum á hversu ofboðslega mikil vinna það er að standa og beita, leigja kvóta og vera í sífelldum eltingarleik í því að hafa eitthvað út úr kvótanum, en miðað við tillögur Hafró fyrir næsta fiskveiðiár, þá er nú líklegast í stöðunni að minn bátur verði bundinn stærsta hluta næsta fiskveiðiárs. Reyndar er ráðherra ekki búinn að samþykkja tillögur Hafró og í raun og veru hljóta allir, sem eitthvað vit hafa á málum að sjá hversu arfa vitlausar þessar tillögur eru og sem dæmi, þá frétti ég það í gær að það væri verið að auka þorskkvótann í Barentshafi um 147000 tonn og að kvótinn þar færi þar með í milljón tonn af þorski. Manni finnst þetta vera nokkuð augljóst að togararall, sem hefur verið lykillinn að tillögum Hafró frá því 1984, hefði alveg eins getað verið frá ´44 miðað við það, hversu miklar breytingar hafa verið í hafinu við Ísland síðustu áratugi. Maður heyrir t.d. af því, að allir fyrðir norður í landi séu fullir af fiski, en ekkert tekið tillit til þess í tillögum Hafró.
Maður heyrir alltaf annað slagið mis gáfulegar auglýsingar frá stjórnmálaflokkum sem reyna að afla sér vinsælda með því að auglýsa eins og t.d. sanngjarnt gjald fyrir auðlingina og svipað, mér finnst þetta allt saman hálfgerð sýndarmennska, en svo ég setji nú á prent eitthvað einu sinni sem mér finnst, þá er besta kvótakerfið sem ég hef starfað í á mínum 33 ára útgerðarferli, þá er það það svokallaða þorskafahámarkskerfi, sem lagt var af upp úr 2000, en í því kerfi gátu minnstu bátarnir veitt frjálst í öllum tegundum nema þorski og þá var hægt að lifa af því að vera trillukarl, en það er það svo sannarlega ekki í dag.
6.6.2020 | 20:50
Sjómannadagurinn 2020
Sjómannadagshelgin er runnin upp og því tímabært að gera upp vertíðina.
Fyrir ári síðan spáði ég því, að vegna þess að ekki voru leyfðar loðnuveiðar vertíðina 2019, þá væri augljóst að sú innspýting í lífríkið í hafinu myndi gefa af sér annaðhvort verulega auknar aflaheimildir í bolfiski eða góða loðnuvertíð 2020.
Þegar ég skrifaði þetta fyrir ári síðan hafði ýsukvótinn verið aukinn fyrir það fiskveiðiár um 40% og kvótaleigan á henni komin niður í 15 kr/kg og virkilega bjart yfir fyrir leiguliðann, en ekki leið á löngu áður en tillögur Hafró fyrir þetta fiskveiðiár birtust og með hinu fræga Úpsi! um að Hafró hafði reiknað vitlaust og í framhaldinu var því ýsukvótinn skorinn niður um tæplega 30% fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, sem aftur gerði það að verkum að hæst fór kvótaleigan á ýsu í 300 kr/kg í vetur í aflamarkskerfinu.
Ég hafði ekkert róið síðasta vetur en ég hef hins vegar róið reglulega allt þetta fiskveiðiár og það sem blasir við mér í dag sem veruleiki, er að árið 2007 og 08 var ýsukvótinn í kring um 100 þúsund tonn, en í ár er hann innan við 40 þúsund tonn, en reynslan mín er sú að í ár er meira ýsa á ferðinni hér við suðurströndina, og í raun og veru allt í kring um landið, heldur en árið 2007 og 08 og þegar þetta er skirfað, þá er þrátt fyrir að hægt sé að geyma amk. 25% af kvótanum milli ára, búið að veiða rétt tæplega 90% af úthlutaðum ýsukvóta og enn eru 3 mánuðir eftir af fiskveiðiárinu, svo maður spyr sig: Skyldi koma Úps! aftur.
En loðnan er jú stóra málið hér í Eyjum og gríðarleg vonbrigði að ekki tókst að mæla nóg til þess að veiðar yrðu leyfðar og í raun og veru var afar lítið að sjá af loðnu hérna við suðurlandið, en í nokkur ár hefur Hafró sjálft spáð því að loðnan jafnvel hugsanlega hætti að ganga þessa hefðbundnu leið vegna hlýnun sjávar, sem reyndar er tekinn að kólna aftur, en merkilegt nokkuð, þá fóru að heyrast fréttir bæði í apríl og maí af mikilli loðnu inni á fjörðum fyrir öllu norðurlandi og ekki bara það, heldur líka í Færeyjum og reyndir sjómenn sögðust sjá það að hrigning var í gangi hjá loðnunni í apríl/maí, svo spurningin er, vitum við bara í raun nokkuð?
Þann 17. febrúar sl birti Magnús Jónsson, veðurfræðingur, athyglisverða grein með fyrirsögninni:
Loðnan og loðin svör
Það sem vekur sérstaka athygli mína í þessari grein er, að þar vitnar Magnús ma. í viðtal við Hjálmar heitinn Vilhjálmsson, fiskifræðing, þar sem fram kemur að talið sé að í fæðu þorskstofnsins sé loðna í kringum 40% og Magnús reiknar síðan, að miðað við að þorskstofninn sé í kringum 1300 þúsund tonn, varlega áætlað, og éti því á árs grundvelli amk. 4 milljónir tonna af loðnu, en síðan kemur áfram í grein Magnúsar þessi setning:
Því er mér algjörlega fyrirmunað að skilja eftirfarandi setningu úr nýlegu rannsóknarriti Hafrannsóknarstofnunnar um stofnmat og líffræði loðnu: Að meðaltali hefur árlegt át þorsks, ýsu og ufsa af loðnu verið metið um 150 þúsund tonn.
Í lokaorðum í grein Magnúsar kemur þetta fram: Er það t.d. sjálfgegið að friða þurfi 400 þúsund tonn af loðnu, þegar þorskurinn einn étur 4 milljónir tonna? Er það líka sjálfgefið að alltaf eigi að nota 20% aflareglu á þorskinn hvort sem stofninn mælist 600 þúsund tonn eða 1300 þúsund tonn?
Hver er skýringin á því að því að rækjustofnar, humarinn, síldin og fleiri stofnar hafa verið á stöðugri niðurleið það sem af er þessari öld og það þrátt fyrir að tillögum og ráðgjöf hafi verið fylgt út í hörgur?
Og hefur það aldrei komið til greina að endurskoða kvótakerfið í ljósi þess að það grundvallaðist í upphafi á því, að við Ísland væri einn þorskstofn, en síðari tíma rannsóknir hafa sýnt fram á að við landið eru margir tugir staðbundinna stofna.
Afar merkilegar hugleiðingar hjá veðurfræðingnum, allavega fannst mér þær vera þannig að ég var tilbúinn að birta þær að hluta til og maður spyr sig líka varðandi þetta með marga þorskstofna, hvort ekki sé sama með loðnuna? Að þar séu jafnvel margir stofnar í gangi? Hver veit? Amk ekki Hafró.
Varðandi framhaldið, þá vona ég svo sannarlega að við fáum góða makrílvertíð í sumar, ekki veitir okkur af, og mig langar að nota þetta tækifæri til þess að skora á uppsjávarútgerðirnar okkar að reyna eftir mesta megni að landa sem mestu hér í Eyjum, því miður er allt of mikið af ungu fólki sem ekki hefur fengið vinnu í sumar. Varðandi næsta fiskveiðiár, þá finnst mér augljóst að framundan séu verulegar auknar heimildir í okkar helstu stofnun, en þar sem þetta þarf allt saman að fara í gegn um nálaraugað hjá Hafró, þá á ég alveg eins von á því, að hér verða allir stofnar skornir niður.
Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegan sjómannadags.
16.4.2020 | 20:43
Gleðilegt sumar
Já, lundinn settist upp í kvöld 16. apríl og þar með er komið sumar hjá mér. Hann settist reyndar upp þann 14. í fyrra, en mér fannst þessar köldu, vestlægu áttir síðustu daga ekki vera beint rétta veðurfarið, en hæg suðlæg átt eins og núna í kvöld er einmitt besta veðurfarið.
Lundinn settist upp í Grímsey þann 11. s.l. en mörgum finnst það skrítið að hann skuli setjast upp fyrr fyrir norðan heldur en hér fyrir sunnan og frekar líklegt, að sum staðar fyrir norðan þurfi hann að grafa sig í gegn um snjó og klaka, en hann er harður af sér og við munum kannski, þau sem eldri erum, að sumarið 1973 gróf hann sig í gegn um ösku til að komast í holuna sína hér í eyjum.
Væntingar mínar fyrir sumarið eru þær, að vonandi förum við að sjá meira af ungfuglinum sem komist hefur á legg seinustu ár, skila sér hér til eyja. Áhyggjuefnið er að sjálfsögðu það, hvort hér verði nægilegt æti, enda eins og ég hef komið inn á stundum áður, þá er orðið stór vandamál hversu mikið er af fiski í hafinu sem ekki má veiða, sem aftur kallar á það að ætisskortur verði þá hjá fuglinum.
Varðandi veiðidaga, þá hef ég enga sérstaka skoðun á því aðra en þá að vonandi verða leyfðir einhverjir dagar eins og síðustu ár, en við félagarnir sem höfum farið til Grímseyjar síðustu árin erum í Grímseyjar hugleiðingum enn eitt árið og vonandi gengur það eftir.
Gleðilegt sumar allir.
26.2.2020 | 20:56
Stormur
Enn ein stormviðvörunin í kortunum og því rétt að gera upp stóra storminn.
Nóttin byrjaði ekki vel hjá mér, ég vaknaði fyrst upp úr 1 við einhver læti uppi á þaki, fór því út og kíkti en sá ekki neitt. Tókst ekki að sofna aftur og þegar klukkan var að ganga í 4 fóru óhljóðin í þakinu hjá mér að versna, klæddi ég mig því og fór út. Það var ekki fyrr en ég labbaði bak við húsið, að ég sá að kjölurinn syðst á þakinu var byrjaður að réttast upp austan megin. Hafði ég þegar samband við Björgunarfélagið, sem að sjálfsögðu mættu fjölmennir örskömmu síðar og eftir að hafa metið aðstæður var ræstur út kranabíll. 2 björgunarsveitarmenn drifu sig upp og redduðu málinu, en fyrir mína hönd og annarra eyjamanna sem þurftu að leita til þeirra þessa nótt, vil ég færa alveg sérstakar þakkir, þið eruð frábær öllsömul, takk fyrir.
Ég mætti í vinnu kl 8, en þetta var fyrsta nóttin síðan ég byrjaði sem hafnarvörður, að ákveðið var að hafa hafnarvörð á vakt alla nóttina. Nóttin var að mestu tíðindalítil, en m.a. fór vakthafandi hafnarvörður tvívegis til að líta eftir Blátindi. Ég hafði hins vegar áhyggjur af því, hvað myndi gerast í þessum stormi á háflóði sem var þarna um hálf 10 um morguninn. Vorum við 3 í bílnum á leiðinni til þess að kíkja eftir honum, þegar við sjáum Blátind koma siglandi eftir höfninni. Við vissum þá þegar að hann myndi sökkva, vegna þess að eitt af því sem gert var til þess að reyna að tryggja það, að hann losnaði ekki af Skanssvæðinu, eins og gerst hafði síðasta vetur þegar hann féll á hliðina í einhverjum storminum, var að hafnarverðir voru sendir með dósabor til þess að gera nokkur göt, aftast og neðst á bátnum, þannig að hann myndi fyllast í hvert skipti sem félli að og ætti því ekki að ná að lyfta sér og rífa af sér allar þær festingar sem voru í kring um hann.
Viðbrögð okkar voru að hafa samband við Lóðsinn sem var gerður sjóklár á meðan við fórum og hentum okkur í galla. Þá kom upp annað óhapp, en þegar Lóðsinn var gangsettur kom í ljós að hann var með í annarri skrúfunni og drapst því á vélinni, fórum við því í átt að Blátindi á aðeins annarri vélinni, ég held að öllum hafi verið ljóst að það hefði verið gríðarlegt áfall, ef Blátindur hefði farið niður á miðri höfn. Þegar við komum að honum, flaut þá þegar yfir dekkið á honum, en við vissum hins vegar, að þar sem við höfðum al málað hann síðasta sumar og einnig sett nýja glugga í stýrishúsið, þá væri meira flot í honum heldur en fyrir þá aðgerð.
Strax var tekin sú ákvörðun að koma honum að Skipalyftunni, þar sem gott væri að vinna við hann eftir að hann væri sokkin og í raun og veru tel ég að það hafi verið kraftaverk að þetta skyldi takast jafn vel og raun bar vitni.
Bærinn hefur tekið þá ákvörðun að honum verður lyft af botninum og komið inn í lyftuna hjá Skipalyftunni og honum þannig lyft upp, vonandi gengur þetta allt eftir. Það er að sjálfsögðu síðan bæjaryfirvalda að taka ákvörðun um framhaldið, hvað það verður ætla ég svo sem ekkert að hafa neina sérstaka skoðun á, en saga þessa báts er mjög mögnuð og mikilvægt að hún verði varðveitt.
Þetta veður sem þarna gekk yfir sýndi okkur kannski, hversu lítil við erum í raun þegar á reynir. Sem betur fer urðu engin slys á fólki, en þessi dagur var mjög sérstakur fyrir okkur hafnarverði, enda strax um leið og Blátindur var farinn niður tók við eltingarleikur á eftir flotbryggjum, sem flutu upp af festingum sínum, bæði inni í smábátahöfn og löndunarbryggjurnar inni í pytti, en ég fékk þá lýsingu niðri á bæjarbryggju, að þegar sjórinn fór sem hæst fór hann yfir rafmagnskassann sem er nyrst á bæjarbryggjunni, sem þýðir að ölduhæðin fór rúmlega hálfan metir yfir bæjarbryggjuna.
Enn og aftur, Björgunarsveitir sem voru að alla nóttina, fyrir hönd okkar allra, kærar þakkir.
Georg Eiður Arnarson
31.12.2019 | 18:11
Áramót 2019
Það er svolítið skrýtið ár að baki, en 2019 átti að vera fyrsta heila árið, þar sem ég kæmi ekkert nálægt útgerð en breytingar á vaktarskipulagi hafnarinnar gerði það að verkum, að ég fór aftur í útgerð að hluta til snemma á þessu ári og gengið bara nokkuð vel, en spá mín frá því um seinustu áramót um allt að 40% launalækkun með breyttu vaktarkerfi hafnarvarða, hefur að mestu leyti gengið eftir og svolítið skrýtið að hlusta á hástemmdar lýsingar á því, hversu frábært það yrði fyrir hafnarverði að eiga meira frí, en sé allt talið saman, frídagar, sumarfrí og venjuleg helgarfrí þá á ég í dag sennilega frí allt að 7 mánuði ársins og klárlega næðu endar ekki saman hjá mér nema með tilkomu Blíðu VE, en árið í ár var 32. árið mitt í útgerð.
Klárlega er stærsti atburður ársins koma nýs Herjólfs og margir hafa spurt mig um það, hvenær ég ætla að fjalla um Herjólf IV, en að mínu mati er það algjörlega ótímabært að fjalla um skipið fyrr en í fyrsta lagi eftir ár í fullri drift og eins og allir vita, þá á eftir að klára að ganga frá búnaðinum sem á að gera það kleyft að hægt verði að sigla á rafmagni einu, sem og að fjölga kojum en vonandi verður þetta klárt á nýju ári og ég efast ekki um það, að þessi frábæra áhöfn Herjólfs muni halda áfram að gera sitt besta með þetta skip, en ég vil um leið hrósa bæjarstjórninni fyrir að tryggja það að Herjólfur III verði hérna amk. fyrstu 2 árin.
Heitasta málið á landsvísu eru þessi svokölluðu spillingarmál og ég neita því ekki að manni fannst það dapurlegt, að við Íslendingar séum á lista yfir spilltustu þjóðir í heimi, en kannski kom það flestum okkar ekkert á óvart. Ég held hins vegar að núverandi ríkisstjórn muni lítið geta gert til þess að breyta þessu og allar breytingar í rétta átt, verði því einfaldlega að byrja hjá okkur sjálfum og þá kannski sérstaklega hjá þeim, sem alltaf verja og kjósa þá flokka sem bera ábyrgð á þessari spillingu.
Í síðustu grein minni fjallaði ég um sérstaklega gott tíðarfar í haust og síðasta sumar og út frá trillusjónarmiðinu er nú mun skemmtilegra að hafa kallt og stillt veður, en mér finns alltaf gaman samt, þegar hann hvessir og hlýnar og sjá hvernig jarðvegurinn tekur strax við sér, sérstaklega gaman finnst mér þó að ganga upp með Hánni og heyra gargið í fýlnum þegar að hlýnar eins og nú. Eyjar eru svo sem alltaf fallegar, hvernig svo sem viðrar.
En á öllum áramótum eru einhver tímamót og það svo sannarlega á mínu heimili um þessi áramót, en kl ca. 2 í nótt, Nýársdag, eru nákvæmlega 30 ár síðan ég gekk inn á Hallarlund og hitta þar fyrir unga og fallega konu, sem er enn gullfalleg. Við gengum saman út af þessum skemmtistað þessa nótt fyrir 30 árum síðan og erum enn að ganga í takt. Hver hefði trúað því?
Í brúðakaupin okkar var spilað og sungið fyrir okkur eitt af okkar uppáhalds lögum og erindi úr því hljómar svona:
Grow old along with me
The best is yet to be
When our time has come
We will be as one
God bless our love
(höf. John Lennon)
Óskum öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs, takk fyrir það gamla.
Kveðja Georg og Matthilda
22.12.2019 | 22:34
Jólin 2019
Tíðin hefur verið ótrúlega góð hjá okkur Eyjamönnum um þessi jól og maður svona næstum því, fær samviskubit þegar maður heyrir af ófærð og hörmungum fyrir norðan og austan land, en við Eyjamenn þekkjum nú alveg slæmt veðurfar og veturinn er svo sannarlega ekki búinn.
En jólin snúast um margt.
Eitt af því sem margir hafa spurt að að undanförnu er hvern á að velja sem mann ársins. Ég hef í sjálfu sér enga sérstaka skoðun á því, hver ætti að vera það hér á landi, en ung kona frá Svíþjóð hefur vakið sérstaka athygli á þessu ári og það á alheims vísu, en sú mun heita Greta Thunberg. Að mörgu leiti er boðskapur hennar svo sannarlega réttmætur og nægir þar að fylgjast með fréttum um gríðarlega elda suður í Ástralíu sem og miklum flóðum á Ítalíu og víða, svo þessi unga kona hefur svo sannarlega rétt fyrir sér að mörgu leiti og það þó svo að ég sé að mörgu leiti alls ekki sammála henni í öllu, enda með allt of sterk tengsl við náttúruna, en ég var sérstaklega hrifinn af ræðu sem hún hélt snemma í haust, þar sem hún skammaði alla forystumenn heimsbyggðarinnar fyrir það að hugsa meira um peninga heldur en að bregðast við þessum svokölluðu loftlags breytingum, sem að ég held að sé alveg hárrétt hjá henni og eiginlega ekki hægt annað en að dáðst að þessari ungu konu og klárlega væri hún manneskja ársins á Íslandi ef hún væri Íslensk, eða það finnst mér að minnsta kosti.
Ég hins vegar hef engar sérstakar áhyggjur af því að einhver dómsdagur sé framundan og hef í þá umræðu um þetta efni oftast vísað í málflutning Páls Bergþórssonar, en að hans sögn lauk hlýnunarskeiðinu fyrir 3-4 árum síðan og framundan er því kólnunarskeið næstu ár og áratugi, eins og alltaf hefur verið. Hins vegar er ljóst að sveiflurnar verða að sjálfsögðu dýpri vegna atferlis okkar mannanna og það er eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af.
Fyrir mér eru jólin ágætur tími til að einmitt velta svona málum fyrir sér, en jólin eru líka fyrir mér alltaf fyrst og fremst jól barnanna og barnabarnanna í okkar tilviki.
Fyrir mín hönd og minnar fjölskyldu óska ég Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
3.12.2019 | 21:50
Virðing...........
......eða kannski skortur á virðingu að einhverju leiti, er svona það hugtak sem mér hefur oftast dottið í hug að undanförnu og langar mig að nefna hér 4 dæmi um slíkt.
Í fyrsta lagi: Nú fjölgar stöðugt þeim fésbókar vinum mínum sem teljast til eldri borgara eða öryrkja, sem ákveða að flýja landið okkar vagna þess, í mörgum tilvikum, að þeir geta ekki lifað á eftirlaunum eða örorkubótunum sínum og neyðast því, í sumum tilvikum, til þess að flýja til annarra landa þar sem leiguhúsnæðið er ódýrara sem og allt uppihald. Mér finnst þetta vera ákveðið virðingarleysi við fólk, sem þrælað hefur alla sína ævi og hafa síðan ekki efni á því að lifa á landinu okkar og meira að segja þeir, sem hafa heilsu til að vinna hlutastarf, geta það ekki heldur vegna þess að þá skerðast bæturnar þeirra og ótrúlegt að hugsa til þess, að meira að segja í svona umdeildu landi eins og í Bandaríkjunum, þar eru lögin þannig að um leið og þú nærð 67 ára aldri, þá borgar þú ekkert oftar meiri skatta og mátt vinna eins mikið og þú vilt.
Hjá okkur er þetta hins vegar þannig, að við erum skattpínd alveg fram á grafarbakkann og rúmlega það, því ef við skiljum eitthvað eftir okkur fyrir okkar afkomendur, þá þurfa þeir líka að kljást við skattkerfið.
Ég kalla þetta algjört virðingarleysi fyrir fólki.
Í öðru lagi: Nýlega var samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyja hugmynd um að óska eftir því við ríkið, að komið verði á þyrluflugi í neyðartilvikum. Hugmyndin sem slík er bara ágæt og í sjálfu sér ekkert að henni, en ég spyr nú samt. Í gegnum árin og áratugina hafa fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök safnað miklum fjármunum til tækjakaupa og endurnýjunar á tækjum í sjúkrahúsi Vestmannaeyja og maður spyr, væri ekki nær að sýna þessum aðilum þá virðingu að berjast fyrir því, að hér verði aftur komið á þeirri heilsugæslu sem var í Vestmannaeyjum á árum áður með skurðstofu og hvað með virðingu fyrir unga fólkinu okkar sem er að eignast börnin sín og langar að sjálfsögðu að eignast þau hér í eyjum?
Hér í Vestmannaeyjum er stórt og mikið sjúkrahús, ágætlega tækjum búið, með frábæru starfsfólki sem í raun og veru getur leyst flest þau vandamál sem upp koma, var ekki nær að berjast fyrir því heldur en að ætla að leysa allt með einhverri þyrlu?
Höfum líka í huga að ekki hef ég séð nein staðar borið saman kostnaðartölur á því, hvað þetta neyðarflug kostar á ársgrundvelli, né heldur hvað það kostar að manna skurðstofu í Vestmannaeyjum. Höfum einnig í huga alla biðlistana á höfuðborgarsvæðinu. Væri ekki alveg kjörið að nýta sjúkrahúsið okkar betur og reyna þá að semja við ríkið um að yfirtaka sérstakar aðgerðir af einhverju tagi amk. yfir vetrarmánuðina, því hér í Vestmannaeyjum er nóg gistipláss og nóg af veitingastöðum til að þjóna stórum hóp af sjúklingum, ef út í það er farið.
Kannski ekki beint virðingarleysi í þessu, en það mætti klárlega skoða þessi mál aðeins betur.
Í þriðja lagi: Ég ætla að hrósa núverandi bæjarstjórnar meirihluta fyrir það að sýna gamla góða Fiskasafninu okkar þá virðingu að opna það aftur. Ég er einn af þeim fjöl mörgu sjómönnum, sem hafa í gegnum árin fært safninu allskonar fiska og einhverja fugla á árum áður og tek því heilshugar undir allt það jákvæða sem sagt hefur verið í því sambandi. Vonandi finnst síðan í framhaldinu góð framtíðar lausn fyrir safnið, en ég nefni þetta aðallega vegna þess að ég las bókun minnihlutans í bæjarstjórn og þessi setning vakti athygli mína:
Það hefur alltaf legið fyrir, að ekki færi allt úr fiskasafni okkar niður í Fiskiðju.
Nú sat ég í 2 nefndum á síðasta kjörtímabili, þar sem málefni Fiskiðjunnar voru rædd. Einnig skrifaði ég grein um Fiskiðjuna í fyrra vor, þar sem ég einmitt fjallaðu um áhyggjur mínar á því, hvað yrði um þetta merka safn okkar í höndunum á þeim sem reka safnið í Fiskiðjunni, þessa setningu frá minnihlutanum hef ég hins vegar aldrei heyrt áður. Hins vegar getur hún að sjálfsögðu hafa komið fram eftir að ég hætti í nefndunum.
Að öðru leiti óska ég fyrst og fremst meirihlutanum til hamingju með það, að sýna safninu okkar þá virðingu að opna það aftur.
Í fjórða lagi: Eitt af þeim málum sem ég tók upp á síðasta kjörtímabili var málefni Gaujulundar. Þáverandi meirihluti hafði ekki áhuga á málinu og ég hafði áhyggjur af því framan af að núverandi meirihluti hafði ekki áhuga á því heldur, en nú er búið að setja kraft í málið og sýna Gaujulundi þá virðingu sem staðurinn á skilið og ekki bara Gaujulundi, heldur líka loksins komið til móts við þá aðila sem sinnt hafa viðhaldi Gaujulunds árum saman launalaust og ég ætla að nota þetta tækifæri og hrósa öllum sem komið hafa að málinu, hvort sem er í meiri eða minnihluta og ekki hvað síst því fólki sem unnið hefur þarna í sjálfboðastarfi af virðingu og ást fyrir staðnum, kærar þakkir allir.
Virðingarfyllst
Georg Arnarson
25.9.2019 | 20:19
Lundasumarið 2019
Lundaballið er um helgina og því rétt að gera upp lundasumarið 2019.
Þegar þetta er skrifað er pysjufjöldinn hjá Pysjueftirlitinu að detta í 8000, sem þýðir að miðað við alla þá sem ég hef séð fara með Herjólfi að morgni til með fulla kassa af pysjum án þess að fara með í vigtun, að heildartalan sé þá klárlega komin í amk 10.000 pysjur, sem þýðir að varp stofninn okkar telur amk milljón pör, en þetta er stærsta pysjuárið okkar í rúman áratug og sennilega alveg síðan 2005 og 2006, en 2006 er fyrsta árið þar sem menn fyrst urðu varir við að eitthvað mikið væri að, enda pysjan óvenju létt þá um haustið. 2007 var hún hins vegar í mjög góðu standi, en fjöldann vantaði.
Árið í ár hinsvegar, er 5. árið í röð þar sem við fáum nokkur þúsund pysjur og mér reiknast til að miðað við að bæjarpysjan sé 1% eða minna, þá sé heildar nýliðunin þessi 5 ár um 4 milljónir lunda. Haldi þetta áfram næstu árin, sem við öll vonum, þá ætla ég að vera svo bjartsýnn að spá því að lundastofninn nái hugsanlega fyrri stærð innan jafnvel 3-5 ára, en alltaf hefur verið talað um lundastofninn í Eyjum amk 8 milljónir fugla.
Margir hafa áhyggjur af hugsanlegu inngripi umhverfisráðherra, en ég varaði einmitt við þessum aðila í grein minni frá því vor þegar lundinn settist upp.
Margir hafa einnig velt upp spurningunni, hvernig í ósköpunum Náttúrustofa Íslands fær það út að lundastofninn telji aðeins um 2 milljónir para á öllu landinu okkar (að mínu mati er hann um 30 milljónir).
Ég hef nokkrum sinnum fjallað um hlut Erps í þessum lundatölum og flestir vita í dag að hann fer hringferð 2svar yfir lundatímann og telur lundaholur á litlum svæðum og reiknar þannig út fjöldann. Það er hins vegar marg sögð staðreynd, og ég ætla að vitna í orð fuglafræðings frá því um sumarið 2007.
Menn verða alltaf að hafa það í huga að þegar vísindamaður er að óska eftir styrkjum til rannsókna, þá fást einfaldlega engir styrkir nema útlitið sé litað nógu dökkum litum.
Persónulega tel ég að hugsanlega sé Erpur einfaldlega í einhvers konar hefndarhug gagnvart lundasamfélaginu hérna í Eyjum, enda hefur verið gert óspart grín að honum og hans vinnubrögðum á lundaböllum síðan hann kom hingað árið 2007, en það verður forvitnilega að sjá í haust hvernig hann túlkar þessa miklu aukningu á pysjum hérna í Eyjum, en ég hef rætt við aðila, bæði í Ísafjarðardjúpi, heimsótt Grímsey norður í landi (toppurinn á árinu), heyrt í ferðaþjónustuaðilum í Húsavík sem og við Papey. Allstaðar er lundanum að fjölga.
Stærsta áhyggjuefnið hér í Eyjum er eins og áður, að lítið sést af lunda hérna í sumar og sumir hafa velt því fyrir sér hvort það geti verið, að vegna ætisskort hafi ungfuglinn okkar fært sig eitthvað annað og jafnvel komi hugsanlega við í Eyjum í ágúst á leiðinni frá landinu.
Ég er ekki sammála þessari skoðun og tel að ef svo væri, þá ætti klárlega að fjölga verulega veiddum lundum annarstaðar sem hefðu verið merktir sem pysjur hér í Eyjum, en samkv. þeim upplýsingur sem ég hef, þá veiddist aðeins 1 lundi á Íslandi, sem merktur var í Vestmannaeyjum.
Í ár voru leyfðir 8 veiðidagar, 8-15 ágúst. Að venju fór ég ekki til veiða, ekki frekar en yfirgnæfandi meirihluti af veiðimönnum í Eyjum, en þeir sem fóru veiddu, eftir því sem ég veit best, milli 6-700 lunda. Mest af þessu var veitt 15. ágúst, en þá gerði mjög hagstæða austanátt, en mér skilst að meirihlutinn af þessu hafi verið ungfugl.
Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með öllum þeim gríðarlega fjölda af fólki sem var hérna um helgar við pysjuveiðar og það kemur mér ekkert á óvart ef stelpurnar mínar hafi bjargað um 3-400 pysjum.
En svona til gamans ein lítil, gömul pysjuveiðisaga frá mér:
Ég hef sennilega verið svona 11-12 ára gamall og staddur við bæjarbryggjuna ásamt fullt af fólki, nýkomið myrkur og allir að bíða eftir að pysjurnar fara að fljúga. Það var oft erfitt að fá kassa, en ég hafði græjað mig með víðri peysu, sem ég hnýtti fyrir að neðan og tróð svo bara pysjunum inn á mig. Það var oft æði mikið fjör undir peysunni og ekki óvanalegt að maður var oft mikið klóraður eftir annasamt kvöld, en þetta tiltekna kvöld tóku nokkrir krakkar eftir því að pysja hafði lent uppi á mjölgeymslu Ísfélagsins, stóð þar á brúninni norðan megin og horfði yfir allt mannhafið. Sumir tóku til við að stappa og klappa til að sjá hvort hún flygi ekki niður, en ekki haggaðist hún, svo 2 ofurhugar tóku sig til og klifruðu upp ljósastaurinn austan við mjölgeymsluna og upp á þak. Við krakkarnir stilltum okkur út um allt planið til að vera tilbúin að grípa pysjuna, en ég ákvað að stilla mér upp við girðinguna við höfnina, ef henni skyldi nú takast að fljúga þangað, svo hún kæmist ekki í höfnina. Loksins þegar hún flaug, þá fór hún fyrst niður og svo hátt upp, yfir allan krakkahópinn, rétt áður en hún kom að girðingunni þar sem ég stóð, lækkaði hún aðeins flugið, svo ég stökk upp og náði taki á löppunum á henni, náði svo betra taki og stakk henni inn á mig og labbaði ansi góður með mig í burtu.
Já, lundaballið er um helgina og ég ætla að reyna að mæta. Óska að sjálfsögðu öllum gleðilegrar skemmtunar og efast ekki um að þetta verði flott ball hjá Bjarnareyingum og munum, að lundinn mun koma til Eyja löngu eftir okkar dag í milljóna tali.
31.8.2019 | 21:18
Gleðilegt nýtt ár sjómenn
Nýtt fiskveiðiár hefst á miðnætti og því rétt að fara aðeins yfir stöðuna, en í grein minni fyrir sjómannadaginn útskýrði ég þá skoðun mína að hin mikla innspýting í lífríki sjávar, sem varð þegar ákveðið var að leyfa ekki loðnuveiðar, myndi að öllum líkindum leiða til annaðhvort verulegra aukninga á aflaheimildum á bolfiski eða hugsanlega góðrar loðnuvertíðar næst. Nú liggur fyrir að aukning á aflaheimildum á bolfiski varð ekki, en það mun svo skýrast á nýju ári hvernig loðnuveiðar verða. Ég verð hins vegar að lýsa miklum vonbrigðum með það að Hafró skuli komast upp með það að auka aflaheimildir í ýsu á síðasta ári um 40% og segja síðan: Úps....vitlaust reiknað, og skera svo niður um 28% fyrir næsta fiskveiðiár og það án þess að ráðherra geri nokkrar athugasemdir.
Í sjálfu sér eru það ekkert nýjar fréttir að Hafró geri mistök en beri enga ábyrgð.
Heitasta fréttin að undanförnu er einmitt af þeim toga, en uppsagnir starfsmanna Hafnarnes Ver í Þorlákshöfn vegna tillaga Hafró um veiðar á sæbjúgum minnti mig ansi mikið á það þegar lúðuveiðar voru bannaðar, en í mörg ár hafði Hafró haft í sínum tillögum um lúðuveiðar þá lýsingu, að stofnunin vissi einfaldlega ekki nóg og mikið um stöðu lúðunnar og legðu þess vegna til að lúðuveiðar yrðu bannaðar vegna óvissunnar um stöðu stofnsins, og það þó að engar rannsóknir lægju fyrir en að aflamagn lúðu hafði minnkað síðustu 2 árin áður en lúðuveiðibannið var sett á, en merkilegt nokkuð, þá er síðasta árið sem lúðuveiðar voru leifðar eitt af stærstu árunum í sögu lúðuveiða.
Fyrir nokkru síðan rak ég augu í tillögu Hafró um áframhaldandi bann á lúðuveiðum, en í tilkynningunni kom fram að stofnunin teldi að lúðustofninn væri ekki að ná sér, sem er mjög sérstakt sérstaklega ef haft er í huga að í reglugerðinni um lúðuveiðar kemur fram að ef lúða veiðist og er lífvænleg, þá áttu að henda henni aftur í hafið og því engin furða þó stofninn mælist ekki á uppleið.
En svona til gamans, gömul frétt úr ráðgjöf Hafró frá árinu 1981 sem hljómar svona:
Verði aflinn takmarkaður við 400.000 tonn fer þorskstofninn vaxandi næstu ár, einkum hrygningarstofninn ef forsendur um stærðir árganga eru nærri réttu lagi. Hafrannsóknarstofnun leggur áherslu á að þorskstofninn verði byggður enn frekar upp á næstu árum og veiðar því takmarkaðar á árinu 1981 við 400.000 tonn.
Þorskaflinn fyrir árið 1981 var 469.000 tonn. Samt lagði Hafrannsóknarstofnun til að þorskaflinn fyrir árið 1982 miðaðist við 450.000 tonn.
Er nema furða þó að maður skilji ekki allt sem kemur frá þessari stofnun, en hún virðist hafa lyklavöldin að fiskimiðum okkar algjörlega í sinni hendi.
Það hefur stundum, sérstaklega fyrir Alþingiskosningar, verið talað um að taka þurfi tillit til þekkingu og reynslu sjómanna, en einhverra hluta vegna man ég ekki eftir að hafa heyrt þetta í þó nokkuð mörg ár, en hvað sem því líður, vonandi verður tíðin góð og vonandi fáum við risa loðnuvertíð með mikilli fiskgengd.
Gleðilegt nýtt fiskveiðiár sjómenn, útgerðamenn, fiskverkafólk, allir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2019 | 22:41
Sjómannadagurinn 2019
Vertíðin í ár var frekar óvenjuleg og virtist byrja aðeins seinni heldur en vanalega, en eins og undan farin ár, gríðarleg veiði. Það stendur hins vegar ofarlega í huga mér eins og annarra Eyjamanna, vonbrigðin yfir því að ekki skyldi vera gefinn út neinn loðnukvóti og að sjálfsögðu finna allir í bæjarfélaginu fyrir því. Það voru væntingar alveg fram undir það síðasta að eitthvað yrði gefið út og svolítið sérstakt að heyra þaul reynda uppsjávarskipstjóra tala um að það sem sést hefði af loðnu væri ekkert ósvipað og undan farin ár, en mest bar þó á loðnu hér við Eyjar þó nokkuð eftir að Hafró hafði lokið leit sinni, sem aftur er frekar óvenjulegt enda mun seinna en vanalega.
Ef það er hægt að tala um eitthvað jákvætt við það að ekki séu leyfðar loðnuveiðar, þá er það það að reynslan hefur kennt okkur það að í framhaldi af þeim árum þar sem loðnuveiðar eru ekki leyfðar, hafi oft komið upp mjög góð ár og jafnvel dæmi um loðnuveiðar upp á jafnvel milljón tonn.
Önnur hlið á þessu er svo aftur sú innspýting inn í lífríki sjávar sem engar loðnuveiðar hljóta að gera. Það hlýtur því að vera nokkuð augljóst að fram undan séu töluverðar líkur á auknum aflaheimildum og maður spyr sig svolítið hvort að útgerðir og sjávarbyggðir eigi ekki að gera þá kröfu á vísindamenn Hafró, um að svona bann eins og á loðnuveiðum á þessari vertíð skili sér síðar meir og þá um leið útskýringar á því ef svo verður ekki.
Hversu oft hefur maður ekki heyrt vísindamann segja að ef ekki verði farið að útreikningum þeirra, þá hafi það slæmar afleiðingar og svo aftur þegar að dæmið gengur ekki upp, já þetta voru bara tillögur, það er ráðherra sem ræður.
Flestir sjómenn sem ég ræddi við á vertíðinni eru á þeirri skoðun, að það hefði verið óhætt að leyfa allt að 100 þúsund tonna loðnukvóta. Allir sjómenn eru á þeirri skoðun, að það þurfi að auka við þorskkvótann miðað við stöðuna á miðunum og svo sannarlega gætum við sem byggjum alla afkomu okkar á sjávarútvegi svo sannarlega þegið viðbótina. En það verður spennandi að sjá tillögur Hafró.
Óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags.