Gleðilegt sumar

Að venju hefst sumarið hjá mér þegar lundinn sest upp og hann settist upp í gærkvöldi 16. apríl, sem er á þessum hefðbundna tíma. Kannski ekki beint sumarlegt veður í dag, en svona er nú einu sinni vorið okkar.

Ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn með lunda sumarið í ár og finnst ég hafa ástæðu til, því eftir að hafa fengið nokkur þúsund bæjarpysjur bæði 2015 og 16, samfara miklu æti í sjónum allt í kring um landið og þá sérstaklega loðnu. Vonandi gengur það eftir.

Þann 28. febrúar sl. mætti ég á ágætan kynningarfund um þessa svokölluðu friðun fuglastofna í Vestmannaeyjum. Eins og við var að búast, þá eru eyjamenn almennt á móti þessu friðunar hjali, enda ekki góð reynsla af því þegar ríkið ræður yfir einhverju, samanber heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og niðurskurðum þar, en svona blasir þetta við mér.

Umhverfisráðherra getur að sjálfsögðu hvenær sem er sett á friðun, en að öllu eðlilegu, þá gerir ráðherrann það ekki nema beðið sé um. Verði friðunin hins vegar sett á, þá verður ráðherrann að taka ákvörðun og á þeim nótum bar ég upp eina spurningu í lok fundar, sem var þannig að ef við gefum okkur það að búið sé að setja þessa friðun á og ráðherra fái inn á sitt borð ósk Vestmannaeyjabæjar um að leyfa áfram nokkra veiðidaga, en líka inn á sitt borð yfirlýsingar frá Dr. Erpi og Dr. Ingvari, að veiðar í nokkurri mynd væru ekki sjálfbærar á nokkrun hátt. Svar fulltrúa ríkisins var eins og við var að búast, að auðvitað myndi ráðherrann fyrst og fremst horfa á niðurstöðu rannsóknaraðila, Dr. Erps og Dr. Ingvars. 

Þess vegna er mikilvægr að þessi friðun verði aldrei sett á og mér er eiginlega alveg sama um, hvaða fármunir þekkingarsetur Vestmannaeyja telur sig geta haft út úr þessu. Ég verð einfaldlega alltaf á móti því að færa yfirráðarréttinn á nokkru hér í Eyjum til ríkisins, sporin hræða. 

Það skiptir engu máli þó að ég sé hættur að veiða og ætli mér ekki að veiða lunda oftar í Eyjum að öllum líkindum, sem er ekki bara ákvörðun sem ég hef tekið, heldur fjöl margir aðrir veiðimenn og þar með sýnt og sannað að okkur er treystandi til þess að fylgjast með og vernda okkar eigin fuglastofna.

Lundinn mun koma til Eyja í milljónatali löngu eftir að við erum farin héðan.


Landeyjahöfn, framhald af síðustu grein

Það var mjög ánægjulegt að sjá svar Sigurðar Áss við minni síðustu grein og kannski svolítið skrítið fyrir mig vegna þess, að eftir vandræðaganginn haustið 2010, þar sem í ljós kom að öll varnarorð mín frá því árunum áður varðandi Landeyjahöfn reyndust á rökum reist, heftur ríkt hálfgerð þöggun um mín skrif um Landeyjahöfn og vil ég þakka þeim á Eyjafréttum fyrir að ná eyrum Sigurðar.

Svar Sigurðar kom mér kannski ekki á óvart, enda heyrt svipað frá honum á opnum fundum og ekki dettur mér til hugar að efast um að hann fari með rétt mál varðandi þessi A-B-C svæði. Vandamálið hjá mér er kannski það, að ég setti þetta í mína síðustu grein vegna orða reynds skipstjóra úr eyjaflotanum, sem mér dettur ekki heldur til hugar að rengja, svo mér er nokkur vandi á höndum og þó. 

Orð Sigurðar segja í raun og veru allt sem segja þarf, nýja ferjan mun geta siglt, samkv. þessu, til Þorlákshafnar, en hún er fyrst og fremst hönnuð og smíðuð til siglinga í Landeyjahöfn. Svo spurningin er því kannski fyrst og fremst þessi: Mun ferjunni nokkurn tímann verða siglt til Þorlákshafnar og hvað gerist ef frátafir verða sambærilegar til Landeyjahöfn og með núverandi ferju. 

Það eru ótrúlega margir sem hafa komið að máli við mig núna í vikunni og ég hef fengið hinar ótrúlegust spurningar og jú, líka kjaftasögur. Svo mig langar að minna á það, að fyrir ári síðan var ákveðinn hópur fólks hér í bæ að vinna að því að koma á opnum fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu, fyrirtækjum í Vestmannaeyjum ásamt fulltrúum Siglingamálastofnunar, samgönguráðherra og annarra.

Ég kalla eftir því að slíkur fundur verði haldinn, það eru einfaldlega allt of margar kjaftasögur í gangi og um leið allt of mörgum spurningum ósvarað. Svo ég taki nú bara tvö pínulítil dæmi, sem samt skipta gríðarleg miklu máli. Margir sem skoðað hafa teikningar af nýju ferjunni, hafa verið óhressir með það, að kojunum í ferjunni skyldi vera snúið þversum, en svo heyrði ég það í dag, að búið væri nýlega að breyta þeim í langsum, sem breytir ansi miklu fyrir þá sem þekkja til.

En mikilvægara, að aðeins í þessari viku er ég búinn að heyra sennilega um 3 útgáfur af því, að samningurinn við þá sem eiga að smíða ferjuna, sé í uppnámi vegna þess að þeir neiti að bera ábyrgð á ferju, svona grunnristri, sem þeir áttu enga aðkomu að að hanna.

Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta, en þessum spurningum þarf að svara og ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér fyrir því að slíkur fundur verði haldinn sem fyrst.


Landeyjahöfn, staðan í dag 12.03.2017

Landeyjahöfn opnaði í vikunni sem er óvenju snemmt. en fyrst og fremst ánægjulegt. Ástæðan er fyrst og fremst hagstæðar vindáttir að undanförnu þannig að Galilei fékk nægan tíma til þess að dæla út úr höfninni. Ég minni þó á að það er enn vetur og er t.d. ölduspáin að sýna allt að 7 metra ölduhæð um miðja vikuna, en veðurspáin fyrir næstu helgi er mun betri.

