Að halla sannleikanum

Það er svo sem ekkert nýtt að sannleikanum sé hallað, en í framhaldi af síðustu grein minni, þar sem ég varaði sérstaklega við stefnu núverandi umhverfisráðherra í friðunarmálum, þá rak ég augun í dag inni á Vísi á viðtal við Jóhann Ólaf Hilmarsson, fuglafræðing og áhugaljósmyndara, þar sem Jóhann lýsir þeirri skoðun sinni að friða eigi alla sjófuglastofna á Íslandi.

Í sjálfu sér hef ég ekkert við þessa skoðun Jóhanns út á að setja, enda fullt af fólki sem deilir skoðunum hans og er í fullum rétti til þess.

Hins vegar fullyrðir Jóhann í þessu viðtali að sjófuglum fækki og fækki og að sumar tegundir séu jafnvel í frjálsu falli og það vegna hlýnunar og ætisskorts, og það sé þannig að stofnar eins og t.d. fýlnum hafi fækkað um 40% á undanförnum árum. 

Jóhann fellur þarna klárlega undir skilgreiningu mína á öfgasinnum, en tökum aðeins dæmi einmitt af fýlnum.

Í ár eru liðlega 40 ár siðan ég fór fyrst og týndi fýlsegg. Undanfarin ár fer ég alltaf á sömu staðina og týni egg og viti menn, alltaf get ég gengið á sömu staðina á hverju einasta ári án þess að verða var við nokkra fækkun og fyrir okkur, sem förum reglulgea með Herjólfi, þá sjáum við vel að fjöllin eru það yfirfull af fýl hér í Vestmannaeyjum, að fýllinn er farinn að leggja undir sig nýja hraunið, til móts við Klettsnefið.

Við getum líka tekið dæmi af ritunni, sem reyndar enginn nýtir, en það eru ekkert svo mörg ár síðan að engin rita var í klettunum fyrir aftan Skýlið, en nú er allt gjörsamlega þakið þar af ritu, að  maður tali nú ekki um lundann með þúsundir bæjarpysja á hverju ári, ár eftir ár. 

Það er því gríðarlega mikilvægt að fólk standi í lappirnar þegar aðilar, sem hafa klárlega hagsmuni af öllum verndunum, tjái sig með sama hætta og Jóhann gerir og eða eins og ég orða það, hallar sannleikanum.

Hvet fólk hér í Vestmannaeyjum eindregið til þess að labba bara meðfram Hánni og horfa þar á fýl í hverju einasta hreiðri, hér er engin fækkun og allt tal um slíkt er tómt þvaður.


Gleðilegt sumar

Lundinn er að setjast upp í kvöld 13. og þar með komið sumar hjá mér. Mig minnir að þetta sé aðeins í 3. skiptið sem hann sest upp þann 13. og ef miðað er við tíðarfarið að undanförnu, þá hefði maður frekar haldið að hann kæmi eitthvað seinna, en lundinn er óútreiknanlegur.

Í fyrra settist hann hins vegar ekki upp fyrr en þann 20. en ég hef aldrei séð hann setjast upp seinna en þann 20. en í fyrradag settist hann upp norður í Grímsey, en hann kemur yfirleitt fyrr það og fer fyrr.

Margir veiðimenn hafa haft samband við mig að undanförnu, vitandi það að ég myndi skrifa þessa grein, og viljað að ég kæmi inn á nýlegt viðtal við Erp, en í því viðtali kemur fram hjá Erpi að mikill pysjudauði hafi verið árið 2018, en nú er einfaldlega hægt að fletta upp í skránni hjá pysjueftirlitinu og fá þar staðfest að árið 2018 var metár í pysjum í Vestmannaeyjum og þar sem ég nenni ekki að fjalla um Erp, þá ætla ég að leyfa öðrum að lesa í þessar tölur.

Umhverfisráðherra er hins vegar sá aðili sem mig langar að fjalla aðeins um. 

Ég hef nú varað nokkrum sinnum við þessum aðila, en í nýlegu viðtali við hann, þá fagnar hann því mjög að hafa náð að friða nokkur landsvæði á landinu okkar og nefnir að hann ætli sér að reyna að friða 15-20 staði í viðbót fyrir næstu kosningar. Margir hafa bent á mjög furðulega afstöðu hans varðandi friðun á fýlnum og súlunni sem eru stofnar, sem miðað við það sem ég og margir höfum séð, eru að öllum líkindum í sögulegu hámarki. En það er auðvelt að láta glepjast. 

Fyrir nokkru síðan voru Látrabjörg friðuð og í viðtali við einn af þeim sem haft hefur nytjar þarna árum saman, kemur fram að þeir hafi engar áhyggjur af þessari friðun vegna þess að það sé tryggt að þeir haldi rétti sínum til að nýta aðallega svartfuglsegg á svæðinu. 

En þarna kemur einmitt að aðal atriðinu. Um leið og ríkið er komið með friðun á svæðinu, þá þarf ekki nema einn fuglafræðing sem segir að ástandið á stofninum sé ekki nógu gott til þess að öllu sé skellt í lás.

Í máli ráðherra kom alveg skýrt fram að hann ætli sér að friða fjöllin í Vestmannaeyjum og því miður er til fólk sem heldur að það sé bara allt í lagi, en tökum dæmi: Ein af Vestmannaeyjunum er nefnilega Surtsey og hún er friðuð og þangað má enginn fara nema með sérstöku leyfi.

Það kostaði mikil átök að koma í veg fyrir að fjöllin í Vestmannaeyjum færu undir yfirráð ríkisins á síðasta kjörtímabili. Ég treysti því að fólkið okkar sem situr hér í nefndum og ráðum hafi það í huga.

Varðandi væntingar fyrir sumarið, þá eru það þær sömu og yfirleitt áður, vonandi förum við að sjá mikið af lunda í fjöllunum fyrr en síðustu árin og ótrúlegt að strax í dag, 13. er maður búinn að sjá lunda í öllum fjöllum í Eyjum, það er ótrúlega bjart yfir þessu öllu, enda má með sanni segja að sjórinn í kring um Eyjar sé smekk fullur af æti.

Gleðilegt sumar allir.


Trillukarlar í stórsjó

Það má svo sannarlega segja það, að sótt sé að trillukörlum úr öllum áttum þessar vikur og mánuði og eins og svo oft áður af sjávarútvegsráðherrum Sjálfstæðis eða Framsóknarflokks, en það er mín skoðun að ef kvótasetning á grásleppu verði að veruleika, þá sé þar stigið risastórt skref í átt að því að útrýma trillukörlum.

En byrjum á byrjuninni.

Landssamband smábátaeiganda, LS, var stofnað 1985 vegna þess, að þá lágu fyrir hugmyndir sem klárlega hefðu lagt niður trilluútgerð á Íslandi. 

Sjálfur byrjaði ég í trilluútgerð haustið 1987 og hef því verið viðlogandi þetta svo til allan tímann. Baráttan var oft erfið á þessum fyrstu árum en það er mín skoðun, að þorskaflahámarkskerfið, þar sem trillur gátu róið frjálst í allar tegundir nema þorsk, þurftu bara kvóta fyrir þorskinum, sé besta kerfið sem amk ég hef upplifað á ferlinum, enda voru þetta mest megnis litlir bátar þar sem veðrið hafði afar mikið að segja, en um leið var þá hægt að veiða tegundir sem í mörgum tilvikum hafa algjörlega hrunið eftir kvótasetningu.

Það var Árni M. Matthiesen sem tók þetta kerfi af 1998 og hófst þá mikil fækkun smábáta þá þegar. 2004 er síðan dagakerfið sem var tekið af og notuð sama aðferð og við höfum séð svo oft á undanförnum árum, en dögunum var einfaldlega fækkað þangað til að trillukarlarnir sjálfir fóru að heimta kvótasetningu út á aflareynslu. 

Sama sáum við með makrílinn. Þá var settur á pottur sem kláraðist meðan ennþá var bullandi veiði og að sjálfsögðu fóru þeir sem komnir voru með mestu veiðireynsluna fram á að fá frekar kvóta.

Þetta sama sjáum við vera að gerast núna með grásleppuna. Hafró býr til einhverja bull tölu um áætlaða hámarks veiði og ráðherra lætur síðan höggið ríða og eyðileggur grásleppu vertíðina í vor algjörlega fyrir fjölmörgum trillukörlum. 

Allar þessar aðgerðir eru meira og minna gerðar gegn skoðunum og stefnu LS, en það er auðvelt að setja sig í spor trillukarla sem fjárfest hafa í veiðarfærum og búnaði, en fá svo allt í einu ekki að róa. Þetta er að sjálfsögðu besta aðferðin, eins og sagan hefur sýnt sig, til þess að fá menn til þess að heimta kvóta og taka þar með undir skoðanir ráðherra.

Það er að mínu mati augljóst, að verði af þessari kvótasetningu á grásleppuni, þá munu margir fá svo lítið að það borgar sig ekki að fara af stað. Aðrir munu bara selja þannig að grásleppan verður að óbreyttu enn einn stofninn sem verður vannýttur á fiskimiðunum okkar.

Alveg klárlega mun þetta þýða það, að enn fleiri munu færa sig yfir í núverandi strandveiðikerfi, sem aftur gefur auga leið að muni þá bara springa. 

Þorskstofninn er, samkv. nýjustu mælingum Hafró, á niðurleið þriðja árið í röð. Það verður því klárlega þrýstingur frá stórútgerinni að aflaheimildir í strandveiðum verði ekki auknar og nú þegar sér maður að umræðan er farin að snúast um það hjá sumum sem komnir eru með góða veiðireynslu á strandveiðum síðustu ár, að þá sé kannski best að fá bara kvóta. 

En hvers vegna er þetta svona?

Veruleikinn er sá, að áður en aflaheimildum á Íslandi er úthlutað þá eru dregin af þeim 5,3%. Í þeirri tölu eru inni strandveiðar, línuívilnun, byggðakvóti og sérstakur byggðakvóti.

Undanfarin 20 ár eða svo hef ég mætt á ótal fundi þar sem sjávarútvegsmál hafa verið til umræðu og ég hef einfaldlega enga tölu á því, hversu oft hagsmunaaðilar hafa borið upp þessa spurningu við bæði ráðherra og þingmenn:

Hvenær ætlið þið að skila okkur þessum 5,3%?

Og meira að segja, fyrir örfáum árum síðan lét fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins úr Grindavík hafa það eftir sér, að hann myndi nú gera það bara strax ef hann réði öllu.

Þess vegan segi ég það hér og nú, að fólk sem að unnir trilluútgerð og trillukörlum hvar sem er á landinu, það þarf að hafa þetta í huga um næstu kosningar. Það er augljóst hvaða flokkar hafa unnið að því skipulega að útrýma trillukörlum. Vissulega eiga trillukarlar stuðningsmenn í öllum flokkum, en það er stefnan sem skiptir máli.

Því miður er það þannig að mörg bæjarfélög hafa farið afar illa út úr núverandi kvótakerfi og veruleikinn er sá, að kvótakerfið hefur aldrei skilað því sem það átti að gera ef alltaf væri farið eftir tillögum Hafró, sem alltaf hefur verið gert. 

Kerfið mun því lifa áfram vegna hagsmunaaðila og bankana og skiptir engu máli þó svo að það sé nú bara staðreynd, að það voru einu sinni trillukarlar sem byggðu upp bæjarfélög eins og Vestmanneyjar á sínum tíma .

Í dag er sótt að trillukörlum úr öllum áttum og bara þessi síðasti rúmlega áratugur hefur sýnt það og sem dæmi, stækkun smábáta upp í þessa 15 metra báta, sem eru að sjálfsögðu engar trillur í dag. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði einu sinni við mig að hann hefði samþykkt þessa stækkun út frá öryggissjónarmiði, en ég spáði því á sínum tíma að þetta yrði sá bátaflokkur sem myndi kaupa upp alla þessa litlu og síðan yrði þeim róið svo stíft, að þetta yrði sá bátaflokkur sem oftast myndi lenda í því að stranda eða keyra sofandi upp í fjörur, eins og dæmi hafa sýnt.

Færsla á veiðigjöldum yfir á leiguliðana er staðreynd og mér skilst að samhliða kvótasetningu á grásleppu, eigi líka að skerða aflaheimildir til línuívilnunar.

Því skora ég á alla þá sem unna trillum og trillukörlum að setja einfaldlega X við trillukarla næsta haust.


Áramót

Árið 2020 verður klárlega árið sem flestir munu minnast sem hörmungarárs vegna Covids, en að Covids slepptu, þá var þetta bara nokkuð gott ár hjá mér.

Fiskaði bara nokkuð vel, komst til Grímseyjar enn eitt árið og náði að heimsækja staði sem mig hefur alltaf langað til að heimsækja m.a. skoðaði ég lundahólminn á Borgarfirði eystra. Heimsótti líka bæði Vopnafjörð og Raufarhöfn, frábærir staðir. Kom líka við á Þórshöfn og Kópasekri og gisti svo á Húsavík og fór þar í Ribsafari ferð og náði loksins að skoða Lundey. Endaði svo sumarfríið mitt í lok ágúst með því að fara vestur á Bjarkarlund og fylltum þar öll ílát sem við vorum með af bláberjum, tókum reyndar krækiber aðallega hérna í Eyjum, enda mikið af þeim hér.

Árið endaði hins vegar ekki vel, en við misstum hundinn okkar, hann Svenna, í byrjun desember. Virkilega erfitt fyrir alla fjölskylduna að sjá á eftir honum, enda löngu orðinn hluti af fjölskyldunni. 

Árið 2021.

Það er einhver beygur í mér yfir þessu nýbyrjaða ári, en vonandi losnum við við þessa veiru á árinu. Það er hins vegar ýmislegt annað sem líka mun gerast á árinu. Það er t.d. flestum ljóst að það mun taka langan tíma að vinna upp, allt það sem tapaðist á síðasta ári og við sjáum nú þegar glitta í það, en mér finnst eins og allt sé að hækka, allir skattar og gjöld og vörur í verslunum hafa hækkað. 

Vinna þarf úr hinu mikla atvinnuleysi sem skapast hefur undanfarna mánuði og vonandi tekst það á árinu, en á þessu ári verður líka kosið til Alþingis. Flestir munu að sjálfsögðu horfa til þess, hvernig best er að rétta við fjárhag þjóðarinnar, en eitthvað segir mér að það verðum við sem vinnum á gólfinu sem þurfum að borga brúsann á einn eða annan hátt. 

Fyrir mitt leyti, þá nálgast ég þessar kosningar á svipaðan hátt og undanfarnar kosningar. Útgerðin er lífæð okkar Eyjamanna og þegar þetta er skrifað, þá sýnsit mér, gróft reiknað, búið að selja ca. 15000 tonn af aflaheimildum frá Eyjum frá hruni með beinum eða óbeinum hætti. Þar fyrir utan er Hafró að mæla þorskinn niðurávið 3. árið í röð (mun reyndar fjalla um tilraunir núverandi ríkisstjórnar til að útrýma trillukörlum í næstu grein).

Þess vegna horfi ég fyrst og fremst á sjávarútvegsstefnu framboðanna, þeir sem styðja núverandi kerfi fá augljóslega ekki mitt atkvæði, heldur ekki þeir sem styðja kerfið og vilja bara hækka veiðigjöldin, svo það er augljóst að það verður ekki um auðugan garð að velja, en vonandi kemur eitthvað framboð með einhavð svipað og t.d. að taka upp þorskaflahámarkskerfi fyrir smábáta, því að þó svo að ég eigi ekki langt eftir í minni útgerð, þá er fullt af ungum mönnum sem langar að reyna sig, en eiga litla möguleika til þess í dag.

En vonandi verður tíðin bara góð í vetur, vonandi fáum við frábæra loðnuvertíð, vonandi fer ferðaþjónustan í gang strax í sumar, en hvað sem verður þá kemur lundinn í milljónatali í vor, ég ætla að reyna að komast til Grímseyjar enn eitt árið og Þjóðhátíðin í ár verður alveg klárlega sú flottasta og stærsta frá upphafi.

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.


Jólin 2020

Það sem svo mikið er af neikvæðni í heiminum í dag, þvi ætla ég bara að fjalla um það sem er jákvætt. Fyrr á þessu ári opnaði sundlaugin okkar eftir umtalsverðar breytingar og lagfæringar, þó svo hún hafi nú verið lokuð stórann hluta af árinu þá fannst mér þetta afskaplega vel heppnað. Óska okkur öllum því til hamingju með það. 

Einnig opnaði á árinu svokallaður Hreystivöllur. Ég vissi ekki einu sinni fyrr en fyrir stuttu síðan að hér væri búið að setja upp frispívöll. Það hefur mikið verið byggt upp í kringum íþróttirnar á undanförnum árum og frábært að horfa til dæmis á knattspyrnuhöllina okkar. Ég man vel eftir þeim árum þar sem maður æfði á gamla malarvellinum í öllum veðrum og því frábært að sjá hvernig uppbygging á þessum íþróttamannvirkjum hefur tekist. 

Bygging nýrrar slökkvistöðvar gengur vel og gott að sjá að slökkvuliðið okkar fái loksins þá aðstöðu sem þeim hefur vantað svo lengi. 

Nýlega luku verktakar vinnu við að þylja skipalyftukantinn en það vakti athygli margra sem fylgdust með hversu vel var staðið að öllum verkferlum í þessu. Ég held það sé óhætt að mæla með þessum aðilum sem unnu þetta verk í framtíðinni, enda næg verkefni við lagfæringar á höfninni. 

Mig langar líka að hrósa þeim sem komu að því að gera nýja göngustíginn upp Dalfjallið. Það er mikil breyting að sjá fyrst þessar lagfæringar á uppgöngunni í Heimaklett og núna í Dalfjalli og að mínu mati afskaplega jákvætt. 

Mjaldrarnir okkar eru aftur komnir inn í sundlaugina sína, en það vakti sérstaka athygli hversu vel girðingarnar og festingarnar á nýjum heimkynnum þeirra í Klettsvík stóðu af sér þessi ofsaveður sem við höfum fengið í haust. Ég vil nota tækifærið og óska Gunna Ella P og félögum til hamingju með vel heppnað verkefni. 

Ferjan okkar er loksins farin að sigla á rafmagni til og frá Landeyjarhöfn sem er bara afskaplega jákvætt. Vonandi mun reksturinn taka enn frekar við sér næsta sumar. 

Ég fjallaði lítillega í haust um aðstöðu suður í Klauf, fyrir þá sem stunda sjósund, með þá heitum pottum og öllu sem því fylgir. Ég tel það vera óskylt umræðunni um lón suður í hrauni, í anda Bláa lónsins, enda er það mál tengt því hvernig mögulega sé hægt að nýta umfram orku af nýrri brennslu hjá Sorpu þegar hún kemur. En að mínu mati er þetta allt saman bara jákvætt. 

Fyrir mig sem gamlann lundaveiðimann, þá hefur það verið ofboðslega jákvætt að fylgjast með gríðarlegri uppbyggingu lundastofnsins undanfarin ár, en á tímabili voru menn farnir að tala um það að hugsanlega hyrfi lundinn alveg frá eyjum. En framundan er frábær ár enda hefur lundanum fjölgað jafnt og þétt seinustu fimm árin. Það er nú einu sinni þannig að alveg sama hversu svart útlitið er, þá birtir alltaf upp síðar.

Óska öllum gleðilegra jóla. 


Covid19

Covid19 tröllríður öllum fjölmiðlum alla daga og sumum finnst kannski nóg um, en hér frá mér kemur smá reynslusaga, tillaga og skoðun.

Í fyrstu bylgjunni sl. vetur vildi þannig til að mjög nánir ættingjar mínir, eldri borgarar, voru staddir á sólarströnd þegar allt fór á fleygi ferð. Ákveðið var að stytta ferðina og koma heim nokkrum dögum fyrr en áætlað var, en það vakti athygli að hvorki í rútunni út á flugvöll né í flugvélinni var grímuskylda og því fullt af fólki sem var ekki með grímur.

Í flugvélinni var síðan hvorki boðið upp á mat né drykk og við komuna til Keflavíkur var þeim eiginlega smalað út af vellinum með hraði og til að kóróna það, þá var búið að loka gistiheimilinu sem þau áttu að gista í, en þau komu til landsins að kvöldi til. 

Ég fékk símtal frá þessum nánu ættingjum kl 11 um kvöldið, þar sem þau voru eiginlega farin að plana það að sofa í bílnum niðri á bryggju, en þau áttu pantað með Herjólfi daginn eftir. Mér tókst að redda þeim gistingu í sumarbústað hjá góðum vini, en mér finnst ýmislegt í þessari frásögn vera eitthvað sem við svo sannarlega verðum að læra af.

Í Herjólfi hins vegar var tekið á móti þeim af aðila bæði með grímur og hanska, sem afhenti þeim líka grímur og hanska, sem síðan fylgdi þeim á afvikinn stað í ferjunni, virkilega vel að málum staðið þar. 

Við heyrðum í vikunni fréttir af því að búið væri að bæta við verkefnum hjá sjúkrahúsi Selfoss og um leið berast fréttir af löngum biðlistum hjá fólki sem er enn að glíma við eftirköst eftir Covid og ég velti því upp, afhverju ekki að nýta sjúkrahús Vestmannaeyja t.d. í þessu tilviki. Hér höfum við nægt gistirými, nóg af veitingastöðum með frábærum kokkum og það sumum á heims mælikvarða. Hreina loftið og náttúran (hugsanlega sjóböð). Hér er einfaldlega allt sem til þarf til þess að hjálpa fólki til þess að ná sér eftir þessi erfiðu, illvígu veikindi svo hvers vegna ekki?

Ég heyrði í vikunni að sumir fréttamenn eru farnir að velta því fyrir sér hver eða hverjir verði menn ársins. Í mínum huga er þetta sára einfalt, þá á ég að sjálfsöðgu við allt það heilbrigðisstarfsfólk sem hefur lagt sig og jafnvel fjölskyldur sínar í hættu við að hjúkra Covid sjúklingunum okkar og sumt hvert jafnvel fengið veikina, en haldið áfram störfum um leið og það hefur náð sér og svo sannarlega myndi ég styðja það að þetta fólk fengi auka jólabónus, eða kannski frekar áhættuþóknun, þau eiga það svo sannarlega skilið.

Að lokum þetta, um leið og ég votta öllum þeim sem mist hafa ættingja og vini innilegar samúðarkveðjur, vil ég samt um leið þakka fyrir það að enginn Eyjamaður hafi látist, en gleymum því ekki að þessu er hvergi nærri lokið.

Höldum áfram að passa upp á okkur sjálf, þannig getum við best passað upp á okkar nánustu.


Sjósund

Ég sé á fésbókinni hjá mér að hópur Eyjamanna er farinn að stunda sjósund suður í Klauf og ég sé að á minnsta kosti einum stað er minnst á að gott væri að hafa heitann pott á svæðinu.

En einmitt þetta er umræða sem ég tók upp á fundi Umhverfis og skipulagsráðs á síðasta kjörtímabili, ekki formlega, en ég viðraði þar hugmyndir mínar um aðstöðu suður í Klauf, sem reyndar voru skotnar í kaf af meirihlutanum, en reyndar með ákveðnum rökum. 

Hugmynd mín gekk út á það að gerð yrði myndraleg aðstaða með heitum pottum og sturtuaðstöðu og hugsanlega þá notuð kannski víkin norðan megin í Klaufinni, þar sem alltaf er skjól í norðan og austan áttum. Hugsanlega sett út flotbryggja þar yfir sumar mánuðina, bæði með mögulega aðstöðu fyrir Rib safari og hugsanlega kajakferðir, enda oft gott skjól þarna þó ófært sé fyrir klettinn.

Margt annað mætti telja upp, en hvers vegna ekki?

Rökin gegn þessu er þau, að þarna er hvergi heitt vatn og kostnaður bæjarins við að leggja heitt vatn úr bænum yrði gríðarlegur.

Hvernig staðan á þeim málum er hins vegar í dag veit ég ekki, en hugmyndin kviknaði fyrst hjá mér fyrir nokkrum árum síðan þegar ég sat í heitum potti norður á Drangsnesi, með útsýni út í litlu Grímsey sem þar er. Enn fremur ætlaði ég að prófa sjóböðin norður á Húsavík núna í ágúst s.l. en þrátt fyrir ástandið, þá var fullbókað 2 daga fram í tímann.

En hugmyndin er að mínu mati mjög góð. Þetta er mjög vinsælt og hollt og hvet ég því alla, sem mögulega hafa vilja, áhuga eða getu til að halda áfram með málið.

Í sjálfu sér höfum við Eyjamenn allt til alls sem ferðamenn hafa áhuga á og í raun og veru, mikið meira en víðast annar staðar er hægt að nálgast hjá einu bæjarfélagi, en þetta yrði að sjálfsögðu enn einn plúsinn fyrir ferðamenn til þess að prufa hér í Eyjum.


Lundasumarið, seinni hluti

Vegna fjölda áskorana kemur hérna seinni hluti.

Nú er það þannig að ég hef haldið úti bloggsíðu síðan 2006 og allan þann tíma m.a. fjallað um lundann og merkilegt að fletta upp á yfirlýsingum bæði frá Erp og Ingvar Atla Sigurðssyni og Páli Marvini Jónssyni, lýsingar eins og t.d.:

Það er ekkert að marka þó að það sjáist einhverjir ung lundar, þetta eru annaðhvort aðkomu lundar eða einhverjir flækings lundar.

Það voru margir fundir haldnir um lundann árið 2007 og það er einmitt árið þar sem Erpur var ráðinn til Eyja, en mér er minnisstæðast það sem að einn fuglafræðingur frá Náttúrustofu Íslands sagði á einum fundinum, svohljóðandi:

Þið skuluð hafa það í huga, að fuglafræðingur sem lýsir því yfir að ástandið sé bara gott, hann fær enga styrki til rannsókna, þess vegna hættir okkur fuglafræðingum það til að mála hlutina svolítið dekkri litum heldur en þeir raunverulega eru.

Þess vegna skil ég að hluta til, afhverju Erpur svarar t.d. ekki áskorun minni frá síðustu grein, en það er meira sem býr að baki.

Á síðasta kjörtímabili sat ég í stjórn Náttúrufræðistofu Suðurlands. Á mínum fyrsta fundi þar var lögð fram tillaga, sem enginn annar en Elliði Vignisson, þáverandi bæjarstjóri hafði samið, en tillagan gekk út á það, að gerður yrið samningur við ríkið um svokallaða verndarstefnu fyrir fuglalífið og fjöllin í Vestmannaeyjum. Ég vissi að Páll Marvin hafði unnið lengi að þessu máli og að Þekkingarsetrið og Náttúrustofa ættu að fá einhverjar x milljónir frá ríkinu fyrir. Ég var strax á þeirri skoðun, að þetta myndi þýða það að ríkið fengi umráðarrétt yfir fjöllunum í Vestmanneyjum og mótmælti þessu því harðlega á þessum fundi og beitti mér mikið í þessu máli dagana á eftir og það bar þann árangur, að Elliði Vignisson sá að sér og greiddi atkvæði sjálfur gegn málinu í afgreiðslu bæjarstjórnar, en samt var málið samþykkt með 4 gegn 3 í fyrstu atrennu og tekið síðan aftur upp nokkrum mánuðum síðar, þar sem málið var fellt með 6 gegn 1, atkvæði Páls Marvins. 

Ég hafði nú alveg þangað til á síðasta ári haldið að þar með væri þessu máli endanlega lokið, en lenti á spjalli við einn þáverandi fulltrúa í stjórn Náttúrufræðistofu Suðurlands (ekki núverandi stjórnar) sem benti mér hins vegar á það, að núverandi umhverfisráðherra, sem eins og flestir vita er einhver mesti öfga náttúruverndar sinni sem nokkurn tíma hefur setið í þessu embætti, væri enn að senda maila á Náttúrustofu, þar sem hann væri að boða komu sína til þess að ræða friðun fjalla og úteyja í Vestmanneyjum, en spurningin er: Hvers vegna?

Svarið er að mínu mati augljóst. Meðan að fuglafræðingar halda áfram að senda inn og auglýsa hrun lundastofnsins á Íslandi, sem að sjálfsögðu byggja fyrst og fremst á rannsóknum Erps, þá mun þessi ráðherra ekki hætta. Ég ætla því enn og aftur að skora á Erp um að fara nú að segja sannleikann um stöðu lundastofnsins á Íslandi. Ég vill einnig benda Erpi á það, að við félagarnir sem fengum fyrir u.þ.b. áratug síðan að veiða 2 ár í röð í Borgarey í Ísafjarðardjúpi erum enn að bíða eftir opinberu afsökunarbeiðninni, sem hann lofaði sumum okkar eftir að hafa logið upp á okkur og fengið landeigendur til þess að banna allar veiðar.

Nú hef ég verið ásakaður um það að vera á móti vísindamönnum. Þetta er al rangt. Þvert á móti, þá fór ég fram á það á síðasta fundi mínum í Náttúrufræðistofu Suðurlands að allt yrði gert til þess að reyna að halda þessum doktorsstöðum hér í Vestmannaeyjum, þanni að ég vill endilega að menn stundi rannsóknir, hvort sem er á lunda eða fiski, en mér dettur ekki til hugar annað en að horfa á niðurstöðurnar út frá heilbriðgri skynsemi og nota þá þekkingu og reynslu, bæði hjá mér og öðrum til þess að segja mína skoðun á niðurstöðunum. Kannski má segja sem svo, að ég sé ekki í ólíkri stöðu og ein af frægustu leikkonum heims, sem ég sá nýlega í viðtali, en leikkonan Kathy Bates var nýlega í viðtali, þar sem hún fjallaði um illvígan sjúkdóm, sem er mjög landlægur í Bandaríkjunum, en eftir að hafa rætt við fleiri tugi af sérfræðingum, læknum og fólki alveg ofboðslega vel menntuðu þá uppgötvaði hún það, að þegar hún reyndi að útskýra hluti sem þetta fólk hafði ekki lært um, þá varð það oft alveg ofboðslega vitlaust að sjá. 

Ég hef verið ásakaður um það að vilja bara fara að veiða aftur hérna þúsundir lunda eins og maður gerði hérna fyrir 15-20 árum síðan, en mig langar að svara þessu með lítilli sögu sem rifjaðist upp þegar ég labbaði út í Miðklett núna seinni partinn í ágúst. Sagan heitir fyrsta alvöru veiðin.

Ég var 15 ára gamall þegar ég eignaðist fyrsta lundaháfinn. Þekkti að sjálfsögðu ekki neina veiðistaði og var heldur ekkert farinn að spá í vindáttum eða neinu slíku. Fór því víða um án þess að veiða neitt að ráði, en svo var mér bennt á að ég ætti kannski að prófa að labba yfir Heimaklettinn og fara niður í Miðklett, og gerði ég það. Þegar niður í Miðklett kom hitti ég minn gamla félaga Árna Nínon, sem var þá að veiða í því sem við köllum Kippunef, sem er annar tanginn þegar komið er niður í Miðklettinn. Bað ég hann að vísa mér í sæti þarna einhverstaðar nálægt og bennti hann mér á að fara á fyrsta tangann þegar komið er niður í Miðklett og kallað er Jóasætið. Þetta sæti er mjög tæpt og mjög óþægilegt að sitja í því, en smátt og smátt lærði ég á sætið og mig minnir að það hafi verið í þriðju ferð þarna, sem allt small saman og byrjaði ég að háfa í gríð og erg og strax farinn í huganum farinn að sjá fyrir mér fyrstu kippuna, en þegar ég var kominn yfir 50 fór ég að velta því fyrir mér: Hvernig ætli sé að bera upp úr Miðkletti, yfir Heimaklett og alla leiðina heim upp á Brekastíg? 

Ákvað ég því að hætta þegar ég var kominn í 70. Ekki man ég, hversu lengi ég var að komast upp úr Miðklettinum, en mig minnir að ég hafi farið það á einskærri þrjósku.

Árið seinna var ég reyndar farinn að bera kippu úr Miðklettinum. Í dag hins vegar ér ég að nálgast það að verða 56 ára gamall og ég held að ég gæti ekki borið kippu úr Miðklettinum, þó lífið lægi við. Þetta sama sjónarmið hef ég heyrt af mörgum félögum mínum, en aðal atriðið er, lundinn er mættur í milljóna tali til Eyja og mun vera það að óbreyttu löngu eftir okkar dag. 


Lundasumarið 2020

Ekkert lundaball í ár og síðustu pysjurnar að mæta í bæinn þessa dagana og því rétt að gera sumarið upp.

Það sem kannski kom mér mest á óvart í sumar er það, hversu margir voru undrandi á því að sjá svona mikið af lunda hér í Eyjum í ágúst, en þetta er algjörlega í samræmi við það sem ég hef spáð fyrir um undanfarin ár og að mínu mati augljóst, að aðsjálfsögðu skilar pysjan okkar sér í fjöllin okkar og það sem gerir þennan frábæra uppgang síðustu árin enn betri núna er, að þetta er sjötta árið í röð, sem þýðir að bæjarpysjan 2015, sem taldi í kringum 5000, sem aftur þýðir að heildar pysjufjöldinn í Vestmannaeyjum 2015 sem er þá í kring um 500 000, mun skila sér að fullu inn í lundastofninn í Eyjum næsta sumar sem kynþroska lundi, þannig að börnin í Vestmannaeyjum mega búast við því, að á næstu árum haldi þessi uppgangur lundans áfram með enn meira af pysju næstu árin. 

Stærstu fréttirnar að mínu mati eru kannski viðtal sem tekið var við Erp í byrjun ágúst, en á meðan ég sat í stjórn Náttúrustofu Suðurlands, þá reyfst ég reglulega við forstöðumann stofunnar um það, hvernig túlka skyldi vægi bæjarpysjunnar. Ég vildi tala um hana sem 1%, en þeir í kring um 10%, en í viðtalinu við Erp kemur hann einmitt inn á, að samkv. hans útreikningum, þá reiknar hann bæjarpysjuna sem tæplega 1%.

Stærstu fréttirnar eru þær, að sé pysjufjöldinn hér í Eyjum lagður saman frá 2015 til og með 2020, þá telur þetta um og yfir 4 milljónir og því lundastofninn hér í Vestmannaeyjum sennilega einhvers staðar í kringum 6 milljónir, sem aftur vekur upp spurningu sem að ég ætla hér með að skora á Erp að svara. 

Ef rýnt er í tölurnar sem fram koma í viðtalinu við Erp frá því í byrjun ágúst, sem eru nokkuð nálægt því sem ég set hérna fram, þá vaknar strax ein mikilvæg spurning. Í nóvember s.l. var viðtal í sjónvarpsfréttum Rúv þar sem rætt er við fuglafræðing frá Nárrúrufræðistofu Íslands (það var reyndar aðeins komið inn á þetta í 10 fréttunum s.l. fimmtudagskvöld) en þar kemur fram, að búið sé að setja lundann á válista á Íslandi, vegna þess að stofninn sé kominn niður í 2 milljónir para. Nú er flestum ljóst að þetta byggir allt saman á útreikningum frá Erpi, svo ég hlýt því að spyrja Erp, hvort það sé ekki kominn tími til að fara að leiðrétta þessa vitleysu?

Ef rýnt er nánar í tölulegar útreikningar Erps í viðtalinu í ágúst, þá er ekkert flókið mál að fá það út, að stofninn á Íslandi sé amk. 10 milljónir. Mín skoðun er hins vegar óbreytt, ég tel að lundastofninn á Íslandi sé frekar nær 30 milljónir frekar en 20.

Erpur setur fram í þessu ágæta viðtali við eyjar.net að bæjarpysjan í ár verði 6300 eða 20% minna heldur en í fyrra, en í þessum skrifuðum orðum skráðar pysjur 7300, reyndar hefði ég borgað Erpi stór fé fyrir að fylla út fyrir mig lottómiða ef hann hefði haft rétt fyrir sér, en það var að sjálfsögðu aldrei möguleiki á því.

Stóra spurningin er hins vegar sú, hver hin raunverulega tala er, en miðað við um 8000 pysjur í fyrra, þá taldist mér til að þetta væri um 10 000 þá, miðað við að 15-20% væri ekki vigtað eða skráð, en flestir þeir sem ég hef rætt þetta við að undanförnu telja að þetta sé amk. 30%, en ef við setjum þetta svona ca. þá er bæjarpysjufjöldinn í ár amk. liðlega 9000.

Þegar lundinn settist upp í vor, skrifaði ég í grein mína þá að ég óska þess að við fengjum að sjá meira af lunda í júní og júlí, en það gekk ekki eftir. 

Í júlí fylgdist ég alveg sérstaklega með lundanum og makrílflotanum. Makrílflotinn hélt sig suður af eyjum fram undir miðjan júlí, fór þá um það leitið hálfa leiðina til Færeyja. Um leið fór að sjást aðeins af lunda hér í fjöllunum, en þá kom makríllinn aftur í nokkra daga og alveg fram undir 25. júlí, en þá hvarf makríllinn og fór alla leið austur í smugu og um leið fylltust fjöllin okkar af lunda. Ekki veit ég hvers vegna þetta er svona, en ég réri líka svolítið síðasta sumar og maður sá oft lengst úti á sjó mjög mikið af lunda, en ekki settist hann upp. 

Sumarið hjá mér var eins og síðustu ár, en þetta var 6. árið í röð sem ég fer til Grímseyjar. Ég held að við Eyjamenn munum seint ná að þakka fyrir þann velvilja sem grímseyingar hafa sýnt okkur og m.a.s. erum við félagarnir búnir að panta í Grímsey næsta sumar, en árið í ár var 12. árið í röð sem ég veiði ekkert í Vestmannaeyjum og í raun og veru er ég bara ekkert viss um það, hvort ég eigi eftir að veiða oftar hér í Eyjum, en það kemur þá bara í ljós.


Nýtt fiskveiðiár.....

...hefst n.k. þriðjudag, 1. sept., og því rétt að fara yfir fiskveiðiárið.

Í síðustu greinum mínum fjallaði ég um tillögur Hafró og hugsanleg viðbrögð ráðherra og síðan skoðanir mínar á þessu, byggðar á reynslu og þekkingu minni.

Það kom ekkert sérstaklega á óvart að ráðherra skyldi fara í einu og öllu að tillögum Hafró, enda gengur núverandi kvótakerfi út á það og það í raun og veru alveg sama hversu vitlausar tillögurnar eru, en að sjálfsögðu er það ríkisstjórnin öll sem ber ábyrgð á niðurstöðunni, en í þessari grein ætla ég aðeins að fjalla um tegundir sem tengjast á þann hátt, sem kannski ekki augljóst er fyrir alla.

Fyrst aðeins um ýsuna og lönguna.

Langan er skorin niður um 16% fyrir nýja fiskveiðiárið, en ýsan aukin um 9%. Fyrir núverandi fiskveiðiár var ýsan skorin niður um tæp 30%, en aftur aukin um 40% fyrir síðasta fiskveiðiár, svo þetta er svo sannarlega eins og í hálfgerðu jójói.

Í sumar hitti ég fulltrúa Hafró hér í Vestmannaeyjum og spurði hann út í það, hvers vegna þeir lögðu til að langan yrði skorin niður um 16%, en svarið var eftirfarandi:

"Við sjáum alveg að langan er á uppleið, en okkur finnst vera svo mikið af smálöngu í löngustofninum að við ákváðum að leggja til þennan niðurskurð, til að spara stóru lönguna."

Það sem mér fannst merkilegast við þetta svar, er að þetta er nákvæmlega sama svarið með öfugum formerkjum og fylgir tillögum Hafró með 9% aukningunni á ýsukvótanum, eða þ.e.a.s. að vegna þess hversu mikið af smáýsu er að koma upp, þá er lagt til að auka ýsukvótann, mjög sérstakt.

Færri þekkja tenginguna á milli þorsksins og keilunar. Þorskurinn er skorinn niður um 6%, en keilan um ca. 50% og verður heildar keilukvótinn aðeins um 1300 tonn, en fyrir kvótasetningu á keilunni vorum við að veiða allt að 10 000 tonn á ári, en ég lýsti einmitt þeirri skoðun minni þegar keilukvótinn fór niður fyrir 5000 tonn, að nú væri hægt að veiða þennan kvóta hérna í kring um Vestmannaeyjar, en með nýjasta niðurskurðinum væri hægt að taka þann kvóta allan á Drangasvæðinu, allavega miðað við mína reynslu.

En hver eru tengslin á milli þessara tveggja tegunda?

Flestir þekkja að þorskurinn gengur upp á grunninn og fer síðan upp í hraunið til að hrygna, en þar bíður keilan sem er nánast friðuð í dag og étur sig kjaftfulla af þorskhrognum.

Og það passar, fljótlega eftir að þorskurinn hefur klárað sína hrygningu, byrjar keilan. 

En hvað ætti að gera í stöðinni?

Það hefur mikið verið fjallað um allar þær hörmungar og atvinnuleysi sérstaklega sem fylgir þessu Covid. Smábátasjómenn hafa verið virkilega ósáttir við ríkisstjórnar meirihlutann og ráðherrann, en ég hef reyndar lítið séð koma frá minnihlutanum, annað en hækkun veiðigjalda.

S.l. vetur skoðaði ég myndband, sem ég deildi á fésbókinni hjá mér, þar sem stór bátur tekur liðlega 10 tonna hal af stórþorsk. Nokkrum þorskum er stillt upp og svo rist á og í ljós kemur að allir eru þeir kjaftfullir af smáþorsk og einn og einn milliþorskur með. Það er augljóst mál, að óhætt er að auka verulega þorskkvótann nú þegar. Sama gildir um ýsuna, enda er hörku góð ýsuveiði allt í kring um landið. Klárlega hefði átt að lengja strandveiðitímabilið a.m.k. út september. Einnig tel ég að það myndi litlu breyta þó að handfæraveiðar væri frjálsar yfir hörðustu vetrarmánuðina, enda sér veðurfarið algjörleg um að hamla mönnum að stunda veiðar.

Einnig tel ég augljóst að þær kvótasetningar á tegundum sem algjörlega hafa misfarist og kvótarnir eingöngu notaðir í tilfærslur ætti að sjálfsögðu að taka nú þegar úr kvóta, enda hefur kvótasetning á þeim engu skilað, þó svo að alltaf hafi verið farið eftir tillögum Hafró  og má þar nefna sem dæmi keilu, blálöngu, litlakarfa, gulllax og hlýra. Að sjálfsögðu mætti líka, miðað hvað við sáum mikið af loðnu víða inni á fjörðum í vor, ætti nú þegar að gefa út að einhverjar loðnuveiðar yrðu leyfðar, og þá til manneldis, eingöngu veitt í nót. 

Bara þessar örfáu tillögur hér gætu skapað einhverjum þúsundum manna atvinnu hugsanlega og skilað milljörðum í þjóðarbúið og ekki veitir af, en til þess þurfa menn að sjálfsögðu að vera tilbúnir að horfa út fyrir línur núverandi kvótakerfis og ég skora á alla þá, sem beitt geta sér í þessa átt, að gera það nú þegar. 

Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband