1.10.2007 | 11:26
Vestmannaeyjar í dag
Fór á sjó í gær með 12 bjóð. Veðrið var fallegt en svolítið þungur sjór, en slétti þegar leið á daginn. Afli var ágætur, eða tæp 2 tonn, þar af ca. 1200 langa og 500 ýsa. Það versta er að þá er sennilega löngukvótinn búinn þetta árið og þarf ég að leigja mér löngukvóta það sem eftir er af þessu fiskveiðiári (ellefu mánuðir eftir).
Það sem vakti mesta athygli mína í umræðum helgarinnar, er þessi svokallaði styrkur upp á 200.000, sem atvinnulaust landabyggðafólk getur fengið til að hjálpa sér við að flytja annað (og þá yfirleitt á höfuðborgarsvæðið). Hver segir svo að draumur íhaldsmanna um eitt stórt borgarríki sé ekki enn við lýði? Það er verst að í þessum hugmyndum, eftir því sem mér skilst, þá sé talað um stórt höfuðborgarsvæði, með litlum kjörnum á norður, austur og suðurlandi, en hvergi nokkur staðar, eftir því sem mér skilst, minnst á bæjarfélög eins og t.d. Vestmannaeyjar. Svo maður spyr sig, erum við eyjamenn ekki með, eða á að leggja okkur niður? (Mér skilst reyndar að fráfarandi formaður framsóknarmanna hafi einhvern tímann sett fram svona hugmyndir, þ.e.a.s. um borgarríki).
Á morgun ætla ég að leggja land undir fót og fara í bæinn og svo á suðurnesin. Á miðvikudaginn er meiningin að fljúga til Tenerife og baka sig þar í viku, í rigningunni, því síðast þegar ég fór á Canarý í vikuferð sást sólin ekki nema í tvo tíma þá vikuna. Var ég vinsamlegast beðinn um að koma ekki aftur.
Varðandi skoðanakönnunina hjá mér (vinstra megin á síðunni, neðst) um Bakkafjöru, já eða nei, þá mun hún standa til 15. okt. Nú þegar hafa liðlega 100 kosið og ef við gefum okkur að c.a. fjórir séu á bak við hvert atkvæði, miðað við meðal fjölskyldi, þá er ég mjög ánægður með það, en vonast að sjálfsögðu eftir því, að fleiri taki þátt. Eins og ég hef skrifað áður, þá er þetta sennilega eini möguleiki okkar til að segja skoðun okkar á þessu máli, enda er íhaldið ekki vant því að hlusta á skoðanir annarra en sinna eigin og þessi svokallaði V-listi í eyjum virðist vera algjörlega skoðana- og áhugalaus um málið, enda kannski ekki furða, þar sem að fólk í þeim lista virðast vera svona hálfgerðir afgangar úr hinum og þessum flokkum.
Ég reikna nú með því að það séu tölvur þarna úti, þannig að ég geti fylgst með og sett inn athugasemdir, ef með þarf.
Meira seinna.
29.9.2007 | 11:26
Bakkafjara
Í Fréttablaðinu í gær ( á bls 26 ) er grein eftir vin minn Gísla Jónasson, þar sem hann ítrekar mótmæli sín við þessari framkvæmd eins og hún er hugsuð í dag. Gísli hefur áratuga reynslu af Bakkafjöru bæði sem skipstjóri og vegna þess að hann átti heima þarna. Mér finnst því miður allt of margir eyjamenn hunsa aðvaranir okkar reyndustu skipstjóra og vera allt of tilbúinn að treysta þessum aðilum sem rannsakað hafa Bakkafjöru í aðeins ca 3 ár.
Að lokum, ítreka skoðanakönnunina á síðunni minni. Bakkafjara : já eða nei. Meira seinna.
29.9.2007 | 00:21
ÍBV 4 Fjölnir 3
Frábær leikur hjá ÍBV, sérstaklega hvernig liðið kom til baka eftir að það lenti undir. Það er verst að þetta dugði ekki til en við förum bara upp á næsta ári. Ég vona það að okkur takist að halda í þennan manskap sem vann öll efstu liðinn í 3 síðustu leikjunum, gangi það eftir þá er ég mjög bjartsýnn á framhaldið.
Í dag var tekinn fyrsta skóflustungan af tilvonandi knattspyrnuhúsi okkar eyjamanna, eins og við vitum öll þá eru íþróttir eitt af því besta sem við getum gert til að sporna við því að börnin okkar og unglingarnir leiðist út í óreglu, svo fyrir mína hönd og öruglega margra annarra langar mig að þakka Bæjarstjórninni okkar fyrir að taka þessa ákvörðun. ÁFRAM ÍBV.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2007 | 15:16
Skoðannakönnunin um Bakkafjöru, já eða nei
Í Vaktinni í dag átti að birtast grein eftir mig, þar sem þessi skoðanakönnun er auglýst. Í morgun, þegar ég fékk blaðið, var þessi grein hvergi og mér er sagt af ritstjóranum, að það hafi ekki verið pláss í blaðinu. Hann hefur hinsvegar lofað mér að þetta verði auglýst í Vaktinni í næstu viku, Þess vegna ætla ég að hafa þessa skoðanakönnun virka til 15 okt. í staðinn, enda eins og allir vita, þá er þetta eina tækifæri okkar allra til að segja okkar skoðun á þessu án þess, vonandi, að íhaldið sé með klærnar í málinu.
27.9.2007 | 18:15
Fyrst Eskja
![]() |
Tæplega 60 starfsmönnum Humarvinnslunnar á Þorlákshöfn sagt upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.9.2007 | 21:12
Róður, kvótinn og Bakkafjara
Fór á sjó í gær eftir hádegi. Það var ennþá norðan kaldi, en lægði þegar leið á daginn, straumurinn var hinsvegar mjög mikill, þess vegna lagði ég línuna á ýsubotn og fékk um 100 kg á balann, aðallega ýsu og nokkrar fallegar lúður með. Það sem vakti mesta athygli mína, var gríðarlegt magn af kríu suður í sundum og greinilegt að eitthvað æti er þarna fyrir hana.
Áður en ég byrjaði að draga, heyrði ég í vini mínum, Hallgrími Rögnvaldssyni og heyrði þar þær slæmu fréttir að afleiðingar vegna niðurskurð á aflaheimildum á þorski hefur nú haft þau áhrif, að bróðir hans, sem rekið hefur línuveiðiskipið Guðrúnu VE, hefur ákveðið að leggja skipinu núna um mánaðarmótin og seta það á sölu missir þá öll áhöfnin vinnuna.
Það er svolítið skrýtið að horfa á þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir við niðurskurði á þorskkvótum, þar sem ljóst er að þessir sjómenn fái ekki eina einustu krónu, frekar en útgerðarmaðurinn, svo eitthvað er nú bogið við þetta.
Og aðeins um Bakkafjöru. Ég hef verið að velta fyrir mér þessari rannsókn, sem Gísli Viggósson stóð fyrir. Þessi þrjú ár 2004-2006, sem skýrslan er byggð á er að mínu mati, sem byggt er á 20 ára reynslu á sjó, einhver þau bestu veðurfarslega á þessum 20 árum. Svo kannski má orða þetta þannig að því miður var veður mjög gott við Bakkafjöru þessi þrjú ár og því miður, eins og sagt er, það sem fer upp kemur aftur niður, samanber veturinn 2007, sem er sennilega sá harðasti síðustu 4 árin. Einnig segir í skýrslu Gísla, að gert sé ráð fyrir því að aldrei sé ófært á tímabilinu maí-ágúst. Sé mið tekið af t.d. sumrinu í sumar, þá er þetta eðlileg ályktun. Ég man hinsvegar eftir því, að fyrir áratug síðan komst ég ekki nema samtals 4 sinnum á sjó í júní og júlí vegna stöðugra suðlægra brælna. Svo skiljanlega er ég ekki alveg að kaupa þetta.
Ég ítreka svo að skoðanakönnunin hjá mér mun standa út þennan mánuð. Endilega takið þátt. Meira seinna.
25.9.2007 | 09:53
Mjög forvitnilegt, þessi frétt um Þorskin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 09:48
Smábátasjómenn funda þessa dagana um allt land
Aðalfundur Snæfells mótmælir harðlega hugmyndum um ný togveiðisvæði
Sl. sunnudag 23. september var haldinn aðalfundur Snæfells félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi. Fundurinn var í Hótel Framnesi Grundarfirði, og var mæting mjög góð og mikill einhugur meðal félagsmanna um ýmis mikilvæg málefni.
Þar báru hæst störf Hafró, gríðarlegur niðurskurður ríkisstjórnarinnar á þorskveiðiheimildum og skötusel. Einnig voru töluverðar umræður um mikilvægi þess að útgerðarmenn gerðu kjarasamninga við verkalýðs og sjómannafélöginn á svæðinu fyrir sína starfsmenn.
Snæfell samþykkti eftirfarandi:
Mótmælt er aðferðarfræði Hafrannsóknarstofnunar við mat á stofnstærð
Allir fundarmenn voru á öndverðri skoðun um stofnstærð þorsks sem er fundinn með togararalli og vilja mótmæla harðlega þeim mikla niðurskurði sem orðinn er að veruleika. Vísum við til þeirrar óvéfengjanlegu gagna sem Örn Pálsson framkvæmdstjóri LS hefur kynnt forsætis- og sjávarútvegsráðherra og Sjávarútvegsnefnd Alþingis.
Snæfell krefst þess að reglum um línuívilnun verði breytt þannig að bátur haldi ívilun þó hann landi í annarri höfn en farið er frá.
Félagið hefur ítrekað mælst til þess að reglum þessum verði breytt. Ekki á undir nokkrum kringumstæðum að vera ákvæði í lögum sem gefur skipstjóra ekki möguleika á að velja sér löndunarhöfn með tilliti til aðstæðna. Með vísan til þess hörmulega sjóslyss sem varð við Ísafjarðardjúp í vetur sem leið lýstu þingmenn og ráðherrar yfir vilja sínum til að breyta þessu ákvæði.
Snæfell mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að opna ný veiðisvæði fyrir togveiðafæri.
Aðalfundur Snæfells óttast að aukinn þrýstingur verði settur á sjávarútvegsráðherra frá útgerðarmönnum togveiðiskipa um að opnuð verði svæði nær landi og inná fjörðum til að auðvelda sókn í ýsu og síld. Fundurinn vísar þar til opnunarinnar sem leyfð var með flottroll í Kolluál sl vetur. Félagsmenn Snæfells vilja með samþykkt þessari fyrirbyggja annað eins slys.
Snæfell skorar á sjávarútvegsráðherra að setja reglur um skötuselsnet t.d. fjölda neta og umhirðu þeirra.
Snæfell vísar þar til reglna um veiðar með þorskanetum og umgengni um fiskimiðin.
Á aðalfundinum var samþykkt að skipa nefnd sem skoðar reglur um stærð krókaaflamarksbáta og hvort breytinga sé þörf.
Stjórn Sæfells skipa eftirtaldir
Alexander Kristinsson Rifi - formaður
Jóhann Rúnar Kristinsson Hellissandi - gjaldkeri
Gestur Hólm Stykkishólmi - ritari
Bárður Guðmundsson Ólafsvík
Heiðar Magnússon Grundarfirði
22.9.2007 | 21:10
Róður, Bakkafjara og fl.
Fór róður í gær á Blíðunni suður fyrir eyjar með 8 bjóð, auk þess að vera með síld og smokkfisk sem beitu, hafði ég bætt við sára, og skilaði það sér vel. Afli var um 1600 kg af blönduðum fiski.
Á bryggjunni komu nokkrir í spjall, eins og vanalega. Það sem vakti mesta furðu mína er maður sem segist oft lesa bloggið hjá mér. Spurði hann mig um þessa skoðanakönnun, sem ég er með á mínu bloggi (ætla að hafa þessa skoðanakönnun út mánuðinn, neðst vinstra megin á síðunni). Vildi hann vita, hvaða aðra valkosti en Bakkafjöru, ég væri að tala um. Ég benti honum á, að ég hef margsinnis fjallað um það sem ég tel vera betri kost enn Bakkafjöru, þ.e.a.s. stærri og gangmeiri Herjólf, strax.
Helstu ástæður fyrir því, að ég segi nei við Bakkafjöru eru t.d. þær staðreyndir, samkvæmt skýrslunni um Bakkafjöru, sem Gísli Viggósson skrifaði, verður oftar ófært í Bakkafjöru, heldur en í Þorlákshöfn, þar að auki tel ég siglingaleiðina mun betri kost, heldur en að þurfa að aka í gegnum Selfoss og nágrenni, eins og slysin undanfarin ár hafa sýnt. Þar að auki er það staðreynd að vegalengdin á höfuðborgarsvæðið er mun lengri með því að fara í gegnum Bakkafjöru og hlýtur því að vera dýrari (þó aðrir séu mér ekki sammála um það), svo endilega takið þátt í þessari skoðanakönnun, ef þið hafið einhverja skoðun.
ÍBV vann í dag enn einn leikinn og á, þegar aðeins ein umferð er eftir, veikan möguleika á að komast upp í efstu deild. Til þess þarf ÍBV að vinna Fjölnir, og á sama tíma verður neðsta liðið, Reynir Sandgerði, að vinna Þrótt. Möguleikarnir eru kannski ekki miklir, en ég ætla að mæta á völlinn. ÁFRAM ÍBV.
Á textavarpinu í morgun vakti athygli mína frétt um fiskifræðing (man ekki nafnið) sem hafði stundað rannsóknir á þorskinum og fundið það út að hér við land væru þrír þorskstofnar. Mjög merkilegt, því mér skilst að Hafró hafi aldrei fundið nema einn skrítið. Meira seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2007 | 16:15