Eins og svo oft áður, þá rignir inn kjaftasögunum, fyrir sumum er einhver fótur en aðrar eru oft á tíðum tóm þvæla. Það vakti þó athygli mína að í morgunfréttum á Bylgjunni í síðustu viku kom fram að í gagnið væri komin ný aðferð til að losna við sandinn úr höfninni, sem gengi út á það að Galilei dældi niður sjó í höfninni, sem gerði það að verkum að sandurinn þyrlaðist upp og straumurinn bæri síðan sandinn í burtu. Þetta er, eftir því sem ég veit best, tóm þvæla, en rörið sem er framan á Galilei sem vissulega er ætlað til þess að dæla niður í sjó, en er fyrst og fremst til þess að ná betur sandinum frá görðunum, en rörið sem Galilei notar til að dæla sandi upp í skipið nær einfaldlega ekki til að dæla meðfram görðunum, og þess vegna var þessi aðferð fundin upp.

Mér er hins vegar sagt að það sé byrjað að setja upp einhvers konar þil í kring um höfnina landmegin, til þess að reyna að minnka foksandinn í höfninni, en það verður svo bara að koma í ljós hvort að það virkar eða ekki.

Sumar kjaftasögur eru svo ágengar að maður hefur heyrt þær oft, að maður leggur það á sig að leita eftir svörum m.a. hafði ég heyrt það nokkrum sinnum í vetur að ekki yrðu neinar festingar á bílaþilfarinu á nýju ferjunni m.a. til þess að geta fækkað verulega í áhöfninni. Mér þótti þessi saga frekar galin en sannleikurinn er sá, að á þilfari nýju ferjunnar verða svokallaðir fýlsfætur, eða í staðin fyrir raufar eins og á núverandi ferju, verða kúlur með götum í sem hægt er að krækja í þegar binda þarf farartæki niður. Um leið er nokkuð ljóst að ekki verður um verulega fækkun á nýju ferjunni, en hef þó nýlega heyrt það að hugsanlega verður fækkað úr 12 niður í 10 í áhöfn nýju ferjunnar. 

Aðrar kjaftasögur hins vegar, vekja meiri athygli mína og sú nýjasta gengur út á það, að nýlega hafi siglingarleiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verið færð yfir í svokallað B svæði. Ef það er eitthvað til í því, að nýja ferjan muni aðeins fá siglingaleyfi til siglinga á A og B svæðum, þá er staðan ótrúlega slæm því að veruleikinn er sá, að hafsvæðið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar telst vera C svæði og ef þetta er rétt, þá skiptir það engu máli þó að nýja ferjan gæti siglt til Þorlákshafnar, þá hefði hún einfaldlega ekki leyfi til þess. Þessu til viðbótar er mér sagt, enn einu sinni, að það sé nánast forms atriði að ganga frá sölu á núverandi ferju og að henni verði hugsanlega flaggað út sama dag og nýja ferjan kemur til Eyja. Í mínum huga er þetta graf alvarlegt mál ef eitthvað af þessu er satt og ég skora hér með á þá, sem hugsanlega vita betur að svara þessu. 

Það skiptir í mínum huga engu máli, þó að sumir geri grín að því að það þurfi B plan þ.e.a.s. að halda núverandi ferju í einhvern tíma eftir að nýja ferjan kemur. Það er hins vegar ekki búið að ganga frá þessu máli. 

Að lokum þetta: Það hefur verið bara gaman að fylgjast með skrifum annarra um samgöngumálin okkar og fer þar fremstur í flokki bæjarstjórinn okkar. Ég er nú sammála Elliða í því, að ef ekki hefði verið búið að skrifa undir samning varðandi nýju ferjuna, þá hefði sá samningur að öllum líkindum hugsanlega lent undir niðurskurðar hnífnum hjá núverandi ríkisstjórn. Hin hliðin á þessu máli er sú að, nokkuð augljóslega erum við ekki að fara að fá háar upphæðir í nauðsinlegar breytingar og eða lagfæringar á Landeyjahöfn.

Elliði skrifar einnig um að hugsanlega muni fólki fjölga með tilkomu nýrrar ferju, ég hef hins vegar heyrt í fólki á öllum aldri sem er tilbúið að forða sér héðan ef þetta reynist ein illa og margir sjómenn spá. Reyndar hefur því miður líka orðið sú þróun að fólk sem á eldri fasteignir hér í bæ stendur frammi fyrir því að losna ekki við þær, nema jafnvel niður í hálfvirði, sem aftur hefur orðið til þess að fólk svilítið situr fast hérna.

Grein Ómars Garðarssonar frá því fyrr í vetur vakti líka athygli mína, en Ómar furðaði sig á því, hvers vegna ekki fengust neinir fjármunir í að bæta heilsugæsluna okkar og þeirri fáránlegu stöðu að Eyjamenn skuli þurfa að flytja til Reykjavíkur til að fæða börnin okkar. Margir hafa nú fjallað um þetta undanfarin ár og bent þá sérstaklega á þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn með allri sitt vald hér í Eyjum og á Alþingi Íslendinga, skuli ekki skila okkur neinu. 

Varðandi hins vegar niðurskurðinn á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, þá fjallaði ég nokkrum sinnum um hann áður en Landeyjahöfn var opnuð, þar sem ég varaði m.a. við því að ef Landeyjahafnar leiðin yrði valin, þá myndi það þýða niðurskurð á hinum ýmsu stofnunum á vegum ríkisins hér í bæ, svo þessi niðurskurður í sjálfu sér hefur ekki komið mér á óvart. Þetta er hins vegar að mínu mati, mikið réttlætismál og í því þurfum við öll að standa saman, en ég harma það enn einu sinni að spádómar mínir um afleiðingar Landeyjahafnar skuli enn einu sinn hafa staðist. 


2016 gert upp

Loksins búinn að finna tíma til þess að gera árið 2016 upp, en það hefur verið ótrúlega annasamt hjá mér í kring um áramótin. 

2016 er hjá mér ár mikilla öfga og stórra ákvarðana. Sú stærsta var að sjálfsögðu mjaðmakúliskipti sem ég fór í 23. maí. Ég hafði að sjálfsögðu vitað þetta með árs fyrirvara en ekki fengið nákvæma dagsetningu fyrr en ca. 2 mánuðum fyrir aðgerð.

Síðasti vetur var erfiðasti veturinn minn í útgerð hér í Eyjum og sem dæmi um það, að þrátt fyrir að ég hafði fiskað 140 tonn sl. vetur, þá þurfti ég samt að fara niður í banka og biðja um fyrirgreiðslu í sömu viku og ég fór í aðgerðina. Þar hafði mest áhrif aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar, sem ég hef áður fjallað um. 

Það var mjög sérstakt að ganga frá öllu tengdu útgerðinni í maí og undirbúa fyrir lengsta sumarfríið, sem ég hef tekið eftir að ég fór að vinna og þá fyrst sem strákur í bæjarvinnu á vegum Vestmannaeyjabæjar.

Aðgerðin tókst mjög vel, en hún fór fram á borgarspítalanum, en margt samt rosalega skrítið eins og t.d. hvernig mér leið eftir mænudeyfinguna, þar sem líkaminn dofnaði allur upp, en heilinn mundi samt eftir því, í hvaða stellingu ég var þegar ég fór í mænudeyfinguna, sem var svolítið óþægilegt. Það að liggja síðan reyrður á hlið og hlusta á borvélar og hamarslátt, þar sem maður hristist allur og skalf meðan hamarshögginn dundu á mjöðminni, án þess þó að ég fyndi nokkuð fyrir því. Ég var svo heppinn að fá einkaherbergi og fékk líka leyfi til þess að liggja þar í 3 nætur, enda erfitt ferðalag að fara í fólksbíl austur í Landeyjahöfn og sigla svo yfir. Allt tókst þetta nú vel og í framhaldinu hófust síðan þrotlausar æfingar. Það leið reyndar ekki nema mánuður þangað til ég var farinn að dunda aðeins í bátnum og kom honum m.a. á flot aftur fyrir goslokahelgina, svo hann væri ekki fyrir á planinu. Fór svo út með sjóstöng að ná mér í soðið 6 vikum eftir aðgerð og prufuróður á sjó 2 mánuðum eftir aðgerð.

Allt gekk þetta bara nokkuð vel, þó að maður væri að sjálfsögðu svolítið aumur, en þetta m.a. varð til þess að ég ákvað að breyta út af 40 ára hefð og sleppa því að mæta á Þjóðhátíð og nota tímann í staðinn til þjálfunar, enda hafði ég þá þegar tekið ákvörðun ásamt félögum mínum að kíkja aftur til Grímseyjar helgina eftir Þjóðhátíð. Náðum við þar m.a. í lundann fyrir lundaballið. Því hafði nú verið spáð af nánum ættingjum að ég næði að snúa af mér löppina í þeirri ferð, en ég leit hins vegar á þessa ferð sem ákveðna prófraun, en ég hafði þá þegar gengið 2svar á Heimaklett. Allt gekk þetta vel og því kom það mér ekki á óvart að skurðlæknirinn minn úrskurðaði mig seinni partinn í ágúst tilbúinn í hvaða vinnu sem er. 

Eitt af því sem ég hafði ákveðið þá þegar um vorið, og í raun og veru fyrir aðgerð, var að hætta í útgerð enda hefur meiningin með minni útgerð aldrei verið sú að starfa í þessu í einhverri sjálfboða vinnu. Reyndar hefur gengið ansi rólega að selja útgerðina og m.a. er ég þegar búinn að taka prufuróður eftir vinnu núna í janúar 2017, sem hefur ákveðna merkingu fyrri mig vegna þess að ég keypti fyrsta bátinn 1987 og hef því gert út nákvæmlega í 30 ár, þó að þessir róðrar að undanförnu séu nú meira svona til gamans. 

Fljótlega eftir að ég var kominn af stað í sumar fór ég að leita mé að atvinnu í landi og sótti um hjá höfninni í lok júli og fékk vinnu og hóf störf þann 1. sept. Mér líkar bara nokkuð vel hjá höfninni, enda starfað við höfnina alla mína ævi. Breytingin er þó ofboðslega mikil, en svona ef ég skoða síðasta ár í heild sinni, þá verð ég bara að viðurkenna eins og er að þessir síðustu 4 mánuðir ársins eru einu mánuðurnir á árinu sem maður fékk eitthvað útborgað.

Pólitíkin var að sjálfsögðu til staðar hjá mér á árinu. Fyrst aðeins að Alþingiskosningunum. Mér voru boðin sæti á 3 listum en ég hafnaði því öllu. Fyrir því voru margar ástæður, kannski fyrst og fremst það að maður hafði bara hreinlega ekki tíma í þetta og kannski takmarkaðan áhuga. Kosningaúrslitin í sjálfu sér komu mér ekkert á óvart, nema kannski árangur Viðreisnar en mér þótti mjög skrítið að hitta fólk sem kaus Viðreisn og trúði því í alvöru að Viðreisn myndi aldrei fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. 

Í bæjarpólitíkinni var þetta svolítið átaka ár hjá mér og hófst með flugelda sýningu á fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 6. janúar í fyrra. Meirihlutinn var afar ósáttur með grein sem ég skrifaði fyrir þar síðustu áramót. Nú er það þannig að ég hef skrifað margar greinar í gegn um árin. Nokkrum sinnum áður hef ég reynt að skrifa mjög vandaðar greinar, þar sem ég fer yfir aftur og aftur, laga og leiðrétti. Þær greinar hafa nánast alltaf endað í ruslinu hjá mér, svo ég hef valið frekar að skrifa greinar um það sem ég hef verið að hugsa að undanförnu á þeim tíma og/eða fjalla um það sem fólk er að segja mér. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að gagnrýna mínar greinar, en túlkun meirihlutans á grein minni fyrir rúmu ári síðan, hefur ekkert með það að gera hvað ég var að hugsa þegar ég skrifaði greinina og viðbrögð meirihlutans í framkvæmda og hafnarráði voru alls ekki við hæfi. 

Í ágætu viðtali sem ég fór í í bæjarblaðinu Fréttum í byrjun febrúar sagði ég frá þessu og þeirri skoðun minni að meirihlutinn bæri að biðjast afsökunar á framkomu sinni í minn garð. Viðbrögð meirihlutans voru þau að senda erindi til bæjarstjórnar strax þarna í febrúar, þar sem þeir óskuðu eftir því að fundir ráðsins yrðu teknir upp hér eftir, vegna þess að fulltrúi minnihlutans væri með einhverjar dylgjur í þeirra garð. Að sjálfsögðu var þetta fellt í bæjarstjórn, og bara svo það sé alveg á hreinu, enginn í þessu ráði hefur beðið mig afsökunar. En ég hef í bili að minnsta kosti ákveðið að afgreiða þetta allt saman með orðum móður minnar sem hún kenndi mér strax á unga aldri: Sá á vægið sem vitið hefur.

Fundir í framhaldi af þessu voru nokkuð venjulegir, en margt af því sem gerðist á næstu vikum og mánuðum eftir þennan fund olli mér miklu meiri vonbrigðum, heldur en þessi fundur frá því í janúar. Og í lok sumars, eftir að mér bauðst starf hjá höfninni, var strax ljóst að ég gæti ekki líka starfað í hafnarráði. Ég bauð þá félaga mínum og oddvita Eyjalistans, Stefáni Jónassyni, að ég myndi draga mig út úr þessu og hleypa yngri manni að, en Stefán bauð mér að skipta við sig um ráð og gerði ég það og hóf ég störf í umhverfis og skipulagsráði í haust. 

Það er töluvert öðruvísi fólk í því ráði en því fyrra og störfin að mörgu leyti allt öðruvísi en mjög mikilvæg, enda held ég að það dyljist engum sem fer á rúntinn um bæinn okkar, allar þær miklu breytingar sem eru að verða, bæði varðandi lagnir í allar áttir sem og uppbygging á hafnarsvæðinu í kring um Fiskiðjuna og að þessu leytinu  til má segja að framundan séu mjög spennandi tímar. 

Margir sem gera upp árið reyna að spá fyrir um nýja árið og yfirleitt á frekar jákvæðan hátt, sem er nú bara eðlilegt. Mér finnst hins vegar vera mikil óvissa um þetta nýja ár. Jújú, það er búið að mynda ríkisstjórn, en hún hefur bara einn mann í meirihluta. Klárlega ríkisstjórn sem ég myndi aldrei kjósa, en hún verður dæmd af störfum sínum, hvort sem hún endist eða ekki. 

Nýbúið að skrifa undir smíði á nýrri ferju sem sumir telja mjög jákvætt. Afstaða mín er hins vegar óbreytt. Ef ekki verða settir alvöru fjármunir í nauðsynlegar breytingar í Landeyjahöfn, þá held ég að þessi ferja verði klárlega afturför. 

Það var í fréttunum í gær, að lánshæfnismat Íslands hefði verið hækkað. Ekki ósvipað því sem gerðist reglulega rétt fyrir hrun. Fyrir nokkru síðan heyrði ég í hátt settum bankamanni, að að óbreyttu væri ekki nema ca. 2 ár í næsta hrun. Og hana nú!

Höfum þó í huga að sólin er farin að hækka og dagurinn að lengjast. Lundinn kemur í vor í milljónatali og hver veit, kannski leysist sjómannaverkfallið í vikunni. 

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.


Besti vinur mannsins

Besti vinur mannsins er klárlega hundurinn, en jólin í ár eru 4 jólin okkar eftir að við fengum okkur hund. Ég er stundum spurður að því, af hverju  hundurinn heitir Svenni, og svarið er það, að mið dóttir okkar átti vin sem hét Svenni sem lést nokkrum dögum áður en við fengum hundinn og hún fékk að ráða nafninu. Kannski ekki beint hundanafn en Svenna er alveg sama. 

Það hafa margar kvikmyndir verið gerðar um hunda og öll þekkjum við sennilega nokkrar, en fyrir nokkrum árum var gerð mynd um hundinn Hatchi, sem er sannsöguleg, en saga Hatchi hófst í Japan árið 1936 þegar prófessor í skóla einum í litlu bæjarfélagi í Japan fékk sér lítinn hund sem hann skírði Hatchico. Á hverjum degi tók prófessorinn Hatchi með sér í vinnuna og lét hann bíða eftir sér við gosbrunn sem var fyrir framan skólann. Tveimur árum síðar var prófessorinn bráðkvaddur og Hatchi þar með heimilislaus, en það breytti engu fyrir hann, hann mætti á hverjum degi við gosbrunninn og beið eftir húsbónda sínum. Bæjarbúar tóku eftir þessu og þóttu mikið til um tryggð Hatchi og fóru að færa honum mat við gosbrunninn. Þannig gekk þetta í 9 ár, eða þar til að Hatchi og húsbóndinn sameinuðust loksins í næsta lífi. 

Bæjarbúum þóttu þetta það merkilegt að þeir slógu saman í styttu af Hatchi sem enn stendur við þennan gosbrunn í þessu litla bæjarfélagi í Japan. 

Við mannfólkið getum margt lært af hundunum okkar og við fjölskyldan höfum farið í gegn um þetta allt saman með honum Svenna okkar. Sorgina þegar við förum út og hann fær ekki að koma með og svo ofsa kætina þegar við komum aftur heim, eindreginn vilja hans til að sníkja af okkur mat þegar hann finnur lykt af einhverju sem hann langar í, eindreginn brotavilja hans þegar hann reynir að laumast til að merkja skóna okkar, svo hann finni okkur nú alveg örugglega aftur ásamt kröfunni um það, að hann vilji fá að sofa uppí alveg sama hvað. Mikinn áhuga hans á að hrekja alla aðra hunda í burtu með því að gelta á þá og hvernig hann dansar um af kæti þegar hann veit að við erum að fara með hann í göngu. Já, við getum lært margt af hundunum okkar.

Góðir Eyjamenn og aðrir landsmenn, innilega gleðilega hátíð frá okkur og Svenna. 


Landeyjahöfn, staðan 22.11.2016

Mjög sérstök staða í Landeyjahöfn, en um leið að sjálfsögðu mjög ánægjuleg. Dýpið mikið og gott, enda gengið óvneju vel hjá Galilei 2000 að komast til dýpkunnar, enda ölduhæðin í Landeyjahöfn í haust verið nokkuð hagstæð þó svo að vissulega hafi blásið nokkuð hressilega stundum og ég hef verið spurður út í þessar breytingar á stefni Galilei, en mér er sagt að eftir að skipið lauk dælingu sinni í Landeyjahöfn samkv. samningi, var þeim boðinn sérstakur auka samningur sem gekk út á það að hreinsa betur meðfram hafnargörðunum, en til þess að ná því urðu þeir að breyta rörinu framan á skipinu. 

Að öðru leiti er lítið að frétta af einhverjum hugmyndum um lagfæringar á höfninni, skilst reyndar að varnargarðurinn sem reistur var með Markarfljótinu, sé að miklu leyti horfinn og einhver umræða orðin um að fjarlægja hugsanlega garðinn sem Herjólfur bakkar að þegar hann fer frá bryggju, með það að markmiði að minnka ölduhreyfingu innan hafnarinnar, en mér skilst að sú hugmynd hafi komið frá yfirmönnum Herjólfs.

Veðurspáin framundan er ekkert sérstök, en ef við Eyjamenn verðum heppin með veðurfar í vetur, þá er alveg möguleiki á að það verði óvenju oft fært í Landeyjahöfn í vetur, ef miðað er við hversu gott dýpið er í höfninni. 

Eitt af fjölmörgum verkefnum hafnarvarðar er að leysa og binda Herjólf. Ekki þarf maður að starfa lengur þar til þess að sjá, hvaða vandamál eru þar helst og langar mig að nefna 3 dæmi. 

Ég hef mjög oft tekið eftir því, að þegar bílar koma akandi niður Skildingarveginn (sérstaklega ferðamenn) og sjá bílana byrja að vera að safnast í raðirnar til að fara í Herjólf, þá reyna þeir ótrúlega oft að fara meðfram kaðlinum sem þar er, eða sömu leið og inn að bílaverkstæði Harðar og Matta og reyna síðan að komast meðfram Herjólfsafgreiðslunni að sunnanverðu og vestur inn á svæðið að biðröðinni og eiginlega furðulegt að ekki skuli nú þegar hafa orðið árekstrar þar þegar þeir mæta öðrum bílum sem eru að koma réttu leiðina. Ástæðan fyrir þessu er sú að merkingarnar sem sýna hvaða leið á að fara, sjást ekki fyrr en komið er inn í beygjuna til austurs, en að mínu viti ætti ekki að vera mikið mál að leysa þetta með því að setja áberandi skilti við kaðal vegginn, sunnan við bílaraðirnar. 

Annað atriði sem mig langar að nefna tengist einnig merkingum, en fyrir nokkru varð ég vitni að því þegar rúta merkt Norðurleiðum keyrði upp undir ranann þar sem fólk gegnur um borð í Herjólf með töluverðu tjóni, og mér skilst á öðrum hafnarverðum að þetta gerist nú bara reglulega. Þarna þyrfti virkilega að bæta úr merkingum og aðvörunar skiltum.

Þriðja atriðið sem mig langar að nefna fjallar um tímasetningar á ferðum Herjólfs þegar ferðirnar færast úr Landeyjahöfn í Þorlákshöfn. Við Eyjamenn sem förum yfirleitt akandi vitum að við fáum skilaboð ef breytingar verða, en þó ég hafi aðeins starfað þarna á þriðja mánuð, þá hef ég ótrúlega oft séð fólk koma hlaupandi niður á bryggju á slaginu 8, haldandi það að skipið fari ekki fyrr en hálf níu. Þessu væri að mínu viti mjög áuðvelt að breyta einfaldlega með því að láta Herjólf alltaf fara á sama tíma í sínar fyrstu ferðir. Við vitum það að Herjólfur þarf að fara kl 8 til þess að halda áætlun, en hvers vegna hann fer ekki fyrr en 8:30 þegar hann fer í Landeyjahöfn, hef ég ekki hugmynd um, en gaman væri ef einhver vissi svarið. 

Varðandi nýsmíðina, þá hef ég lítið heyrt annað en bara það sem komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu að það sé verið að semja við pólverja um að smíða ferjuna. Það sem ég hefði hins vegar viljað að gerðist á allra næstu árum, miðað við stöðuna í dag, það er að fundinn yrði rekstrar grundvöllur fyrir því að halda núverandi ferju um ókomin ár, enda hefur hún reynst okkur vel. Veit reyndar að það er búið að lofa okkur að halda henni í fyrstu 2 árin eftir að nýja ferjan kemur, en allar spár um þróun ferðamennskunnar benda til þess að ferðamönnum muni bara fjölga. Það ásamt að öllum líkindum meiri gámaflutningi milli lands og eyja ætti að mínu viti klárlega að geta skapað fleiri verkefni, auk þess að við gætum þá gripið til hennar þegar við þyrftum.

Að lokum verð ég að hafa eftir brandara frá vini okkar Jógvan hinum færeyska, sem mér skilst að hafi sagt í heitu pottunum fyrir nokkru síðan í Eyjum. Skrítnir þessir færeyingar, þeir vilja bara grafa göng í allar áttir á meðan Eyjamenn leysa þetta einfaldlega með batterís ferju. 


Lundasumarið 2016 og lundaballið

Síðasti lundinn farinn og sennilega síðustu pysjurnar að detta í hús í þessari viku og lundaballið næstu helgi og að því tilefni geri ég upp sumarið að venju. 

Lundasumarið í ár var mun hlýrra heldur en í fyrra, sem gerði það aftur að verkum að makríllinn mætti upp á grunninn hérna við Eyjar seinni partinn í júlí, sem aftur gerði það að verkum að menn urðu varir við mikinn pysjudauða, sérstaklega í sumum úteyjunum. 

Hérna á heimalandinu hins vegar voru margir sem gengu á fjöll og urðu ekki varir við eins mikið af dauðum pysjum og var að heyra annar staðar frá. Þetta m.a. varð til þess að ég hringdi í félagana á Náttúrufræðistofu Suðurlands og skoraði á þá að fara og kíkja í nokkrar holur suður í Sæfelli, enda að sögn þeirra sem þar fóru um gríðarlega mikið af sílifugli þar, en þeir urðu ekki við þeirri beiðni.

Það er svolítið forvitnilegt að skoða lundapysjuspá Erps frá því í fyrra og Ingars Atla frá því í ár, en samtals spáðu þeir félagar því að miðað við þeirra útreikningar, þá yrðu aðeins liðlega 1300 pysjur þessi tvö ár, en veruleikinn er hins vegar sá, að pysjufjöldinn stefnir í að verða 6500 þessi tvö ár.

Þessir röngu útreikningar þeirra félaga koma mér ekki á óvart, enda set ég þessar lundarannsóknir í sama hóp og fiskirannsóknir Hafró og tel að það sé algjörlega vonlaust að mæla fiskistofnana með því að taka nokkur togararöll í kring um landið og á sama hátt, algjörlega vonlaust að reikna út pysjufjöldann með því að fara í 1-200 holur eða svo.

Pysjan kom mánuði seinna í ár eins og í fyrra og í sjálfu sér margar skýringar á því, sem ég ætla reyndar ekki að fara nánar út í, en ljóst að lundinn er að berjast fyrir tilveru sinni, og gengur að mínu mati bara nokkuð vel. 

Ég veiddi engan lunda í Eyjum frekar en undanfarin ár, en var svo heppinn að komast með félögum mínum að sækja lunda fyrir lundaballið í perlu norðursins, Grímsey, eins og á síðasta ári. Það er frábært að koma þarna þar sem samkenndin er alls ráðandi og allir tilbúnir að hjálpa. 

Ég fékk í hendurnar í vor lundaveiðiskýrslu Erps fyrir 2015, sem er ágætis lesning í sjálfu sér, en það vakti athygli mína nýjustu útreikningar hans á aldurhlutfalli í veiði vítt og breitt um landið og sem dæmi, þá kemur fram að 269 lundar hafi verið veiddir í Vestmannaeyjum í fyrra og þar af liðlega 60% þriggja ára lundi og restin fjögra ára og eldri. Ég skyldi ekki í fyrstu hvað þetta þýddi, 4 ára og eldri, en fékk síðan þá skýringu að Erpur er farinn að skrá 4 ára lunda sem fullorðinn lunda. Mjög skrítið þar sem ég hef altaf staðið í þeirri trú að unglundi væri lundi allt að 5 ára aldri og enn furðulegra þegar ég rakst á neðar í skýrslunni þessa setningu:

Vitað er að lundinn verður ekki allur kynþroska fyrr en við 6 ára aldur.

Og hana nú!

Lundaballið er á laugardaginn og við í Veiðifélaginu Heimaey lagt mikið á okkur að gera þetta sem best og skemmtilegast. Því miður er víst orðið uppselt á matinn, en að sjálfsögðu verður opið hús fyrir ballið á eftir veisluhöldunum, en þar sem lundaballið er á laugardaginn, þá langar mig að henda hérna inn gamalli, góðri sögu úr lundaveiði sem ég reyndar skrifaði hérna fyrir nokkuð mörgum árum síðan, en finn bara ekki á síðunni hjá mér. 

Sagan af drauginum í Miðkletti

Ég hef sennilega verið um tvítugt og í síðustu veiðiferð fyrir Þjóðhátíð, þannig að það var orðið svarta myrkur yfir há nóttina. Ég hafði verið í ágætri veiði fyrr um daginn, en rétt fyrir myrkur skreið ég inn í tjaldið sem ég svaf í úti í Miðkletti og hafði rétt ný lokað augunum, þegar skyndilega heyrðist rétt hjá tjaldinu einhver óhugnanlegasti hósti sem ég hef nokkurn tímann heyrt á ævinni. Fyrst hélt ég að mér hefði misheyrst, en svo kom þetta aftur og það var eins og skyndilega lýsti aðeins inni í tjaldinu, eða eins og einhver hefði fölnað skyndilega upp og ég heyrði frekar veiklulega rödd segja:

Halló. Er einhver þarna?

Ekkert svar nema þessi óhugnanlegi hósti aftur, en sem betur fer aðeins lengra í burtu, svo ég áræddi að skríða út úr tjaldinu. Kveikti á ljósinu sem ég var með sem rétt lýsti í kring um sig sjálft. Ekkert var að sjá, en mér datt í hug, hvort það gæti verið að nágrannar mínir úr Ystakletti væru kannski að gera at í mér, en þar var ekkert ljós að sjá og í fjarska heyrði ég enn einu sinni þennan óhugnanlega hósta, svo eftir smá stund ákvað ég því að skríða aftur inn í tjaldið og reyna að sofna, sem gekk nú ekkert of vel, en vaknaði svo um morguninn í fallegu veðri og miklu lundaflugi. Eftir morgunmat rölti ég út í einn af uppáhalds veiðistöðunum mínum. Ég hafði aðeins háfað nokkra fugla, þegar skyndilega heyrðist þessi óhugnanlegi hósti rétt fyrir aftan mig. Grænn í framan snéri ég mér við og horfðist í augu við drauginn í Miðkletti. Gljáfægð hornin, svolítið útþanin augu og nasir sem hnusuðu að mér og síðan opnaðist kjafturinn á drauginum svo að skein í tennurnar og út úr gini draugsins kom þetta ógurlega hljóð ásamt góðu hóstakasti: Meeeeeeeee.

Sjáumst öll á lundaballinu.


Gleðilegt nýtt ár (fiskveiðiár)

Á miðnætti hefst nýtt kvótaár en að þessu sinni á afar óvenjulegan hátt hjá mér, vegna þess að ég er ekki að fara á sjó, heldur er ég að hefja störf í fyrramálið sem hafnarvörður í Vestmannaeyjum. 

Ástæðurnar fyrir þessum breytingum hjá mér eru margvíslegar. Að sjálfsögðu að einhverju leyti vegna aðgerðar sem ég fór í í vor, þó svo að ég sé kominn með grænt ljós að fara að gera hvað sem er. Öllu meiri áhrif hafa þó þær breytingar sem eru að verða í hafinu, að maður tali nú ekki um þá ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að færa veiðigjöldin yfir á landaðan afla og þar með yfir á leiguliðana, en vegna sterks gengis og ýmissar annarra utanaðkomandi aðstæðna sem og hátt kvótaleiguverð, þá var afkoman af síðustu vertíð sennilega sú lélegasta í fjölda, fjölda ára. 

Stærsta ástæðan fyrir ákvörðun minni að sækjast eftir öðru starfi og hætta í útgerð (báturinn er ekki seldur enn, svo enn er ég að sjálfsögðu ennþá í útgerð)eru vinnubrögð Hafró sem hafa enn einu sinni gert gríðarleg mistök í útreikningum sínum á því, hvað óhætt sé að veiða af vissum tegundum. Tók reyndar eftir því í umræðum á Alþingi í síðustu viku, að þingmaður minnihlutans orðaði það þannig:

Að gríðarlega mikilvægt væri að standa vörð um þann frábæra árangur við uppbyggingu fiskistofnanna með því að fara algjörlega eftir ráðleggingum Hafró. 

En svona lítur þetta út í mínum huga, síðustu 15 árin voru 2 aðal tegundir, sem skiptu mestu máli fyrir mína útgerð, á fyrri hlutanum ýsa og á seinni hlutanum langa. Um 2007 var ýsukvótinn 105 þúsund tonn og hafði farið upp í það á örfáum árum, eða úr ca. 40 þúsund tonnum. Á þessum tímapunkti greip pólitíkin inn í og þáverandi sjávarútvegsráðherra opnaði alla fjöruna við suðurströndina fyrir snurvoða veiðum að kröfu örfárra útgerða úr Þorlákshöfn, með þeim afleiðingum að ýsustofninn var strádrepinn á örfáum árum og er á nýja fiskveiðiárinu aðeins liðlega 34 þúsund tonn, og það sem merkilegra er, fjaran er ennþá opin fyrir snurvoð. 

Fyrir ca. 10 árum síðan kom mikil uppsveifla í lönguna, sem hefur verið mín grunn tegund síðustu árin. Fyrir 3 árum fór ég að verða var við það að stofninn var farinn að fara niður á við, en þrátt fyrir það, þá jók Hafró við löngukvótann öll þessi 3 ár síðan þá og með þeim afleiðingum að fyrir næsta fiskveiðiár hefur Hafró rumskað upp við vondan draum og löngukvótinn skorinn niður núna um 42%, sem er allt of seint gripið inn í, vegna þess að stórir línuveiðarar eru fyrir þó nokkru síðan búnir að hreinsa upp öll löngumið meira og minna við suðurströndina og því algjörlega vonlaust fyrir litla trillu frá Vestmannaeyjum að ætla að fara að gera út á tegundir sem eru ekki lengur til í hafinu, nema í svo litlu magni að veiðarnar borga sig ekki. (Það er alveg stór furðulegt, að Hafró skuli ekki skilja það að einhhver staðar verði fiskurinn að hafi svæði þar sem hann hefur algjöran frið fyrir stórtækum veiðarfærum.)

Ég ætlaði mér reyndar að reyna að skipta yfir í þorsk á síðustu vertíð, en vegna hruns á afurðum, sem og hárri kvótaleigu sem aldrei lækkar, sem og sendingunni frá ríkisstjórninni, veiðigjaldinu, þá er þetta bara ekki hægt en ég hef oft látið hafa það eftir mér að ég sé tilbúinn að leggja mikið á mig við að starfa hjá sjálfum mér þó að launin séu oft ekki sérstök, en ég ætla ekki að borga með mér. Þarna spilar mest inn í að vegna þess að Hafró vill ekki bæta við þorskkvótann í samræmi við magnið sem er í hafinu, sem aftur gerir það að kvótaleigan lækkar ekkert þó verðið á mörkuðunum hafi lækkað verulega. 

Það eru svona ýmsar tilfinningar í gangi með það að fara að vinna í landi, en ég er þó spenntur enda er starfsvettvangur minn áfram við höfnina. Reyndar frétti ég ekki fyrr en eftir að ég hafði fengið stöðuna að ég yrða að segja af mér í framkvæmda og hafnarráði, en við erum búin að ræða málið í Eyjalistanum og munum leysa þetta. Ég er með einhverja tilfinningu fyrir því að ég hafi nú ekki alveg sagt mitt síðasta sem sjómaður og á klárlega eftir að draga fleiri fiska úr sjó, en ég heyri líka þetta sama sjónarmið hjá mörgum strandveiðisjómanninum að framhaldið hjá þeim muni ráðast á því hverjir skipi næstu ríkisstjórn, en nóg um það í bili.

Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs. 


Þjóðhátíð 2016................

...........verður fyrst og fremst minnst fyrir frábært veður, mikið af fólki, mikið gaman, ágætis dagskrá með sínum vanalegu hápunktum á hverju kvöldi. 

Fyrir mig persónulega hins vegar, verður þetta lang lakasta hátíðin í mínu minni, eðlilega, eftir að hafa mætt í 40 ár í röð þá mætti ég ekki núna. Svolítið skrýtin tilfinning, en það vakti þó athygli mína að ég fann ekki fyrir neinum sérstökum söknuði eða annars slíks, enda búin að hafa það sterkt á tilfinninguni síðustu árin að þetta væri svona frekar eins og skyldumæting, þó að sjálfsögðu væri alltaf gaman. 

Ég ákvað hins vegar að nota þessa Þjóðhátíðarvikuna til þess að koma mér í betra líkamlegt ástand, eftir erfiða aðgerð sem ég fór í í vor. Á göngum mínum að undanförnu, þá hefur eins og gengur og gerist mikið verið um spjall og kannski sérstaklega lent oft á spjalli við fólk sem ætlaði ekki í dalinn. 

Fljótlega fór ég að fiska eftir því, hversvegna Eyjamenn eru ekki að mæta í dalinn. Kom þá í ljós að nánast allir nefndu sama atriðið, þ.e.a.s. merkingu tjaldstæða. Rifjaðist þá upp fyrir mér, færsla sem ég setti á fb á miðvikudagskvöldinu 2015 sen var nokkurn veginn svona:

Sem betur fer er leiðinlegasta hluta Þjóðhátíðarinnar í ár lokið, merking stæða, en í ár var þetta óvenju slæmt, vegna þess að börnin mín sem höfðu hlaupið og náð ágætum stað og voru hálfnuð við að merkja fyrir tjaldstæði, urðu fyrir hálfgerðri áras af fullorðnum manni, sem sagðist eiga þenna blett vegna þess að hann hafði alltaf tjaldað þarna áður. Þegar börnin mín neituðu að víkja, þá tók þessi aðili sig til og reif upp hælana hjá þeim og henti þeim í burtu. Frúin var þá mætt á svæðið og ákvað að fara eitthvað annað, vegna þess að hún vildi ekki tjalda við hliðina á svona liði. 

Það hefur rifjast upp fyrir mér að undanförnu nokkur leiðinleg atvik af svipuðum toga í gegnum árin, en mig óraði ekki fyrir því, sem ég hef fengið að heyra í nokkrum samtölum að undanförnu, að það sé til töluvert af Eyjamönnum sem hafa jafnvel í sumum tilvikum ekki mætt árum saman á Þjóðhátíð og það bara út af þessu litla atriði. 

Einnig hef ég heyrt af fólki sem var búið að ákveða að mæta ekki í ár, að málið hafi reddast vegna þess að það hafði frétt af einhverjum ættingja, sem starfar sem sjálfboðaliði í undirbúningi að Þjóðhátíð og á þannig rétt á ákveðnu forskoti í merkingu að stæðum og málinu þannig verið reddað. 

En á þetta að vera svona? Ég skil að mörgu leyti afstöðu ÍBV um að láta þetta afskiptalaust, enda margt verið reynt í gegnum árin, en hvað væri hægt að gera? Margir hafa nefnt að skemmtilegt hefði verið að setja þetta upp í einhvers konar bingo þar sem númeruð stæði væru einfaldlega dregin, en ekki er ég viss um að fólk sem telur að Þjóðhátíðin hjá sér sé bara ónýt, ef það fær ekki að tjalda á blettinum sínum myndi sætta sig við það. En þá er aftur spurning um hvort ekki væri hægt að fela einhverri deild innan ÍBV að nota þetta sem fjáröflun með því einfaldlega að bjóða upp stæðin, þannig að þeir sem VERÐA að fá að tjalda á blettinum sínum gætu þá einfaldlega boðið í og keypt sér sitt stæði eitt ár í senn. Þannig gætu fjölskyldur og ættir tekið sig saman um að bjóða í ákveðnar raðir á ákveðnum götum, í staðinn fyrir að þurfa að standa í einhverjum leiðindum, eins og t.d. í ár, en mér er sagt að í ár hafi brotist út slagsmál við eina götuna. Þeir sem ekki hefðu áhuga á að kaupa sér stæði gætu síðan hlaupið á tilsettum tíma í þau stæði sem eftir væru, en ég held að það sé í raun og veru ekki mikið mál að útfæra þetta, en það hlýtur að vera markmið okkar allra að fá sem flesta Eyjamenn á Þjóðhátíð Vestmannaeyja og skora ég hér með á ÍBV að skoða nú þessi mál í alvöru og lýsi mig um leið reiðubúinn að taka þátt í að útfæra þetta nánar,

Óska annars ÍBV til hamingju með vel heppnaða Þjóðhátíð. 


Sjómannadagurinn 2016

Sjómannadagshelgin fram undan og því rétt að fara yfir fiskveiðiárið að venju.

Þetta er 29. fiskveiðiárið sem ég geri út hér í Eyjum og það lang, lang erfiðasta. Tíðin hefur reyndar verið mjög góð og nóg af fiski í sjónum, en eins og ég hef áður sagt í greinum um sjávarútvegsmálin, þá eru inngrip núverandi ríkisstjórnar með því verra sem ég hef upplifað. 

Eins og ég spáði fyrir um, þá hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leyfa stækkun krókaaflamarks báta gert það að verkum að slagurinn um kvótann hefur aldrei verið meiri, auk þess sem stórútgerðin er komin með áhuga á króka kerfinu og er byrjuð að kaupa það upp.

Færsla veiðigjalda frá og með 1. sept. sl. frá úthlutuðum aflaheimildum yfir í landaðan afla hefur nánast algjörlega gert út af við alla leiguliða og ótrúlegt, að þeir sem hafa mest út úr kvótanum í dag séu þeir, sem eru hvað harðastir í að spila á kerfið. 

Það er einnig ljóst að hrunið á mörkuðum Íslendinga í Nígeríu hefur  haft mikil og slæm áhrif og leitt til verulegrar lækkunar á fiskmörkuðum, en svona til gamans fyrir þá sem ekki þekkja til hvernig dæmið lítur út í dag með þorskkvótann og leiguliðann, þá er leiga á þorsk kílóinu rétt tæplega 230 kr (af því greiðir eigandinn af kvótanum ekkert til ríkisins). Veiðigjaldið sem leiguliðinn þarf svo síðan að skila til ríkisins eru tæpar 17 kr og með sölukostnaði inni á markaði, þá er er ljóst að kostnaður leiguliðans við að veiða og landa einu þorsk kílói er í kringum 250 kr, en þá á leiguliðinn að sjálfsögðu eftir að borga sinn eigin kostnað við að veiða þetta kíló. Veruleikinn er síðan sá, að meðalverð á þorski á fiskmörkuðunum á vertíðinni er ekki nema rétt í kring um 250 kr. 

Í febrúar sl. mætti þáverandi sjávarútvegsáðherra á fund til Eyja og ég náði honum á eintal eftir fundinn og spurði hann ma. þessara spurninga:

Hvers vegna ertu búinn að færa veiðigjöldin yfir á leiguliðana?

Svar: Ég hef ekki gert það,

Þessu svaraði ég þannig:

En þú færðir veiðigjöldin yfir á landaðan afla.

Svar: Það er reyndar rétt.

Þá spurði ég: Ertu ekki hræddur um að veiðigjöldin verði til þess að brottkast á verðlausum fiski aukist verulega?

Svar: Nei, það er bannað með lögum, en það er leiðinlegt að heyra ef svo er.

Þessi fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands er núna forsætisráðherra Íslands.

Það er frekar dapurlegt að fylgjast með hvernig starfsumhverfi sjómanna hefur þróast síðustu árin. Skipin stækka, sjómönnum fækkar og sjómenn sem að ráða sig í pláss hjá útgerðum með litlar aflaheimildir, þurfa orðið oft að sætta sig við það, að um leið og þeir eru búnir að fá ráðningarsamninginn, þá fá þeir oft uppsagnarbréfið, sem miðast þá við að búið sé að veiða aflaheimildir útgerðarinnar. Ekki beint spennandi framtíð þar. 

Þetta erfiða ár hefur gert það að verkum að áhugi minn í að starfa í útgerð hefur minnkað stórlega, auk þess sem að núna í maí kom að því, sem ég vissi alltaf að kæmi að fyrr eða síðar, að ég yrði sjálfur að fara í slipp. Ég get ekki svarað því í dag, hvort ég hreinlega leggi það á mig að hefja aftur róðra með haustinu, þökk sé kvótakerfinu og núverandi ríkisstjórn.

En þar sem kosningar eru nú fram undan og sumir flokkar eru farnir að tala um breytingar á kvótakerfinu, og sjálfur veit ég ekkert hvað ég á að kjósa í haust, þá langar mið að koma með smá hugmynd um það, hvernig stefnu og tillögur ég t.d. gæti hugsað mér að styðja og kjósa og það meira að segja þrátt fyrir að ég myndi sjálfur ekki nenna að starfa í slíku kerfi, en það eina jákvæða sem við sjáum í Íslenskum sjávarútvegi i dag og m.a. hér í Vestmannaeyjum er, að bátum í strandveiðum fjölgaði í vor. Reyndar fengu strandveiðibátar í D svæði ekki góða sendingu frá ríkisstjórninni, enda voru aflaheimildir í D svæði, eina svæðið þar sem þær voru minnkaðar.

En hvað hefði ég viljað sjá koma frá framboði næsta haust?

Ég hefði viljað sjá strandveiðitímabilið lengt um helming og t.d. hér í Vestmannaeyjum yrði það mjög vinsælt hjá strandveiðimönnum ef tímabilið stæði frá 1. jan og út ágúst. Veðurfarið er náttúrulega mjög erfitt oft á þessum vetrar mánuðum, en það vandamál væri t.d. hægt að leysa þannig, að hver bátur fengi úthlutað 3 veiðidögum á viku, sem þeir gætu valið sjálfir, sem myndi svo minnka hættuna stórlega á því að menn taki áhættuna á því að róa í slæmum veðrum.

Einnig teldi ég mjög sterkt til þess að auka líkurnar á því, að menn gætu farið langt með að lifa á þessu yfir árið, að aflinn yrði aukinn upp í 1 tonn af þorskígildi í róðri. Augljóslega, að mínu mati, myndi þetta gera það að verkum að möguleikar landsbyggðarinnar myndu aukast verulega. Að sjálfsögðu myndi öll stórútgerðin verða alveg brjáluð gegn öllum slíkum hugmyndum, en þá kemur einmitt, að mínu mati, að lykilatriðinu í hugmyndinni. Ég tel nú þegar verið orðnar það miklar skekkjur í flestum fiskistofnum á Íslandsmiðum, að það sé einfaldlega pláss fyrir svona kerfi og það þrátt fyrir að það færi jafnvel yfir 20 þúsund tonn, að það væri óhætt að hafa þetta kerfi utan úthlutaðra aflaheimilda, enda er ég algjörlega á móti öllu bulli um einhverja potta eða uppboð á öllum aflaheimildum eða einhverju slíku bulli.

Gleymum því ekki að auðlindin er sameign þjóðarinnar. Það þarf að gera ákveðnar breytingar á kerfinu en það er ekki sama hvernig. 

Ég auglýsi hér með eftir stjórnmálaflokki eða hreyfingu, sem er tilbúin að vinna eftir svipuðum hugmyndum sem þessari og ég mun svo sannarlega styðja við og kjósa slíkt framboð.

Óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar sjómannadagshelgar.

Georg E. Arnarson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband