19.4.2018 | 21:59
Gleðilegt sumar
Lundinn að setjast upp á sumardaginn fyrsta sem er bara gaman og hefur gerst áður, en alltaf jafn gaman að sjá hann koma. Reyndar eru 4 dagar síðan hann mætti norður í Grímsey, en hann fer líka þaðan fyrr.Ég ætla að vera bara bjartsýnn fyrir þetta Lundasumar og í sjálfu sér ástæða til, enda mikið af bæjarpysju síðustu ár, en vonandi fer hún að skila sér sem unglundi í sumar, Stærsta fréttin er hinsvegar sú að í lok síðasta árs þá felldi bæjarstjórn Vestmannaeyja áður samþykkta ákvörðun um að ríkið fengi yfiráð yfir fjöllunum okkar sem er gott og afar ánægjulegt að sumir sem höfðu samþykkt þetta áður sáu að sér. Svo sannarlega vonum við öll að mikið verði af Lunda í sumar og mikið af pysju í haust. Gleðilegt sumar allir .
22.3.2018 | 21:01
Stórskipahöfn í Vestmannaeyjum
Hefur verið draumur margra hér í Vestmannaeyjum árum og áratugum saman og reglulega setja framboð, sem bjóða fram hér í Eyjum, fram mjög vel útfærðar hugmyndir, en ekkert gerist.
Á 183. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 29.09.2015 var á dagskrá mál sem heitir bætt aðstaða fyrir móttöku skemmtiferðaskipa. Framkvæmdastjóri lagði fram uppfærða kostnaðaráætlun á flotbryggju norðan Eiðis. Hafnsögumaður fór yfir möguleika á móttöku skemmtiferðaskipa og sérstaklega ræddur möguleiki á aðstöðu norðan Eiðis og í Skansfjöru.
Mín afstaða á þessu hefur alltaf verið skýr. Stórskipa viðlegukantur við Eiðið er málið en hugmyndir um viðlögukant við Skansfjöru myndi fyrst og fremst aðeins nýtast skemmtiferðaskipum og þá aðeins þegar best og blíðast væri.
Vandamálið er kannski fyrst og fremst kostnaðar áætlunin, en Skans hugmyndin var áætlað að myndi kosta ca. 1300 milljónir en þá að sjálfsögðu fyrir utan allar framkvæmdir á landinu sjálfu, en stórskipa viðlögubryggja fyrir Eiðinu áætlað að kosti milli 6-7 milljarða.
Stærsti munurinn er hins vegar sá að slík bryggja myndi að sjálfsögðu auka verulega möguleika okkar á að taka allar stærðir af skipum, bæði skemmtiferðaskipum en líka gámaskipum. Einnig væri möguleiki þar að landa hugsanlega beint í gáma, enda er löndunar höfnin okkar nánast sprungin, eitthvað sem mun klárlega ekki lagast með komu tveggja nýrra togara núna í sumar, en að sjálfsögðu gerist þetta ekki af sjálfu sér.
Á 184. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 03.11.2015 óskaði ég eftir því að við tækjum aftur upp umræðuna um móttöku skemmtiferðaskipa og bókaði þar, að stefnt yrði að því að koma upp flotbryggju með landgangi við Eiðiðsfjöru, strax næsta sumar. framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir og ræða við hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni, sem hafa áhuga á að nýta sér flotbryggjuna í suðlægum áttum, með það í huga að í staðinn komi þeir að, eða sjái um, uppbyggingu á aðstöðu á Eiðinu. Ekki er gert ráð fyrir að ferðamenn fari gangandi frá Eiðinu og framkvæmdastjóra því falið að ræða við ferðaþjónustaðila um það mál.
Hugmyndin á bak við þessa bókun var bæði til þess að reyna að ýta málinu af stað, en að sjálfsögðu líka til þess að reyna að beina meirihlutanum á rétta leið, því að að mínu mati er þessi Skansfjöru hugmynd að mestu leyti tóm þvæla, enda augljóst að mínu mati, að aðstæður þar bjóði ekki upp á skíka aðstöðu, fyrir utan það að það er náttúrlulega alveg galið að hægt verði að þjónusta gámaskip þar með tilheyrandi flutningum á gámum í gegn um miðbæinn.
Að sjálfsögðu var meirihlutinn algjörlega ósammála mér, en enn meiri vonbrigðum olli það mér að það voru bæjarfulltrúar minnihlutans líka og m.a. minnir mig að amk. annar bæjarfulltrúinn hafi greitt atkvæði gegn minni hugmynd.
Nú er til kynningar framtíðar skipulagsáætlun sem á að gilda til 2035. Þar er einnig talað um viðlögukant fyrir Eiðinu og/eða í Skansfjöru. Þetta er nú sennilega það mál sem ég hef mest rifist um í nefndum bæjarins, en það er mín skoðun að framboð sem setja fram þessa hugmynd og halda inni Skans hugmyndinni, geri það bara til þess að tefja málið. Eiðis hugmyndin er ágæt eins hún er kynnt í þessu framtíðar skipulagi, en það er þó einn stór galli á henni sem ég hefði viljað sjá breytt, en í útfærslunni er aðeins talað um að hægt væri að leggjast að viðlögukantinum að sunnan verðu.
Mín skoðun er hins vegar sú, að ef þetta verður einhvern tímann að veruleika þá eigi að gera þetta þannig að hægt sé að leggjast að kantinum, bæði norðan og sunnan megin og tvöfalda þannig nýtingar möguleikana og að sjálfsögðu þá líka tekjurnar.
Góður vinur minn úr starfinu með Eyjalistanum (en störfum mínum fyrir Eyjalistan lauk formlega í dag) spáði því í samtali okkar um síðustu helgi að stórskipa viðlögukanntur fyrir Eiðinu myndi aldrei verða að veruleika vegna kostnaðar.
Fyrir mig hins vegar snýst þetta ekki bara um að eyða fullt af peningum, heldur einmitt þver öfugt að auka verulega tekjurnar til lengri tíma litið, en kannski má segja að þetta mál sé einmitt svona mál sem að þeir sem byggðu upp Eyjuna okkar á sínum tíma, hefðu einfaldlega bara vaðið í, en í dag virðist vera ríkjandi einhvers konar kjarkleysi og það ekki bara hjá meirihlutanum, heldur minnihlutanum líka.
10.3.2018 | 23:58
Fiskiðjan
Í minni fyrstu grein eftir að hafa dregið mig út úr bæjarpólitíkini ætla ég að fara aðeins yfir nokkur sjónarmið varðandi Fiskiðjuna, sem reyndar tengist inn í pólitíkina, enda málefni tengd framkvæmdum við Fiskiðjuna sennilega eitt af mest ræddu málunum á kjörtímabilinu bæði í Framkvæmda og hafnarráði og í Umhverfis og skipulagsráði, en ég lenti einmitt í því að þurfa að bóka sér á fundi Framkvæmda og hafnarráðs 15. júlí 2015.
Fiskiðjan utanhússframkvæmdir 2015
Tilboð opnuð í endurbætur á Fiskiðjunni. Eitt tilboð barst upp á samt. kr. 158.765.858.
En kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 167.787.000.
Meirihlutinn samþykkti tilboðið en ég bókaði sér svohljóðandi:
þar sem ekki liggur fyrir hvernig eigi að nýta þetta húsnæði í framtíðinni tel ég rétt að fresta fyrrihuguðum úrbótum og legg ég til að þetta fjármagn sem eyrnamerkt er þessu verkefni, verði frekar nýtt til þess að hefja stækkun á Hraunbúðum, enda þöfrin þar gríðarleg og að mínu mati er það verkefni miklu brýnna en þessar endurbætur á húsi Fiskiðjunnar.
Ástæðan fyrir þessari sér bókun minni var að fyrr á þessu sama ári hafði meirihlutinn sent inn umsókn til framkvæmdasjóðs eldri borgara (ég held að hann heiti það) til þess að fara í þessa stækkun, en umsóknin var það illa unnin að henni var hafnað.
Árið eftir hins vegar var send inn betri umsókn og eins og við vitum öll, þá opnaði núna í byrjun árs glæsileg viðbygging við Hraunbúðir og vil ég óska starfsfólki, íbúum og öllum Eyjamönnum til hamingju með þessa glæsilegu viðbyggingu við Hraunbúðir og einnig þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem komu að málinu á einn eða annan hátt.
Næsta bókun mín um Fiskiðjuna var sumarið 2016, einnig í Framkvæmda og hafnarráði, þar sem ég harmaði það að framkvæmdir við Fiskiðjuna stefndu í það að verða allt að 300 milljónir. Þessu hafnaði meirihlutinn að sjálfsögðu og settu fram tölur sem eru nánast þær sömu og gefnar voru upp í byrjun árs á þessu ári.
Það er hins vegar nokkuð ljóst að heildar kostnaður við það sem nú þegar er búið að gera við Fiskiðjuna, og þá inni í þeim tölum framkvæmdir við 2. hæðina, þá sennilega nálægt 600 milljónum og ef tekið er mið að því að aðeins önnur hæðin kostaði 210 milljónir, þá er nokkuð ljóst að 3. hæðin verður ekki ódýrari, en að sjálfsögðu vill ég óska öllum þeim fyrirtækjum sem fengið hafa nýja og glæsilega aðstöðu á 2. hæðinni til hamingju með aðstöðuna. Hamagangurinn við að klára þetta hefur hins vegar orðið til þess, að ótrúlega margir iðnaðarmenn hafa komið að máli við mig og spáð því að í framtíðinni muni koma fram raka skemmdir og í versta falli mygli skemmdir vegna þess, að ekki var klárað að utan áður en byrjað var að innan. Nokkrir hafa m.a. tekið eftir lensi rörunum á 3. hæðinni, bæði norðan og austan megin. Ég hef reyndar spurt um þessi rör nokkrum sinnum og jafn oft fengið að heyra það, að það sé löngu hætt að leka inn á 3. hæðina. Staðreyndin er hins vegar sú, að stóran hluta af síðustu viku, skagaði grýlukerti niður úr rörinu norðvestan megin en vonandi reddast þetta.
Í Umhverfis og skipulagsráði hefur eðlilega mikið verið rætt um Fiskiðjuna, en það sem kannski skiptir að mínu mati mestu máli er erindi tengt Fiskiðjunni frá því núna í janúar.
Ægisgata 2, umsókn um byggingarleyfi
Lög fram umsókn fyrir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingum á jarðhæð. The Beluga Byilding Company ehf. sækir um 700 fermetra viðbyggingu á tveimur hæðum og breyttri notkun á jarðhæð í sýningarsal sbr. innsend gögn. Fyrirhuguð notkun er sýning og umönnun sjávardýra og rannsóknir.
Ráðið samþykkir byggingaráform umsóknaraðila og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.
Fyrir mér er þetta mál sem ég heyrði fyrst af fyrir ca. 2 árum og í raun og veru algjört lykil atriði í því að koma í veg fyrir að hús Fiskiðjunnar verði ekki baggi á bæjarfélaginu, enda nokkuð ljóst að heildar kostnaðurinn við að taka allt húsið í gegn færi að öllum líkindum aldrei undir milljarð, svo ég vona svo sannarlega að þetta gangi eftir, en eins og þetta hefur verið útskýrt fyrir mér, þá er ætlunin að flytja Fiska og náttúrusafn Vestmannaeyja á neðstu hæð Fiskiðjunnar og að það verði hluti af þessu batteríi hjá þessu erlenda fyrirtæki, en þar komum við einmitt inn á einu af lykil atriðunum fyrir því að ég ákvað að henda í þessa grein, en ég veit ekki hvort að allir geri sér grein fyrir því að gríðarlegur fjöldu sjómanna og bæjarbúa hefur í gegn um áratugina fært safninu okkar ýmsa dýrgripi m.a. margs konar fugla, fiska ásamt myndarlegu steinasafni og fleiru, en mig langar að koma því sérstaklega á framfæri, að þetta safn er náttúrulega í eigu okkar og vona það að passað verði upp á að það verði bara ekki afhent án skylyrða.
Það er enginn vafi á því að hið gamla hús Fiskiðjunnar verður mjög glæsilegt þegar öllum framkvæmdum verður lokið, en þetta kostar gríðarlega fjármuni og maður spyr sig svolítið, hvað verður þá um önnur hús í eigi bæjarins sem standa munu tóm eftir flutninga á allri þeirri starfsemi sem færast yfir í Fiskiðjuna og kostnaðin við það, en það kemur þá bara í ljós.
7.3.2018 | 12:53
Að vera eða vera ekki........
......í framboði.
Er klárlega sú spurning sem ég hef oftast fengið undanfarna mánuði. Oftast hef ég nú svarað því þannig:
Já, ég ætli að skoða það að taka þátt áfram, en fyrir nokkru síðan fór ég að velta því fyrir mér og rifja upp, á hvaða forsendum ég tók þátt í þessu fyrir 4 árum síðan og í raun og veru kom það mér svolítið á óvart að uppgötva það, að þær forsendur væru í raun og veru allar brostnar.
Eftir að hafa velt þessu fyrir mér síðustu vikurnar og rætt þetta við nokkra af félögum mínum á Eyjalistanum að undanförnu, þá tók ég þá ákvörðun um síðustu helgi að gefa ekki kost á mér í sæti á lista Eyjalistans fyrir komandi kosningar og hef ég nú þegar tilkynnt stjórn Eyjalistans það og á hádegi í dag, að loknum fundi hjá umhverfis og skipulagsráði, þá tilkynnti ég meirihlutanum að þetta væri minn síðasti nefndarfundur á þessu kjörtímabili.
Ég vil að lokum þakka félögum mínum á Eyjalistanum fyrir samstarfið sl 4 ár og óska þeim alls hins besta í komandi kosningum. Einnig vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu Eyjamönnum sem stutt hafa mig og hvatt áfram. Ég er sjálfur bara nokkuð sáttur við störf mín á kjörtímabilinu, en eins og gefur að skilja mun ég þar af leiðandi ekki taka þátt í kosningunum í vor og sjálfsagt gera upp kjörtímabilið betur síðar og að sjálfsögðu mun ég halda áfram að skrifa þegar og ef ég nenni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2018 | 20:43
Stærstu verðlaunin
Aðalfundur Sjóve var haldinn í gær, 10. febrúar. Ég komst nú ekki á fundinn en það rifjaðist upp fyrir mér í dag lítil veiðisaga sem ég skrifaði í eitt af blöðum Sjóve fyrir nokkrum árum síðan. Eitthvað hafði skolast til hjá mér í sambandi við nöfn og afla, svo til gamans, hér kemur sagan aftur og vonandi núna rétt.
Það var laugardaginn 18. okt. 2008 að haldið var innanfélagsmót Sjóve í Vestmannaeyjum. Ella Bogga, þáverandi formaður, hafði að sjálfsögðu falast eftir mér og mínum bát í mótið, en ég hafði óskað eftir því að fá að sleppa við þetta mót, enda þegar lofað mér í stærri og merkilegri atburð síðar þennan sama dag. Ég féllst þó á það að vera vara bátur ef eitthvað kæmi upp á og viti menn, hálf tíu um morguninn hringir Ella Bogga. Bátur á leiðinni í land með bilaða vél og um borð 3 veiðimenn með engan afla og mótið því ónýtt fyrir þeim, nema ef ég fengist til að fara.
Ég sagði við Ellu Boggu að í þetta skiptið yrði hún að fá leyfi frá konunni, sem og hún fékk, enda bæði ég og báturinn svo sem alltaf tilbúnir og við komumst af stað um 11 leytið.
Um borð voru Sigtryggur Þrastarson, Magnús Ríkharðsson og Hrafn Sævaldsson. Veðrið var gott, svona aðeins norðan kaldi. Ég byrjaði að keyra fyrir austur Elliðaey til að prófa þar í skjólinu, en varð ekkert var og frekar dauft hljóðið í öðrum skipstjórum. Ég ákvað því að prófa, þar sem lítill tími var eftir, að fara á lítinn harðann blett rétt vestan við Bjarnarey og fengum strax fallega fiska þar, sem skiluðu öllum umborð verðlaunum á lokahófinu, en Siddi fékk stærstu keilu mótsins á þessum bletti, Magnús stærsta lýrinn en Hrafn gerði best og fékk bæði stærstu löngu mótsins og stærsta þorskinn og þorskurinn reyndist vera stærsti fiskurinn sem veiddist á þessu móti.
Allt gekk sem sé upp hjá okkur þennan síðasta klukkutíma í þessu móti og vorum við fyrstir í löndun, enda lá mikið á.
En ég komst ekki á lokahófið um kvöldið, en fékk hins vegar stærstu verðlaunin í kirkjunni seinna þennan sama dag, þegar frúin kom mér gjörsamlega á óvart með því að segja já fyrir framan prestinn okkar. Þetta var nefnilega giftingardagurinn okkar.
Mörgum hefur reyndar fundist þetta skrýtið að fara á sjó á giftingardaginn, en fyrir mig þá gerir þetta daginn bara enn þá eftirminnilegri.
Vill að lokum svo minna á, að áætlað er að halda innanfélagsmót Sjóve þann 31. mars nk. en nánar upplýsingar um það mót og aðra dagskrárliði hjá félaginu á árinu er að finna inni á heimasíðu þess og á fésbókinni Sjóve Vestmannaeyjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2018 | 23:15
Áramót 17/18
Að venju geri ég upp árið með mínum augum séð.
Margt merkilegt er búið að gerast á árinu, en að mínu mati kannski merkilegast tengt fótboltanum, en eins og flestir vita þá náðum við Eyjamenn þeim einstaka árangri að verða bikarmeistarar, bæði karla og kvenna og framtíðin því bara nokkuð björt þar.
Árangur landsliða okkar var líka góður og þá sérstaklega hjá karlaliðinu að komast áfram á HM í fyrsta skipti, en mér verður oft hugsað til baka þegar karlalið okkar berst í tal, að ég man eftir því þegar ég var svona kannski 12 ára gamall að leika mér í fótbolta uppi í barnaskóla nánast alla daga og þegar maður var orðinn einn af eldri strákunum og farinn að velja í lið, þá man ég vel eftir litlum ljóshærðum strák, sem var svolítið linur á þeim árum, en ég tók eftir því, að hann var strax sem peyji nokkuð sleipur spilari og valdi ég hann því oft í lið með mér. Fylgdist svo með honum að vaxa úr grasi og er í dag þjálfari Íslenska karlalandsliðsins og stolt okkar Eyjamanna og ég efast ekkert um það, að ef einhver getur gert kraftaverk á HM í sumar þá er það Heimir Hallgrímsson.
Hápunkturinn hjá mér á árinu var, eins og í fyrra, ferð til Grímseyjar, perlu norðursins. Var svo heppinn að komast loksins bátsferð í kring um eyjuna með heimamönnum og er nú þegar búinn að panta fyrir næsta sumar. Vonandi kemst ég í þá ferð.
Er enn í útgerð og er byrjaður mitt 31. ár í trilluútgerð. Reyndar aðeins í frítímum, enda má að vissu leyti segja að það fari nú ekkert vel saman að vera í fullri vinnu hjá höfninni og róa í frítímum, enda ekki svo mikið um frí, en það gengur bara því miður ansi rólega að selja bátinn. Áhuginn á að róa er frekar takmarkaður, enda lét ég frá mér í sumar þessi fáu tonn sem ég átti, en á móti kemur að það er afskaplega gott að vera laus við bankann, en alltaf er jafn gaman að draga fisk úr sjó.
Tíðarfarið í haust hefur verið alveg með ólíkindum gott og sést það kannski best á sennilega met nýtingu á Landeyjahöfn í haust, en svo gerði brælu í einhverja daga og þá lokast um leið.
Pólitíkin spilaði þó nokkra rullu hjá mér á árinu, en fyrst og fremst er ég frekar dapur yfir því hvernig mál hafa þróast á árinu.
Framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, en mín tilfinning fyrir 2018 er kannski fyrst og fremst sú, að þetta er klárlega ár tækifæra og uppgjörs að einhverju leyti við það sem er að baki. Það eru jú kosningar í vor, enn er algjörlega á huldu hvort ég taki þátt í vor, en ég fór í þetta fyrir tæplega 4 árum síðan. Bæði vegna áhuga, en ekki hvað síður fyrir forvitnis sakir.
Klárlega verða einhver uppgjör á næstu mánuðum og vonandi breytingar. Vonandi munu Eyjamenn hafa meira að segja um okkar lykil baráttu mál en hingað til, en ég ætla ekki að telja upp allt sem þarf að laga hér í Eyjum, enda er það efni í amk. 2 greinar í viðbót.
Vonandi verður árið bara gott fyrir okkur öll og í þeim anda óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.
20.12.2017 | 20:33
Jólin 2017
Það hefur oft verið erfitt að vera trillukarl í desember, enda tíðin ansi oft rysjótt um það leytið (aðeins rólegri hjá mér þessa dagana hjá höfninni), en það hefur oft kostað mikil átök að láta enda ná saman um þetta leytið. Ég náði þeim merka áfanga í nóvember, að þá voru akkúrat 30 ár síðan ég keypti minn fyrsta bát og í byrjun þessarar viku voru einmitt nákvæmlega 30 ár síðan ég eignaðist frumburðinn.
Þegar maður lítur til baka, þá voru t.d. jólin 1989 mjög erfið, en einmitt þá 16. desember fór ég í róður í rjóma blíðu, en var rétt kominn vestur fyrir eyjar þegar skall á austan rok. Baráttan við að komast til baka við klettinn var bátnum ofviða og í raun og veru var ég ótrúlega heppinn að komast lifandi frá því, en ég þurfti að fá far í land með stærri bát, en þessi trilla sem ég átti á þessum tíma hvílir á hafsbotni innan við eyjar.
Þessi jól voru því afskaplega erfið, ekki bara vegna þessa, heldur líka vegna þess að fyrr á árinu hafði ég fengið forræði yfir syni mínum og var því einstæður faðir, sofandi í sófa í stofunni hjá móður minni.
Um áramótin var því ansi lítill hugur í mér að fara eitthvað út á skemmtanalífið, en móðir mín pressaði á mig að drífa mig nú út að hitta annað fólk, enda líkur lífinu ekki við 25 ára aldur eins og marg oft hefur verið sannað.
Ég kíkti á nokkra staði en allstaðar var troð fullt og endaði með því að rölta upp í Hallarlund (þar sem nú er Betel). Það var frekar fátt um fólk þarna og ég settist niður til að fá mér eitt glas áður en ég færi heim. Tók þá fljótlega eftir ungri konu sem var að dansa við eldri mann. Eftir að hafa fylgst með þeim í smá stund þá leit unga konan skyndilega á mig og blikkaði mig. Í fyrstu hélt ég að þetta hefði verið einhver mis sýn, en nokkru seinni gerði hún þetta aftur. Stuttu síðar settist hún hjá fólki sem ég kannaðist nú eitthvað við, þar á meðal Guðný Anna Tórshamar.
Eftir að hafa heilsað og boðið gleðilegt nýtt ár, þá spurði ég að sjálfsögðu: Hver er þessi unga kona þarna?
Dinna svaraði: Þetta er hún litla systir mín, hún Matthilda María.
Eftir að hafa horft á hana smá stund kom eldri maðurinn aftur sem hún hafði dansað við og bauð henni upp, en núna afþakkaði hún boðið og horfði bara á mig.
Ég rétti henni því höndina án þess að segja nokkuð og við stigum okkar fyrsta dans.
Ég hef aldrei verið mikill dansari, en við Matthilda erum þó búin að dansa saman í bráðum 28 ár.
Það má því sannarlega segja það að þessi afskaplega erfiðu jól og áramót hafi endað vel og skilaboðin eru því nokkuð skýr: Það er alveg sama hversu dökkt útlitið er, það rofar alltaf til að lokum, við Matthilda höldum nú okkar 27. jól saman með hluta af börnunum okkar og óskum öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla.
24.9.2017 | 20:42
Lundasumarið 2017
Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera upp lundasumarið að venju.
Mjög skrýtið lundasumar, en mikið af lunda kom hingað í vor en í júní og stærsta hluta júlí sást varla nokkur lundi í Eyjum. En að sjálfsögðu mætti lundinn tímanlega fyrir Þjóðhátíð og framhaldið þekkjum við 5000 bæjarpysjur komnar amk. enda þekkjum við það að ekki nenna allir að fara með í vigtun.
Ég hef spurst fyrir um það að undanförnu, hvað menn telji að hægt sé að tala um að sé nokkurn veginn eðlilegt magn af bæjarpysju miðað við árin áður og flestir eru á því að þegar komið er yfir 5000 sé einfaldlega ástandið mjög gott og að öllum líkindum mjög nálægt að vera eðlilegt og gott varp.
Leyfðir voru 3 veiðidagar um miðjan ágúst, en að venju fór ég ekki til veiða, en miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá heyrist mér að veiðin gæti losað svona ca. 300 lunda, sem gerir enn eitt árið veiðarnar sjálfbærar, en að mínu mati er kannski stærsta vandamálið það að þar sem tíminn er svona takmarkaður, þá heyrir maður á þeim sem fóru til veiða að töluvert hafi verið af fullorðnum fugl í veiðinni. Að mínu mati, til þess að auka líkurnar á því að menn veiði frekar ungfugl, þá tel ég að rétt væri að skoða breytingar á þessum veiðum en þó án þess að auka veiðarnar og þá t.d. með því að hver veiðimaður fengi að hámarki 2 veiðidaga, en þá kannski á lengra veiðitímabili?
Tók reyndar eftir því í síðustu viku að Náttúrustofa Íslands er búin að setja lundann og fýlinn á válista. Stofnar sem telja tugi milljóna á Íslandi og t.d. lundinn klárlega á uppleið og eina leiðin að mínu mati til þess að útskýra það er, að sennilega hefur ríkið verið að boða niðurskurð á fjármunum til stofnunarinnar, enda er þetta tóm þvæla.
Toppurinn á sumrinu hjá mér var sá sami og í fyrra, en ég náði að heimsækja perlu norðursins, Grímsey, í sumar og að mörgu leyti var þessi ferð betri en áður, því að ég var svo heppinn að komast með heimamönnum í siglingu í kring um eyjuna í renniblíðu, en mér hafði verið sagt frá því, að austanmegin á Grímsey væri stærsta álku byggð í heimi, en að fá að sjá þetta með eigin augum var alveg með ólíkindum. Einnig er þeim megin klettur sem heitir Latur. Mjög svipaður í stærð og ummáli og kletturinn Latur sem er norðan við Ystaklett. Munurinn er hins vegar sá, að á Lat þeirra Grímseyinga verpa 450 svartfuglar. Vonandi fær maður að koma þarna einhvern tímannn aftur.
En lundaballið er framundan. Ég er reyndar á vakt um helgina og kemst því að öllum líkindum ekki, en svona til gamans, ein lítil, gömul veiðisaga frá mér.
Saga drottningar
Það var á föstudegi viku fyrir Þjóðahátið sumarið 1987, að ég sat á mínum uppáhalds veiðistað í Miðklett í ágætis veiði, sól og blíðu, þegar skyndilega var eins og einn geislinn frá sólinni hefði breytst í fugl og flogið framhjá. Eftir smá stund áttaði ég mig á því, að þarna var kominn lundaalbinói og eftir að hafa séð betur, sá ég að þetta var lundadrottning, alhvít með pínulítið af ljósbrúnu í bakinu.
Ekki stoppaði hún lengi við, en hvarf yfir í Ystaklett og reiknaði ég ekki með að sjá hana aftur, en daginn eftir kom hún aftur og fór að fljúga fram og aftur í Miðkletti og ég hljóp upp þar sem hún sýndist koma yfir, en þá kom hún að neðan. Svo fór ég neðar en þá kom hún fyrir ofan. Svona gekk þetta í smá stund, þar til ég gafst upp og fljótlega eftir það lét hún sig aftur hverfa.
En á sunnudeginum kom hún enn og aftur, en núna fór hún beint mjög vestarlega í Miðklettinum, eða rétt hjá stað sem við köllum Kyppunef og settist þar innan um hóp af lundum. Ég hélt áfram að veiða, en hafði samt auga með henni enda sást hún langar leiðir.
Eitt skiptið sem ég lít við sé ég að hún flýgur af stað og með stefnu töluvert langt fyrir ofan mig. Ég snéri mér við í sætinu og var að horfa á hana þegar það hvarflaði að mér að kannski sæi hún flaggið frá mér, svo ég dró háfinn til mín og sat því öfugur í sætinu og þegar hún átti nokkra metra eftir, þá blakti flaggið hjá mér, hún sá það og steypti sér niður. Ég reif upp háfinn af öllum kröftum, en þar sem ég sat öfugur í sætinu, þá að sjálfsögðu datt ég ofan í holuna og rétt náði að halda í stöngina með annari hendi og fann því ekki, hvort ég hefði náð henni, en þegar ég dró háfinn til mín lá hún í netinu.
Ég fór í land daginn eftir og beint með drottninguna til uppstoppunar hjá Inga Sigurjóns á Hólagötunni. Hann lét mig hafa hana aftur fyrir Þjóðhátíð, en þar sem tíminn var of lítill þá náði hann aldrei að klára hana þeas. að mála á henni nefið og lappirnar.
Þegar ég horfi á drottninguna í glerskápnum í stofunni heima og við hliðina á henni aðra drottningu sem ég veiddi nokkrum árum síðar í Kervíkurfjalli, þá finnst mér einfaldlega sú gamla alltaf flottust. Hún varð 30 ára í sumar og hún er veidd sama ár og ég byrjaði í útgerð og líka sama ár og ég eignaðist frumburðinn.
Óska öllum gleðilegrar skemmtunar á lundaballinu.
18.9.2017 | 21:17
Landeyjahöfn staðan í dag 18.09.2017
Það er ansi mikið búið að ganga á í sumar, en ég ætla að byrja á því að fjalla aðeins um fundina 2 sem haldnir voru í maí og nota um leið tækifærið til þess að þakka þeim fyrir sem komið höfðu að því að koma þessum fundum á, enda hafði ég ítrekað óskað eftir því að farið yrði yfir málin.Margar góðar ræður voru haldnar á fundinum, en mér fannst svolítið skrýtið að sjá engan sjómann í pontu. Reyndar hafa flestir sem ég hef hitt síðan talið að þessir fundir hafi litlu skilað, en því er ég einfaldlega ósammála. Ég náði ekki að sitja fundina, en náði þó að skoða þetta á netinu þökk sé Tryggva og þeim á eyjar.net.
Á fyrri fundinum var mjög merkilegt að hlusta á Ásmund Friðriksson fjalla um útreikninga sína um það hvort og þá hversu mikill hagnaður er af rekstri Herjólfs, en í máli hans kom fram, að samkv. útreikningi hans hefðu ca. liðlega 300 milljónir verið afgangs á rekstri Herjólfs 2015. Ekki dettur mér til hugar að rengja þessar tölur, en ég hef að undanförnu verið að skoða þetta svolítið sjálfur og þá einmitt eins og hann, að hluta til, hvers vegna það er svona mikið dýrara að sigla til Þorlákshafnar, en ég er einmitt einn af þeim sem er af þeirri skoðun að mikilvægt sé að tryggt verði að Herjólfur verði hérna áfram eftir að nýja ferjan kemur. Vandamálið er hins vegar töluvert, enda nokkuð ljóst að þó svo að Herjólfur sé að sjálfsögðu þjóðvegurinn okkar og það eigi ekki að koma okkur við, hvort hagnaður eða tap sé á þessum þjóðvegi okkar, þá er það nú samt þannig að telja verður mjög líklegt að verulegt tap sé á siglingum til og frá Þorlákshöfn og þess vegna mjög mikilvægt að ef Vestmannaeyjabær ætlar sér að taka við rekstri Herjólfs, að tryggðir séu nægilegir fjármunir með verkefninu.
Siglingar í Landeyjahöfn eru þó klárlega reknar með hagnaði, en að sjálfsögðu ræður tíðin þar mestu um og þá hversu vel tekst til með að halda höfninni opinni. Stóra vandamálið þar er að mínu mati sú staðreynd, að Landeyjahöfn verði aldrei heilsárshöfn.
Eitt af fyrri fundinum í máli Gunnlaugs Grettissonar vakti athygli mína, en Gulli talaði m.a. um það, hversu frábært það væri fyrir okkur eyjamenn að hafa þessa biðlista, vegna þess að við kynnum að nýta okkur þetta. Þessu er ég algjörlega ósammála, enda fer enginn á biðlista nema tilneyddur og ég leyfi mér að fullyrða það, að öll myndum við frekar vilja öruggt og tryggt pláss með ferjunni, frekar en þessa óvissu sem fylgir biðlistunum. Auk þess er augljóst, að tap ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum vegna allra þeirra ferðamanna sem ekki koma til eyja vegna biðlistana hefur ekki verið metið, en ekki ólíklegt að þar sé um stórar upphæðir að ræða.
Á seinni fundinum var tvennt í svörum Jóhannesar Jóhannesarsonar sem vakti athygli mína. Í fyrsta lagi fullyrðingar hans um að nýja ferjan gæti víst farið á þremur tímum til Þorlákshafnar og það jafnvel í vondum veðrum. Ég er ekki sammála þessu og er mjög efins um það, að svona grunnrist ferja geti yfirhöfuð siglt til Þorlákshafnar, þegar ölduhæðin í Landeyjahöfn er komin yfir 3,5 m, enda augljóslega 6-8 m ölduhæð á sama tíma milli Þorlákshafnar og Eyja.
Varðandi ganghraðann (að marg gefnu tilefni) þá er það einu sinni þannig, að að öllum líkindum verður það rekstraraðili sem tekur ákvörðun um það, hvort skipinu verði siglt á 12,5 mílum eða á hámarkshraða, 15,5 mílum. Munurinn er sá, að ef við segjum að orkueyðslan á minni hraðanum sé 2, þá er hún amk. 5 til þess að ná meiri hraða og sem útgerðarmaður myndi ég sjálfur alltaf velja lægri töluna á mínu skipi.
Eitt var mjög jákvætt í máli Jóhannesar og það er, að að sjálfsögðu verður það skoðað þegar nýja ferjan kemur sá möguleiki að koma fyrir fleirum kojum í nýju ferjunni.
Varðandi breytingar eða lagfæringar á Landeyjahöfn sjálfri, þá voru eins og svo oft áður ýmsar hugmyndir í umræðunni, en í raun og veru má segja sem svo að Sigurður Áss hafi skotið það allt í kaf með orðum sínum um það, að enn hefðu engir fjármunir fengist í neitt af þessu og vandamál Landeyjahafnar því klárlega komið til að vera.
Margir spurðu um einhverjar tölur í sambandi við áætlaðar frátafir. Persónulega finnst mér það svona frekar vitlaust að vera að biðja menn að upplýsa um eitthvað, sem þeir ekki vita, enda fara frátafir eftir nákvæmlega því sama og hingað til, algjörlega eftir veðri, vindum og sandburði.
Staðan í dag er þannig að Herjólfur er aftur farinn í viðgerð og Norska ferjan Röst byrjaði siglingar í morgun. Vonandi á hún eftir að reynast vel, en veðurspáin næstu vikuna er ekki góð. Heyrði reyndar þá kjaftasögu í síðustu viku,að sumir ráðamenn bæjarins hefðu vitað það strax í júlí, að Röst yrði fyrir valinu og að aðal ástæðan fyrir því að ekki væri fengin öflugri ferja væri, að sömu aðilar hefðu ekki áhuga á að fá eitthvað sem hin nýja ferja sem koma á á næsta ári gæti ekki staðist samanburðar við .
Það var annars ansi skemmtilegt að fá Akranes ferjuna hér um Þjóðhátíð, þar sem við eyjamenn fengum svona lítið sýnishorn af því, sem við hefðum átt að vera að berjast fyrir, en ég ætla að enda þetta í þetta sinn með orðum þingmanns Sjálfstæðisflokksins á fundinum í vor, vonandi nálægt því að vera orðrétt: Þegar kemur að því að taka einhverjar ákvarðanir í samgöngumálum eyjamanna, þá er í 90% tilvika fyrst og fremst farið eftir óskum bæjarstjórnar.
Meira síðar.
4.9.2017 | 00:07
Fiskveiðiárið 2016/17
Þann fyrsta september byrjaði nýtt fiskveiðiár og því rétt að skoða það sem var að enda , mjög skrítið fiskveiðiár að baki , með löngu verkfalli sem að sögn sjómanna skilaði engu . Mjög góðri vertíð og þá bæði í bolfiskveiðum og uppsjávarveiðum , verðið hinsvegar á bolfiskinum hefur verið afar lélegt og þá sérstaklega verðlagsstofuverðið sem margar útgerðir með vinnslu greiða ,verðið erlendis hinsvegar hefur verið með ágætum og því góður gangur í gámaútflutningum . Lélegt verð í beinum viðskiptum hinsvegar hefur annars orðið til þess að æ verr gengur að manna þau skip sem landa hjá eigin vinnslu og dæmi um það að flytja verður inn sjómenn til þess að halda úti sumum bolfiskveiði skipum . Ekki góð þróun það og nokkuð ljóst að leita verður annarra leiða til þess að leysa það .
Af minni eigin útgerð er það að segja að ekkert gengur að selja bátinn og það þrátt fyrir að ég sé búin að lækka hann um helming í verði ,sem betur fer tókst mér þó að losna við kvótann , en Ísfélagsmenn tóku kvótann fyrir mig og losuðu mig því við ansi þungan andardrátt bankans manns niður um hálsmálið á mér og kann ég þeim Ísfélagsmönnum miklar þakkir fyrir , það er ekkert grín að skulda í banka kerfinu okkar og vextirnir maður , vá, er nema furða þó bankarnir græði ,ég er því kvótalaus og hef frekar lítinn áhuga á að róa enda er ennþá þannig að veiðigjöld eru greidd af lönduðum afla og því þessi ríkisstjórn líka braskara ríkisstjórn eins og sú á undan . Það eina jákvæða sem ég hef séð er að línuívilnun er komin á allar tegundir en það hrekkur skammt enda bara fyrir landbeittar línuveiðar .
Veiði ráðgjöf hafró er enn einu sinni skrítinn , en eins og ég hafði áður spáð fyrir um þá lækkar Langan enn og hefur nú lækkað um 50% á aðeins 2 árum , viðbót í Ýsu er hinsvegar góð en í Þorski allt of lítil , ufsa víðbótin fer hinsvegar í flokk með Launguviðbótinni síðustu ár , sem tóm vitleysa enda mörg ár síðan Ufsa kvótinn hefur náðst .
En hvað sem verður þá hefur fiskverðið hækkað að undanförnu og það er aðeins aukning á sumum tegundum og á þeim nótum óska ég öllum sjómönnum og útgerðar mönnum gleðilegs nýs kvótaárs.